Hæstiréttur íslands
Mál nr. 610/2010
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Málflutningur
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 10. nóvember 2011. |
|
Nr. 610/2010. |
Ákæruvaldið (Hulda María Stefánsdóttir settur saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Málflutningur. Sératkvæði.
Með dómi Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn X, frá 16. september 2010 í máli nr. 203/2010, var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Í kjölfarið var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 7. október 2010 eftir að m.a. hafði verið fært til bókar að verjandi ákærða hefði reifað stuttlega sjónarmið sín og jafnframt tekið fram að dómari og málflytjendur teldu endurflutning óþarfan. Hæstiréttur taldi alls ófullnægjandi þá takmörkuðu málsmeðferð sem lýst væri í bókuninni. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar yrði héraðsdómur að jafnaði ekki kveðinn upp að réttu lagi án raunverulegs endurflutnings ef liðnar væru átta vikur frá munnlegum málflutningi enda gæti hann ekki komið að því gagni sem til væri ætlast þegar dómsuppsaga drægist svo lengi. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en refsingu en þess er krafist að hún verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst ákærði sýknu en að því frágengnu að refsing verði milduð.
Með dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 203/2010 var ómerktur héraðsdómur í málinu 19. febrúar sama ár og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Ástæðan var sú að þegar dómur gekk voru liðnar meira en fjórar vikur frá dómtöku málsins 18. janúar 2010 og bar því að flytja málið á ný, sbr. 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í kjölfarið var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 7. október 2010 eftir að fært hafði verið til bókar að verjandi ákærða hefði reifað stuttlega sjónarmið sín en þau og dómkröfur hefðu verið þau sömu og gerðar voru við fyrri flutning málsins. Einnig var tekið fram í bókuninni að dómari og málflytjendur teldu endurflutning óþarfan eins og hagaði til í málinu. Þó hafði áður verið bókað eftir verjanda ákærða að ákærði teldi vörn sinni ábótavant. Af hálfu ákærða er því haldið fram að þessi málsmeðferð fari í bága við meginreglur sakamálaréttarfars.
Eftir að fyrri dómur hafði verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar var alls ófullnægjandi sú takmarkaða málsmeðferð sem lýst er í fyrrgreindri bókun héraðsdóms. Með hliðsjón af fordæmum Hæstaréttar, síðast dómi réttarins 27. október 2011 í máli nr. 27/2011, verður héraðsdómur að jafnaði ekki kveðinn upp að réttu lagi án raunverulegs endurflutnings, ef liðnar eru átta vikur frá munnlegum málflutningi, enda getur hann ekki komið að því gagni sem til er ætlast þegar dómsuppsaga dregst svo lengi. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Rétt er að ákvörðun um sakarkostnað í héraði bíði þess að efnisdómur gangi þar á ný en allur áfrýjunarkostnaður málsins skal greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar
Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda var með dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 203/2010 ómerktur héraðsdómur í máli þessu 19. febrúar sama ár og var málinu vísað heim til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Það var óhjákvæmilegt samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sökum þess að ekki hafði verið lagður dómur á málið innan fjögurra vikna frá munnlegum málflutningi og sakflytjendur höfðu ekki talið óþarft að endurflytja það. Þá kom fram í dómi Hæstaréttar að sakflytjendur hefðu ekki talið þörf á málflutningi fyrir Hæstarétti um atriði er lutu að formhlið málsmeðferðarinnar í héraði, sbr. 1. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt þessu er ég sammála meirihluta dómenda að eftir ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins til löglegrar meðferðar hefði málflutningur þurft að fara fram að nýju í samræmi við lögin. Á hinn bóginn verður sú niðurstaða ekki reist á reglu um að málflutningur þurfi að jafnaði að fara fram að nýju ef liðnar eru átta vikur frá honum. Slíka reglu er ekki að finna í lögum.