Print

Mál nr. 319/2001

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. desember 2001.

Nr. 319/2001.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Guðjóni Þorbjörnssyni

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Stjórnarskrá.

G var ákærður fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti á einu uppgjörstímabili á árinu 1995 og tveimur uppgjörstímabilum á árinu 1996. Í öllum tilvikum hafði G gefið út reikninga og bætt við fjárhæð þeirra virðisaukaskatti, enda þótt ekki væri um skattskyld viðskipti að ræða. Hæstiréttur taldi álagningu skattsins styðjast við fullnægjandi lagaheimild, jafnvel þó þau viðskipti, sem byggju að baki, væru ekki skattskyld, sbr. 22. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Að því er snerti virðisaukaskatt á árinu 1995 byggði G á því að skilaskylda virðisaukaskatts, sem ranglega hefði verið tilgreindur á reikningi, félli niður ef leiðréttingu yrði komið við gagnvart kaupanda, en hann hefði komið við slíkri leiðrrétingu með útgáfu innleggsreiknings, sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna. Væru skil skattsins eftir útgáfu innleggsreikningsins einkaréttarlegt mál milli hans og kaupanda. Í dómi Hæstaréttar segir að virðisaukaskatti, sem tilgreindur sé á reikningi, skuli skilað í ríkissjóð jafnvel þótt hann sé of hár eða af viðskiptum, sem ekki eru skattskyld. Hafi fé skipt um hendur vegna greiðslu reiknings verði leiðréttingu gagnvart greiðanda ekki komið við eftir lok uppgjörstímabils nema fyrir milligöngu ríkissjóðs. Myndi sú skipan að vísa greiðanda skattsins á að endurheimta hann af seljanda vöru eða þjónustu setja greiðandann í óviðunandi aðstöðu. Staða hans verði því aðeins tryggð að ríkissjóður annist innheimtu hins oftekna skatts af þeim, sem við honum tók, og annist endurgreiðslu ofgreidda skattsins til greiðanda hans. Verði að skilja undantekningarreglu lokamálsliðar 3. mgr. 22. gr. laganna í þessu ljósi. Skattkrafa falli þannig ekki niður við reikningslega leiðréttingu hafi sá, sem tilgreindi skattinn ranglega í reikningum sínum, innheimt skattinn. Verði því ekki talið að skattkrafa ríkissjóðs hafi fallið niður við útgáfu ákærða á umræddum innleggsreikningi. Með vísan til atvika málsins og þess að G hafði ekki áður gerst sekur um brot, sem áhrif hefðu á refsingu hans, var G ekki dæmdur til fangelsisrefsingar. Hins vegar var hann dæmdur til að greiða 11.000.000 króna sekt í ríkissjóð en sæta ella fangelsi í 5 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Árni Kolbeinsson og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar af hálfu ákæruvalds 3. ágúst 2001, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu. Til vara krefst hann þess að honum verði gerð vægasta refsing, sem lög leyfa, en til þrautavara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti. Koma kröfur hans um sýknu og mildun refsingar ekki til álita nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994.

I.

Málavextir eru þeir að ákærði rak einkafyrirtæki undir nafninu Gámur hreinsunarþjónusta, sem stundaði þjónustu á sviði sorphirðu, meðal annars útleigu á sorpílátum. Vorið 1995 seldi hann verulegan hluta þeirra tækja, sem hann hafði notað við þennan rekstur. Snýr sá þáttur ákæru, þar sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti vegna uppgjörstímabilsins maí til júní 1995, eingöngu að skilum á virðisaukaskatti út af þeim viðskiptum. Í málinu liggur fyrir afsal 9. maí 1995, þar sem ákærði afsalaði Glitni hf. tveimur nánar tilgreindum vörubifreiðum og 99 gámum fyrir samtals 20.036.000 krónur. Sama dag gaf Gámur hreinsunarþjónusta út reikning til Glitnis hf. vegna þessara viðskipta, þar sem virðisaukaskattur að fjárhæð 4.908.820 krónur var lagður á framangreinda fjárhæð og heildarfjárhæð reikningsins að honum meðtöldum því 24.944.820 krónur. Greiddi Glitnir hf. reikningsfjárhæðina með fjórum innborgunum á bankareikninga. Í fyrsta lagi innborgun 11. maí 1995 að fjárhæð 5.953.274 krónur, sem lögð var inn á reikning Féfangs hf. með þeirri skýringu að hún varðaði lán nr. 100232. Mun þessi greiðsla hafa verið til uppgreiðslu á skuld samkvæmt eignarleigusamningi, er hvíldi á hinum seldu tækjum. Í öðru lagi með innborgun 11. maí 1995 að fjárhæð 3.000.000 krónur, sem lögð var inn á reikning Íslandsbanka hf. með þeirri skýringu að greiðslan væri vegna „Gáms c/o Guðjón Þorbjörnsson“. Í þriðja lagi með innborgun 11. maí 1995 að fjárhæð 13.965.563 krónur, sem lögð var inn á reikning ákærða hjá Íslandsbanka hf., og í fjórða lagi með innborgun 6. júní 1995 að fjárhæð 2.025.983 krónur, sem var lögð inn á annan reikning ákærða hjá sama banka. Af reikningsyfirlitum, sem fyrir liggja í málinu, sést að ákærði hefur ráðstafað innstæðum á þessum reikningum sínum hjá Íslandsbanka hf. eftir að fyrrgreindar innborganir voru inntar af hendi. Um svipað leyti og ákærði átti framangreind viðskipti við Glitni hf. seldi hann Gámakó hf. 250 gáma ásamt fleiri tækjum. Var reikningur vegna þeirra viðskipta, að fjárhæð 10.000.000 krónur, gefinn út af Gámi hreinsunarþjónustu 30. júní 1995. Ekki var lagður virðisaukaskattur á sölu samkvæmt þessum reikningi. Tilkynnti ákærði skattstjóra um þessi viðskipti í samræmi við lokamálslið 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Heldur ákærði því fram að hann hafi í raun selt Gámakó hf. öll þau tæki, sem um er rætt í báðum fyrrgreindum samningum, og hafi þau eigendaskipti orðið í sambandi við að Gámakó hf. tók við þeim rekstri, sem ákærði hafði haft með höndum og tengdist þessum tækjum. Formlega hafi Glitnir hf. þó verið kaupandi að hluta tækjanna vegna þess að það félag hafi veitt lánsfé til viðskiptanna að hluta.

Ákærði skilaði virðisaukaskattskýrslu fyrir tímabilið maí til júní 1995 ásamt greiðslu 8. ágúst sama árs. Skýrslan var undirrituð af Ólafi Reimari Gunnarssyni, en hann var skrifstofumaður hjá ákærða á þessum tíma og annaðist samkvæmt skýrslu ákærða fyrir héraðsdómi bókhald fyrirtækisins og greiðslur. Ekki var tekið mið af framangreindum viðskiptum við Glitni hf. við þau skil. Með skattframtali fyrir árið 1995 skilaði ákærði leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts. Var hún dagsett 30. maí 1996 og undirrituð af honum. Var skattskyld velta vegna framangreinds tímabils með skýrslunni hækkuð sem nemur fjárhæð reikningsins til Glitnis hf. 9. maí 1995, en velta undanþegin virðisaukaskatti hækkuð sem nemur fjárhæð reikningsins til Gámakó hf. 30. júní 1995. Þá var fjárhæð til greiðslu vegna tímabilsins maí til júní 1995 hækkuð til samræmis við virðisaukaskatt samkvæmt fyrrnefnda reikningnum. Með bréfi 10. september 1996 mun skattstjóri hafa tilkynnt ákærða að hann hefði hækkað útskatt ákærða á nefndu tímabili um 4.908.820 krónur til samræmis við framangreinda leiðréttingarskýrslu að viðbættu 490.882 króna álagi. Ákærði mun hafa kært þessa álagningu til skattstjóra 28. september 1996. Að fengnum nánari upplýsingum og gögnum mun skattstjóri hafa staðfest fyrri ákvörðun með úrskurði 16. desember 1996.

 Ákærði skaut málinu til yfirskattanefndar 11. janúar 1997. Með úrskurði 15. maí 1998 vísaði hún kærunni frá að öðru leyti en því að framangreint álag var fellt niður. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og eðli starfsemi Glitnis hf. væru ekki efni til að vefengja frásögn ákærða, sem rakin er hér að framan, um þátt þess félags í viðskiptunum. Yrði því fallist á að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 hafi tekið til viðskiptanna og ákærði því ranglega innheimt virðisaukaskatt við söluna til Glitnis hf. Hins vegar yrði ekki séð að ákærði hefði gert reka að því að leiðrétta viðskiptin gagnvart Glitni hf. með útgáfu innleggsreiknings vegna virðisaukaskattsins, sbr. 3. mgr. 20. gr. nefndra laga, og endurgreiðslu á ofteknum skatti með hliðsjón af reglu, er fram komi í 2. mgr. 22. gr. laganna. Án slíkrar leiðréttingar yrði að telja ákærða skyldan til að standa skil á skattinum í ríkissjóð samkvæmt 3. mgr. síðastnefndu greinarinnar.

 Ákærði gaf 15. janúar 2001 út innleggsreikning í nafni Gáms hreinsunarþjónustu vegna framangreindra viðskipta við Glitni hf. Er inneign Glitnis hf. hjá ákærða samkvæmt honum 4.908.820 krónur. Á reikningnum var svofelld áritun, sem sýnist stafa frá Glitni hf.: „Afhent Glitni hf. með fyrirvara um lögmæti skjalsins“. Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar Kristján Óskarsson framkvæmdastjóri Glitnis hf. að þetta væri að hans mati marklaust plagg nema félagið fengi til baka þann virðisaukaskatt, sem það hefði greitt vegna kaupanna. Ákærði óskaði nú eftir endurupptöku málsins hjá yfirskattanefnd. Með bréfi 5. apríl 2001 féllst ríkisskattstjóri á beiðnina fyrir sitt leyti, enda hefði ákærði nú gert reka að því að leiðrétta viðskipti sín við Glitni hf. með útgáfu fyrrnefnds innleggsreiknings. Yfirskattanefnd kvað upp úrskurð um þessa beiðni 19. september 2001, eftir að héraðsdómur í máli þessu var upp kveðinn. Var endurupptökubeiðninni hafnað á þeirri forsendu að ekkert hefði komið fram um að ákærði hefði endurgreitt Glitni hf. hinn oftekna skatt. Var í því sambandi í úrskurði nefndarinnar vísað til héraðsdóms í þessu máli og framangreindra ummæla Kristjáns Óskarssonar fyrir dómi. Sú fjárhæð vangreidds virðisaukaskatts vegna tímabilsins maí til júní 1995, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á, samsvarar fjárhæð virðisaukaskatts vegna margnefnds reiknings ákærða til Glitnis hf. 9. maí 1995 að frádreginni innborgun að fjárhæð 76.771 krónur.

II.

Sá virðisaukaskattur, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á vegna ársins 1996, varðar annars vegar tímabilið mars til apríl og hins vegar tímabilið maí til júní. Í skýrslu fyrir héraðsdómi bar ákærði að á þessum tíma hafi eini reksturinn, sem hann stundaði, verið útleiga húsnæðis. Bar hann að virðisaukaskattskuldin væri til komin vegna þeirrar leigu og að hann hafi gefið út reikninga með virðisaukaskatti vegna hennar. Kom fram að leigutaki hefði verið Hringhenda ehf., en ákærði var eigandi, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri þess félags. Taldi hann að Hringhenda ehf. hefði ekki staðið skil á húsaleigu vegna þessara tímabila. Vitnið Ólafur Reimar Gunnarsson, sem var á þessum tíma bæði starfsmaður ákærða og Hringhendu ehf., taldi að „brösótt“ hefði gengið að innheimta reikningana hjá Hringhendu ehf., en hann mundi þó ekki alveg hvernig það hefði verið.

Sú fjárhæð, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á vegna tímabilsins mars til apríl 1996, er byggð á virðisaukaskattskýrslu í nafni hans 5. júní 1996, sem undirrituð var af Ólafi Reimari Gunnarssyni. Var skýrslan árituð af sýslumanni 11. júní 1996 um móttöku án greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt henni, að fjárhæð 287.681 króna. Frá fjárhæð skýrslunnar hefur síðar verið dregin innborgun að fjárhæð 30.836 krónur. Sú fjárhæð, sem ákærða er gefið að sök að hafa ekki staðið skil á vegna tímabilsins maí til júní 1996, er byggð á virðisaukaskattskýrslu 6. ágúst 1996, sem einnig var undirrituð af Ólafi. Var sú skýrsla árituð um móttöku án greiðslu af sýslumanni 8. ágúst 1996 og fjárhæð virðisaukaskatts tilgreind 265.268 krónur.

III.

Ákærði reisir sýknukröfu sína varðandi vanskil virðisaukaskatts vegna tímabilsins maí til júní 1995 á því að þau varði með öllu virðisaukaskatt vegna sölu tækja til Glitnis hf. í maí á því ári. Þar sem fyrir liggi samkvæmt úrskurði yfirskattanefndar að þessi viðskipti séu ekki virðisaukaskattskyld skorti viðhlítandi lagaheimild til álagningar skattsins. Vísar hann í því sambandi til 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

 Framangreind viðskipti leiddu til reikningsgerðar ákærða, þar sem virðisaukaskattur var tilgreindur. Ákærði skilaði með skattframtali sínu fyrir árið 1995 skýrslu um skattskylda veltu, þar sem þessi viðskipti voru meðtalin, og á grundvelli þeirrar skýrslu lagði skattstjóri á hann virðisaukaskatt. Til þessarar álagningar stóðu almenn ákvæði laga nr. 50/1988 með síðari breytingum, enda byggðist hún að öllu leyti á skýrslugjöf ákærða sjálfs. Verður því ekki fallist á að lagaheimild skorti til álagningar skattsins. Jafnframt eru þau ákvæði laga nr. 50/1988, sem kveða á um skyldu til að skila í ríkissjóð skatti, sem tilgreindur er á reikningum, jafnvel þótt þau viðskipti, sem að baki búa, séu ekki skattskyld, sbr. 22. gr. laganna, nægilega skýr skattlagningarheimild samkvæmt tilvitnuðum stjórnarskrárákvæðum.

Þá reisir ákærði sýknukröfu sína af sakargiftum um vanskil vegna tímabilsins maí til júní 1995 á því að samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 falli skilaskylda á virðisaukaskatti, sem ranglega hafi verið tilgreindur í reikningi, niður ef leiðréttingu verður komið við gagnvart kaupanda. Slíkri leiðréttingu hafi hann komið við með útgáfu innleggsreikningsins 15. janúar 2001, sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna. Við útgáfu þess reiknings hafi skattkrafa ríkissjóðs fallið niður óháð því að ákærði hafði innheimt skattinn af Glitni hf. Séu skil skattsins eftir útgáfu innleggsreikningsins einkaréttarlegt mál milli hans og Glitnis hf.

Samkvæmt 3. mgr. 22. gr. laga nr. 50/1988 er aðalregla þeirra sú að virðisaukaskatti, sem tilgreindur er á reikningi, skuli skilað í ríkissjóð jafnvel þótt hann sé of hár eða af viðskiptum, sem ekki eru skattskyld. Hafi fé skipt um hendur vegna greiðslu reiknings verður leiðréttingu gagnvart greiðanda ekki komið við eftir lok uppgjörstímabils nema fyrir milligöngu ríkissjóðs. Myndi sú skipan að vísa greiðanda skattsins á að endurheimta hann af seljanda vöru eða þjónustu setja greiðandann í óviðunandi aðstöðu. Staða hans verður því aðeins tryggð að ríkissjóður annist innheimtu hins oftekna skatts af þeim, sem við honum tók, og annist endurgreiðslu ofgreidda skattsins til greiðanda hans. Verður að skilja undantekningarreglu lokamálsliðar 3. mgr. 22. gr. laganna í þessu ljósi. Skattkrafa fellur þannig ekki niður við reikningslega leiðréttingu hafi sá, sem tilgreindi skattinn ranglega í reikningum sínum, innheimt skattinn. Verður því ekki talið að skattkrafa ríkissjóðs hafi fallið niður við útgáfu ákærða á umræddum innleggsreikningi.

Ákærði reisir sýknukröfu sína varðandi vanskil á virðisaukaskatti vegna tveggja tímabila á árinu 1996 á því á þessi skattur hafi verið tilgreindur í reikningum ákærða til Hringhendu ehf. vegna húsaleigu, sem undanþegin sé virðisaukaskatti. Þá hafi Hringhenda ehf. hvorki staðið skil á húsaleigunni né skattinum. Með vísan til 3. mgr. 22. gr. og 2. töluliðar 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 verður ekki fallist á að þetta leiði til sýknu.

Þar sem heldur verður ekki fallist á að skort hafi hugræn skilyrði refsingar verður ákærði sakfelldur fyrir þau brot, er í ákæru greinir.

Lög nr. 42/1995 um breytingu á lögum nr. 50/1988, sem vísað er til í ákæru, öðluðust gildi 9. mars 1995, en lög nr. 39/1995 um breytingu á 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem einnig er vísað til í ákæru, öðluðust gildi 1. júlí 1995. Þessi ákvæði höfðu því tekið gildi þegar kom að skiladegi virðisaukaskatts vegna fyrsta tímabilsins, sem ákært er fyrir, í byrjun ágúst 1995. Brot ákærða verður því heimfært til þeirra ákvæða laga nr. 50/1988, er í ákæru getur. Ákærði hefur samkvæmt framansögðu ekki staðið skil á virðisaukaskatti að fjárhæð 5.354.162 krónur. Telst brot hans þannig meiri háttar og varða einnig við 262. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum.

Með vísan til þeirra málsatvika, er að framan getur, og þess að ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot, sem áhrif hafa á refsingu hans, verður hann ekki dæmdur til fangelsisvistar. Að þessu gættu og á grundvelli ákvæða 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, um lágmarksrefsingu verður ákærði dæmdur til að greiða í ríkissjóð 11.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæta ella fangelsi, svo sem í dómsorði greinir. Við ákvörðun þeirrar vararefsingar er litið til atriða, sem getið er um í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 544.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Guðjón Þorbjörnsson, greiði í ríkissjóð 11.000.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. júní 2001.

Málið er með ákæru útgefinni 22. september 2000 höfðað gegn Guðjóni Þorbjörnssyni, Kársnesbraut 94, Kópavogi, kt. 140452-4409, fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, með því að hafa eigi í samræmi við það sem lög áskilja staðið sýslumanninum í Hafnarfirði skil á á virðisaukaskatti sem hann hafði innheimt í rekstri einkafirma síns Gáms hreinsunarþjónustu, kt. 491282-0109, á árunum 1995 og 1996 samtals að fjárhæð 5.354.162  og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 1995

Maí-júníkr.4.832.049kr. 4.832.049

Árið 1996

janúar-febrúarkr.  256.854

mars-aprílkr.  265.268kr.  522.113

Samtals:kr. 5.354.162

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og þess krafist aðallega að hann verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfi þ.e. að hún verði felld niður eða ákvörðun um hana frestað, en ella verði lágmarksrefsing ákvörðuð, sem verði öll skilorðsbundin þ.á m. sektarákvörðun ef til hennar kæmi. Í öllum tilvikum verði tekið tillit til viðurlaga­beitingar skattyfirvalda. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda ákærða Gunnars Jóhannssonar hdl.

Málavextir.

Ákærði rak allt frá árinu 1982 fyrirtæki með sorpþjónustu undir nafninu Gámur hreinsunarþjónusta. Reksturinn hafði aukist ár frá ári og á miðju árinu 1995 var svo komið að hann rak flokkunarstöð fyrir sorp í Kapelluhrauni auk þess sem hann hafði í útleigu nær 300 gáma undir sorp víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Ákærði hafði stundað þessa starfsemi þar til í maí 1995 en þá hafði hann selt þann hluta rekstursins, sem snéri að gámaleigunni og gámaflutningi til Gámakó og hafði Glitnir fjármagnað hluta þeirrra kaupa og verið skráður einn kaupandi meirihluta tækjannna. Ákærði hafði haldið húsnæðinu sem hann átti þarna við Kapelluhraun út árið 1996 og leigt það út sem atvinnuhúsnæði. Var stofnað félagið Hringhenda ehf. sem sá um rekstur flokkunarstöðvar á sorpi í húsinu og var ákærði aðaleigandi þess félags. Það starfaði fram á síðari hluta árs 1997 er það komst í þrot og var úrskurðað gjaldþrota 11. mars 1998. Fram er komið í öðru máli að Fjárfestingarbanki atvinnulífsins eignaðist þá fasteignina við Reykjanesbraut þar sem flokkunarstöðin var rekin og síðar keypti hana Gámaþjónustan ehf.

Á árinu 1997 gerði Skattrannsóknarstjóri ríkisins athugun á skuldastöðu ýmissa fyrirtækja og einstaklinga við innheimtumenn ríkissjóð vegna virðisauka­skattskila. Athugun þessi leiddi til þess að bókhald ákærða var tekið til rannsóknar sbr. bréf Skattrannsóknarstjóra ríkisins til ákærða dags. 10. júní 1997, en ákærði reyndist vera í töluverðri skuld vegna vangoldins virðisaukaskatts eða um kr. 4.908.820,- vegna ársins 1995 og 573.574 vegna ársins 1996 eða alls kr. 5.492.394,-. Vanskilin vegna ársins 1995 voru við rannsóknina rakin til sölu ákærða á hluta af rekstri sínum sem hann rak undir nafninu Gámur hreinsunarþjónusta til Gámakó hf. fyrir tilstuðlan Glitnis hf. fjármögnunarfyrirtækis. Glitnir hf. hafði fjármagnað kaupin og var gengið frá því þannig að Glitnir var skráður kaupandi að tækjum og gámum að fjárhæð 20.036.000,- og gengið frá afsali um þessi viðskipti 9. maí 1995 og mun hafa verið miðað við fjármögnunarleigu til Gámakó.

Ákærði hafði gefið út reikning til Glitnis hf. sama dag og var þar lagður á viðskiptin 4.908.820 króna virðisaukaskattur. Þannig að reikningurinn hljóðaði alls upp á kr. 24.944.820,- og fór þessi fjárhæð inn á reikninga ákærða í Íslandsbanka og til greiðslu skulda hans þar og kvað hann enga peninga hafa fallið í hlut hans vegna þessara viðskipta sbr. dskj. 3 II - 2.1.1 og 2.1.2.

Ekki fer á milli mála og er óumdeilt að framangreindur virðisaukaskattur nýttist Glitni hf. sem innskattur. Ákærði gerði grein fyrri þessari álagningu virðisaukaskatts með skattframtali 1996 sem dagsett er 30. maí 1996. Ákærði gerði ekki skil á þessum virðisaukaskatti til ríkissjóðs og var í vanskilum með þessa virðisaukaskattskuld hjá innheimtumanni ríkissjóðs.

Fram hefur komið hjá ákærða við skýrslutöku hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, Ríkislögreglustjóra og svo hér fyrir dómi að ágreiningur hafi verið frá fyrstu hendi um álagningu þessa virðisaukaskatts og hann kært hana til skattayfirvalda, þ.e. skattstjórans í Reykjanesbæ, sem kvað upp úrskurð í málinu, sem var svo kærður til Yfirskattanefndar. Ákærði kvaðst hafa svo sem fyrr er getið verið að selja rekstrar­einingu til Gámakó hf. en kaup Gámakó hf. hafi verið fjármögnuð af Glitni hf. sem leiddi til þess að það var formlegur kaupandi að tækjum og gámum úr rekstrar­einingunum, sem það leigði svo aftur til Gámakó hf. Ákærði kvaðst hafa talið þar sem hann hafi verið að selja rekstrareiningu af rekstri í fullum gangi þá ætti hann ekki að greiða virðisaukaskatt af söluverðinu og afsalið hafi verið útbúið þannig að þar hafi ekki verið tilgreint söluverð með virðisaukaskatti. Ákærði kvað forsvarsmenn Glitnis hf. hafa lagt á það mikla áherslu að leggja bæri virðisaukaskatt á söluverðið og hafi legið fyrir að ella yrði ekkert af kaupunum. Ákærði kvaðst því hafa útbúið reikning til Glitnis hf. um kaupin, þar sem bætt hafi verið virðisaukaskatti við kaupverðið. Þennan reikning ásamt virðisaukaskatti að fjárhæð kr. 24.944.820,- greiddi Glitnir hf. eins og fyrr er rakið og hafi sú fjárhæð farið til greiðslu á lánum ákærða og inn á reikning hans hjá Íslandsbanka hf., sem mun hafa staðið illa, þannig að engir peningar hafi komið til hans vegna viðskiptanna. Hann leitaði leiðréttingar á álagningunni og í úrskurði Yfirskattanefndar frá 15. maí 1998 er fallist á það með ákærða að ákvæði 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 hafi tekið til viðskipta hans og Glitnis hf. og því hafi ákærði ranglega innheimt virðisaukaskatt af Glitni hf.  Til þess að ná fram leiðréttingu hafi ákærði orðið að gefa út kreditreikning vegna virðisauka­skattsins sbr. 3. mgr. 20. gr. laganna og yrði þá jafnframt að koma til endurgreiðslu á ofreiknuðum skatti sbr. til hliðsjónar reglu 2. mgr. 22. gr. sömu laga. Þar sem slík leiðrétting hafi ekki átt sér stað, taldi Yfirskattanefnd sér ekki fært að taka kröfu ákærða til greina um niðurfellingu skattsins og var kröfunni vísað frá en fallist á að fella niður álag á hækkun virðisaukaskatts sbr. 6. mgr. 27. gr. laganna en hún nam þá kr. 492.882,-.

Í bréfi Ríkislögreglustjóra til Glitnis hf. dags. 7. september 1999 var þess óskað að félagið léti embættinu í té skriflegar upplýsingar og gögn varðandi eftir­farandi atriði:

1.Hvaða vinnureglur gilda hjá Glitni hf. um virðisaukaskatt við kaup á tækjum og tólum sem Glitnir fjármagnar fyrir þriðja aðila?

2.Fjármagnar Glitnir hf. kaup þriðja aðila á heilum rekstrareiningum sem myndu vera undanþegnar skattskyldri  veltu samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt?

3.Hver var ráðstöfun þeirra tækja sem Glitnir hf. keypti af Guðjóni Þorbjörnssyni þann 9. maí 1995?

4.Hvernig var ráðstöfun söluandvirðis þessara tækja háttað þ.e. fékk Guðjón eitthvað af söluandvirðinu afhent eða var því ráðstafað beint í aðrar skuldir og þá hverjar?

Í svarbréfi Glitnis kemur þetta fram:

1.Mismunandi reglur gilda eftir því hvaða fjármögnunarleið er valin. Í þessu máli var gerður fjármögnunarleigusamningur við Gámakó, kt. 560694-2619. Gámur hreinsunarþjónusta, kt. 491282-0109 gerir Glitni reikning fyrir tækjunum með vsk. Glitnir greiðir þann reikning fyrir Gámakó og nýtir innskattinn hjá sér. Samningurinn er síðan gerður um nettóverð við Gámakó. Leigugreiðslur samningsins bera síðan virðisaukaskatt.

2.Nei.

3.Um þau var gerður fjármögnunarleigusamningur við Gámakó, kt. 560694-2619.

4.Sjá meðfylgjandi kvittanir.

Þetta verður ekki metið öðruvísi en að það sé til styrktar framburði ákærða um að ekki hafi verið skilyrði til að ganga frá viðskiptunum sem sölu á rekstrareiningu, heldur hafi hann gagnstætt skilningi sínum á eðli viðskiptanna gagnvart álagningu virðisaukaskatts orðið að gefa út reikning með virðisaukaskatti til Glitnis hf. en afsalið hafði ekki verið miðað við það. Það er óumdeilt að fjárhagsleg staða ákærða var mjög erfið og er því ekki mótmælt að eina úrræði hans var að selja fyrirtækið og því ekki ólíklegt að hann hafi orðið að fallast á að ganga frá viðskiptunum í samræmi við kröfu Glitnis hf. Ákærði var að selja allan rekstur Gáms hreingerningarþjónustu og því fyrirsjáanlegt að litlar tekjur kæmu inn í fyrirtækið í framtíðinni.  Svo sem fyrr var rakið var söluandvirðinu ásamt virðisaukaskatti ráðstafað til greiðslu á skuldum ákærða og til að jafna reikninga hans í Íslandsbanka og kemur fram hjá ákærða að hann hafi ekki fengið neinu um þetta ráðið og vegna hinnar bágu fjárhagsaðstöðu sinnar hafi hann orðið að ganga að þessu. Ákærði kvaðst hafa haft samband við endurskoðanda sinn Hjalta Magnússon, áður en hann seldi rekstrareininguna og spurt hann hvort að ætti að leggja virðisaukaskatt á andvirði sölunnar og hann svarað því neitandi, þar eð þessi viðskipti væru skv. skattalögum undanþegin virðisaukaskatti.

Hann kvaðst hins vegar hafa verið tilneyddur til að ganga frá viðskiptum með þessum hætti, en samt hafi forsvarsmönnum Glitnis hf. verið það ljóst að þetta stæðist ekki lög. Ákærði hafi gert grein fyrir þessum viðskiptum í leiðréttingarskýrslu, sem fylgdi framtali ákærða fyrir árið 1996. Með bréfi dags. 10. september 1996 tilkynnti Skattstjóri Reykjanessumdæmis ákærða að hann hefði í samræmi við leiðréttingar­skýrslurnar hækkað virðisaukaskyldu veltu hans í tímabilinu maí-júní 1995 um kr. 20.036.000, en hækkað undanþegna veltu hans um kr. 10.000.000,-. Í þessu fólst, að Skattstjórinn fellst á að sala ákærða á 250 gámum beint til Gámakó hf. sé sala á rekstrareiningu, sem væri undanþegin skattskyldri veltu, en ekki fyrrgreind sala á bifreiðum og gámum til Glitnis hf., sem runnu til Glitnis hf. í tengslum við fjármögnunarleigu Glitnis hf, en fyrir lá að ákærði hætti þeim rekstri sem hann hafði notað bifreiðarnar og gámana við. Ákærði kærði þessa ákvörðun Skattstjórans, sem óskaði eftir frekari gögnum með bréfi dags. 25. október 1996. Eftir að Skattstjórinn hafði fengið gögn og skýringar frá ákærða kvað hann upp úrskurð 16. desember 1996, þar sem hann staðfesti fyrri ákvörðun og byggði hana á því að einungis lægi fyrir reikningur með tilgreindum virðisaukaskatti um sölu á fjármunum til Glitnis hf. en gögn vantaði um sölu eða leigu Glitnis hf. á þessum fjármunum til Gámakó ehf. og fullyrðing ákærða um að Gámakó ehf. hefði yfirtekið reksturinn væri ekki samþykkt þar eð ekki hafi verið um beina sölu að ræða. Taldi Skattstjórinn reikninginn rétt útfylltan miðað við að Glitnir hf. hafi ekki verið að yfirtaka reksturinn og bæri ákærða skv. 22. gr. laga nr. 50/1985 að standa skil á virðisaukaskattinum sem tilgreindur væri á honum. Þá benti Skattstjórinn á að ákærði hafi einungis sent inn tilkynningar um sölu á gámum til Gámakó hf. innan tímafrests í 4. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1987 en slík tilkynning hafi ekki verið send inn um söluna til Glitnis hf.Ákærði hefur borið að umrædd tilkynning hafi átt við báðar sölurnar.

Ákærði kærði úrskurð Skattstjórans til Yfirskattnefndar 11. janúar 1997 og kvað nefndin upp úrskurð í málinu 15. maí 1998 og var þar fallist á að sala ákærða eða Gáms hreinsunarþjónustu á vörubifreiðum og gámum til Glitnis hf. hafi verið þáttur í yfirtöku Gámakós hf. á rekstri þeim sem ákærði var með í nafni Gáms hreinsunarþjónustu, sem við það hafi lagst af. Það hafi því ekki átt að leggja virðisaukaskatt á söluandvirðið og hafi ákærði ranglega innheimt virðisaukaskatt við söluna til Glitnis hf. Fram kemur í úrskurðinum að ekki séu skilyrði til að endur­ákvörðun Skattstjóra á virðisaukaskattinum verði felld niður, heldur verði ákærði að leiðrétta viðskiptin gagnvart Glitni hf. með útgáfu kreditreiknings vegna virðisauka­skattsins sbr. 3.mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 og endurgreiðslu á ofteknum skatti sbr. 2. mgr. 22. gr. sömu laga. Án slíkrar leiðréttingar var ákærða talið skylt að standa skil á skattinum til ríkissjóðs sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Ekki væri því unnt að svo vöxnu máli að láta kröfu ákærða ná fram að ganga og var henni vísað frá, en eftir atvikum þótti rétt að fella niður álag á virðisaukaskatti sbr. 6. mgr. 27. gr. langanna. Þessi niðurstaða verður ekki túlkuð öðru vísi en ef ákærða takist að fá þargreinda leið­réttingu fram verði skatturinn felldur niður og málinu lokið. Þá bendir niðurfellingin á álaginu til þess að nefndin hafi talið réttlætanlegt að skil á virðisauka­skattinum drægjust meðan leyst yrði úr ágreiningsmálinu um hvort viðskiptin væru virðisaukaskattskyld.

Við framhaldsmeðferð í málinu er hefst við endurupptöku þess var lagt fram bréf Ríkisskattstjóra til ákærða, þar sem fram kemur að með bréfi ákærða til yfirskattanefndar dags. 28. febrúar 2001 sem Ríkisskattstjóri mótmælti 5. mars sl. fer ákærði fram á að efniskröfur ákærða um leiðréttingu á álögðum virðisaukaskatti árið 1995 verði teknar til greina en þeim hafði verið svo sem fyrr er greint vísað frá yfirskattanefnd með úrskurði yfirskattanefndar nr. 413, 1998. Á grundvelli þess að ákærði hafi nú gert reka að því að leiðrétta viðskipti sín gagnvart Glitni hf. fellst Ríkisskattstjóri á það fyrir sitt leyti að úrskurðurinn verði endurupptekinn og með hliðjón af framkomnum skýringum og gögnum er fallist á kröfu ákærða.

Samkvæmt þessu má telja nokkuð víst að leiðréttingarkrafa ákærða verið tekin til efnismeðferðar og verði hún tekin til greina leiðir það sennilega til þess að ákærði verði leystur undan þeirri skyldu að skila greindum virðisaukaskatti en jafnframt verði látið ganga til baka hjá Glitni hf. sú lækkun á virðisaukaskatti þess sem heimiluð var með því að fjárhæð kr. 4.832.049 vegna viðskipta þess við ákærða. Væntanlega yrði þá að koma til endurgreiðslu á þeim virðisaukaskatti sem Glitnir greiddi til ákærða en það uppgjör yrði þá milli Glitnis hf. og ákærða eða Gáms hreinsunarþjónustu.

Bú ákærða var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 27. janúar 1998 og voru skiptalok 8. desember 1999 og búið lýst eignalaust.

Ákærði kvaðst því hafa verði gjaldþrota er úrskurður Yfirskattanefndar var kveðinn upp og ekki hafa verið í stakk búinn til að fá fram þargreinda leiðréttingu og auk þess hafi bókhald fyrirtækisins verið komið úr hans böndum og hann því ekki getað annað en haldið að sér höndum. Honum var því ekki ljóst hvort skiptastjóri þrotabúsins hafi vitað af þessum úrskurði eða hvort hann hafi gert ráðstafanir til að fá fram leiðréttingu. Hann kvaðst enga fjárhagslega getu hafa til að fá fram leiðréttingu með því að greiða sjálfur virðisaukaskattskuldina og engin viðbrögð hafi fengist frá Glitni hf. eftir að hann gaf út kreditreikning vegna ofreiknaðs virðisaukaskatts til Glitnis hf. sbr. dskj. nr. 8 en hann er reyndar dagsettur 15. janúar s.l.

Ákærði kvað hag sinn þannig í dag, að hann væri búinn að missa allt, fjölskyldu, eignir og vinnu og hafi bara tekjur til að framfleyta sér frá degi til dags. Hann kvað ástæður þess að hann varð gjaldþrota hafi m.a. verið innheimtuaðgerðir vegna skattskulda þ.á m. virðisaukaskattskuldar þessarar, sem hann taldi mistök, en orsökin væri þó fyrst og fremst sú að lánadrottnar hans hafi gengið of þungt að honum. Hann kvaðst hafa mætt hjá sýslumanninum í Hafnarfirði og mótmælt innheimtukröfunni og bent á að ágreiningurinn sem var um réttmæti þess að lagður væri virðisaukaskattur á viðskipti hans út af sölunni á rekstri Gáms hreinsunar­þjónustu. Hann kannaðist við að hafa skrifað undir leiðréttingaskýrsluna um virðisaukaskattinn vegna viðskipta og hafi skýrslan verið í samræmi við bókhaldið sem Hjalti Magnússon, endurskoðandi hafi fært, en hið daglega fjárbókhald og gerð virðisaukaskattskýrslu hafi Ólafur Rúnar Gunnarsson séð um.

Ólafur Rúnar Gunnarsson, kt. 270954-3089, Miðleiti 1, Reykjavík hefur borið vitni í málinu. Hann kvaðst hafa verið skrifstofumaður hjá ákærða og séð um skrifstofuhald fyrir Gám hreinsunarþjónustu. Hann kvaðst hafa verið með prófkúru­reikning vegna fyrirtækisins en verið með bankalínu og getað um hana annast greiðslu á reikningum þ.á.m. greiðslu á virðisaukasköttum skv. virðisauka­skattskýrslum. Hann kannaðist við að hafa skrifað undir virðisaukaskattskýrslur vegna reglubundinna viðskipta fyrirtækisins.

Vitnið kvaðst hafa komið að viðskiptum varðandi sölu rekstrareiningu fyrirtækisins til Glitnis hf. sem starfsmaður þess. Í afsali um sölu á bifreiðum og gámum til Glitnis hf. hafi ekki verið talað um að fjárhæð þess bæri virðisaukaskatt en það kveðst svo hafa útbúið reikning samkvæmt ákvörðun ákærða og þá verið tilgreindur virðisaukaskattur á reikningnum. Þetta hafi verið rætt og verið vafamál hvort leggja ætti á þessa sölu virðisaukaskatt, þar sem verið væri að selja rekstur en það hafi fengið leiðbeiningar frá Glitni hf. um hvernig ætti að gera þetta og útbúið reikning í samráði við þá vegna þessarar sölu. Það kvað þá hjá fyrirtækinu samt hafa haldið að ekki ætti að vera virðisaukaskattur á þessum viðskiptum og því haldið að sér höndum um að greiða álagðan virðisaukaskatt. Það kvað síðar hafa rætt það við Glitni hf. um leiðréttingu, en þeir hafi hummað það fram af sér og leiðréttingin ekki komið þrátt fyrir það. Það kvað enga peninga hafa skilað sér til ákærða vegna þessara viðskipta og því ekki verið unnt að greiða virðisaukaskatt samkvæmt skýrslunni til ríkissjóðs. Það kvað endurskoðanda fyrirtækisins hafa vitað um þennan ágreining og þegar það hafi verið kallað til skiptastjóra vegna gjaldþrots ákærða hafi þessi ágreiningur komið til tals. Það kvað ekki hafa komið fram hvort hann ætlaði að gæta hagsmuna þrotabúsins með því að fá leiðréttingu.

Við framhaldsaðalmeðferðina bar og vitni Kristján Óskarsson kt. 240951-3989,  Fjarðarseli 16, Reykjavík en það er framkvæmdarstjóri Glitnis hf. og hafði það eða starfsmenn þess annast viðskiptin við ákærða um kaupin á tækjum og gámum. Vitnið kvað Glitni ekki hafa verið að fjármagna kaup á rekstrareiningu, það geri félagið aldrei heldur fjármagni það einungis kaup á tækjum eða fasteignum. Í um­ræddu tilviki hafi félagið verið að fjármagna kaup á tilteknum tækjum úr rekstar­einingu sem ákærði hafi verið að selja Gámakó og hafi verið greitt ákveðið verð fyrir þessi tæki. Samkvæmt venju í slíkum viðskiptum og að fyrirmælum opinberra aðila þá beri að leggja virðisaukaskatt á slík viðskipti og því hafi verið reiknaður virðis­aukaskattur á þau. Það kvað söluandvirðinu hafa samkvæmt beiðni ákærða eða Gáms hreinsiþjónustu hafa verið ráðstafað þannig að kr. 5.953.000 hafi farið til uppgreiðslu á  skuld vegna eignaleigusamnings ákærða eða Gáms við Féfang hf. og hafi það verið nauðsynlegt til að losa um eignarrétt þess félags svo að unnt væri að ganga frá kaupunum til Glitnis hf. Það hafi svo verið greitt á reikninga ákærða í Íslandsbanka, Hamraborg, mismunurinn þ.e. inn á reikning nr. 666666 hafi farið 3.000.000 og svo hafi farið kr. 2.000.000 inn á reikning Gáms nr. 219 og loks kr. 13.965.563 á reikning Gáms nr. 119. Þessar greiðslur hafi farið fram með vitund og samþykki ákærða en vitnið kvaðst ekki hafa vitað um stöðu þessara reikninga né hvað hafði farið á milli ákærða og starfsmanna bankans um þessar greiðslur. Vitnið kannaðist við að ákærði hafi nýlega lagt inn hjá félaginu kreditnótu með umræddri fjárhæð um virðisaukaskatt og hafi hún verið móttekin með fyrirvara en hún hafi verið dagsett 15. janúar 2001 og væri með henni farið fram á bakfærslu á álögðum virðisaukaskatti vegna við­skiptanna. Vitnið vakti athygli á því að fyrirtækið Gámur hreinsunarþjónusta hafi farið í þrot 1999 og því sé þetta marklaus tilmæli nema ákærði eða Gámur hreinsunar­þjónusta endurgreiði Glitni greiddan virðisaukaskatt en þá séu skilyrði til bakfærslu og endurgreiðslu til ríkissjóðs.   Til þess að vinda ofan af þessu yrði Gámkó ehf. og að fá til baka virðisaukaskattinn sem lagður hefur verið á félagið vegna fjármögnunnar leigunnar.

Vitnið kvað upphaflega hafa verið talað um kr. 30 milljónir því sambandi við sölu Gáms hreinsunarþjónustu, sem er samræmi við heildarverðmæti rekstrar­eininganna sem gengu til Gámakós ehf. Vitnið kannaðist ekki við að fram hafi komið hjá ákærða að ekki ætti að greiða virðisaukaskatt vegna viðskipta hans við Glitni hf.

Í þinghaldi 16. maí s.l. lagði ákærandi fram yfirlit yfir reikninga ákærða við Íslandsbanka nr. 219 og 119 og koma þar fram hreyfingar á reikningunum fyrir tímabilið 7. apríl 1995 til 29. desember 1995 og frá 11. maí 1995 til 15. ágúst 1995. Af þeim er ljóst að lagt hefur verið inn á framangreinda reikninga af Glitni hf. kr. 15.991.546 og auk þess sést að fært er inn á reikning 219 kr. 3.000.000 af reikningi 666666. Reikningur nr. 119 var í skuld upp á kr. 4.874.624 er kr. 13.965.563 voru lagðar inn á hann og var skuldin jöfnuð út með inngreiðslunni og staða reikningsins á eftir 9.090.939,- kr.  Þessari innistæðu og þeirri innistæðu sem myndaðist á reikningi 219 var að mestu ráðstafað af ákærða eða Gámi hreinsunarþjónustu með skjálínu skilaboðum í maí og júní 1995. Í lok júní fara út af reikningi nr. 219, 22.777.471,- krónur til greiðslu af erlendum lánum ákærða eða Gáms hreinsunarþjónustu og er staðan þá kr. 27.354.075 í skuld, en eftir það er staðan jöfnuð með skuldbreytingum. Innistæðan á reikningnum er lengst af eftir það undir kr. 500.000 og er neikvæð í árslok um kr. 712.104,-.

Ákærður kvað framangreinda reikninga hafa verið veltureikninga fyrirtækis hans og verið búna að vera mörg ár í gangi. Inngreiðslur hafi aðallega farið inn á reikning nr. 119, en reikningur nr. 219 verið notaður til greiðslu útgjalda og kostnaðar og þá verið fært á milli af 119 eftir þörfum. Ákærður kvað Íslandsbanka hafa ráðstafað fjárhæðunum sem fóru inn á reikningana vegna sölunnar á reikstrareiningum og kvaðst ákærður ekki hafa haft heimild til að nota þessar fjárhæðir og honum verið sagt að bankinn myndi sjá um það. Ákærður tók fram að ef hann hefði við söluna fengið heildarverðmæti hennar til ráðstöfunar hefði hann séð hvernig hann hefði átt að höndla málið, en hann hefði aldrei greitt virðisaukaskattinn til ríkissjóðs, heldur hefði hann krafist þess að Glitnir hf. tæki hann aftur og endurgreiddi til ríkssjóðs vegna þess að rangt hafði verið farið að.

Ákærður kvaðst ekki hafa vitað um þær fjárhæðir, sem ekki fóru inn á reikning hjá honum fyrr en 4. ágúst 1995, er hann hugðist gera skil á virðisaukaskattinum, en þá hafi hann fengið endanlegt uppgjör frá Glitni hf. og þá fyrst fengið að vita að félagið hafi notað virðisaukaskattinn í viðskiptunum en ákærður hélt því fram að aldrei hafi átt að innheimta þennan virðisaukaskatt. Ákærður sagði að þegar gera hafi átt skil á virðisaukaskattinum 4. ágúst 1995 hafi ekki verið innistæða á reikningunum fyrir skuldinni. Hann kvað sjálfur hafa um skjálínu ráðstafað fé af reikningunum en bankinn hafi og sjálfur fært út af reikningi nr. 219.

II.

Um vanskil ákærða á virðisaukaskatti árið 1996 er ekki teljandi ágreiningur en leiðrétt hefur verið að tilgreind greiðslutímabil í ákæru eigi að vera mars-apríl og maí-júní. Ákærði átti fasteignina Reykjanesbraut 950, sem var skemma þar sem sorpflokkun fór fram, en þar voru og skrifstofur ákærða. Húsnæðið hafði ákærði að meginhluta leigt til Hringhendu ehf. en hann var á framangreindum tíma og aðaleigandi þess fyrirtækis en skv. framburði vitnisins Ólafs Reimars Gunnarssonar hafði svo tekið við rekstrinum fyrirtæki undir nafninu Íseind. Vitnið hafði starfað hjá ákærða og einnig hjá Hringendu ehf. Reikningarnir vegna húsaleigunnar höfðu í fyrstu verið útbúnir þannig að lagður var virðisaukaskattur ofan leigugjaldið og þess svo getið í virðisaukaskattskýrslum. Fram kemur hjá ákærða og einnig vitninu að þeir hafi talið að það ætti að leggja virðisaukaskatt á leigutekjur, en það hafi svo komið í ljós síðar, að leigutekjur vegna fasteigna voru ekki virðisaukaskattskyldar og hafði þá verið hætt að leggja virðisaukaskatt á reikningana um þessi leigugjöld. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að leiga fasteigna væri undanþegin virðisaukaskatti og honum var og ókunnugt um að skilyrði þess, að heimilt væri að leggja virðisaukaskatt á leigugjald væri að sótt hafi verið um frjálsa skráningu fasteignar skv. sérstöku reglugerðar­ákvæði. Fram kom hjá vitninu Ólafi Reimari, sem á sama tíma var starfsmaður ákærða og Hringendu ehf. að peningaleysi hjá ákærða hafi valdið því að virðisauka­skattskuld vegna húsaleigunnar var ekki gerð upp við innheimtumann ríkissjóðs, en erfiðlega hafi gengið að innheimta húsaleiguskuldina hjá Hringendu ehf. og bar ákærða og vitninu saman um að skuld þess væri enn að mestu ógreidd og ætti ákærði inneign í Hringendu ehf. en félagið var úrskurðað gjaldþrota 11. mars 1998 og voru skiptalok 3. nóvember 2000 og reyndist búið eignalaust. Vitnið kvað virðisauka­skattinn, sem ákærði krafði Hringendu ehf. um vegna húsaleigunnar hafa nýst sem innskattur hjá félaginu.

III.

 Niðurstöður

Á viðskipti ákærða eða Gáms hreinsunarþjónustu og Glitnis hf. bar ekki að leggja virðisaukaskatt á söluandvirði vörubifreiða og gáma svo sem rakið er hér áður. Með því að gera það engu síður og þrátt fyrir að ákærði væri þessarar skoðunar að honum væri það óskylt, hlaut hann að gera sér ljóst að annað hvort yrði hann að greiða þennan virðisaukaskatt eða koma því til leiðar við skattayfirvöld að álagningin yrði leiðrétt með því að gagnaðilum yrði gert að endurgreiða oftekinn innskatt en þá væru skilyrði til að fella virðisaukaskattinn niður hjá ákærða sbr. úrskurður Yfirskattanefndar.

Gögn málsins hníga frekar að því að framburður ákærða sé réttur, um það að skilyrði viðskipta hans við Glitni hf. hafi verið að framangreind sala yrði með virðisaukaskatti og að eini kostur hans hafi verið að ganga þannig frá málum, ef hann ætlaði ekki að verða af viðskiptunum. Þá mun fjárhagsstaða hans hafa verið þannig, að hann gat engin skilyrði sett og varð að sætta sig við þau kjör, sem stóðu til boða.

Samkvæmt vætti Kristjáns Óskarssonar framkvæmdastjóra Glitnis er ljóst að af hálfu félagsins var litið svo á að verið væri að fjármagna kaup á vélum og tækjum og á þau bæri að leggja virðisaukaskatt, en félagið fjármagnaði aldrei bein kaup á reikstrareiningum. Til þess að ganga frá kaupunum til Glitnis og eignarfærslunni varð að greiða upp til Féfangs áhvílandi lán á tækjunum en að öðru leyti gekk sölu­andvirðið inn á reikninga ákærða og Gám hreinsiþjónustu við Íslandsbanka um kr. 19.000.000,- og  hafði það verið gert í samráði við ákærða og kvaðst ekki hafa vitað annað en að það fé væri ákærða til frjálsra afnota og var ókunnugt um samninga milli bankans og ákærða, sem gætu hafa takmarkað ráðstöfunarrétt hans.

Þegar þetta er virt og það sem fram kemur á reikningsyfirlitum um ávísana­reikninga Gáms hreinsiþjónustu við Íslandsbanka nr. 119 og 219 og hreyfingarnar á þeim þykir ósannað og ekki heldur sennileg sú fullyrðing ákærða að öllu sölu­andvirðinu hafi verið ráðstafað af bankanum og Glitni hf. og hann engu getað ráðið um það.

Eðlilegt er að þar sem ágreiningur var á milli ákærða og Glitnis hf. um álagningu virðisaukaskatts á fyrrgreindri sölu hafi verið leitað til skattayfirvalda með

skýringar. Ákærði gerði það með því að kæra ákvörðun Skattstjóra Reykjaness umdæmis um að honum bæri að greiða álagðan virðisaukaskatt vegna viðskiptanna 28. september 1996. Endanleg niðurstaða vegna þessa kærumáls lá ekki fyrir fyrr en með úrskurði Yfirskattanefndar nær 2 árum síðar eða 15. maí 1998. Hefði álit nefndarinnar legið fyrr fyrir kynni það að hafa verið grundvöllur þess að ákærði hefði gefið út kreditnótu vegna virðisaukaskattsins og Glitnir bakfært (innskattsfærslu söluandvirðsins) sömu fjárhæðar er nam fjárhæð virðisaukaskattsins og endurgreiddi hana til ríkssjóðs og hefði þá ákærða borið að endurgreiða til Glitnis hf. virðisauka­skatt. Hins vegar hafði ákærði verið úrskurðaður gjaldþrota þegar úrskurður Yfirskattanefndar lá fyrir og hefði þá komið til álita að skiptastjóri hefði á grundvelli úrskurðarins reynt að fá fram leiðréttingu með bakfærslu og endurgreiðslu skattsins af hálfu Glitnis ehf. sem hefði þá  gert kröfu fyrir skuldum sínum á hendur ákærða sem nam fjárhæð skattsins í þrotabú ákærða. Þetta gerðist ekki og þegar skiptum lauk á búi ákærða 8. desember 1999 voru nærri 4 ár liðin frá viðskiptunum og vart þess að vænta að ákærði gæti þá náð fram framangreindri leiðréttingu en hann var þá eignalaus og sjálfur ófær um endurgreiðslu virðisaukaskattsins.

Samkvæmt 12. gr. 4. mgr. laga nr. 50/1988 var eignayfirfærsla sú sem fólst í viðskiptum ákærða og Glitnis hf. ekki virðisaukaskattskyld með því að í reynd var um að ræða sölu á rekstrareiningu til Gámakós ehf. Ákærði ber ábyrgð á því að hafa þrátt fyrir það lagt á virðisaukaskatt á söluna og vanskilum á þeim virðisaukaskatti. Í málinu er spurning hvort Glitni hf. hafi verið rétt að nota álagðan virðisaukskatt eins og á stóð, sem innskatt hjá sér við virðisaukaskattskil, en viss rök eru til þess að félagið hefði átt að fresta að færa álagðan virðisaukaskatt vegna viðskiptanna sem innskatt, þar til leyst hefði verið úr ágreiningi um skattameðferð viðskiptanna og eiga sjálft frumkvæð að þeirri endurskoðun..

Þegar saga þessi er virt, verður brot ákærða ekki talið stórfellt svo varði við 262. gr. almennra hegingarlaga nr. 1940 sbr. lög. nr. 39/1995 og lög nr. 82/1998 né verður brot ákærða metið svo að hann hafi í upphafi haft ásetning til að draga undan virðisaukaskattsgreiðsluna. Engu að síður hlaut ákærða að vera ljóst, að álagður virðisaukaskattur á viðskiptin myndi nýtast Glitni hf. sem innskattur og þá jafnframt hafa í för með sér skatttekjutap fyrir ríkissjóð nema greiðsla kæmi á móti m/v virðisaukaskattsskýrslu ákærða. Hann kann að hafa verið í vafa um vegna ágreiningsins við Glitni hf. að leiðréttingin fengist fram með hefðbundnum hætti, en alla vega bar honum að tryggja að sú fjárhæð sem nam álögðum virðisaukaskatti vegna viðskiptanna yrði ríkissjóði tiltæk er kærumálin voru leyst. Rétt hefði verið hjá ákærða við þessar aðstæður að reyna strax að fá fram bakfærslu og endurskoðun innskattsfærslu Glitnis hf. Verður honum talið þetta aðgerðarleysi til sakar, en svo sem fram kemur í dskj. nr. 10 er þessi leiðrétting nú að ná fram að ganga, en öll kurl eru þó ekki komin til grafar.

Vanskil ákærða á virðisaukaskatti fyrir árið 1996 verða talin alveg falla að lýsingu 1. mgr 40. gr.. laga nr. 50/1988, en ákærði var er viðskiptin fóru fram aðaleigandi Hringhendu ehf. og gat því nýtt álagðan virðisaukaskatt sem innskatt hjá félaginu og jafnframt var hann í stöðu til að leiðrétta álagninguna með endurgreiðslu gegn kreditnótum, þegar honum varð ljóst að ekki átti að leggja virðisaukaskatt á umræddar húsaleigutekjur.  Þykir eiga hér við að sekt sé ákveðin tvöföld fjárhæð þess sem vanrækt var að gera skil á.

Þegar virt er að rannsókn máls þessa hefur tekið langan tíma, og einnig  skatta­meðferðin vegna kæru ákærða, sem kann að hafa valdið ákærða réttarspjöllum, en það olli því að hann gerði ekki  fljótlega reka að leiðréttingum, en þær síðar orðið illmögulegar eða útilokaðar, þykir rétt að ákveða refsingu ákærða þannig að hann greiði 3.000.000,- í sekt til ríkissjóðs og komi 5 mánaða fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvar­narlaun skipaðs verjanda ákærða Gunnars Jóhannssonar hdl. sem ákvarðast 200.000,- krónur.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Guðjón Þorbjörnsson, greiði 3.000.000,- krónur í sekt, en sæti ella fangelsi í 5 mánuði verði sektin ekki greidd innan 4ra vikna frá birtingu dóms þessa.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda Gunnars Jóhannssonar hdl. kr. 200.000,-.