Print

Mál nr. 306/2015

Lykilorð
  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Eignarnám
  • Skipulag
  • Umferðarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Stjórnsýsla
  • Málsástæða

                                     

Fimmtudaginn 15. október 2015.

Nr. 306/2015.

Hörður Jónsson

(Óskar Sigurðsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Ívar Pálsson hrl.)

Fasteign. Eignarréttur. Eignarnám. Skipulag. Umferðarréttur. Stjórnarskrá. Stjórnsýsla. Málsástæða.

Með nýju deiliskipulagi var gert ráð fyrir umferðarrétti yfir baklóð H við hús nr. 87 á Laugaveg í Reykjavík að lóð nr. 85 við sömu götu. Í málinu var ágreiningur um hvort ákvörðun borgarstjórnar R frá árinu 2013 um eignarnám á lóð H vegna umræddrar umferðarkvaðar væri haldin slíkum göllum að formi til og efni að ylli ógildingu hennar. Fyrir Hæstarétti reisti H málatilbúnað sinn á málsástæðum sem ekki hafði verið teflt fram undir rekstri málsins í héraði þó svo að sama tilefni hefði verið til að byggja á þeim þá, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að því gættu var ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 163. gr. sömu laga til að taka þessar málsástæður til frekari umfjöllunar og komu þær því ekki til álita við úrslausn málsins fyrir Hæstarétti. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með 1. tölulið 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 væri fullnægt þeim áskilnaði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar að lög veittu sveitarfélagi heimild til eignarnáms vegna framkvæmdar deiliskipulags. Talið var hafið yfir vafa að sveitarstjórn gæti á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga með eignarnámi stofnað til takmarkaðra eignarréttinda yfir fasteignum. Gilti það jafnt um fyrsta tölulið ákvæðisins sem aðra liði þess. Þá væri ekki skylt að taka fasteign í heild eignarnámi heldur væri heimilt að láta það einungis ná til þess eða þeirra hluta eignar sem eignarnema væri þörf á. Með ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga hefði löggjafinn til samræmis við áskilnað stjórnarskrárinnar veitt sveitarstjórnum heimild til eignarnáms þeirra fasteigna innan sveitarfélags sem henni væri nauðsyn á að fá umráð yfir til almannaþarfa vegna framkvæmdar deiliskipulags. Leggja yrði til grundvallar að R hefði neytt eignarnámsheimildarinnar í því skyni að hrinda deiliskipulaginu í framkvæmd, þar sem ekki hefði tekist samningar milli málsaðila um kaup á umferðarréttinum, og því hefði hennar verið neytt í þágu almannahagsmuna. Réðist eðli málsins samkvæmt af atvikum hverju sinni hvort eignarnámið snerti hagsmuni margra eða fárra. Loks var hafnað þeirri málsástæðu H að umsagnar Skipulagsstofnunar hefði ekki verið aflað með þeim hætti sem áskilinn væri í 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga. Var R sýknað af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. apríl 2015. Hann krefst þess að ógilt verði sú ákvörðun borgarstjórnar stefnda 19. nóvember 2013 að leggja með eignarnámi umferðarkvöð á lóð nr. 87 við Laugaveg í Reykjavík. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur gengu á vettvang 12. október 2015.

I

Áfrýjandi er eigandi lóðar nr. 87 við Laugaveg í Reykjavík og byggingar er á lóðinni stendur. Lóðin sem er eignarlóð áfrýjanda er á staðgreinireit 1.174.1 en hann afmarkast af Laugavegi, Barónsstíg, Hverfisgötu og Snorrabraut. Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hagar þannig til að húsin á lóðum nr. 85, 87, 89 og 91 við Laugaveg eru sambyggð en hægt er að komast akandi meðfram húsi nr. 91 inn á baklóð þess og fara þaðan inn á baklóðir húsanna. Nýtt deiliskipulag fyrir staðgreinireitinn tók gildi 11. ágúst 2005 og kvað eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi meðal annars á um umferðarrétt yfir baklóð áfrýjanda að lóð nr. 85 við sömu götu. Í málinu er ágreiningur um hvort ákvörðun borgarstjórnar stefnda frá 19. nóvember 2013 um eignarnám á lóð áfrýjanda vegna umræddrar umferðarkvaðar sé haldin slíkum göllum að formi til og efni að valdi ógildingu hennar.

II

Með bréfi 16. september 2013 lagði borgarlögmaður til við borgarráð stefnda að það samþykkti eftirfarandi tillögu: „Í ljósi þess að viðræður við eiganda lóðarinnar nr. 87 við Laugaveg hafa ekki borið árangur samþykkir borgarráð að taka 42,24 m² nyrst á lóðinni nr. 87 við Laugaveg eignarnámi fyrir umferðarkvöð fyrir akandi umferð. Er þetta í samræmi við þá umferðarkvöð sem kveðið er á um í deiliskipulagi svæðisins og nánar er gerð grein fyrir á mæliblaði Landupplýsingadeildar, dags. 4. febrúar 2013. Kvöðin er 4 m á breidd og 10,56 m á lengd eða 42,24 m² að flatarmáli. Lóðarhlutinn tilheyrir lóðinni áfram en á honum mun hvíla kvöð um akstur.“ Á fundi borgarráðs 7. nóvember 2013 var bókað undir 26. dagskrárlið að lagt væri „fram að nýju bréf borgarlögmanns, dags. 29. október 2013, þar sem lagt er til að borgarráð samþykki að taka eignarnámi umferðarkvöð á lóð nr. 87 við Laugaveg. Jafnframt lagt fram bréf ... dags. 30. september 2013, með andmælum eiganda við eignarnáminu ... Samþykkt ... Málið fer til staðfestingar borgarstjórnar með vísan til 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.“ Á fundi borgarstjórnar stefnda 19. nóvember 2013 var samþykktur 26. liður fundargerðar borgarráðs frá 7. nóvember sama ár „tillaga borgarlögmanns vegna eignarnáms umferðarkvaðar á lóð nr. 87 við Laugaveg.“

Áður en til framangreindra samþykkta borgarráðs og borgarstjórnar kom hafði stefndi samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með bréfi 2. júlí 2013 óskað eftir umsögn Skipulagsstofnunar „um væntanlegt eignarnám Reykjavíkurborgar á hluta af eignarlóð Laugavegs 87, Reykjavík.“ Í bréfinu voru atvik málsins rakin og sagt að með „vísan til framangreinds er Reykjavíkurborg því nauðugur einn sá kostur að taka hluta lóðarinnar eignarnámi svo hægt sé að framfylgja samþykktu skipulagi svæðisins. Fyrirhugað eignarnám tekur til 42,24 m² af Laugavegi 87 ... Umferðarkvöðin sem um ræðir fellur undir 1. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga ... Flöturinn sem tekinn yrði eignarnámi verður 10,56 m á lengd og 4 m á breidd ... Rétt er að geta þess að kvöðin um umferð kæmi í stað 2 m breiðrar kvaðar um gangréttindi sem er nú þegar á lóðinni“. Í umsögn Skipulagsstofnunar 14. ágúst 2013 sagði að stefndi fyrirhugaði „að taka eignarnámi 42,24 m² af lóð Laugavegar 87 en um er að ræða umferðarkvöð vegna aðkomu akandi að baklóð nr. 85 við Laugaveg ... Lóðareigandi á nr. 87 við Laugaveg hefur ekki sæst á þessa umferðarkvöð ... Með vísan til framangreinds, sem og annarra gagna málsins er það mat Skipulagsstofnunar að sýnt hafi verið fram á af hálfu Reykjavíkurborgar að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu uppfyllt ... og gerir stofnunin því ekki athugasemd við að sveitarfélagið taki eignarnámi þar sem umferðarkvöð liggur yfir lóð nr. 87 við Laugaveg ... og því er ekki gerð athugasemd við fyrirhugað eignarnám enda er það í samræmi við þá umferðarkvöð sem kveðið er á um í deiliskipulagi sem nú er í gildi á svæðinu.“ 

III

Í héraði reisti áfrýjandi málsókn sína á því að ekki væri fullnægt lagaskilyrðum fyrir því eignarnámi sem stefndi tók ákvörðun um 19. nóvember 2013. Hann tefldi í fyrsta lagi fram þeirri málsástæðu að sveitarstjórn væri hvorki heimilt að stofna með eignarnámi umferðarrétt né önnur óbein eignarréttindi á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga. Yrði ekki á þá málsástæðu fallist var málsóknin í annan stað á því reist að sveitarstjórn væri í öllu falli ekki heimilt að stofna með eignarnámi til umferðarréttar eða annarra óbeinna eignarréttinda á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga. Yrði ekki á þá málsástæðu fallist var málsóknin í þriðja lagi á því reist að stefndi fengi hvorki umráð hins eignarnumda samkvæmt hinni umþrættu eignarnámsákvörðun, svo sem áskilið væri til þess að 1. töluliður 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga gæti átt við, né væri ákvörðunin reist á almannahagsmunum heldur réðu ferð hagsmunir eigenda fasteignar er lægi að lóð áfrýjanda. Yrði heldur ekki á þá málsástæðu fallist var í fjórða lagi á því byggt að umþrætt eignarnámsákvörðun hafi ekki verið tekin með þeim hætti sem áskilið sé í 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga, þar sem umsagnar Skipulagsstofnunar hafi ekki verið aflað með réttum hætti. Loks var krafa áfrýjanda á því reist í fimmta lagi að eignarnámsákvörðun stefnda fullnægði hvorki áskilnaði 72. gr. stjórnarskrárinnar um almenningsþörf né 1. gr. samningsviðauka I við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. 2. tölulið 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Til viðbótar ofangreindum málsástæðum í héraði teflir áfrýjandi því fram fyrir Hæstarétti í fyrsta lagi að ákvörðun stefnda fullnægi ekki lagaskilyrðum íþyngjandi ákvarðana, þar sem engan rökstuðning sé að finna í ákvörðuninni sjálfri, og þar komi heldur ekki fram á hvaða lagagrundvelli sé byggt. Í öðru lagi að deiliskipulag það sem um ræðir í málinu geti ekki verið grundvöllur eignarnámsákvörðunar stefnda, þar sem skipulagið sé ekki nægjanlega skýrt og nákvæmt, en slíkt sé ófrávíkjanlegt skilyrði eignarnáms. Við það eitt sé látið sitja að færa inn á uppdrátt með kössum og örvum það sem kallað sé kvöð en enga nánari skilgreiningu sé að finna í deiliskipulaginu sjálfu og greinargerð með því. Í þriðja lagi hafi verið látið í veðri vaka við eignarnámsákvörðunina að eina aðkoman að lóð nr. 85 við Laugaveg væri um lóð áfrýjanda en það sé rangt. Þar sem ákvörðun stefnda um eignarnám sé þannig byggð á rangfærslum og ólögmætum sjónarmiðum sé um valdníðslu að ræða og ákvörðunin því ógildanleg af þeirri ástæðu. Í fjórða lagi geti stefndi einungis stutt eignarnámsákvörðunina við 1. tölulið 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga, þar sem til þess ákvæðis hafi verið vísað í upphafi, en stefndi geti ekki eftir á vísað til annarra töluliða sama lagaákvæðis. Í fimmta lagi sé eignarnámið ógildanlegt þar sem ekki sé fullnægt því skilyrði 3. mgr. 50. gr. skipulagslaga að eignarnám sé því aðeins heimilt að sveitarstjórn hafi áður með sannanlegum hætti leitast við að ná samningum við eigendur þeirra eigna eða réttinda sem hún hyggist taka eignarnámi.

Svo sem fyrr greinir var síðastnefndum málsástæðum ekki teflt fram af hálfu áfrýjanda undir rekstri málsins í héraði þó svo að sama tilefni hafi verið til að byggja á þeim þá og nú, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að því gættu er ekki fullnægt skilyrðum 2. mgr. 163. gr. sömu laga til að taka þessar málsástæður til frekari umfjöllunar og koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti. Á hinn bóginn verður litið svo á að aðrar málsástæður stefnda hér fyrir dómi felist í þeim sem hann hafði uppi í héraði og koma þær því til úrlausnar við endurskoðun héraðsdóms.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Í 1. tölulið 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga kemur fram að sveitarstjórn er að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags heimilt að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins fasteignir sem henni er nauðsynlegt að fá umráð yfir til almannaþarfa. Er með þessu ákvæði skipulagslaga fullnægt þeim áskilnaði stjórnarskrárinnar að lög veiti sveitarfélagi heimild til eignarnáms vegna framkvæmdar deiliskipulags. Þeirrar heimildar neytti stefndi með ákvörðun borgarstjórnar 19. nóvember 2013 sem áfrýjandi leitar ógildingar á en deiliskipulag það sem um ræðir í málinu tók sem fyrr greinir gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 11. ágúst 2005. Samkvæmt gögnum málsins hefur stefndi þegar greitt áfrýjanda bætur vegna eignarnámsins sem ákveðnar voru af matsnefnd eignarnámsbóta 16. maí 2014 en áfrýjandi veitti þeim viðtöku með fyrirvara um lögmæti eignarnámsins.  

Áfrýjandi heldur því í fyrsta lagi fram til stuðnings kröfu sinni um ógildingu ákvörðunar stefnda frá 19. nóvember 2013 að sveitarstjórn sé á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga hvorki heimilt að stofna með eignarnámi til umferðarréttar né annarra óbeinna eignarréttinda í þágu deiliskipulags. Í því sambandi er þess að gæta að í 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga eru talin upp í fimm töluliðum þau tilvik þar sem sveitarstjórn er  að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli deiliskipulags heimilt að beita eignarnámi til að tryggja framgang þess. Í 4. mgr. 50. gr. skipulagslaga segir  að um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun um bætur fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Í 3. gr. þeirra kemur meðal annars fram að leiði annað ekki af heimildarlögum megi með eignarnámi stofna til afnotaréttinda, ítaksréttinda og annarra takmarkaðra eignarréttinda yfir fasteignum. Þar sem slík takmörkun á beitingu heimildar til eignarnáms í þágu deiliskipulags sem um ræðir í 3. gr. laga nr. 11/1973 er ekki í skipulagslögum er hafið yfir vafa að sveitarstjórn getur á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga með eignarnámi stofnað til takmarkaðra eignarréttinda yfir fasteignum. Gildir það jafnt um fyrsta tölulið ákvæðisins sem aðra liði þess. Af hinu sama leiðir að þegar neytt er heimildar samkvæmt 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga er ekki skylt að taka fasteign í heild eignarnámi heldur er heimilt að láta það einungis ná til þess eða þeirra hluta eignar sem eignarnema er þörf á. Telji eignarnámsþoli sig vanhaldinn af slíkri ráðstöfun standa honum til boða þau úrræði sem nefnd eru í 12. gr. laga nr. 11/1973 en ekki er fram komið að áfrýjandi hafi freistað þess að neyta þeirra.

Þá heldur áfrýjandi því fram í annan stað að stefndi fái hvorki umráð hins eignarnumda samkvæmt hinni umþrættu eignarnámsákvörðun eins og áskilið sé svo 1. töluliður 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga geti átt við, né búi almannaþarfir að baki ákvörðuninni heldur hagsmunir eigenda tiltekinnar annarrar fasteignar er liggur að lóð áfrýjanda. Með ákvæði 1. töluliðar 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga hefur löggjafinn til samræmis við áskilnað stjórnarskrárinnar veitt sveitarstjórnum heimild til eignarnáms þeirra fasteigna innan sveitarfélags sem henni er nauðsyn á að fá umráð yfir til almannaþarfa vegna framkvæmdar deiliskipulags. Leggja verður til grundvallar að stefndi hafi neytt heimildar til hins umþrætta eignarnáms í því skyni að hrinda  deiliskipulaginu í framkvæmd þar sem ekki tókust samningar milli málsaðila um kaup á umferðarréttinum. Eignarnámsheimildarinnar var því neytt í þágu almannahagsmuna. Í því sambandi verður að horfa til eðlis deiliskipulags eins og það er skilgreint í 7. tölulið 2. gr. skipulagslaga, en þar kemur fram að deiliskipulag er skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reiti innan sveitarfélags sem byggð er á aðalskipulagi og kveður nánar á um útfærslu þess. Ræðst þá eðli málsins samkvæmt af atvikum hverju sinni hvort eignarnámið snertir hagsmuni margra eða fárra.

Loks heldur áfrýjandi því fram að umþrætt eignarnámsákvörðun hafi ekki verið tekin með þeim hætti sem áskilið er í 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga, þar sem umsagnar Skipulagsstofnunar hafi ekki verið aflað með réttum hætti. Að gengnum dómi Hæstaréttar 8. október 2009 í máli nr. 118/2009 leitaði stefndi samkvæmt gögnum málsins ítrekað eftir því að ná samkomulagi við áfrýjanda um kaup á umferðarrétti um lóð hins síðarnefnda í samræmi við deiliskipulagið sem tók gildi 11. ágúst 2005. Þær samningaviðræður reyndust með öllu árangurslausar. Í framhaldinu leitaði stefndi með bréfi 2. júlí 2013 eins og að framan er rakið eftir umsögn Skipulagsstofnunar um þau áform sín að stofna með eignarnámi til umferðarkvaðar á lóð áfrýjanda í þágu deiliskipulagsins, sbr. 1. tölulið 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga. Um þau áform stefnda veitti Skipulagsstofnun umsögn með bréfi 14. ágúst sama ár eins og eftir var leitað. Var umsagnar stofnunarinnar samkvæmt þessu aflað með réttum hætti.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms. Eftir þeim úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hörður Jónsson, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. mars 2015.

                Mál þetta, sem var dómtekið 20. janúar sl. er höfðað 5. september 2014. Stefnandi er Hörður Jónsson, Bakkaflöt 12, Garðabæ en stefnda er Reykjavíkurborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Reykjavík

                Stefnandi krefst þess að ógilt verði með dómi sú ákvörðun borgarstjórnar stefndu, 19. nóvember 2013, að taka eignarnámi umferðarkvöð á lóð nr. 87 við Laugaveg í Reykjavík. Stefnandi krefst þess og að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið. Þá kefst hann málskostnaðar.

                Stefnda krefst aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu. Í báðum tilvikum krefst hún málskostnaðar.

                Mál þetta var flutt í einu lagi um form og efni í samræmi við ákvörðun aðila og dómara þar um.

I

                Ágreiningur aðila lýtur að lögmæti þeirrar ákvörðunar borgarstjórnar stefndu, 19. nóvember 2013, að taka eignarnámi umferðarrétt um nánar tilgreindan hluta lóðarinnar nr. 87 við Laugaveg í Reykjavík sem er í eigu stefnanda.

                Málavextir eru þeir að deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.174.1. tók gildi 11. ágúst 2005. Með umræddu deiliskipulagi var m.a. kveðið á um heimild til að stækka hús við Laugaveg 85 og 87. Þá kom fram í deiliskipulaginu að umferðarréttur skyldi vera yfir lóðina nr. 87 að lóð nr. 85. Eru aðstæður þarna nánar þannig að húsin nr. 85, 87, 89 og 91 eru sambyggð en unnt er að komast meðfram húsi nr. 91 akandi og fara um baklóð þess inn á baklóð húss nr. 89 og inn á baklóð húss nr. 87. Með hinu nýja deiliskipulagi var kveðið á um kvöð um akstur um lóð 87 til að komast akandi inn á lóð 85. Um þessa aksturskvöð er deilt í máli þessu. Fyrir liggur að hús á lóð nr. 85 hefur verið stækkað í samræmi við fyrirætlanir í umræddu deiliskipulagi frá árinu 2005. Af teikningum sem liggja fyrir í málinu má ráða að á lóð þess húss hefur verið gert ráð fyrir bílastæðum og inngangi. Þá kom fram við munnlegan málflutning af hálfu stefndu að einnig þyrfti aðkomu ökutækja að baklóð til að hirða sorp frá húsinu og koma með vörur. Stefnandi hefur ekki viljað heimila akstur um lóð sína. Af hálfu eigenda húss nr. 85 var höfðað mál á hendur stefnanda til að koma á umræddum umferðarrétti, en þeirri kröfu var endanlega hafnað með dómi Hæstaréttar 8. október 2009 í máli 118/2009. Var í því máli m.a. vísað til þess að umræddur umferðarréttur hefði ekki verið keyptur af stefnanda og heldur ekki tekinn eignarnámi og var ekki talið að deiliskipulagið gæti eitt og sér talið hafa þær réttarverkanir sem eigendur húss nr. 85 byggðu á. Stefnda átti ekki aðild að umræddu máli.

                Í málinu liggja fyrir gögn og upplýsingar um að stefnda leitaði samninga við stefnanda en þær viðræður báru ekki árangur. Með bréfi 2. júlí 2013 óskaði stefnda eftir umsögn Skipulagsstofnunar vegna væntanlegs eignarnáms vegna umferðarkvaðarinnar, sbr. 1. tl. 2. mgr 50. gr. laga nr. 123/2010. Með bréfi Skipulagsstofnunar 23. ágúst 2013 veitti stofnunin umsögn sína og taldi skilyrði eignarnáms fyrir hendi. Borgarlögmaður setti fram 16. september 2013 tillögu til borgarráðs stefndu um að umrædd umferðarkvöð yrði tekin eignarnámi á grundvelli framangreindrar lagaheimildar. Gaf borgarráð stefnanda færi á að koma að athugasemdum sínum og gerði hann það með bréfi lögmanns 30. september 2013. Embætti borgarlögmanns veitti umsögn um andmæli lögmanns stefnanda og var það niðurstaða hans að mæla með því að eignarnámið færi fram. Borgarráð samþykkti tillögu um eignarnám 7. nóvember 2013 og 19. nóvember sama ár samþykkti borgarstjórn stefndu eignarnámið og var sú niðurstaða tilkynnt lögmanni stefnanda með bréfi degi síðar. Tillagan tók ekki breytingum frá því borgarlögmaður setti hana fram og þar til hún var endanlega samþykkt af borgarstjórn stefndu. Fól tillagan í sér að tekin var eignarnámi nánar tilgreindur hluti nyrst á lóðinni nr. 87 við Laugaveg undir umferðarkvöð, en beinn eignarréttur á umræddum lóðarhluta var áfram hjá stefnanda.

                Stefnda beindi erindi til matsnefndar eignarnámsbóta um að ákveða bætur vegna eignarnámsins og eftir málsmeðferð fyrir nefndinni var ákveðið að hæfilegar bætur fyrir hið eignarnumda væru 10.500.000 krónur auk nánar tilgreinds kostnaðar. Í kjölfarið greiddi stefnda bæturnar en stefnandi tók við þeim með fyrirvara og kveður fjárhæðina vera tiltæka á bankareikningi. Í málinu liggja fyrir gögn sem sýna að upplýsingum um eignarnámið hefur verið þinglýst á eignina. Fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mun einnig vera til meðferðar krafa um innsetningu í umræddan umferðarrétt en það mál mun vera í fresti og bíða niðurstöðu í því máli sem hér er til meðferðar.

II

                Við munnlegan flutning málsins byggði stefnandi kröfu sína um að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað á þeim forsendum einkum að þó stefna málsins sé ekki ítarleg komi þar þó fram með nægilega skýrum hætti á hverjum málsástæðum stefnandi byggi mál sitt. Þá megi og sjá það af vörnum stefndu að hún veltist ekki í vafa um hvert sakarefnið sé. Verði því ekki talið að ætluð vanreifun hafi leitt til þess að stefnda gæti ekki með fullnægjandi hætti komið að fullum vörnum í málinu. Hafi stefnda í raun með vörnum sínum í greinargerð bætt úr þeim ágöllum sem kunni að hafa verið á málatilbúnaði stefnanda. Kveðst stefnandi og benda á að stefnda sé stjórnvald sem beitt hafi eignarnámi til að skerða stjórnarskrárvarinn eignarrétt stefnanda. Verði ekki séð að nokkrir hagsmunir stefndu standi til þess að mál þetta fái ekki nú efnislega meðferð.

                Í stefnu kemur fram að stefnandi byggi á því að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til þess eignarnáms sem stefnda hafi tekið ákvörðun um 19. nóvember 2013. Sé sveitarstjórn í fyrsta lagi ekki heimilt á grundvelli 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, að taka eignarnámi umferðarrétt eða önnur óbein eignarréttindi. Verði ekki fallist á ofangreinda málsástæðu byggi stefnandi á því að sveitarstjórn sé í öllu falli ekki heimilt á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010, að taka eignarnámi umferðarrétt eða önnur óbein eignarréttindi en stefnda hafi byggt ákvörðun sína á tilvitnuðu lagaákvæði.

                Að framangreindum málsástæðum frágengnum byggi stefnandi á því að stefnda fái hvorki umráð hins eignarnumda samkvæmt hinni umdeildu eignarnámsákvörðun, svo sem áskilið sé til þess að 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 geti átt við, né heldur búi almannaþarfir að baki ákvörðuninni, heldur hagsmunir eigenda tiltekinna annarra fasteigna er liggi að lóð nr. 87 við Laugaveg.

                Í fjórða lagi kveðst stefnandi byggja á því að hin umdeilda eignarnámsákvörðun hafi ekki verið tekin með þeim hætti sem 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 áskilji, þar sem umsagnar skipulagsstofnunar hafi ekki verið aflað með réttum hætti.

                Loks uppfylli ákvörðunin ekki skilyrði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um almenningsþörf. Hún uppfylli heldur ekki ákvæði 1. gr. samningsviðauka I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 2. tl. 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

                Í beiðni sinni til matsnefndar eignarnámsbóta frá 9. desember 2013 segist stefnda byggja eignarnámsheimild sína á 1. tl. og 5. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Sé þessi tilvísun til réttarheimilda ekki í samræmi við þann lagagrundvöll sem stefnda hafi byggt á fram til þess og þegar tekin hafi verið ákvörðun um eignarnám. Í lögbundinni umsagnarbeiðni stefndu til skipulagsstofnunar og svari þeirrar stofnunar við beiðninni hafi einungis verið vísað til 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Í samræmi við almennar reglur geti stefnda ekki byggt á öðrum lagagrundvelli í máli þessu.

                Til stuðnings kröfum sínum kveðst stefnandi vísa aðallega til reglna stjórnsýsluréttar, ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010, auk ákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um vernd eignarréttarins. Um málskostnað kveðst stefnandi vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Stefnda kveðst byggja aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að málsástæður  sem stefnandi byggi málsókn sína á séu ekki svo skýrar sem gera verði kröfur til samkvæmt e. lið 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lýsing málsástæðna í stefnu sé svo knöpp og takmörkuð að málsástæður séu óskýrar og óljóst sé á hverju stefndi byggi kröfu sína. Það geri stefndu nær ómögulegt að taka til varna í málinu. Sé málið því vanreifað og beri að mati stefndu að vísa því frá dómi af þeim sökum.

                Til vara krefjist stefnda sýknu. Stefnandi byggi á því að ekki séu fyrir hendi lagaskilyrði til eignarnáms stefndu. Kveðst stefnda mótmæla því eins og nánar verði gerð grein fyrir hér að neðan.

                Stefnda mótmæli þeim skilningi stefnanda að ekki sé unnt að taka eignarnámi hluta fasteignar á grundvelli 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Kveðst stefnda byggja á því að lagaskilyrði 1., 2. og 5. tl. síðastnefndrar lagagreinar séu uppfyllt. Byggi stefnda á 1. tl. lagagreinarinnar en hafi til frekari rökstuðnings vísað til 2. og 5. tl. hennar.

                Stefnda vísi til þess að ekki sé með réttu unnt að gagnálykta frá umræddu lagaákvæði, með þeim hætti sem stefnandi virðist gera, þannig að í því teljist ekki felast  heimild til að taka eignarnámi takmörkuð eignarréttindi. Kveður stefnda engin rök standa til svo þröngrar túlkunar á umræddu lagaákvæði og sé því hafnað að frá ákvæðinu verði gagnályktað með þeim hætti sem stefnandi geri.

                Umrædd 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé samhljóða 32. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997. Sú grein svari til 27. og 28. gr. eldri skipulags- og byggingarlaga, nr. 19/1964. Segja megi að 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 svari einkum til 28. gr. laga nr. 19/1964, en þar hafi sagt: „Heimilt er sveitarstjórn að taka einstakar fasteignir eða hluta fasteignar eignarnámi ef þess gerist nauðsyn vegna framkvæmdar á staðfestu skipulagi.“

                Í greinargerð með skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 segi um 34. gr., sem orðið hafi að 32. gr., sem sé samhljóða 50. gr. núgildandi laga nr. 123/2010: „Greinin svarar til 27. og 28. gr. gildandi laga. Þó er gert ráð fyrir að fyrir liggi umsögn Skipulagsstofnunar og bætt er við heimild til þess að taka eignarnámi efnisnámur eða takmörkuð eignarréttindi að þeim.

                Þurfi eignarnám til framkvæmda á gildandi deiliskipulagi nægir sveitarstjórn að fá umsögn Skipulagsstofnunar, enda er um aðstæður að ræða sem nánar eru tilteknar í greininni í fimm liðum. Hér er um nýmæli að ræða. Enn fremur er eignarnám því aðeins heimilt að sveitarstjórn hafi áður með sannanlegum og sanngjörnum hætti leitast við að ná samningum við eiganda þeirrar eignar eða réttinda sem hún byggir eignarnám sitt á og þykir rétt að taka það sérstaklega fram í lögunum þótt vitanlega hafi þeirri reglu verið fylgt við eignarnám til þessa.“

                Ekki verði ráðið af tilvitnaðri greinargerð að ætlunin hafi verið að breyta efnisinntaki ákvæðisins eða því sem almennt hafi tíðkast og venja skapast um. Þá verði ekki ráðið af greinargerðinni að skerða ætti heimildir sveitarstjórnar frá því sem verið hafi. Samkvæmt eldra ákvæði sé alveg ljóst að heimilt hafi verið að gera eignarnám í hluta fasteignar. Tilgangurinn með upptalningu í greininni virðist eingöngu vera sá að gera frekar grein fyrir þeim tilvikum eða aðstæðum sem greinin heimili eignarnám vegna. Þær aðstæður eða tilvik sem heimili eignarnám samkvæmt greininni séu: 1. almannaþarfir, 2. nýting lóðar í ósamræmi við skipulag, 3. verndun friðaðra eða hverfisverndaðra eigna, 4. eignir á byggingarreitum sem endurbyggja eigi, 5. breyting á lóðum. Stefnda telji að ekki sé hægt að leggja þá merkingu í mismunandi orðalag töluliðanna að hver þeirra heimili ekki eignarnám nema nákvæmlega í þeim fasteignarréttindum sem tilgreind séu í hverjum lið. Slík samanburðarskýring og gagnályktun styðjist ekki við rök eða lögskýringargögn. Ef fallist væri á á málsástæðu stefnanda, um að enginn töluliður 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 feli í sér heimild til eignarnáms takmarkaðra eignarréttinda myndi sú túlkun leiða til þess að sveitarfélagi væri heimilt að taka eignarnámi takmörkuð eignarréttindi samkvæmt staðfestu aðalskipulagi, sbr. 1. mgr. 50. gr. laganna, en ekki á grundvelli skýrari heimildar í deiliskipulagi, sbr. 2. mgr. sama lagaákvæðis. Sé svo þröngri lögskýringu alfarið mótmælt af hálfu stefndu, enda samræmist hún hvorki markmiði né tilgangi laganna.

                Í 5. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 segi að um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta fari eftir lögum nr. 11/1973 um framkvæmt eignarnáms. Sé öllum vafa um framangreinda túlkun 50. gr. laga nr. 123/2010 eytt í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 þar sem segi: „Ef ekki leiðir annað af heimildarlögum, má með eignarnámi afla eignarréttar að landi og mannvirkjum ásamt því, sem þeim fylgir, skerða um ákveðinn tíma eða fyrir fullt og allt eignarrétt eða takmörkuð eignarréttindi yfir fasteign og stofna eða fella niður afnotaréttindi, ítaksréttindi og önnur takmörkuð eignarréttindi yfir fasteignum.“

                Með vísan til síðastnefnds ákvæðis laga nr. 11/1973 verði 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 ekki túlkaður á annan hátt en svo að vegna almannaþarfa sé heimilt að gera eignarnám í fasteign í heild eða að hluta, hvort sem um sé að ræða lóð eða mannvirki, tímabundið eða ótímabundið og eins að stofna eða fella niður afnotaréttindi, ítaksréttindi og önnur takmörkuð eignarréttindi. Sömu sjónarmið eigi eðli málsins samkvæmt einnig við um töluliði 2 til 5 í 2. mgr. 50. gr. laga nr.123/2010.

                Engin efnisrök standi til þess að túlka lagagreinina á þann hátt sem stefnandi geri, þ.e. að eingöngu sé heimilt að taka fasteign eignarnámi í heild þó eignarnemi þurfi ekki nema hluta eignar, eða tiltekin réttindi, vegna almannaþarfa. Slík túlkun gengi að auki gegn sjónarmiðum um meðalhóf. Hagsmunir eignarnámsþola að þessu leyti séu að auki tryggðir í lögum um framkvæmd eignarnáms. Telji eignarnámsþoli að eign skerðist með þeim hætti við eignarnám að sá hluti hennar sem eftir standi verði ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign geti eigandi sett fram þá kröfu að matsnefnd kveði á um að eignarnám skuli taka til allrar eignarinnar. Rétt sé að taka fram að stefnandi hafi hvorki sett fram slíka kröfu fyrir matsnefnd eignarnámsbóta eða í dómsmáli þessu. Um réttindi þessi sé kveðið á um í 12. gr. laga nr. 11/1973. Til viðbótar framangreindu sé viðurkennt, við skýringu á lögum, að ef lög heimili hið meira beri jafnan að líta svo á að hið minna sé jafnframt heimilt ef það sé ekki sérstaklega bannað.

                Ákvæði 1. tl. 2. mgr. 32. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997, sem sé samhljóða ákvæði 1. tl. 50. gr. núgildandi skipulagslaga, hafi verið beitt á sambærilegan hátt og eignarnemi byggi á í máli þessu, þ.e. með eignarnámi á hluta fasteignar en ekki fasteignar í heild. Megi í því sambandi m.a. vísa til dóms Hæstaréttar frá 6. desember 2012 í máli nr. 329/2012, sem og dóma Héraðsdóms Vesturlands 28. desember 2010 í málum nr. E-110 og 111/2010. Í málunum hafi engar athugasemdir verið gerðar við að hluti eigna væri tekinn eignarnámi á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Í því felist staðfesting á að greinin veiti ekki eingöngu heimild til eignarnáms fasteignar í heild.

                Stefndi telji að kvöðin sem hér um ræði falli a.m.k. undir 1. tl. 50. gr. laga nr. 123/2010 þar sem um sé að ræða almannaþörf sem felist nánar í því að tryggja að uppbygging samkvæmt skipulaginu nái fram að ganga þannig að skipulagið í heild gangi upp og sú þétting byggðar sem þar sé fyrirhuguð. Um sé að ræða almannaþörf þrátt fyrir að þessi hluti kvaðarinnar taki eingöngu til einnar lóðar og varði hagsmuni nokkurra lóðarhafa á svæðinu, þ.e. einkum lóða nr. 85 og 89-91. Líta verði til aksturskvaðarinnar í heild, frá upphafi til enda, og skipulagsins í heild. Í því sambandi sé minnt á að eigandi lóðanna nr. 89 og 91 búi við sömu kvöð til hagsbóta fyrir stefnanda, eiganda lóðarinnar nr. 87, sem hafnað hafi að slíkur réttur verði settur um hans lóð. Áréttað sé að kvöðin yfir lóðina nr. 87 sé líka til hagsbóta fyrir lóðarhafa á lóðunum nr. 89 og 91. Hún sé þeim nauðsynleg vegna aðkomu að bílastæðum sem tilheyri þeim húsum og séu á lóðinni nr. 100A við Hverfisgötu.

                Þá telji stefndi að eignarnámið falli undir 2. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 þar sem eignarnámsþoli nýti lóð nr. 87 við Laugaveg ekki á þann hátt sem deiliskipulagið kveði á um, þ.e. með því að koma í veg fyrir gegnumakstur en það sé í andstöðu við skipulag svæðisins.

                Auk þess telji stefndi að eignarnámið falli undir 5. tl. sama lagaákvæðis, enda standi lóð stefnanda í vegi fyrir nýrri lóðarskiptingu sem sem kveðið sé á um í deiliskipulaginu. Þegar hið umrædda deiliskipulag hafi öðlast gildi hafi það ekki samrýmst þeirri hagnýtingu lóðar nr. 87 við Laugaveg að heimila ekki gegnumakstur um lóðina. Við þær aðstæður og að fenginni jákvæðri umsögn Skipulagsstofnunar hafi eignarnema verið heimilt samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði að taka eignarnámi hluta lóðarinnar sem staðið hafi nýrri lóðarskiptingu í vegi, þ.e. að heimila gegnumakstur.

                Stefnandi virðist halda því fram að skilyrði 1. tl. 50. gr. laga nr. 123/2010, um að sveitarfélagi sé nauðsynleg yfirráð fasteignar vegna almannaþarfa sé ekki uppfyllt. Stefndi hafi á fyrri stigum málsins vísað til þess að hugtakið almannaþörf vísi til þess sem nefnt sé „sameiginlegar framkvæmdir og rekstur“ í greinargerð með 24. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (greinin sé samhljóða 39. gr. núgildandi laga). Stefndu sé ekki ljóst til hvers stefnandi sé að vísa enda ekki gerð grein fyrir því í stefnu. Sé stefnandi að vísa til framangreinds mótmæli stefnda slíkri túlkun. Telji stefnda að um misskilning sé að ræða á hugtakinu „almannaþörf“. Hvorki sé hægt að skilja lagagreinina sjálfa né athugasemdir um hana þannig að með hugtakinu almannaþarfir sé aðeins átt við „sameiginlegar framkvæmdir og rekstur“, en til þess sé aðeins vísað varðandi þann hluta af skipulögðu svæði sem fari undir götur, leikvelli og opin svæði. Hugtakið „almannaþarfir“ hafi víðtækari merkingu. Svo sem fram komi í gögnum málsins felist almenningsþörf í því tilviki sem hér um ræði í því að tryggja að uppbygging samkvæmt gildandi deiliskipulagi nái fram að ganga þannig að skipulagið í heild gangi upp og sú þétting byggðar sem þar sé fyrirhuguð. Um sé að ræða almenningsþörf, þó svo að hluti svæðisins sem tekinn hafi verið eignarnámi varði eingöngu með beinum hætti hagsmuni nokkurra lóðarhafa á svæðinu, þ.e. einkum hagsmunaaðila á lóðum nr. 85 og 89-91. Stefnda telji jafnframt að líta verði á akstursleiðina í heild sinni, þ.e. frá upphafi til enda og til heildarmyndar gildandi deiliskipulags fyrir reitinn. Þá verði að líta til þeirrar uppbyggingar sem þar sé gert ráð fyrir m.a. á lóð stefnanda. Í því sambandi sé minnt á að eigendur lóða nr. 89 og 91 búi við kvöð um akstur á sínum baklóðum til hagsbóta fyrir stefnanda. Áréttað sé að aksturskvöðin yfir lóð stefnanda sé líka til hagsbóta fyrir lóðarhafa á lóðum nr. 89 og 91. Hún sé þeim nauðsynleg vegna aðkomu að bílastæðum sem tilheyri þeim húsum og séu á lóðinni nr. 100A við Hverfisgötu.

                Stefnandi haldi því fram að umsagnar Skipulagsstofnunar hafi ekki verið aflað með réttum hætti án þess að skýra það frekar.

                Á fyrir stigum hafi stefnandi haldið því fram að umsögn Skipulagsstofnunar 14. ágúst 2013 uppfylli ekki kröfur 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Því mótmæli stefnda þ.e. ef það er það sem stefnandi eigi við. Telji stefnda að málsmeðferðarreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins hjá stefndu.

                Í erindi til Skipulagsstofnunar, 2. júlí 2013, komi skýrt fram: „Fyrirhugað eignarnám tekur til 42,24 fermetra af Laugavegi 87, sbr. meðfylgjandi mæliblað (fskj. 3). Svo sem fyrr segir er um að ræða svæði sem er eina mögulega aðkoma akandi að baklóðinni nr. 85. Umferðarkvöðin sem um ræðir fellur undir 1. tl. 2.mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem um almannaþörf er að ræða.“ Í lok erindisins segi: „Flöturinn sem yrði tekinn eignarnámi verður 10,56 m á lengd og 4 m á breidd, sjá nánari útfærslu og hnit á meðfylgjandi mæliblaði (fskj. 3). Rétt er að geta þess að kvöðin um umferð kæmi í stað 2 m breiðrar kvaðar um gangréttindi sem er nú þegar á lóðinni (fskj. 5).“

                Af framangreindu sé ljóst að óskað hafi verið umsagnar um að taka tiltekinn hluta af lóð fasteignarinnar Laugavegs 87 eignarnámi fyrir umferðarkvöð. Í umsögn Skipulagsstofnunar 14. ágúst 2013 segi: „Með vísan til framangreinds, sem og annarra gagna málsins er það mat Skipulagsstofnunar að sýnt hafi verið fram á af hálfu Reykjavíkurborgar að skilyrði 1. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 séu uppfyllt í umræddu máli og gerir stofnunin því ekki athugasemd við að sveitarfélagið taki eignarnámi þar sem umferðarkvöð liggur yfir lóð nr. 87 við Laugaveg. Í þessu samhengi er m.a. litið til þess að lóðareigendur á nr. 89 og 91 við Laugaveg þurfa að þola umferðarkvöð um sína eign til að lóðareigandi nr. 87 geti nýtt sér bílastæði á sinni lóð og því umferðarkvöðin í gegnum lóð nr. 87 hluti af aðkeyrslu fyrir íbúa í bakhúsum við Laugaveg og Hverfisgötu…“

                Í tillögu borgarlögmanns til borgarráðs 16. september 2013 hafi verið lagt til að borgarráð samþykkti eftirfarandi: „Í ljósi þess að viðræður við eiganda lóðarinnar nr. 87 við Laugveg hafa ekki borið árangur samþykkir borgarráð að taka 42,24 fermetra nyrst á lóðinni nr. 87 við Laugaveg eignarnámi fyrir umferðarkvöð fyrir akandi umferð. Er þetta í samræmi við þá umferðarkvöð sem kveðið er á um í deiliskipulagi svæðisins og nánar er gerð grein fyrir á mæliblaði Landupplýsingadeildar, dags. 4. febrúar 2013. Kvöðin er 4 m á breidd og 10,56 m á lengd eða 42,24 fermetrar að flatarmáli. Lóðarhlutinn tilheyrir lóðinni áfram en á honum mun hvíla kvöð um akstur.“

                Stefnanda hafi verið tilkynnt um framangreinda tillögu með bréfi 20. september 2013. Í bréfi borgarlögmanns til borgarráðs 29. október 2013 sé einnig farið yfir þetta atriði. Stefnandi hafi fengið færi á að koma fram með andmæli sín. Lagt hafi verið til við borgarráð stefndu að það samþykkti tillöguna og það hafi verið gert og í kjölfarið hafi borgarstjórn stefnda einnig samþykkt tillöguna 19. nóvember 2013. Stefnanda hafi verið tilkynnt þetta með bréfi degi síðar.

                Stefnandi hafi haldið því fram að þar sem stefnda hafi skilgreint stærð þess svæðis sem færi undir umferðarkvöðina með hugtakinu „flötur“ geti ekki verið um kvöð að ræða. Stefnda hafni þessu enda hafi henni verið heimilt að nota umrætt hugtak við skilgreiningu á stærð þess svæðis sem færi undir umferðarkvöðina.

                Af erindi stefnda til Skipulagsstofnunar, umsögn Skipulagsstofnunar, samþykktri tillögu borgarráðs og umsögn borgarlögmanns sé ljóst að stefnda hafi óskað eftir að taka hluta af lóð stefnanda eignarnámi fyrir umferðarkvöð. Enginn brestur sé því á að málsmeðferðarreglum skipulagslaga hafi verið fylgt.

                Stefnandi byggi á því að ákvörðunin um eignarnám uppfylli ekki skilyrði 72. gr. stjórnarskrár um almenningsþörf eða ákvæði 1. gr. samningsviðauka I við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 2. tl. 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Málsástæðu þessa skýri stefnandi ekki á nokkurn hátt og því ógerningur fyrir stefndu að átta sig á því hvað stefnandi sé að meina nákvæmlega. Stefnda mótmæli fullyrðingunni og vísi til þess sem að framan greini um almenningsþörf og þess sem fram komi í gögnum málsins þar um.

                Eins og rakið sé að framan byggi stefnda eignarnám sitt á 1. tl. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010 en hafi til frekari rökstuðnings vísað til 2. og 5. tl. sama lagaákvæðis. Stefnda telji þó að jafnvel þó komist yrði að þeirri niðurstöðu að stefnda hefði við ákvörðunina ekki vísað til rétts töluliðar umræddrar lagagreinar ógildi það ekki eignarnámið.

                Máli sínu til stuðnings kveðst stefnda vísa til ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 50. gr., laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, einkum 3. og 12. gr., stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 72. gr., laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála einkum 80. gr. og XXI. kafla, einkum 130. gr.

                Stefnda kvaðst við munnlegan málflutning mótmæla sem of seint fram kominni málsástæðu sem lúti að því að umfang hins umdeilda umferðarréttar hafi ekki verið nægilega tilgreint í deiliskipulagi.

IV

                Fallist er á með stefndu að málatilbúnaður stefnanda í stefnu hans mætti vera um margt skýrari. Á hinn bóginn eru ekki allar málsástæður hans því marki brenndar að til þeirra verði ekki tekin rökstudd afstaða vegna vanreifunar þeirra. Verður hér að hafa í huga að stefnandi rökstyður kröfur sínar með þessum hætti á eigin áhættu og málsástæður sem teljast óskýrar eða þarfnast nánari rökstuðnings en lesa má úr stefnu verða ekki skýrðar með nýjum málsástæðum, enda teldust slíkar málsástæður of seint fram komnar og yrði þá ekki litið til þeirra við úrlausn málsins. Þá verður og að hafa í huga að hin ætlaða vanreifun á málatilbúnaði stefnanda virðist ekki á neinn hátt hafa hamlað vörnum stefndu. Með vísan til þess sem að framan greinir er frávísunarkröfu stefndu hafnað.

                Í máli þessu liggur fyrir deiliskipulagsuppdráttur og einnig greinargerð með því skipulagi. Er þar mælt fyrir um umferðarkvöð fyrir bílaumferð um lóð stefnanda að lóðinni nr. 85 við sömu götu. Af uppdrætti má sjá að sú kvöð liggur yfir nyrsta hluta lóðarinnar. Ekki mun hafa verið um að ræða nákvæman útreikning á umfangi kvaðarinnar fyrr en lögð var fram ósk um umsögn Skipulagsstofnunar en þá var flatarmál gefið upp ásamt breidd og lengd. Ekki verður séð að fótur sé fyrir röksemdum stefnanda um að umsagnarbeiðni til Skipulagsstofnunar og umsögn hennar í kjölfarið hafi á einhvern hátt verið á öðrum grundvelli en hið umdeilda eignarnám. Verður því að hafna röksemdum hans sem á þeirri forsendu byggja.

                Um heimild til eignarnámsins vísaði stefnda til 1. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í nefndu ákvæði greinir að sveitarstjórn sé heimilt að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar og á grundvelli gildandi deiliskipulags að taka eignarnámi vegna framkvæmdar skipulagsins fasteignir sem sveitarstjórn er samkvæmt skipulaginu nauðsynlegt að fá umráð yfir til almenningsþarfa.

                Fyrir liggur í gildandi deiliskipulagi að mælt er fyrir um umferðarkvöð akandi umferðar yfir lóð stefnanda. Í umræddu skipulagi, ásamt greinargerð með því, var gerð grein fyrir umfangi umræddrar umferðarkvaðar með nægilega afmörkuðum hætti, enda var sá flötur lóðar stefnanda sem háður er umferðarréttinum síðar mældur upp og hefur stefnandi ekki teflt fram neinum sjónarmiðum um að flöturinn sé af einhverjum ástæðum minni eða stærri en rétt skuli vera. Verður ekki talið að eignarnámið hafi verið víðtækara en lagaheimild hafi staðið til.

                Leggja verður til grundvallar að umrætt eignarnám sé framkvæmt til að hrinda í framkvæmd umræddu ákvæði deiliskipulagsins, enda hafa samningar ekki tekist milli málsaðila. Það er álit dómsins að við mat á almannaþörf í skilningi umrædds lagaákvæðis verði að horfa til markmiðs deiliskipulags í heild sinni. Hefur það ekki úrslitaáhrif í þessu samhengi hvort hið umdeilda eignarnám gagnast mörgum eða fáum. Verður því hafnað málsástæðum stefnanda sem lúta að því að umferðarréttur um eignarlóð hans gagnist aðeins eiganda eins húss. Verður hér að horfa til þess að með umræddu deiliskipulagi var m.a. heimilað aukið byggingamagn á tveimur lóðum og gerir skipulagið ráð fyrir aðkomu bifreiða til vöruafhendingar og sorphreinsunar um baklóðir húsanna. Er því ekki aðeins um að ræða bílastæði heldur aðkomu að umræddu húsi til að nýting þessi geti orðið með eðlilegum hætti og  í samræmi við nýtingu þess samkvæmt hinu nýja deiliskipulagi. Þá verður ekki annað séð en að stefnanda hafi verið reiknaðar og greiddar fullar bætur vegna eignarnámsins. Þá verður að hafna þeim sjónarmiðum stefnanda að stefndu hefði aðeins verið heimilt á grundvelli 1. tl. 2. mgr. 50. gr. skipulagslaga að taka alla fasteign stefnanda eignarnámi. Er það meginregla að hið meira feli í sér hið minna og er það í samræmi við meðalhófsreglu stjórnskipunar og stjórnsýsluréttar. Fær þessi niðurstaða einnig stoð í skýrum fyrirmælum 1. mgr. 3. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, sbr. 5. mgr. 50. gr. laga nr. 123/2010. Því er og hafnað að þau réttindi sem stefnda hafi tekið eignarnámi séu þess eðlis að stefndu sé ekki unnt að taka umráð þeirra eins og stefnandi heldur fram. Verður ekki séð annað en að stefndu sé fært að taka umráð hinna takmörkuðu eignarréttinda og nýta þau.

                Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar er öllum málsástæðum stefnanda hafnað og fallist á að við framkvæmd umrædds eignarnáms hafi verið gætti réttra málsmeðferðarreglna og eignarnámið hafi verið lögmætt, málefnalegt og að gætt hafi verið andmælaréttar og meðalhófs. Verður stefnda því sýknuð af kröfum stefnanda í máli þessu.

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í dómsorði.

                Af hálfu stefnanda flutti málið Óskar Sigurðsson hrl., en af hálfu stefndu Ívar Pálsson hrl.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómara.

D Ó M S O R Ð:

                Kröfu stefndu, Reykjavíkurborgar, um frávísun málsins er hafnað.

                Stefnda er sýknuð af kröfum stefnanda, Harðar Jónssonar, í máli þessu.

                Stefnandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað.