Print

Mál nr. 37/2014

Lykilorð
  • Réttarfarssekt
  • Verjandi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Réttlát málsmeðferð
  • Sératkvæði

Dómsatkvæði

                                     

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 37/2014.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

Gesti Jónssyni og

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

Ragnari Halldóri Hall

(Gísli Guðni Hall hrl.

Geir Gestsson hdl.)

Réttarfarssekt. Verjandi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Réttlát málsmeðferð. Sératkvæði.

G og R voru skipaðir verjendur Y og Z sem ákærðir voru í sakamáli. Áður en aðalmeðferð málsins átti að fara fram rituðu þeir héraðsdómara bréf þar sem því var lýst yfir að þeir myndu ekki sinna frekari verjendastörfum í málinu þar sem þeir teldu að brotið hefði verið gegn rétti skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Óskuðu þeir eftir því að vera þegar í stað leystir undan starfanum, en þeirri beiðni synjaði héraðsdómari. Er aðalmeðferð átti að fara fram mættu G og R ekki til þinghalds og voru þeir því leystir frá verjendastörfum í málinu og skjólstæðingum þeirra skipaðir nýir verjendur. Að auki var aðalmeðferð málsins frestað ótiltekið. Með dómi í sakamálinu voru G og R dæmdir til að greiða 1.000.000 krónur hvor um sig í sekt til ríkissjóðs, en dómurinn var kveðinn upp að þeim fjarstöddum. Að ósk G og R var dóminum hvað þetta varðaði áfrýjað til Hæstaréttar, en þeir báru því annars vegar við að þeir hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem þeim hefði ekki verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum áður en þeim var ákvörðuð sektin og hins vegar að þeir hefðu haft réttmætar ástæður til þess að segja sig frá verjendastörfum í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að G og R hefði borið að mæta til þings við aðalmeðferð málsins og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina eftir því sem efni hefðu staðið til. Hefði háttsemi þeirra hvorki verið í þágu skjólstæðinga þeirra né annarra ákærðu auk þess sem yfirlýsingar þeirra um að þeir létu af verjendastörfum hefðu falið í sér gróft brot á starfsskyldum þeirra sem verjendur í sakamáli, sbr. 1. mgr. 35. gr., sbr. 34. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að fjárhæð réttarfarssektar, sem ákveðin væri samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, væri ekki bundin tilteknu hámarki og hefðu sektir G og R numið hárri fjárhæð. Þegar litið væri til beggja þessara atriða yrði talið að sektirnar væru í eðli sínu refsing. Taldi Hæstiréttur að það hefði ekki horft G og R til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hefði ekki farið fram í héraði, áður en ákvörðun hefði verið tekin um að gera þeim réttarfarssekt þar sem réttur þeirra til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi sætti að lögum engum takmörkunum og hefðu þeir getað komið að öllum sjónarmiðum sínum við munnlegan flutning málsins, eftir atvikum með því að þeir og vitni gæfu skýrslur fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 205. gr. lag nr. 88/2008, eða að undangengnu sérstöku vitnamáli, sbr. 1. mgr. 141. gr. sömu laga. Samkvæmt því fullnægði málsmeðferðin ákvæðum laga og bryti hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um réttarfarssekt á hendur G og R.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. janúar 2014 í samræmi við yfirlýsingu varnaraðila um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um að varnaraðilar skuli hvor um sig greiða 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.  Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert að greiða óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins.

Varnaraðilar, sem ekki óskuðu eftir því að þeim yrði skipaður verjandi vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, krefjast þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði felldur úr gildi að því er varðar ákvörðun um sekt þeirra, en til vara að sektin verði lækkuð. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Með ákæru 16. febrúar 2012 höfðaði sérstakur saksóknari sakamál á hendur fjórum mönnum, þeim X, Y, Z og Þ. Voru X og Y gefin að sök umboðssvik og markaðsmisnotkun í viðskiptum á árinu 2008. Á þeim tíma sem ákæra tekur til var X forstjóri A hf. og í lánanefnd stjórnar bankans, Y stjórnarformaður bankans og formaður lánanefndar, Þ framkvæmdastjóri E S.A., en Z stærsti eigandi N hf., eiganda O hf., en það félag var sagt hafa verið eigandi [...] félags, P B.V., eiganda Q B.V., annars [...] félags, sem hafi verið eigandi 9,88% hlutafjár A hf. Þ og Z var gefin að sök tilraun til markaðsmisnotkunar og hlutdeild í umboðssvikum og þeim síðarnefnda til vara hilming við umboðssvik. Varnaraðilar eru hæstaréttarlögmenn og var varnaraðilinn Gestur skipaður verjandi Y, en varnaraðilinn Ragnar verjandi Z. Þá voru hinir tveir ákærðu hvor með sinn verjanda. 

Eins og nánar greinir í héraðsdómi voru Y og X í a. lið II. kafla ákærunnar gefin að sök umboðssvik með því að hafa misnotað aðstöðu sína og farið út fyrir þær heimildir sem þeir höfðu til lánveitinga hjá A hf. í september 2008. Hafi þeir í sameiningu látið bankann veita tilteknu félagi í eigu Z lán með þeim hætti sem lýst var í ákæru og með því valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Í b. lið þessa kafla ákæru var Z aðallega gefin að sök hlutdeild í framangreindu broti, með því að hafa, ásamt Y og X, lagt á ráðin um að lánið yrði greitt úr sjóðum bankans og látið tiltekið félag sitt taka við lánsfjárhæðinni án þess að lagðar væru fram ábyrgðir eða tryggingar, í þeim tilgangi að fjárhæðinni yrði ráðstafað áfram til annars félags til viðskipta sem lýst var í III. kafla ákærunnar. 

Í a. lið III. kafla ákærunnar voru Y og X ákærðir fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í A hf. í september 2008. Hafi háttsemin meðal annars falist í því að láta ranglega líta svo út að tiltekinn maður hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu, þegar reyndin hafi verið önnur, eins og lýst var í ákærunni. Um hafi verið að ræða viðskipti með stóran hlut í bankanum, sem falið hafi í sér blekkingu og sýndarmennsku. Hafi þau einnig verið líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin hafi verið full fjármögnun bankans sjálfs á viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, Z, að þeim og einnig dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hafi hvílt á bankanum sjálfum eftir viðskiptin. Í b. lið þessa kafla ákærunnar voru Z og Þ ákærðir fyrir hlutdeild í framangreindu broti. Hafi þeir haft milligöngu um að koma viðskiptunum á og átt samskipti við kaupanda hlutabréfanna um viðskiptin. Hafi Z tekið þátt í undirbúningnum og að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika með aðkomu að fjármögnun þeirra eins og lýst var í II. kafla ákærunnar.

Í IV. kafla ákærunnar var ákærðu öllum gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa í september 2008 í fréttatilkynningu, sem birt var á vef Kauphallar Íslands og í viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem gefið hafi eða verið líklegar til þess að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um þau viðskipti með hlutabréf sem lýst var í III. kafla ákærunnar. Í a. lið þessa kafla ákærunnar var því lýst að ákærðu hafi allir veitt atbeina sinn að því að A hf. hafi á tilgreindum tíma birt fréttatilkynningu á vef Kauphallar Íslands vegna viðskiptanna. Þá voru í stafliðum c. og d. í sama kafla tilgreind ummæli Z og Y í nafngreindum fjölmiðlum, meðal annars um viðskiptin og ætlaða þýðingu þeirra fyrir A hf.

II

Málið var þingfest 7. mars 2012. Ákærðu mættu ekki til þings, en lögmenn fyrir þeirra hönd. Upp kom ágreiningur um fjölföldun og tilhögun afhendingar á 95 geisladiskum með upptökum af yfirheyrslum grunaðra og vitna við rannsókn málsins. Var boðaður málflutningur um þann ágreining 29. mars 2012. Í þinghald 16. mars 2012 neitaði ákærði Y sök og aðrir ákærðu á dómþingi 29. sama mánaðar. Var lögð fram bókun verjenda vegna gagnaframlagningar og þeim veittur frestur til 24. maí 2012 til skila á greinargerðum. Var málinu jafnframt frestað til 25. apríl 2012 til flutnings um ágreining, annars vegar vegna afhendingar gagna og hins vegar hvort fella skyldi greinargerð rannsakenda úr málsgögnum. Munnlegur málflutningur fór fram 27. apríl 2012, jafnframt því sem ákæruvaldið skilaði greinargerð og verjendur lögðu fram bókun. Gekk úrskurður um framangreindar kröfur 4. maí 2012 þar sem synjað var um að fella úr gögnum framangreint skjal en kröfu um afhendingu gagna var vísað frá héraðsdómi. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar sem með dómi 16. maí 2012 í máli nr. 325/2012 vísaði fyrrgreindri kröfu frá Hæstarétti, en síðari kröfunni heim í hérað til efnisúrlausnar. Hinn 24. maí 2012 fór fram málflutningur um þá kröfu og jafnframt hvort veita ætti frekari frest til að skila greinargerðum af hálfu ákærðu. Hinn 29. maí 2012 gekk svo úrskurður þar sem synjað var öðrum kröfum en kröfu um frekari frest til að skila greinargerðum, sem veittur var til 1. október 2012. Var úrskurðurinn kærður til Hæstaréttar sem með dómi 8. júní 2012 í máli nr. 392/2012 staðfesti hann. Var greinargerðum skilað í þinghaldi á tilsettum tíma, jafnframt því sem lögð voru fram frekari gögn og málinu frestað til 29. október 2012 til flutnings um fram komnar frávísunarkröfur ákærðu. Að loknum málflutningi um þær 1. nóvember 2012, þar sem einnig voru lögð fram frekari gögn, var úrskurður kveðinn upp 20. nóvember 2012. Var vísað frá dómi b. lið I. kafla ákærunnar, sem varðaði Þ og b. lið III. kafla, sem varðaði Þ og Z og IV. kafla að því leyti sem sakargiftir beindust að Þ. Með dómi Hæstaréttar 10. desember 2012 í máli 703/2012 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka þessa liði ákæru einnig til efnismeðferðar.

Hinn 11. desember 2012 sendi dómarinn tölvuskeyti til verjenda og ákæruvalds þar sem hann gaf þeim kost á að koma með óskir um hvenær best hentaði að halda aðalmeðferð í málinu og láta í ljós álit um hversu langan tíma hún myndi taka. Í tölvuskeyti þann dag hafði verjandi X um það orð að erfitt væri að leggja til tímasetningu fyrir aðalmeðferðina fyrr en fyrir lægi vitnalisti og afstaða ákæruvalds til tiltekinna áskorana í greinargerð X. Næstu daga gengu tölvupóstar milli dómara og verjenda um hentugan tíma fyrir aðalmeðferð. Varð niðurstaðan sú að hún færi fram dagana 11. til 23. apríl 2013. Hinn 19. desember 2012 sendi dómari tölvuskeyti með boðum þess efnis. Sama dag sendi varnaraðilinn Ragnar svofellt tölvuskeyti til dómara, sem einnig barst varnaraðilanum Gesti og öðrum verjendum: „Sæll Pétur. Ég var rétt í þessu að staðfesta móttöku á tilkynningu um aðalmeðferð í málinu. Ég tel rétt að minna á að málið er á þessu stigi ekki tilbúið til aðalmeðferðar, þótt sjálfsagt sé að taka frá tíma í það verkefni. Ákæruvaldið hefur ekki brugðist við áskorunum um framlagningu gagna og ekki gefið út vitnalista. Með jólakveðju Ragnar.“ Þessu svaraði dómarinn tveimur mínútum síðar með orðunum „Gleðileg jól!“  

Málið var því næst tekið fyrir 24. janúar 2013 þar sem lögð voru fram gögn og tilkynnt að dómur yrði fjölskipaður og málinu frestað til fyrirtöku 11. apríl 2013. Næst var málið tekið fyrir 7. mars sama ár og gögn lögð fram af hálfu ákæruvalds. Þá var bókað: „Verjendur óska eftir fresti til að kynna sér þau gögn sem nú eru lögð fram. Þá er óskað eftir fresti til aðalmeðferðar þar sem farið hefur verið fram á það að hæstaréttarmál um frávísunarkröfu ákærðu verði endurupptekið. Af hálfu ákæruvaldsins er þessu mótmælt og krafist að haldið verði við áætlun þá sem gerð hefur verið í málinu. Ákveður dómarinn að haldið verði við áætlunina og að aðalmeðferð í málinu fari fram 11. næsta mánaðar. Sækjandinn upplýsir að D og R hafi báðir færst undan því að bera vitni í málinu. Hinu sama gegni um S lögfræðing. Sé ekki vitað til þess að þessi vitni verði stödd hér á landi þegar aðalmeðferðin fer fram. Af hálfu ákærða Z er þess krafist að úrskurður gangi um þá ákvörðun dómarans að aðalmeðferð málsins hefjist þann 11. næsta mánaðar. Lögmenn reifa sjónarmið sín í þessu máli. Sérstaklega er áréttað af hálfu ákærða Z að gagnaöflun sé ekki lokið í málinu. Sækjandinn tekur fram að af hálfu ákæruvaldsins sé gagnaöflun lokið í málinu. Málið er tekið til úrskurðar um þetta ágreiningsefni.“ Með úrskurði sama dag var synjað kröfu verjenda X, Z og Þ um að aðalmeðferð málsins yrði frestað.

Í þinghaldi 21. mars 2013 voru lögð fram frekari gögn af hálfu ákæruvaldsins og X. Kom á ný fram krafa af hálfu Þ um frestun aðalmeðferðar, nú með þeim rökum að annað mál hefði verið höfðað á hendur honum og nauðsynlegt væri fyrir hann að kynna sér hina nýju ákæru, en veigamikil rök kynnu að vera til þess að sameina málin, sbr. 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið andmælti kröfunni og taldi dómari ekki efni til að verða við henni. Þá var bókað: „Af hálfu ákærðu er þess krafist að þeim verði afhent eftirtalin gögn: 1. Aðallega yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið af lögreglu og ekki hafa verið lögð fram í málinu. 2. Til vara er þess krafist að afhent verði yfirlit yfir öll þau gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell-leitarforriti og fengu heitin ... og ekki voru lögð fram með ákærunni. 3. Til þrautavara er þess krafist að ákærðu verði afhent yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell-leitarforriti og fengu heitin ... og ekki voru lögð fram með ákæru. Ákæruvaldið mótmælir þessari kröfu einnig og upplýsir að gögnin séu ekki til. Sakflytjendur reifa málið um þetta ágreiningsefni og leggja það í úrskurð dómsins. Málið er tekið til úrskurðar.“ Í þinghaldi 25. mars 2013 voru lögð fram „skeytaskipti dómara og málflytjenda 17. og 19. desember sl.“ jafnframt því sem verjendur gerðu kröfu um „frestun á aðalmeðferð um 6-8 vikur.“ Var krafan reifuð og tekin til úrskurðar.

Hinn 26. mars 2013 voru kveðnir upp tveir úrskurðir. Sá fyrri var um höfnun á framangreindum kröfum um afhendingu gagna. Í niðurstöðu úrskurðarins sagði: „Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála skal verjandi, jafnskjótt og unnt er, fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Skilja verður ákvæðið svo að það taki einungis til gagna sem til hafa orðið og eru enn fyrir hendi og að ekki felst í því að lögreglu eða ákæruvaldi sé almennt skylt að útbúa gögn að kröfu verjenda. Ber að synja kröfu ákærðu um það að afhentir verði þeir listar sem krafist er.“

Hinn síðari var með svofelldu úrskurðarorði: „Synjað er kröfum verjenda ákærðu um það að horfið verði frá ákvörðun um aðalmeðferð málsins 11. apríl nk. og þess í stað ákveðið nýtt þinghald í málinu eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna.“ Í forsendum úrskurðarins sagði: „Aðalmeðferð í máli þessu var ákveðin fyrir 14 vikum með samþykki allra málflytjenda í tölvuskeyti og í framhaldi af því var tilkynnt um hana sérstaklega í skeyti til verjendanna, sem þá gerðu enga athugasemd. Nokkuð kveður að því í rekstri sakamála að aðalmeðferð sé ákveðin utan réttar og til hennar boðað með tölvuskeyti. Helgast það af því að rekstur sakamála er hraður og jafnframt af ýmsum ófyrirséðum forföllum sem heyra til þeim flokki mála. Verður ekki séð af 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála að skylt sé að bóka þá ákvörðun í þingbók, þótt það sé reyndar oft gert. Vegna ákvæðis 4. mgr. 165. gr. laga um meðferð sakamála varð að skilja samþykki verjenda um aðalmeðferðina í tölvuskeytum til dómarans í desember svo að gagnaöflun væri lokið af þeirra hálfu. Jafnframt ber að hafa það í huga að dómari ræður rekstri máls, þ. á m. því hvenær aðalmeðferð skuli fara fram. Getur það ekki verið á valdi málsaðila að tefja fyrir henni með því að geyma sér að lýsa gagnaöflun lokið. Krafa verjendanna er reist á því að nauðsynlegt sé að hafa þinghald í málinu eftir 6-8 vikur þar sem verjendum gefist kostur á að bregðast við nýjum gögnum frá ákærandanum, eftir atvikum með framlagningu nýrra gagna. Ekki verður séð að þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu frá því að aðalmeðferð var ákveðin í því séu svo mikil vöxtum eða þess eðlis að þau réttlæti það að hafa sérstakt þinghald í málinu, eins og krafist er, og fresta jafnframt aðalmeðferðinni í því.“

Síðastgreindir úrskurðir voru kærðir til Hæstaréttar sem tók málin fyrir í samræmi við ákvæði 1. mgr. 195. gr., sbr. 3. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008 og vísaði þeim báðum frá réttinum vegna skorts á kæruheimild, sbr. dóma réttarins 4. apríl 2013 í málum nr. 220/2013 og 221/2013.

III

Hinn 8. apríl 2013 rituðu varnaraðilar hvor sitt bréfið til dómara þar sem þeir færðu fram rök fyrir því að þeir teldu sig ekki samvisku sinnar vegna geta áfram tekið þátt í meðferð málsins. Bréfin voru að meginstefnu sama efnis. Í upphafi bréfanna var látið í ljós það álit að dómar Hæstaréttar í framangreindum málum nr. 220/2013 og 221/2013 hefðu gengið áður en liðinn hefði verið frestur skjólstæðinga þeirra til greinargerðarskila, sbr. fyrri málslið 3. mgr. 194. gr. laga nr. 88/2008, en ákæruvaldið hefði ekki sinnt þeirri skyldu að senda varnaraðilum greinargerðir sínar vegna kærumálanna, sbr. 2. málslið sömu málsgreinar. Þar sem skjólstæðingar þeirra hefðu ekki vitað með ótvíræðum hætti hvaða frest þeir hefðu til að leggja fram gögn af sinni hálfu og tjá sig að öðru leyti um sakargiftir væri gróflega brotinn stjórnarskrárvarinn réttur þeirra um réttláta málsmeðferð, sbr. einnig mannréttindasáttmála Evrópu og lög nr. 88/2008. Væru „ofangreindir dómar Hæstaréttar ... aðeins kornið sem fyllir mælinn.“ Auk þess gerðu þeir athugasemdir við að ákæruvaldinu skyldi hafa verið heimilað að leggja fram skýrslu rannsakenda í andstöðu við 56. gr. laga nr. 88/2008 sem væri skriflegur málflutningur, til viðbótar þeim málflutningi sem ákæruskjalið hefði að geyma. Þá hefði ákæruvaldið takmarkað aðgang varnaraðila að fjölmörgum tölvugögnum og skjölum sem þýðingu kynnu að hafa og jafnframt komist upp með það að ákveða sjálft hvaða gögn yrðu lögð fram. Væri því jafnræði aðila gróflega raskað. Enn fremur vísuðu varnaraðilar til þess að sakborningar ættu skýlausan rétt á því að trúnaðarsamband þeirra við verjendur yrði virt af þeim sem annaðist rannsókn sakamála. Kæmi þessi regla fram í fjölmörgum tilgreindum ákvæðum laga nr. 88/2008 og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við rannsókn málsins hefði sérstakur saksóknari virt reglur að vettugi með því að hlera og vista símtöl milli verjanda og sakbornings. Þá kváðu varnaraðilar að dómari hefði í þinghaldinu 7. mars 2013 brotið gegn 4. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 sem legði þær skyldur á hann að ákveða þing til aðalmeðferðar með hæfilegum fyrirvara eftir að aðilar hefðu lýst lokið öflun sýnilegra sönnunargagna, og þá hefði ákæruvaldið jafnframt lagt fram fjölmörg ný gögn sem verjendur höfðu ekki áður haft aðgang að. Hefðu þau gögn meðal annars gefið til kynna breytingar á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Í þinghaldinu hefði ákæruvaldið einnig látið bóka um að lykilvitni búsett erlendis, sem ákæruvaldið hefði áður boðað að leidd yrðu fyrir dóm, myndu ekki gefa skýrslur. Hefði þessi bókun komið á óvart, meðal annars með hliðsjón af málatilbúnaði ákæruvaldsins um að einhvers konar sýndarviðskipti hefðu átt sér stað og framlögðum gögnum af þess hálfu.

Til viðbótar þessu hélt varnaraðilinn Gestur því fram í bréfi sínu að sérstakur saksóknari hefði gefið Héraðsdómi Reykjavíkur og alþjóðalögreglunni Interpol rangar upplýsingar um Y og hagi hans í maí 2010 sem leitt hefði til þess að gefin var út handtökuskipun á hendur honum á Íslandi og einnig alþjóðleg handtökuskipun. Í lok beggja fyrrgreindra bréfa sagði: „Ég tel mér ekki fært að sinna hlutverki verjanda sakbornings á fullnægjandi hátt í málsmeðferð sem fram fer með þeim hætti sem lýst er hér að framan. Með áframhaldandi þátttöku í réttarhöldum sem stofnað er til með þessum hætti væri ég að gera mitt til þess að ljá málsmeðferðinni það yfirbragð að réttindi sakbornings hefðu verið virt eftir því sem lög standa til. Ég tel að svo gróflega hafi verið brotið gegn lögvörðum réttindum skjólstæðings míns í þessu máli að ég sé mig knúinn til að segja mig frá frekari þátttöku í málsmeðferðinni. Ég hef kynnt skjólstæðingi mínum þessa afstöðu mína og hann hefur samþykkt ósk mína um að ég láti af störfum sem verjandi hans í þessu tiltekna máli. Samkvæmt framgreindu tilkynni ég hér með að ég mun ekki sinna frekar störfum sem verjandi í þessu tiltekna máli. Ég óska eftir því að verða þegar í stað leystur undan skipun minni sem verjandi ... í málinu og vísa í því efni til 6. mgr. 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.“

Bréfum þessum svaraði dómari samdægurs með samhljóða bréfum þar sem meðal annars var vísað til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008 um skipun verjanda að ósk sakbornings og 5. mgr. sömu greinar um að sú skipun félli niður þegar héraðsdómur væri kveðinn upp eða mál fellt niður með öðrum hætti. Yrði skipun ekki afturkölluð ef hætta væri á að mál tefðist af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 34. gr. sömu laga. Þá sagði: „Í bréfi yðar kemur fram að ákærði sé samþykkur beiðninni. Þér voruð skipaður verjandi með bókun í þingbók 7. mars í fyrra. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. lögmannalaga er lögmanni almennt skylt að taka við skipun sem verjandi eða réttargæslumaður í sakamáli. Ljóst er að verulegar tafir yrðu af því fyrir málið ef orðið yrði við beiðni yðar. Er henni því synjað og stendur óhögguð sú ákvörðun dómarans 19. desember sl. um að aðalmeðferð verði í málinu nk. fimmtudag, 11. þ.m.“

Bréfi dómara svöruðu varnaraðilar með bréfum sama dag þar sem þeir vísuðu til rökstuðnings í fyrri bréfum sínum og töldu sig hvorki vilja né geta sinnt starfinu sem þeir yrðu ekki skyldaðir til að sinna. Kvaðst varnaraðilinn Gestur „ítreka“ fyrri yfirlýsingu um að hann „hafi látið af störfum sem verjandi Y“, en varnaraðilinn Ragnar kvaðst árétta sjónarmið í fyrra bréfi sínu og telja að synjun dómara væri ólögmæt. Liti hann svo á að hann væri „laus frá verjandaskyldum í málinu.“ Myndi hann því ekki mæta til aðalmeðferðar máls 11. apríl 2013.

IV

Í þinghaldi 11. apríl 2013, þegar aðalmeðferð átti að fara fram, tóku meðdómendur sæti í dómi. Lögð voru fram áðurgreind bréf og bókað um mætingu annarra ákærðu en Þ og annarra verjenda en varnaraðila. Þá var bókað: „Dómsformaður vísar til ... að þessir tveir verjendur hafi í bréfum hinn 8. þ.m. óskað eftir því að verða leystir frá verjandastarfanum af ástæðum sem tilgreindar eru í bréfunum. Þá vísar dómsformaður til þess að hann hafi samdægurs skrifað verjendunum og synjað beiðninni og ítrekað að aðalmeðferð í málinu færi fram á fyrirhuguðum tíma, 11. apríl.“ Var stuttlega rakið efni þessara bréfasamskipta og því næst bókað: „Ljóst er af ofansögðu að dómurinn á þess ekki annan kost en að leysa verjendurna frá störfum, þrátt fyrir synjun dómsformanns. Dómsformaður leysir því lögmennina frá verjandastarfa í máli þessu.“ Voru skjólstæðingum varnaraðila að svo búnu skipaðir nýir verjendur í samræmi við óskir þeirra og aðalmeðferð málsins frestað ótiltekið. Ákæruvaldið óskaði bókað að það teldi ljóst að eina markmið varnaraðila með því að segja sig frá málinu væri að tefja það. Teldi ákæruvaldið að með því brytu varnaraðilar gegn lögboðnum skyldum sínum og var þess krafist að dómurinn legði réttarfarssektir á þá vegna framangreindrar háttsemi þeirra. Því næst voru lögð fram frekari gögn og boðað til fundar með málflytjendum utan réttar um framhald málsins.

Málið var næst tekið fyrir 2. september 2013 og hafði þá nýjum dómsformanni verið úthlutað því vegna forfalla hins fyrri. Aðalmeðferð málsins hófst 4. nóvember 2013 og stóð til 14. þess mánaðar.  Með dómi 12. desember 2013 voru ákærðu sakfelldir. Var X dæmdur í fangelsi í 5 ár og 6 mánuði, Y í 5 ár, Z í 3 ár og 6 mánuði, en Þ í 3 ár. Þá voru varnaraðilar eins og áður segir hvor um sig dæmdir til að greiða 1.000.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

V

Héraðsdómur var kveðinn upp að varnaraðilum fjarstöddum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins hvenær hann var birtur þeim, en með bréfi til ríkissaksóknara 13. desember 2013 óskuðu þeir eftir að dóminum yrði hvað þá varðaði áfrýjað til Hæstaréttar. Kváðust þeir myndu gera kröfu um að réttarfarssektirnar yrðu felldar úr gildi. Eins og áður segir gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu 10. janúar 2014 varðandi þennan þátt málsins. Verður talið að ákvæði framangreinds dóms um réttarfarssektir séu réttilega borin upp fyrir Hæstarétti með áfrýjun en ekki kæru, sbr. dóma Hæstaréttar 12. mars 2012 í máli nr. 103/2012 og 29. ágúst 1997 í máli nr. 285/1997, sem birtur er á bls. 2192 í dómasafni það ár.  

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 77/1998 er lögmanni skylt að taka við skipun eða tilnefningu sem verjandi eða réttargæslumaður í sakamáli, enda fullnægi hann til þess hæfisskilyrðum og hafi ekki ósamrýmanlegra hagsmuna að gæta vegna sjálfs sín, venslamanna sinni eða annars umbjóðanda síns. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. sama ákvæðis að lögmanni sé að öðru leyti aldrei skylt að taka að sér verk sem leitað er til hans um. Er þannig gerður greinarmunur á réttindum og skyldum lögmanna eftir því hvort um er að ræða einkamál eða sakamál.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um heimild sakbornings til að óska eftir að skipun eða tilnefning verjanda verði afturkölluð og nýr verjandi skipaður eða tilnefndur og skal þá verða við slíkri ósk nema hætta sé á að málið tefjist af þeim sökum. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir því í lögunum að verjandi eigi rétt á að skipun eða tilnefning hans verði afturkölluð. Gildir þar sú regla að skipun verjanda fellur sjálfkrafa úr gildi þegar héraðsdómur er kveðinn upp ellegar rannsókn máls hætt eða mál fellt niður með öðrum hætti, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga.

Varnaraðilar vísa um heimild til að segja sig frá málinu til 6. mgr. 21. gr. laga nr. 77/1998, en þar segir að lögmaður geti á öllum stigum sagt sig frá verki sem honum hefur verið falið, en hann verði að gæta þess að umbjóðandi hans verði ekki af þeim sökum fyrir réttarspjöllum. Ákvæði þetta á ekki við þegar lögmaður hefur hlotið skipun sem verjandi manns í sakamáli, heldur einungis þegar hann fer með hagsmuni umbjóðanda síns í einkamáli.

Hluti af starfsskyldum dómara í sakamálum er að skipa verjendur, taka ákvörðun um hvort veita beri þeim lausn og gæta þess að meðferð máls fari fram með réttum hætti, sbr. meðal annars 31. gr., 34. gr., 165. gr. og 166. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilar virtu að vettugi synjun dómara um að leysa þá frá verjendastörfum og mættu ekki til þings 11. apríl 2013 er aðalmeðferð átti að fara fram, þótt þeir væru enn skipaðir verjendur í málinu. Er fallist á með héraðsdómi að lög hafi ekki staðið til þess að varnaraðilum væri þetta heimilt. Þess í stað bar þeim að mæta til þings og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina eftir því sem efni stóðu til. Háttsemi varnaraðila var að þessu leyti hvorki í þágu skjólstæðinga þeirra né annarra ákærðu. Yfirlýsingar varnaraðila í framangreindum bréfum 8. apríl 2013 um að þeir væru ekki lengur verjendur í málinu fólu jafnframt í sér gróft brot á starfsskyldum þeirra sem verjendur í sakamáli, sbr. 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 88/2008. Varnaraðilar virtu í engu lögmætar ákvarðanir dómarans en við svo búið átti hann einskis annars úrskosti en að leysa þá undan verjendastörfum og skipa aðra í þeirra stað. Leiddi þetta til verulegs dráttar á málinu.

VI

Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um réttarfarssektir. Í fyrri málslið 1. mgr. 222. gr. segir að dómari ákveði sektir samkvæmt reglum kaflans af sjálfsdáðum og renni þær í ríkissjóð. Þá er tiltekið í síðari málslið 1. mgr. greinarinnar að höfða megi sjálfstætt mál vegna brota sem varða sektum samkvæmt kaflanum.

Samkvæmt 1. mgr. 223. gr. laganna má ákveða sekt á hendur ákæranda, verjanda eða réttargæslumanni fyrir þá háttsemi sem greinir í a. til d. liðum ákvæðisins. Undir það fellur sú háttsemi að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli, sbr. a. lið, og að misbjóða virðingu dóms á annan hátt með framferði í þinghaldi, sbr. d. lið. Í 2. mgr. greinarinnar eru síðan ákvæði um heimild til að leggja réttarfarssektir á hendur ákærða eða öðrum þeim sem gefur skýrslu fyrir dómi. Hefur 3. mgr. greinarinnar að geyma sérstök ákvæði um heimild til að ákveða sektir á hendur öðrum en þeim sem 1. og 2. mgr. taka til fyrir að brjóta gegn banni dómara um tilhögun þinghalds samkvæmt 1. eða 2. mgr. 11. gr. laganna, að hlýða ekki fyrirskipunum dómara sem miða að því að halda uppi reglu á dómþingi eða að koma þar annars hneykslanlega eða ósæmilega fram. Einnig segir í 4. mgr. greinarinnar að telji dómari að brot gegn 1. til 3. mgr. sé smávægilegt geti hann ákveðið að víta þann brotlega í stað þess að gera honum sekt. Þá segir í 1. mgr. 224. gr. að gangi dómur í máli, skuli sekt á hendur ákæranda, ákærða, verjanda eða réttargæslumanni ákveðin þar. Ljúki máli með öðrum hætti skuli sektir á hendur þeim ákveðnar í úrskurði. Loks segir í 2. mgr. greinarinnar að sektir á hendur öðrum en þeim sem greindir eru í 1. mgr. skuli ákveðnar í úrskurði jafnskjótt og brot er framið.

Fjárhæð réttarfarssektar, sem ákveðin er samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, er ekki bundin tilteknu hámarki. Námu sektir þær sem varnaraðilar voru látnir sæta hárri fjárhæð. Þegar litið er til beggja þessara atriða verður talið að sektirnar séu í eðli sínu refsing, eins og aðilar voru sammála um við flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Eins og áður segir er í síðari málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 heimild til handa ákæruvaldinu að höfða sérstakt mál vegna brota gegn þessum kafla laganna. Í samræmi við almennar reglur ber þá að gefa þeim sem mál er höfðað gegn kost á að koma að vörnum. Slíkt mál var ekki höfðað. Á hinn bóginn var eins og áður segir einnig unnt að viðhafa þá málsmeðferð að dómari sakamálsins myndi kveða á um réttarfarssektir, sbr. fyrri málslið ákvæðisins. Þurfti þá ekki til sérstaka kröfu þar um af hálfu ákæruvalds. Rök standa ekki til þess að telja varnaraðila hafa átt að njóta lakari réttarstöðu eftir því hvor framangreindra leiða væri farin þegar metið var hvort ætti að gera þeim réttarfarssekt sem jafnað yrði til refsingar, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Þegar ljóst var að varnaraðilar myndu ekki sinna þeirri skyldu sinni að mæta til þings og til álita kom að beita þá réttarfarssekt, hefði að réttu lagi átt að boða þá til sérstaks þinghalds og gefa þeim kost á að reifa sjónarmið sín í því efni, umfram það sem áður hafði skýrlega komið fram af þeirra hálfu í bréfaskiptum þeirra við héraðsdóm og áður er gerð grein fyrir. Það var á hinn bóginn ekki gert. Þess í stað voru varnaraðilar leystir frá störfum í þinghaldinu 11. apríl 2013 og ákvörðun um viðurlög á hendur þeim tekin með dóminum 12. desember 2013.

Eins og greinir í V. kafla dómsins gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu vegna þessa þáttar málsins. Var það gert að ósk varnaraðila, sem áttu lögum samkvæmt rétt til þess að fá úrlausn æðra dóms að undangengnum munnlegum málflutningi þar, um þá réttarfarssekt sem þeim var gert að sæta í héraði. Réttur varnaraðila til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi af þessu tilefni sætir að lögum engum takmörkunum og gátu þeir komið að öllum sjónarmiðum sínum við munnlegan flutnings málsins, eftir atvikum með því að þeir og vitni gæfu skýrslur fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 205. gr. laga nr. 88/2008, eða að undangengnu sérstöku vitnamáli, sbr. 1. mgr. 141. gr. sömu laga. Að þessu virtu horfir það varnaraðilum ekki til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hafi ekki farið fram í héraði, áður en sú ákvörðun var tekin þar að gera þeim réttarfarssekt. Samkvæmt þessu fullnægir málsmeðferð sú sem fram hefur farið ákvæðum laga og brýtur hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. og lög nr. 62/1994. Er hér til hliðsjónar vísað til dóms mannréttindadómstóls Evrópu í máli Weber gegn Sviss frá 22. maí 1990 og dóms í máli T gegn Austurríki frá 14. nóvember 2000. Að þessu virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest ákvæði hans um réttarfarssekt á hendur varnaraðilum.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðilum gert að greiða óskipt áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Staðfest er ákvæði hins áfrýjaða dóms um réttarfarssekt á hendur varnaraðilum, Gesti Jónssyni og Ragnari Halldóri Hall.

Varnaraðilar greiði óskipt áfrýjunarkostnað málsins, 37.439 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara og

Stefáns Más Stefánssonar prófessors

Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda synjaði héraðsdómari 8. apríl 2013 beiðni varnaraðila um lausn frá verjendastörfum og ítrekaði jafnframt ákvörðun sína um að aðalmeðferð í sakamáli gegn umbjóðendum þeirra skyldi hefjast á tilsettum tíma. Varnaraðilar létu á hinn bóginn hjá líða að mæta til þess dómþings. Við erum samþykkir þeirri niðurstöðu meirihlutans að lög standi ekki til þess að varnaraðilum hafi verið þetta heimilt. Bar þeim að mæta til þings sem skipaðir verjendur og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina eftir reglum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá leiddi framangreind háttsemi varnaraðila til dráttar á málinu.

Við erum samþykkir röksemdum og niðurstöðu meirihlutans um að sektir þær sem lagðar voru á varnaraðila séu í eðli sínu refsing, eins og málsaðilar lögðu til grundvallar við flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Í atkvæði meirihlutans eru rakin ákvæði XXXV. kafla laga nr. 88/2008 er fjalla um réttarfarssektir. Eins og þar greinir hefur síðari málsliður 1. mgr. 222. gr. laganna að geyma heimild til handa ákæruvaldinu að höfða sérstakt mál vegna brota gegn þessum kafla laganna. Samkvæmt almennum málsmeðferðarreglum ber þá að skilgreina sakir og gefa þeim sem mál er höfðað gegn kost á að koma að vörnum. Til slíks úrræðis var ekki gripið. Á hinn bóginn var einnig unnt að viðhafa þá málsmeðferð að dómari sakamálsins tæki ákvörðun um sektir samkvæmt fyrri málslið ákvæðisins. Þurfti þá ekki til sérstaka kröfu þar um af hálfu ákæruvalds. Ekki standa rök til þess að telja varnaraðila hafa átt að njóta lakari réttarstöðu eftir því hvor framangreindra leiða væri farin þegar til athugunar var að gera þeim sektir sem jafnað verður til refsingar, enda eiga ákvæði 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 við í báðum tilvikum, sbr. einnig ákvæði XXV. kafla laga nr. 88/2008.

Er ljóst var að varnaraðilar myndu ekki mæta til þinghalds var samkvæmt ákvæðum kaflans rétt að boða til dómþings þá strax í framhaldinu, kynna varnaraðilum sakarefnið og gefa kost á andmælum um ákvörðun sekta eins og hér um ræðir. Það var á hinn bóginn ekki gert, en varnaraðilar leystir frá störfum í þinghaldinu 11. apríl 2013 og nýir verjendur skipaðir í þeirra stað, en ákvörðun um sektir á hendur varnaraðilum tekin með dómi í efnismálinu 12. desember 2013 án þess að þeim, sem þá höfðu ekki lengur stöðu verjenda, hefði verið kynnt sakarefnið og gefinn kostur á að koma að vörnum, bæði hvað varðar álagningu sekta og fjárhæð þeirra.

Samkvæmt framansögðu var meðferð málsins í héraði ábótavant en lög standa ekki til þess að þessum þætti héraðsdómsins verði vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Þar sem svo háttaði til við meðferð málsins teljum við rétt að fella hið áfrýjaða ákvæði héraðsdóms um réttarfarssektir úr gildi. Þá teljum við að áfrýjunarkostnaður skuli greiddur ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2013.

Mál þetta, sem tekið var til dóms að lokinni aðalmeðferð 14. nóvember sl., er höfðað af Embætti sérstaks saksóknara með ákæru 16. febrúar 2012 á hendur X, kt. [...], búsettum í [...], Y, kt. [...], búsettum í [...], Z, kt. [...], búsettum í [...], og Þ, kt. [...], búsettum í [...], fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti:

I.

a)       Á hendur ákærða X fyrir umboðssvik, með því að hafa í september 2008 misnotað aðstöðu sína sem forstjóri A hf., þegar hann fór út fyrir heimildir sínar til lánveitinga með því að láta bankann veita B Ltd., eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á [...] á [...], í eigu C Corp., félags í eigu D, 50.000.000 Bandaríkjadala lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Var lánið veitt þann 19. september 2008 og lánsfjárhæðin sama dag lögð inn á reikning lántaka í E S.A., með milligöngu þess banka, félaginu til frjálsrar ráðstöfunar. Peningamarkaðsútlánið var á gjalddaga 30. september 2008 en var þá framlengt til 14. október 2008 og síðan til 18. nóvember 2008. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana A hf. að fullu glataða.

b)       Á hendur ákærða Þ, framkvæmdastjóra E S.A., fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærða X, með því að hafa tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd þeirra. Fólst hlutdeild hans í undirbúningnum í því að Þ hafði bæði milligöngu um samningaviðræður við raunverulegan eiganda B Ltd., D, og um að útvega félagið sem notað var af hálfu D í viðskiptunum. Hlutdeild Þ í framkvæmd brotsins fólst í því að taka þátt í því með meðákærða X að fyrirskipa starfsmönnum bankans að greiða út lánið. Hlaut honum að vera ljóst að X brast heimild til lánveitingarinnar og að lánið var veitt án nokkurra ábyrgða eða trygginga.

II.

a)       Á hendur ákærðu X og Y fyrir umboðssvik, með því að hafa misnotað aðstöðu sína, X sem forstjóri A hf. og Y sem starfandi stjórnarformaður og formaður lánanefndar stjórnar bankans, þegar þeir fóru út fyrir heimildir sínar til lánveitinga í september 2008 með því að láta í sameiningu bankann veita F Ltd., kt. [...], eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á [...] á [...], í eigu meðákærða Z, sem átti 9,88% hlut í bankanum í gegnum félög sín, 12.863.497.675 króna lán, í formi óundirritaðs peningamarkaðsútláns, án þess að fyrir lægi samþykki lánanefnda bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og hafa þannig valdið bankanum verulegri fjártjónshættu. Lánið var greitt út þann 29. september 2008 og lánsfjárhæðinni ráðstafað á reikning F Ltd. nr. [...] í A hf. og sama dag millifærð á reikning G Ltd., kt. [...], nr. [...] í bankanum og þaðan á vörslureikning nr. [...] í eigu H ehf. í bankanum. Lánsfjárhæðinni var varið til kaupa á hlutafé í A hf. eins og nánar er rakið í III. kafla ákæru. Allar millifærslurnar voru framkvæmdar 29. september 2008. Lánsfjárhæðin var ekki endurgreidd á gjalddaga hinn 31. október 2008. Lánsfjárhæðin hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja hana A hf. að fullu glataða.

b)       Á hendur ákærða Z, aðallega fyrir hlutdeild í umboðssvikum meðákærðu X og Y, en til vara fyrir hylmingu og peningaþvætti, með því að hafa, ásamt meðákærðu X og Y, lagt á ráðin um að umrætt lán yrði greitt úr sjóðum bankans, þrátt fyrir verulega fjártjónshættu fyrir bankann og láta félag sitt F Ltd. taka við lánsfjárhæðinni án nokkurra ábyrgða eða trygginga, til þess að henni yrði ráðstafað áfram til félagsins H ehf. til þeirra viðskipta sem lýst er í III. kafla ákæru.

III.

a)       Á hendur ákærðu X og Y fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í A hf. í september 2008 með því að láta ranglega líta svo út að þekktur fjárfestir frá [...], D, hefði lagt fé til kaupa á 5,01% hlutafjár í A hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu, þegar H ehf., dótturfélag í eigu eignarhaldsfélags hans I ehf., keypti umræddan hlut af bankanum, og leyna fullri fjármögnun bankans á hlutabréfakaupunum og aðkomu meðákærða Z að þeim, en hann átti á þeim tíma 9,88% hlutafjár í bankanum í gegnum félög sín. Um var að ræða kaup á 37.100.000 hlutum í A hf. og var kaupverðið 690 krónur á hvern hlut og voru viðskiptin að fullu fjármögnuð af bankanum. Viðskiptunum var flaggað 22. september 2008 í Kauphöll Íslands (OMX Nordic Exchange á Íslandi) í samræmi við ákvæði 78. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 29. september 2008. Í þessum tilgangi var sett upp viðskiptaflétta sem var fólgin í því að A hf. lánaði helming kaupverðsins, eða 12.863.497.675 krónur, félaginu J Corp., kt. [...], eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á [...], í eigu D sem gekkst í persónulega ábyrgð fyrir láninu. A hf. lánaði hinn helming kaupverðsins, eða 12.863.497.675 krónur, félaginu F Ltd., kt. [...], eignalausu félagi með takmarkaðri ábyrgð, skráðu á [...], í eigu meðákærða Z, án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð með nokkrum hætti og án samþykkis lánanefnda A hf. Báðar lánsfjárhæðirnar voru greiddar á bankareikninga þessara félaga hjá A hf. en þaðan millifærðar á reikning G Ltd., nr. [...] í bankanum og þaðan á vörslureikning nr. [...] í eigu H ehf. í bankanum en allar millifærslurnar voru framkvæmdar 29. september 2008. Ákærðu X og Y tóku sameiginlega ákvörðun um hlutabréfaviðskiptin og fjármögnun þeirra og gaf ákærði X starfsmönnum bankans fyrirmæli um framkvæmd þeirra. Var um að ræða viðskipti með stóran hlut í A hf. sem fólu í sér blekkingu og sýndarmennsku og voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum misvísandi til kynna þar sem dulin var full fjármögnun bankans sjálfs á viðskiptunum og að auki aðkoma stórs hluthafa bankans, meðákærða Z, að þeim og einnig dulið að helmingur markaðsáhættu vegna hlutabréfanna hvíldi á bankanum sjálfum eftir viðskiptin.

b)       Á hendur ákærðu Þ og Z fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun meðákærðu X og Y. Áttu þeir milligöngu um að koma viðskiptunum á og áttu samskipti við D um þau. Þá tók ákærði Þ þátt í undirbúningi og útfærslu viðskiptafléttunnar. Ákærði Z tók einnig þátt í undirbúningi viðskiptafléttunnar og í að gera hlutabréfaviðskiptin að veruleika með aðkomu að fjármögnun þeirra, eins og lýst er í II. kafla ákæru.

IV.

Á hendur ákærðu X, Y, Þ og Z fyrir markaðsmisnotkun, með því að hafa í september 2008, í fréttatilkynningu sem birt var á vef Kauphallar Íslands og viðtölum við fjölmiðla í kjölfarið, dreift fréttum og upplýsingum sem hver fyrir sig og í heild gáfu eða voru líklegar til að gefa misvísandi upplýsingar og vísbendingar um þau hlutabréfaviðskipti sem lýst er í III. kafla ákæru. Í upplýsingunum voru gefnar vísbendingar um að með sölunni á 5,01% hlutafjár A hf. til félagsins H ehf. í september 2008 væri fjármagn að koma inn í bankann frá [...] en því leynt að A hf. fjármagnaði að fullu umrædd hlutabréfakaup með lánveitingum. Jafnframt var gefið til kynna að D stæði einn að viðskiptunum en aðkomu ákærða Z að þeim leynt. Um var að ræða stór viðskipti með hlutafé bankans fyrir alls um 26 milljarða króna á tímum þar sem bankinn stóð höllum fæti og því afar mikilvægt að upplýst væri um hina óvenjulegu fjármögnun viðskiptanna og þá sem stóðu að viðskiptunum og fjármögnuninni með réttum og nákvæmum hætti. Þær upplýsingar sem ákærðu veittu voru misvísandi og gáfu einnig misvísandi vísbendingar um hlutabréfaviðskiptin og þýðingu þeirra fyrir A hf. þar sem þær gáfu til kynna að bankinn nyti mikils trausts virts erlends fjárfestis sem væri tilbúinn að verja miklu fé til að fjárfesta í hlutabréfum hans. Upplýsingarnar voru til þess fallnar að hafa áhrif á ákvarðanir varðandi viðskipti með hlutabréf bankans. Þær misvísandi upplýsingar og vísbendingar, sem ákærðu veittu og fela í sér markaðsmisnotkun hver fyrir sig og í heild sinni, voru eftirfarandi:

a)       Ákærðu X, Y, Þ og Z lögðu atbeina sinn að því að A hf. birti svohljóðandi fréttatilkynningu vegna viðskiptanna á vef Kauphallarinnar kl. 6.56 að morgni 22. september 2008:

„H ehf., dótturfélag í eigu I ehf., sem er eignarhaldsfélag [...] D, hefur keypt 5,01% hlut í A hf. H keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 krónur á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans. [...] er í [...] sem verið hefur við völd í [...] frá því á nítjándu öld. [...] D: „Við höfum fylgst náið með A í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða A er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur A náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í A sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans.“ Y, stjórnarformaður: „Okkur er mikil ánægja að bjóða [...] D velkominn í hluthafahóp A. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til að vinna með [...] D í framtíðinni.“

b)       Ummæli ákærða X:

1.       Í viðtali í morgunfréttum Ríkisútvarpsins 22. september 2008 í kjölfar spurningar fréttamanns: „En útvíkkar þetta starfsemi bankans til nýrra landa?“

Ákærði X: „Nei, við erum búin að vera með starfsemi núna í [...] í eitt ár og í [...] í rúmlega ár, bæði í [...] og [...] og þetta er í sjálfu sér fyrsta beina fjárfestingin þeirra til okkar eftir að við hófum starfsemi þar.“

Fréttamaður: „Er þetta vísun á meira af því sama?“

Ákærði X: „Það kemur okkur ekkert á óvart og vonandi munum við sjá fleiri fjárfesta koma til liðs við bankann.“

2.       Í viðtali í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 22. september 2008:

a.       Ákærði X: „Það er náttúrulega mikil auðsöfnun sem á sér stað í [...] í dag í kjölfar hás orkuverðs. Og þeir er hugsa til framtíðar og hvernig þeir ráðstafi þessum auð á sem bestan hátt og því það er ljóst að þessar auðlindir duga ekki til eilífðar þó að [...] sé reyndar í bestri stöðu allra ríkja í heiminum hvað það varðar. Svo það er þeirra markmið að ávaxta sitt pund vel, að fjárfesta til framtíðar.“

b.       Fréttamaður: „X  kveðst vonast til þess að þessi kaup séu undanfari fleiri slíkra, enda þurfi bankinn á erlendri fjárfestingu að halda til frekari vaxtar. Þá segir hann stöðu bankans styrkjast á alþjóðlegum fjármálamörkuðum við þessi kaup.“ Ákærði X: „Alveg klárlega og við höfum séð að þeir bankar sem hafa náð að sækja peninga, fjármuni til [...], [...], að þeir standa sterkar að vígi en margir aðrir. Við sjáum [...] fjárfesta með myndarlegum hætti í L nýlega fyrir u.þ.b. tveimur mánuðum síðan og við sjáum að L er að taka yfir M í dag. Og ég er sannfærður um að L væri ekki í þessari stöðu og væri ekki að fara í þessa yfirtöku á M ef þeir hefðu ekki fengið fjármuni frá [...] á sínum tíma.“

3.       Í viðtali í Markaðsfréttum Stöðvar 2, kvöldið 22. september 2008:

Ákærði X: „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir okkur, það er mjög mikilvægt í þessu umhverfi að fá fjársterka fjárfesta að bankanum.“

4.       Í viðtali í fréttum Sjónvarpsins kl. 19, 22. september 2008:

Ákærði X: „Ég held þetta styrki bankann. Það er ljóst að það er óraunhæft fyrir okkur að sækja mikið meira fjármagn til íslenskra fjárfesta, bankinn er orðinn það stór og ef við ætlum að halda áfram að vaxa á alþjóðlegum markaði þá verðum við að ná í alþjóðlega fjárfesta.“

5.       Í viðtali í Morgunblaðinu 23. september 2008:

Ákærði X: „Við teljum að þetta sé mikil traustsyfirlýsing fyrir félagið. Það er búið að fara í gegnum mikla úttekt og grandskoðun á rekstri bankans á undanförnum mánuðum og þessi fjárfesting er gerð í kjölfar þess.“

c)       Ummæli ákærða Z:

1.       Í viðtali í Morgunblaðinu 23. september 2008:

Ákærði Z: „Þetta er mikil viðurkenning fyrir A.“

2.       Í frétt í 24 stundum 23. september 2008:

a.       Ákærði Z: „Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu fyrir A. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum í [...] með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk A að A skuli kaupa hlut í bankanum.“

b.       „Z segir mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti sýnt að þau séu tilbúin að vinna með erlendum fjárfestum. „Það hefur tekist hjá A að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.““

a)       Ummæli ákærða Y: Í viðtali í Viðskiptablaðinu 23. september 2008:

 „Við erum búin að vera með annan fótinn í [...] í töluverðan tíma og þekkjum þennan mann ágætlega og hans fólk. Þeir eru alltaf að leita að fjárfestingartækifærum enda hafa safnast saman mikil auðæfi þarna niður frá.“

Er háttsemi ákærða X í I. og II. kafla ákæru og háttsemi ákærða Y í II. kafla ákæru talin varða við 249. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

Er háttsemi ákærða Þ í I. kafla ákæru talin varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940.

Er háttsemi ákærða Z í II. kafla ákæru talin aðallega varða við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940, en til vara við 254. og 264. gr. sömu laga.

Er háttsemi ákærðu X og Y í III. kafla ákæru talin varða við a-lið 1. tl. og 2. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007.

 Er háttsemi ákærðu Z og Þ í III. kafla ákæru talin varða við a-lið 1. tl. og 2. tl. 117. gr., sbr. 146. gr., sbr. 3. mgr. 147. gr., laga nr. 108/2007, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga, nr. 19/1940.

Er háttsemi allra ákærðu í IV. kafla ákæru talin varða við 3. tl. 1. mgr. 117. gr., sbr. 146. gr. laga nr. 108/2007.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu krefjast sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. málsvarnarlaun, verði greiddur úr ríkissjóði.

[...]

Ákveðið var að hafa aðalmeðferð í máli þessu 11. apríl 2013, eftir samráð dómara við sækjanda og verjendur og samþykki þeirra í tölvuskeytum 17. desember 2012. Boðaði dómari formlega til aðalmeðferðarinnar með tölvuskeyti 19. sama mánaðar. Skipaðir verjendur ákærðu, X, Z og Þ, óskuðu eftir því í þinghaldi 7. mars 2013 að aðalmeðferð málsins yrði frestað og kröfðust úrskurðar dómsins þar um. Með úrskurði dómsins þann sama dag var kröfu verjendanna hafnað. Með bókun í þinghaldi 25. mars 2013 lögðu allir verjendur ákærðu fram kröfu um að aðalmeðferð málsins yrði frestað og var málið á ný tekið til úrskurðar um þá kröfu. Var kröfu um frestun aðalmeðferðar á ný hafnað með úrskurði dómsins næsta dag. Verjandi ákærða, Y, Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður og verjandi ákærða, Z, Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður, óskuðu eftir því með bréfi til dómsins 8. apríl 2013 að þeir yrðu leystir undan verjendastörfum. Hafnaði dómari því samdægurs. Tilkynntu verjendurnir sama dag að þeir myndu ekki mæta til aðalmeðferðar málsins 11. apríl. Á dómþingi þann dag mættu verjendurnir ekki og voru þeir við svo búið leystir undan verjendastörfum. Á dómþinginu voru ákærðu skipaðir nýir verjendur.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 má ákveða sekt á hendur verjanda fyrir að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis má ákveða verjanda sekt fyrir að misbjóða virðingu dómsins með framferði í þinghaldi. Ákæra í máli þessu var gefin út 16. febrúar 2012. Hafði verjendum gefist ríkulegt ráðrúm til að undirbúa vörn ákærðu með fullnægjandi hætti þegar að aðalmeðferð málsins kom 11. apríl 2013, þrátt fyrir að í millitíðinni væru lögð fram frekari gögn í málinu. Ákvörðun þeirra um að segja sig frá vörn ákærðu olli óþörfum drætti á málinu og gekk þannig gegn hagsmunum ákærðu. Þá var sú háttsemi verjendanna að mæta ekki á dómþing við aðalmeðferð máls, þegar dómari hafði synjað þeim um að vera leystir undan verjendastörfum, til þess fallin að misbjóða virðingu dómsins. Er óhjákvæmilegt annað en að verjendunum verði af þessum ástæðum ákveðin sekt í ríkissjóð að fjárhæð 1.000.000 króna. 

[...]

Símon Sigvaldason héraðsdómari, Ingimundur Einarsson dómstjóri og  Magnús Benediktsson endurskoðandi kváðu upp þennan dóm.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 17. maí 2010.

Ákærði, Y, sæti fangelsi í 5 ár.

Ákærði, Z, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði.

Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 3 ár. Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 7. til 14. maí 2010.

Ákærði, X, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, 33.495.950 krónur.

Ákærði, Y, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, 3.526.550 krónur og Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 10.855.750 krónur. Að auki greiði ákærði útlagðan kostnað verjanda að fjárhæð 90.202 krónur.

Ákærði, Z, greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, Þórólfs Jónssonar héraðsdómslögmanna, 14.708.600 krónur og Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns, 5.898.500 krónur.

Ákærði, Þ, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Karls Axelssonar hæstaréttarlögmanns, 20.255.700 krónur.

Hæstaréttarlögmennirnir Gestur Jónsson og Ragnar H. Hall greiði hvor um sig 1.000.000 króna sekt í ríkissjóð.