Print

Mál nr. 101/2015

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá

                                     

Fimmtudaginn 22. október 2015.

Nr. 101/2015.

A

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

B

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Friðhelgi einkalífs. Stjórnarskrá.

B höfðaði mál á hendur A vegna ætlaðra ærumeiðandi ummæla sem birt voru annars vegar í bók A og hins vegar í svari hennar við fyrirspurn á samfélagsmiðlinum Facebook. Í inngangskafla bókarinnar sagði A meðal annars frá kynferðisofbeldi sem hún kvaðst hafa orðið fyrir þegar hún var tíu ára gömul af hálfu manns sem „tengdist heimilinu“. Þá kom einnig fram að þessi maður hefði misnotað aðrar stúlkur í fjölskyldunni kynferðislega allt frá fjögurra ára aldri þeirra. Umræddur maður var ekki nafngreindur en B fullyrti að fullvíst væri að ummælunum væru beint að sér og krafðist þess að þau yrðu dæmd dauð og ómerk. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar metið væri hvort umþrætt ummæli A í bókinni hefðu farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis hennar og fælu í sér brot á friðhelgi einkalífs B yrði að taka tillit til þess hvernig þau væru orðuð. Í því sambandi skipti einkum máli að hvorki af einstökum ummælum né því samhengi sem þau hefðu verið sett fram í yrði ráðið að þau ættu við um B. Þá hefði B sjálfur borið fyrir dómi að hann gæti ekki ímyndað sér að nokkur hefði áttað sig á því að ummælin ættu við um hann. Þá vörðuðu ummælin atvik sem hefðu átt sér stað fyrir um 40 til 50 árum. Yrði ekki talið að lesendur bókarinnar, sem ekki þekktu til aðstæðna, hefðu getað áttað sig á því að með þeim væri vísað til B. Að því er varðaði hin umþrættu ummæli er komu fram á samfélagsmiðlinum Facebook var fallist á með A að henni hefði verið rétt, í samskiptum sínum við nafngreinda konu á lokuðu svæði miðilsins, að greina henni frá ætluðum brotum B á þann hátt sem hún hafði gert. Hefði hún því ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og því ekki rofið friðhelgi B samkvæmt 71. gr. hennar. Samkvæmt framangreindu og með hliðsjón af skýrslum sem gefnar höfðu verið fyrir dómi, var sú ályktun dregin að A hefði leitt nægar líkur að réttmæti þess að viðhafa þau ummæli sem B krafðist ómerkingar á. Yrði í einkarefsimáli sem þessu ekki gerðar kröfur til þess að hún færi fyrir þeim frekari sönnur. Var A því sýknuð af kröfum B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. febrúar 2015 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hún krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í málinu gerir stefndi í fyrsta lagi kröfu um ómerkingu á fimm tilgreindum ummælum áfrýjanda sem komu fram á blaðsíðum 14 til 18 í bók hennar ,,[...]“. Í öðru lagi gerir stefndi kröfu til þess að ummæli sem áfrýjandi viðhafði um hann á svonefndu Facebooksvæði hennar 12. júní 2013 verði dæmd dauð og ómerk. Hann krefst jafnframt miskabóta úr hendi áfrýjanda vegna ummælanna. Í héraði krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði gert að sæta refsingu fyrir áðurgreind ummæli og að hún yrði dæmd til að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði.

II

Stefndi var í hjúskap með móður áfrýjanda um 40 ára skeið. Í upphafi þess tíma mun áfrýjandi hafi verið í fóstri á öðru heimili, en komið til dvalar á heimili móður sinnar og stefnda þegar hún var um það bil 10 ára. Þar mun hún hafi dvalið í allt að fimm ár.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ritaði áfrýjandi bók, sem kom út í maí 2013 og bar titilinn ,,[...]“. Í upphaflegu handriti bókarinnar voru minningar áfrýjanda sem tengdust upplifun hennar og starfsferli, en hún kveðst sjá og skynja hluti sem aðrir geri ekki og hafa starfað sem ,,leiðbeinandi miðill“ hluta ævi sinnar.  Útgefandi bókarinnar mun hafa sett það skilyrði fyrir útgáfunni að áfrýjandi lýsti að einhverju leyti lífshlaupi sínu, eða að minnsta kosti þeim atvikum í lífi sínu sem mest áhrif hefðu haft á hana. Ritaði áfrýjandi þá inngangskafla bókarinnar, sem voru á blaðsíðum 13 til 26, þar sem hún sagði frá nokkrum atvikum úr lífi sínu. Í þeirri frásögn komu fram þau fimm ummæli sem stefndi krefst í 1. tölulið kröfu sinnar að verði ómerkt.

Stefndi lýsti því í skýrslu sinni fyrir dómi að áfrýjandi hafi verið búin að láta hann vita af því að bók hennar væri að koma út. Hann kvaðst hafa farið til Ítalíu ásamt sambúðarkonu sinni og hafi hann og áfrýjandi sammælst um að þau myndu skála þar fyrir útkomu bókarinnar og senda mynd af því til hennar á samfélagsmiðli. Þetta hafi gengið eftir. Hann kveður ferðina hafa verið farna í júlí 2013 og hann hafi þá ekki verið búinn að fá bókina, þótt hún hafi verið komin út. Stefndi kvaðst vegna blindu sinnar ekki hafa lesið bókina sjálfur eftir heimkomuna frá Ítalíu en hún hafi verið lesin fyrir sig. Í skýrslu hans kom einnig fram að hann hefði ekki tekið það til sín sem í bókinni kom fram og gæti ekki ímyndað sér að neinum hefði dottið hann í hug. Hann kvaðst hafa áttað sig á því að fjallað væri um hann í bókinni þegar barnabarn sambúðarkonu hans hafi komið með bókina til móður sinnar, sem síðar hafi gengið úr skugga um að átt væri við hann.

Áfrýjandi hefur upplýst að eftir að bókin kom út hafi nokkrir úr fjölskyldu sambúðarkonu stefnda haft samband við sig og spurt hvort stefndi væri sá sem hún lýsti sem ,,brotamanni í bókinni.“ Hún hafi svarað því játandi þótt hún hafi verið treg til. Ummælin, sem stefndi krefst að ómerkt verði samkvæmt 2. kröfulið, er að finna í svari áfrýjanda við fyrirspurn C, sem er dóttir sambúðarkonu stefnda, en samskipti þeirra fóru fram í júní og júlí 2013 á lokuðu svæði á samfélagsmiðlinum Facebook.

Í skýrslu sinni fyrir dómi neitaði stefndi eindregið að hafa nokkurn tíma misnotað stúlkur eða beitt kynferðislegu ofbeldi. Ásakanir áfrýjanda séu alvarlegar og honum  nauðugur einn sá kostur að höfða mál til þess að verja æru sína.

III

Stefndi telur að öll ummæli áfrýjanda, sem ómerkingar sé krafist á, séu ærumeiðandi aðdróttanir er feli í sér brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þau beri því að ómerkja með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hann kveður ummælin ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus. Þau séu til þess fallin að sverta hann og því hafi hann ríka hagsmuni af því að fá þau ómerkt. Verði ekki fallist á að ummælin feli í sér aðdróttanir, byggir stefndi á því að þau feli í sér móðgun í sinn garð og fari í bága við 234. gr. laganna.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því að hún hafi ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns með hinum umstefndu ummælum og þau njóti því verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994 um það efni. Stefndi hafi ekki verið nafngreindur í bókinni og ummælin í henni gagngert höfð á þann hátt, sem raun var á, til þess að ekki væri unnt að álykta hver ætti í hlut. Þótt getið hafi verið fjölskyldutengsla verði að hafa hugfast að atvik hafi gerst fyrir 40 til 50 árum og þess vegna útilokað að leiða líkum að því, af lestri bókarinnar, hver hafi átt í hlut. Þá hafi stefndi sjálfur í skýrslu sinni fyrir dómi sagt að hann gæti ekki ímyndað sér að nokkrum hefði dottið hann í hug. Áfrýjandi kveður að viðbótarummælin, sem tilgreind eru í 2. kröfulið stefnda, hafi verið í svari hennar við fyrirspurn sem hafi verið beint til hennar á lokuðu svæði á samfélagsmiðli. Hún hafi talið sér skylt að svara fyrirspurninni. Aðrir hafi ekki átt þess kost að sjá ummælin, enda um einkasamskipti að ræða. Áfrýjandi heldur því fram að hvað sem öðru líði hafi það ekki verið ásetningur sinn að meiða æru stefnda. Ákvæði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sem hún kveður vera undantekningarákvæði, eigi ekki við í málinu. Ummæli um kynferðisbrot gegn börnum eigi erindi við almenning og séu þess vegna hluti almennrar þjóðfélagsumræðu. Loks reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að hún hafi undir rekstri málsins sýnt fram á sannindi þeirra ummæla sem krafist sé ómerkingar á.

IV

Áfrýjandi gaf skýrslu fyrir dómi og lýsti þá ætluðu broti stefnda gagnvart sér á þann hátt að það hafi verið í eitt skipti þegar hún var 10 ára. Um hafi verið að ræða mest megnis káf, en stefndi hafi farið með fingurna ,,nánast upp í leggöngin á mér.“ Hún hafi þóst vera sofandi og tekist um síðir að velta sér frá honum. Hún kvaðst hafa sagt móður sinni frá þessu, en móðir hennar varað hana við því að segja öðrum frá. Áfrýjandi sagðist á árinu 1993 í afmæli barnabarns síns hafa séð stefnda lyfta barnabarni hennar upp og hún þá rokið til og rifið barnið úr höndum hans og rétt það foreldrum þess. Þetta hafi verð mjög vandræðalegt vegna þess að enginn hafi vitað ástæðu þessarar háttsemi hennar. Í framhaldi af þessu kvaðst hún hafa sagt bróður sínum frá ætluðu broti stefnda og í kjölfar þess verið haldinn fundur sem stefndi hafi verið boðaður til. Á fundinn hafi komið auk hennar og stefnda, bróðir hennar D og eiginkona hans E, dóttir áfrýjanda F, bróðurdóttir áfrýjanda G og bróðir G H. Á fundinum hafi þær sakir verið bornar á stefnda að hann hafi misnotað áfrýjanda og fleiri og hana minni að það hafi hann gert ,,allt frá tveggja eða fjögurra ára aldri við sumar stúlkurnar.“ Meðal þeirra sem stefndi hafi misnotað væru fyrrgreind dóttir hennar og bróðurdóttir. Áfrýjandi kvað stefnda ekki hafa neitað þeim sökum sem á hann voru bornar en ekki skilið alvöru málsins og sagt að hann hafi aðeins verið að gera þeim stúlkum sem í hlut áttu gott. Í skýrslu áfrýjanda kom einnig fram að hún hefði leitað til sálfræðings og einnig til Stígamóta vegna ætlaðrar misnotkunar stefnda en það hefði verið seint, líklega þegar hún var um fertugt.

Í skýrslu stefnda fyrir dómi staðfesti hann að fundur hafi verið haldinn, sem hann kvað hafa verið á árinu 1994, og hann boðaður til fundarins. Hann tilgreindi þá sem mættu til fundarins með sama hætti og áður greinir. Hann neitaði því að á fundinum hefði hann verið borinn sökum um misnotkun eða kynferðislegt áreiti við stúlkur. Hvorki áfrýjandi né aðrir hefðu haft í frammi slíkar ásakanir.

Sambúðarkona stefnda gaf einnig skýrslu fyrir dómi. Í framburði hennar kom fram að hún hafi kynnst stefnda á árinu 2002 og áfrýjanda fljótlega eftir það. Hún hafi átt umtalsverð samskipti við áfrýjanda frá þeim tíma og komið ásamt stefnda í heimsókn bæði á heimili hennar og sumarbústað, en þar hafi stefndi unnið ýmis viðvik fyrir áfrýjanda. Sambúðarkonan upplýsti að fyrir sex til sjö árum hafi áfrýjandi haft samband við sig af því tilefni að henni hafi verið kunnugt um að tvö barnabörn hennar, stúlkur, myndu gista hjá henni og stefnda. Áfrýjandi hafi varað sig við og upplýst að stefndi hefði ,,leitað á G og einhverjar fleiri stúlkur“. Hún hefði þó ekki nefnt sjálfa sig í þessu sambandi. Sambúðarkonan kvaðst aldrei hafa orðið þess vör að áfrýjandi hafi óttast stefnda heldur ævinlega verið blíð og góð við hann. Sambúðarkonan gerði einnig grein fyrir því að dóttir hennar, sem verið hafi í samskiptum við áfrýjanda, hafi sagt henni frá því að átt væri við stefnda í bók áfrýjanda. Hún upplýsti einnig að H, bróðursonur áfrýjanda, hafi hringt í sig að kvöldi til fyrir jarðarför eiginmanns G og gert henni ljóst að stefndi ætti ekki að koma í jarðarförina því hann hefði ,,eyðilagt líf systur sinnar eða eitthvað svoleiðis“.

Í skýrslu vitnisins G, bróðurdóttur áfrýjanda, fyrir dómi kom fram að stefndi hefði gert á hennar hlut þar til hún varð sex til sjö ára, en þá hefði stefndi að gefnu tilefni hætt að brjóta gegn henni. Hún kvað þessi brot hafa haft mikil áhrif á sig og væri hún enn að kljást við afleiðingar þeirra. Hún kvaðst meðal annars hafa rætt þetta við F, dóttur áfrýjanda. Í framhaldi af því hefði verið haldinn fundur sem stefndi hafi verið boðaður til. Á fundinum hefði hún og F borið umræddar sakir á stefnda. Hún kvað hann ekki hafa neitað ásökununum, en sagt að hann hefði einungis verið að gera þeim gott. Að öðru leyti lýsti hún fundinum með sama hætti og áfrýjandi.Vitnið kvaðst eftir þetta engin samskipti hafa haft við stefnda. Hún upplýsti einnig að henni hefði verið tjáð að bróðir sinn hefði haft samband við sambúðarkonu stefnda og sagt að stefndi ætti ekki að koma til jarðarfarar eiginmanns síns.

Í skýrslu vitnisins F kvað hún stefnda hafa áreitt sig kynferðislega þegar hún var barn. Hún kvaðst ekki geta sagt hve oft það hefði verið, en það hefði þó verið ,,næstum því þegar færi gafst, þegar amma horfði ekki á, þá sem sagt, káfaði hann á mínum kynfærum og lét mig káfa á sínum kynfærum líka.“ Þetta hefði yfirleitt verið utan klæða en fyrir hefði komið að það hefði verið innan klæða. Hún lýsti nánar ætluðu áreiti stefnda og kvað það hafa staðið yfir frá því að hún var fjögurra til fimm ára og þar til hún varð níu til tíu ára. Hún kvað áreiti stefnda hafa hætt þegar hún hefði hótað að segja áfrýjanda frá háttsemi hans. Vitnið lýsti með sama hætti og önnur vitni aðdraganda fundarins, sem hún taldi að haldinn hefði verið á árinu 1993, og því sem þar fór fram. Hún kvaðst þar hafa borið sakir á stefnda, sem ekki hefði neitað því sem gerðist en sagt að hann hefði aðeins verið að sýna ,,að honum þætti vænt um okkur“. Hún sagðist hafa hætt öllum samskiptum við stefnda eftir lát ömmu sinnar, þáverandi eiginkonu stefnda.

Í skýrslu D, bróður áfrýjanda, kom fram að hún hefði á árinu 1993 skýrt honum frá ætlaðri misnotkun stefnda á sér, dóttur sinni og dóttur hans. Hann kvaðst hafa farið með dóttur sína til Stígamóta, líklega tvívegis, en fengið upplýst að of langur tími væri liðinn til þess að unnt væri að stofna til dómsmáls vegna atvikanna. Hann lýsti því einnig að þetta hefði orðið tilefni fundarins, sem stefndi var boðaður á og haldinn var á heimili hans á árinu 1993. Hann gerði grein fyrir því sem fram fór á fundinum með sama hætti og áfrýjandi og önnur vitni, meðal annars því að stefndi hefði ekki neitað þeim sökum, sem á hann voru bornar, heldur talið að hann hefði einungis verið að gera þeim stúlkum sem í hlut áttu gott.

Vitnið H, bróðursonur áfrýjanda, gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti þar að hann hefði setið áðurnefndan fund. Hann var spurður hvort borið hefði verið á stefnda að hann hefði ,,brotið gegn stúlkubörnum kynferðislega“ og svaraði vitnið því játandi. Hann staðfesti einnig að hann hefði eftir beiðni haft samband við sambúðarkonu stefnda og tilkynnt að stefndi ætti ekki að koma til jarðarfarar eiginmanns systur sinnar, G, þar sem stefndi hefði ,,misnotað“ hana.

V

Ummælin sem stefndi krefst ómerkingar á voru sem fyrr segir sett fram í inngangsköflum bókar áfrýjanda ,,[...]“ og í svari áfrýjanda við fyrirspurn til hennar, en þau samskipti áttu sér stað á samfélagsmiðlinum Facebook. Þegar metið er hvort ummæli áfrýjanda í bókinni sem tilgreind eru í 1. kröfulið stefnda fari að efni til út fyrir mörk tjáningarfrelsis hennar og feli í sér brot á friðhelgi einkalífs hans verður að taka tillit til þess hvernig þau voru orðuð. Í því sambandi skiptir einkum máli að hvorki af einstökum ummælum né því samhengi sem þau eru sett fram í verður ráðið að þau eigi við um stefnda. Þannig hefur stefndi sjálfur borið fyrir dómi að hann geti ekki ímyndað sér að nokkur hafi áttað sig á því að ummælin ættu við um hann. Í málinu hefur áfrýjandi þó ekki andmælt því að með ummælunum eigi hún við stefnda og háttsemi hans. Ummælin, sem um ræðir, varða atvik sem áttu sér stað fyrir um 40 til 50 árum. Verður ekki talið að lesendur bókarinnar, sem ekki þekktu til aðstæðna, hafi getað áttað sig á því að með þeim væri vísað til stefnda.

Eins og fram er komið viðhafði áfrýjandi ummæli þau sem vísað er til í 2. kröfulið stefnda í svari við fyrirspurn C, dóttur sambúðarkonu stefnda, á samfélagsmiðli. Í upphaflegri fyrirspurn C kom fram hver tengsl hennar væru við stefnda sem hefði umgengist börn hennar. Henni væri nauðsynlegt að vita hvort átt væri við stefnda í inngangsköflum bókarinnar. Í síðari samskiptum, eftir að áfrýjandi hafði staðfest að svo væri, spurði C hvað stefndi hafi ,,misnotað mörg börn og ... hversu alvarlegt þetta er“.  Áfrýjandi svaraði því með þeim orðum, sem krafist er að ómerkt verði.

Í ljósi þess, sem fram er komið, verður fallist á með áfrýjanda að henni hafi verið rétt í samskiptum sínum og C á lokuðu svæði á samfélagsmiðli að greina henni frá ætluðum brotum stefnda á þann hátt sem hún gerði. Einnig að með því hafi áfrýjandi ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og því ekki rofið friðhelgi stefnda samkvæmt 71. gr. hennar.

Samkvæmt framangreindu, þar á meðal skýrslum sem gefnar hafa verið fyrir dómi, verður sú ályktun dregin að áfrýjandi hafi leitt nægar líkur að réttmæti þess að viðhafa þau ummæli sem stefndi hefur krafist ómerkingar á. Verða í einkarefsimáli sem þessu ekki gerðar kröfur til þess að hún færi fyrir þeim frekari sönnur.

Samkvæmt öllu framansögðu verður áfrýjandi sýknuð af kröfum stefnda og hann dæmdur til þess að greiða henni málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, A, er sýkn af kröfum stefnda, B.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. október 2014.

Mál þetta, sem var dómtekið 15. september 2014, er höfðað 21. janúar 2014.

Stefnandi er B, [...], [...].

Stefnda er A, [...], [...].

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1. Að eftirfarandi ummæli sem stefnda viðhafði og birti um stefnanda á blaðsíðum 14-18 í bókinni „[...]“ verði dæmd dauð og ómerk:

A. „Þegar ég var tíu ára gömul varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi.“

B. „þar sem ofbeldismaðurinn tengdist heimilinu.“ 

C. „Það var maðurinn sem hafði skaðað mig þegar ég var barn.“

D. „Það kom í ljós að ég var ekki sú eina sem hann hafði misnotað, hann hafði misnotað stúlkur í fjölskyldunni allt frá fjögurra ára aldri þeirra.“

E. „Svo innra með mér fyrirgaf ég honum þrátt fyrir þann skaða sem hann hafði valdið mér og hinum stúlkubörnunum. Þær eru enn með þessa hryllilegu minningu grafna í hugskotum sínum.“ 

2. Að eftirfarandi ummæli sem stefnda viðhafði um stefnanda á Facebooksvæði stefndu 12. júní 2003, verði dæmd dauð og ómerk:

„Það sem ég veit 5 ... yngsta var tæplega tveggja ára (bróðurdóttir mín) og hann notaði hana til 7 ára aldurs þegar dóttir mín sagði henni að ég hafi sagt að þetta mætti afi ekki gera ... hann lét hana fróa sér og hafði fingurna upp í til að gæla við kynfæri hennar ... mamma hafði oft komið að honum en hún sagði að hann hefði alltaf lofað að hætta ... enginn vissi af þessu nákvæmlega nema mamma ...“

Að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir að hafa viðhaft og birt opinberlega framangreind ærumeiðandi ummæli í stafliðum A-E um stefnanda í bókinni „[...]“, bls. 14-18, og á Facebooksvæði stefndu, en brot stefndu varða við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 242. gr. sömu laga. Til vara teljast brotin varða við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 242. gr. sömu laga.

                Að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð  1.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. september 2013 til greiðsludags.

Að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 250.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Til vara er krafist birtingarkostnaðar að álitum.

Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefnda krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefst stefnda þess að refsing verði látin niður falla og hvers kyns fjárkröfum hafnað eða þær stórlega lækkaðar. Þá er krafist málskostnaðar.

I

                Stefnda gaf út bókina „[...]“ hjá bókaforlaginu [...] árið 2013. Stefnda er nafngreindur höfundur bókarinnar. Í bókinni segir stefnda meðal annars frá kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir þegar hún var 10 ára gömul af hálfu manns sem tengdist heimili hennar. „Ofbeldismaðurinn,“ eins og hann er nefndur í bókinni, er ekki nafngreindur, en stefnandi, sem er stjúpfaðir stefndu, fullyrðir að fullvíst sé að ummælunum sé beint að honum. Stefnandi fullyrðir einnig að við útgáfu bókarinnar hafi stefnda hringt í fjölda fólks og upplýst að gerandinn í bókinni væri stefnandi. Það sé raunar viðurkennt í bókinni en þar segir stefnda á bls. 18: ,,Ég hef líka aðvarað annað fólk sem er nátengt honum og sagt því sögu mína en mér hefur ekki verið trúað". Stefnda hafi ekki látið við það sitja að segja að stefnandi hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi heldur fullyrðir hún að stefnandi hafi misnotað aðrar stúlkur í fjölskyldunni kynferðislega allt frá fjögurra ára aldri þeirra. Stefnandi fullyrðir að öll hin umstefndu ummæli séu uppspuni frá rótum.

                Stefnda kveður það rangt að hún hafi við útgáfu bókarinnar hringt í fjölda fólks og upplýst að „ofbeldismaðurinn“ í bókinni væri stefnandi. Þar sé rangt farið með staðreyndir því stefnda hafi ekki að fyrra bragði haft samband við neinn til að upplýsa að stefnandi væri sá sem fjallað væri um í bókinni. Hið rétta sé að nokkrir fjölskyldumeðlimir hafi haft samband við stefndu og spurt hreint út hvort stefnandi væri sá maður sem lýst væri sem brotamanni í bókinni. Um það vitni samskipti stefndu og C á Facebooksíðu stefndu.

                Með bréfi 26. ágúst 2013 krafðist stefnandi þess að stefnda myndi draga hin umstefndu ummæli til baka, viðurkenna að þau ættu ekki við rök að styðjast og biðja hann afsökunar. Auk þess var krafist miskabóta að fjárhæð 1.000.000 króna og lögmannskostnaðar. Hafnaði stefnda öllum kröfum stefnanda með bréfi 12. september sama ár. 

                Í tölvubréfi bókaforlagsins [...] til lögmanns stefndu 12. febrúar 2014 segir dreift hafi verið 322 eintökum af bókinni fyrir utan höfundareintök stefndu sem séu á milli 10 og 20.  

II

Stefnandi kveðst höfða einkarefsimál þetta á hendur stefndu á grundvelli heimildar í 3. tölulið 1. mgr. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hinum umstefndu umælum sé beint að stefnanda enda hafi því ekki verið mótmælt, sbr. kröfubréf dagsett 26. ágúst 2013 og svar 12. september 2013. Stefnda beri ábyrgð á ummælunum á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Stefnandi kveðst byggja á því að stefnda hafi vegið með alvarlegum hætti að æru stefnanda með ummælum um hann á blaðsíðum 14-18 í bókinni „[...]“. Þar fullyrði stefnda að stefnandi sé ofbeldismaður sem hafi brotið kynferðislega gegn stefndu og öðrum stúlkubörnum allt frá fjögurra ára aldri þeirra. Með ummælunum fullyrði stefnda að stefnandi sé barnaníðingur sem misnoti stúlkubörn. Ummæli stefndu um stefnanda feli í sér ásökun um refsiverða og siðferðislega ámælisverða háttsemi sem sé með öllu ósönnuð og virðist eiga að hafa átt sér stað fyrir mörgum áratugum síðan án þess að stefnandi hafi nokkurn tíman sætt rannsókn lögreglu, hvað þá ákæru og saksókn eða verið dæmdur fyrir slík brot. Brotin sem stefnda ásaki stefnanda um að hafa framið séu svívirðileg að áliti alls almennings og varði allt að 16 ára fangelsi.

Ummælin í staflið A og B í stefnu beri að skoða í samhengi en þar fullyrði stefnda að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu ofbeldismanns sem tengdist heimili stefndu þegar stefnda hafi verið 10 ára. Með vísan til þess sem áður segi sé ljóst að hér eigi stefnda við stefnanda sem sé stjúpfaðir hennar. Ummælin feli í sér fullyrðingu um að stefnandi hafi beitt stefndu kynferðisofbeldi og að hann sé ofbeldismaður. Háttsemin sem stefnda fullyrði að stefnandi hafi framið og engar sönnur hafi verið færðar á varði við 202. gr. almennra hegningarlaga. Ummælin í staflið C beri að skoða í samhengi við ummælin í stafliðum A, B, D og E en þar fullyrði stefnda að stefnandi hafi skaðað stefndu þegar hann hafi misnotað hana kynferðislega þegar hún var barn. Stefnda ásaki stefnanda á nýjan leik um kynferðislega misnotkun sem varði við 202. gr. almennra hegningarlaga og margra ára fangelsi liggi við.

Í staflið D fullyrði stefnda að stefnandi hafi ekki aðeins misboðið stefndu kynferðislega heldur líka öðrum stúlkubörnum í fjölskyldunni og það allt frá því að viðkomandi hafi verið fjögurra ára gamlar. Í staflið E fullyrði stefnda að stefnandi hafi valdið þessum stúlkum skaða og þær beri þessar hryllilegu minningar með sér grafnar í hugskotum sínum. Hér sé um sambærilegar ásakanir að ræða og áður sem enginn fótur sé fyrir og varði við 202. gr. almennra hegningarlaga og margra ára fangelsi liggi við, sannist sök. 

Þessar síðastnefndu ásakanir séu þó í raun enn alvarlegri en ásakanir á hendur stefnanda um að hafa misnotað stefndu kynferðislega þegar hún var barn, því þar sé að minnsta kosti hugsanlegt að vals stefndu á milli vídda hafi valdið einhvers konar skammhlaupi sem hafi leitt til þess að stefnda greini ekki á milli draums og veruleika, þessa heims og annars. Af ummælum stefndu verði ekki með nokkru móti ráðið hvernig hún sé kominn að vitneskju um misnotkun stefnanda á öðrum barnungum stúlkubörnum í fjölskyldunni. Að minnsta kosti virðist ljóst að vitneskjan sé ekki frá fyrstu hendi komin því á blaðsíðu 18 í bókinni segi stefnda: ,,Ég hef reynt að ræða við þessar konur en komið að lokuðum dyrum".

Með ummælum á Facebooksvæði stefndu fullyrði hún að stefnandi hafi misnotað að minnsta kosti fimm stúlkubörn. Þar af eina stúlkuna frá því að hún hafi verið tveggja ára þar til hún var sjö ára gömul meðal annars með því að stinga fingrum í leggöng stúlkunnar og láta hana fróa stefnanda. Ummæli stefndu feli í sér ásökun um svívirðilegan glæp sem enginn fótur sé fyrir. Háttsemin sem stefnda gefi stefnanda að sök með ummælunum falli undir 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  

Öll ummæli stefndu séu því ærumeiðandi aðdróttanir og feli í sér brot gegn 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja ummælin með vísan til 1. mgr. 241. gr. sömu laga. Hin umstefndu ummæli séu ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta mannorð stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir. Ef ekki verði fallist á að ummælin feli í sér ærumeiðandi aðdróttun sé til vara byggt á því að ummælin feli í sér ærumeiðandi móðgun og þar með brot gegn 234. gr., sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í sinn garð með því að hafa viðhaft hin umstefndu ummæli. Ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda innihaldi þau grófar ærumeiðandi aðdróttanir þar sem að stefnanda sé með ummælunum gefin að sök refsiverð og siðferðilega ámælisverð háttsemi sem eigi ekki við rök að styðjast og varði allt að 16 ára fangelsi. Til vara sé byggt á því að ummæli stefndu séu ærumeiðandi móðgun og varði við 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um frekari rökstuðning refsikröfu sé vísað til sjónarmiða hér að framan til stuðnings kröfu um ómerkingu ummæla. 

Stefnandi kveðst krefjast miskabóta og byggja á því að stefnda hafi vegið með alvarlegum hætti að æru sinni. Með því hafi stefnda framið ólögmæta meingerð gagnvart stefnanda sem hún beri skaðabótaábyrgð á enda um ærumeiðandi aðdróttun að ræða sem bæði sé röng og borin út og birt opinberlega gegn betri vitund stefndu. Fjárhæð miskabótakröfu stefnanda taki mið af alvarleika aðdróttunar stefndu og því að stefnda meiddi æru stefnanda af ásetningi. Miskabótakrafa stefnanda sé því hófleg. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki sem og æra hans og persóna. Réttur stefnanda til æruverndar njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 enda sé um að ræða skýr og ótvíræð brot á réttareglum sem ætlað sé að vernda æru stefnanda, svo sem 235. gr. eða 234. gr. almennra hegningarlaga. Öll skilyrði séu uppfyllt til þess að dæma stefnanda háar miskabætur úr hendi stefndu.

Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnanda 250.000 krónur til þess að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í málinu í einu dagblaði, sbr. 2. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940. Fyrir liggi að aðdróttanir stefndu í garð stefnanda séu alvarlegar og nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að rétta hlut sinn með því að tryggja víðtæka birtingu dóms í málinu með auglýsingu í fjölmiðli. Þá sé ljóst að öll lagaskilyrði séu uppfyllt til þess að dæma stefnanda birtingarkostnað.

Hvað varði tjáningarfrelsi stefndu kveðst stefnandi vísa til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en það falli utan marka stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis þegar brotið sé gegn réttindum eða mannorði annarra manna.

Af öllu framansögðu sé ljóst að réttur stefnanda til æruverndar gangi framar tjáningarfrelsi stefndu eins og hér hátti til og því beri að taka dómkröfur stefnanda til greina, ómerkja ummælin og dæma stefndu til refsingar og greiðslu miskabóta.

Stefnandi byggir kröfu sína um dráttarvexti á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. sömu laga. Þar segi að skaðabótakröfur beri dráttarvexti þegar liðinn sé mánuður frá þeim degi sem kröfuhafi hafi lagt fram upplýsingar til að meta tjón og fjárhæð bóta. Í því tilviki sem hér um ræði sé miðað við kröfubréf stefnanda til stefndu 26. ágúst 2013 og sé krafist dráttarvaxta frá 26. september 2013 til greiðsludags.

Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til 234. gr., 235. gr., 1. og 2. mgr. 241. gr. og 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig vísar stefnandi til 71. og 72 gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar stefnandi til 1. mgr. b. liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna. Einnig vísar stefnandi til höfundalaga nr. 73/1972, einkum 1. gr., og VII. kafla laganna. Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu er byggð á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá er krafa um málskostnað byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að tilvitnuð ummæli í stefnu sem krafist sé ómerkingar á séu vernduð af tjáningarfrelsisákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Ekkert réttlæti neins konar takmarkanir á tjáningarfrelsi hennar. Ákvæði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eigi ekki við enda sæti hvers kyns takmarkanir á tjáningarfrelsi þröngri túlkun. Jafnframt kveðst stefnda vísa til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. sérstaklega 10. gr. laga nr. 62/1994.

Stefnda hafi í fyrsta lagi ekki nafngreint stefnanda í bók sinni. Varðandi einstaka setningar sem krafist sé ómerkingar á geti vart verið tilefni til að fallast á kröfu stefnanda. Ekkert í þeim ummælum sem krafist sé ómerkingar á vísi til stefnanda með beinum hætti. Stafliður A segi frá upplifun stefndu og áfalli sem hún hafi orðið fyrir en stefnandi komi ekki fyrir í frásögninni: „Þegar ég var tíu ára gömul varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi“. Stafliðir B, C, D og E vísi til ofbeldismanns en ekkert sé í hinum tilvitnuðu orðum sem veiti nokkra vísbendingu um það við hvern sé átt. Eina mögulega tengingin við stefnanda sé í tilvitnaðri setningu á bls. 15, sbr. staflið B, þar sem segi að ofbeldismaðurinn hafi tengst heimili stefndu. Ekki komi fram hvernig þeirri tengingu sé háttað og því verði ekki ráðið af ummælunum að hverjum þau beinist eða í hverju brotin hafi falist. Margir aðilar hafi því komið til greina og engan veginn megi ráða af ummælunum að þau beinist sérstaklega að stefnanda.

Stefnda telji að ummæli hennar verði að skoðast í samhengi við frásögn í fyrsta kafla bókarinnar í heild sinni. Í örstuttri samantekt af erfiðu lífshlaupi stefndu greini hún frá mörgum áföllum sem hún hafi orðið fyrir á lífsleiðinni. Eitt af þeim áföllum sem hafi markað líf hennar sé að hún hafi verið misnotuð á barnsaldri og að henni hafi ekki verið trúað sökum þess að hún hafi verið talin vera með fjörugt ímyndunarafl. Fyrst hún sé á annað borð tilbúin til að ræða þennan harmleik fáist vart staðist að henni hafi ekki verið heimilt að fjalla um hann með þeim hætti sem hún gerði í bókinni. Frásögnin fjalli ekki um stefnanda og sé ekki sett fram til að kasta rýrð á hann heldur sé leitast við að segja frá atburðum og upplifun stefndu án þess að stefnandi sé greinanlegur með nokkrum hætti.

Megi stefnda ekki tjá sig með þeim hætti sem hún geri í bók sinni væri í raun búið að útiloka öll fórnarlömb kynferðisbrota frá því að tjá sig um reynslu sína séu einhverjar ástæður fyrir því að málin sæti ekki í refsimeðferð. Slíkar skorður á tjáningarfrelsi fái ekki staðist í vestrænu réttarríki. Tilvitnaður texti sem og atferli stefndu eftir útgáfu bókarinnar beri með sér að fullrar nærgætni sé gætt gagnvart stefnanda og að stefnda leggi sig í framkróka við að skrifa textann á þann veg að gerandinn sé ekki þekkjanlegur.

Stefnda byggi á því að eðli málsins samkvæmt verði að vera augljóst af þeim ummælum sem séu andlag brota gegn 235. og 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um hvern þau séu viðhöfð. Annað hvort þannig að viðkomandi sé nefndur berum orðum eða að augljóst megi vera af frásögninni við hvern sé átt. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt hvað stefnanda varði enda sé ómögulegt fyrir þriðja aðila að bera kennsl á stefnanda af texta bókarinnar. Jafnframt byggi stefnda á því að til að byggt verði á 234. eða 235. gr. almennra hegningarlaga verði að sýna fram á að ásetningur hafi verið hjá hinum brotlega til að meiða æru brotaþola. Tilvitnuð ummæli í stafliðum A-E beri ekki með sér að tilgangur skrifanna hafi verið að koma höggi á stefnanda með tilliti til hins ritaða texta. Ummælin séu svo almenns eðlis að þau falli ekki innan ramma verndarhagsmuna tilvitnaðra ákvæða. Að öllu virtu feli ummælin hvorki í sér refsiverða móðgun né aðdróttun í skilningi 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga og verði því ekki ómerkt. Með vísan til framangreinds beri því að hafna kröfu um ómerkingu ummæla í A-E liðum í stefnu og sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Í öðru lagi byggi stefnda kröfu sína um sýknu á því að ummæli hennar séu sönn og því verði þau hvorki ómerkt né henni gerð refsing fyrir þau í samræmi við meginreglu íslensks réttar um „exceptio veritas“. Brotin hafi ekki verið kærð til lögreglu af tillitsemi við móður stefndu en einnig af því að brotin hafi verið fyrnd og því ljóst að þau yrðu tæplega rannsökuð og síðast en ekki síst vegna tillits stefndu við stefnanda en hún hafi álitið hann veikan mann. Stefnda mótmæli jafnframt hvers kyns ósmekklegum aðdróttunum í stefnu um að hún þekki ekki mun á draumi og veruleika eða að vitneskja hennar um misnotkun annarra stúlkna sé komin til vegna andlegra upplifana hennar.

Stefnda kveður tilgreind ummæli af Facebooksvæði hennar hafa falið í sér einkasamtal milli tveggja aðila, stefndu og C. Samtalið hafi farið fram á lokuðu vefsvæði en hafi ekki verið varpað fram á opnum vefmiðli. Þau hafi ekki verið viðhöfð til opinberrar birtingar og hafi ekki verið aðgengileg öðrum en þeim tveimur. Ummælin verði að skoðast í heildarsamhengi við samtal stefndu og viðmælanda hennar. Ekki verði ráðið af texta bókarinnar að neinum ummælum þar sé beint að stefnanda enda sé ljóst að C átti sig ekki á því að hann hafi verið sá brotlegi. Þá sé ljóst að það hafi verið þriðji aðili sem hafi hafi komið því á framfæri við dóttur C að stefnandi hafi verið gerandinn. Það megi því ljóst vera að ekki hafi verið ásetningur stefndu að almennt yrði kunnugt um þátt stefnanda í þeim fjölskylduharmleik sem átt hafi sér stað og lýst sé í upphafskafla bókar stefndu. Fyrir liggi að eina ástæðan fyrir því að stefnda hafi verið tilbúin til að staðfesta hver hinn brotlegi hafi verið sé að hún óttist að barnabörnum sambýliskonu stefnanda kunni að stafa hætta af honum. Samkvæmt framangreindu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda

Af öllu framangreindu leiði að stefndu verði ekki refsað fyrir brot gegn 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ummæli sem krafist sé refsingar fyrir og ómerkingar á feli ekki í sér ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun gagnvart stefnanda enda ekki ljóst af lestri textans að þau beinist að honum. Jafnvel þó að ummælin væru talin vísa til hans með þeim hætti að greina mætti við hvern hafi verið átt ættu þessi ákvæði ekki við enda séu ummælin sönn. Af öllu þessi leiði einnig að ómerkingarkrafa verði ekki reist á 241. gr., sbr. 234. eða 235. gr. laga nr. 19/1940.  

Stefnda kveðst hafna miskabótakröfu stefnanda enda sé skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, um að stefnda beri ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn æru stefnanda ekki fullnægt, sbr. þau sjónarmið sem að framan séu rakin. Byggi stefnda einkum á því að hún hafi ekki brotið gegn ákvæðum 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Stefnda byggi á því að ef ekki sé tilefni til ómerkingar ummæla sé ekki tilefni til greiðslu miskabóta vegna þeirra. Að sama skapi þurfi skilyrði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að vera uppfyllt til að 26. gr. skaðabótalaga geti átt við sem eigi ekki við í máli þessu. Stefnda kveðst til vara byggja kröfu sína um sýknu af miskabótakröfu stefnanda á því að miski stefnanda sé með öllu ósannaður enda hafi hann engar sönnur fært á það að hann hafi orðið fyrir miska eða að þann miska megi reka beint til umfjöllunar stefndu. Í ljósi þess sem að framan greini megi ljóst vera að enginn ásetningur hafi staðið til þess að hálfu stefndu að sverta æru stefnanda þvert á það sem segi í stefnu. Fjárhæð miskabótakröfunnar sé mótmælt sérstaklega sem óhóflegri í ljósi allra málavaxta. Bók stefndu „[...]“ hafi verið seld í litlu upplagi og hafi ekki hlotið mikla athygli til þessa dags. Líkur séu til þess að dómur í máli þessu veki öllu meiri athygli heldur en bókin sjálf hafi gert og þá sé málsókn stefnanda fremur til þess fallinn að hann verði fyrir miska en hin tilvitnuðu ummæli í upphafskafla bókarinnar. Jafnframt verði að líta til þess að stefnda sé heilsulítil og hafi litlar tekjur. 

Stefnda kveðst mótmæla sérstaklega kröfu um greiðslu til handa stefnanda að fjárhæð 250.000 krónur til að kosta birtingu forsendna og niðurstöðu dóms í máli þessu. Í þessu sambandi sé vísað til þess að bókin hafi selst í litlu upplagi og hafi vakið litla athygli. Engin opinber umfjöllun hafi átt sér stað um stefnanda sem þann aðila sem tilvitnuð ummæli beinist að og því sé vart tilefni til opinberrar birtingar á dómsniðurstöðum. 

Telji dómurinn þrátt fyrir framangreint að stefnda hafi brotið gegn 234. og 235. gr. laga nr. 19/1940 geri hún kröfu um að refsing verði látin niður falla með vísan til heimildarákvæðis 239. gr. sömu laga. Sé í þessu sambandi vísað til ótilhlýðilegrar háttsemi stefnanda sem lýst sé að framan. 

Hvað lagarök varðar vísar stefnda til ákvæða 234., 235., 239. og 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig er vísað til 71. og 73. gr. stjórnarskrár, ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og meginreglu íslensks réttar um að ekki verði refsað fyrir sönn ummæli. Málskostnaðarkrafa stefndu byggir á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Á árinu 2013 kom út í Reykjavík bókin „[...]“ sem varð tilefni máls þessa. Stefnda er höfundur bókarinnar sem gefin var út af bókaforlaginu [...]. Í inngangskafla bókarinnar sem er á blaðsíðum 13-19 og ber heitið „Lífshlaup mitt“ segir stefnda frá því að þegar hún hafi verið 10 ára hafi hún orðið fyrir „kynferðislegu ofbeldi“ og að „ofbeldismaðurinn“ hafi tengst heimilinu. Þá tekur stefnda svo til orða í kaflanum að maðurinn hafi skaðað hana þegar hún hafi verið barn. Jafnframt fullyrðir stefnda að hún hafi ekki verið sú eina sem maðurinn hafi misnotað. Hann hafi misnotað stúlkur í fjölskyldunni frá fjögurra ára aldri þeirra. Hafi stefnda fyrirgefið manninum innra með sér þrátt fyrir þann skaða sem hann hafi valdið henni og hinum stúlkunum. Í samtali við C á Facebook 12. júní 2013 kemur fram staðfesting frá stefndu um að sá maður sem hafi misnotað hana hafi verið stefnandi málsins. Þá fullyrðir stefnda að hún viti til þess að stefnandi hafi misnotað fimm stúlkubörn. Það yngsta hafi verið tveggja ára bróðurdóttir stefndu sem hann hafi misnotað til sjö ára aldurs. Hafi hann látið hana fróa sér og haft fingurna upp í til að gæla við kynfæri hennar.

                Stefnda ber ábyrgð á ummælunum samkvæmt 13. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnda staðfesti fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að öll umstefnd ummæli ættu við um stefnanda. Stefnda kvað það ekki hafa verið ætlun sína að upplýsa um það hver hefði verið hinn brotlegi. Í skýrslu stefnanda kom fram að hann hefði fengið um það vitneskju skömmu eftir að bókin kom út að hann væri sá maður sem fjallað væri um í bók stefndu. Þvertók stefnandi fyrir það að hafa beitt stefndu eða önnur stúlkubörn í fjölskyldunni kynferðislegu ofbeldi. 

                Deilt er um það í málinu hvort taka beri til greina kröfu stefnanda um ómerkingu tilgreindra ummæla, refsingu og miskabætur.

Stefnda byggir sýknukröfu sína einkum á reglunni um tjáningarfrelsi sem varin sé af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og af 10. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Aðstæður í máli þessu réttlæti ekki neins konar takmarkanir á tjáningarfrelsi stefndu. Ákvæði 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eigi ekki við enda sæti hvers kyns takmarkanir á tjáningarfrelsi þröngri túlkun. Þá hafi stefnandi ekki verið nafngreindur í bókinni „[...]“. Stefnda byggir kröfuna um sýknu einnig á því að ummæli hennar séu sönn og því verði þau hvorki ómerkt né gerð refsing fyrir þau í samræmi við meginreglu íslensks réttar um „exceptio veritas“. 

Samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, skulu allir njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu, sbr. einnig 1. mgr. 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Hugtakið friðhelgi einkalífs hefur verið skýrt þannig að í því felist réttur til að ráða yfir lífi sínu og líkama og til að njóta friðar um lífshætti og einkalíf. Þá segir í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995, að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. 73. gr. segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi megi aldrei í lög leiða. Enn fremur segir í 3. mgr. 73. gr. að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Eru tjáningarfrelsi þannig settar skorður með stoð í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

                Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru ákvæði um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs. Í 234. gr. laganna segir að hver sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum og hver sem ber slíkt út skuli sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári og í 235. gr. segir að drótti maður að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða beri slíka aðdróttun út varði það sektum eða fangelsi allt að einu ári. Í 1. mgr. 236. gr. laganna segir að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund þá varði það fangelsi allt að tveimur árum. Í 2. mgr. segir að sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er heimilt að dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk ef sá krefst þess sem misgert var við. Þá er heimilt að dæma þann sem reynist sekur um ærumeiðandi aðdróttun til þess að greiða þeim sem misgert var við hæfilega fjárhæð til að standa straum af kostnaði af birtingu dóms í opinberu blaði eða riti, einu eða fleiri. Enn fremur er samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, heimilt að láta þann sem ber ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

                Samkvæmt framangreindum ákvæðum stjórnarskrárinnar eiga allir menn rétt á að njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Þegar skarast hagsmunir stefndu af því að njóta tjáningarfrelsis og hagsmunir stefnanda af því að njóta friðhelgi einkalífs, verður litið til þess hvort hin birtu skrif, sem stefnda ber ábyrgð á, um þá reynslu stefndu sem hún lýsir af ætluðum kynferðisbrotum gegn henni og slíkum brotum gegn fimm stúlkum í fjölskyldu stefndu hafi einhverja almenna þýðingu fyrir opinbera umræðu og eigi þannig erindi til almennings, en stefnda fullyrðir að skerðing á frelsi hennar til að tjá sig eins og hún gerði kunni að skerða eða útiloka öll fórnarlömb kynferðisbrota frá því að tjá sig um reynslu sína. Það fái ekki staðist. 

                Verður nú vikið að hinum umstefndu ummælum í kröfugerð stefnanda. Í bókinni „[...]“ segir stefnda frá því í upphafskafla bókarinnar að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi um 10 ára aldur en hafi ekki á þeim tíma verið trúað og því þurft að lifa við skömmina. Þessir atburðir hafi orðið þess valdandi að hún hafi haft mikla sektarkennd eins og títt sé með ung fórnarlömb kynferðisofbeldis og flutt að heiman ung að árum enda tengist ofbeldismaðurinn heimili hennar. Í kaflanum greinir stefnda einnig frá ýmsum öðrum atburðum, fæðingu frumburðar, andláti mánaðar gamallar dóttur, alvarlegum veikindum hennar o.fl. Stefnda lýsir því að hún hafi tekið barnabarn sitt úr höndum manns sem hafi skaðað hana þegar hún var sjálf barn. Þá lýsir stefnda því í kaflanum að hún hafi ekki verið sú eina sem maðurinn hafi misnotað. Hann hafi misnotað stúlkur í fjölskyldunni allt frá fjögurra ára aldri þeirra. Þá segir orðrétt. „Það er ekki hægt að hata persónu sem er með ólæknandi sjúkdóm. Svo innra með mér fyrirgaf ég honum þrátt fyrir þann skaða sem hann hafði valdið mér og hinum stúlkubörnunum. Þær eru enn með þessa hryllilegu minningu grafna í hugskotum sínum.“ Þá segir að stefnda hafi reynt að ræða við þessar konur en komið að lokuðum dyrum. Stefnda hafi einnig aðvarað annað fólk sem sé nátengt manninum og sagt því sögu sína en henni hafi ekki verið trúað.

Umstefnd ummæli af Facebook eru hluti af samskiptum stefndu og C, þar sem stefnda skýrir nánar ætluð ofbeldisverk stefnanda og nafngreinir hann. Þar segir að stefnda viti til þess að maðurinn hafi misnotað að minnsta kosti fimm stúlkur. Hafi sú yngsta verið tæplega tveggja ára bróðurdóttir stefndu sem stefnandi hafi notað til sjö ára aldurs. Því er lýst að hann hafi látið hana fróa sér og hafi haft fingurna upp í til að gæla við kynfæri hennar. 

Stefnda byggir sýknukröfu sína öðrum þræði á því að ummæli hennar séu sönn og því verði þau hvorki ómerkt né stefndu gerð refsing fyrir þau. Stefnda hefur sönnunarbyrði fyrir sannindum ummæla sinna. Við lestur upphafskaflans í bókinni „[...]“ og ummæla stefndu á Facebook getur engum dulist að stefnda fullyrðir að náinn fjölskyldumeðlimur hafi beitt hana og önnur stúlkubörn í fjölskyldunni grófu kynferðislegu ofbeldi. Ekki skiptir máli þótt stefnandi hafi ekki verið nafngreindur í bókinni „[...]“ enda liggur fyrir að stefnandi fékk fljótlega eftir útkomu bókarinnar upplýsingar um að hann væri sá maður sem beitt hefði ofbeldinu. Þá nafngreindi stefnda stefnanda í áðurgreindum samskiptum sínum við C. Að mati dómsins verða hin umstefndu ummæli með engu móti skilin á annan veg en þann að með þeim sé verið að bera stefnanda á brýn háttsemi sem er refsiverð samkvæmt almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Hefur stefnda ekki lagt fram nein gögn í málinu um að tilgreind ummæli um stefnanda eigi við rök að styðjast og verður stefnda að bera hallan af því. Stefnda hefur í vörnum sínum í málinu freistað þess að færa sönnur á ummælin, en að mati dómsins hefur henni ekki tekist haldbær sönnun fyrir hinum umstefndu ummælunum. Á það við um fullyrðingar á borð við þær að stefnandi hafi beitt hana og „stúlkur í fjölskyldunni“ kynferðislegu ofbeldi og misnotað þær allt frá fjögurra ára aldri þeirra. Stefnandi hefur fyrir dómi neitað ætluðum brotum. Framburður vitnanna G og F fyrir dómi um ætlað kynferðislegt ofbeldi stefnanda gagnvart þeim fær ekki breytt þessari niðurstöðu, en fyrir liggur að stefnandi hefur hvorki verið fundinn sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um né hefur sætt lögreglurannsókn af slíku tilefni. Samkvæmt þessu hefur stefnda ekki rennt nokkrum stoðum undir fullyrðingar sínar um „kynferðislegt ofbeldi“ stefnanda. Að mati dómsins eru allar tilvitnaðar fullyrðingar stefndu því ósannaðar. Slík ummæli geta ekki undir nokkrum notið verndar samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi.

Að virtum fullyrðingum stefndu um ætlað kynferðislegt ofbeldi stefnanda sem koma fram í umstefndum ummælum verður niðurstaðan sú að ummælin í heild sinni séu tilhæfulaus, óviðurkvæmileg og ærumeiðandi í því samhengi sem þau voru birt. Verður það niðurstaða dómsins að ummælin í heild sinni séu móðgandi og meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og hafi falið í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga. Verður ekki hjá því komist að dæma ummælin dauð og ómerk samkvæmt heimild í 1. mgr. 241. gr. nefndra laga nr. 19/1940.  

                Stefnandi gerir kröfu um að stefnda verði dæmd til refsingar fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda. Ummælin varði við 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 enda feli ummælin í sér grófar ærumeiðandi aðdróttanir þar sem stefnanda sé gefin að sök refsiverð og siðferðislega ámælisverð háttsemi sem ekki eigi við rök að styðjast. Til vara sé á því byggt að ummæli stefndu séu ærumeiðandi móðgun og varði við 234. gr. laga nr. 19/1940. Að virtum öllum atvikum málsins og öðrum aðstæðum verður það niðurstaða dómsins að ekki þykja næg efni til að fallast á þessa kröfu stefnanda og verður stefndu ekki gerð refsing í málinu.

                Stefnandi gerir kröfu um að stefndu verði gert að greiða honum 1.000.000 króna í miskabætur með dráttarvöxtum frá 26. september 2013 til greiðsludags. Kröfuna byggir stefnandi á 26. gr. laga nr. 50/1993 og vísar til þess að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, æra hans og persóna. Um sé að ræða skýr og ótvíræð brot á réttarreglum sem ætlað sé að vernda æru stefnanda og séu öll skilyrði til þess að dæma stefnendum háar miskabætur. Fellst dómurinn á það með stefnanda að í umstefndum ummælum felist ólögmæt meingerð gegn persónu og æru stefnanda sem stefnda beri miskabótaábyrgð á samkvæmt b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Þykja miskabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 200.000 krónur, sem beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. september 2013, þegar liðinn var mánuður frá því að stefnandi krafðist bóta með bréfi til stefndu, og til greiðsludags.    

                Stefnandi gerir í málinu kröfu um að stefnda verði dæmd til að greiða honum 250.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í einu dagblaði. Stefnendur skýra þessa kröfu sína með því að fyrir liggi að aðdróttanir stefndu í garð stefnanda sem séu alvarlegar og nauðsynlegt sé fyrir stefnanda að rétta hlut sinn með því að tryggja birtingu dóms með auglýsingu í fjölmiðli. Stefnda mótmælir kröfunni og vísar til þess að bókin hafi litla athygli vakið og selst í litlu upplagi. Engin opinber umfjöllun hafi átt sér stað um þann sem tilvitnuð ummæli beinist að og því sé ekki tilefni til opinberrar birtingar. Í ljósi allra atvika málsins þykja ekki vera næg efni til að dæma stefndu til greiðslu kostnaðar af birtingu dómsins í opinberu dagblaði, sbr. heimild í 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Eftir framangreindum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnda dæmd til að greiða stefnendum málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 450.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

                Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Eftirtalin ummæli skulu vera dauð og ómerk: „Þegar ég var tíu ára gömul varð ég fyrir kynferðislegu ofbeldi“,  „Þar sem ofbeldismaðurinn tengdist heimilinu“,  „Það var maðurinn sem hafði skaðað mig þegar ég var barn“,  „Það kom í ljós að ég var ekki sú eina sem hann hafði misnotað, hann hafði misnotað stúlkur í fjölskyldunni allt frá fjögurra ára aldri þeirra“,  „Svo innra með mér fyrirgaf ég honum þrátt fyrir þann skaða sem hann hafði valdið mér og hinum stúlkubörnunum. Þær eru enn með þessa hryllilegu minningu grafna í hugskotum sínum“ og „Það sem ég veit 5 ... yngsta var tæplega tveggja ára (bróðurdóttir mín) og hann notaði hana til 7 ára aldurs þegar dóttir mín sagði henni að ég hafi sagt að þetta mætti afi ekki gera ... hann lét hana fróa sér og hafði fingurna upp í til að gæla við kynfæri hennar ... mamma hafði oft komið að honum en hún sagði að hann hefði alltaf lofað að hætta ... enginn vissi af þessu nákvæmlega nema mamma“.

                Stefndu, A, er ekki gerð refsing í málinu.

                Stefnda greiði stefnanda, B, 200.000 krónur í miskabætur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. september 2013 til greiðsludags.

                Stefnda greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.