Print

Mál nr. 421/2014

Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá

Dómsatkvæði

                                     

Þriðjudaginn 31. mars 2015.

Nr. 421/2014.

Reynir Traustason og

DV ehf.

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Söru Lind Guðbergsdóttur

(Jón Magnússon hrl.)

Ærumeiðingar. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá.

S höfðaði mál á hendur fréttastjóra blaðsins D, ritstjóra þess og útgefanda, þeim I, R og D ehf., vegna ummæla sem birt voru á forsíðu og innsíðum blaðsins svo og á vefmiðli þess og S taldi ærumeðandi í sinn garð. Með héraðsdómi var hafnað kröfum S um annað en tvenn ummæli sem birtust í fyrirsögnum á forsíðu D. Voru ummælin, sem ómerkt voru, talin á ábyrgð R og var I því sýknaður af kröfum S. Þeim R og D ehf. var sameiginlega gert að greiða S bætur, R var gert að kosta birtingu héraðsdómsins í dagblaði og D ehf. til að birta forsendur hans og dómsorð í D og á vefmiðli blaðsins að viðlögðum dagsektum. R og D ehf. áfrýjuðu héraðsdóminum til Hæstaréttar. Hæstiréttur taldi að meginefni greinarinnar hefði varðað ráðningu S í starf yfirmanns hjá stærsta stéttarfélagi landsins og hefði umfjöllun um það efni átt erindi til almennings. Var talið að S yrði af þeim sökum að þola að einkamálefni hennar hefðu verið gerð að umtalsefni í fjölmiðli að því marki sem þau tengdust ráðningu í þetta starf. Hæstiréttur vísaði til þess að við úrlausn málsins yrði að virða fyrirsagnir, sem dómkröfur S sneru að, í samhengi við greinina og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli, sem S teldi fela í sér meiðyrði í sinn garð. Taldi rétturinn að þau ummæli, sem fram komu í fyrirsögnunum tveimur á forsíðu blaðsins, gætu ekki talist móðgandi í garð S þegar virt væru í heild ummælin, samhengi þeirra við önnur ummæli á forsíðu blaðsins og ummæli á innsíðum þess og að það, sem sagt var, var rétt. Voru R og D ehf. því sýknaðir af kröfum S.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. júní og 22. október 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins lauk stefnda, sem er fædd 1985, BA prófi í lögfræði á árinu 2010 og starfaði hún eftir það hjá Vinnumálastofnun. Í málatilbúnaði hennar kemur fram að í byrjun febrúar 2012 hafi Stefán Einar Stefánsson, sem þá var formaður stéttarfélagsins VR, leitað til hennar um að halda fyrirlestur á fundi stjórnar Landssambands íslenskra verslunarmanna 7. þess mánaðar, en þau hafi ekki verið kunnug fyrir þann tíma. Við þessu hafi hún orðið, en í framhaldi af því hafi Stefán ásamt sviðsstjóra þjónustusviðs VR hvatt hana til að sækja um starf hópstjóra hjá félaginu. Hafi þetta verið nýtt starf, sem hafi einkum átt að felast í aðstoð við atvinnuleitendur í röðum félagsmanna. Félagið leitaði eftir þjónustu í tengslum við ráðningu í starfið hjá fyrirtækinu Capacent ráðningum, sem birti í einu lagi auglýsingu um þetta starf og tvö önnur hjá félaginu með umsóknarfresti til 28. febrúar 2012. Umsækjendur um þessi þrjú störf munu alls hafa orðið á fjórða hundrað talsins, en að loknum umsóknarfresti valdi Capacent ráðningar nokkra umsækjendur um hverja stöðu til að kalla til viðtals. Samkvæmt því, sem fram kom í skýrslum vitna fyrir héraðsdómi, var stefnda ekki meðal þeirra umsækjenda um starf hópstjóra, sem upphaflega voru valdir í þessu skyni, en við undirbúning starfsviðtala mun hafa komið fram af hendi stjórnenda VR að þeim þætti æskilegt að umsækjandi með menntun á sviði lögfræði yrði í þessum hópi og bættist stefnda þannig í raðir þeirra. Á því stigi mun einnig hafa komið fram að starfsmaður VR, sem ætlunin hafi verið að flytja í nýtt yfirmannsstarf, hafi ekki viljað þiggja það og hafi verið brugðist við með því að breyta starfi hópstjóra frá því, sem upphaflega var ráðgert. Að afstöðnum viðtölum við umsækjendur var stefndu boðið starf og var hún í framhaldi af því ráðin deildarstjóri ráðgjafardeildar VR frá 1. apríl 2012.

Samkvæmt því, sem fram kom í aðilaskýrslu stefndu fyrir héraðsdómi, hafði hún á þessum tíma verið í sambúð, sem var slitið í júní 2012, en í júlí sama ár hafi hún og áðurnefndur Stefán farið að draga sig saman, svo sem stefnda komst að orði í skýrslu sinni, og hafi þau tekið upp sambúð síðar í þeim mánuði. Þá kemur fram í málatilbúnaði stefndu að hún hafi lokið meistaraprófi í lögum í október 2012.

Á forsíðu DV, sem kom út 3. desember 2012, var stór ljósmynd af Stefáni Einari Stefánssyni og felld inn í hana minni ljósmynd af stefndu í hjartalaga ramma, en við hlið myndanna og neðan við þær stóð eftirfarandi: „Stefán Einar formaður VR“, „Ólga vegna ástkonu“, „Laganemi gerður að yfirmanni“, „Sara býr með formanninum“ og „400 umsækjendur um 3 störf“. Þar voru jafnframt orðin „Sara Lind er sambýliskona mín“, sem virðast hafa átt að vera höfð eftir Stefáni. Á innsíðum blaðsins birtist grein með fyrirsögninni: „Ráðningarferli hjá VR sviðsett“ og undirfyrirsögnunum: „Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR“ og „Er orðin sambýliskona formannsins“. Greinin var merkt fréttastjóra blaðsins, Inga Frey Vilhjálmssyni, en á þessum tíma var áfrýjandinn Reynir Traustason ritstjóri þess og áfrýjandinn DV ehf. útgefandi. Stefnda taldi hluta af þessum fyrirsögnum fela í sér ærumeiðingar í sinn garð, nánar tiltekið ummælin á forsíðu um ólgu vegna ástkonu, ummælin á forsíðu og innsíðu um laganema, sem hafi verið gerður að yfirmanni, og ummælin á innsíðu um að ráðningarferli hjá VR hafi verið sviðsett. Stefnda höfðaði mál þetta á hendur áfrýjendum og Inga Frey Vilhjálmssyni með stefnu 4. apríl 2013 og sneru dómkröfur hennar að síðastnefndum ummælum í fyrirsögnum, en jafnframt að tilteknum ummælum í greininni á innsíðum blaðsins. Samhengis vegna verður í meginatriðum að taka upp texta þessarar greinar, en ummælin í henni, sem dómkröfur stefndu tóku til, eru auðkennd hér á eftir með hallandi letri: „Tuttugu og sjö ára lögfræðinemi, Sara Lind Guðbergsdóttir, var ráðinn úr hópi fjölmargra umsækjenda í eina af æðstu stöðum stéttarfélagsins VR í apríl síðastliðnum. Starfið sem Sara Lind gegnir hjá stéttarfélaginu er staða deildarstjóra ráðgjafadeildar og eru í kringum fimmtán starfsmenn sem vinna undir henni. Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu, sem vitanlega er ekki óeðlilegt þegar litið er til ungs aldurs hennar og þeirrar staðreyndar að hún hafði ekki lokið námi sínu. Samt varð það úr að hún fékk starfið í kjölfar ráðningarferlis sem Capacent sá um. Um 400 umsækjendur sóttu um starfið sem Sara Lind fékk og tvö önnur störf hjá VR. DV hefur ekki upplýsingar um hversu margir sóttu um hvert af þessum þremur störfum en Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, staðfestir þessa heildartölu í samtali við DV. Nokkrum mánuðum síðar – nú í nóvember – spurðist það út að Sara Lind og Stefán Einar, sem kallar sig viðskiptasiðfræðing, væru orðin par. Það var Eiríkur Jónsson, blaðamaður og bloggari, sem greindi frá sambandi þeirra á bloggsíðu sinni. VR er stærsta stéttarfélag landsins og er félagið með árstekjur upp á meira en tvo milljarða króna … Margir einstaklingar sem voru með meiri menntun og meiri starfsreynslu en Sara Lind sóttu hins vegar um starfið hjá VR. Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar hafi hafist áður en starfið sem hún fékk var auglýst til umsóknar hjá VR. Öfugt við Stefán Einar, en gustað hefur nokkuð um hann í starfi hjá VR, og fyrir það, hefur Sara Lind lítið verið í kastljósi fjölmiðla ef undan er skilin þátttaka hennar í keppninni Ungfrú Ísland árið 2005. Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR. „Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman,“ segir einn af starfsmönnum VR sem ekki vill koma fram undir nafni. Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að starfið hefði verið auglýst fyrir „formlegheita sakir“ en að búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst. Ráðningin mun þó ekki hafa verið rædd á fundum stjórnar VR. Stefán Einar vill hins vegar ekki kannast við slíka óánægju og segir umtalið byggt á því að einhver vilji koma höggi á hann og VR … Samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar munu hafa hafist þannig að formaðurinn hafði samband við hana og bað hana að halda fyrirlestur á Hótel Rangá á Suðurlandi í byrjun árs. Mun Stefán Einar hafa borið því við að hann hefði lesið eftir hana námsritgerð sem honum hefði litist vel á. Eftir að Sara Lind hélt fyrirlesturinn á Hótel Rangá boðaði formaðurinn Söru Lind á fund sinn þar sem henni var boðin yfirmannsstaðan hjá VR með ágætis byrjunarlaunum. Böggull fylgdi þó skammrifi þar sem Stefán Einar sagðist þurfa að auglýsa stöðuna opinberlega áður en VR gæti ráðið Söru Lind. Var henni bent á að sækja um yfirmannsstöðuna líkt og aðrir … Þegar umsóknarferlið hjá Capacent um starfið var hafið og vel á veg komið var Sara Lind valin úr hópi umsækjenda, ásamt nokkrum öðrum, til að koma í starfsviðtal. Þá var búið að útiloka hluta umsækjendanna. Sara Lind fór svo í viðtalið, þar sem Stefán Einar var einn viðmælenda hennar, og fékk hún yfirmannsstöðuna hjá VR í kjölfarið, í apríl síðastliðnum … DV hafði samband við Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra VR, til að spyrja hana út í ástæður þess að Sara Lind var ráðin til stéttarfélagsins þrátt fyrir að ráðgjafarfyrirtækið sem sá um ráðningarferlið hefði ekki sett hana efst á lista. DV hafði þá verið bent á það á skrifstofu VR að Helga sæi um að svara fyrir mannaráðningar hjá félaginu. Helga vildi ekki tjá sig um málið við blaðið … Stefán Einar segir aðspurður að hann hafi ekki tekið ákvörðun að ráða Söru Lind í starfið með „formlegum“ hætti. Hann svarar því þó ekki með beinum hætti hvort Capacent hafi talið Söru Lind vera hæfasta í starfið … „Það er ekki ég sem tek þessa ákvörðun heldur veitti ég aðeins álit á umsækjandanum. Ég tók undir það að þarna væri umsækjandi með sterkar „kvalifíkasjónir“ … Þau störf sem hún hefur sýnt hérna eru til fyrirmyndar.“ Stefán Einar segist ekki alltaf sitja viðtöl við umsækjendur um störf hjá VR en hann segist hafa gert það í tilfelli Söru Lindar … Þegar Helga, framkvæmdastjóri VR, er spurð út í þessa túlkun Stefáns Einars á ráðningarferlinu segir hún að það sé alveg rétt að Stefán Einar hafi ekki komið að því með „formlegum“ hætti að ráða Söru Lind. „Ráðningar eru á ábyrgð framkvæmdastjóra þannig að ég tók endanlegu ákvörðunina …“ … Aðspurð hvort Stefán Einar hafi beitt sér fyrir því að Sara Lind yrði ráðin segir Helga að svo hafi ekki verið … Varðandi samband þeirra Söru Lindar segir Stefán Einar að það hafi ekki verið hafið á þeim tíma sem hún hóf störf. „Það er ekkert leyndarmál hér á skrifstofunni, eða nokkurs staðar annars staðar, að Sara Lind er sambýliskona mín. Hins vegar er það hlutur sem ekkert var í kortunum fyrr en á síðari hluta þessa árs … Það er alveg ljóst í hvaða „krónólógíska“ samhengi þetta var; það voru margir mánuðir sem liðu frá því hún hóf störf og þar til samband okkar hófst“ … Stefán Einar segir að Sara Lind hafi bara sótt um starfið hjá VR eins og aðrir en að vissulega hafi hún komið á Hótel Rangá og flutt fyrirlestur. „Hún sótti bara um þetta eins og annað fólk. Hins vegar var það þannig að hún hafði skrifað mjög áhugaverða ritgerð við lagadeild Háskóla Íslands sem fjallaði um félagafrelsi. Ég hafði lesið þessa ritgerð og ég þekkti hana ekki neitt. Og hún hafði komið og flutt fyrirlestur á vegum Landssambands íslenskra verslunarmanna, þar sem ég er formaður líka. Það vöktu athygli þær niðurstöður sem hún var að kynna þar varðandi Mannréttindadómstólinn, lagasetningu og lagaframkvæmd hér á landi. Það voru einu kynnin sem ég hafði haft af henni áður.“ Aðspurður hvort hann hafi ekki boðið Söru Lind að flytja fyrirlesturinn, segir Stefán Einar að svo hafi verið. „Já, já, ég las ritgerðina og bað hana að koma.“ Stefán segir aðspurður að hann kannist ekki við að sambandið á milli hans og Söru Lindar hafi valdið titringi innan VR. Segir hann að hann hafi ekki tekið eftir því … Stefán Einar segir að hann skilji vel þann áhuga sem fjölmiðlar sýni því að vel sé staðið að ráðningum starfsmanna innan VR – sjálfur tjáði hann sig alloft opinberlega um siðferði við stjórnun fyrirtækja og stofnana áður en hann varð formaður VR“.

Með hinum áfrýjaða dómi var hafnað kröfum stefndu, sem vörðuðu önnur framangreind ummæli en þau sem birtust í fyrirsögnum á forsíðu blaðsins. Ummælin, sem voru ómerkt, töldust vera á ábyrgð áfrýjandans Reynis og var því Ingi Freyr Vilhjálmsson sýknaður af kröfum stefndu. Áfrýjendur voru í sameiningu dæmdir til að greiða stefndu bætur að fjárhæð 300.000 krónur auk málskostnaðar, áfrýjandanum Reyni var einum gert að greiða henni 621.800 krónur vegna kostnaðar af birtingu dómsins í dagblaði, en áfrýjandinn DV ehf. var einn dæmdur til að birta forsendur dómsins og dómsorð í DV og á vefmiðlinum dv.is að viðlögðum tilteknum dagsektum. Þá er þess að geta að samhliða birtingu þessarar greinar í DV birtist grein um sama efni 3. desember 2012 á nefndum vefmiðli, sem auðkennd var Inga Frey Vilhjálmssyni. Sú grein var verulega styttri en sú, sem birt var í prentútgáfu DV og rakin hefur verið hér að framan, en í henni voru ummæli, sem stefnda taldi ærumeiðandi gagnvart sér og áttu sér hliðstæður í prentuðu greininni. Málsókn stefndu tók jafnframt til einstakra ummæla í greininni á vefmiðlinum, en sýknað var af kröfum hennar varðandi þau. Stefnda unir niðurstöðu héraðsdóms um þessi atriði öll.

Í aðilaskýrslu stefndu fyrir héraðsdómi kom fram að hún hafi látið af starfi sínu hjá VR 25. júní 2013. Þá er þess getið í greinargerð hennar fyrir Hæstarétti að Stefán Einar Stefánsson sé nú eiginmaður hennar.

II

Greinin, sem rakin var að framan, snýr að nokkru efnislega að einkalífi stefndu, sem nýtur verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Til þess verður á hinn bóginn að líta að meginefni greinarinnar varðaði ráðningu hennar í starf yfirmanns hjá stærsta stéttarfélagi landsins. Umfjöllun um það efni átti erindi til almennings. Af þeim sökum verður stefnda að þola að einkamálefni hennar hafi verið gerð að umtalsefni í fjölmiðli að því marki, sem þau tengdust ráðningu í þetta starf.

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti eru aðeins til úrlausnar dómkröfur stefndu, sem varða tvær fyrirsagnir á forsíðu DV 3. desember 2012, þar sem sagði annars vegar: „Ólga vegna ástkonu“ og hins vegar: „Laganemi gerður að yfirmanni“. Við úrlausn málsins verður að virða þessar fyrirsagnir í samhengi við greinina á innsíðu blaðsins og láta ekki við það sitja að horfa einangrað á þau ummæli, sem stefnda telur fela í sér meiðyrði í sinn garð. Að því er varðar fyrri ummælin er þess að geta að í íslenskri orðabók Menningarsjóðs er orðið „ástkona“ skýrt sem „ástmær kvænts manns, frilla“. Í íslenskri samheitaorðabók er sama orð á hinn bóginn skýrt sem „ástmey, ástmær, ástvina, elskandi, frilla, fylgikona, kærasta“. Af þessu sést glöggt að orð þetta hefur ekki einhlíta merkingu. Til þess verður að líta að á sömu forsíðu var jafnframt að finna tvær aðrar undirfyrirsagnir, þar sem sagði efnislega að stefnda byggi með formanni VR og haft var eftir honum að stefnda væri sambýliskona sín. Í ljósi samhengis allra þessara ummæla verður að líta svo á að með orðinu „ástkona“ í fyrirsögninni hafi verið vísað til þess að stefnda og formaðurinn væru í sambúð. Óumdeilt er að það hafi verið rétt. Um síðari ummælin er þess að gæta að þótt stefnda hafi lokið BA prófi í lögfræði á árinu 2010 lagði hún stund á meistaranám í sömu grein á þeim tíma, sem hún var ráðin í starfið, og lauk því haustið 2012. Með réttu mátti því nefna hana laganema. Að þessu virtu var það rétt sem sagði í þessum fyrirsögnum. Í greininni á innsíðum blaðsins kom meðal annars fram að fjöldi annarra manna hefði sótt um starfið, sem stefnda fékk, svo og að starfsreynsla hennar væri takmörkuð, sem væri eðlilegt í ljósi ungs aldurs hennar. Þar komu einnig fram þær skýringar, sem formaður VR og framkvæmdastjóri höfðu veitt blaðinu um forsendur ráðningarinnar. Þegar þetta er metið í heild geta ummælin, sem komu fram í fyrirsögnunum á forsíðu blaðsins, ekki talist móðgandi í garð stefndu í ljósi tilefnisins að baki skrifunum.

Samkvæmt framansögðu verða áfrýjendur sýknaðir af kröfum stefndu, en rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Reynir Traustason og DV ehf., eru sýknir af kröfum stefndu, Söru Lindar Guðbergsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2014.

Mál þetta sem dómtekið var 11. febrúar 2014 var höfðað 4. apríl 2013 af Söru Lind Guðbergsdóttur, Kristnibraut 95, Reykjavík á hendur Inga Frey Vilhjálmssyni fréttastjóra, Granaskjóli 18, Reykjavík, Reyni Traustasyni ritstjóra, Aðaltúni 20, Mosfellsbæ og Ólafi Magnúsi Magnússyni, Grænatúni 22, Kópavogi, formanni stjórnar DV ehf., fyrir hönd fjölmiðlaveitunnar DV ehf., Tryggvagötu 11, Reykjavík, vegna umfjöllunar í 140. tölublaði 102. árgangs prentmiðilsins DV þann 3. desember 2012, á forsíðu blaðsins og á bls. 10 og 11 í blaðinu, og vegna umfjöllunar í netútgáfunni dv.is þann 3. desember 2012.

Stefnandi gerir þessar dómkröfur:

1.

Að eftirfarandi ummæli á forsíðu prentmiðilsins DV, 140. tölublaðs 102. árgangs, þann 3. desember 2012 verði dæmd ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:

·  „Ólga vegna ástkonu“.

·  „Laganemi gerður að yfirmanni“.

Að eftirfarandi ummæli á bls. 10 og 11 í prentmiðlinum DV, 140. tölublaðs 102. árgangs, þann 3. desember 2012 verði dæmd ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:

·  „Ráðningarferlið hjá VR var sviðsett“, þ.e. fyrirsögn á bls. 10 og 11.

·  „Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR“, þ.e. undirfyrirsögn á bls.10.

·  „Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu“.

·  „Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar hafi hafist áður en starfið sem hún fékk var auglýst til umsóknar hjá VR“.

·  „Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR“.

·  „Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman“.

·  „Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að starfið væri auglýst fyrir „formlegheita sakir“ en búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst“.

·  „Eftir að Sara Lind hélt fyrirlesturinn á Hótel Rangá boðaði formaðurinn Söru Lind á fund sinn þar sem henni var boðin yfirmannsstaða hjá VR með ágætis byrjunarlaun. Böggull fylgdi þó skammrifi þar sem Stefán Einar sagðist þurfa að auglýsa stöðuna opinberlega áður en VR gæti ráðið Söru Lind. Var henni bent á að sækja um yfirmannsstöðuna líkt og aðrir“.

Að eftirfarandi ummæli sem birtust á netútgáfunni dv.is þann 3. desember 2012 verði dæmd ómerk, samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:

·  „27 ára laganemi ráðin úr hópi 400 umsækjenda“, þ.e. undirfyrirsögn fréttar á netmiðlinum.

·  „Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu“.

·  „Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR sökum þess að Sara Lind er sambýliskona formanns VR, Stefáns Einars Stefánssonar“. 

·  „Mér fannst það skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman“.

·  „Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst“.

2.

Að stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason, verði dæmdir til refsingar vegna ofangreindra ummæla og birtingar þeirra samkvæmt 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3.

Að allir stefndu verði dæmdir óskipt (in solidum) til að greiða stefnanda 1.000.000 krónur í miskabætur, samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með dráttarvöxtum frá stefnubirtingu til greiðsludags, skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

4.

Að stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason, verði dæmdir óskipt (in solidum) til að greiða stefnanda 621.800 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendur og dómsorð, í víðlesnu dagblaði, samkvæmt 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5.

Að stefndi, DV ehf., verði dæmdur til að birta forsendur og dómsorð í máli þessu í prentmiðlinum DV og á netútgáfunni dv.is, að viðlögðum dagsektum, samkvæmt 59. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

6.

Að stefndu verði dæmdir óskipt (in solidum) til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi við aðalmeðferð eða samkvæmt mati dómsins, að teknu tilliti til 25,5% virðisaukaskatts á lögmannsþóknun.

Af hálfu stefndu eru gerðar eftirfarandi dómkröfur:

1.                Krafist er sýknu.

2.                Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

Málsatvik og ágreiningsefni

Stefnandi lýsir málsatvikum þannig í stefnu að þann 3. desember 2012 hafi birst umfjöllun í prentmiðlinum DV er snerti mannorð og starfshæfni stefnanda, auk þess sem fjallað hafi verið um samband stefnanda og sambýlismanns hennar. Sambærileg umfjöllun væri á netútgáfunni dv.is, sem muni vera meðal mest lesnu netmiðla landsins. Báðir fjölmiðlar séu starfræktir af fjölmiðlaveitunni DV ehf.

Stefnandi og formaður VR hafi þekkst óverulega þegar hún hafi hafið störf hjá VR. Eina sambandið, sem þá hafi verið á milli þeirra, tengist því að formaður VR hafi fengið stefnanda til að flytja fyrirlestur fyrir stjórn Landssambands íslenskra verslunarmanna þann 7. febrúar 2012, eftir ábendingu Árna Leóssonar, sviðsstjóra þróunarsviðs VR. Í kjölfarið hafi stefnanda, eins og fleirum, verið bent á að starf hópstjóra hjá VR væri laust til umsóknar. Stefnandi hafi ákveðið að sækja um starf hópstjóra en upplýst jafnframt um mögulegt framhaldsnám í háskóla í Englandi þá um haustið. Stefnandi hafi áskilið sér rétt til að afturkalla umsóknina eða hafna starfi ef hún hyrfi til náms í Englandi.

Stefnandi hafi verið ráðin til starfa hjá VR eftir vandað og hlutlaust ráðningarferli í umsjón fagaðilans Capacent. Henni hafi verið tilkynnt af starfsmanni Capacent, um miðjan mars 2012, að VR hefði ákveðið að bjóða henni starfið. Í framhaldinu hafi stefnandi farið til fundar við framkvæmdastjóra VR, sviðsstjóra þróunarsviðs VR og formann VR þar sem farið hafi verið yfir kaup og kjör vegna ráðningarinnar. Á þeim fundi hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því að starfið væri nokkuð breytt með hliðsjón af nýju skipulagi VR og henni boðið starf deildarstjóra ráðgjafardeildar félagsins. Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því að undir starfsemi deildarinnar féllu málefni atvinnuleitenda, kjaramálaráðgjöf og starfsendurhæfing og þar sem að fyrrum forstöðumaður þáverandi kjaramálasviðs VR hefði afþakkað stöðuna þá væri stefnanda boðin hún á grundvelli ofangreindrar atvinnuumsóknar hennar.

Stefnandi hafi verið í sambúð á þeim tíma, sem hún hafi sótt um og verið ráðin í umrætt starf, þ.e. í febrúar og mars 2012. Þeirri sambúð hafi lokið í júní 2012 og fari fjarri að tilfinningasamband hafi verið á milli stefnanda og formanns VR fyrr en nokkru eftir að þessari fyrri sambúð hennar hafi lokið.

Við vinnslu umfjöllunar DV og dv.is hafi fréttastjóri fjölmiðlanna, Ingi Freyr Vilhjálmsson, verið upplýstur um staðreyndir málsins af formanni og framkvæmdastjóra VR, m.a. um vandað ráðningarferli, starfsreynslu og háskólagráðu stefnanda. Stjórn VR hafi þann 5. desember 2012 gefið út sérstaka yfirlýsingu vegna hinnar röngu umfjöllunar DV og dv.is frá mánudeginum 3. desember 2012. Í yfirlýsingunni komi fram að stjórn VR hafi farið yfir það ráðningarferli sem fjallað var um í viðkomandi fjölmiðli og telji að rétt hafi verið staðið að ráðningu deildarstjóra ráðgjafadeildar VR, þ.e. stefnanda. Þrátt fyrir það hafi stefndu ákveðið að virða að vettugi tilmæli um afsökunarbeiðni vegna hinnar röngu og ærumeiðandi umfjöllunar. 

Í greinargerð stefndu er málavöxtum ekki lýst sjálfstætt.

Í máli þessu er deilt um það hvort stefndu hafi verið heimilt að birta umstefnd ummæli eða hvort brotið hafi verið gegn stefnanda með birtingunni.

Fyrir dóminum er samhliða máli þessu rekið mál sem sambýlismaður stefnanda hefur höfðað á hendur stefndu vegna sömu umfjöllunar stefndu, mál nr. E-1471/2013. Aðalmeðferð fór fram sama dag í báðum málum og fóru skýrslutökur fram í einu lagi.

Stefnandi kom fyrir dóminn og gaf skýrslu. Þá gáfu vitnaskýrslur fyrir dóminum sambýlismaður stefnanda, framkvæmdastjóri VR, auk fyrrverandi og núverandi starfsmanna og stjórnarmanna VR og starfsmanns Capacent sem annaðist ráðningarferlið. Fyrrum sambýlismaður stefnanda fékk boðun til að bera vitni en hann mætti ekki til skýrslugjafar. Dómurinn ákvað að hann yrði ekki færður fyrir dóminn þar sem ekki þótti líklegt að hann gæti borið vitni um atriði sem skiptu máli fyrir úrslit málsins og ekki hefði verið upplýst um með öðrum hætti. 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Í umfjöllun DV og dv.is sé bæði gefið í skyn og fullyrt að formaður VR hafi séð til þess að stefnandi yrði ráðin í starf hjá VR og ráðningarferli verið sýndarleikur.  Jafnframt sé dregin upp sú mynd af stefnanda að hún hafi takmarkað hæfi til að gegna viðkomandi starfi, hafi ekki lokið háskólagráðu og hana skorti starfsreynslu. Gefið sé í skyn að stefnandi hafi ekki hlotið starf sitt vegna eigin verðleika heldur vegna ástarsambands við formann VR. Sérstaklega sé talað um stefnanda sem ástkonu formanns VR og dregin fram þátttaka hennar í fegurðarsamkeppni fyrir sjö árum. 

Einkalíf stefnanda sé sérstaklega gert að umtalsefni og ranglega látið að því liggja að ástarsamband hafi hafist á milli stefnanda og formanns VR áður en stefnandi hafi verið ráðin til starfa hjá VR og látið að því liggja að formaður VR hafi ráðið sambýliskonu sína og tekið hana fram yfir aðra hæfari umsækjendur. Öll umfjöllun DV og dv.is um ástarsamband stefnanda og formanns VR og tengsl sambandsins við ráðningu hennar til VR sé röng og sérlega meiðandi fyrir stefnanda. 

I. Krafa um ómerkingu ummæla í prentmiðlinum DV 3. desember 2012 og í netútgáfunni dv.is sama dag

I.1.              Krafa um ómerkingu á eftirfarandi ummælum á forsíðu DV 3. desember 2012

a)                        „Ólga vegna ástkonu“

Stefnandi telji að með ofangreindum ummælum á forsíðu blaðsins sé því haldið fram að ólga væri innan VR vegna ráðningar stefnanda og vegna þess að hún væri ástkona formanns VR. Ummælin séu röng og meiðandi, auk þess sem þau dragi einkalíf stefnanda inn í opinbera umfjöllun með neikvæðum og óviðeigandi hætti. 

Stefnandi mótmæli því að ólga hafi verið innan félagsins enda hafi hún aldrei orðið vör við ólgu sem beinst hafi að henni, ráðningu hennar eða störfum hjá félaginu. Enn síður hafi stefnandi orðið vör við ólgu vegna ástarsambands hennar og formanns VR, sem hafi hafist töluvert eftir að hún hafi verið ráðin til starfa hjá VR. Höfundur umfjöllunarinnar hafi á engan hátt gert sennilegt að framangreind staðhæfing eigi sér stoð í raunveruleikanum.

Stefnandi telji að með notkun orðsins ástkona sé sérstaklega lítið gert úr henni og hæfni hennar, en dregin upp sú mynd að stefnandi hefði fengið starf hjá VR vegna ástarsambands við formann VR. Samkvæmt íslenskri orðabók þýði orðið ástkona ástmær kvænts manns, frilla. Áhrif ummælanna séu aukin með birtingu myndar af andliti stefnanda innan í hjarta og ofan á mynd af formanni VR við brjóst hans.

Stefnandi byggi á því að framangreind ummæli, ásamt umgjörð þeirra með myndbirtingu, geri lítið úr persónu hennar og starfshæfni, auk þess að draga einkalíf stefnanda inn í opinbera umræðu án nokkurs tilefnis af hennar hálfu. Framsetningin lýsi kvenfyrirlitningu og sé sérlega meiðandi, enda birt á forsíðu blaðsins. Hafa beri í huga að blaðinu sé stillt upp á áberandi stöðum í helstu verslunum landsins og fái því efni á forsíðu meiri útbreiðslu en sem nemi sölu blaðsins.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og fari gegn ákvæðum 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð stefnda Reynis Traustasonar sem ritstjóra, sbr. 51. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011.

b)                        Laganemi gerður að yfirmanni

Stefnandi telji að með ofangreindum ummælum sé því haldið fram að hún hafi ekki lokið prófi í lögfræði og hafi þannig ekki uppfyllt þær hæfiskröfur sem gerðar hafi verið til þess starfs sem hún hafi verið ráðin til hjá VR.

Hið rétta sé að stefnandi hafi lokið BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands í október 2010 og hafi verið félagsmaður í Lögfræðingafélagi Íslands þegar hún hafi sótt um starfið. Hún hafði lokið lögfræðiprófi og því ekki einungis „laganemi“, eins fullyrt hafi verið í umfjöllun prentmiðilsins DV og netútgáfunnar dv.is. Það breyti ekki þeirri staðreynd að stefnandi hafi verið lögfræðingur þegar hún hafi sótt um starf hjá VR, þó að hún hafi vorið 2012 verið að ljúka framhaldsnámi, þ.e. meistaragráðu í lögfræði, sem hún hafi hlotið í október 2012. 

Stefnandi byggi á því að sem lögfræðingur með BA-gráðu hafi hún uppfyllt þær menntunarkröfur sem gerðar hafi verið í starfsauglýsingu, þ.e. „háskólanám sem nýtist í starfi“.

Stefnandi telji að tilvísun til hennar sem „laganema“ á forsíðu DV hafi verið bæði röng og villandi þar sem hún hefði lokið prófi í lögfræði árið 2010. Með þessari framsetningu sé dregin upp röng mynd af stefnanda og gert lítið úr kunnáttu og hæfni hennar, þrátt fyrir að fjölmiðillinn hefði fengið upplýsingar um háskólapróf stefnanda.  Vísað sé til fyrri umfjöllunar um útbreiðslu efnis á forsíðu DV.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og varði jafnframt við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð stefnda Reynis Traustasonar sem ritstjóra, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

I.2.              Krafa um ómerkingu á eftirfarandi ummælum sem birtust í DV þann 3. desember á bls. 10 og 11 í grein sem stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson skrifar sem höfundur og á eftirfarandi ummælum í grein sem birtist þann 3. desember 2012 á dv.is. eftir sama höfund

a)                        „Ráðningarferlið hjá VR var sviðsett“, fyrirsögn greinar á bls. 10 og 11.

Stefnandi telji að með ofangreindri fyrirsögn, einkum í ljósi samhengis fréttarinnar, sé því haldið fram að fyrir fram hafi verið búið að ákveða að stefnandi fengi starfið áður en umrætt ráðningarferli hafi hafist. Ráðningaferlið hafi því einungis verið til málamynda.  

Stefnandi byggi á því að þetta sé rangt og að hún hafi verið ráðin vegna eigin verðleika eftir vandað ráðningarferli. Þannig hafi stefnandi verið beðin um ítarlegar upplýsingar um nám og starfsreynslu auk persónulegra upplýsinga um aðstæður. Síðan hafi hún verið boðuð í viðtal þar sem verið hafi starfsmaður Capacent, sem hafi haft umsjón með ráðningunni, framkvæmdastjóri VR, sviðsstjóri þróunarsviðs VR og formaður VR. Í kjölfarið hafi henni verið boðið starf hjá VR.

Að mati stefnanda hafi umsóknarferlið verið vandað og undir faglegri handleiðslu Capacent. Stjórn VR hafi kannað sérstaklega ráðningarferlið í umræddu tilviki og lýst yfir því að rétt hafi verið staðið að ráðningunni. Fullyrðingar um annað í ofangreindum ummælum séu rangar og meiðandi fyrir stefnanda og til þess fallnar að gera lítið úr hæfni hennar sem starfsmanns á vinnumarkaði. Höfundur ummælanna hafi á engan hátt gert sennilegt að fótur sé fyrir framangreindum aðdróttunum. 

Stefnandi telji að ofangreind ummæli varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð Inga Freys Vilhjálmssonar sem höfundar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

b)                        „Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR“, undirfyrirsögn greinar á bls. 10 í prentmiðlinum DV, og „27 ára laganemi ráðin úr hópi 400 umsækjenda“, undirfyrirsögn greinar í netútgáfunni dv.is.

Stefnandi byggi á því að með ofangreindum ummælum sé því ranglega haldið fram að hún hafi ekki lokið háskólaprófi í lögfræði. Jafnframt sé gefið í skyn að vegna þessa hafi hún ekki uppfyllt kröfur um hæfi til ráðningar í viðkomandi stöðu. Þetta sé rangt og meiðandi en fyrir liggi að stefnandi hafi lokið BA-prófi í lögfræði frá Háskóla Íslands í október 2010. Vísað sé til fyrri umfjöllunar um svipuð ummæli.

Stefnandi telji að með ummælunum og framsetningu þeirra sé gert lítið úr kunnáttu og hæfni hennar, þvert á vitneskju höfundar. Ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð Inga Freys Vilhjálmssonar sem höfundar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011.

Stefnandi vísi til sömu sjónarmiða um menntun og starfshæfi hennar vegna ummælanna 27 ára laganemi ráðin úr hópi 400 umsækjenda, sem birst hafi sem undirfyrirsögn netútgáfunnar dv.is. Þessi ummæli á dv.is varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fara í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð Inga Freys Vilhjálmssonar sem höfundar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Athygli sé vakin á því að höfundi greinarinnar hafi mátt vera ljóst að fjöldinn 400 umsækjendur um stöðu hópstjóra hafi verið stórlega orðum aukinn, enda hafi komið fram í viðkomandi frétt að þessi fjöldi hafi samanlagt átt við um þrjú störf.

c)                        „Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu“

Stefnandi byggi á því að hún hafi lokið BA-gráðu í lögfræði árið 2010. Hún hafi því verið útskrifaður lögfræðingur og félagsmaður í Lögfræðingafélagi Íslands. Ofangreind ummæli séu því röng og misvísandi hvað varði menntun og starfshæfi stefnanda. 

Stefnandi byggi á því að hún hafi unnið með námi við mörg og mismunandi störf frá því að hún byrjaði í menntaskóla. Sérstaklega byggi stefnandi á því að hún hafi starfað á stjórnsýslusviði Vinnumálastofnunar frá maí 2009 og hefði því starfað þar í tæp þrjú ár þegar hún hafi sótt um starf hjá VR. Í störfum sínum fyrir Vinnumálastofnun hefði stefnandi aflað sér gagnlegrar og viðeigandi starfsreynslu fyrir það starf sem hún hafi verið ráðin til að sinna hjá VR. Þannig sé staðhæfing umfjöllunar fjölmiðilsins um takmarkaða starfsreynslu bæði röng og meiðandi.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

Stefnandi byggi á sömu málsástæðum varðandi sömu ummæli á dv.is eftir sama höfund. Ummælin varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fara í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

d)                        „Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar hafi hafist áður en starfið sem hún fékk var auglýst til umsóknar hjá VR“

Stefnandi telji að með ofangreindum ummælum með hliðsjón af samhengi umfjöllunarinnar, sé gefið í skyn að ástarsamband stefnanda og formanns VR hafi hafist áður en hún hafi sótt um starf hjá VR. Þetta sé rangt og tilhæfulaust þar sem tilfinningasamband stefnanda og formanns VR hafi ekki hafist fyrr en nokkru eftir að stefnandi hafi hafið störf hjá VR. Einungis formleg samskipti hefðu átt sér stað á milli stefnanda og formanns VR áður en umrætt starf hafi verið auglýst. Höfundurinn hafi á engan hátt gert sennilegt að nokkur stoð sé fyrir fullyrðingum hans.   

Stefnandi telji ofangreind ummæli sérstaklega meiðandi fyrir hana, enda hafi hún verið í sambúð með öðrum manni á þeim tíma sem hún hafi sótt um starfið hjá VR.  Með ummælunum sé látið að því liggja að hún hafi verið sambýlismanni sínum ótrú. Jafnframt feli ummælin í sér atlögu að einkalífi stefnanda, en það sé gert að opinberu umfjöllunarefni án nokkurrar ástæðu. Höfundur beri ábyrgð á nafnlausum heimildum sem hann vísi til og birti með þessum hætti.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 229., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

e)                        „Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR.“ og „Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR sökum þess að Sara Lind er sambýliskona formanns VR, Stefáns Einars Stefánssonar“.

Að mati stefnanda sé með ummælunum gefið í skyn að ráðning hennar hafi valdið óánægju á vinnustað hennar, auk þess sem gert sé lítið úr starfshæfni hennar. Reynt sé að draga upp þá mynd að einhver sérstakur titringur hafi orðið vegna ráðningarinnar og hann stafi m.a. af sambúð stefnanda og formanns VR.

Framangreindar fullyrðingar fjölmiðilsins séu rangar og meiðandi fyrir æru og persónu stefnanda. Þannig liggi fyrir að sambúð stefnanda með formanni VR hafi ekki hafist fyrr en töluvert eftir ráðningu hennar og hún hafi verið í sambúð með öðrum manni þegar hún hafi verið ráðin til VR. Jafnframt hafi stefnandi aldrei orðið vör við neinn titring vegna ráðningar hennar og höfundur umfjöllunarinnar hafi ekki sýnt fram á að aðdróttunin eigi við rök að styðjast.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

Vísað sé til sömu málsástæðna varðandi ofangreind ummæli á dv.is eftir sama höfund. Stefnandi telji þau ummæli einnig varða ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og að þau fari í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

f) „Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman“.

Stefnandi byggi á því að með ofangreindum ummælum sé gert lítið úr starfshæfni og viðeigandi starfsreynslu hennar. Jafnframt sé með ummælunum gefið í skyn að stefnandi hafi hlotið starfið vegna ástarsambands við formann VR, en ekki vegna eigin verðleika. Tilvísun í ummæli ónafngreinds heimildarmanns sé á ábyrgð höfundar greinar. Ummæli þessi séu röng og tilhæfulaus. Stefnandi hafi ekki verið „óreynd“ heldur hafi hún t.d. haft tæplega þriggja ára reynslu af störfum hjá Vinnumálastofnun. Þessi starfsreynsla hafi verið sérstaklega viðeigandi fyrir það starf sem stefnandi hafi verið ráðin til að sinna.

Stefnandi telji það einnig rangt og meiðandi að látið sé að því liggja að hún hafi verið ráðin til starfa hjá VR vegna ástarsambands við formann VR. Ekkert ástarsamband hafi verið með þeim þegar stefnandi hafi verið ráðin til starfans. Jafnframt hafi hún verið ráðin til starfans í kjölfar vandaðs ráðningarferlis í umsjón fagaðila. Fyrir liggi að stjórn VR hafi farið yfir ráðningarferlið og telji að rétt hafi verið staðið að ráðningu stefnanda. Með ummælunum sé ekki einungis vegið að æru hennar heldur séu sambúðarmál stefnanda dregin inn í opinbera umræðu af tilefnislausu og þannig sé brotið gegn friðhelgi einkalífs hennar.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

Stefnandi vísi til sömu málsástæðna varðandi sömu ummæli á dv.is. Þau ummæli varði einnig ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

g)                        „Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að starfið væri auglýst fyrir „formlegheita sakir“ en búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst.“

Stefnandi vísi til fyrri umfjöllunar um ráðningarferli við ráðningu hennar, en þar komi fram að ekki hafi verið búið að ákveða að hún fengi starfið áður en ferlið hafi hafist.  Jafnframt hafi stjórn VR farið yfir ráðningarferlið og telji að rétt hafi verið staðið að ráðningu stefnanda. Um þessi atriði sé vísað til fyrri umfjöllunar. Að mati stefnanda séu ummælin röng og meiðandi fyrir hana, en með þeim sé látið að því liggja að hún hafi fengið starfið án verðleika og þannig gert lítið úr hæfni hennar.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. Höfundur greinar beri ábyrgð á tilvitnun í ónafngreindan heimildarmann.

Vísað sé til sömu málsástæðna varðandi sams konar ummæli á dv.is. Stefnandi telji að þau ummæli varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

h)                        „Eftir að Sara Lind hélt fyrirlesturinn á Hótel Rangá boðaði formaðurinn Söru Lind á fund sinn þar sem henni var boðin yfirmannsstaða hjá VR með ágætis byrjunarlaun. Böggull fylgdi þó skammrifi þar sem Stefán Einar sagðist þurfa að auglýsa stöðuna opinberlega áður en VR gæti ráðið Söru Lind. Var henni bent á að sækja um yfirmannsstöðuna líkt og aðrir.“

Stefnandi byggi á því að sú umfjöllun sem fram komi í ofangreindum ummælum sé röng. Formaður VR hafi aldrei boðað stefnanda á fund sinn til að bjóða henni yfirmannsstöðu hjá VR með ágætis byrjunarlaun áður en starfið yrði auglýst. Þá sé það rangt, sem haldið sé fram, að formaður VR hafi sagt við stefnanda að auglýsa þyrfti stöðuna opinberlega til málamynda áður en VR gæti ráðið hana. Höfundur hafi ekki gert sennilegt að stoð sé fyrir ofangreindum aðdróttunum.

Þegar hafi komið fram hvernig ráðningarferlinu hafi verið háttað og sé vísað til þess. Ekkert í umræddu ráðningarferli hafi gefið til kynna að fyrir fram væri búið að ákveða að ráða stefnanda. Ítrekað sé að stjórn VR hafi farið yfir ráðningarferlið og talið að rétt hafi verið staðið að ráðningu stefnanda. Með framangreindum ummælum sé með meiðandi hætti gert lítið úr persónu og starfshæfni stefnanda og gefið í skyn að hún hafi verið ráðin án verðleika.

Stefnandi telji að ofangreind ummæli í DV varði ómerkingu samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laga nr. 19/1940 og fari í bága við ákvæði 234. gr., 235. gr. og 236. gr. laganna. Ummælin séu á ábyrgð höfundar greinarinnar, stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar, sbr. 51. gr. laga nr. 38/2011. 

II.                Refsikrafa á hendur stefndu

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar í kafla I geri stefnandi þá kröfu að stefndu, Inga Frey Vilhjálmssyni og Reyni Traustasyni, verði gert að sæta refsingu fyrir tilgreind ummæli. Stefnandi byggi á því að lagaskilyrði séu til refsingar, þar sem framsetning ummælanna og þær rangfærslur sem þau feli í sér verði að teljast alvarleg atlaga að æru og starfsheiðri hennar. Þessu til viðbótar sé einkalíf stefnanda dregið inn í opinbera umræðu á sérlega neikvæðan og særandi hátt.

Varðandi refsiákvæði vísi stefnandi til 229. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn ákvæðunum varði sektum eða fangelsi allt að einu ári. Þar sem stefndu hafi mátt vera ljóst eftir samtal Inga Freys Vilhjálmssonar við bæði formann VR og framkvæmdastjóra VR að farið væri með rangt mál gagnvart stefnanda, sé einnig vísað til 236. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn því ákvæði varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. 

Stefnandi telji að við mat á hæfilegri refsingu stefndu eigi að horfa til þess að stefndu séu fagmenn á sínu sviði, sem fréttastjóri og ritstjóri. Báðir séu með víðtæka reynslu af blaðamennsku og þekki vel til ábyrgðar sinnar samkvæmt þeim lagagreinum almennra hegningarlaga sem háttsemin varði. Þá verði einnig að taka tillit til þess að stefndu hafi gefist kostur á að leiðrétta opinberlega rangfærslur sínar á sama vettvangi og umfjöllunin hafi birst, en hafi ekki sinnt tilmælum um það.

III.              Krafa um miskabætur

Krafa stefnanda um miskabætur byggi á því að stefndu beri ábyrgð á umfjöllun sem áður hafi verið lýst, sem feli í sér ólögmæta meingerð gegn persónu, friði og æru stefnanda, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Stefnandi telji að stefndu hafi með birtingu hinnar tilgreindu umfjöllunar, sem fengið hafi mikla útbreiðslu, haldið fram röngum og villandi staðhæfingum um starfshæfi hennar, s.s. menntun og reynslu, og verðleika hennar til ráðningar í starf hjá VR. Með ummælunum hafi verið veist að persónu stefnanda og manngildi, sem mögulega kunni að bitna á framtíðarmöguleikum hennar á vinnumarkaði. Jafnframt hafi með umfjölluninni friðhelgi einkalífs stefnanda verið rofin með ósmekklegum hætti og meðal annars dróttað að henni þeim lastverða eiginleika að hafa verið fyrri unnusta sínum ótrú.

Stefndi Reynir Traustason, sem ritstjóri og ábyrgðarmaður DV, beri ábyrgð á fyrirsögn og framsetningu á forsíðu DV, þ. á m. myndbirtingu. Stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson, sem höfundur, beri ábyrgð á umfjöllun í frétt DV á bls. 10-11, þ.m.t. fyrirsögn. Stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson beri einnig ábyrgð, sem höfundur, á umfjöllun er birst hafi á dv.is sama dag. Stefndi DV ehf. beri ábyrgð á störfum framangreindra starfsmanna fjölmiðlaveitunnar eftir grunnreglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð.

Stefnandi telji að við ákvörðun á fjárhæð miskabóta beri að líta til þess að umfjöllunin, sem feli í sér hina ólögmætu meingerð, sé sett fram í víðlesnu dagblaði og á einum af víðlesnustu netmiðlum landsins, sem aðrir netmiðlar vísi til. Umfjöllunin fjalli að verulegu leyti um persónu og æru stefnanda og snúi einnig að viðkvæmum persónulegum málum, s.s. ástarsambandi. Jafnframt beri að líta til þess að ummælin og umfjöllun stefndu sé sett fram í ágóðaskyni og sem liður í atvinnustarfsemi. Að síðustu beri að taka tillit til þess að stefnandi hafi ekkert tilefni gefið til þess að fjallað sé um persónu, æru eða einkalíf hennar á opinberum vettvangi.

Kröfu um dráttarvexti styðji stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001.

IV.              Krafa um birtingu dóms

Verði stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson eða Reynir Traustason, dæmdir sekir um ærumeiðandi ummæli samkvæmt 234. gr., 235. gr. eða 236. gr. laga nr. 19/1940, byggi stefnandi á því að skilyrði séu til að dæma stefndu Inga Frey Vilhjálmsson og Reyni Traustason til greiðslu hæfilegrar fjárhæðar til stefnanda þannig að hún geti staðið straum af birtingu dómsins, þ.e. forsendur og dómsorð, í útbreiddu dagblaði, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Með þessu sé stefnanda gefinn kostur á að rétta hlut sinn og upplýsa almenning um að hin umstefndu ummæli hafi verið ólögmæt og meiðandi. Í þessu efni verði að hafa í huga að ummælin hafi fengið verulega útbreiðslu bæði í prentmiðlinum DV og einnig í netútgáfunni dv.is. Blaðið hafi blasað við viðskiptavinum helstu verslana landsins og aðrir netmiðlar hafi vísað til netútgáfunnar dv.is.

Fjárhæð kröfunnar sé byggð á verðskrá Fréttablaðsins á heilli síðu aftarlega í blaðinu.

V.                Krafa um birtingu dóms í fjölmiðlum DV ehf.

Verði stefndu, Inga Frey Vilhjálmssyni eða Reyni Traustasyni, dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar, þá byggi stefnandi á því fjölmiðlaveitan DV ehf., sem starfræki DV og dv.is, eigi að leggja sitt af mörkum til að takmarka skaða af háttsemi sinni. Af þeim sökum sé þess krafist að stefndi, DV ehf., verði dæmdur til að birta forsendur og dómsorð í máli þessu á sama vettvangi og veist hafi verið að æru og friðhelgi stefnanda, þ.e. bæði í prentmiðlinum DV og í netútgáfunni dv.is. Farið sé fram á að skylda þessi verði lögð á stefnda að viðlögðum dagsektum, samkvæmt 59. gr. laga nr. 38/2011.

VI.              Krafa um málskostnað

Stefnandi byggi á því að hún eigi ekki að bera fjárhagslegan skaða af því að leita réttar síns þegar veist sé að æru hennar og friðhelgi einkalífs. Af þeim sökum sé gerð krafa um að stefndu verði dæmdir óskipt (in solidum) til að greiða málskostnað í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning eða eftir mati dómsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Farið sé fram á að málskostnaður verði stefnanda að skaðlausu og því verði við ákvörðun hans gert ráð fyrir virðisaukaskatti á lögmannsþóknun, en stefnandi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. 

Dómkröfur stefnanda séu einkum byggðar á þessum lögum:

·  Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, einkum 71. gr. og 73. gr.

·  Almennum hegningarlögum nr. 19/1940, einkum 229. gr., 234 gr., 235 gr., 236. gr. og 241. gr. 

·  Lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, einkum 51. gr. og 59. gr. 

·  Skaðabótalögum nr. 50/1993, einkum 26. gr.

·  Vaxtalögum nr. 38/2001.

·  Lögum um meðferð einkamála nr. 91/1991.

·  Lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður og lagarök stefndu

Umfjöllun stefndu snúist um VR, stærsta verkalýðsfélag á Íslandi, og ekki síst hvernig þetta tiltekna stéttarfélag standi að því að ráða fólk í vinnu, þ.e. hvernig gegnsæið sé hjá félaginu, hvaða sjónarmið ríki og hvernig að ráðningum sé staðið. Þetta félag hafi sett sér slagorðið „virðing og réttlæti“ og ítarlegar siðareglur sem m.a. snerti þetta svið o.fl. Um sé að ræða stéttarfélag með hátt í þrjátíu þúsund fullgilda félagsmenn sem starfi við meira en eitt hundrað starfsgreinar. 

Umfjöllun um aðila af þessu tagi njóti mjög rýmkaðs tjáningarfrelsis.  Verkalýðsfélögin séu gríðarlega voldug og stór valdastofnun í þjóðfélaginu með verkfallsrétt og gangi til samninga við stjórnvöld um kaup og kjör og efnahagsstjórnun landsins. Réttur einstaklings til friðhelgi einkalífs gangi ekki framar hagsmunum almennings um að málefni stéttarfélaga séu tekin til gaumgæfilegrar skoðunar og hvort þau rísi undir því siðferði sem þau sjálf berjist fyrir. Stéttarfélög geti ekki verið með mannlega skildi og hindrað þannig umræður um starfsemi sína. Óhjákvæmilegt sé að ráðningarmál stéttarfélaga séu til umfjöllunar og óhjákvæmilegt sé að einhverjir einstaklingar komi þar við sögu. Umræðuefni blaðagreinanna eigi brýnt erindi við almenning. Í máli þessu hafi verið til skoðunar vinnubrögð við ráðningu starfsmanns, hvort þau væru tortryggileg og hvort tortryggilega væri að þeim staðið. Að sjálfsögðu hafi stefndu haft heimild til þeirrar umfjöllunar. Í þessu sambandi sé minnt á 1. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 um upplýsingarétt almennings. 

Í þessu samhengi séu lögð fram í málinu gögn af heimasíðu VR og þar megi nefna í fyrsta lagi siðareglur félagsins. Þar komi fram að standa skuli vörð um heiður félagsins og að félagið gangi á undan með góðu fordæmi. Hljóti það ekki síst að eiga við um ráðningar á vinnumarkaði að þær séu heiðarlegar, ábyrgar og gegnsæjar sbr. 3.-5. gr. Einnig geri þær ráð fyrir hlutlægni og réttlæti og hljóti fjölmiðill að skoða hvort þannig sé staðið að málum hjá þessu stærsta stéttarfélagi landsins. Sé ekki svo þá höggvi sá er hlífa skyldi. Séu ráðningar tortryggilegar og/eða sé ekki rétt að þeim staðið væri slíkt óréttlátt gagnvart félagsmönnum og öðrum umsækjendum og algjört virðingarleysi í þeirra garð. 

Í þessu máli höfði stefnandi meiðyrðamál og krefjist hvorki meira né minna en refsingar fyrir ummæli sem ekki hafi verið höfð um hana heldur VR og gerðir félagsins. Meiðyrðalöggjöfin gefi einstaklingum ekki færi á að stöðva mikilvægar umræður um stéttarfélög með þessum hætti.

Gerðar séu athugasemdir við málavaxtalýsingu í stefnu um að þar sé byrjað að byggja undir refsikröfur með því að prjóna við ummælin einhverjar ályktanir um hvað gefið sé í skyn. Einkalíf stefnanda sé ekki umræðuefnið heldur VR þótt það geti að einhverju leyti spilað inn í. Ekki verði stefndu dæmdir til refsingar fyrir túlkun stefnanda á því með orðunum „er látið að því liggja“. Menn geti ekki farið í mál og krafist refsingar á túlkun þeirra sjálfra á einhverju sem þeir segja að látið sé að liggja. Þetta snúist um hvað var sagt og hvað var ekki sagt. Í heild sé býsna langt gengið hjá stefnanda að ætla að fá fjölmiðli refsað fyrir að fjalla um verkalýðsfélag á grundvelli spuna um efni greinanna sem ekki hafi staðið í þeim. Samtímis sæki hún bætur úr hendi stefndu. Kröfugerð af þessu tagi sé í algjörri andstæðu við tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla. 

Um einstök ummæli

1.                        „Ólga vegna ástkonu“

Í niðurlagi umræddrar greinar komi fram að DV hafi heyrt í starfsmanni hjá VR sem hafi sagt að ráðningin hefði valdið titringi og honum hafi þótt skrýtið að þessi kona skyldi valin í ljósi starfsreynslu hennar. Ólgan lúti að þessu atriði. Sú ólga virðist hafa farið fram hjá stefnanda. Ekkert sé meiðandi við ummælin eða nokkuð það á ferðinni sem varðað gæti ómerkingu þeirra. Þar að auki séu þau réttmæt. Ekkert sé meiðandi við hugtakið „ástkona“ sem stefnandi kjósi að nota í þröngri eða afbakaðri merkingu. Stefnandi og sambýlismaður hennar séu í ástarsambandi og búi saman. Í stefnu sé spunnið frá þessum ummælum hvað í þeim felist. Þessi spuni felist ekki í ummælum DV og sé hann meiðandi hafi stefnandi valdið þeim meiðslum sjálf með eigin orðum í stefnu. Á slíku geti stefndu að sjálfsögðu ekki borið ábyrgð. Stefnan sé hins vegar meiðandi í garð stefndu með sleggjudómum um að þeir hafi sýnt „kvenfyrirlitningu“. Því fari víðs fjarri. 

2.                        „Laganemi gerður að yfirmanni“. 

Laganemi hafi einfaldlega verið gerður að yfirmanni enda hafi stefnandi verið að læra lögfræði. Að sjálfsögðu beri að samgleðjast stefnanda yfir því að hafa lokið BA-prófi í lögfræði og vera því ekki „einungis laganemi“ eins og það sé orðað í stefnu, en laganemi hafi hún samt verið. Sjáist það best á því að síðar hafi hún klárað meistaranám sitt. Enn sé verið að draga rangar ályktanir um hvað í greininni felist og refsingar og skaðabóta krafist á grundvelli hinna röngu ályktana. Því hafi hvergi verið haldið fram í greininni að stefnandi væri ekki hæf til starfans. Fram komi í greininni að stefnandi „hafði ekki lokið námi sínu“. Það væri alveg rétt. Sama eigi við um umfjöllun stefnanda um þennan lið eins og þann fyrri. Hún geri stefndu upp staðhæfingar og meiningar sem hún telji að feli í sér mannvonsku en búi þær til sjálf í stefnu. Umrædd grein segi þetta ekki. 

3.                        Ráðningarferlið hjá VR var sviðsett“. 

Í umræddri grein komi fram að um hefði verið að ræða konu sem enn hafi átt eftir að ljúka námi sínu og hefði takmarkaða starfsreynslu, en um 400 manns hafi sótt um starfið. Þar sé sagt frá því að formaður VR hafi boðað stefnanda á sinn fund og boðið henni yfirmannsstöðu en það þyrfti samt að auglýsa hana formlega. Í þessu felist að umsóknarferlið sé sviðsett. Ekki verði fram hjá því litið að formaður félagsins hafi haft afskipti af umsóknarferlinu og tekið viðtal við stefnanda en ekki aðra umsækjendur sem til greina hafi komið, svo vitað sé. Með þessu hljóti spurningar að vakna. Eins og fram komi í greininni hafi formaðurinn vikist undan því að svara skýrt um aðkomu sína að málinu eða þátttöku í ákvörðun um ráðningu. Hér sé um réttmæt ummæli að ræða og engin efni séu til að ómerkja þau. Stefndu hafi dregið ályktanir af atvikum. Hver og einn geti dregið þá ályktun sem hann vilji. Þessi gildisdómur verði ekki ómerktur. Að auki telji stefndu, þótt þeim sé það ónauðsynlegt, að þeir geti sannað þetta við skýrslutökur. 

4.                        Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR“. 

Þetta sé einfaldlega rétt. Vísað sé til liðar 2 hér að framan.

5.                        Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu“. 

Þessi ummæli séu hárrétt. Hún hafi ekki verið búin að ljúka lögfræðinámi sínu. Hún hafi verið í lögfræðinámi til að fá meistaragráðu. Hún hafi haft takmarkaða starfsreynslu enda ekki nema 27 ára gömul. Starfsreynsla verði ekki víðtæk þótt menn tutli við að vinna með námi sínu eins og svo algengt sé. Lítið hafi verið reynt að upplýsa í hverju störf stefnanda hafi falist, sem geri hana að hæfasta umsækjandanum um yfirmannsstöðu hjá VR. 

6.                         Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar hafi hafist áður en starfið sem hún fékk var auglýst til umsóknar hjá VR“. 

Orðið „samskipti“ sé vítt hugtak og þurfi ekki að fela neitt meira í sér en þau samskipti sem stefnandi hafi sjálf lýst að hún væri í við Stefán Einar. Þessi ummæli geti ekki varðað ómerkingu og því síður verið refsiverð. Sama eigi við um þessi ummæli sem önnur að stefnandi skáldi upp eitthvað sem hún telji að felist í ummælunum og vilji síðan fá ómerkingu og refsingu á grundvelli sinna eigin uppfinninga um hvað í textanum felist. 

7.                        Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR“. 

Ekkert skilyrði sé til að ómerkja ummælin auk þess sem þau séu rétt. 

8.                        Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman“. 

Það sé með ólíkindum að ómerkja eigi ummæli um að einhverjum þyki eitthvað skrýtið. Væntanlega sé það ekki bannað samkvæmt lögum að þykja eitthvað skrýtið.  Hér sé um svokallaða gildisdóma að ræða sem ekki verði ómerktir. „Óreynd“ í þessu samhengi sé líka gildisdómur en sú starfsreynsla sem stefnandi hafi sjálf tínt til sé ekki meiri og merkilegri en svo að augljóslega megi notað hugtakið „óreyndur“ þegar komi að yfirmannsstöðu hjá stærsta verkalýðsfélagi landsins. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn um starfsreynslu sína og hvað í henni felist. 

9.                        Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að starfið væri auglýst fyrir „formlegheita sakir“ en búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst“. 

Hér sé ekki verið að fullyrða eitt né neitt heldur verið að lýsa umræðum sem verði að gefnu tilefni þegar litið sé til ráðningarferlisins í heild, t.d. frumkvæði formanns VR að samskiptum við stefnanda, áhuga hans á henni með því að taka þátt í viðtali við hana og hvernig ung manneskja, með þessa takmörkuðu starfsreynslu sem ekki hefur lokið námi sínu, fái síðan starf úr hópi 400 umsækjenda. Það sé von að menn spyrji. Spurningar verði ekki ómerktar enda felist ekki í þessari spurningu nein fullyrðing. 

10.                     Eftir að Sara Lind hélt fyrirlesturinn á Hótel Rangá boðaði formaðurinn Söru Lind á fund sinn þar sem henni var boðin yfirmannsstaða hjá VR með ágætis byrjunarlaun.  Böggull fylgdi þó skammrifi þar sem Stefán Einar sagðist þurfa að auglýsa stöðuna opinberlega áður en VR gæti ráðið Söru Lind. Var henni bent á að sækja um yfirmannsstöðuna líkt og aðrir“. 

Þarna sé ekki dróttað neinu að stefnanda. Hún sé einfaldlega umsækjandi um starf sem hún hafi fengið. Því sé hvergi haldið fram að hún hafi átt frumkvæðið að því að fá starfið með óeðlilegum hætti. Henni hafi hins vegar að mati stefndu verið rétt starfið á silfurfati og spurningar vakni um vinnubrögð VR og formanns félagsins en ekki stefnanda. Að auki telji stefndu að ummæli þessi séu rétt. 

11.                     27 ára laganemi ráðin úr hópi 400 umsækjenda“. 

Þetta sé einfaldlega rétt. Vísað sé til liðar 2 hér að framan. 

12.                     Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu“. 

Sjá lið 5 hér að ofan.

13.                     Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR sökum þess að Sara Lind er sambýliskona formanns VR, Stefáns Einars Stefánssonar“. 

Ekkert skilyrði sé til að ómerkja ummælin auk þess sem þau séu rétt.  

14.                     Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman“. 

Sjá lið 8 hér að ofan.             

15.                     Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningaferlið hófst“. 

Sjá lið 9 hér að ofan.  

Réttarfar

Eftirgreindir gallar séu á stefnu sem leiði annaðhvort til frávísunar af sjálfsdáðum (ex officio) eða sýknu. 

1.                        Í lið 2 í kröfugerð beinist refsikrafa og birting að stefndu Inga og Reyni vegna allra ummælanna þrátt fyrir að þeir séu ekki taldir bera báðir ábyrgð á þeim öllum. Gagnvart refsikröfu beri hver og einn ábyrgð á eigin gerðum og felst í þessu ógreinilegur málatilbúnaður og vanreifun. 

2.                        Liður 3 í kröfugerð sé sama markinu brenndur. Allir stefndu eigi að borga skaðabætur bæði fyrir það sem þeir eru sagðir hafa gert og séu sakaðir um og líka það sem þeir eigi ekki að hafa gert. Þessi málatilbúnaður geti aldrei gengið upp og ætti að varða frávísun af sjálfsdáðum (ex officio) en ella sýknu. 

3.                        Liður 4 í kröfugerð sé sama markinu brenndur. 

Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 beri sá sem tjáir sig í eigin nafni sjálfur ábyrgð á efninu. Ábyrgðarmaður fjölmiðils beri ábyrgð á því sem enginn annar ber ábyrgð á sbr. c-lið 1. mgr. 50. gr. 

Almennt um refsikröfur

Því sé mótmælt að nokkur hegningarlagaákvæði hafi verið brotin með þeim ummælum sem að framan séu rakin og með greinaskrifum. 

Lagarök

Vísað sé til 71. og 73. gr. stjórnarskrárinnar, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 229. gr., 234.-236. gr. og 241. gr., laga um fjölmiðla nr. 38/2011, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. 

Niðurstaða

Mál þetta snýst um ummæli sem birtust í desember 2012, annars vegar í prentaðri útgáfu blaðsins DV og hins vegar í frétt sem birtist á netmiðlinum 3. desember 2012. Þar er sagt frá ráðningu stefnanda til starfa hjá verkalýðsfélaginu VR í marsmánuði sama ár. Með öllu því sem fram hefur komið fyrir dóminum þykir upplýst að stefnandi og Stefán Einar Stefánsson, sem þá var formaður VR, hafi kynnst í febrúar 2012, þegar hann fékk hana til að halda fyrirlestur á vegum félags þar sem hann fór með formennsku. Það mun hann hafa gert að ábendingu sviðsstjóra þróunarsviðs VR sem þekkti til starfa og BA-ritgerðar stefnanda. Í framhaldi af því benti Stefán Einar stefnanda á að sækja um starf hjá VR, en um það leyti voru þrjár stöður auglýstar lausar til umsóknar í tengslum við yfirstandandi skipulagsbreytingar.

Fyrirtækið Capacent annaðist ráðningarferlið, en innan VR eru mannaráðningar í höndum framkvæmdastjóra. Upplýst þykir að nálægt 400 umsóknir hafi borist um stöðurnar þrjár og var stefnandi meðal umsækjenda. Þær hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu var háskólamenntun sem nýttist í starfi. Stefnandi hafði lokið BA- prófi í lögfræði og var að ljúka meistaranámi í sömu grein. Starfsmaður Capacent valdi úr hópi umsækjenda nokkra einstaklinga sem lagt var til að kallaðir yrðu í viðtal, en stefnandi var ekki í þeim hópi. Af hálfu VR var þá að frumkvæði Stefáns Einars innt eftir því hvort einhver umsækjenda hefði lögfræðimenntun og var stefnanda þá bætt í hóp þeirra sem boðaðir voru í viðtal. Að viðtölum við umsækjendur stóðu starfsmaður Capacent, framkvæmdastjóri VR og formaður VR. Eftir viðtölin var það sameiginleg niðurstaða þeirra að bjóða stefnanda starf deildarstjóra ráðgjafardeildar og annaðist framkvæmdastjóri ráðningu hennar til VR í marsmánuði 2012.

Upplýst þykir að þegar stefnandi var ráðin til starfa hjá VR var hún í sambúð með manni, sem hún kynnti m.a. fyrir samstarfsfólki sínu í maí 2012, en þeirri sambúð var slitið í júní sama ár. Við skýrslutökur kom fram að stefnandi og Stefán Einar hafi verið farin að draga sig saman í júlímánuði sama ár og hófu þau sambúð við lok þess mánaðar. Ekki verður séð að nein leynd hafi hvílt yfir þessari framvindu mála og mun Stefán Einar sérstaklega hafa skýrt frá sambúð sinni og stefnanda á starfsmannafundi við sumarlok 2012. Það gerði hann einnig í umræddri umfjöllun, þar sem stefndi Ingi Freyr hefur eftir honum frásögn af því hvernig atvik voru við ráðninguna og upplýsingar um samband og sambúð hans og stefnanda, sem Stefán Einar staðfesti fyrir dóminum að rétt hefði verið eftir honum haft.

Af hálfu stefnanda var skorað bréflega á Reyni Traustason ritstjóra að leiðrétta fréttina og biðja stefnanda opinberlega afsökunar á óviðurkvæmilegri umfjöllun um hana sem einstakling, um ráðningu hennar til VR og umfjöllun um einkalíf hennar, en við því var ekki orðið.

Af hálfu stefndu er því haldið fram í málinu að umfjöllunin snúist ekki um stefnanda heldur um VR og það hvernig stærsta verkalýðsfélag á Íslandi standi að mannaráðningum. Slík umfjöllun njóti rýmkaðs tjáningarfrelsis og gangi réttur einstaklings til friðhelgi einkalífs ekki framar þeim almannahagsmunum að málefni stéttarfélaga séu tekin til gaumgæfilegrar skoðunar.

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samræmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi er samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.

Þótt óumdeilt megi telja, að grundvöllur 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, um að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar, ætli hinni þjóðfélagslegu umræðu hámarksvernd, þá er einnig til þess að líta að þær takmarkanir sem felast í 3. mgr. sömu greinar, um takmarkanir sem lög mega setja tjáningarfrelsinu, eiga sér m.a. stoð í 71. gr. stjórnarskrárinnar um vernd friðhelgi einkalífs. Umfjöllun sem felur í sér nafn- og myndbirtingu þarf ekki að hafa neitt sérstakt gildi fyrir umræðu og umhugsun í lýðræðisþjóðfélagi. Slík tjáning mætir hinum andstæðu hagsmunum einkalífsverndar í einni af sinni sterkustu mynd. Fjölmiðlaveitur gegna mikilvægu lýðræðishlutverki, njóta ríks tjáningarfrelsis og þjóna upplýsingarétti almennings, en jafnframt skulu þær gæta hófs og ábyrgðar þegar önnur mannréttindi, ekki síst jafnrétti og friðhelgi einkalífs, eru í húfi. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, skal fjölmiðlaveita virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs, nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.

Kröfuliður nr. 1 um ómerkingu ummæla

Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess, sem misgert var við.

Í prentaðri útgáfu DV 3.–4. desember 2012 eru á forsíðu blaðsins, auk hinna umstefndu ummæla sem krafist er ómerkingar á, Ólga vegna ástkonu og Laganemi gerður að yfirmanni, birtar myndir af stefnanda og Stefáni Einari, þau nafngreind og tvítekið að þau búi saman og að hann sé formaður VR. Myndin af stefnanda er í rauðum hjartalaga ramma sem að hluta til nær inn á myndina af Stefáni Einari og að hluta inn á fyrirsögnina Ólga vegna ástkonu sem er með afar stóru letri.

Þykir ljóst að framsetningu forsíðunnar sé ætlað að vekja athygli lesenda á ástarsambandi stefnanda og Stefáns Einars og vekja spurningar um hvort það tengist ráðningu hennar til VR. Með því að nota orðið ástkona í fyrirsögn og slá hjarta utan um myndina af stefnanda eru vaktar spurningar um það hvort ást þeirra sé í meinum. Orðabókarskýring orðsins ástkona er frilla, ekki sambýliskona, og felur þessi orðnotkun því í sér gildishlaðna fullyrðingu um siðferði stefnanda. Fullyrðingin, þó að sönn sé, laganemi gerður að yfirmanni, sem birtist á sömu forsíðu verður í þessu samhengi ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi hafi verið ráðin í stöðu yfirmanns hjá VR vegna þess eins að hún væri ástkona formannsins. Hafa ber í huga í þessu sambandi að þegar stefnandi var ráðin til VR var hún í sambúð með öðrum manni. Í umfjöllun stefndu á blaðsíðu 10 í sama blaði kemur fram að stefnandi hafi lítið verið í kastljósi fjölmiðla ef undan sé skilin þátttaka hennar í keppninni Ungfrú Ísland árið 2005. Þessar upplýsingar eru ekki í nokkru efnislegu samhengi við umfjöllun um ráðningu hennar til VR, en birting þeirra er í samræmi við þá kynbundnu ímynd sem dregin er upp af stefnanda á forsíðu blaðsins. Framsetning forsíðunnar gefur kaupanda blaðsins tilefni til að ætla að fréttin sem fylgi muni fjalla um einkamálefni stefnanda fremur en það hvernig VR stóð að ráðningu hennar í starf níu mánuðum fyrr. Þótt fjölmiðlaveitum sé játað svigrúm til umfjöllunar í þágu almannahagsmuna og samfélagslegrar umræðu þá verður það frelsi ekki með réttu nýtt til framsetningar af þessu tagi.

Stefnandi verður ekki talin opinber persóna og nægar ástæður sem réttlætt geti að skýrt sé opinberlega frá einkamálefnum hennar verða ekki taldar vera fyrir hendi. Ekki verður séð að leitað hafi verið sjónarmiða stefnanda við vinnslu fréttarinnar eða henni gefinn kostur á að tjá sig um atvik eða væntanlega umfjöllun áður en hún yrði birt. Þá hefur tilmælum stefnanda um leiðréttingu ummæla ekki verið sinnt af hálfu stefndu.

Með framsetningu efnis í heild sinni á forsíðu blaðsins er brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda, án þess að séð verði að lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist þess. Þar er spyrt saman kynbundnu hlutverki ástkonu og faglegri hæfni stefnanda með grófum og niðurlægjandi hætti. Ummælin teljast meiðandi og til þess fallin að verða virðingu stefnanda til hnekkis, auk þess sem fyrrgreindar aðdróttanir sem felast í framsetningu forsíðunnar voru birtar án þess að stefndu hefðu haft sennilega ástæðu til að telja þær réttar. Teljast ummælin því varða við 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Þau eru óviðurkvæmileg og fela í sér misgjörð í garð stefnanda og ber að ómerkja þau á grundvelli 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Framangreind ummæli sem ómerkt verða birtust á forsíðu blaðsins og eru því á ábyrgð stefnda Reynis Traustasonar sem ritstjóra, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, enda hafa stefndu ekki tilgreint annan ábyrgðarmann, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna.

Stefnandi krefst ómerkingar á átta tilgreindum ummælum sem er að finna í umfjöllun á blaðsíðu 10-11 í prentaðri útgáfu blaðsins. Stór hluti fréttarinnar er frásögn af því hvernig formaður VR, Stefán Einar, framkvæmdastjóri VR og starfsmaður Capacent lýsa atvikum fyrir blaðamanni. Lýsa þau öll samkvæmt frásögn blaðamanns aðdraganda ráðningar og atvikum í meginatriðum með sama hætti og þau gerðu fyrir dómi. Þau málsatvik telur dómurinn upplýst eins og að framan getur, enda hefur ekkert komið fram í málinu sem gefi tilefni til að draga þau í efa.

Í fréttinni segir blaðamaðurinn, að því er virðist frá eigin brjósti Eftir að Sara Lind hélt fyrirlesturinn á Hótel Rangá boðaði formaðurinn Söru Lind á fund sinn þar sem henni var boðin yfirmannsstaða hjá VR með ágætis byrjunarlaun. Böggull fylgdi þó skammrifi þar sem Stefán Einar sagðist þurfa að auglýsa stöðuna opinberlega áður en VR gæti ráðið Söru Lind. Var henni bent á að sækja um yfirmannsstöðuna líkt og aðrir.

Hvorugt þeirra tveggja hefur staðfest frásögnina og ekki er upplýst í málinu að orð Stefáns Einars hafi fallið með þeim hætti sem lýst er. Varðandi kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna verður að líta til þess að henni eru hvorki eignuð orð né viðbrögð í þessari frásögn. Af hálfu stefndu er bent á að engu sé dróttað að stefnanda eða því haldið fram að hún hafi átt frumkvæði að því að fá starf með óeðlilegum hætti.

Það er upplýst í málinu að Söru Lind var boðin staðan að loknu ráðningarferlinu og það er upplýst að stefnandi hvatti hana til að sækja um starfið áður en það ferli hófst. Með því að snúa þeirri röð atburða við í frásögn af samtali, sem ekki verður sannað hvort átt hafi sér stað, er stoðum rennt undir þá fullyrðingu sem fram kemur í fyrirsögn fréttarinnar Ráðningarferlið hjá VR var sviðsett. Sú fullyrðing, sem felur að mati stefndu í sér gildisdóm, ályktun höfundar, samræmist ekki því ferli við ráðninguna sem lýst er í fréttinni að öðru leyti. Taka verður undir það með stefndu að ekki sé beinlínis dróttað að stefnanda sjálfri með þessum ummælum og fyrirsögn. Gagnrýninni sem í þeim felst er beint að VR og Stefáni Einari, sem ábyrgð bera á umsóknarferlinu. Stefnandi telur meiðandi og til þess fallið að gera lítið úr hæfni hennar sem starfsmanns að ályktuð sviðsetning hafi átt að vera í hennar þágu. Hér verður að líta til þess að ekkert kemur fram um að hún hafi sjálf átt þar nokkurn hlut að máli og ekki er getið um það í fréttinni að hún hafi þurft á slíkri velgjörð að halda. Þvert á móti staðfestir framkvæmdastjóri VR í fréttinni að stefnandi sé mjög hæf manneskja og hafi borið af öðrum umsækjendum, sem margir hafi þó verið mjög frambærilegir. Þessi ummæli í fréttinni samræmast því sem upplýst er í málinu, að Stefán Einar, framkvæmdastjóri VR og sviðstjóri sóttust öll eftir að fá Söru Lind til starfa að loknu ráðningarferlinu vegna verðleika hennar. Ummælin og fyrirsögnin sem beinast gegn VR og formanni félagsins verða ekki talin meiðandi gagnvart stefnanda eða fela í sér misgerð við hana og verða ekki ómerkt að kröfu hennar.

Ummælin sem birtast í undirfyrirsögn í fréttinni Laganemi ráðinn í yfirmannsstöðu hjá VR eru sönn. Stefnandi hafði ekki lokið því laganámi, sem hún þá lagði stund á, þegar hún var ráðin til VR. Svipuð ummæli á forsíðu verða á hinn bóginn ómerkt vegna þess samhengis sem þau birtast þar í svo sem að framan greinir. Hér eru hin sönnu ummæli birt samhliða annarri undirfyrirsögn fréttarinnar þar sem segir Er orðin sambýliskona formannsins. Í þessu samhengi felst ekki sú aðdróttun sem birtist á forsíðu, að hún hafi verið ástkona formannsins þegar hún var ráðin til starfa, þá laganemi í sambúð með öðrum manni. Ummælin verða ekki talin meiðandi, óviðurkvæmileg eða fela í sér misgerð við stefnanda og verða ekki ómerkt.

Ummælin Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu þykja vera í samræmi við þær staðreyndir sem upplýst er um í málinu og verða ekki talin meiðandi eða óviðurkvæmileg. Þau verða því ekki ómerkt. Sama er að segja um ummælin Þá hefur blaðið heimildir fyrir því að samskipti Stefáns Einars og Söru Lindar hafi hafist áður en starfið sem hún fékk var auglýst til umsóknar hjá VR. Upplýst er í málinu um samskipti stefnanda og Stefáns Einars í febrúar 2012 í tengslum við fræðistörf og fyrirlestur stefnanda og samskiptunum er lýst með þeim hætti í fréttinni. Stefnandi telur að ómerkja beri ummælin vegna þess að samhengið gefi í skyn að átt sé við ástarsamband. Með hliðsjón af því sem segir í fréttinni um eðli þessara samskipta verður ekki fallist á að samhengið gefi slíkt tilefni til tvíræðrar túlkunar ummælanna að þau beri að ómerkja. Þeim er fylgt eftir með frásögn af samskiptum, sem Stefán Einar staðfesti í fréttinni, um málefni á fagsviði stefnanda og verður birting ummælanna ekki talin brot gegn friðhelgi einkalífs hennar.

Krafist er ómerkingar eftirgreindra ummæla sem í fréttinni eru höfð eftir ónafngreindum heimildarmönnum Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR; Mér fannst það alltaf skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman; og Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að starfið væri auglýst fyrir „formlegheita sakir“ en búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst.

Í ummælunum felast gildisdómar og verða strangar kröfur ekki gerðar til sönnunar þeirra staðreynda sem þeir eru reistir á. Því hefur ekki verið hnekkt að það sem þarna kemur fram hafi verið mat og upplifun viðmælenda höfundar og fær það stoð í framburði vitna sem lögmaður stefndu leiddi fyrir dóminn. Engin leið er að slá því föstu hversu margar óánægjuraddir þarf til að staðreynt sé að titringur sé fyrir hendi og hvenær titringur verði að ólgu. Þótt ummælin séu sett fram af smekkleysi og í gróusögustíl verður ekki fallist á að í þeim felist ærumeiðandi aðdróttun eða óviðurkvæmileg ummæli gagnvart stefnanda í því samhengi sem þau voru sett fram, enda voru gagnstæð ummæli Stefáns Einars og framkvæmdastjóra VR birt samhliða þeim. Eru því ekki efni til að ómerkja ummælin.

Loks krefst stefnandi ómerkingar á fimm tilgreindum ummælum sem birtust á netútgáfunni dv.is 3. desember 2012. Myndbirting, fyrirsögn og framsetning efnis í netútgáfunni er með allt öðrum hætti en á forsíðu blaðsins.

Ummælin sem krafist er ómerkingar á eru í fyrsta lagi undirfyrirsögnin 27 ára laganemi ráðin úr hópi 400 umsækjenda; og ummælin Sara Lind hafði á þessum tíma ekki lokið lögfræðinámi sínu í Háskóla Íslands og hafði takmarkaða starfsreynslu. Bæði þessi ummæli þykja vera í samræmi við upplýstar staðreyndir málsins. Birtust þau síðarnefndu jafnframt í prentaðri útgáfu blaðsins og um þau er fjallað hér að framan. Með vísun til þess sem þar greinir verða þessi tvenn ummæli, sem ekki teljast meiðandi eða óviðurkvæmileg, ekki ómerkt.

Í annan stað er krafist ómerkingar þriggja ummæla í netútgáfunni sem höfð eru eftir ónafngreindum heimildarmönnum. Þessi ummæli eru Þessi ráðning hefur valdið titringi innan VR sökum þess að Sara Lind er sambýliskona formanns VR, Stefáns Einars Stefánssonar; Mér fannst það skrítið að verið væri að ráða inn manneskju sem var gjörsamlega óreynd og síðan spyrst það út að þau eru saman; og loks Hann segir að sú saga hafi gengið innan félagsins að búið hafi verið að ákveða hver fengi það áður en ráðningarferlið hófst.

Þessir gildisdómar eru ýmist samhljóða eða áþekkir þeim sem birtust í prentuðu útgáfunni og fjallað var um hér að framan, þó að því viðbættu að heimildarmaður slær því hér föstu að orsakir titrings innan VR sem ráðningin hafi valdið séu þær að stefnandi sé sambýliskona formannsins. Ummælin eru ósmekkleg og fela í sér söguburð, en tilvist þeirra viðhorfa sem þau lýsa eiga sér stoð í framburðum tiltekinna vitna fyrir dóminum. Með sömu rökum og að framan greinir, í umfjöllun um áþekk ummæli í prentuðu útgáfunni, verður kröfu um ómerkingu þessara ummæla hafnað.

Ummælin í prentuðu útgáfunni og á netmiðlinum eru á ábyrgð stefnda Inga Freys þar sem þau birtast í fréttum sem merktar eru honum sem blaðamanni, sbr. a-lið 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011. Samkvæmt framansögðu telst stefndi Ingi Freyr  í þeirri umfjöllun sinni hafa beitt rétti sínum samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, án þess að fara gagnvart stefnanda yfir þau mörk sem heimili takmörkun á tjáningarfrelsi hans samkvæmt stjórnarskrá eða lögum. Verður hann því sýknaður af ómerkingarkröfum stefnanda.

Kröfuliður nr. 2 um refsingu

Stefnandi krefst þess að stefndu Reynir og Ingi Freyr verði látnir sæta refsingu fyrir að hafa brotið gegn 229. gr., 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því sem að framan greinir verða ummæli á umræddri forsíðu, sem stefndi Reynir ber ábyrgð á, ómerkt, en ekki er fallist á kröfur um ómerkingu ummæla sem birtust í frétt í sama blaði og netútgáfu sem stefndi Ingi Freyr ber ábyrgð á. Verður stefnda Inga Frey þegar af þeirri ástæðu ekki gerð refsing. Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga verður refsing ekki lögð við verknaði nema hann sé unninn af ásetningi. Sérstaka lagaheimild þarf til þess að refsað verði fyrir gáleysisbrot. Stefndi Reynir Traustason ber að lögum ábyrgð á þeim ummælum sem birtast á forsíðu blaðsins. Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu þykir ekki sannað svo að til sakfellingar geti leitt að það hafi verið ásetningur hans að skýra ranglega frá og hafa uppi aðdróttanir sem yrðu stefnanda til hnekkis á forsíðu blaðsins. Samkvæmt framansögðu eru ekki skilyrði til þess að stefndi Reynir verði látinn sæta refsingu samkvæmt tilgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga og ber því að sýkna hann af þeirri kröfu stefnanda.

Kröfuliður nr. 3 um miskabætur

Stefnandi gerir þá kröfu á hendur öllum stefndu að þeir verði dæmdir óskipt til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá stefnubirtingardegi til greiðsludags. Byggir stefnandi þessa kröfu á 26. gr. skaðabótalaga, nr. 50/1993, en samkvæmt b-lið 1. mgr. ákvæðisins er heimilt að láta þann sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

Krafan á hendur stefnda Inga Frey er byggð á ummælum í frétt sem merkt er honum sem blaðamanni, en samkvæmt framansögðu er ekki fallist á ómerkingu ummæla sem hann ber ábyrgð á. Krafan á hendur stefnda Reyni byggist á ábyrgð hans sem ritstjóra vegna ummæla sem birtust á forsíðu, sbr. c-lið 1. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla, enda hafa stefndu ekki tilgreint annan ábyrgðarmann, sbr. 3. mgr. 51. gr. laganna. Í þeim ummælum sem ómerkt verða og hann ber ábyrgð á felst ólögmæt meingerð gegn æru stefnanda þar sem ummælin eru til þess fallin að valda henni álitshnekki. Krafan á hendur stefnda DV ehf. er reist á ábyrgð á störfum starfsmanna fjölmiðlaveitunnar eftir þeirri grunnreglu skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, sem greiðsluskylda samkvæmt 2. mgr. 51. gr. laga um fjölmiðla styðst við.

Fallist verður á kröfu stefnanda um miskabætur og verða stefndu Reynir Traustason og DV ehf. dæmdir til greiðslu þeirra óskipt, en stefndi Ingi Freyr Vilhjálmsson verður sýknaður af kröfu um óskipta greiðsluskyldu með meðstefndu. Fjárhæð miskabótakröfunnar hefur ekki verið mótmælt, en sýknu var krafist af hálfu stefndu. Með hliðsjón af því að fallist er á að þau ummæli sem ómerkt verða, feli í sér ólögmæta meingerð og þau hafa ekki verið dregin til baka, þykja miskabætur eftir atvikum hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Vextir dæmast eins og greinir í dómsorði.

Kröfuliður 4 um birtingu dóms

Krafa stefnanda um að stefndu Reynir og Ingi Freyr verði dæmdir óskipt til að greiða stefnanda 621.800 krónur til að standa straum af birtingu forsendna dómsins og dómsorði í víðlesnu dagblaði, styðst við 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga. Með því sé stefnanda gefinn kostur á að rétta hlut sinn og upplýsa almenning um að hin umstefndu ummæli hafi verið ólögmæt og meiðandi og er fjárhæð kröfunnar byggð á verðskrá Fréttablaðsins, sem stefnandi hefur lagt fram upplýsingar um í málinu.

Stefndu hafa ekki mótmælt fjárhæð kröfunnar. Samkvæmt 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga má dæma þann, sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim, sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum. Samkvæmt framansögðu hefur stefndi Ingi Freyr ekki reynst sekur um ærumeiðandi aðdróttun svo sem áskilið er í ákvæðinu og verður hann því sýknaður af þessari kröfu stefnanda. Með því að skilyrði ákvæðisins eru uppfyllt að því er varðar ummæli á forsíðu sem stefndi Reynir ber ábyrgð á og ekkert hefur komið fram í málinu til stuðnings því að kröfunni beri að hafna, verður fallist á hana, hvað stefnda Reyni varðar og verður honum gert að greiða stefnanda umkrafða fjárhæð.

Kröfuliður nr. 5 um birtingu í DV

Stefnandi gerir þá kröfu á hendur stefnda DV ehf. að stefndi verði dæmdur til að birta dómsforsendur og dómsorð í málinu í ritmiðlinum DV og á netmiðlinum www.dv.is að viðlögðum dagsektum. Af hálfu stefndu er sýknukrafa vegna þessarar dómkröfu ekki studd tilteknum málsástæðum eða rökum. Samkvæmt 59. gr. laga um fjölmiðla, nr. 38/2011, má ákveða í dómi að viðlögðum dagsektum, þegar fjölmiðlaveitu eða öðrum þeim sem ber ábyrgð á efni samkvæmt lögunum er dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar, eftir kröfu þess sem misgert er við, að forsendur og dómsorð skuli birt þegar um ritmiðil er að ræða og skal þá birta dómshlutann með sama hætti og annað efni viðkomandi miðils og á þeim stað að eftir verði tekið. Með vísan til þessa ákvæðis og framangreindrar niðurstöðu um ómerkingu ummæla og ákvörðun fébóta verður fallist á kröfu stefnanda á hendur stefnda DV ehf. um að fjölmiðlaveitunni beri að birta forsendur og dómsorð dómsins að viðlögðum dagsektum, en krafan tilgreinir hvorki fjárhæð dagsekta né hvenær birta skuli. Hæfilegt þykir að birt verði í næsta tölublaði DV og í næstu útgáfu www.dv.is eftir dómsuppsögu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur, frá þeim útgáfudögum að telja.

Kröfuliður nr. 6 um málskostnað

Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefndu Reyni Traustasyni og DV ehf. gert að greiða stefnanda málskostnað óskipt, sem ákveðst 500.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar fellur niður.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                               D Ó M S O R Ð                              

Eftirfarandi ummæli sem birt voru á forsíðu prentmiðilsins DV, 140. tölublaðs 102. árgangs, þann 3. desember 2012, eru dauð og ómerk:

Ólga vegna ástkonu

Laganemi gerður að yfirmanni

Kröfum stefnanda, Söru Lindar Guðbergsdóttur, um ómerkingu annarra umstefndra ummæla er hafnað.

Stefndu, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Reynir Traustason eru sýknaðir af refsikröfu stefnanda.

Stefndu, Reynir Traustason og DV ehf., greiði stefnanda óskipt 300.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 4. apríl 2013 til greiðsludags.

Stefndi, Reynir Traustason, greiði stefnanda 621.800 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendur og dómsorð, í víðlesnu dagblaði.

Stefndi, DV ehf., skal birta forsendur og dómsorð dóms þessa í næsta tölublaði DV og í næstu útgáfu www.dv.is, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð 10.000 krónur, frá þeim útgáfudögum að telja.

Stefndu, Reynir Traustason og DV ehf., greiði stefnanda óskipt 500.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.

Málskostnaður milli stefnanda og stefnda Inga Freys Vilhjálmssonar fellur niður.