Print

Mál nr. 340/2015

Lykilorð
  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging
  • Stjórnarskrá
  • Réttlát málsmeðferð
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

                                            

Þriðjudaginn 2. júní 2015.

Nr. 340/2015.

Óskar Valgarðsson

(Andrés Már Magnússon hdl.)

gegn

KÓ fiski ehf.

(enginn)

Kærumál. Málskostnaðartrygging. Stjórnarskrá. Réttlát málsmeðferð. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu K um að Ó yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem hann höfðaði gegn K, til heimtu vangoldinna vinnulauna og bóta sem jafngiltu launum í uppsagnarfresti auk orlofslauna. Hafði Ó verið veitt gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi og hafði því ekki verið mótmælt af hans hálfu að hann væri ófær um greiðslu málskostnaðar K yrði hann dæmdur til greiðslu hans. Var talið að í ljósi eðlis þeirrar kröfu sem Ó taldi sig eiga á hendur K, ætluðum vinnuveitanda sínum, yrði að leggja til grundvallar að það fæli í sér slíka takmörkun á þeim grundvallarréttindum hans að geta leitað úrlausnar dómstóla um kröfuna að það færi í bága við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar yrði það gert að skilyrði fyrir því, að hann fengi úrlausn um kröfuna fyrir dómstólum, að hann setti málskostnaðartryggingu. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og kröfu K hafnað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. apríl 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2015, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu varnaraða verði hafnað en til vara „að fjárhæð málskostnaðartryggingar verði lækkuð verulega og sóknaraðila verði gefinn rúmur tími til að leggja hana fram.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi og krafðist greiðslu á 1.881.570 krónum auk vaxta úr hendi varnaraðila. Þá krafðist hann viðurkenningar á sjóveðrétti í vélbátnum Grétari BA 23 til tryggingar öllum tildæmdum kröfum. Í stefnu til héraðsdóms gerir sóknaraðili þá grein fyrir fjárkröfunni að hann hafi í júní 2014 ráðið sig til starfa um borð í áðurnefndan bát, sem varnaraðili hafi þá verið að kaupa. Báturinn hafi verið bilaður og sóknaraðili unnið að viðgerð hans sem þó hafi ekki orðið til þess að báturinn kæmist til róðra. Sóknaraðili kveður varnaraðila svo hafa í júlí 2014 sent sér boð fyrir milligöngu eiginkonu sinnar um að hann skyldi ekki mæta aftur til vinnu. Af þessum ástæðum telur sóknaraðili sig eiga inni vinnulaun hjá varnaraðila fyrir tímabilið 6. júní til 16. júlí 2014, auk yfirvinnu svo og rétt til bóta sem svari til launa í þriggja mánaða uppsagnarfresti. Þá eigi hann einnig rétt til orlofslauna, sem nemi 10,17% af framangreindum launum og bótum. Samtals sé því krafa hans sú fjárhæð sem áður greinir.

Í bréfi varnaraðila 12. september 2014, sem var svar við kröfubréfi sóknaraðila, kemur fram að varnaraðili telji að ekkert ráðningarsamband hafi stofnast milli sín og sóknaraðila þar sem sóknaraðili hafi ekki haft réttindi til þess að vera skipstjóri á bátnum svo sem að var stefnt. Hafi mál skipast svo að báturinn hafi aldrei komist til róðra sumarið 2014 og engum afla verið landað. Hann hafi þurft að selja bátinn í byrjun ágúst þetta ár. Sóknaraðili hafi á hinn bóginn bakað sér umtalsverðan kostnað með úttektum á vöru og þjónustu í ,,skipstjóra nafni“. Þá leiði önnur atriði einnig til þess að launakrafa sóknaraðila og krafa um bætur í uppsagnarfresti sé fráleit. Varnaraðili hafnaði því kröfu sóknaraðila.

Sóknaraðili höfðaði málið í mars 2015 og lagði fram við þingfestingu þess bréf innanríkisráðuneytis 17. desember 2014 um að honum hefði verið veitt gjafsókn vegna rekstrar málsins fyrir héraðsdómi.

II

Þegar málið var þingfest í héraði krafðist varnaraðili þess að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Var sú krafa hans reist á því að sóknaraðili væri ófær um greiðslu málskostnaðar, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Var á þessa kröfu fallist í hinum kærða úrskurði.

Í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar er meðal annars mælt fyrir um þá meginreglu að öllum beri réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstól. Í þessari grein felst sjálfstæð regla um að menn skuli almennt eiga rétt á að bera mál sín undir dómstóla. Ákvæði í almennum lögum sem takmarka þennan rétt verður að skýra með hliðsjón af því. Í b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um þá takmörkun á þessum rétti, að stefndi í máli geti við þingfestingu krafist þess að stefnandi setji tryggingu fyrir þeim kostnaði, sem stefndi kann að hafa af vörnum sínum. Samkvæmt lögskýringargögnum er við það miðað að heimildinni sé einkum beitt ef fyrirfram þykir sýnt að útlokað sé að stefnandi geti greitt honum þann kostnað, sem hann verður fyrirsjáanlega dæmdur til.

Sóknaraðili neitar því ekki að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar varnaraðila verði hann dæmdur til greiðslu hans. Hann kveðst ekki hafa aðrar tekjur en atvinnuleysisbætur og neitar því ekki að á síðustu árum hafi nokkrum sinnum verið gert hjá honum árangurslaust fjárnám, síðast í árslok 2014. Þrátt fyrir að skilyrði b. liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 séu þannig fyrir hendi, er það á valdi dómstóla samkvæmt 2. mgr. greinarinnar að ákveða hvort gera eigi sóknaraðila að setja málskostnaðartryggingu, hver fjárhæð hennar eigi að vera, í hvaða formi það skuli gert og innan hvaða frests.

Í málinu leitar sóknaraðili greiðslu á ætlaðri skuld varnaraðila, sem sóknaraðili kveður hafa stofnað til ráðningarsambands við sig, vegna vangoldinna vinnulauna og bóta sem jafngilda launum í uppsagnarfesti, auk orlofslauna. Honum hefur verið veitt gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir héraðsdómi. Eins og áður greinir eru aðstæður hans þær að honum er ókleift að leggja fram málskostnaðartryggingu. Í ljósi eðlis þeirrar kröfu sem sóknaraðila telur sig eiga á hendur varnaraðila, ætluðum vinnuveitanda sínum, verður lagt til grundvallar að það fæli í sér slíka takmörkun á þeim grundvallarréttindum hans að geta leitað úrlausnar dómstóla um kröfuna að í bága færi við 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar yrði það gert að skilyrði fyrir því, að hann fengi úrlausn um kröfuna fyrir dómstólum, að hann setti málskostnaðartryggingu. Verður því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi og hafna kröfu varnaraðila um að sóknaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu.

Úrlausn um málskostnað í héraði bíður efnisdóms.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 15. apríl 2015.

Mál þetta er höfðað 24. marz 2015 af Óskari Valgarðssyni, kt. [...], Hólabraut 15, Akureyri, á hendur KÓ fiski ehf., kt. 450614-1220, Smárahlíð 12, Akureyri, og var þingfest hinn 9. apríl 2015. Það var tekið til úrskurðar um kröfu stefnda, um að stefnanda verði gert að setja málskostnaðartryggingu, að loknum munnlegum málflutningi hinn 13. apríl.

Í málinu krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til að greiða sér 1.881.570 krónur sem séu „rétt og sanngjörn laun“ sem stefnandi hafi unnið fyrir stefnda.  Þá krefst hann staðfestingar nánar greinds sjóveðréttar fyrir kröfunni og málskostnaði.

Stefndi krefst þess að stefnanda verði gert að setja 800.000 króna málskostnaðartryggingu.  Stefnandi krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að ákveðin verði lægri trygging.

Stefnanda hefur verið veitt gjafsókn til málaferlanna.

Stefndi hefur lagt fram gögn um að á árunum 2011 til 2014 hafi fimm sinnum verið gert árangurslaust fjárnám hjá stefnanda, síðast hinn 5. nóvember 2014 og þá vegna kröfu að fjárhæð 209.163 krónur.

Af hálfu stefnanda hafa ekki verið bornar brigður á að hin árangurslausu fjárnám gefi rétta mynd af fjárhag hans.  Byggði hann þvert á móti á því við munnlegan málflutning að hann hefði ekki ráð á því að greiða málskostnaðartryggingu og hefði hann ekki aðgang að dómstólum ef sér yrði gert að setja slíka tryggingu.

Með vísan til framanritaðs verður að miða við að þau árangurslausu fjárnám sem stefndi hefur lagt fram gögn um gefi rétta mynd af fjárhag stefnanda. Af þessu leiðir og að ekki teljast líkur á því að stefnanda gæti greitt stefnda málskostnað ef til þess kemur.  Rík dómaframkvæmd er fyrir því að við þær aðstæður verði fallizt á kröfu um að sett verði málskostnaðartrygging og að í því felist ekki brot gegn 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og má þar meðal annars hafa til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 71/1999.  Verður krafa stefnda tekin til greina og stefnanda gert að setja fram málskostnaðartryggingu í peningum eða bankaábyrgð innan tveggja vikna, en tryggingin telst hæfileg 450.000 krónur.

Af hálfu stefnanda fer með málið Andrés Már Magnússon hdl. en Ingvar Þóroddsson hdl. gætti hagsmuna stefnda í þessum þætti málsins.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stefnandi, Óskar Valgarðsson, setji málskostnaðartryggingu að fjárhæð 450.000 krónur í peningum eða bankaábyrgð innan tveggja vikna.