Print

Mál nr. 231/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Umhverfismat
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Samaðild
  • Stjórnarskrá
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Gjafsókn

Miðvikudaginn 12

 

Miðvikudaginn 12. júní  2002.

Nr. 231/2002.

Atli Gíslason

Guðmundur Páll Ólafsson

Náttúruverndarsamtök Íslands og

Ólafur S. Andrésson

(Atli Gíslason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Umhverfismat. Stjórnvaldsúrskurður. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Samaðild. Stjórnarskrá. Frávísunarúrskurður staðfestur. Gjafsókn.

A, G, N og Ó höfðuðu mál á hendur íslenska ríkinu þar sem þeir kröfðust þess aðallega að úrskurður umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar yrði felldur úr gildi og ráðherra gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar sem hafði lagst gegn framkvæmdinni. Var krafan einkum studd þeim rökum að gagnstætt því, sem ráðherra hefði lagt til grundvallar, myndi virkjunin valda verulegum og óafturkræfum umhverfisáhrifum. Til vara kröfðust þeir þess að úrskurður umhverfisráðherra yrði ómerktur. Var krafan reist á því að meðferð ráðherra á málinu hefði í ýmsu verið andstæð lögum. A, G, N og Ó lýstu hagsmunum sínum af málsókninni á þann hátt að A, G og Ó væru allir einlægir náttúruverndar- og umhverfissinnar, sem að lögum væru hvattir til þátttöku í umhverfisvernd, auk þess að N hefði á stefnuskrá sinni að vinna gegn náttúruspjöllum. Í dómi Hæstaréttar segir að um aðild að dómsmáli, sem höfðað sé um ákvörðun stjórnvalds á grundvelli laga nr. 106/2000 um mat á umhverifisáhrifum, fari eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. Heimild A, G, N og Ó til að hafa uppi í dómsmáli aðalkröfu sína, reista á framangreindum rökum, sé ekki að lögum háð því að þeir hafi látið mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar til sín taka þegar það var til meðferðar hjá Skipulagsstofnun eða umhverfisráðherra. Verði því ekki fallist á að heimild þeirra til að eiga aðild að dómsmáli um þessa kröfu geti verið rýmri en leiði af almennum reglum af þeim sökum einum að þeir hafi átt aðild að undanfarandi málsmeðferð stjórnvalda. Ekkert þeirra atriða sem A, G, N og Ó haldi fram til stuðnings því að þeir hafi hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um aðalkröfu sína sé þess eðlis að þeir geti talist hafa slíka lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur gangi um kröfuna. Þegar af þessari ástæðu verði að vísa kröfunni frá héraðsdómi. Varakrafa þeirra sé reist á því að meðferð ráðherra á málinu hafi verið andstæð lögum. Í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar njóti sá, sem aðild hafi átt að máli fyrir stjórnvaldi, almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Verði einu að gilda í því sambandi hvort aðild þess, sem í hlut á, hafi helgast af fyrrnefndum almennum reglum stjórnsýsluréttar eða sérreglum í lögum. Af þessum sökum skorti A, G, N og Ó ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um varakröfu sína. Aðilar að umræddu kærumáli fyrir umhverfisráðherra hafi verið 122 talsins. Auk A, G, N og Ó hafi þrír þeirra gert kröfu um að úrskurður Skipulagsstofnunar yrði staðfestur, en 115 haft uppi gagnstæða kröfu. Eins og málið liggi fyrir Hæstarétti verði ekki séð hversu margir af þessum aðilum við meðferð málsins fyrir umhverfisráðherra geti talist hafa átt einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Ótvírætt sé þó að Landsvirkjun hafi sem framkvæmdaraðili í skilningi laga nr. 106/2000 haft slíka hagsmuni. Úr varakröfunni verði því ekki leyst fyrir dómstólum án þess að þar eigi aðild Landsvirkjun og aðrir þeir, sem kunni að hafa átt slíka hagsmuni meðal annarra, sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra. Með því að sóknaraðilar hafi ekki gætt þess að beina varakröfu sinni að þeim, sem hér um ræði, sé slíkur galli á málsókn þeirra að einnig verði að vísa þessari kröfu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem sóknaraðilunum Guðmundi Páli Ólafssyni og Ólafi S. Andréssyni var veitt fyrir Hæstarétti 3. júní 2002.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Mál þetta er risið af fyrirhuguðum framkvæmdum Landsvirkjunar við svonefnda Kárahnjúkavirkjun. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var lögð fyrir Skipulagsstofnun 14. júlí 2000 tillaga að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum 750 MW vatnsaflsvirkjunar, sem Landsvirkjun kvaðst hafa hug á að reisa í tveimur áföngum í Fljótsdalshreppi og Norður-Héraði. Skipulagsstofnun féllst 16. ágúst 2000 á þessa tillögu með fyrirvara um nánari skoðun einstakra þátta matsins og öflun frekari gagna. Landsvirkjun tilkynnti síðan Skipulagstofnun um framkvæmdina 20. apríl 2001 og afhenti skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hennar. Sóknaraðilar gerðu athugasemdir við matsskýrsluna í bréfum til Skipulagsstofnunar 14. og 15. júní 2001. Með úrskurði 1. ágúst 2001 lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdinni „vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.“ Ákveðið var að frestur til að kæra þennan úrskurð til umhverfisráðherra yrði til 5. september 2001.

Umhverfisráðherra bárust alls 122 kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar. Í 115 tilvikum var úrskurðurinn kærður til að fá niðurstöðu hans hnekkt og fyrirhugaða framkvæmd heimilaða. Meðal þeirra, sem kærðu í þessu skyni, var Landsvirkjun. Fimm menn og tvenn félagssamtök kærðu á hinn bóginn úrskurðinn til staðfestingar. Voru sóknaraðilar allir í þeim hópi. Með úrskurði 20. desember 2001 felldi ráðherra úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og féllst á framkvæmdina með 20 nánar tilgreindum skilyrðum.

Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta á hendur varnaraðila 15. febrúar 2002. Fyrir héraðsdómi kröfðust þeir þess aðallega að úrskurður umhverfisráðherra yrði felldur úr gildi og honum gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Til vara kröfðust þeir að úrskurður ráðherra yrði ómerktur. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi var þess aðallega krafist að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum sóknaraðila. Með hinum kærða úrskurði var fallist á aðalkröfu varnaraðila.

II.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að þegar fyrirhuguð er framkvæmd, sem samkvæmt III. kafla laganna er háð slíku mati, beri þeim, sem hyggst ráðast í hana, að leggja tillögu að matsáætlun fyrir Skipulagsstofnun. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna tekur stofnunin afstöðu til tillögunnar og kynnir hana á þann hátt, sem um ræðir í 3. mgr. sömu lagagreinar, ef fallist er á hana. Að þessu gerðu skal sá, sem hyggur á framkvæmd, gera skýrslu um mat á umhverfisáhrifum, sem nánar er kveðið á um í 9. gr. laganna, og senda hana Skipulagsstofnun, sbr. 1. mgr. 10. gr. Að gættu því að matsskýrsla fullnægi skilyrðum 9. gr. laganna og sé í samræmi við matsáætlun ber eftir fyrirmælum 2. mgr. og 3. mgr. 10. gr. að kynna fyrirhugaða framkvæmd og matsskýrsluna, en hún skal liggja frammi aðgengileg í sex vikur, sem jafnframt er frestur til að koma fram skriflegum athugasemdum um hana við Skipulagsstofnun, sbr. 4. mgr. 10. gr. Í 2. málslið síðastnefnds ákvæðis er sérstaklega tekið fram að öllum sé heimilt að gera athugasemdir við framlagða matsskýrslu. Að þessu loknu kveður Skipulagsstofnun upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sbr. 11. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. má skjóta þeim úrskurði til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna kærufrests. Er þess sérstaklega getið í 4. mgr. 12. gr. að öllum sé heimil slík kæra.

III.

Fyrir Hæstarétti lýsa sóknaraðilar hagsmunum sínum af málsókn þessari á þann hátt að þeir séu allir einlægir náttúruverndar- og umhverfissinnar, sem að lögum séu hvattir til þátttöku í umhverfisvernd og afskipta af mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Sóknaraðilinn Guðmundur Páll Ólafsson sé jafnframt höfundur þjóðþekktra bóka um óspillta náttúru landsins, sóknaraðilinn Náttúruverndarsamtök Íslands hafi á stefnuskrá sinni að vinna gegn náttúruspjöllum og sóknaraðilinn Ólafur S. Andrésson sé vísindamaður á sviði líffræði og líftækni. Telja sóknaraðilar að með ákvæðum laga nr. 106/2000, nánar tilgreindra tilskipana Evrópubandalagsins, sem gildi á Evrópska efnahagssvæðinu, og Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, sem undirritaður var fyrir Íslands hönd 25. júní 1998, sé tryggð rúm aðild manna að umhverfismálum, jafnt fyrir stjórnvöldum sem dómstólum.

Krafan, sem sóknaraðilar gerðu aðallega fyrir héraðsdómi, lýtur sem fyrr segir að því að úrskurður umhverfisráðherra 20. desember 2001 verði felldur úr gildi og honum gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst sama árs. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafa sóknaraðilar einkum stutt þessa kröfu þeim rökum að gagnstætt því, sem umhverfisráðherra lagði til grundvallar, myndi Kárahnjúkavirkjun valda verulegum og óafturkræfum umhverfisáhrifum, sem ekki yrði komið í veg fyrir eða bætt úr með mótvægisaðgerðum. Vegna ákvæðis b. liðar 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 hafi ráðherra af þessum sökum borið að leggjast gegn framkvæmdinni og staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Einnig hafi ráðherra stutt niðurstöðu sína við ólögmætar röksemdir með því að játa Landsvirkjun atvinnufrelsi á grundvelli 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, og láta hana „njóta vafans en ekki hina óspilltu náttúru“, eins og sagði í héraðsdómsstefnu. Þá hafi Landsvirkjun í matsáætlun og matsskýrslu vanrækt að rökstyðja og sanna meginforsendur sínar fyrir framkvæmdinni og kanna til hlítar aðra kosti í samanburði við hana.

Með fyrrgreindum ákvæðum 2. málsliðar 4. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 er vikið frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að sá einn geti orðið aðili að máli fyrir stjórnvöldum, sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Af slíkum lögbundnum undantekningarreglum verða ekki dregnar víðtækari ályktanir en felast í orðum þeirra. Í lögum nr. 106/2000 eru engin sérákvæði um aðild að dómsmáli, sem höfðað er um ákvörðun stjórnvalds á grundvelli laganna. Fer því um aðild að slíku dómsmáli eftir almennum reglum, þar á meðal þeirri grunnreglu að baki ákvæðum laga nr. 91/1991 að dómstólar leysi ekki úr sakarefni nema sýnt sé að það skipti að lögum máli fyrir stöðu stefnanda að fá dóm um það. Heimild sóknaraðila til að hafa uppi í dómsmáli aðalkröfu sína, reista á framangreindum rökum, er ekki að lögum háð því að þeir hafi látið mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar til sín taka þegar það var til meðferðar hjá Skipulagsstofnun eða umhverfisráðherra. Verður því ekki fallist á að heimild sóknaraðila til að eiga aðild að dómsmáli um þessa kröfu geti verið rýmri en leiðir af almennum reglum af þeim sökum einum að þeir hafi átt aðild að undanfarandi málsmeðferð stjórnvalda. Hér að framan er getið þeirra atriða, sem sóknaraðilar halda fram til stuðnings því að þeir hafi hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um aðalkröfu sína. Ekkert þeirra atriða er þess eðlis að sóknaraðilar geti talist hafa slíka lögvarða hagsmuni, sem hér um ræðir, af því að efnisdómur gangi um þessa kröfu þeirra. Þegar af þessari ástæðu verður að vísa aðalkröfu sóknaraðila frá héraðsdómi.

IV.

Varakrafan, sem sóknaraðilar gerðu fyrir héraðsdómi um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar, er reist á því að í atriðum, sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði, hafi meðferð ráðherra á málinu verið andstæð lögum. Í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá, sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi, almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Verður einu að gilda í því sambandi hvort aðild þess, sem í hlut á, hefur helgast af fyrrnefndum almennum reglum stjórnsýsluréttar eða sérreglum eins og þeim, sem fram koma í 2. málslið 4. mgr. 10. gr. og 4. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000. Af þessum sökum verður ekki litið svo á að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um varakröfu sína, þótt svo fari um aðalkröfu þeirra samkvæmt áðursögðu.

Aðilar að umræddu kærumáli fyrir umhverfisráðherra voru sem áður segir 122 talsins. Auk sóknaraðila gerðu þrír þeirra kröfu um að úrskurður Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 yrði staðfestur, en 115 höfðu uppi gagnstæða kröfu. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti verður ekki séð hversu margir af þessum aðilum við meðferð málsins fyrir umhverfisráðherra geti talist hafa átt einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn þess. Ótvírætt er þó að Landsvirkjun hefur sem svonefndur framkvæmdaraðili í skilningi laga nr. 106/2000 haft slíka hagsmuni. Úr varakröfu sóknaraðila um ómerkingu úrskurðar umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 verður ekki leyst fyrir dómstólum án þess að þar eigi aðild Landsvirkjun og aðrir þeir, sem kunna að hafa átt slíka hagsmuni meðal þeirra 117 annarra, sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra. Með því að sóknaraðilar gættu þess ekki að beina varakröfu sinni að þeim aðila, einum eða fleiri, sem hér um ræðir, er slíkur galli á málsókn þeirra að einnig verður að vísa þessari kröfu frá héraðsdómi.

Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Rétt er að kærumálskostnaður falli niður, en um gjafsóknarkostnað sóknaraðilanna Guðmundar Páls Ólafssonar og Ólafs S. Andréssonar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðilanna Guðmundar Páls Ólafssonar og Ólafs S. Andréssonar fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, samtals 250.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2002.

Mál þetta sem var höfðað 15. febrúar sl., var tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 11. þ.m.

Stefnendur eru Atli Gíslason, kt. 120847-2369, Birkimel 6, Reykjavík, Guðmundur Páll Ólafsson, kt. 020641-3989, Neskinn 1, Stykkishólmi, Náttúruverndarsamtök Íslands, kt. 460697-2049, Þverholti 15, Reykjavík, og Ólafur S. Andrésson, kt. 091051-4519, Þverási 21, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið en fjármálaráðherra og umhverfisráðherra er stefnt til fyrirsvars fyrir það.

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að úrskurður umhverfisráðherra 20. desember 2001, þar sem felldur var úr gildi úrskurður Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001, um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar allt að 750 MW og fallist á hina fyrirhuguðu Kárahnjúkavirkjun, verði felldur úr gildi og umhverfisráðherra verði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Til vara er þess krafist að úrskurður umhverfisráðherra verði ómerktur. Þá krefjast stefnendur þess að stefndi verði, óháð úrslitum málsins, gert að greiða stefnendum málskostnað og gagnvart Guðmundi Páli Ólafssyni og Ólafi S. Andréssyni eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu. Þá er krafist málskostnaðar.

Í þessum þætti málsins gera stefnendur þá kröfu að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að málinu verði heldur ekki vísað frá dómi án kröfu. Þá er þess krafist, verði frávísunarkröfu hafnað, að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms en ella verði úrskurðað um málskostnað og gjafsóknarkostnað.

Málsatvik og málatilbúnaður stefnenda

Stefnendur byggja málshöfðun þessa á því að úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001, um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar, sé efnislega og formlega rangur.

Forsaga málsins er sú að með bréfi 14. júlí 2000 barst Skipulagsstofnun tillaga framkvæmdaraðila, Landsvirkjunar, að matsáætlun um Kárahnjúkavirkjun. Skipulagsstofnun féllst í bréfi 16. ágúst 2000 á tillögu Landsvirkjunar að matsáætlun með fyrirvara um nánari skoðun einstakra þátta matsins. Landsvirkjun lagði svo fram matsskýrslu til Skipulagsstofnunar, 20. apríl 2001, um Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW í tveimur áföngum, fyrri áfangi allt að 625 MW og síðari áfangi allt að 125 MW. Skipulagsstofnun auglýsti matsskýrsluna 4. maí 2001 og var gefinn kostur á að gera athugasemdir við hana í samræmi við 10. gr. laga nr. 106/2000. Stefnendur voru meðal þeirra sem gerðu slíkar athugasemdir.

Með úrskurði Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 er lagst gegn Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW eins og hún er lögð fram í tveimur áföngum  og fjórum verkhlutum, vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar.

Kærufrestur til umhverfisráðuneytisins var ákveðinn 5. september 2001. Ráðuneytinu bárust 122 kærur vegna úrskurðarins, þ.á.m. frá stefnendum og framkvæmdaraðila, Landsvirkjun. Virðast 115 kærendur hafa krafist þess að úrskurður Skipulagsstofnunar yrði felldur úr gildi og fyrirhuguð framkvæmd leyfð en sjö kærendur kröfðust þess að úrskurðurinn yrði staðfestur. Þá gerðu stefnendur, Atli Gíslason, Guðmundur Páll Ólafsson og Náttúruverndarsamtök Íslands kröfu til þess að umhverfisráðherra viki sæti í málinu.

Með bréfi ráðuneytisins 4. október 2001 til stefnenda og fleiri var kröfu um að umhverfisráðherra viki sæti við meðferð málsins hafnað. Í bréfi ráðuneytisins kemur jafnframt fram að ráðuneytið hafi tilkynnt þeim aðilum sem kröfðust þess að úrskurður Skipulagsstofnunar yrði staðfestur án breytinga, að með hliðsjón af því að Landsvirkjun sem framkvæmdaraðili og margir fleiri hefðu kært úrskurð Skipulagsstofnunar og krafist þess að hann yrði felldur úr gildi, hefði ráðuneytið ákveðið að vísa kærum þessum ekki frá heldur taka þær til efnisúrlausnar.

Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð í kærumálinu 20. desember 2001 þar sem hinn kærði úrskurður Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 er felldur úr gildi og fallist var á hina fyrirhuguðu framkvæmd Kárahnjúkavirkjun með nánar tilteknum skilyrðum.

Aðal- og varakröfu sína rökstyðja stefnendur á hliðstæðan hátt. Af hálfu stefnenda er á því byggt að úrskurður umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar sé efnislega og formlega rangur. Umhverfisráðherra hafi ekki farið að lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og málsmeðferð hafi að auki brotið gegn grunnreglum stjórnsýsluréttarins.

Kárahnjúkavirkjun muni óhjákvæmilega valda verulegum og óafturkræfum umhverfisáhrifum á gróður, dýralíf, útsýni og náttúrufegurð, sem ekki verði fyrirbyggð eða bætt úr með mótvægisaðgerðum. Umhverfisráðherra hafi því borið, samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, að leggjast gegn framkvæmdinni og staðfesta hinn kærða úrskurð. Úrskurður umhverfisráðherra brjóti einnig í bága við markmið og verndarákvæði íslenskra laga og alþjóðasamninga á sviði náttúruverndar og umhverfismála og stefnumið ríkisstjórnar og opinberra aðila á sömu sviðum.

Að mati stefnenda styðst niðurstaða umhverfisráðherra við ólögmæt rök. Ráðherra beri fyrir sig l. mgr. 75 gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og láti Landsvirkjun njóta vafans en ekki hina óspilltu náttúru þvert á varúðarsjónarmið sem meðal annars er mælt fyrir um í tilskipun 85/337/EBE, í 2. tl. inngangs tilskipunar 97/11/EB og 15. gr. og 17. gr. Ríóyfirlýsingarinnar frá júní 1992. Jafnframt horfi ráðuneytið framhjá atvinnufrelsi annarra, svo sem rithöfunda, ljósmyndara, vísindamanna, bænda, veiðimanna og aðila í ferðaþjónustu svo dæmi séu nefnd. Stefnendur telji þessi sjónarmið ráðherra  andstæð íslenskri og evrópskri löggjöf um mat á umhverfisáhrifum og náttúruvernd. Síðast en ekki síst séu mannréttindaákvæði sett til verndar einstaklingum en ekki stjórnvöldum og Landsvirkjun sem lögaðila.

Þá hafi Landsvirkjun í matsáætlun og matsskýrslu vanrækt að rökstyðja og sanna þá meginforsendu og niðurstöðu matsskýrslu sinnar að efnahagslegur ávinningur af fyrirhugaðri Kárahnjúkavirkjun réttlæti þau gífurlegu umhverfisspjöll sem af henni leiði. Ekki hafi verið lagt mat á verðmæti þeirra víðerna sem virkjunin muni óhjákvæmilega eyðileggja. Telja stefnendur málatilbúnað Landsvirkjunar hafa verið með þeim hætti að hann hafi ekki verið tækur til mats og Skipulagsstofnun hafi verið óheimilt að samþykkja matsáætlun. Með hliðsjón af annmörkum hafi umhverfisráðherra borið að vísa málinu til meðferðar Skipulagsstofnunar á nýjan leik eða ómerkja málsmeðferðina frá upphafi.

Þá eru kröfur stefnenda studdar þeim rökum að fjölmargar athugasemdir Landsvirkjunar um málsmeðferð Skipulagsstofnunar, sem umhverfisráðherra féllst á að hluta til í úrskurði sínum, hafi átt að leiða til þess að málinu yrði vísað aftur til meðferðar Skipulagsstofnunar.

Stefnendur halda því fram að umhverfisráðherra hafi borið að víkja sæti við meðferð kærumálsins vegna vanhæfis.

Þá byggja stefnendur kröfur sínar á því að málsmeðferð umhverfisráðherra stangist bæði á við lög um umhverfismat og tilskipanir EB á þessu sviði, stjórnsýslulög og upplýsingalög. Þannig hafi á þeim verið brotinn andmæla- og upplýsingaréttur í veigamiklum atriðum. Umhverfisráðherra hafi ekki orðið við áskorun stefnenda um að afhenda þeim öll kærugögn. Þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um kæru Landsvirkjunar og kærugögn. Þá hafi kærendum verið mismunað þar sem Landsvirkjun hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um öll gögn málsins sem bárust Skipulagsstofnun og ráðherra, þar með taldar athugasemdir, kærur og greinargerðir stefnenda.

Stefnendur halda því fram að 12. gr., sbr. 2. mgr. 13. gr. og 11. gr. laga nr. 106/2000 skuldbindi ráðherra til að úrskurða um málið á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Honum hafi borið að horfa fram hjá nýjum gögnum og rannsóknum, en ella að vísa málinu til nýrrar meðferðar og úrskurðar Skipulagsstofnunar.

Þá hafi umhverfisráðherra ekki verið heimilt á grundvelli meintrar rannsóknarskyldu að leggja út í svo umfangsmikla gagnaöflun sem raun varð á.

Auglýsing umhverfisráðuneytisins frá 3. október 2001, hafi hvorki fullnægt málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga né laga nr. 106/2000 og hafi auk þess haft í för með sér að málsmeðferð samkvæmt 10. gr. laganna, hafi verið var sett af stað á nýjan leik á kærustigi án lagaheimildar. Kærufrestur til umhverfisráðuneytisins hafi verið liðinn þegar auglýsingin var birt og ennfremur hafi almenningi ekki verið veittur 6 vikna lágmarksfrestur til að koma að athugasemdum. Þá hafi ráðherra tekið við nýjum gögnum frá Landsvirkjun sem sannanlega hafi verið of seint fram komin og lagt þau til grundvallar úrskurði sínum án þess að gefa stefnendum kost á að tjá sig um þau.

Þá er og byggt á því að viðamikil gagnaöflun Landsvirkjunar í kjölfar úrskurðar Skipulagsstofnunar, sjálfstæð gagnaöflun umhverfisráðuneytisins og gögn sem borist hafi vegna nefndrar auglýsingar, hafi raskað grundvelli málsins svo verulega að ráðherra hafi verið skylt að vísa málinu til meðferðar Skipulagsstofnunar á nýjan leik. Í stað þess hafi umhverfisráðherra lagt mat á og úrskurðað um þessi gögn á einu stjórnsýslustigi þvert á grunnreglur stjórnsýslu og andstætt málsmeðferðarreglum og markmiðum laga nr. 106/2000.

Þá hafi Skipulagsstofnun í allri málsmeðferð sinni lagt til grundvallar þá forsendu í matsskýrslu Landsvirkjunar að umhverfisáhrif virkjunarinnar væru innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun myndi skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar myndi fylgja. Í úrskurði umhverfisráðherra sé komist að þeirri niðurstöðu að ekki beri að fjalla um þjóðhagsleg áhrif framkvæmdarinnar og arðsemi hennar við mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Með þessu hafi umhverfisráðherra haft ólögmæt endaskipti á meðferð málsins og raskað grundvelli þess, án þess að Skipulagsstofnun, Landsvirkjun, aðrir kærendur, almenningur og umsagnaraðilar ættu þess nokkurn kost að tjá sig á þessum nýja, gjörbreytta og eðlisólíka grundvelli. Umhverfisráðherra hafni meginforsendu framkvæmdaraðilans en fallist engu að síður á virkjunarframkvæmdir samkvæmt matsskýrslu hans á gjörólíkum forsendum. Þegar af þessari ástæðu beri að ómerkja úrskurð umhverfisráðherra sem leiði til þess að hefja verði matsferlið á vettvangi Skipulagsstofnunar frá upphafi.

Stefnendur byggja og á því að framkvæmdaaðili hafi breytt og endurhannað framkvæmdaáform sín í kæru til umhverfisráðuneytisins og lagt fram umfangsmikil ný gögn sem Skipulagsstofnun hafi ekki fjallað um. Þá setji ráðherra fram fjölmörg skilyrði í úrskurði sínum sem aldrei hafi komið til umfjöllunar við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun. Mörg skilyrðanna séu þess eðlis, að þau hafi umtalsverð umhverfisáhrif og séu þar með matsskyld að lögum. Auk þess virðast nokkur skilyrðanna á engan hátt útfærð og vera samningsatriði framkvæmdaaðila og opinberra aðila. Málsmeðferð ráðherra eigi sér ekki lagastoð að þessu leyti.

Þá styðja stefnendur kröfur sínar þeim rökum að umhverfisráðherra hafi í engu tekið afstöðu til aðal- og varakrafna þeirra og rökstuðnings í úrskurði sínum, ef frá sé talin krafa um vanhæfi.

Því megi ljóst vera að umhverfisráðherra hafi virt kærur stefnenda, aðal- og varakröfur þeirra og rökstuðning að vettugi í úrskurði sínum andstætt fyrirmælum laga um rökstuðning, andmæla- og upplýsingarétt og um lýðræðislega og virka þátttöku almennings í mati á umhverfisáhrifum. Hluta kærugagna stefnenda sé alls ekki getið í úrskurði og umhverfisráðherra hafi látið undir höfuð leggjast að senda Guðmundi Páli Ólafssyni úrskurð sinn. Er byggt á því að úrskurður umhverfisráðherra fullnægi hvorki efnis- né formkröfum 13. gr. laga nr. 106/2000, sbr. 30. gr. laga nr. 37/1993 og enn síður fyrirmælum tilskipana EB og alþjóðasamninga.

Til stuðnings framanrituðum málsástæðum vísa stefnendur til þess að kjarni íslenskra laga, tilskipana EB og alþjóðasamninga um umhverfismál og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda sé að tryggja almenningi aðild, lýðræðislegan rétt hans, aðgang að upplýsingum, réttláta, gegnsæja, skjóta og skilvirka, ókeypis eða ódýra málsmeðferð jafnt fyrir stjórnvöldum sem dómstólum, sbr. meðal annars 5. og 6. gr. tilskipunar 83/337/EBE, inngang, 1. gr. til 4. gr. og 6. gr. tilskipunar 90/313/EBE, 6 tl., 8. tl. og 11. tl. tilskipunar 97/11/EB og inngangs og 3. gr. til 9. gr. Árósarsamningsins frá 25. júní 1998, sem undirritaður hafi verið fyrir Íslands hönd.

Sjónarmið aðila varðandi formhlið málsins

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður stefnenda uppfylli ekki skilyrði laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og sé ekki tækur til efnismeðferðar.

Stefndi telur skilyrði  til að hafa uppi viðurkenningarkröfu, samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, ekki fyrir hendi þegar af þeirri ástæðu að stefnendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Stefnendur verði að hafa einstaklega, persónulega eða fjárhagslega hagsmuni svo þeir teljist lögvarðir. Í dómkröfum stefnenda sé hvergi að finna kröfur sem varði þá sjálfa og tæpast verði fullyrt að stefnendur eigi einstaklegra og verulegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins. Grundvallarreglur réttarfars um nauðsyn lögvarinna hagsmuna byggi á því að ekki verði lagt á dómstóla að leysa úr málefni sem ekki skipti lagalega máli fyrir málsaðila að fá niðurstöðu um. Þessi regla tengist öðrum reglum réttarfars svo sem reglu 1. mgr. 24. gr. einkamálalaga um sakarefni og fyrirmælum l. mgr. 25. gr. laganna sem girði fyrir að dómstólar verði krafðir svara um álitaefni um tilvist eða skýringu réttarreglna án tengsla við ákveðna kröfu. Stefndi telur að hér skipti engu máli þótt 10. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum heimili stefnendum rétt til athugasemda við matsskýrslur vegna fyrirhugaðra matskyldra framkvæmda. Réttur samkvæmt 10. og 12. gr. laga nr. 106/2000 veiti ekki sjálfkrafa rétt til málshöfðunar fyrir almennum dómstólum. Gera verði greinarmun á 10. og 12. gr. laga 106/2000 og rétti til málshöfðunar fyrir dómstólum og skýra lagaheimild hafi þurft til þess að veita öllum þeim er aðild höfðu að stjórnsýslumálinu rétt til málshöfðunar fyrir dómstólum. Í einkamálalögum gildi aðrar og þrengri heimildir til málshöfðunar og þar skipti lögvarðir hagsmunir meginmáli.

 Af hálfu stefnda er talið að dómur Hæstaréttar frá 15. mars 2002 í málinu nr. 88/2002 hafi fordæmisgildi þegar leggja eigi mat á það hvort stefnendur eigi lögvarða hagsmuni af því að bera sakarefnið undir dómstóla. Í þessu samhengi beri ennfremur að hafa í huga að kæruréttur samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 sé samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga einungis bundinn við það að fá stjórnvaldsákvörðun breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Stefnendur hafi því augljóslega ekki átt málsskotsrétt þar sem þeir kröfðust staðfestingar úrskurðar Skipulagsstofnunar. Af leiði að ekki sé hægt að byggja lögvarða hagsmuni eða aðild stefnenda á 12. gr. 1. 106/2000.

Aðild stefnenda að þessu máli fái þar að auki ekki staðist í ljósi þess að reglan um "actio popularis" (hver á sök sem vill) sé án skýrrar lagaheimildar ekki viðurkennd í íslenskum rétti. Stefnendur virðist byggja á því fram að hvaða íslenskur ríkisborgari, sem er og eftir atvikum hvaða félagasamtök sem er, geti höfðað mál út af hverju sem sem upp kemur í samfélaginu. Slíkt fái ekki staðist. Vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 7. júní 2001 í málinu nr. 173/2001 varðandi málshöfðunarheimild.

Jafnframt vísar stefndi til reglna 3. mgr. 25. gr. um málsaðild svo sem sú grein hafi verið skýrð af dómstólum, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 1993:1304. Því er jafnframt mótmælt að hægt sé að draga þá ályktun, að það sé á starfsviði Náttúrverndarsamtaka Íslands eða samrýmanlegt tilgangi þeirra samtaka að gæta þeirra hagsmuna í dómsmáli sem kröfur samtakanna snúast um.

Augljóst sé að Landsvirkjun sem framkvæmdaraðili eigi hagsmuna að gæta varðandi umdeilt umhverfismat, framkvæmd þess og eftirfarandi úrskurð. Landsvirkjun sé ekki stefnt í málinu. Varði það frávísun samkvæmt 2. mgr. 18. gr. einkamálalaga. Staða hennar sem framkvæmdaraðila sé augljóslega ekki sambærileg stöðu þeirra sem gerðu athugasemdir við matsskýrsluna.

Að mati stefnda er aðalkrafa stefnenda ódómtæk. Dómstóll hafi ekki heimild til þess að fella úrskurð ráðherra á kærustigi úr gildi og jafnframt kveða á um að fallist skuli á úrskurð lægra setts stjórnvalds. Engin lagaskilyrði eru til þessa og sé því dómkrafan vanreifuð og utan valdsviðs dómstóla að taka afstöðu til hennar. Kröfugerð þessa eðlis ber að vísa frá dómi, m.a. með tilvísun til 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu stefnda kom fram ný málsástæða við munnlegan flutning um frávísunarkröfu. Byggist hún á því að Alþingi hafi 8. apríl sl. samþykkt lög sem veiti Landsvirkjun heimild til að reisa allt að 750 MW vatnsaflsvirkjun við Kárahnjúka. Verði talið að stefnendur hafi haft lögvarða hagsmuni í þessu máli þá telur stefndi að þeir séu hvað sem öðru líður ekki lengur fyrir hendi af þessum sökum. Hér sé því um að ræða lögspurningu sem ekki verði lagt á dómstóla að leysa úr.

Á því er byggt af hálfu stefnda að hver og einn þeirra annmarka á málatilbúnaði stefnenda sem framan er rakinn eigi að leiða til þess að fallast beri á aðalkröfu stefnda um frávísun málsins.

Af hálfu stefnenda er frávísunarkröfu stefnda mótmælt. Stefnendur halda því fram að þeir hafi lögvarða hagsmuni í máli þessu. Dómstólar hafi rétt til að dæma um allt sem lög og landsrétt varði samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar. Ef málefni sé ekki skilið undan lögsögu dómstóla með lögum þá eigi það heima hjá dómstólum. Túlka verði þröngt allar takmarkanir á málskotsheimild til dómstóla. Þá leiði það af lögum og venju og almennum lýðræðishefðum að sá sem eigi aðild að stjórnsýslumáli geti borið það undir dómstóla. Því verði að telja eðlilegt að stefnendur, sem átt hafi aðild að kærumáli á æðra stjórnsýslustigi og geri athugasemdir við efnislega niðurstöðu æðra stjórnvalds og meðferð þess á málinu, geti leitað til dómstóla og haft þar uppi kröfur með þeim hætti sem hér sé gert. Annað fái ekki staðist. Stefndi sé bundinn af því að hafa veitt aðild að stjórnsýslumáli og það feli því í sér aðild að einkamáli.

Þar við bætist að lögvarða hagsmuni verði að skýra rúmt þegar að umhverfismálum komi. Hagsmunir stefnenda séu ekki bara fjárhagslegir heldur byggist þeir einnig á andlegum, tilfinningalegum og fagurfræðilegum sjónarmiðum. Þá sé borgurunum veitt enn frekari réttindi á þessu sviði með Samningnum um evrópska efnahagssvæðið og þeim skuldbindingum sem honum fylgi og íslenska ríkið hafi gengist undir með lögum nr. 2/1993. Bendir stefndi sérstaklega á 73. gr. samningsins. Með kröfu sinni um frávísun stefni stefndi í tvísýnu þessum skuldbindingum sínum. Vísar stefndi þar um einnig til Árósarsamningsins frá 25. júní 1998 um umhverfi í Evrópu, sem undirritaður hafi verið af Íslands hálfu og lagður fyrir Alþingi á árinu 2001, en ekki fengið afgreiðslu, og til ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu um réttláta málsmeðferð.

Þá telja stefnendur 2. mgr. 18. gr. einkamálaga ekki eiga við. Íslenska ríkið eigi ekki óskipt réttindi eða skyldur með Landsvirkjum eða öðrum þeim sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðuneytisins og geti því ekki átt samaðild með þeim. Krafa stefnenda beinist ekki að Skipulagsstofnun. Landsvirkjun hafi verið umsagnaraðili til ráðherra og slíkur aðili geti ekki átt óskipta skyldu með úrskurðaraðilanum. Dómkröfur snúi að efni og formi úrskurðar umhverfisráðuneytisins. Þá eigi 19. gr. laganna um samlagsaðild ekki heldur við. Það að Landsvirkjun hafi ekki verið stefnt inn á grundvelli 21. gr. einkamálalaga varði ekki frávísun. Landsvirkjun verði ekki fyrir neinum réttarspjöllum verði kröfugerð stefnenda tekin til greina. Þá hafna stefnendur því að lög sem veita Landsvirkjun heimild til að reisa vatnsaflsvirkjun við Kárahnjúka eigi að leiða til frávísunar málsins vegna 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Lög þessi breyti engu um matsferlið og stefnendur hafi eftir sem áður hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfur sínar.

Þá hafnar stefnandi því að kröfugerð hans sé ekki í samræmi við 80. gr. einkamálalaga og langt frá því að vera vanreifuð. Kröfugerð hans sé skýr og dómtæk.

Niðurstaða

Af hálfu stefnda eru í greinargerð færðar fram fjórar sjálfstæðar málsástæður fyrir kröfu um frávísun og sú fimmta kom fram við munnlegan málflutning um frávísunarkröfu.

Rétt þykir að fjalla í einu lagi um þær frávísunarástæður sem byggjast á því að stefnendur hafi ekki lögvarða hagsmuni af að fá leyst úr sakarefninu, málshöfðun þeirra byggist á sjónarmiðum um að hver eigi sök sem vill og að lögvarðir hagsmunir séu hvað sem öðru líði ekki lengur til staðar vegna nýsamþykktra laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Aðalkrafa stefnenda lýtur að því að fá felldan úr gildi úrskurð umhverfisráðherra frá 20. desember 2001, sem felldi úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001, um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og að dómurinn leggi fyrir umhverfisráðherra að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Til vara er þess krafist að úrskurður umhverfisráðherra verði ómerktur.

Í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að öllum sé heimilt að koma á framfæri við Skipulagsstofnun athugasemdum við matsskýrslu framkvæmdaaðila. Í samræmi við framangreinda heimild sendu stefnendur Skipulagsstofnun 14. og. 15. júní 2001 athugasemdir um matsskýrslu Landsvirkjunar á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Með úrskurði 1. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt 11. gr. laga nr. 106/2001 lagðist Skipulagsstofnun gegn Kárahnjúkavirkjun allt að 750 MW, vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga.

Í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2001 segir að úrskurð Skipulagsstofnunar, samkvæmt 11. gr., megi kæra til umhverfisráðherra innan fjögurra vikna frá því að hann var birtur, fari um kæruna samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. Í 4. mgr. segir að öllum sé heimilt að kæra slíkan úrskurð til ráðherra.

Framangreindur úrskurður var með bréfi 2. ágúst 2001 kynntur öllum þeim sem athugasemdir höfðu gert við mat á umhverfisáhrifum. Bent var á að úrskurðinn mætti kæra til umhverfisráðherra samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 og að kærufrestur væri til 5. september 2001.

Sem fyrr segir kærðu stefnendur framangreindan úrskurð til umhverfisráðherra til staðfestingar og eru kærurnar dagsettar 31. ágúst, 1. og 4. september 2001, eða innan kærufrests. Í samhljóða bréfum umhverfisráðuneytis til stefnenda frá 4. október 2001 kemur fram sú afstaða ráðuneytisins að rétt væri að skýra 4. mgr. 12 gr. laga nr. 106/2000 þannig, með hliðsjón af 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að fyrrnefnda ákvæðið veitti öllum heimild til þess að kæra úrskurð Skipulagsstofnunar, án tillits til þess hvort þeir hefðu einstakra hagsmuna að gæta, að því tilskildu að markmiðið með kærunni væri að fá úrskurðinn felldan úr gildi eða honum breytt. Ráðuneytið ákvað hins vegar að vísa kæru stefnenda ekki frá þar sem Landsvirkjun og fleiri hefðu þegar kært úrskurðinn og krafist þess að hann yrði felldur úr gildi. Þá var í bréfi þessu hafnað kröfu um að umhverfisráðherra viki sæti við meðferð kærumálsins.

Í 60 gr. stjórnarskrárinnar er mælt fyrir um að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þá er í 1. mgr. 24. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að finna þá meginreglu, að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli máls. Af þessum ákvæðum leiðir að skýra ber þröngt takmarkanir á heimildum til að bera sakarefni undir dómstóla.

Í 1. mgr. 25. gr. einkamálalaga er mælt fyrir um að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem það er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Af þessu ákvæði er talið leiða að dómstólar vísi frá málum sem eingöngu feli í sér svokallaðar lögspurningar.

Til viðbótar og til fyllingar framangreindum ákvæðum einkamálalaga er það talin meginregla í réttarfari að sakarefni verður að vera með þeim hætti að úrlausn um það hafi raunhæft gildi fyrir réttarstöðu málsaðila eða með öðrum orðum að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr sakarefninu skorið fyrir dómstólum. Þessi regla kemur ekki berum orðum fram í einkamálalögum en 2. og 3. mgr. 25. gr. lagnanna gera augljóslega ráð fyrir tilvist hennar.

Almennt hefur verið litið svo á að aðili þurfi að hafa tiltölulega áþreifanleg tengsl við sakarefni, annað hvort persónuleg eða fjárhagsleg, til þess að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að bera það undir dómstóla.

Af hálfu stefnenda hafa verið færð fram ýmis rök fyrir lögvörðum hagsmunum þeirra af því að fá úrskurði umhverfisráðherra hnekkt. Telja stefnendur það til lögvarinna hagsmuna að geta rannsakað og skrifað um óspillta náttúru umrædds svæðis, geta gengið um það og notið þess. Einnig er vísað til þess óumdeilda tilgangs, stefnda Náttúruverndarsamtaka Íslands að vera málsvari umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða.

Að mati dómsins eru framangreind sjónarmið um tengsl þeirra við sakarefnið fyrst og fremst almenns eðlis og uppfylla ekki skilyrði þess að teljast lögvarðir hagsmunir. Skapa þessir hagsmunir stefnendum ekki heimild til að bera sakarefni þetta undir dómstóla.

Af hálfu stefnenda er einnig byggt á því að aðild þeirra að ágreiningi á stjórnsýslustigi skapi þeim sjálfkrafa heimild til að bera ágreininginn undir dómstóla. Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt að aðild þeirra að málinu á stjórnsýslustigi byggist á sjónarmiðum um actio popularis sem sé ekki viðurkennd sem meginregla í gildandi rétti um aðild að dómsmálum hér á landi.

Þótt almennt sé viðurkennt að aðgengi að dómstólum skuli vera sem allra best eru sem fyrr segir ýmsar takmarkanir á því í lögum hvaða ágreiningsefni verði borin undir dómstóla og hverjir geti staðið að málshöfðun.

Samkvæmt 4. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 geta allir skotið úrskurði Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og orðið þannig aðilar að stjórnsýslumáli á kærustigi. Með framangreindum bréfum umhverfisráðuneytisins til stefnenda, dagsettum 4. október 2001, þykir felast ótvíræð staðfesting á því að ráðuneytið leit á þá sem aðila að stjórnsýslumáli því sem mál þetta er sprottið af.

Í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 segir að úrskurður ráðherra sé fullnaðarúrskurður á stjórnsýslustigi. Í lögunum er heimild til að skjóta úrskurði ráðherra til dómstóla ekki takmörkuð. Með vísan til þeirra meginreglna sem fram koma í 60. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 24. gr. einkamálalaga verður að líta svo á að úrskurði ráðherra verði skotið til dómstóla. Meira vafamál er hvort stefnendur geti staðið að slíkri málshöfðun.

Í c-lið 1. gr. laga nr. 106/2000 er lýst því markmiði laganna, að kynna fyrir almenningi umhverfisáhrif framkvæmdar sem kann að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna þeirra og að almenningur komi að athugasemdum og upplýsingum áður en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er kveðinn upp. Þessi markmið eru meðal annars útfærð í 4. mgr. 10. gr., 5. mgr. 11. gr. og 4. mgr. 12. gr. laganna. Með þessum ákvæðum er almenningur hvattur til virkrar þátttöku í ákvörðunum sem varða umhverfið og veitt staða aðila í stjórnsýslumálum sem rekin eru á grundvelli laganna enda þótt framkvæmdir sem verið sé að fjalla um snerti viðkomandi aðeins með almennum hætti.

Framangreind lagaákvæði eiga sér fyrirmyndir í tilskipun Evrópusambandsins 85/337/EBE um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið og tilskipun Evrópusambandsins 97/11/EB um breytingu á þeirri tilskipun. Þessar tilskipanir og fleiri svo sem tilskipun Evrópusambandsins 90/313/EBE um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál hafa að geyma ýmis almennt orðuð ákvæði sem ætlað er að tryggja aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál og möguleika almennings til að koma athugasemdum á framfæri í því skyni að stuðla að betri umhverfisvernd. Framangreindar tilskipanir styðja þau rök stefnenda að sérstök sjónarmið eigi við um aðild almennings að ákvarðanatöku um umhverfismál en þær taka hins vegar ekki af skarið um hvort stefnendur geti borið sakarefni þessa máls undir dómstóla.

Í svokölluðum Árósasamningi frá 25. júní 1998 um umhverfi í Evrópu, sem undirritaður var af Íslands hálfu, er mælt fyrir um í 9. gr. að aðildarríki skuli tryggja aðgang að réttlátri málsmeðferð, þar á meðal til endurskoðunar fyrir dómstólum. Ýmsir fyrirvarar eru þó gerðir svo sem að einstaklingar hafi nægjanlegra hagsmuna að gæta eða að gengið hafi verið á rétt þeirra, hvorutveggja í samræmi við skilyrði landslaga. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu samningsins var lögð fyrir Alþingi á síðasta þingi en var ekki afgreidd. Verður því ekki á honum byggt við úrlausn þessa máls.

Í ljósi þess sem áður er rakið verður að skýra allar réttarheimildir sem áhrif hafa á aðgengi að dómstólum með þeim hætti að sem minnstar hindranir verði á því. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar er það meginregla að ákvarðanir stjórnvalda verða bornar undir dómstóla. Er því nærtækast að líta svo á að þeir sem aðild hafa átt að ágreiningi fyrir stjórnvöldum geti að öðru jöfnu borið ákvörðun stjórnvaldsins undir dómstóla. Þótt aðild stefnenda að umræddu stjórnsýslumáli sé einungis byggð á hinni sérstöku kæruheimild almennings samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 þykir það ekki koma í veg fyrir að stefnendur geti borið gildi hennar undir dómstóla, enda er ekkert í lögunum sem mælir því gegn.

Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að líta svo á að sú aðilastaða sem stefnendur fengu lögum samkvæmt eftir að þeir kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar hafi ekki einskorðast við meðferð málsins á stjórnsýslustigi heldur einnig skapað þeim slík tengsl við sakarefni það sem er til umfjöllunar í máli þessu að þeir teljist hafa lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi úrskurðar umhverfisráðherra fyrir dómstólum.

Af hálfu stefnda er því haldið fram, að lögvarðir hagsmunir stefnenda séu hvað sem öðru líði ekki lengur til staðar vegna þess að Alþingi hafi 8. apríl 2002 samþykkt lög sem veiti Landsvirkjun ótvíræða heimild til að reisa og reka þá vatnsaflsvirkjun sem umhverfismatið beindist að. Málsástæðu þessari var af hálfu stefnenda mótmælt sem of seint fram kominni og því einnig haldið fram að hún ætti ekki við rök að styðjast.

Þar sem umrædd lög voru samþykkt á Alþingi eftir að stefndi skilaði greinargerð og aðeins þremur dögum áður en málið var flutt um frávísunarkröfu þykir þessi málsástæða hafa komið fram jafnskjótt og tilefni var til og verður henni ekki hafnað af þeim sökum að hún sé of seint fram komin. Að auki er um að ræða atriði varðandi formhlið sem dóminum ber að gæta að þótt krafa um frávísun komi ekki fram.

Í 16. gr. laga nr. 106/2000 segir að óheimilt sé að gefa út leyfi fyrir matsskyldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir og skuli leyfisveiting taka tillit til hans. Óumdeilt er að umrædd virkjunarframkvæmd er matsskyld framkvæmd. Því matsferli sem lög nr. 106/2000 gera ráð fyrir lauk með úrskurði umhverfisráðherra 1. ágúst 2001 og var þá heimilt að gefa út leyfi fyrir framkvæmdinni. 

Í 1. gr. fyrrgreindra laga frá 8. apríl 2002 um heimild fyrir Kárahnjúkavirkjun o.fl., sem enn hafa ekki verið birt í stjórnartíðindum, er ekki vísað til mats á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar virkjunar og ekki getið um þau skilyrði sem sett voru fyrir framkvæmdinni í úrskurði umhverfisráðherra frá 20. desember 2001. Í almennum athugasemdum við  frumvarpið er hins vegar gerð rækileg grein fyrir matsferlinum og úrskurði umhverfisráðherra. Þá er í athugasemdum við 1. gr. frumvarpsins vísað til þess að í 7. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun segi að til byggingar nýrra raforkuvera og meginstofnlína þurfi leyfi ráðherra þess er fer með raforkumál. Áður en til framkvæmda komi þurfi Landsvirkjun að leita eftir slíku leyfi.

Samkvæmt 2. mgr. umræddrar 7. gr. laga nr. 42/1983 getur iðnaðarráðherra krafist þeirra breytinga á fyrirhugaðri tilhögun mannvirkja sem nauðsynlegar kunna að þykja vegna almenningshagsmuna.

Í 17. gr. laga nr. 106/2000 segir að leyfisveitendur hafi eftirlit með því að framkvæmd sé í samræmi við leyfi og úrskurð um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum og fari um eftirlitið samkvæmt hlutaðeigandi lögum.

Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum við 1. gr. nýsamþykktra laga um Kárahnjúkavirkjun verður ekki litið svo á að lögin upphefji 7. gr. laga 42/1983. Með hliðsjón af því teljast leyfisveitendur fyrir umræddri framkvæmd, í skilningi 17. gr. laga nr. 106/2000, Alþingi, sem þegar hefur veitt Landsvirkjun framkvæmdaleyfi, og síðan iðnaðarráðherra. Ber iðnaðarráðherra samkvæmt því að taka mið af fyrrnefndri 17. gr. laga nr. 106/2000 þegar hann gefur út endanlegt virkjunarleyfi, þar á meðal að hafa eftirlit með því að framkvæmd sé í samræmi við úrskurð um mat á umhverfisáhrifum.

Sem fyrr segir krefjast stefnendur ógildingar á úrskurði sem felur í sér mat á umhverfisáhrifum. Kann niðurstaða þeim í vil að leiða til þess að taka þurfi matsferlið upp að nýju sem getur leitt til breytinga á endanlegum úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Með hliðsjón af framangreindu verður að líta svo á að stefnendur hafi áfram lögvarinna hagsmuna að gæta af því að bera sakarefnið undir dómstóla þótt Alþingi hafi samþykkt lög sem heimila virkjunarframkvæmdirnar.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að Landsvirkjun eigi sem framkvæmdaraðili fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda hagsmuna að gæta varðandi umdeilt umhverfismat, framkvæmd þess og eftirfarandi úrskurð. Landsvirkjun hafi ekki verið stefnt í málinu og varði það frávísun samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Þessu mótmæla stefnendur og telja að þegar matsskýrsla framkvæmdaraðila samkvæmt 9. gr. laga nr. 106/2000 liggi fyrir hefjist nýr sjálfstæður ferill á vegum Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Við meðferð umhverfisráðuneytisins hafi Landsvirkjun aðeins haft stöðu umsagnaraðila. Staða Landsvirkjunar sé ekki slík að hún þurfi að vera aðili að dómsmáli vegna endanlegs úrskurðar um mat á umhverfisáhrifum. Að auki séu hagsmunir stefnda og Landsvirkjunar ekki þess eðlis að þeir teljist bera óskipta skyldu í skilningi 2. mgr. 18. gr. einkamálalaga. Því eigi tilvísun til ákvæða 18. gr., sem einungis fjalli um samaðild, ekki við.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 hvílir á framkvæmdaraðila skylda til að hafa frumkvæði að mati á umhverfisáhrifum með því að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd sem háð er slíku mati. Á framkvæmdaraðila hvílir, samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna, skylda til að gera tillögu til Skipulagsstofnunar um matsáætlun eins snemma á undirbúningsstigi framkvæmdar og kostur er. Skipulagsstofnun tekur síðan afstöðu til tillögunnar. Framkvæmdaraðila ber síðan að gera skýrslu um mat á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar í samræmi við matsáætlun sem Skipulagsstofnun hefur fallist á. Síðan kynnir Skipulagsstofnun fyrirhugaða framkvæmd og matsskýrslu samkvæmt 10. gr. laganna með vönduðum hætti og er öllum þá heimilt að gera athugasemdir til stofnunarinnar. Framkvæmdaaðila gefst síðan kostur á að svara umsögnum og athugasemdum. Eftir það skal Skipulagsstofnun, samkvæmt 1. mgr. 11. gr., kveða upp rökstuddan úrskurð um mat á umhverfisáhrifum á grundvelli fyrirliggjandi gagna og skal síðan kynna hann framkvæmdaraðila,  leyfisveitendum, umsagnaraðilum og þeim sem gert hafa athugasemdir við matsskýrslu. Framkvæmdaraðili getur kært úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra eins og aðrir. Áður en ráðherra kveður upp úrskurð skal hann meðal annars leita umsagnar framkvæmdaraðila.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að það viðamikla ferli sem mat á umhverfisáhrifum er hefst fyrir tilstuðlan framkvæmdaraðila vegna framkvæmdar sem hann hyggst ráðast í. Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 er framkvæmdaraðili ábyrgur fyrir mati á umhverfisáhrifum og ber kostnað af því, þar á meðal kostnað Skipulagsstofnunar vegna framkvæmdar laganna samkvæmt gjaldskrá. Líta verður á framkvæmdaraðila sem virkan þátttakanda í öllu matsferlinu og virkan aðila að meðferð málsins á stjórnsýslustigi frá upphafi til enda. Með vísan til þess verður að hafna því alfarið að matsskýrsla framkvæmdaraðila marki þau þáttarskil í matsferlinum að hann hafi eftir það ekki þá sérstöðu að  nauðsynlegt sé að hann sé aðili að dómsmáli sem þessu.

Fyrir liggur að stefnendur voru meðal 122 aðila sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Í úrskurði umhverfisráðherra segir að aðrir kærendur hafi verið, auk Landsvirkjunar, Afl starfsgreinafélag Austurlands, Björgvin Þórarinsson, Finnur Þór Birgisson, Gísli M. Auðbergsson hdl. f.h. Sævars Jónssonar, Guðmundur Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson, Gunnar Jónsson, Ingi Már Aðalsteinsson, Jóhann Jónsson, Landslög f.h. Fjarðarbyggðar, Lögmenn Austurlandi f.h. 100 nafngreindra aðila, sem eru félagasamtök, fyrirtæki og einstaklingar, Reynir Árnason, Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Sigurður Jónsson, Svanbjörg Sigurðardóttir og Jón Sigurðsson, Tómas Gunnarsson og Vilhjálmur Jónsson.

Að mati dómsins er hlutverk opinberra aðila varðandi mat á umhverfisáhrifum sérstaks eðlis. Stjórnvöld eiga ekki frumkvæði að mati á umhverfisáhrifum heldur aðili sem hyggst hefja matsskylda framkvæmd. Málsmeðferð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hlýtur að grundvallast á og miða að því að taka afstöðu til matsskýrslu framkvæmdaraðila. Úrskurður stofnunarinnar lýtur samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000 að því að taka ákvörðun um hvort fallast skuli á viðkomandi framkvæmd með eða án skilyrða eða leggjast eigi gegn henni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa. Ekki er rökbundin nauðsyn á að aðrir aðilar en framkvæmdaraðili komi beinlínis að þessu stjórnsýslumáli. Lögin gera hins vegar augljóslega ráð fyrir að mun fleiri aðilar geti látið úrlausn stjórnvalda til sín taka.

Með vísan til framangreinds verður að líta svo á að framangreindir aðilar sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar hafi allir átt aðild að meðferð stjórnsýslumálsins hjá umhverfisráðherra. Ætla verður að þessir aðilar hafi jafn ríkra hagsmuna að gæta að úrlausn sakarefnis þessa máls og stefnendur.

Í máli þessu gera stefnendur kröfu um að felldur verði úr gildi úrskurður umhverfisráðherra í stjórnsýslumáli, sem þeir áttu aðild að. Kröfunum beina þeir eingöngu að íslenska ríkinu en ekki að Landsvirkjun og öðrum þeim  aðilum sem jafnframt kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra og áttu því aðild að stjórnsýslumálinu á kærustigi.

Í dómi Hæstaréttar frá 1997 á bls. 2856 í dómasafni réttarins og dómi Hæstaréttar frá 14. desember 2001 í málinu nr. 431/2001, sem þykja hafa fordæmisgildi við úrlausn þessa máls, var talið að mál yrði ekki höfðað fyrir dómstólum til ógildingar á stjórnvaldsákvörðun nema stefna jafnframt þeim sem aðild höfðu átt að stjórnsýslumálinu.

Með vísan til þeirra ótvíræðu hagsmuna sem Landsvirkjun og aðrir þeir sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar hafa af úrlausn þessa máls og framangreindra dómafordæma var óhjákvæmilegt að stefnendur beindu kröfum sínum jafnframt að þessum aðilum. Að þessu var ekki gætt við höfðun málsins. Ber því samkvæmt 2. mgr. 18. gr. einkamálalaga að vísa frá dómi kröfum stefnenda á hendur íslenska ríkinu. Skal það sérstaklega tekið fram að ekki þykir skipta máli varðandi nauðsyn þess að stefna öðrum þeim sem skutu úrskurði Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra að þessir aðilar áttu þess kost að ganga inn í mál þetta með meðalgöngustefnu á grundvelli 20. gr. einkamálalaga, enda hafa þeir ekki gert það.

Aðalkrafa stefnanda lýtur, eins og að framan er rakið, annars vegar að því að úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 verði felldur úr gildi og hins vegar að því að umhverfisráðherra verði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar frá 1. ágúst 2001 um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar allt að 750 MW. Til vara krefjast stefnendur þess að úrskurður umhverfisráðherra verði ómerktur.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 25. gr. einkamálalaga er heimilt að leita viðurkenningardóms um tilvist eða efni réttarsambands eða um viðurkenningu á tilteknum réttindum og getur slík krafa beinst að stjórnvöldum. Þegar sleppir beinum lagafyrirmælum um samspil stjórnvalda og dómstóla við úrlausn réttarágreinings er hlutverk dómstóla varðandi endurskoðun á tilteknum stjórnvaldsákvörðunum fyrst og fremst það að skera úr um gildi viðkomandi ákvarðana. Sá hluti aðalkröfu sem lýtur að því, að umhverfisráðherra verði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar er ekki orðuð sem viðurkenningarkrafa heldur lýtur að því að dómurinn gefi umhverfisráðherra bein fyrirmæli um niðurstöðu nýrrar endurskoðunar á úrskurði Skipulagsstofnunar. Við þá endurskoðun væri ráðherra bundinn af niðurstöðu dómsins án tillits til þeirra sjónarmiða og málsástæðna sem fram kæmu við nýja meðferð málsins. Eins og áður hefur verið fjallað um hefur þeim aðilum sem kærðu úrskurð Skipulagsstofnunar til að fá honum breytt og hafa sætt sig við úrskurð ráðherra ekki verið stefnt í málinu. Dómur í samræmi við kröfugerð stefnenda gerði þessum aðilum með öllu útilokað að hafa áhrif á úrlausn þessa sakarefnis, ekki aðeins í þessu máli heldur einnig við nýja meðferð umhverfisráðherra. Þá gæfist ekki tækifæri til að taka tillit til nýrra gagna eða breyttra kringumstæðna. Krafa sem lýtur að því að gefa stjórnvaldi slík bein fyrirmæli um niðurstöðu flókins og umfangsmikils stjórnsýslumáls er ekki í samræmi við verkaskiptingu milli framkvæmdavalds og dómsvalds sem meðal annars er mælt fyrir um í 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þá er einnig til þess að líta að víða í málatilbúnaði stefnenda að finna rök fyrir því að umhverfisráðherra hafi borið að vísa málinu til meðferðar Skipulagsstofnunar á nýjan leik eða ómerkja málsmeðferðina frá upphafi. Hluti af aðalkröfu stefnanda lýtur engu að síður að því að ráðherra verði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar. Málatilbúnaður stefnanda er að þessu leyti óljós og mótsagnarkenndur og ekki í samræmi við e-lið 1. mgr. 80. gr. einkamálalaga. 

Með vísan til þessa, og hvað sem líður þeirri niðurstöðu dómsins að vísa beri málinu frá dómi af þeim ástæðum sem áður eru tilgreindar, þykir sá hluti aðalkröfu stefnenda sem lýtur að því að umhverfisráðherra verði gert að staðfesta úrskurð Skipulagsstofnunar ódómhæfur og bæri því einnig af þeirri ástæðu að vísa þessum lið aðalkröfunnar frá dómi.

Samkvæmt framansögðu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá dómi. Eftir atvikum þykir rétt að fella málskostnað niður.

Dómsmálaráðherra veitti öllum stefnendum gjafsókn 5. mars 2002 til að reka málið fyrir héraðsdómi. Einungis stefnendurnir Guðmundur Páll Ólafsson og Ólafur S. Andrésson hafa krafist þess að þeim verði úrskurðaður gjafsóknarkostnaður sem greiðist úr ríkissjóði. Samkvæmt því greiðist gjafsóknarkostnaður þeirra tveggja úr ríkissjóði, en hann er málflutningsþóknun lögmanns þeirra Atla Gíslasonar hrl., sem telst hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna. Það athugast að virðisaukaskattur er ekki innifalinn í ákvarðaðri þóknun lögmanns.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn ásamt meðdómendunum Gretu Baldursdóttur héraðsdómara og Þorgeiri Inga Njálssyni héraðsdómara.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, Guðmundar Páls Ólafssonar og Ólafs S. Andréssonar, sem er málflutningsþóknun Atla Gíslasonar hrl., 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.