Print

Mál nr. 800/2013

Lykilorð
  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Mannerfðafræðileg rannsókn
  • Stjórnarskrá

                                     

Þriðjudaginn 28. janúar 2014.

Nr. 800/2013.

A og

B

(Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)

gegn

C

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

Kærumál. Faðerni. Börn. Mannerfðafræðileg rannsókn. Stjórnarskrá.

Staðfestur var úrskurður þar sem tekin var til greina krafa C um að framkvæmd yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýni úr föður A og B í því skyni að fá úr því skorið hvort hann væri faðir C.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2013 þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr henni og  D, föður sóknaraðila, í því skyni að fá úr því skorið hvort hann sé faðir hennar. Kæruheimild er í 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og hafnað verði fyrrgreindri beiðni varnaraðila. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili er fædd [...]. Móðir hennar var E, fædd [...], en hún lést árið [...]. Eiginmaður hennar við fæðingu varnaraðila var F, fæddur [...]. Hann lést árið [...]. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 57/1921 um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sem í gildi voru við fæðingu varnaraðila, taldist F vera faðir hennar.

Sumarið 2011 leituðu varnaraðili og tveir bræður hennar sammæðra eftir því við Rannsóknastofu í réttarlæknisfræði að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr þeim til könnunar á því hvort varnaraðili ætti sama föður og bræður hennar. Í álitsgerð rannsóknastofunnar 28. júlí sama ár sagði að niðurstöður hennar bentu til þess að varnaraðili væri hálfsystir bræðranna. Varnaraðili höfðaði mál til vefengingar á faðerni sínu 30. október 2012. Við meðferð þess máls fór fram mannerfðafræðileg rannsókn við áðurnefnda rannsóknastofu á lífsýnum úr varnaraðila og F. Niðurstaða hennar var sú að hann útilokaðist frá því að geta verið faðir varnaraðila. Með dómi héraðsdóms 8. mars 2013 var því slegið föstu að F væri ekki faðir varnaraðila.

Varnaraðili höfðaði mál þetta 12. júní 2013 á hendur sóknaraðilum og þremur börnum látinnar systur þeirra. Krafðist varnaraðili þess að þau yrðu dæmd til að þola að D, sem var fæddur [...]en látinn [...], yrði dæmdur faðir sinn.

Í héraðsdómsstefnu var sagt að mikill vinskapur hafi verið á milli hjónanna E og F og D og eiginkonu hans. E og D hafi kynnst þegar þau unnu saman á [...] um [...]. Vinátta þeirra hafi haldist uns D lést um aldur fram á árinu [...]. Oft hafi verið rætt um hann með miklum kærleik á heimili varnaraðila. Eftir að í ljós hafi verið leitt að hún væri ekki dóttir F hafi hún leitað til ættingja og vina af kynslóð móður sinnar í þeirri viðleitni að fá upplýsingar um faðerni sitt. Þær upplýsingar hafi rennt stoðum undir þær grunsemdir varnaraðila að hún væri dóttir D. Þá væri ljóst af samanburði á ljósmyndum af varnaraðila og D heitnum að með þeim væri svipur. Varnaraðili reisir málatilbúnað sinn á að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að vera rétt feðruð og fá úr því skorið hvort D sé líffræðilegur faðir hennar. Málinu sé beint að skylduerfingjum hans eftir 2. mgr. 10. gr. barnalaga. Þá gerði varnaraðili kröfu um, teldi dómari málsins nauðsyn á, að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr D og varnaraðila. Stefndu í héraði kröfðust sýknu og mótmæltu að fram færi slík rannsókn. Í þinghaldi 28. október 2013 krafðist varnaraðili þess að mannerfðafræðileg rannsókn yrði gerð á lífsýnum úr sér og D. Féllst héraðsdómur á kröfu varnaraðila með hinum kærða úrskurði.

Börn hinnar látnu systur sóknaraðila hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

II

Meðal gagna málsins eru yfirlýsingar tveggja systkina móður varnaraðila, E, tveggja mágkvenna hennar og vinkonu, ásamt yfirlýsingu föðurömmu sonar varnaraðila. Skýrslur voru teknar af þeim fyrir héraðsdómi þar sem þau staðfestu yfirlýsingarnar og báru nánar um atvik, sem þar var lýst, svo og um kynni sín af móður varnaraðila. Af framburði systkina E, mágkvenna hennar og vinkonu er ljóst að öll báru þau hlýhug til hennar. Vitnin skýrðu öll frá því að náin vinátta og mikill samgangur hafi verið á milli hjónanna E og F og D og eiginkonu hans. Ekki hafi farið milli mála hversu lík varnaraðili væri D. Þá báru öll vitnin um atvik, sem studdu þann grun þeirra að varnaraðili og D hlytu að vera skyld. Á hinn bóginn hafi sá grunur ekki verið ræddur við E. Í málinu liggja fyrir ljósmyndir af varnaraðila og D og fer ekki milli mála að þau eru sláandi lík.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 10. gr. barnalaga getur barn höfðað faðernismál hafi það ekki verið feðrað og sé slíkt mál höfðað skal eftir 2. mgr. sömu greinar þá stefna þeim manni eða mönnum sem talið er að móðir hafi haft samfarir við á getnaðartíma barns, en að honum eða þeim látnum megi beina máli að lögerfingjum. Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er svo fyrir mælt að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Undir það heyrir réttur sérhvers manns til að þekkja uppruna sinn, þar á meðal faðerni sitt, svo og réttur til að aðrir raski ekki þessari friðhelgi nema brýna nauðsyn beri til, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Að teknu tilliti til þessa hvors tveggja verða áðurnefnd ákvæði barnalaga skýrð svo að það sé skilyrði þess að faðernismál verði höfðað að líkur hafi verið færðar fyrir því að maður, sem talinn er faðir barns, hafi haft samfarir við móður þess. Það getur hins vegar ekki staðið í vegi fyrir höfðun slíks máls þótt móðir barns hafi ekki skýrt frá því að annar en eiginmaður hennar kunni að vera faðir barnsins.

Móðir varnaraðila lést sem fyrr segir á árinu [...]. Í málinu eru engin gögn því til staðfestingar að hún hafi talið að D væri faðir varnaraðila. Þegar virtur er framburður áðurgreindra vitna, sem báru á einn veg um að náin vinátta og mikill samgangur hafi ríkt milli D og móður varnaraðila, rökstuddur grunur vitnanna um skyldleika D og varnaraðila svo og það hversu lík þau eru af framangreindum myndum að dæma, hefur varnaraðili fært nægar sönnur fyrir því að uppfyllt séu skilyrði barnalaga til höfðunar máls þessa.

Varnaraðili hefur samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort faðir sóknaraðila, D, sé faðir hennar. Sóknaraðilar halda því á hinn bóginn fram að niðurstaða mannerfðafræðilegrar rannsóknar kynni að brjóta með afar þungbærum hætti gegn friðhelgi einkalífs þeirra, sem njóti verndar áðurnefnds stjórnarskrárákvæðis. Það eigi einkum við um [...]. Hér vegast á hagsmunir varnaraðila af því að vera rétt feðruð og þeir hagsmunir sem sóknaraðilar vísa til. Telja verður ótvírætt að hagsmunir varnaraðila vegi mun þyngra en þeir hagsmunir sem sóknaraðilar bera fyrir sig. Að því virtu verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að áðurnefnd mannerfðafræðileg rannsókn verði gerð.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Samkvæmt 11. gr. barnalaga skal greiða þóknun lögmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Þóknun lögmanns varnaraðila fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2013.

Mál þetta, sem tekið var úrskurðar 20. nóvember 2013, var höfðað 12. júní 2013.

Stefnandi er C, [...].

Stefndu eru A, [...], B, [...], G, [...], H, [...] og I, [...].

Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær, að stefndu verði dæmd til að þola að D, fæddur [...], dáinn [...], verði dæmdur faðir stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim hverju um sig tildæmdur málskostnaður.

Í þessum þætti málsins er tekin til úrskurðar krafa stefnanda um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn úr stefnanda og lífsýnum úr D, fæddum [...], dáinn [...]. Þá er þess krafist að ákvörðun málskostnaðar bíði efnisdóms.

Stefndu hafna kröfu stefnanda og krefjast þess að stefnandi greiði hverjum stefnda um sig málskostnað.

I

                Stefnandi er fædd [...]. Móðir stefnanda hét E og andaðist hún á árinu [...]. Eiginmaður móður stefnanda við fæðingu hennar var F, fæddur [...], dáinn [...]. Var hann því skráður faðir stefnanda samkvæmt faðernisreglunni (pater est reglunni) á grundvelli 1. gr. laga nr. 57/1921 um afstöðu foreldra til skilgetinna barna, sem í gildi voru þegar stefnandi fæddist.

                Stefnandi kveðst sumarið 2011 hafa heyrt því fleygt að hún væri ekki dóttir F, heldur D. Af því tilefni kom stefnanda og bræðrum hennar, þeim J og K, saman um að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn til könnunar á faðerni stefnanda. Niðurstaðan liggur fyrir í álitsgerð rannsóknarstofunnar frá 28. júlí 2011 þar sem segir að rannsóknin bendi til þess að stefnandi sé hálfsystir þeirra bræðra. 

                Stefnandi höfðaði síðan mál til vefengingar á faðerni sínu, þar sem hún krafðist viðurkenningar á því að F væri ekki faðir hennar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar 2013 var systkinum stefnanda gert að sæta því að framkvæmd yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýni frá föður þeirra, F, til að fá úr því skorið hvort hann væri faðir stefnanda. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að útilokað var að F gæti verið faðir stefnanda. Í kjölfarið, eða hinn 8. mars 2013, var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem fallist var á að F væri ekki faðir stefnanda.

II

                Stefnandi kveður mál þetta höfðað á grundvelli II. kafla barnalaga nr. 76/2003. Kröfunni sé beint að stefndu með stoð í reglum 2. mgr. 10. gr. sömu laga, en þar sem D sé látinn sé mál þetta höfðað á hendur lögerfingjum hans. Krafan styðjist við þau grundvallarréttindi að hvert barn eða einstaklingur eigi rétt til þess að þekkja uppruna sinn, en stefnandi á ríka hagsmuni af því að vera rétt feðruð.

                Stefnandi byggir á því að mikill vinskapur hafi verið á milli foreldra hennar og D. Móðir stefnanda og D hafi kynnst þegar þau unnu saman á [...] í kringum [...]. Vinátta þeirra hélst þar til D lést árið [...]. Rekur stefnanda minni til þess að oft hafi verið talað um D af miklum kærleik á heimili hennar.

                Stefnandi kveður að eftir að það var í ljós leitt að hún væri ekki dóttir F hafi hún spurst fyrir hjá ættingjum og vinum af kynslóð foreldra sinna. Það hafi hún gert í þeirri viðleitni að fá upplýsingar um faðerni sitt, en móðir stefnanda lést áður en henni var unnt að bera undir hana málið. Vinir og ættingjar foreldra stefnanda hafi lýst aðstæðum og kringumstæðum á þeim tíma sem um ræddi og gátu rennt stoðum undir grunsemdir stefnanda, þess efnis að hún væri dóttir D. Enn fremur verði ekki fram hjá því litið að stefnanda svipar óneitanlega mjög til D heitins, samanber fyrirliggjandi ljósmyndir af þeim.

                Því telur stefnandi að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort D sé líffræðilegur faðir hennar. Telur stefnandi í ljós leitt að líkur séu á að D hafi haft samfarir við móður sína á getnaðartíma hennar og að uppfyllt séu grundvallarskilyrði fyrir höfðun faðernismáls skv. 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003.

III

                Stefndu byggja á því að D, faðir stefndu A og B, og afi stefndu G, H og I, sé ekki faðir stefnanda. Byggja stefndu á því að óþekktur þriðji maður sé faðir stefnanda, að öðrum kosti hlyti [...]. Gögn málsins, og sú staðreynd að [...], gera þann ósannaða orðróm, að D hafi verið faðir stefnanda, afar ólíklegan. Einnig sé nánast útilokað að [...].

                Stefndu byggja á því að ekki hafi verið sýnt fram á af stefnanda, né leiddar neinar líkur að því, að D hafi haft samfarir við móður stefnanda, E, á getnaðartíma stefnanda C, sbr. orðalag 2. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 (bl). C sé fædd [...] og samkvæmt því mun getnaðartími hennar vera um síðustu viku [...]. Stefndu telja að stefnandi komist hvergi nærri því að uppfylla þær sönnunarkröfur sem á henni hvíla lögum samkvæmt í máli þessu.

                Um þetta benda stefndu sérstaklega á að sönnunarkröfur sem lagðar séu á stefnanda í 2. mgr. 10. gr. bl. séu óuppfylltar af stefnanda. Í ákvæðinu sé skýrt tekið fram að málsaðild faðernismáls skuli vera með þeim hætti að stefnt skuli „þeim manni eða mönnum sem eru taldir hafa haft samfarir við móður á getnaðartíma barns“, eða lögerfingjum þess manns að honum sjálfum látnum, líkt og hér um ræðir. Með vísan til dómafordæma Hæstaréttar sé ófullnægjandi að gögn séu lögð fram um meintan orðróm sem ekki hefur verið staðfestur af móðurinni sjálfri. Um þetta vísa stefndu til hrd. 224/2006 og til samanburðar hrd. 116/2007. Annað og meira þurfi að koma til. Stefndu byggja á því, með vísan til kringumstæðna máls þessa og vitneskju móður stefnanda og fjölskyldu, þ.m.t. til framlagðra yfirlýsinga um [...], B, að lagðar verði auknar sönnunarkröfur á stefnanda um að D hafi haft samfarir við móður hennar á getnaðartíma stefnanda, þ.e. að auknar kröfur verði lagðar á stefnanda um sönnun þess að skilyrði 2. mgr. 10. gr. bl. séu fyrir hendi.

                Þegar af þessari ástæðu mótmæla stefndu því að auki að fram fari mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr D og að fram fari blóðrannsókn á aðilum máls. Úrskurður um slíkt væri brýnt brot gegn friðhelgi einkalífs stefndu, einkum í ljósi þess að sönnunarkröfur 2. mgr. 10. gr. bl. eru óuppfylltar af stefnanda þar sem aldrei hefur verið haft eftir móður hennar að D geti verið faðir stefnanda. Hvergi er því haldið fram í málatilbúnaði stefnanda að móðir hennar hafi nokkru sinni látið hafa slíkt eftir sér. Þvert á móti byggir stefnandi sjálf á því að slíkt hafi móðir hennar aldrei sagt við stefnanda.

                Stefndu vísa til 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs þeirra. Meðal annars byggja stefndu á því hvað 71. gr. varðar að úrskurður um blóðrannsókn á þeim eða lífsýnarannsókn á D, föður stefndu og afa, væri brýnt brot gegn nefndum ákvæðum. Til að réttlæta mætti slíkan átroðning á stjórnarskrárvarin réttindi stefndu þyrfti stefnandi að færa fyrir því sterk rök að D hefði haft samfarir við móður stefnanda á getnaðartíma hennar, sbr. orðalag 2. mgr. 10. gr. bl. Hæstiréttur hefur túlkað ákvæðið nánar með þeim hætti að ekki sé nægjanlegt að leggja fram vitnisburði eða yfirlýsingar aðila sem heyrt hafi orðróm um að tiltekinn maður sé raunverulegur faðir stefnanda eða að stefnandi sé líkur þeim manni sem stefnt er. Það sem Hæstiréttur hefur kveðið úr um að fullnægi kröfum 2. mgr. 10. gr. bl. sé ef móðir stefnanda hefði fullyrt að tiltekinn maður, hér D, væri faðir stefnanda. Um slíkt sé alls ekki að ræða í máli þessu. Enginn yfirlýsingargjafanna heldur því fram að hafa orðið vitni að því að móðir stefnanda hafi látið slík orð falla. Móðir stefnanda lést [...], áratugum eftir að stefnandi átti þess fyrst kost að höfða dómsmál um faðerni sitt. Því sé ekki borið við í málinu að móðir stefnanda hafi nokkru sinni fyrir yfirvöldum eða dómi lýst D föður stefnanda eða yfirhöfuð fullyrt slíkt við nokkurn mann. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins um að hún hafi talið svo vera. Þvert á móti virðist hún hafa „brosað við“ þegar slíkt var fært í tal, sem vart verður skilið öðruvísi en hún hafi ekki tekið slíkt tal alvarlega.

                Stefndu gera jafnframt sérstakar athugasemdir við þær yfirlýsingar sem lagðar hafa verið fram í máli þessu. Yfirlýsingarnar staðfesta það eitt að til hafi verið óstaðfestur og ósannaður orðrómur. Slíka sambærilega yfirlýsingu getur í raun hver sem er gefið sem nú hefur lesið stefnuna. Yfirlýsingarnar séu þannig allsendis ófullnægjandi og hafa enga þýðingu í máli þessu. Þar að auki séu þær um sumt efnislega rangar. Til að mynda sé því haldið fram að D hafi ekið E heim af „[...]balli“ haustið [...]. Getnaðartími stefnanda er síðari hluti [...]. Hin svokölluðu „[...]böll“ voru árshátíð [...] sem haldnar hafa verið um áratuga skeið og eru enn haldnar í Reykjavík. Slík [...]böll voru hins vegar ekki haldin á haustin heldur í janúar til febrúar ár hvert. Stefndu mótmæla öllum yfirlýsingunum sem röngum og ósönnuðum. Þá skal tekið fram að einn yfirlýsingagjafinn kom sérstaklega að máli við stefnda, B, [...]og kvaðst harma [...]. Slík fullyrðing telst í besta falli einkennileg nú í ljósi yfirlýsingar sömu konu.

                Þá beri að skoða gildi yfirlýsinganna í því ljósi að enginn þessara aðila, sem sumir hverjir séu nánir ættingjar stefnanda og systkin móður hennar, gerði nokkru sinni athugasemd við [...]. Jafnvel ekki þótt téðir yfirlýsingargjafar haldi því fram nú að þeir telji það fullvíst að D sé faðir stefnanda [...]. Um það tala yfirlýsingarnar sínu máli en þar kemur hvergi fram að téðir yfirlýsingargjafar hafi haft áhyggjur af slíku [...] eða rætt það við stefnanda eða móður stefnanda. Um þetta vísa stefndu til 46. gr. eml. um gildi slíkra sönnunargagna enda torskilið að yfirlýsingargjafar hafi setið hjá, athugasemdalaust, haldandi að [...].

                Þá hefur stefnandi ekki fært fram skýringar á því af hverju munar svo miklu á líkindum erfðaefna stefnanda og J annars vegar og stefnanda og K hins vegar.

IV

                Stefnandi málsins, C, fæddist árið [...], í hjónabandi móður hennar, E og F. Hann var skráður faðir hennar samkvæmt faðernisreglunni (pater est reglunni). Nú liggur fyrir, eftir að mannerfðafræðilegar rannsóknir hafa farið fram og dómur kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur, sbr. mál nr. 3675/2012, að stefnandi er ekki dóttir F. Í dag er hún því ófeðruð.

                Samkvæmt 1. gr. a. barnalaga nr. 76/2003 á barn rétt á að þekkja báða foreldra sína. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að barnalögum, eru víða áréttaðir þeir ríku hagsmunir barns af að vera réttilega feðrað og réttur þess til að þekkja báða foreldra sína og uppruna sinn.

                Stefnandi telur að D sé faðir hennar. Ekki sé um neinn annan að ræða. Hann er nú látinn og hefur málinu verið beint að lögerfingjum hans, samanber 2. mgr. 10. gr. barnalaga. Samkvæmt 15. gr. barnalaga getur dómari, samkvæmt kröfu, ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og barninu og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir. Séu þeir sem í hlut eiga skyldir til að hlíta blóðtöku, svo og annarri rannsókn í þágu sérfræðilegra kannana. Þá getur dómari með sama hætti ákveðið með úrskurði að blóðrannsókn og mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram á foreldrum og eftir atvikum systkinum aðilanna, svo og á öðrum börnum þeirra. Enginn ágreiningur er í málinu um að rannsókn, verði hún samþykkt, eigi að beinast að lífsýnum úr stefnanda og D og hefur dómurinn verðið upplýstur um að lífsýni sé til úr D.

                Stefndu hafa alfarið hafnað því að mannerfðafræðileg rannsókn fari fram. Byggist málflutningur þeirra helst á því að ekki sé fullnægt lagaskilyrðum fyrir rannsókninni og slík rannsókn fari gegn friðhelgi einkalífsins, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sem og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og þá aðallega gagnvart [...]. Þá telja stefndu með ólíkindum, að enginn hafi [...].

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á yfirlýsingum sem liggja fyrir í málinu sem og vitnisburði þeirra er yfirlýsingar gáfu fyrir dómi. Þá byggir stefnandi á ljósmynd af henni annars vegar og D hins vegar og telur að svipurinn með þeim sé þannig að það fari ekki á milli mála að þau séu feðgin. Hvorki í fyrirliggjandi yfirlýsingum né í vitnaleiðslum fyrir dómi hefur komið fram að móðir stefnanda, E, hafi tilgreint D sem föður stefnanda, hvorki opinberlega né í samtölum við fjölskyldu og vini. Ekki hafi hún heldur gert það er stefnandi [...], B, [...]. Þó virðist sem nánasta fjölskylda stefnanda, samanber það sem fram kom í vitnisburði L (bróður E), M (eiginkonu L), N (mágkonu E), O (systur E) og P (bestu vinkonu E), hafi talið að stefnandi væri dóttir D og þá einungis með vísan til þess hve lík hún væri honum. Því hefur ekki verið mótmælt að mikill samgangur var á milli E og D annars vegar og D og Q, eiginkonu hans, hins vegar. Um nána vináttu var að ræða. Um það hafa vitni málsins borið. Þegar vitnin sáu hve lík stefnandi, í æsku sinni, var D hafi hins vegar enginn talað um það, því slíkt væri einkamál sem ekki ætti að skipta sér af. Sama hafi átt sér stað er [...].

                Í dómum Hæstaréttar Íslands hefur verið lagt til grundvallar, svo skilyrðum 2. mgr. 10. gr. barnalaganna sé fullnægt, að sýnt hafi verið fram á að faðirinn hafi haft samfarir við móðurina á getnaðartíma barnsins eða að móðirin hafi gefið yfirlýsingu í heyranda hljóði um að tiltekinn maður sé faðirinn. Ekki er að sjá að þessi skilyrði komi fram í 2. mgr. 10. gr. barnalaga né athugasemdum með því ákvæði. Í nefndum athugasemdum segir meðal annars í umfjöllun um 10. gr. þeirra: „Barnið er sett í öndvegi og talið upp fyrst í því skyni að leggja áherslu á að það eru hagsmunir þess fyrst og fremst sem marka form og efni aðildarreglnanna, eins og annarra reglna barnalaga.“ Þá er þar einnig vísað til þess að barn eigi ríka hagsmuni af því að vera feðrað. Í 10. gr. barnalaga eru hvorki barni né móður settar skorður við því hvenær höfða megi mál til sönnunar á faðerni eða sett skilyrði þess efnis að það verði að leiða að því einhverjar líkur við málshöfðun að ætlaður faðir hafi átt samfarir við móðurina á getnaðartíma barns. Nægir í því efni að barnið telji að svo sé. Samkvæmt 12. gr. barnalaga skulu faðernismál sæta almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki er mælt fyrir á annan veg í lögunum. Í slíkum málum getur barn lagt fram sönnunargögn máli sínu til stuðnings og krafist þess að dómari ákveði með úrskurði að blóðrannsókn verði gerð á aðilum máls og enn fremur aðrar sérfræðilegar kannanir, þar á meðal mannerfðafræðilegar rannsóknir, sbr. 15. gr. barnalaga. Slík sönnunargögn metur dómari áður en ákvörðun um rannsókn samkvæmt 15. gr. er tekin.

                Í máli þessu leikast á þau sjónarmið hvort hagsmunir stefnanda, af því að vita um uppruna sinn, séu ríkari en hagsmunir stefndu, [...], af því að vernda einkalíf sitt [...]. Ekki fer á milli mála að [...] njóti vernda 71. gr. stjórnaskárinnar nr. 33/1944 sem og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. [...]. Þegar málið er virt í heild sinni, og þá sérstaklega í ljósi þess ríka réttar sem stefnandi á til að fá að vita um uppruna sinn, þess hve ótrúlega lík stefnandi er ljósmynd af D, hinnar nánu vináttu sem var með D og E og mökum þeirra, svo og í ljósi vitnisburðar fyrir dómi og einnig þess að ekki komi aðrir til greina en D sem faðir stefnanda, að hennar sögn, telur dómurinn að hagsmunir stefnanda, sem er ófeðruð, af því að fá að vita um faðerni sitt, séu ríkari heldur en hagsmunir stefndu. Því er fallist á að mannerfðafræðileg rannsókn skuli fara fram svo sem greinir í úrskurðarorði.

                Er því krafa stefnanda tekin til greina. Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Stefndu, A, B, G, H, og I, skulu sæta því að framkvæmd verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýni frá föður A og B og afa G, H og I, D, fæddum [...], dáinn [...], í því skyni að fá úr því skorið hvort faðir þeirra og afi sé faðir stefnanda, C. Í sama skyni ber stefnanda einnig að gangast undir mannerfðafræðilega rannsókn í þágu málsins.

Málskostnaður ákvarðast ekki í þessum þætti málsins.