Print

Mál nr. 695/2014

Lykilorð
  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Ávana- og fíkniefni
  • Brottrekstur úr starfi

                                     

Fimmtudaginn 21. maí 2015.

Nr. 695/2014.

Halldór Jón Andersen

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Vinnslustöðinni hf.

(Einar Þór Sverrisson hrl.)

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Ávana- og fíkniefni. Brottrekstur úr starfi.

Í febrúar 2013 var H, sem gegndi stöðu 1. stýrimanns á tilgreindu skipi V hf., látinn undirgangast vímuefnapróf eftir komu skipsins til landsins. Í þvagsýninu greindist tetrahýdrókannabínólsýra og var sú niðurstaða staðfest af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. H var umsvifalaust sagt upp starfi sínu og höfðaði hann í kjölfarið mál gegn V hf. til heimtu skaðabóta. Talið var að H hefði mátt vera fyllilega ljóst hverju það varðaði ef reglur V hf. um vímuefnalausan vinnustað yrðu brotnar, en hann hafði gengist undir þessar reglur ári áður með undirritun sinni. Þá hefði hann veitt samþykki sitt til töku sýnisins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Var því ekki fallist á með H að framangreint lyfjapróf hefði falið í sér brot á friðhelgi einkalífs hans. Þar sem að ólögmætt ávana- og fíkniefni hafði mælst í þvagi H og með hliðsjón af ákvæðum 2. og 3. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 hefði hann verið óhæfur til að stjórna skipinu umrætt sinn. Var V hf. því sýknað af kröfum H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2014. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 10.584.462 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér skaðabætur að álitum, en að því frágengnu að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð verulega.

Eins og greinir í héraðsdómi gegndi áfrýjandi stöðu 1. stýrimanns á tilgreindu skipi stefnda þegar vímuefnapróf það, sem um ræðir í málinu, fór fram 2. febrúar 2013 eftir komu skipsins til Vestmannaeyja. Samkvæmt mælingu á þvagsýni, sem áfrýjandi lét í té, reyndist það innihalda tetrahýdrókannabínólsýru. Sýnið var sent Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 5. febrúar 2013 og samkvæmt niðurstöðu hennar 12. sama mánaðar mældist heildarmagn kannabínóíða í því yfir 135 ng/ml auk þess sem staðfest var fyrrgreind niðurstaða um að tetrahýdrókannabínólsýra hafi greinst í sýninu. Samkvæmt fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001, eins og því var breytt með reglugerð nr. 848/2002, teljast meðal ávana- og fíkniefna „tetrahydrocannabinol og öll isomer þess og afleiður“, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, er varsla og meðferð þessara efna óheimil á íslensku forráðasvæði. Þá veitti áfrýjandi samþykki sitt til töku sýnisins, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Mælt er fyrir um það í 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 101/2006, að enginn megi stjórna eða reyna að stjórna skipi ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Þá segir í 3. mgr. sömu lagagreinar að mælist ávana- og fíkniefni, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í blóði eða þvagi skipverja teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 101/2006, kemur fram að ákvæðum um refsingar og réttindasviptingu samkvæmt siglingalögum hafi verið breytt, meðal annars með hliðsjón af ákvæðum umferðar- og loftferðalaga. Með því að ólögmætt ávana- og fíkniefni mældist í þvagi áfrýjanda samkvæmt framansögðu var hann óhæfur til að stjórna skipinu, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 254/2008. Að framansögðu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjanda gert að greiða stefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Halldór Jón Andersen, greiði stefnda, Vinnslustöðinni hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. september 2014.

            Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. september sl., er höfðað með stefnu birtri 2. október sl.

            Stefnandi er Halldór Jón Andersen, kt. [...], Hrauntúni 25, Vestmannaeyjum.

            Stefndi er Vinnslustöðin hf., kt. [...], Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum.

            Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda skaðabætur að fjárhæð krónur 10.584.462 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. febrúar 2013 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur að álitum. Til þrautavara er þess krafist að skaðabótaábyrgð stefnda verði viðurkennd. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

            Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda en til vara að verði lækkaðar verulega. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

            Málið var upphaflega dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 5. maí sl. en það var endurupptekið og endurflutt þann 16. september sl.

Málavextir.

            Stefndi er útgerðarfyrirtæki og gerir m.a. út togbátinn Drangavík, en stefnandi var 1. stýrimaður á bátnum þar til honum var fyrirvaralaust sagt um störfum þann 4. febrúar 2013. Ári áður gaf stefndi út starfsmannahandbók þar sem starfsmannastefna félagsins var kynnt. Þar eru tíundaðar þær kröfur sem gerðar eru í öryggismálum til starfsmanna, bæði til sjós og lands. Samkvæmt handbókinni er stefndi vímuefnalaus vinnustaður og varða brot á reglunum brottrekstri án aðvörunar. Stefndi segir reglur þessar hafa verið kynntar starfsfólki á árinu 2012 og hafi starfsmenn undirritað yfirlýsingu í framhaldinu um að þeir hefðu fengið kynningu á þeim og úrræðum og afleiðingum þess ef reglurnar væru brotnar. Stefndi segir framkvæmd vímuefnaprófsins hafa verið í höndum þjónustuaðila sem hafi fengið útgefið starfsleyfi frá Landlæknisembættinu. Þeir séu bundnir þagnarskyldu skv. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Þann 2. febrúar 2013 var gert vímuefnapróf á stefnanda og samkvæmt niðurstöðu prófsins greindist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi hans. Með undirritun sinni gekkst stefnandi við niðurstöðu prófsins. Þann 4. febrúar sama ár var stefnandi boðaður á fund með skipstjóra Drangavíkur og sviðsstjórum stefnda þar sem honum var afhent uppsagnarbréf og honum skýrt frá ástæðum uppsagnarinnar, sem hafi verið niðurstaða prófsins. Stefnandi undirritaði uppsagnarbréfið til staðfestingar móttöku þess og daginn eftir óskaði stefnandi eftir afriti af ráðningarsamningi sínum, niðurstöðum úr fíkniefnaprófinu og afriti af uppsagnarbréfinu. Stefnanda voru afhent framangreind gögn að öðru leyti en því að ráðningarsamningur hans fannst ekki. Sýnið sem tekið var úr stefnanda var sent til frekari rannsóknar til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og samkvæmt henni reyndist heildarmagn kannabínóíða í þvagi vera meira en 135 ng/ml og var staðfest að tetrahýdrókannabínólsýra hefði mælst í þvagi. Stefnandi fór fram á það þann 5. febrúar sama ár að honum yrði tekið blóðsýni til rannsóknar en stefndi segir að stefnanda hafi ekki verið neitað um það heldur hefði honum verið gerð grein fyrir því að niðurstaða hennar myndi engu breyta um niðurstöðu þvagsýnisins. Hefði beiðni um blóðrannsókn þurft að koma innan 48 klukkustunda frá því þvagsýni var tekið. Stefnandi hafnar því alfarið að hafa með nokkrum hætti brotið starfsskyldur sínar hjá stefnda. Hafi stefnandi að eigin mati og annarra verið fyrirmyndar starfsmaður og góður stýrimaður og geti fjöldi manns vitnað um það.

            Lagt hefur verið fram í málinu skjal dagsett þann 22. mars 2012 og undirritað af stefnanda þar sem fram kemur að stefndi sé vímuefnalaus vinnustaður og reykingar séu takmarkaðar. Áskilji stefndi sér allan rétt til að kanna með hverjum þeim hætti sem hann telji viðeigandi hvort reglum um reykingar og vímuefnalausan vinnustað sé framfylgt, t.d. með læknisskoðun eða öðrum rannsóknum, svo sem þvag- eða blóðsýnatökum. Þá segir í skjalinu að brot á reglum um vímuefnalausan vinnustað eða neitun að taka þátt í vímuefnaprófi varði brottrekstri án aðvörunar. Jafnframt segir að starfsmaður staðfesti með undirritun sinni að hafa fengið kynningu á stefnu stefnda um notkun vímuefna á vinnustað og fyrirvaralausar vímuefnaprófanir. Þá liggur fyrir að stefnandi veitti með undirritun sinni þann 2. febrúar 2013 samþykki sitt fyrir því að framkvæmt yrði áfengis- og vímuefnapróf í samræmi við reglur stefnda um forvarnir og viðbrögð vegna gruns um áfengis- eða vímuefnanotkun starfsmanna. Þá liggur fyrir undirritun stefnanda þar sem hann gengst við niðurstöðum áfengis- og vímuefnaprófs. Á skjalinu er gert ráð fyrir að starfsmaður geti neitað að staðfesta niðurstöður og jafnframt að hann geti neitað að staðfesta niðurstöður og óskað eftir því að þær verði staðfestar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Ekki er að sjá af skjalinu að stefnandi hafi nýtt sér þessi úrræði með undirritun sinni.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Stefnandi byggir á því að hann hafi aldrei neytt vímuefna á vinnustað eða í störfum sínum fyrir stefnda. Ekkert liggi fyrir um það hvernig staðið hafi verið að lyfjaprófi stefnanda, hverjir hafi framkvæmt prófið, hvernig staðið hafi verið að sýnatöku, mælingum eða vörslum sýnanna. Stefnandi neitar því að hafa verið undir áhrifum vímuefna þegar sýnið hafi verið tekið eða að hafa neytt vímuefna í umræddri veiðiferð Drangavíkur. Standist því ekki niðurstaða lyfjaprófsins sem einungis hafi farið fram á þvagi. Þá byggir stefnandi á því að lyfjaprófið sem framkvæmt hafi verið af stefnda hafi falið í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda og hafi yfirlýsingin frá því í mars 2012 ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda. Stefnandi vísar til álits Persónuverndar um vímuefnapróf nr. 315/2013 og gerir þær röksemdir sem þar komi fram að sínum. Stefnandi bendir á dóm Hæstaréttar í máli nr. 683/2008 þar sem staðfest hafi verið að óbeinar hassreykingar gætu leitt til þess að kannabisefni fyndust í þvagi. Stefnandi hafi ítrekað óskað eftir því að blóðrannsókn yrði framkvæmd svo  hægt væri að taka af allan vafa um ætlaða kannabisneyslu stefnanda en stefndi hafi ítrekað hafnað því. Verði stefndi að bera hallann af því.

            Stefnandi segir óumdeilt að hann hafi ekki fengið greidd laun frá stefnda í uppsagnarfresti, sem hafi verið sex mánuðir og hafi samkvæmt almennum reglum vinnuréttar tekið gildi næstu mánaðamót eftir uppsögnina, eða 1. mars 2013. Eigi stefnandi því inni laun hjá stefnda fyrir sjö mánuði eða fyrir tímabilið 1. febrúar til 31. ágúst 2013. Stefnandi byggir á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og þá um leið saknæm og því eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda sem nemi fjárhæð vangoldinna vinnulauna stefnanda í uppsagnarfresti. Miðist skaðabótakrafa stefnanda vegna fjárhagslegs tjóns því við framangreint tímabil. Meðalmánaðarlaun stefnanda á 10 mánuðum ársins 2012 og 1 mánuð árið 2013 hafi verið 1.512.066 krónur. Skaðabótakrafa stefnanda miðist við að hann hafi átt rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti í sex mánuði frá næstu mánaðamótum eftir að stefnanda hafi verið sagt upp störfum. Þá eigi stefnandi rétt á skaðabótum vegna launamissis í febrúar 2013 þar sem honum hafi ekki verið sagt upp störfum fyrr en sá mánuður hafi verið hafinn.

            Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda gerir hann þá varakröfu að skaðabætur verði ákvarðaðar að álitum og verði þá höfð hliðsjón af framangreindum forsendum og launaseðlum stefnanda. Þrautavarakrafa er á því byggð að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd, enda verði að telja sannað að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda.

            Dráttarvaxtakrafa er á því byggð að allar kröfur stefnanda á hendur stefnda hafi gjaldfallið við starfslok stefnanda, en þá hafi stefnda borið að gera tafarlaust upp við stefnanda.

            Stefnandi byggir á lögum nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og lögum nr. 30/1987 um orlof. Þá vísar hann til meginreglna kröfuréttar, vinnuréttar og kjarasamninga. Krafa um dráttarvexti er byggð á reglum III. og V. kafla laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

             Stefndi byggir á því að vímuefnaprófið, framkvæmd þess og úrvinnsla hafi verið í samræmi við lög. Hafi niðurstaða þess leitt í ljós að stefnandi hafi haft í líkama sínum leifar af ólögmætu fíkniefni sem leitt hafi til þess að stefnda hafi verið heimilt að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án greiðslu á uppsagnarfresti. Hafi það rúmast innan stjórnunarréttar stefnda sem vinnuveitanda, sbr. 33. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og verið í samræmi við skyldur stefnda að tryggja öryggi á vinnustað. Í 24. gr. laganna segi að skipstjóri geti vikið skipverja úr skiprúmi ef hann er ítrekað drukkinn um borð, nema brot sé því alvarlegra eða hann er undir áhrifum fíkniefna um borð. Samkvæmt 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 megi enginn stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- eða fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Varði brot gegn þessu ákvæði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segi að mælist ávana- og fíkniefni, sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim, í blóði eða þvagi skipverja eða þess annars sem nánar greinir í 2. mgr., telst hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og ekki hæfur til þess starfa sem getur í 2. mgr. Stefnandi hafi því samkvæmt íslenskum lögum verið algjörlega ófær um að gegna stöðu sem 1. stýrimaður Drangavíkur þegar skipið kom til hafnar í Vestmannaeyjum þann 2. febrúar 2013. Hæstiréttur hafi í málum varðandi ölvunarakstur komist að þeirri niðurstöðu að sambærileg regla í umferðarlögum nr. 45/1987 feli ekki í sér sakarlíkindareglu sem sé í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi bendir á að í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 638/2008 segi að það sé mjög fjarlægur möguleiki að tetrahýdrókannabínólsýra geti fundist í þvagi vegna óbeinna reykinga. Þar hafi verið um sakamál að ræða og telur stefndi af þessum sökum að dómurinn hafi ekki fordæmisgildi og þaðan af síður leiðbeiningargildi í máli þessu.

            Stefndi byggir á því að vímuefnaprófanir á starfsmönnum stefnda fái samrýmst ákvæðum persónuverndarlaga nr. 77/2000, einkum 8. og 9. gr. laganna líkt og Persónuvernd hafi fallist á. Vímuefnapróf á þvagi ákærða  hafi gefið jákvæða svörun við marihuana sem sé ólöglegt fíkniefni hér á landi og hafi sú niðurstaða verið staðfest af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Framkvæmd mælingar og vörslur prófsins hafi verið í höndum prófunaraðila sem hafi fengið vottun frá Landlæknisembættinu og sé bundinn trúnaði samkvæmt lögum. Sé því í ljós leitt að stefnandi hafi brotið gegn reglum stefnda og starfsskyldum sínum og á þeim grundvelli hafi stefnda verið heimilt að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án greiðslu á uppsagnarfresti.

            Stefndi telur að horfa verði til eðlis þess starfs sem um ræði við mat á heimildum til að framkvæma vímuefnapróf á starfsmönnum. Stefnandi hafi verið 1. stýrimaður um borð í Drangavík og þar með yfirmaður á skipinu, sbr. 2. mgr. 5. gr. sjómannalaga. Stýrimenn gegni veigamiklu hlutverki um borð í skipum og séu næstráðendur um borð á eftir skipstjóra, sbr. 50. – 52. gr. laganna. Stefndi hafnar því að lyfjaprófið feli í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda. Þá hafnar stefndi því að yfirlýsing stefnanda tæpu ári áður en prófið var tekið þar sem stefnandi samþykkir slíka könnun hafi ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda gagnvart stefnanda. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 sé vinnsla persónupplýsinga heimil hafi hinn skráði ótvírætt samþykkt vinnsluna eða veitt samþykki skv. 7. tl. 2. gr. Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga sé heimil hafi hinn skráði samþykkt vinnsluna, sbr. 1. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna. Með viðkvæmum persónuupplýsingum í skilningi laganna sé m.a. átt við upplýsingar um heilsuhagi, þar á meðal um erfðaeiginleika, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, sbr. c-lið 8. tl. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þá bendir stefndi á að stefnandi hafi veitt afdráttarlaust samþykki sitt fyrir vímuefnaprófunum með undirritun sinni 22. mars 2012 og aftur tæpu ári síðar þegar prófið var framkvæmt.

            Stefndi byggir á því að ekki verði byggt á röksemdum í áliti Persónuverndar um vímuefnapróf nr. 315/2013, enda þar um almennt álit að ræða og leiðbeiningargildi þess því takmarkað og þá eigi það alls ekki við um starfsemi stefnanda þar sem sérlög gildi um hana. Stefndi bendir á að Persónuvernd hafi í áliti sínu viðurkennt að réttlætanlegt geti verið að láta starfsmenn undirgangast lyfjapróf á vinnustöðum þar sem lyfjaneysla geti beinlínis verið hættuleg öðru starfsfólki. Um starfsemi stefnda gildi ákvæði siglingalaga og þegar svo sé ástatt með stefnanda eins og í þessu tilviki hafi honum verið óheimilt að sinna því starfi sem hann hafi verið ráðinn til auk þess sem brotið geti varðað hann refsingu og eftir atvikum sviptingu starfsréttinda.

            Stefndi vísar til stefnu félagsins í vímuefnamálum og heimild til fyrirvaralausra vímuefnaprófana sem fram komi í starfsmannahandbók og stefnandi hafi samþykkt með undirritun sinni. Sé því ljóst að stefnandi hafi sem launþegi gengist undir ríkar skyldur um að virða reglur stefnda um vímuefni. Með tilliti til starfsemi stefnda og þeirra laga sem um hana gilda verði ekki með nokkru móti fallist á að þessar reglur hafi gengið lengra en eðlilegt hafi verið eða að þær hafi á einhvern hátt verið ómálefnalegar.

            Stefndi bendir á að stefnandi hafi unað niðurstöðu vímefnaprófsins með undirritun sinni. Hefði hann haft efasemdir um gildi prófsins eða niðurstöður þess hefði honum verið í lófa lagið að merkja við reit á blaðinu þar sem fram kemur að starfsmaður neiti að staðfesta niðurstöðurnar. Stefnandi hafi hins vegar kosið að halda sig við niðurstöður prófsins burtséð frá því hvaða afleiðingar það kynni að hafa fyrir framtíð hans hjá stefnda.

            Stefndi bendir á að ríkar kröfur séu gerðar til þess að sjómenn geti brugðist rétt við á neyðarstundu og það sé forsenda þess að skipverji sé lögskráður á íslenskt skip að hann hafi hlotið viðeigandi öryggisfræðslu, sbr. 5. gr. laga nr. 35/2010. Horfa verði til eðlis starfsins og þeirra öryggiskrafna sem gerðar séu til starfsmanna við mat á því hvort vinnuveitandi geti krafist þess að starfsmenn undirgangist reglur fyrirtækis varðandi vímuefnanotkun. Þá bendir stefndi á að almennt sé að finna í áhafnartryggingum sjómanna og skipatryggingum ákvæði þess efnis að tjón fáist ekki bætt sem valdið sé af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi og við mat á því sé horft til þess hvort vátryggður/starfsmenn vátryggðs hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna þegar vátryggingaratburður varð. Það varði því stefnda og almannaheill miklu að ekki sé brotið gegn reglunum.

            Stefndi byggir á almennum reglum vinnumarkaðsréttar, lögum um persónuvernd og ákvæðum sjómanna- og siglingalaga. Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.     

Niðurstaða.

            Stefnandi gerir þær kröfur í máli þessu að stefnda verði gert að greiða honum skaðabætur vegna fyrirvaralausrar uppsagnar stefnanda úr starfi sem 1. stýrimaður á togbátnum Drangavík í kjölfar vímuefnaprófs sem gert var á stefnanda eftir veiðiferð þann 2. febrúar 2013. Óumdeilt er að stefnandi fékk engin laun greidd í uppsagnarfesti en uppsögnin tók gildi þann 4. febrúar sama ár eftir fund stefnanda með skipstjóra Drangavíkur og sviðsstjórum stefnda.

            Samkvæmt starfsmannastefnu stefnda og handbók sem kynnt var starfsfólki árið 2012, þar á meðal stefnanda, er stefndi vímuefnalaus vinnustaður og segir í reglunum að brot á þeim varði brottrekstri án aðvörunar.  Samkvæmt gögnum málsins gekkst stefnandi undir þessar reglur með undirritun sinni og mátti honum því vera fyllilega ljóst hverju það varðaði ef reglur þessar yrðu brotnar.  Ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að lyfjaprófið hafi falið í sér brot á friðhelgi einkalífs stefnanda og hafi yfirlýsingin frá því í mars 2012 ekkert gildi vegna yfirburðastöðu stefnda. Með sömu rökum ber að hafna því að stefndi hafi brotið gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, enda lá fyrir ótvírætt samþykki stefnanda til vinnslu upplýsinga með þeim hætti sem raun bar vitni.  Þann 2. febrúar 2013 var gert vímuefnapróf á stefnanda og samkvæmt niðurstöðu prófsins greindist tetrahýdrókannabínólsýra í þvagi hans. Með undirritun sinni gekkst stefnandi við niðurstöðu prófsins og nýtti sér við það tækifæri ekki þá möguleika annars vegar að neita að staðfesta niðurstöður eða að neita að staðfesta niðurstöður og óska eftir að þær yrðu staðfestar af Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Eftir athugasemdir stefnanda síðar var sýnið þó sent til rannsóknastofunnar og staðfesti hún framangreinda niðurstöðu.

            Samkvæmt 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 getur skipstjóri vikið skipverja úr skiprúmi ef hann reynist óhæfur til þess starfa sem hann var ráðinn til, m.a. ef hann er undir áhrifum fíkniefna um borð.  Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar á skipverji sem vikið er úr skiprúmi samkvæmt þessari grein ekki rétt á kaupi lengur en hann gegndi starfi sínu.  Samkvæmt 2. mgr. 238. gr. siglingalaga nr. 34/1985 má enginn  stjórna eða reyna að stjórna skipi, stjórna skipaferðum eða veita öryggisþjónustu vegna skipaferða, ef hann vegna neyslu áfengis, ávana- og fíkniefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna, vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, er óhæfur til að rækja starfann á fullnægjandi hátt. Stefnandi gegndi stöðu 1. stýrimanns um borð og var því yfirmaður á skipinu skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 35/1985 og jafnframt var hann næstráðandi um borð á eftir skipstjóra með vísan til 50.-52. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessu eðli starfsins og öryggissjónarmiðum verður samkvæmt framansögðu að játa stefnda heimild til þess að geta með fullnægjandi hætti gengið úr skugga um hvort starfsmenn í stöðu stefnanda séu undir áhrifum áfengis eða fíkniefna við störf sín.

            Stefnandi gerði hvorki athugasemdir við framkvæmd sýnatökunnar né fyrstu niðurstöðu hennar. Hafi hann talið sig saklausan af neyslu fíkniefna var honum í lófa lagið að neita að staðfesta niðurstöðuna eins og hann átti kost á. Það gerði hann hins vegar ekki og verður hann að bera hallann af því. Stefnandi hefur vísað til fordæmis Hæstaréttar þar sem staðfest hafi verið að óbeinar hassreykingar gætu leitt til þess að kannabisefni fyndust í þvagi. Stefnandi hefur á hinn bóginn á engan hátt reynt að leiða í ljós að hann hafi lent í slíkum aðstæðum og verður ekki á því byggt í máli þessu. Þá er ekkert fram komið sem bendir til þess að mistök hafi orðið við töku eða varðveislu þvagsýnisins og engar athugasemdir komu fram af hálfu stefnanda þegar sýnið var tekið. Er því nægilega í ljós leitt með vísan til þeirra lagaákvæða er að framan greinir að stefnandi hafi verið óhæfur til þess að gegna þeim starfa sem hann var ráðinn til og var stefnda því heimilt samkvæmt þeim reglum sem hann setti og stefnandi gekkst undir af fúsum og frjálsum vilja að segja honum fyrirvaralaust upp störfum án launa í uppsagnarfresti. Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

            Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnanda til að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

            Hjörtur O. Aðalsteinsson  dómstjóri kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

            Stefndi, Vinnslustöðin hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Halldórs Jóns Andersen, í máli þessu.

            Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.