Print

Mál nr. 161/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Fjármálaeftirlit
  • Skattur
  • Gjaldtaka
  • Stjórnarskrá

                                     

Fimmtudaginn 13. mars 2014.

Nr. 161/2014.

SPB hf.

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

Fjármálaeftirlitinu

(Grímur Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Fjármálaeftirlit. Skattur. Gjaldtaka. Stjórnarskrá.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu F við slit S hf. var skipað í réttindaröð samkvæmt 2. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfunni hafði F lýst á grundvelli eftirlitsgjalds fyrir árið 2012, sem F lagði á S hf. samkvæmt heimild í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, en um var að ræða fastagjald óháð álagningarstofnum samkvæmt 1. mgr. sömu greinar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 væru greind öll þau meginatriði sem þyrfti til þess að lagaákvæðið væri fullgild heimild til skattlagningar samkvæmt 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og var hvorki F né öðrum stjórnvöldum falin ákvörðun um skattheimtuna. Bæri því enga lagalega nauðsyn til þess að samræmi væri milli gjaldsins og kostnaðar við eftirlit F með S hf., eins og þörf hefði verið á ef um þjónustugjald hefði verið að ræða, sbr. einnig dóm réttarins 3. nóvember 2011 í máli nr. 705/2010. Þá var vísað til þess að ekki lægi annað fyrir en að gætt hefði verið jafnræðis við álagningu gjaldsins.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2014, þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 34.995.368 krónur og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 2. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að viðurkenna kröfu varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu deila aðilar um hvort viðurkennd verði við slit sóknaraðila, sem fara eftir ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, krafa um eftirlitsgjald fyrir árið 2012, sem varnaraðili lagði á sóknaraðila samkvæmt bréfi 10. janúar 2012. Það var gert á grundvelli þágildandi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. 1. gr. laga nr. 182/2011. Eftirlitsgjaldið nam 35.000.000 krónum og ítrekaði varnaraðili með bréfi 10. október 2012 kröfu um greiðslu þess ásamt dráttarvöxtum en að frádreginni innborgun að fjárhæð 4.632 krónur, sem hann taldi hafa verið innta af hendi. Slitastjórn sóknaraðila hafnaði þessari kröfu 22. janúar 2013 og var sú afstaða áréttuð á kröfuhafafundi 20. febrúar sama ár, en ágreiningi um viðurkenningu kröfunnar var beint til héraðsdóms 15. apríl 2013 og mál þetta þingfest af því tilefni 29. maí sama ár.

Samkvæmt 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, eins og hún hljóðaði áður en henni var breytt með 1. gr. laga nr. 132/2012, bar fjármálafyrirtækjum, sem stýrt var af slitastjórn eftir lögum nr. 161/2002, að greiða til varnaraðila eftirlitsgjald, sem nefnt var fastagjald, óháð álagningarstofnum samkvæmt 1. mgr. 5. gr. fyrstnefndu laganna og án tillits til þess hvort hlutaðeigandi fyrirtæki hefði starfsleyfi eða takmarkað starfsleyfi eða slíkt leyfi hefði verið afturkallað. Gjaldið skyldi miðast við starfsleyfið, sem fyrirtækið hafði áður en það fór undir yfirráð slitastjórnar, en hafi það notið starfsleyfis sem viðskiptabanki, sem óumdeilt er að hafi átt við um sóknaraðila, var fjárhæð gjaldsins ákveðin 35.000.000 krónur á ári. Í lagaákvæðinu, sem hér um ræðir, var tilgreint hverjir væru gjaldskyldir samkvæmt því, við hvað gjaldið skyldi miðast og hver fjárhæð þess væri. Í lögum voru því greind öll þau meginatriði, sem þurfti til þess að ákvæðið væri fullgild heimild til skattlagningar samkvæmt 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar og var hvorki varnaraðila né öðrum stjórnvöldum falin ákvörðun um skattheimtuna. Bar því enga lagalega nauðsyn til þess að samræmi væri milli gjaldsins og kostnaðar við eftirlit varnaraðila með sóknaraðila, eins og þörf hefði verið á ef um þjónustugjald hefði verið að ræða, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 3. nóvember 2011 í máli nr. 705/2010. Ekki liggur annað fyrir en að gjaldið hafi verið lagt jafnt á öll fjármálafyrirtæki, sem á þessum tíma lutu forræði slitastjórnar og höfðu áður haft starfsleyfi sem viðskiptabankar, og var þannig gætt jafnræðis, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, SPB hf., greiði varnaraðila, Fjármálaeftirlitinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. febrúar 2014.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 19. apríl 2013. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr. sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 29. maí 2013 og tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð mánudaginn 15. janúar sl.

                Sóknaraðili er Fjármálaeftirlitið, Höfðatúni 2, Reykjavík, en varnaraðili er SPB hf., (áður Sparisjóðabanki Íslands hf.), Borgartúni 25, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að krafa sem hann lýsti í slitabú varnaraðila vegna eftirlitsgjalds ársins 2012, dags. 10. október 2012, að fjárhæð 34.995.368 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags, verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila og njóti þar rétthæðar eftir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði hafnað en til vara að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Í greinargerð sinni krafðist sóknaraðili viðurkenningar á kröfu að höfuðstól 38.008.874 krónur auk dráttarvaxta frá 10. október 2012. Sú fjárhæð innifelur, auk eiginlegs höfuðstóls, dráttarvexti frá 1. febrúar 2012 til 10. október sama ár. Lækkaði sóknaraðili kröfu sína við munnlegan málflutning í tilefni athugasemda varnaraðila um að sóknaraðili gerði með þessu kröfu um dráttarvexti af dráttavöxtum í andstöðu við heimildir laga nr. 38/2001.

I

                Varnaraðili máls þessa er fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Liggur fyrir í málinu að Fjármálaeftirlitið ákvað 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 og átti hún að standa til 15. júní sama ár. Áður en sá tími var á enda runninn var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.

                Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 2011 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar og 7. apríl 2011 afturkallaði sóknaraðili starfsleyfi varnaraðila sem viðskiptabanka með vísan til 6. tl. 9. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í kjölfarið var nafni varnaraðila breytt í SPB hf. Í greinargerð varnaraðila kemur og fram að í desember 2011 hafi rekstur hans verið lagður niður í þáverandi mynd og allri þjónustu úthýst til Straums hf. Jafnframt hafi öllum starfsmönnum verið sagt upp störfum.

                Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 ráðstafar slitastjórn hagsmunum fjármálafyrirtækis sem er til slitameðferðar eftir sömu reglum og gilda um bústjórn skiptastjóra samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig gilda þau lög að meginstefnu um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki eftir þeim lögum, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

                Ágreiningur í máli þessu á rót að rekja til þess að sóknaraðili krefur varnaraðila um greiðslu eftirlitsgjalds sem lagt var á varnaraðila vegna ársins 2012 á grundvelli fyrirmæla í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, sbr. lög nr. 182/2011 um breytingu á þeim lögum. Í 1. mgr. 1. gr. laganna er mælt fyrir um að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar samkvæmt 5. gr. laganna skuli standa straum af kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlitsins í samræmi við ákvæði laganna. Þá segir í 2. mgr. sama lagaákvæðis að eftirlitsgjald samkvæmt lögunum renni beint til reksturs Fjármálaeftirlitsins og sé innheimt af því. Í fyrrnefndu ákvæði 9. mgr. 5. gr. laganna segir að fjármálafyrirtæki sem stýrt sé af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn, samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, óháð því hvort viðkomandi fyrirtæki hafi starfsleyfi, takmarkað starfsleyfi eða starfsleyfi þess hafi verið afturkallað, greiði fastagjald. Þá greinir ennfremur að gjaldið miðist við það starfsleyfi sem fyrirtækið hafi haft áður en það hafi farið undir yfirráð skilanefndar, slitastjórnar eða bráðbirgðastjórnar og greiðist þannig að viðskiptabankar greiði 35.000.000 krónur, aðrar lánastofnanir 18.500.000 krónur og önnur fjármálafyrirtæki 8.500.000 krónur. Gjald samkvæmt umræddri 9. mgr. 5. gr. greiðist þangað til slitum sé lokið. Tekið er fram að fyrirtæki greiði eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi töluliðum 1. mgr. þar til það fari undir yfirráð skilanefndar, slitastjórnar eða bráðbirgðastjórnar en hlutfallslega skv. 2. málsl. 9. mgr. frá því tímamarki. Fjárhæð umræddrar gjaldtökuheimildar hefur tekið breytingu árlega undanfarin ár og hefur lögum nr. 99/1991 verið breytt í lok hvers árs í þessum tilgangi. Fyrir liggur að gjald var lagt á varnaraðila á grundvelli efnislega sambærilegrar reglu, fyrst vegna ársins 2010 að fjárhæð 21.000.000 krónur, sbr. lög nr. 139/2009, síðan vegna ársins 2011 að fjárhæð 31.500.000 krónur, sbr. lög nr. 150/2010, þá eins og fyrr er rakið 35.000.000 krónur vegna ársins 2012, sbr. lög nr. 182/2011 og loks 6.000.000 krónur vegna ársins 2013, sbr. lög nr. 132/2012.

                Í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 segir að fyrir 1. júlí ár hvert skuli Fjármálaeftirlitið gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Skuli í skýrslunni jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undanfarin þrjú ár með tilliti til til þess tíma sem ætla megi að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir m.a. að fyrrnefndri skýrslu skuli fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr. Loks kemur fram í 3. mgr. 2. gr. að ef niðurstaða skýrslunnar gefi tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skuli ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 er talið upp í 15 töluliðum hverjir séu eftirlitsskyldir aðilar og kveðið á um að þeir skuli greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem nánar greini í hverjum tölulið fyrir sig. Er tiltekið í 1. tl. að viðskiptabankar skuli greiða nánar tilgreint hlutfall af eignum samtals, en þó ekki lægri fjárhæð en 1.000.000 krónur. Umrædd hlutfallstala var 0,0338% af eignum viðskiptabanka samkvæmt þeim breytingum sem gerðar voru á lögum 99/1991 með lögum nr. 182/2011.

                Sóknaraðili tilkynnti varnaraðila um álagningu eftirlitsgjalds 12. janúar 2012 að fjárhæð 35.000.000 krónur en varnaraðili greiddi ekki. Sóknaraðili lýsti kröfu í slitabú varnaraðila vegna gjaldsins 12. október 2012 en varnaraðili hafnaði kröfunni 22. janúar 2013. Haldinn var fundur til að freista þess að leysa ágreining aðila sem reyndist árangurslaus og málinu í kjölfarið vísað til úrlausnar dómsins með heimild í 171. gr. sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991.

II

                Í greinargerð sinni vísar sóknaraðili til þess að krafa hans taki til eftirlitsgjalds ársins 2012 samkvæmt 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, eins og ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 182/2011. Ekki virðist uppi ágreiningur í málinu um að varnaraðili falli undir nefnt lagaákvæði og að krafa um greiðslu eftirlitsgjalds skuli njóta réttarstöðu búskröfu samkvæmt 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Hafi varnaraðili enda innt af hendi eftirlitsgjald áranna 2010 og 2013 að fullu án athugasemda og ársins 2011 með fyrirvara um réttmæti gjaldsins, en þau gjöld hafi byggst á sömu lagaheimild og hafi notið sömu stöðu í kröfuröð við slitameðferð varnaraðila og gjald ársins 2012.

                Sóknaraðili byggi á því að með fyrirvaralausri greiðslu á eftirlitsgjaldi áranna 2010 og 2013 hafi varnaraðili viðurkennt kröfu sóknaraðila um greiðslu eftirlitsgjalds samkvæmt lögum nr. 99/1999 við slitameðferð varnaraðila.

                Í greinargerð sóknaraðila kemur og fram að eftirlitsgjaldið sé lögákveðið gjald sem lagt sé á fjármálafyrirtæki einu sinni á ári. Gjaldið sé lagt á öll fjármálafyrirtæki, bæði starfandi fjármálafyrirtæki og fjármálafyrirtæki undir slitameðferð. Gjaldið sé lagt á allt þar til slitameðferð ljúki. Við upphaf slitameðferðar hafi varnaraðila því mátt vera ljóst að meðan hann væri undir slitum bæri honum að greiða eftirlitsgjaldið. Hafi varnaraðili þá talið gjaldið brjóta gegn stjórnarskrárvörðum rétti sínum hafi honum borið að hafna greiðslu gjaldsins þá þegar. Þar sem varnaraðili hafi innt gjaldið af hendi án fyrirvara verði að líta svo á að hann hafi samþykkt kröfu vegna eftirlitsgjalds við slitameðferðina. Fyrirvaralaus greiðsla á eftirlitsgjaldi ársins 2013, eftir að varnaraðili hafi formlega hafnað kröfu sóknaraðila um eftirlitsgjald ársins 2012, styðji þessa málsástæðu sóknaraðila enn frekar.

                Ekki verði gerð sú krafa til sóknaraðila – eða annarra kröfuhafa sem eigi kröfur sem falli í gjalddaga með reglubundnum hætti – að þeir lýsi kröfu við slitameðferðina á hverjum gjalddaga. Sóknaraðila og öðrum kröfuhöfum sem eins sé ástatt um dugi að lýsa kröfu í upphafi vegna gjaldfallinnar kröfu. Ef slík krafa sé samþykkt við slitameðferðina verði að líta svo á að ógjaldfallinn hluti sömu kröfu hafi einnig verið samþykktur. Þar sem eftirlitsgjald ársins 2010 hafi verið samþykkt sem búskrafa og greitt hafi verið án fyrirvara verði að líta svo á að það sama gildi um kröfur vegna eftirlitsgjalds annarra ára meðan varnaraðili sé í slitameðferð. Þessa niðurstöðu hafi varnaraðili staðfest með fyrirvaralausri greiðslu á eftirlitsgjaldi ársins 2013.

                Verði ekki talið að varnaraðili hafi nú þegar viðurkennt kröfu sóknaraðila við slitameðferðina telji sóknaraðili ljóst að ágreiningur aðila lúti eingöngu að því hvort í eftirlitsgjaldi skv. lögum nr. 99/1999 felist óréttmæt skattlagning sem brjóti gegn meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, sbr. afstöðu slitastjórnar til kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili telji að við úrlausn þess ágreinings verði að byggja á því almenna sjónarmiði að löggjafanum sé ætlað verulegt svigrúm til að ákveða þau sjónarmið sem ráði skattlagningu. Þannig hafi löggjafinn víðtækar heimildir til að beita fjárstjórnarvaldi sínu í þágu almannahagsmuna og grípa til efnahagsráðstafana sem tryggi tiltekin samfélagsleg markmið.

                Þágildandi 5. mgr. 9. gr. laga nr. 99/1999 uppfylli öll skilyrði til að teljast gild skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Í ákvæðinu sé mælt fyrir um skyldu tiltekinna lögaðila, þ.e. fjármálafyrirtækja undir slitum, til greiðslu eftirlitsgjalds. Skattstofninn sé skýrt greindur í lagaákvæðinu, en hann ráðist af tegund starfsleyfis umrædds fjármálafyrirtækis. Með því að tengja skattstofninn beint við tegund starfsleyfis hafi löggjafinn framkvæmt málefnalegt mat á mismunandi stöðu fjármálafyrirtækja eftir því hvaða starfsemi viðkomandi félag hafi sinnt áður en það hafi verið tekið til slitameðferðar.

                Gjaldheimtunni hafi sérstaklega verið ætlað að standa undir rannsókn sóknaraðila á varnaraðila á meðan varnaraðili sé til slitameðferðar. Gjaldtaka á grundvelli 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 sé því með beinum hætti tengd kostnaði af slitum varnaraðila og stofnist ekki fyrr en slitameðferð sé hafin. Gjaldtakan sé þannig ein af lögfylgjum þess að félag hljóti leyfi til að starfa sem fjármálafyrirtæki á grundvelli laga nr. 161/2002 og sé óaðskiljanlegur hluti af slitum fjármálafyrirtækis.

                Sóknaraðili telji að lögmæt sjónarmið hafi búið að baki þeirri ákvörðun lagasetningarvaldsins að innheimta jafnhátt gjald af öllum fjármálafyrirtækjum sem notið hafi sams konar starfsleyfis fyrir slitameðferð. Byggist það m.a. á því að umfang rannsóknarinnar, sem nauðsynlegt og lögskylt sé að fari fram við slitameðferð fjármálafyrirtækja, taki ekki nema að litlu leyti mið af stærð efnahags viðkomandi félags. Umfangið ráðist miklu frekar af því hvers konar starfsemi hafi farið fram í félaginu, m.ö.o. hvers konar starfsleyfi það hafi haft. Í þeim tilvikum þar sem starfsleyfið hafi verið víðtækast, líkt og hjá varnaraðila, sé rannsóknin eðli málsins samkvæmt umfangsmest. Sóknaraðila sé skylt að rannsaka ýmsa grunnþætti í starfsemi varnaraðila, sem fyrst og fremst tengist eðli starfseminnar en ekki efnahagslegum stærðum í rekstri varnaraðila.

                Við beitingu skattlagningarvalds beri löggjafanum að gæta að því að skattar séu lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og á grundvelli jafnræðisreglu. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi það verið mat löggjafans að tegund starfsleyfis væri sá mælikvarði sem tryggði best jafnræði og meðalhóf við skattlagningu. Jafnvel þó hægt sé að styðjast við aðra mælikvarða, svo sem stærð efnahags, sé ekki þar með sagt að sá mælikvarði sem löggjafinn hafi ákveðið að styðjast við sé óréttmætur. Verði raunar að telja að báðir þessir mælikvarðar uppfylli skilyrði stjórnskipunarlaga. Í þessu tilviki hafi það hins vegar verið mat löggjafans að eðli og tegund starfsemi fjármálafyrirtækis réði meiru um kostnað af rannsókn heldur en stærð efnahagsins. Þessu mati löggjafans hafi ekki verið hnekkt.

                Við mat á því hvort styðjast beri við umfang og eðli starfseminnar – þ.e. starfsleyfi – eins og 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 byggi á, eða t.d. við stærð efnahags, verði einnig að líta til þess að varnaraðili sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Við þær aðstæður sé fjármálafyrirtækið að öllum líkindum ógjaldfært, sbr. 1. mgr. 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og geti því ekki staðið við skuldbindingar sínar þegar þær falli í gjalddaga. Af því leiði að efnahagsreikningur, efnahagur eða eignir séu ekki eiginlegur skattstofn til álagningar skatts. Þær eignir, sem kunni að vera til staðar, séu í raun eignir kröfuhafa fjármálafyrirtækisins og ljóst að þær muni ekki duga til að greiða allar skuldbindingar félagsins. Við þær aðstæður sé mun eðlilegra að miða skattstofninn við starfsemi og þar með starfsleyfi viðkomandi fjármálafyrirtækis fyrir slit, heldur en tilbúið eignahugtak. Að þessu leyti sé t.d. verulegur munur á starfandi fjármálafyrirtæki, sem greiði eftirlitsgjald á grundvelli efnahags skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, og fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem greiði fast gjald skv. 9. mgr. 5. gr. laganna.

                Sóknaraðili telji því hafið yfir allan vafa að álagning eftirlitsgjaldsins sé byggð á almennum efnislegum mælikvarða og það standist jafnræðisreglu að leggja sama eftirlitsgjald á öll fjármálafyrirtæki sem hafi notið starfsleyfis sem viðskiptabankar áður en til slitameðferðar hafi komið. Þá byggi sóknaraðili jafnframt á því að það mat löggjafans, að gera greinarmun á starfandi fjármálafyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum í slitameðferð, sé fullkomlega málefnalegt.

                Af röksemdum varnaraðila megi helst ráða að hann telji eftirlitsgjaldið of hátt, þ.e. að brotið sé gegn meðalhófi við álagningu eftirlitsgjalds. Um það sjónarmið vísi sóknaraðili til þess að lagaskylda hvíli á sóknaraðila að áætla rekstrarkostnað næsta árs, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 og beri ráðherra að leggja fram lagafrumvarp til að mæta rekstrarkostnaðinum, sbr. 3. mgr. ákvæðisins. Lagafrumvarp það, sem síðar hafi orðið að lögum nr. 182/2011 og ávarðað hafi eftirlitsgjald ársins 2012, hafi byggt á slíkri áætlun sóknaraðila. Ljóst hafi verið að grípa hafi þurft til hækkunar á eftirlitsgjaldi árið 2012 og hafi löggjafinn þá þegar mótað þá málefnalegu afstöðu að greina á milli kostnaðar af eftirliti með starfandi fjármálafyrirtækjum og kostnaði við rannsókn á fjármálafyrirtækjum sem tekin hafi verið yfir af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn, sbr. lögskýringargögn með breytingarlögum nr. 139/2009 sem breytt hafi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Til að mæta kostnaði við seinni þáttinn í starfsemi sóknaraðila hafi verið nauðsynlegt að hækka nokkuð eftirlitsgjald á fallin fjármálafyrirtæki árið 2012. Þar sem slík rannsókn hafi lítið með stærð efnahags að gera, heldur lúti fyrst og fremst að ýmsum grunnrannsóknum sem hafi þurft að gera á allri starfsemi fjármálafyrirtækis undir slitum, hafi það því verið niðurstaða löggjafans að láta tegund starfsleyfis ráða fjárhæð eftirlitsgjalds fallinna fjármálafyrirtækja en ekki efnahag þeirra, eins og áður hafi verið rökstutt. Ef viðurkennt sé að það sjónarmið sé lögmætt, sé útilokað annað en fjárhæð gjaldsins standist meðalhóf og jafnræði, enda sé það á lagt á grundvelli lögmæltrar áætlunar sóknaraðila um eftirlitskostnað ársins 2012. Áætlunin sé hluti af lagafrumvarpinu sem orðið hafi að lögum nr. 182/2011 og hafi þannig hlotið umfjöllun og samþykki Alþingis. Kostnaðinum af rannsókn sóknaraðila sé dreift jafnt á þau fjármálafyrirtæki sem til rannsóknar séu, eftir starfsleyfi þeirra. Eðli málsins samkvæmt greiði þá hæsta eftirlitsgjaldið þau félög sem notið hafi víðtækasta starfsleyfisins.

                Í þessu sambandi sé rétt að halda því til haga að gjaldið sem kveðið sé á um í þágildandi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 uppfylli einnig skilyrði þess að teljast þjónustugjald. Til töku þjónustugjalda nægi almennt einföld lagaheimild, þar sem kveðið sé á um heimild til gjaldtöku. Ef ekki sé kveðið á um fjárhæð gjaldsins í lagaákvæðinu þurfi við ákvörðun fjárhæðarinnar að taka tillit til endurgjaldsins, sem látið sé í té gegn greiðslu gjaldsins. Ef löggjafinn hafi hins vegar framkvæmt mat á fjárhæð gjaldsins, ráðist fjárhæð þess eingöngu af lagaákvæðinu. Eins og áður hafi verið lýst styðjist það mat löggjafans við jafnræðisreglur og málefnaleg sjónarmið um kostnað við þá starfsemi sem gjaldinu sé ætlað að standa undir.

                Af framansögðu telji sóknaraðili ljóst að við mat á fjárhæð eftirlitsgjalds varnaraðila hafi löggjafinn stuðst við lögmæt sjónarmið um kostnað af rekstri sóknaraðila – sjónarmið sem meira að segja séu bundin í lög, sbr. 2. gr. laga nr. 99/1999. Ekkert hafi komið fram um að það mat löggjafans á kostnaði við starfsemi sóknaraðila sé rangt. Þar sem löggjafinn hafi mótað þá stefnu að innheimt skuli sérstakt eftirlitsgjald til að standa undir þessum kostnaði og þar sem gjaldið sé lagt á fjármálafyrirtæki eftir almennum, hlutlægum mælikvarða og á grundvelli jafnræðisreglu, sé fjárhæð gjaldsins að öllu leyti í samræmi við meðalhófsreglu.

                Heildarfjárhæð kröfu sóknaraðila vegna eftirlitsgjalds árið 2012 sé 35.000.000 krónur sbr. þágildandi 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999. Þann 17. september 2012 hafi átt sér stað innborgun frá varnaraðila til sóknaraðila að fjárhæð 4.632 krónur sem hafi verið ráðstafað inn á kröfuna. Höfuðstóll kröfu sóknaraðila sé því 34.995.368 krónur. Sóknaraðili byggi á því að viðurkenna beri kröfu hans við slit á varnaraðila eins og henni hafi verið lýst. Í því felist að samþykktir verði dráttarvextir á kröfuna frá og með gjalddaga hennar, 1. febrúar 2012, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 99/1999. Í greinargerð sóknaraðila var til þess vísað að krafan sem sóknaraðili hafi lýst í bú varnaraðila hafi innifalið dráttarvexti frá gjalddaga til þess dags er kröfunni hafi verið lýst, 10. október 2012 og hafi numið alls 38.008.974 krónum. Til viðbótar sé krafist dráttarvaxta af allri fjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags. Við munnlegan málflutning lækkaði lögmaður varnaraðila kröfu sóknaraðila að fyrrnefndum höfuðstól, 34.995.368 krónur og gerði kröfu um dráttarvexti af þeirri fjárhæð frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags. Um heimild til að reikna dráttarvexti á kröfuna frá gjalddaga kveðst sóknaraðili vísa til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Sóknaraðili byggi á því að áföllnum dráttarvöxtum á kröfu, sem skipað sé í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, skuli skipa í sömu réttindaröð. Byggi það á gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, sem og almennum reglum kröfuréttar. Um vaxtafót dráttarvaxta sé vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Þess sé óskað að tekið verði tillit til greiðslu virðisaukaskatts við ákvörðun um málskostnað, en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og njóti því ekki endurgreiðslu virðisaukaskatts.

III

                Í greinargerð varnaraðila kemur fram að krafa hans um að hafna beri kröfu sóknaraðila byggi á því að eftirlitsgjald samkvæmt 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 með síðari breytingum brjóti í bága við meðalhófsreglu og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar auk meginreglna stjórnsýsluréttarins. Varnaraðili mótmæli öllum málsástæðum sóknaraðila að því leyti sem þær gangi gegn málatilbúnaði varnaraðila.

                Varnaraðili telji haldlausa þá málsástæðu sóknaraðila að þar sem umkrafið eftirlitsgjald hafi verið greitt athugasemdalaust árin 2010 og 2013 þá hafi varnaraðili viðurkennt kröfu sóknaraðila vegna gjaldársins 2012. Því fari fjarri og hafni varnaraðili því alfarið að hann hafi viðurkennt réttmæti álagningarinnar og fjárhæðar gjaldsins með athöfnum sínum né athafnaleysi. Varnaraðili áskilji sér hins vegar rétt til þess að hafa uppi endurgreiðslukröfu síðar vegna oftekinna eftirlitsgjalda í framhaldi niðurstöðu í máli þessu.

                Varnaraðili hafi greitt eftirlitsgjald árið 2010 án fyrirvara, árið 2011 með fyrirvara og einnig árið 2013 sbr. tölvupóst dags. 15. febrúar 2103, sem liggi fyrir í málinu, þar sem samþykkt hafi verið fjárhæð, 6.000.000 krónur, til greiðslu en með fyrirvara um réttmæti álagningarinnar og fjárhæðar gjaldsins. Af greinargerð sóknaraðila megi hins vegar ráða að ofangreindur fyrirvari hafi aldrei borist sóknaraðila.  Að greiða tiltekna greiðslu með fyrirvara um endurgreiðslu miði fyrst og fremst að því að standa vörð um hugsanlegan endurkröfurétt aðila ef á reyni en hins vegar sé það ekki lögbundið skilyrði til að fá endurgreiðslu, né hafi það áhrif á gildi eða réttmæti þeirrar greiðslu. Varnaraðili bendi einnig á lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda en þar sé kveðið á um skilyrðislausa endurgreiðslu ofgreidds fjár. Telja verði að sóknaraðila hafi varla dulist að með upphaflegum fyrirvara og höfnun kröfu hans í slitabú varnaraðila þá hafi varnaraðili haft athugasemdir við álagningu og innheimtu eftirlitsgjaldsins.

                Þá fallist varnaraðili ekki á þá túlkun sóknaraðila að með greiðslu eftirlitsgjaldsins árið 2010 hafi hann firrt sig öllum rétti til að halda uppi nokkrum andmælum vegna síðari álagningar. Jafnvel þótt fallist yrði á að fyrirvaralaus greiðsla árið 2010 gæti hugsanlega valdið réttindamissi þá hafi það eingöngu gilt um þá greiðslu en ekki framtíðargreiðslur. Um sé að ræða sjálfstætt gjald sem lagt sé á og innheimt á hverju ári á grundvelli rekstraráætlunar sóknaraðila vegna komandi árs sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999. Þó að stofnháttur krafna sé af sama meiði þá sé ekki sjálfgefið að um sömu kröfur sé að ræða. Varnaraðili bendi ennfremur á að árið 2010 hafi hann haft starfsleyfi sem viðskiptabanki en í lögum nr. 139/2009 hafi einvörðungu verið tiltekið að viðskiptabankar skyldu greiða tiltekna fjárhæð. Ekkert hafi þar verið kveðið á um þau tilvik er starfsleyfi hafi ekki lengur verið fyrir hendi. Varnaraðila hafi því hvorki verið ljóst né hafi mátt vera ljóst í upphafi árs 2010 að eftir afturköllun starfsleyfis hans árið 2011 þá bæri honum samt sem áður að greiða eftirlitsgjald á komandi árum.

                Að gefnu tilefni skuli það tekið fram að varnaraðili kannist ekki við þá innborgun sem sóknaraðili kveði hafa verið greidda inn á gjaldið 2012 hinn 17. sept. þ.á. og mótmæli því að sú greiðsla, hafi um einhverja greiðslu verið að ræða, hafi átt að ganga til greiðslu eftirlitsgjalds árið 2012.

                Tekjuöflun opinberra aðila verði að byggjast á heimild í lögum óháð því hvort um skattheimtu sé að ræða eða gjald fyrir þjónustu sem í té sé látin. Álagning eftirlitsgjalds á grundvelli 5. gr. laga nr. 99/1999 feli í sér heimild til að leggja skatt á gjaldskylda aðila í samræmi við almenn sjónarmið um skattlagningu hins opinbera sbr. og 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Ef litið sé til markmiðs laganna þá sé ljóst að miðað sé við að skattlagningin byggi á svipuðum sjónarmiðum og þjónustugjöld, þ.e. að „nauðsynleg þjónusta“ sé árlega afmörkuð á hlutlægan hátt og kostnaði við hana deilt á milli gjaldskyldra aðila í samræmi við áætlaðan kostnað af starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Samræmi eigi því að vera á milli eftirlitsgjaldsins og rekstrarkostnaðar eftirlitsins. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins sé því í raun áætlað í samræmi við þær reglur sem gildi um álagningu þjónustugjalda. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 99/1999 komi eftirfarandi fram:

                „Með hliðsjón af framangreindu er lagt til í þessu frumvarpi að gjaldtökunni verði breytt á þann veg að tryggt sé að eftirlitsgjaldið uppfylli á hverjum tíma skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir. Þetta þýðir m.a. að festa þarf álagningarhlutföll í lögum í stað þess að nú er kveðið á um hámark álagningar, auk þess sem kveða þarf nánar á um skattstofn, innheimtu o.fl.

Taka verður skýrt fram að almenn markmið skattlagningar annars vegar og álagningar eftirlitsgjaldsins hins vegar eru að mörgu leyti ólík. Markmið skatta er að afla ríkinu tekna til að standa undir útgjöldum sínum. Skattur er þannig lagður á og innheimtur óháð þeirri þjónustu sem skattgreiðandanum er veitt. Eftirlitsgjaldinu er hins vegar ætlað tiltekið sérgreint markmið. Það er lagt á afmarkaðan hóp sem í heild fær þjónustu sem endurgjald þótt sérgreining þeirrar þjónustu sé erfiðleikum bundin. Fjárhæð eftirlitsgjaldsins, eins og það er í núgildandi lögum, er stýrt þannig að samræmi sé á milli gjaldtöku og rekstrarkostnaðar Fjármálaeftirlitsins. Ríkissjóður verður því ekki rukkaður fyrir neikvæðan mismun gjalda og tekna og hann nýtur ekki heldur afgangs í rekstri stofnunarinnar“.

                Engu að síður feli lögin í sér tvenns konar heimildir til gjaldtöku. Annars vegar gjaldtöku með skattlagningu sbr. 1., 4., 5., og 6., gr. og hins vegar í formi þjónustugjalda sbr. 7. gr. laganna.

                Rökstuðningur fyrir álagningu umrædds fastagjalds hafi verið sá að fjármagna rannsókn á föllnum fjármálafyrirtækjum. Varnaraðili byggi á því að nærtækara hefði verið að fella slíka sértæka rannsókn undir ákvæði 7. gr. laga nr. 99/1999 en um slíka framkvæmd hefðu þá gilt þær reglur er gildi almennt um þjónustugjöld.

                Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 beri sóknaraðila fyrir 1. júlí ár hvert að gefa ráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað eftirlitsins næsta ár. Ef niðurstaða skýrslunnar gefi tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skuli ráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna. Lögin geri þannig ráð fyrir að eftirlitsgjaldið geti verið breytilegt á milli ára og taki mið af umfangi og rekstri sóknaraðila hverju sinni.

                Þrátt fyrir orðalag 9. mgr. 5. gr. þá breyti sú málsgrein ekki tilurð og eðli álagningar eftirlitsgjaldsins sbr. það sem áður sé rakið um markmið álagningarinnar. Með því að skipa því ákvæði með hinu almenna eftirlitsgjaldi 5. gr. hafi löggjafinn tekið þá ákvörðun að hinn sami tilgangur og hið sama markmið skuli eiga við um álagningu skv. 9. mgr. og annarra málsgreina þeirrar lagagreinar. Í ljósi eðlis og fyrirkomulags gjaldtökunnar sé því einsýnt að mati varnaraðila að samhengi verði að vera á milli kostnaðar við rannsóknina og álagðra eftirlitsgjalda. Sóknaraðili hafi ekki gert neinn reka að því að sýna fram á slíkt samhengi og ekki verði séð að fyrir liggi yfirlit eða sundurliðun um kostnað vegna eftirlits eða rannsókna á þeim fyrirtækjum.

                Þá byggi varnaraðili á því að það hafi ekki verið staðið rétt að undirbúningi gjaldtökunnar af hálfu sóknaraðila sem stjórnvalds og lúti það að þeirri flokkaskiptingu sem ákveðin hafi verið sbr. meginreglur stjórnsýsluréttarins þ.á.m. rannsóknarreglu 10. gr. laga nr. 37/1993. Sem stjórnvaldi hafi sóknaraðila borið að kanna hvort tillaga um álögð gjöld samræmdist áætluðum kostnaði við rannsóknir á föllnu bönkunum. Það virðist hins vegar ekki hafa verið gert.

                Samkvæmt rekstraráætlun sóknaraðila fyrir árið 2011, sbr. athugasemdir með lögum nr. 150/2010, hafi verið gert ráð fyrir tæplega 50% hækkun kostnaðar á milli ára og um 17% hækkun fyrir árið 2012, sbr. athugasemdir með lögum nr. 182/2011. Hafi eftirlitsgjöld skv. 9. mgr. 5. gr. hækkað í samræmi við það. Sú hækkun sé hins vegar ekki í neinu samræmi við tilgang ákvæðisins um að láta hin föllnu fjármálafyrirtæki bera sanngjarnan kostnað við rannsókn þeirra heldur virðist sem hækkun rekstrarkostnaðar almennt hafi verið velt yfir á gjaldskyld fyrirtæki skv. 9. mgr. 5. gr. Til að mynda komi fram í athugasemdum með lögum nr. 150/2010 að gert sé ráð fyrir að launakostnaður hækki um 41% vegna fjölgunar stöðugilda um 18, þar af 12 vegna rannsókna á föllnu bönkunum, húsnæðiskostnaður hækki um 48% og rekstur tölvubúnaðar um 53%. Varnaraðili telji því ljóst að kostnaður við rannsóknir á föllnu bönkunum sé ekki nema lítill hluti af heildarrekstrarkostnaði sóknaraðila og slík rífleg hækkun fastagjalds á milli ára sé því andstæð meðalhófsreglu.

                Þær stjórnskipulegu kröfur séu gerðar til skatta að þeir séu lagðir á eftir almennum efnislegum mælikvarða og jafnræðisreglu. Varnaraðili byggi á því að álagning fastagjalds samkvæmt 9. mgr. 5. gr. laganna uppfylli ekki þessar kröfur og telji að fastagjald óháð efnahag, sem byggi eingöngu á því hvernig starfsleyfi viðkomandi fyrirtæki hafi haft áður en það hafi verið tekið til slita, mismuni gjaldskyldum fyrirtækjum og stangist á við þau meginsjónarmið sem lög nr. 99/1999 byggi á sbr. og 65. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum.

                Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að það mat löggjafans að láta tegund starfsleyfis ráða gjaldtöku hafi best tryggt jafnræði og meðalhóf við skattlagningu. Þessari fullyrðingu sé mótmælt. Þá sé jafnframt hafnað þeim sjónarmiðum sóknaraðila að löggjafinn hafi verulegt svigrúm til að ákveða þau sjónarmið sem ráði skattlagningu. Þar sem eftirlitsgjaldinu sé ætlað sérgreint markmið og fjárhæð þess áætluð í samræmi við reglur sem gildi um álagningu þjónustugjalda sé mat löggjafans um að meta hvort vegi þyngra, starfsleyfi eða stærð efnahags þrengt verulega.

                Að viðhöfðum sömu sjónarmiðum og gildi um eftirlitsgjaldið almennt þá byggi varnaraðili á því að við ákvörðun fastagjaldsins ætti að taka mið af stærð og umfangi þess fyrirtækis sem til rannsóknar sé. Varnaraðili mótmæli þeim skilningi sóknaraðila að efnahagur skipti engu máli við slíkar rannsóknir. Þvert á móti skipti það verulegu máli hver stærð efnahagsreikningsins sé og umfang starfseminnar að öðru leyti. Þá hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að miða við stærð efnahagsreiknings viðkomandi fyrirtækis eins og áður hafi verið gert og sé málsástæðu sóknaraðila þar að lútandi mótmælt.

                Stærð og umfang stóru viðskiptabankanna þriggja sé að engu leyti sambærilegt við stærð og umfang varnaraðila. Samkvæmt heildarniðurstöðum ársreikninga fjármálafyrirtækja og verðbréfa- og fjárfestingarsjóða fyrir árið 2007 hafi eignir varnaraðila verið samtals um 253 ma.kr., eignir Kaupþings hf. hafi verið samtals 5.347 ma.kr., Landsbanka Íslands hf. 3.058 ma.kr., og Glitnis hf. 2.949 ma.kr. Stöðugildi hjá varnaraðila hafi verið 102, hjá Kaupþingi hf. 1.129, Landsbanka Íslands hf. 1.417 og Glitni hf. 1.292. Afgreiðslustaðir Landsbanka Íslands hafi verið 40, 33 hjá Kaupþingi og 21 hjá Glitni. Varnaraðili hafi haft einn afgreiðslustað.

                Eftir að þessi fjármálafyrirtæki hafi verið tekin til slitameðferðar þá hafi, sem fyrr, verið geysilegur munur á stærð og umfangi varnaraðila annars vegar og hinum þremur viðskiptabönkum hins vegar. Samkvæmt ársreikningum fyrir 2012 hafi eignir varnaraðila verið samtals um 44,7 ma.kr, árið 2011 og 48 ma.kr., 2012. Eignir Kaupþings hf. hafi verið samtals um 832,4 ma.kr. árið 2011 og 857,8 ma.kr. árið 2012. Eignir Landsbanka Íslands hf. (LBI hf.) hafi verið 910,8 ma.kr. 2011 og 905,9 ma.kr. 2012 og eignir Glitnis hf. hafi verið 882,9 ma.kr. 2011 og 934,0 ma.kr. 2012.

                Stöðugildi hjá varnaraðila hafi verið 9 árið 2011 en ekkert árið 2012. 74 stöðugildi hafi verið hjá Kaupþingi árið 2011 (63 árið 2012), 53 hjá LBI hf. (49, 2012) og 43 hjá Glitni (37, 2012). Við slitameðferð varnaraðila hafi verið lýst 250 kröfum, samtals að fjárhæð 369 ma.kr. Rúmlega 28.000 kröfum hafi verið lýst í slitabú Kaupþings hf. samtals að fjárhæð 7.300 ma.kr., um 12.000 kröfum hafi verið lýst í slitabú Landsbanka Íslands hf. samtals að fjárhæð 6.500 ma.kr. og um 8.700 kröfum hafi verið lýst við slitameðferð Glitnis hf. samtals að fjárhæð 3.200 ma.kr. Framangreind fyrirtæki borgi hins vegar nákvæmlega sömu fjárhæð í eftirlitsgjald til sóknaraðila eða 35.000.000 krónur vegna ársins 2012.

                Varnaraðili kannist ekki við að sérstök rannsókn hafi farið fram af hálfu sóknaraðila á árunum 2011 og 2012 hvað hann varði en geti ekkert fullyrt um rannsóknir á öðrum föllnum fjármálafyrirtækjum. Hvað sem því líði þá sé því haldið fram að hafi rannsóknir á hinum stóru viðskiptabönkum farið fram þá hafi þeim fylgt meiri kostnaður en á varnaraðila og sé skorað á sóknaraðila að sýna fram á annað.

                Með vísan til alls ofangreinds sé því mótmælt að löggjafinn hafi framkvæmt málefnalegt mat á mismunandi stöðu fjármálafyrirtækja með því að tengja skattstofninn beint við tegund starfsleyfis og því sé að sama skapi mótmælt að gætt hafi verið meðalhófsreglu og jafnræðissjónarmiða við ákvörðun álagningar eftirlitsgjalds á grundvelli 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999.

                Þá byggi varnaraðili á því að kröfu sóknaraðila hafi verið lýst of seint og þar af leiðandi komist hún ekki að við slitameðferð varnaraðila sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðila hafi verið það ljóst eða hafi í öllu falli mátt vera ljóst strax í upphafi árs 2011 að ágreiningur væri um álagt eftirlitsgjald. Hafi sóknaraðila því verið í lófa lagið að lýsa kröfunni jafnskjótt og hún hafi stofnast. Í öllu falli sé hér um verulegt tómlæti að ræða sem sóknaraðili verði að bera hallan af.

                Með vísan til ofannefnds tómlætis hafni varnaraðili því einnig að honum beri að greiða dráttarvexti frá gjalddaga kröfunnar. Þá sé því og sérstaklega mótmælt að unnt sé að leggja dráttarvexti ofan á dráttarvaxtareiknaðan höfuðstól svo sem eins og sóknaraðili virðist byggja á, enda skilyrði vaxtalaga nr. 38/2001 ekki uppfyllt.

                Að öllu þessu virtu telji varnaraðili að hafna beri kröfu sóknaraðila og staðfesta þar með niðurstöðu varnaraðila.

                Fallist dómurinn ekki á ofangreindar málsástæður varnaraðila þá byggi hann á því sem varakröfu að krafa sóknaraðila verði einvörðungu viðurkennd sem almenn krafa. Varnaraðili reisi varakröfu sína á því að umþrætt krafa geti ekki haft réttarstöðu búskröfu skv. 2 tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 af þeirri ástæðu að um sé að ræða skattakröfu og bæði hugtaksskilyrði og efnisleg skilyrði skorti til að með slíkar kröfur verði farið sem búskröfur. Þá bendi varnaraðili á að það hafi fyrst verið með lögum nr. 132/2012, sem kröfur þessar hafi verið skilgreindar sem búskröfur. Sá ágreiningur sem hér sé til meðferðar varði eftirlitsgjald, sem gjaldfallið hafi 1. febrúar árið 2012, en lög nr. 132/2012, sem tiltekið hafi sérstaklega rétthæð gjaldtökunnar, hafi fyrst tekið gildi 1. janúar 2013. Í öllu falli geti slík lagabreyting ekki haft afturvirk áhrif sbr. meginreglur í stjórnskipunarrétti. Að breyttu breytanda sé vísað til sömu málsástæðna og í aðalkröfu um að krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og um greiðslu dráttarvaxta.

                Um lagarök kveðst varnaraðili vísa til laga nr. 99/1999 með síðari breytingum, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sérstaklega 110., 113. og 118. gr., stjórnsýslulaga nr. 37/1993, laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu ofgreidds fjár og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki auk Stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944, 40., 65. og 77. gr. hennar. Málskostnaðarkröfu sína styðji varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.

IV

                Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að varnaraðili geti hafa fyrirgert rétti til að mótmæla álagningu hins hér umþrætta gjalds þó hann hafi greitt sambærilegt gjald vegna annarra gjaldára, með eða án athugasemda.

                Eins og nánar er rakið hér að framan er kveðið á um það í 1. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, að eftirlitsskyldir aðilar og aðrir gjaldskyldir aðilar samkvæmt 5. gr. laganna skuli standa straum af kostnaði við rekstur sóknaraðila. Þá er kveðið á um að eftirlitsgjald renni beint til sóknaraðila og honum jafnframt falið að innheimta það. Ekki er um það ágreiningur að varnaraðili hafði áður starfsleyfi sem viðskiptabanki, en var á árinu 2012 og er enn, stýrt af slitatstjórn. Fellur hann því efnislega undir reglu 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999, sbr. lög nr. 182/2011, sem mælir fyrir um að aðili sem svo er ástatt um skuli greiða fastagjald að fjárhæð 35.000.000 krónur. Í lokamálslið 2. mgr. 6. gr. sömu laga er kveðið á um að fyrrgreint gjald falli í gjalddaga 1. febrúar ár hvert. Liggur því fyrir þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar að með álagningu gjalds þess sem um er deilt í málinu fór sóknaraðili, sem stjórnvald, að lagafyrirmælum sem veittu ekki svigrúm til sjálfstæðs mats um nokkurt það atriði sem her er deilt um.

                Verður því næst fyrir hvort löggjafinn hafi með setningu laga nr. 182/2011, sem gjaldið er grundvallað á, farið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Byggir varnaraðili einkum á því að gjaldtaka þessi samræmist ekki jafnræðisreglu eða meðalhófsreglu stjórnskipunarinnar. Vísar varnaraðili einkum til ákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar en einnig til 40. og 77. gr. hennar. Byggir varnaraðili einkum á því að þegar löggjafinn beiti skattlagningarvaldi sínu þurfi hann að gæta meðalhófs og jafnræðis. Þá telur hann að hin umdeilda gjaldtaka byggist ekki á málefnalegu mati á mismunandi stöðu fjármálafyrirtækja enda sé hún tengd við tegund starfsleyfis en ekki fjárhagslega stærð fyrirtækisins. Þá ber varnaraðili brigður á að umrædd gjaldtaka endurspegli raunverulegan kostnað sóknaraðila af rannsókn hjá fjármálafyrirtækjum í slitameðferð.

                Í lögum nr. 99/1999 er, eins og rakið er nánar hér fyrr, m.a. tilgreind árleg skýrslugjöf sóknaraðila til ráðherra, ásamt öflun álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sem fram skuli fara fyrir 1. júlí ár hvert. Á grundvelli framangreindra upplýsinga tekur ráðherra ákvörðun um hvort ástæða sé til að leggja fram frumvarp til breytinga á lögunum varðandi innheimtu eftirlitsgjalds. Ekki liggur annað fyrir en að þetta hafi verið gert. Frumvarp hafi verið lagt fram og því hafi fylgt þær upplýsingar sem kveðið er á um í lögum nr. 99/1999. Þá liggur ekki annað fyrir en að málið hafi fengið þinglega rétta meðferð og lög nr. 182/2011 hafi verið samþykkt og birt í samræmi við ákvæði stjórnskipunarlaga. Þá liggur og fyrir að í 9. mgr. 5. gr. laga nr. 99/1999 eins og þeim var breytt með lögum nr. 182/2011 var mælt fyrir um m.a. að öll fjármálafyrirtæki sem væru til slitameðferðar og hefðu haft starfsleyfi sem viðskiptabankar skyldu greiða sama gjald, 35.000.000 krónur, og gilti ákvæðið um árið 2012. Með setningu umræddra laga var lagður sami skattur á varnaraðila og önnur fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem höfðu áður haft starfsleyfi sem viðskiptabankar. Í þessu felst það mat löggjafans að leggja að jöfnu stöðu þeirra fjármálafyrirtækja sem þannig var ástatt um og var fjárhæð gjaldsins ákveðin í lagaákvæðinu sjálfu. Með hliðsjón af þeim ríku valdheimildum sem löggjafanum eru veittar í stjórnarskrá er ekki unnt að telja að varnaraðila hafi tekist að sýna fram á að framangreint mat sé í andstöðu við 40., 77. eða 65. gr. stjórnarskrár. Breytir hér engu þó varnaraðili hafi réttilega bent á að slitabú hans sé að miklum mun smærra í sniðum en slitabú Kaupþings hf., Glitnis hf. og LBI hf. sem skattlögð voru með sömu fjárhæð. Eru að mati dómsins ekki forsendur til þess að fallast á að það efnahagslega viðmið sem varnaraðili hefði kosið að lagt yrði til grundvallar geti talist með einhverjum hætti málefnalegra en það viðmið sem löggjafinn valdi að styðjast við, þannig að litið yrði framhjá umræddu lagaákvæði við úrlausn málsins. Er þegar af framangreindum ástæðum fallist á með sóknaraðila að ekki verði talið að sýnt hafi verið fram á að löggjafinn hafi farið í bága við stjórnarskrá með lagasetningu um álagningu hins umdeilda gjalds.

                Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að sóknaraðili teljist, eins og hér stendur á, hafa sýnt af sér tómlæti við innheimtu kröfu sinnar þannig að réttindamissi varði.

                Þegar á grundvelli framangreindra sjónarmiða verður fallist á kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á kröfu um greiðslu hins umdeilda gjalds. Varnaraðili hefur hafnað því að hann hafi innt af hendi innborgun að fjárhæð 4.632 krónur. Sóknaraðili hefur hins vegar lækkað höfuðstól kröfu sinnar til samræmis við að slík innborgun hafi átt sér stað og verður höfuðstólskrafa hans ekki tekin til greina með hærri fjárhæð en hann krefst sjálfur. Mælt er fyrir um gjalddaga umrædds eftirlitsgjalds í lögum og eru ekki efni til annars en að fallast á kröfu sóknaraðila um greiðslu dráttarvaxta frá þeim degi, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Kröfu sóknaraðila var lýst sem búskröfu samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Um er að ræða lögbundna kröfu um sem varð til eftir upphaf slitameðferðar varnaraðila. Er krafan, ásamt dráttarvöxtum, því réttilega búskrafa samkvæmt framangreindu lagaákvæði. Þá var kröfunni ekki lýst of seint sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Verður af framangreindum ástæðum að hafna varakröfu varnaraðila um að krafan skuli teljast almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. og dóm Hæstaréttar 5. febrúar 2014 í máli nr. 62/2014.               

                Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað að þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og hefur þar verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Krafa sóknaraðila, Fjármálaeftirlitsins, að fjárhæð 34.995.368 krónur að viðbættum dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá 1. febrúar 2012 til greiðsludags, er viðurkennd við slitameðferð varnaraðila, SPB hf., og skal njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 877.500 krónur í málskostnað.