Print

Mál nr. 56/2013

Lykilorð
  • Orlof

                                     

Fimmtudaginn 30. maí 2013.

Nr. 56/2013.

Hákon Helgason

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

gegn

Flugfélagi Íslands ehf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

Orlof.

H krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans til framlengingar á vetrarorlofi á grundvelli 6. gr. laga nr. 30/1987 um orlof, vegna veikinda sem komið hefðu í veg fyrir orlofstöku hans. Hafði H skilað inn læknisvottorði til vinnuveitanda síns F ehf. um að hann væri óvinnufær á orlofstímabilinu, en síðan farið til sólarlanda. Talið var að við skýringu ákvæðisins yrði að miða við hvort H hefði getað tekið sér fyrir hendur flest það sem menn gerðu í venjulegu orlofi en ekki við þær sérstöku kröfur sem kynnu að verða gerðar til þess að starfsmenn í tilteknum störfum teldust vinnufærir. Þegar litið var til þess að í vottorði H var talað um minni mátt og stirðleika, hefði H ekki sannað að hann hefði verið ófær um að vera í orlofi á tímabilinu. Var F ehf. því sýknað af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. janúar 2013 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til „framlengingar á vetrarorlofi“ um 17 daga á grundvelli 6. gr. laga nr. 30/1987 um orlof vegna veikinda sem hafi komið í veg fyrir töku orlofs á tímabilinu 27. febrúar til 24. mars 2009. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir úrslitum málsins verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hákon Helgason, greiði stefnda, Flugfélagi Íslands ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2012.

                Mál þetta höfðaði Hákon Helgason, kt. 061049-4449, Goðatúni 23, Garðabæ, með stefnu birtri 28. febrúar 2012, á hendur Flugfélagi Íslands ehf., kt. 530575-0209, Akureyri.  Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 10. september sl. 

                Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til framlengingar á vetrarorlofi um 17 daga á grundvelli 6. gr. orlofslaga nr. 30/1987, vegna veikinda sem komu í veg fyrir töku vetrarorlofsins á tímabilinu 27. febrúar til 24. mars 2009.  Þá krefst hann 366.256 króna í málskostnað. 

                Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi hvernig sem málið fer. 

                Stefnandi starfar hjá stefnda sem flugstjóri.  Haustið 2008 var ákveðið að hann skyldi taka vetrarorlof dagana 27. febrúar til 24. mars 2009.  Þann 16. nóvember 2008 féll stefnandi í hálku á Reykjavíkurflugvelli og handleggsbrotnaði.  Fór hann í aðgerð og var frá vinnu.  Í vottorði Jóhanns Róbertssonar læknis, dags. 27. nóvember 2008, segir að hann reikni með að stefnandi verði óvinnufær í þrjá mánuði, en reyndar sé of snemmt að segja of mikið til um það.  Í vottorði læknisins, dags. 24. febrúar 2009, segir að stefnandi sé óvinnufær og verði það fram að næsta eftirliti eftir um fjórar vikur.  Segir nánar í vottorðinu að um sé að ræða máttminnkun og stirðleika eftir slys. 

                Stefnandi fór í orlofsferð til Kanaríeyja skömmu eftir að síðara vottorðið var gefið út.  Fyrir dómi sagði hann að orlofinu hefði verið úthlutað um mánaðamótin ágúst september 2008.  Hann hefði rætt orlofsmálin við Klöru Kristjánsdóttur, skráa­ritara, er hann afhenti henni síðara læknisvottorðið.  Hann hefði síðan gengið eftir því að fá þetta orlof bætt.  Sér hefði þá verið sagt að hann þyrfti að leggja fram vottorð um að hann hefði ekki getað notið orlofsins. 

                Einar Sigurður Bjarnason, flugrekstrarstjóri stefnda, sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að stefnandi hefði verið beðinn að leggja fram læknisvottorð um að hann hefði ekki getað notað frísins.  Hann kvað miklar kröfur gerðar til heilsufars flugmanna í starfi. 

                Klara Kristjánsdóttir, sem starfaði á þessum tíma í áhafnaskrá hjá stefnda, staðfesti að hún hefði beðið stefnanda um vottorð um að hann hefði ekki getað notið orlofsins. 

                Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi segir að hann hafi átt að taka orlof dagana 27. febrúar til 24. mars 2009.  Hann hafi verið óvinnufær frá 16. nóvember 2008 og hafi verið það enn er kom að því að taka orlofið.  Hafi hann afhent stefnda vottorð er staðfesti það.  Hann hafi fullnægt skilyrði 6. gr. orlofslaga með því að afhenda læknisvottorð.  Því hafi orlofs­taka hans frestast.  Tilgangur reglunnar sé sá að tryggja að starfsmaður sé heill heilsu í orlofi. 

                Stefnandi mótmælir þeirri fullyrðingu stefnda að hann hafi getað notið orlofsins og eigi því ekki rétt á framlengingu.  Kröfu um þetta sé að finna í ýmsum kjarasamningum, en eigi þá eingöngu við þegar starfsmaður veikist í orlofinu.  Ákvæði um þetta sé ekki að finna í kjarasamningi FÍA og stefnda. 

                Stefnandi segir það ekki á færi stefnda að leggja mat á veikindi sín, það sé verkefni lækna.  Hann hafi verið metinn óvinnufær þegar hann átti að hefja orlofstöku.  Stefndi hafi ekki hnekkt þessu vottorði. 

                Stefnandi vísar til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun skuli greiða í samræmi við umsamda launataxta.  Hann vísar einnig til 4. og 5. kafla kjarasamninga félags síns, laga nr. 55/1980, 1. gr. laga nr. 28/1930, 5. og 6. gr. orlofs­laga nr. 30/1987 og laga nr. 19/1979.  Um heimild til að hafa uppi viðurkenningar­kröfu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 19/1991, svo og til þess að samkvæmt 5. gr. orlofslaga ákveði vinnuveitandi hvenær orlof skuli tekið, í samráði við launþega. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Stefndi telur að krafa stefnanda eigi sér ekki stoð í 6. gr. orlofslaga.  Ákvæði þetta sé efnislega óbreytt frá fyrstu orlofslögunum sem sett voru 1943.  Þá hafi komið fram í greinargerð að geti starfsmaður ekki farið í orlof vegna veikinda þyki sjálfsagt að hann fái frest í því efni, með ákveðnum takmörkunum.  Veikindi þurfi að vera þess eðlis að starfsmanni sé ómögulegt að fara í leyfi.  Hér skuli miða við orlofið, en ekki færni viðkomandi til að sinna starfi sínu.  Þegar óvinnufærni sé metin sé litið til starfs viðkomandi.  Skilyrði orlofslaga fyrir frestun orlofs sé annað en skilyrði um óvinnu­færni.  Læknisvottorð sem stefnandi afhenti sýni ekki að hann hafi ekki getað farið í orlof.  Sönnunarbyrðin hvíli hér á stefnanda. 

                Stefndi telur að veikindi stefnanda hafi ekki komið í veg fyrir það að hann tæki vetrarorlof eins og ákveðið hefði verið. 

                Stefndi byggir loks á því að stefnandi hafi glatað rétti sínum vegna tómlætis.  Hann hafi ekki tilkynnt sérstaklega að hann gæti ekki farið í orlof áður en það hófst.  Hann hafi einungis afhent læknisvottorð.  Honum hafi þá verið sagt að hann yrði að afhenda vottorð um að hann gæti ekki farið í orlofið, ef hann vildi fá það bætt síðar. 

                Stefndi segir að ósannað sé að stefnandi hafi krafist þess að fá orlof fyrr en í ágúst 2009.  Þá hafi frestur samkvæmt 6. gr. orlofslaga verið liðinn og krafan fallin niður. 

                Loks bendir stefndi á að kröfugerð stefnanda feli í sér viðurkenningu á því að stefnandi hafi farið í orlof á umræddu tímabili. 

                Niðurstaða

                Meginatriði málavaxta eru óumdeild.  Stefnandi átti að taka orlof á tímabilinu frá 27. febrúar til 24. mars 2009.  Hann vann ekki á þessu tímabili, en hann hafði afhent stefnda vottorð læknis um að hann væri óvinnufær.  Á tímabilinu fór stefnandi til Kanaríeyja.  Dvöl hans þar hefur ekki verið lýst fyrir dóminum. 

                Í 6. gr. orlofslaga nr. 30/1987 segir að starfsmaður geti krafist orlofs á öðrum tíma en ákveðinn hefur verið, ef hann getur ekki farið í orlofið vegna veikinda.  Ákvæðið verður ekki skýrt svo að nægilegt sé að starfsmaðurinn geti ekki vegna veikinda sinnt starfi sínu.  Orðið óvinnufær kemur ekki fyrir í lagaákvæðinu.  Þannig geta komið upp þau tilvik að launþegi er ekki fær um að vinna, en getur tekið orlof. 

                Fram er komið að stefnandi fór til Kanaríeyja á umræddu tímabili.  Hann hefði í sjálfu sér getað verið erlendis allan þann tíma sem hann var óvinnufær, en orlofs­tíminn hafði verið ákveðinn áður en stefnandi slasaðist.  Hér verður að notast við almennan mælikvarða um heilbrigði manna.  Miða verður við hvort þeir geti tekið sér fyrir hendur flest það sem menn gera í venjulegu orlofi.  Ekki verður miðað við sérstakar kröfur sem kunna að vera gerðar til þess að starfsmenn í tilteknum störfum teljist vinnufærir.  Þegar litið er til þess að í læknisvottorði er talað um minni mátt og stirðleika hefur stefnandi ekki sannað að hann hafi verið ófær um að vera í orlofi á tímabilinu.  Verður því ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til að taka umrædda orlofs­daga á öðrum tíma samkvæmt 6. gr. orlofslaga.  Verður stefndi sýknaður af kröfum hans. 

                Rétt er að málskostnaður falli niður. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Flugfélag Íslands ehf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Hákonar Helgasonar. 

                Málskostnaður fellur niður.