Print

Mál nr. 255/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni

                                     

Föstudaginn 2. maí 2014.

Nr. 255/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Vitni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að svara nánar tilgreindum spurningum um tilurð fréttar sem birt var á vefsíðu dagblaðsins M. Í hinum kærða úrskurði var talið að L hefði ekki leitað allra leiða sem færar væru til að upplýsa málið áður en farið var fram á að X svaraði spurningum lögreglu og hefði L af þeim sökum ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að nauðsyn bæri til þess að grípa til úrræðis 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eftir uppkvaðningu úrskurðarins tók L skýrslur af nafngreindum mönnum og aflaði jafnframt tiltekinna gagna í tengslum við þá rannsókn sem málið varðaði. Taldi L að við svo búið væru úr vegi þær hindranir sem héraðsdómur taldi vera við því að lagt yrði mat á hvort í málinu væru uppfyllt skilyrði 3. mgr., sbr. a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn að eftir öflun fyrrgreindra gagna hefði L að réttu lagi átt að leggja beiðni sína um skýrslutöku fyrir dómi af X öðru sinni fyrir héraðsdóm, en ekki kæra úrskurð héraðsdóms til að fá leyst úr kröfunni, enda væri það hlutverk Hæstaréttar að endurskoða úrlausn héraðsdóms en ekki leysa úr máli á fyrsta dómstigi.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að svara fyrir dómi nánar tilgreindum spurningum um tilurð fréttar sem birt var á vefsíðu Morgunblaðsins 20. nóvember 2013. Um kæruheimildir vísar sóknaraðili til f. og n. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind krafa sín verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt hefur hann eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar tekið skýrslur af sex nafngreindum mönnum og aflað jafnframt tiltekinna annarra gagna í tengslum við þá rannsókn sem mál þetta varðar. Telur hann að við svo búið séu úr vegi þær hindranir sem héraðsdómur taldi vera við því að lagt yrði mat á hvort í málinu séu uppfyllt skilyrði 3. mgr., sbr. a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 til að krefja varnaraðila um svör við spurningum sínum. Eftir öflun gagnanna sem hér um ræðir átti sóknaraðili að réttu lagi að leggja beiðni sína um skýrslutöku fyrir dómi af varnaraðila öðru sinni fyrir héraðsdóm, en ekki að kæra úrskurð dómsins til að fá leyst úr kröfu sinni á framangreindum forsendum, enda er það hlutverk Hæstaréttar að endurskoða úrlausn héraðsdóms en ekki að leysa úr máli á fyrsta dómstigi. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður varnaraðila, X, greiðist úr ríkissjóði, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, 313.750 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. apríl 2014.

I.

         Í máli þessu, sem barst réttinum með kröfugerð, dags. 25. mars 2014, fer lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fram á að skýrslutaka af vitninu X fari fram fyrir dómi á grundvelli heimildar í c-lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008, þar sem hún hafi neitað að svara spurningum við skýrslutöku hjá lögreglu. Hyggst sóknaraðili leggja eftirfarandi spurningar fyrir vitnið:

         1) Hver ritaði fréttina „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ sem birt var á mbl.is að morgni miðvikudagsins 20. nóvember 2013, kl. 10:55?

         2) Hafði mbl.is óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins undir höndum er fréttin „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ var rituð og birt og ef svo er með hvaða hætti komst mbl.is yfir minnisblaðið og frá hverjum barst það?

II.

         Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar ætluð brot starfsmanns eða starfsmanna innanríkisráðuneytisins á þagnarskylduákvæði 18. gr. laga nr. 70/1996 og á trúnaðarskyldum samkvæmt 136. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að minnisblað, sem útbúið hafi verið í innanríkisráðuneytinu seinnipart þriðjudagsins 19. nóvember 2013, og hafi innihaldið viðkvæmar upplýsingar um einkamálefni þriggja nafngreindra einstaklinga, hafi borist út úr ráðuneytinu til ýmissa manna, þ. á m. blaðamanna. Hafi þessi þrír einstaklingar kært málið til lögreglu.

         Af hálfu lögreglustjóra er tekið fram að í frétt, sem birst hafi á vefmiðlinum mbl.is að morgni miðvikudagsins 20. nóvember 2013, sé fjallað um málefni eins þriggja framangreindra einstaklinga, hælisleitandans A. Í fréttinni komi fram að mbl.is hafi undir höndum „óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins“ og virðist fréttin vera reist á umræddu minnisblaði. Enginn tiltekinn blaðamaður sé skrifaður fyrir fréttinni og verði því að ætla að vitnið, X, sem sé fréttastjóri miðilsins, búi yfir þeim upplýsingum sem lögregla óski svara við.

         Þá er þess getið í greinargerðinni að vitnið hafi mætt til yfirheyrslu hjá lögreglunni 13. mars sl. Þar hafi henni verið kynnt ákvæði um vitnaskyldu og vitnaábyrgð, sem og ákvæði 118. gr. og a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Í yfirheyrslunni hafi vitnið tekið fram að hún starfaði sem fréttastjóri hjá mbl.is og að undir henni störfuðu átta blaðamenn. Hún stýrði fréttum miðilsins, læsi þær yfir og skrifaði einnig fréttir. Hún hafi síðan kosið að svara ekki frekari spurningum lögreglu, þ. á m. hver hafi ritað umrædda frétt og hvort miðillinn hefði umrætt minnisblað undir höndum.

         Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn að skilyrðum c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt svo skýrslutaka yfir vitninu fari fram fyrir dómi meðan á rannsókn málsins stendur.

         Vitnið, X, kom fyrir dóminn eftir að lögreglan hafði boðað hana, sbr. 2. mgr. 104. gr. og 1. mgr. 120. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. málslið 106. gr. sömu laga. Henni var kynnt vitnaskylda samkvæmt 116. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt var athygli hennar vakin á ábyrgð vitnis um að skýra bæði satt og rétt frá og draga ekkert undan þegar spurningum er svarað fyrir dómi, sem og þeirri refsi- og siðferðisábyrgð sem er samfara vísvitandi eða gáleysislega röngum framburði fyrir dómi. Þá var athygli vitnisins vakin á efni 118. gr. og a-liðar 2. mgr. og 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

         Af þessu tilefni var því lýst yfir af hálfu vitnisins að hún teldi sér óheimilt samkvæmt a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 og 25. gr. laga nr. 38/2011 að svara hinum tilgreindu spurningum að frátöldum fyrsta lið í síðari spurningunni. Var á það bent af hennar hálfu að svar við þeim hluta spurningarinnar komi fram í fréttinni á mbl.is sem er tilefni kröfu sóknaraðila.

         Aðstoðarsaksóknari óskaði þá eftir því að dómari legði fyrir vitnið að svara hinum tilgreindu spurningum með vísan til 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, enda gæti vitnisburður ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins sem er til rannsóknar og að ríkari hagsmunir séu af því að spurningunum verði svarað en trúnaði haldið.

         Af hálfu vitnisins er því mótmælt að skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt enda séu ríkari hagsmunir tengdir því að trúnaði sé haldið en að spurningunum sé svarað.

         Með vísan til 2. mgr. 181. gr., sbr. f-lið og n-lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 skal dómari kveða upp úrskurð um það hvort varnaraðila verði gert að svara umbeðnum spurningum. Lögmaður varnaraðila lagði fram skriflega greinargerð í málinu 2. apríl sl. og var málið því næst flutt munnlega um kröfu sóknaraðila og það tekið til úrskurðar.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök sóknaraðila

         Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrði 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, um að skýrsla varnaraðila geti haft úrslitaþýðingu um niðurstöðu málsins sem til rannsóknar er, sé augljóslega uppfyllt. Komi í ljós að heimildarmaður mbl.is sé ekki hinn brotlegi beri honum að greina frá því hver hafi látið honum í té umrætt minnisblað frá innanríkisráðuneytinu á grundvelli almennra reglna um vitnaskyldu.

         Sóknaraðili vísar til þess að hagsmunir brotaþola af því að njóta friðhelgi einkalífs síns og að upplýst verði hver hafi brotið gegn þeim rétti, vegi þyngra en hagsmunir tengdir því að trúnaði sé haldið milli vitnisins og heimildarmanns mbl.is. Hagsmunir þeirra af því að njóta friðhelgi einkalífs síns vegi þyngra en hagsmunir fjölmiðils af því að fá að birta persónulegar upplýsingar um þá.

         Við þetta hagsmunamat hafi sérstaka þýðingu að upplýsingarnar, sem bárust með ólögmætum hætti frá innanríkisráðuneytinu, hafi ekki átt erindi til almennings. Þær hafi ekki haft þýðingu sem innlegg í almenna umræðu um málefni flóttamanna í landinu. Markmiðið með lekanum virðist fremur hafa verið að sverta mannorð eins brotaþola vegna yfirvofandi mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hans.

         Þá kveður sóknaraðili rannsókn málsins komna á það stig að ekki sé unnt að afla upplýsinga um þann sem ábyrgð bar á lekanum úr ráðuneytinu nema með þeim hætti sem hér sé farið fram á. Lögreglan hafi rannsakað tölvukerfi ráðuneytisins og það hafi leitt í ljós að minnisblaðið hafi ekki verið sent úr tölvunetfangi þess. Minnisblaðið hafi verið vistað um kl. 17 þriðjudaginn 19. nóvember sl. á opnu drifi ráðuneytisins þannig að sérhver starfsmaður hafi getað nálgast það, en fréttir byggðar á því hafi birst í fjölmiðlum daginn eftir. Í raun liggi allir starfsmenn ráðuneytisins undir grun, en óraunhæft sé að lögregla afli sér heimilda til húsrannsókna hjá öllum þessum starfsmönnum og skoði einkatölvur þeirra og síma.

         Sóknaraðili bendir einnig á að ekkert liggi í raun fyrir um að heimildarmaður mbl.is hafi óskað nafnleyndar, en það sé skilyrði þess að unnt sé að hafna því að upplýsa hver hann er samkvæmt a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.

2. Helstu málsástæður og lagarök varnaraðila

         Af hálfu vitnisins, X, er á því byggt að við hagsmunamat samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 verði að meta annars vegar trúnaðarsamband varnaraðila og heimildarmanns mbl.is annars vegar og hins vegar alvarleika málsins. Hagsmunir brotaþola komi ekki til skoðunar í þessu sambandi.

         Varnaraðili kveður trúnaðarskyldu sína gagnvart heimildarmanninum vera óháða því hvort sá síðarnefndi hafi gerst brotlegur gegn þagnarskyldureglum. Þessir hagsmunir lúti að grundvallarrétti og skyldu varnaraðila til að halda trúnað gagnvart heimildarmanni í starfi sínu sem blaðamaður. Þá liggi ekki fyrir að heimildarmaðurinn hafi gerst brotlegur við þagnarskyldureglu laga nr. 70/1996.  Því sé alls óvíst hvort vitnisburður varnaraðila geti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls, eins og krafist sé samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008

         Varnaraðili vísar til þess að vernd trúnaðar milli fjölmiðlamanna og heimildarmanna sé eitt af grundvallarskilyrðum þess að fjölmiðlar geti lagt sitt af mörkum til lýðræðislegs samfélags og sé einn af hornsteinum tjáningarfrelsis þeirra. Trúnaðurinn njóti einnig verndar 73. gr. stjórnarskrárinnar og og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

         Að mati varnaraðila er það brot sem sóknaraðili hefur til rannsóknar ekki þess eðlis að rétt sé að tjáningarfrelsi varnaraðila verði takmarkað með svo alvarlegum hætti að honum verði gert að segja til heimildarmanns síns. Í því efni vísar varnaraðili til þess að brot á þagnarskyldu ríkisstarfsmanna varði aðeins fangelsisrefsingu allt að einu ári samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga.

         Varnaraðili byggir einnig á því að nái krafa sóknaraðila fram að ganga sé um óréttlætanlega takmörkun á tjáningarfrelsi varnaraðila að ræða. Ljóst sé að fjölmiðlar gætu illa sinnt hlutverki sínu ef ekki mætti treysta því að trúnaður yrði haldinn af þeirra hálfu gagnvart heimildarmönnum. Þessi tenging milli trúnaðarskyldunnar og tjáningarfrelsis fjölmiðla hafi verið staðfest í ýmsum dómum Mannréttindadómstól Evrópu, m.a. í máli Goodwin gegn Bretlandi frá 27. mars 1996. Nokkur skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að heimilt sé að takmarka tjáningarfrelsi varnaraðila að þessu leyti, þ. á m. að takmörkunin sé nauðsynleg í lýðræðislegu þjóðfélagi. Varnaraðili telur ekki liggja fyrir að þessu skilyrði sé fullnægt, enda hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að ófært sé að upplýsa málið með öðrum og minna íþyngjandi úrræðum en að varnaraðila verði gert að greina frá heimildarmanni sínum.

         Þá byggir varnaraðili á því að til þess að réttlæta þessa takmörkun á tjáningarfrelsinu verði mikilsverðir hagsmunir almennings að vera í húfi. Að upplýsa brot á þagnarskyldu ríkisstarfsmanna varði ekki slíka hagsmuni að mati varnaraðila. Af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu dregur hann þá ályktun að það komi aðeins til greina ef slíkt trúnaðarbrot stofni öryggi ríkisins eða almennings í mjög mikla hættu.

IV.

Niðurstaða

         Lögreglustjórinn hefur til rannsóknar ætluð þagnarskyldubrot eins eða fleiri starfsmanna innanríkisráðuneytisins, eins og rakið er í greinargerð hans. Fram að þessu hefur rannsóknin leitt í ljós að 19. nóvember 2013 hafi minnisblað með persónuupplýsingum um þrjá einstaklinga, sem þar eru nafngreindir, og samið var af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins seinnipartinn þennan sama dag, borist í hendur óviðkomandi, þ. á m. blaðamanna. Með þeirri beiðni sem hér liggur fyrir hyggst sóknaraðili freista þess að varpa ljósi á hver beri ábyrgð á því að það gerðist. 

         Upplýst er að minnisblaðið var tekið saman af lögfræðingi í ráðuneytinu að beiðni skrifstofustjóra vegna fyrirhugaðra mótmæla við ráðuneytið vegna afgreiðslu þess á máli hælisleitandans A. Í minnisblaðinu er m.a. vikið að því að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda íslenska stúlku, en áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi stöðu hælisleitanda. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé A mögulega faðir þess. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að A hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í því eintaki minnisblaðsins sem lögfræðingur ráðuneytisins tók saman er enn fremur vikið að því að í hælismáli konunnar, sem eigi von á barni, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb.

         Rannsókn lögreglunnar hefur leitt í ljós að umrætt minnisblað var vistað á opnu drifi ráðuneytisins. Skrifstofustjóri sendi það með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, ráðherra og tveggja aðstoðarmanna ráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013. Auk skrifstofustjórans og lögfræðingsins sem tók minnisblaðið saman lásu tveir aðrir lögfræðingar minnisblaðið yfir. Í skýrslum sem lögreglan hefur tekið af þessum starfsmönnum ráðuneytisins hefur ekkert komið fram um að aðrir en þeir sem að framan greinir hafi búið yfir vitneskju um minnisblaðið. Jafnframt bendir rannsókn lögreglunnar til þess að hverfandi líkur séu á því að minnisblaðið hafi verið sent frá ráðuneytinu í tölvupóstkerfi þess.

         Varnaraðili X er [...] á mbl.is sem er fjölmiðill í skilningi 13. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/2011 og birtir fréttir á veraldarvefnum. Í frétt sem þar birtist kl. 10.55 hinn 20. nóvember 2013 er tekið fram að mbl.is hafi minnisblað innanríkisráðuneytisins undir höndum. Í fréttinni er meðal annars greint frá framangreindu sambandi A við íslenska stúlku og að ætluð barnsmóðir hans sé hugsanlega fórnarlamb mansals. Konurnar eru þó ekki nafngreindar. Enginn er skráður höfundur fréttarinnar.

         Lögmenn A og kvennanna beggja hafa lagt fram kæru vegna málsins. Rannsókn lögreglunnar beinist að háttsemi sem er refsiverð og getur varðað opinberan starfsmann allt að eins árs fangelsi samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga. Feli brotið í sér misnotkun á stöðu hans getur það varðað hinn brotlega allt að tveggja ára fangelsi, sbr. 138. gr. sömu laga.

         Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 og a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 er varnaraðila óheimilt að upplýsa hver sé höfundur og heimildarmaður að framangreindri frétt hafi þeir óskað nafnleyndar. Miðað við málatilbúnað varnaraðila verður að ganga út frá því að það hafi þeir gert. Þessari vernd heimildarmanns og höfundar verður einungis aflétt með samþykki þeirra eða á grundvelli 119. gr. laga nr. 88/2008, eins fram kemur í 3. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011.

         Samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari ákveðið að vitni skuli svara spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a- til d-lið 2. mgr. 119. gr. laganna. Tvö skilyrði þurfa þá að vera uppfyllt. Í fyrsta lagi verður vitnisburðurinn að geta ráðið úrslitum um niðurstöðu máls. Hins vegar þurfa ríkari hagsmunir að vera fyrir því að spurningunum verði svarað en trúnaði haldið.

         Eins og mál þetta er vaxið er á það fallist með sóknaraðila að það geti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamálsins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað barst í hendur blaðamanns á mbl.is. Að þessu leyti er fullnægt áskilnaði 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008

         Í athugasemdum við 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að við hagsmunamat samkvæmt ákvæðinu verði dómari annars vegar að leggja mat á trúnaðarsambandið og eðli þess og hins vegar alvarleika málsins. Því alvarlegri sem sakargiftir eru, þeim mun líklegra er að trúnaði verði aflétt og því ríkari sem trúnaður er, því líklegra er að hann haldi.

         Samkvæmt 18. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins ber ríkisstarfsmanni að gæta þagmælsku um atriði er hann fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanns eða eðli málsins. Til skýringar á þessari vísireglu má meðal annars líta til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 þar sem fram kemur að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari. Að þessu leyti miða þagnarskyldureglur að því að vernda friðhelgi einkalífs einstaklinga. Þessi sjónarmið eiga meðal annars við um þær upplýsingar sem fram komu um A og konurnar tvær sem vikið var að í minnisblaðinu. Þá miða þagnarskyldureglur að því skapa traust þeirra sem hlut eiga að máli á því að stjórnvöld noti viðkvæmar upplýsingar af þessu tagi einungis í málefnalegum og lögmætum tilgangi í því skyni að komast að niðurstöðu í því máli sem til úrlausnar er. Þannig er markmið þagnarskyldureglna ekki einungis að vernda friðhelgi einkalífs þeirra sem upplýsingarnar eru um, heldur tengjast þær einnig almennum markmiðum um að stjórnarathafnir séu reistar á traustum og málefnalegum grundvelli.

         Áður er vikið að því að brot opinbers starfsmanns á þagnarskyldu sem á honum hvílir getur varðað allt að eins árs fangelsi, en allt að tveggja ára fangelsi hafi brotið falið í sér misnotkun á stöðu starfsmannsins. Þegar tekið er mið af þessum viðurlögum verða sakargiftir vart taldar alvarlegar í samanburði við ýmis önnur mál. Á hinn bóginn eru mikilvægir verndarhagsmunir í húfi sem tengjast bæði friðhelgi einkalífs þeirra sem í hlut eiga og kröfum um málefnalega og vandaða stjórnsýslu. Í þessu ljósi er á það fallist að ríkir hagsmunir séu tengdir því sé að upplýsa hver beri ábyrgð á því að umrætt minnisblað komst í hendur óviðkomandi.

          Veigamikill þáttur í tjáningarfrelsi fjölmiðla felst í því að geta tekið við og miðlað upplýsingum sem almenning varðar án íhlutunar stjórnvalda og annarra valdamikilla aðila í samfélaginu. Til þess að tryggja að fjölmiðlar geti sinnt þessu hlutverki er mikilvægt að fjölmiðlamenn geti heitið heimildarmönnum sínum trúnaði sem haldi þegar þrýst er á þá að upplýsa hvaðan þeir hafi fengið upplýsingarnar. Ella er hætt við að upplýsingar, sem geta haft þýðingu fyrir almenning, komi síður upp á yfirborðið. Af þessum sökum er litið á trúnaðarskyldu fjölmiðlamanna gagnvart heimildamönnum sem mikilvægan þátt í tjáningarfrelsi fjölmiðla sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

         Samkvæmt framansögðu eru ríkir, almennir hagsmunir tengdir því að trúnaðarsambandi varnaraðila og heimildarmanns mbl.is verði ekki raskað á þann hátt sem sóknaraðili fer fram á. Þá er til þess að líta að við mat á því hvort aflétta eigi nafnleynd höfundar og heimildarmanns mbl.is hljóta að koma til skoðunar þau skilyrði sem 73. gr. stjórnarskrárinnar setur við því að reisa tjáningarfrelsinu skorður. Í 3. mgr. ákvæðisins er meðal annars kveðið á um að skorður við tjáningarfrelsinu verði að vera nauðsynlegar og samrýmast lýðræðishefðum.

         Þegar mat er lagt á það hvort nauðsyn krefjist þess að varnaraðila verði gert að upplýsa um heimildarmann mbl.is og höfund fréttarinnar skiptir meðal annars máli hvort ætla megi að unnt sé að varpa ljósi á hver beri ábyrgð á því að minnisblaðið barst úr ráðuneytinu með öðru og vægara móti en sóknaraðili fer fram á. Af þessu leiðir að við hagsmunamat samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 verður meðal annars að skoða hvort lögreglan hafi við rannsókn málsins gripið til annarra og vægari rannsóknarúrræða án þess að það hafi borið árangur.

         Lögreglan hefur, eins og áður er vikið að, tekið skýrslur af fjórum starfsmönnum innanríkisráðuneytisins við rannsókn málsins. Fram er komið að skrifstofustjóri ráðuneytisins sendi minnisblaðið með tölvupósti til ráðuneytisstjóra, tveggja aðstoðarmanna ráðherra auk innanríkisráðherra kl. 17:17 hinn 19. nóvember 2013. Engar skýrslur hafa enn verið teknar af þessum aðilum og ekki hefur verið leitað heimildar til að afla upplýsinga um símnotkun þeirra á þeim tíma sem minnisblaðið barst úr ráðuneytinu. Ekki hefur því verið leitað allra þeirra leiða sem færar eru til þess að upplýsa málið áður en farið var fram á að varnaraðili svaraði spurningum lögreglu. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja að sóknaraðili hafi ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að nauðsyn beri til þess að grípa til þess úrræðis sem fram kemur í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Kemur þá ekki frekari skoðunar hvort vegi þyngra að upplýsa brotið eða að trúnaður haldi.

         Fyrir liggur að varnaraðili er reiðubúin að svara því hvort mbl.is hafi haft minnisblaðið undir höndum er umrædd frétt var rituð 20. nóvember 2013. Með vísan til framangreindra röksemda telur dómurinn að hafna beri öðrum kröfum sóknaraðila, þar á meðal að varnaraðila verði gert að upplýsa um höfund fréttarinnar sem birtist kl. 10.55 20. nóvember 2013, sbr. a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, sem og með hvaða hætti og frá hverjum minnisblað innanríkisráðuneytisins hafi borist mbl.is., enda getur svar við báðum spurningunum varpað ljósi á hver heimildarmaður vefmiðilsins er.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Hafnað er kröfu sóknaraðila um að varnaraðila, X, verði gert að svara spurningunni: „Hver ritaði fréttina „Margt óljóst í máli hælisleitanda“ sem birt var á mbl.is að morgni miðvikudagsins 20. nóvember 2013, kl. 10:55?“, sem og með hvaða hætti mbl.is hafi komist yfir minnisblað innanríkisráðuneytisins og frá hverjum það hafi borist.