Print

Mál nr. 229/2015

Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Eignarréttur
  • Stjórnarskrá
  • Lögjöfnun
  • Tilkynning

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 5. nóvember 2015.

Nr. 229/2015.

Edda Guðmundsdóttir

Ellen Herdís Steingrímsdóttir

Guðmundur Steingrímsson

Hermann Ö. Steingrímsson

Hlíf Steingrímsdóttir og

John Bryan Steingrímsson

(Tómas Hrafn Sveinsson hrl.)

gegn

Lánasjóði íslenskra námsmanna

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Lánssamningur. Sjálfskuldarábyrgð. Eignarréttur. Stjórnarskrá. Lögjöfnun. Tilkynning.

Í málinu var deilt um það hvort E o.fl. sem erfingjar í dánarbúi SH, sem hafði verið skipt einkaskiptum, bæru gagnvart L ábyrgð á skuldbindingum hans sem sjálfskuldarábyrgðarmanns á námslánum SNS en á því var dómkrafa L á hendur þeim reist. Ekki var fallist á með E o.fl. að ábyrgðarskuldbinding SH yrði með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga vikið til hliðar í heild eða að hluta, hvorki vegna atvika við samningsgerðina, atvika sem síðar komu til né vegna efnis ábyrgðarskuldbindinganna. Þá var ekki fallist á að efnisreglu 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna, er kveður á um að endurgreiðslur af námslánum sem koma í gjalddaga eftir andlát lánþega falla sjálfkrafa niður, yrði beitt með lögjöfnun við andlát ábyrgðarmanns. Talið var að E o.fl. hefðu ekki sýnt fram á að fastmótuð stjórnsýsluframkvæmd hefði verið til staðar hjá L við innheimtu námslána eftir andlát ábyrgðarmanns og að henni hefði verið breytt á óheimilan hátt. Þá hefðu E o.fl. ekki getað haft réttmætar væntingar um að innheimtu gagnvart þeim í skjóli ábyrgðarskuldbindingar SH yrði hagað með öðrum hætti en birtar reglur L hefðu kveðið á um. Fallist var á með E o.fl. að L hefði vanrækt tilkynningarskyldu gagnvart þeim samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, en um afleiðingar þess ræddi í 2., 3. og 4. mgr. lagagreinarinnar. Talið var að þótt L hefði gjaldfellt lánið gagnvart SNS, áður en hann hefði gefið E o.fl. sem ábyrgðarmönnum kost á að koma því í skil og gefa út nýtt skuldabréf fyrir eftirstöðvunum, hefði L með því boði sínu til E o.fl. fullnægt skyldu sinni samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna. Þá hefði L, með því að gagnáfrýja ekki niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um greiðslu dráttarvaxta af hinni gjaldfelldu skuld og málskostnaðar, axlað gagnvart E o.fl. skyldur lánveitanda samkvæmt 3. mgr. sömu greinar. Gæti þetta því ekki ekki leitt til sýknu þeirra. Loks var ekki talið að um verulega vanrækslu L hefði verið að ræða í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 23/2009. Samkvæmt framansögðu var fallist á dómkröfu L

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. mars 2015. Þau krefjast sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi tók Steingrímur Neil Steingrímsson 28 námslán hjá stefnda á árunum 1983 til 1987. Var faðir hans, Steingrímur Hermannson, umboðsmaður lántaka við lánveitingarnar, undirritaði lánsskjöl og var sjálfskuldarábyrgðarmaður á öllum þeim skuldabréfum sem út voru gefin í tilefni lánveitinganna. Áfrýjandinn Hlíf sem er dóttir Steingríms Hermannssonar og hálfsystir lántaka var vottur að undirritunum föður síns á einu skuldabréfi sem út var gefið af þessu tilefni 22. ágúst 1987. Endurgreiðslur framangreindra lána sem samkvæmt reglum stefnda miðuðust við námslok lántaka hófust 1. september 1991 og voru lánin í skilum til gjalddaga 1. mars 2010 en frá og með honum hefur ekkert verið greitt af skuldinni.

Steingrímur Hermannsson lést 1. febrúar 2010 og 18. sama mánaðar fékk ekkja hans, áfrýjandinn Edda, leyfi til setu í óskiptu búi. Erfingjum Steingríms Hermannssonar var veitt leyfi til einkaskipta 23. desember 2010 og lauk skiptum dánarbúsins 30. sama mánaðar. Lántakanum Steingrími Neil var með bréfi stefnda 3. júlí 2012 tilkynnt að vegna verulegra vanskila hefði öll skuldin verið gjaldfelld og var jafnframt skorað á hann að greiða hana án tafar að fullu. Áfrýjendunum Hermanni, Guðmundi og Hlíf var með bréfum lögmanns stefnda 23. október 2012 tilkynnt um vanskilin og gjaldfellingu skuldarinnar. Athygli þeirra var jafnframt vakin á því að samkvæmt 97. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. bæru þau sem erfingjar í dánarbúi Steingríms Hermannssonar óskipta ábyrgð á umræddri skuld á grundvelli framangreindrar sjálfskuldarábyrgðar. Voru þau beðin um að hafa samband við skrifstofu lögmannsins við fyrsta tækifæri til greiðslu eða samninga um uppgjör ábyrgðarskuldbindingarinnar. Í bréfum lögmanns stefnda 7. janúar 2013 til áfrýjendanna Eddu, Hermanns, Hlífar og Guðmundar voru rakin samskipti aðila og þeim boðið að koma skuldinni í skil með því að greiða vanskilin upp. Þá sagði einnig að áfram stæði boð stefnda um að þau gæfu út nýtt skuldabréf til allt að 10 ára fyrir eftirstöðvum skuldarinnar. Af gögnum málsins verður ekki séð að áfrýjendur hafi brugðist við þessu erindi og með bréfum lögmanns stefnda 9. júlí 2013 til sömu áfrýjenda var skorað á þau að greiða skuldina við fyrsta tækifæri því ella mætti búast við því að hún yrði innheimt fyrir atbeina dómstóla.

II

Í málinu er ágreiningur um hvort áfrýjendur sem erfingjar í dánarbúi Steingríms Hermannssonar, sem eins og áður getur var skipt einkaskiptum, beri gagnvart stefnda ábyrgð á skuldbindingum hans sem sjálfskuldarábyrgðarmanns á námslánum Steingríms Neil Steingrímssonar en á því er dómkrafa stefnda á hendur þeim reist. Áfrýjendur telja að svo sé ekki og eru varnir þeirra í aðalatriðum þríþættar. Þau halda því í fyrsta lagi fram að samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sé það ósanngjarnt af hálfu stefnda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera ábyrgðina fyrir sig. Í öðru lagi að stefndi hafi með ólögmætum hætti breytt stjórnsýsluframkvæmd við innheimtu lána gagnvart erfingjum þegar búi ábyrgðarmanns er skipt einkaskiptum og geti stefndi af þeirri ástæðu ekki borið sjálfskuldarábyrgð Steingríms Hermannssonar fyrir sig gagnvart áfrýjendum. Í þriðja lagi sé ábyrgð áfrýjenda fallin niður þar sem stefndi hafi vanrækt verulega tilkynningarskyldu sína gagnvart þeim samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.

III

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að kröfu stefnda í máli þessu, sem rekið er samkvæmt XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sé réttilega beint að áfrýjendum á grundvelli þeirra 28 skuldabréfa sem áður er getið og að útreikningi stefnda á fjárhæð dómkröfunnar hafi ekki verið hnekkt. Þá er og með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að ábyrgðarskuldbindingum þeim sem Steingrímur Hermannsson gekkst í fyrir Steingrím Neil Steingrímsson og áður er lýst verði ekki með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936 vikið til hliðar í heild eða að hluta, hvorki vegna atvika við samningsgerðina, atvika sem síðar komu til né vegna efnis ábyrgðarskuldbindinganna.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna falla endurgreiðslur af námslánum sem koma í gjaldaga eftir andlát lánþega sjálfkrafa niður. Samkvæmt orðalagi sínu tekur lagaákvæðið eingöngu til þeirrar stöðu sem kemur upp þegar lántaki andast en lætur ósagt hver reglan sé þegar ábyrgðarmaður láns andast. Með sjálfskuldarábyrgð Steingríms Hermannssonar á námslánum Steingríms Neil stofnuðust stefnda til handa tryggingarréttindi í formi persónulegrar skuldbindingar Steingríms Hermannssonar og er þar um að ræða eignarréttindi sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 274/2010. Stendur þetta eðli réttindanna því í vegi að 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 verði gefin rýmri merking með skýringu en felst í bókstaflegum skilningi orða hennar og girðir jafnframt fyrir að efnisreglu ákvæðisins verði með lögjöfnun beitt um önnur tilvik en þau sem beinlínis heyra undir það, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4. júní 2015 í máli nr. 475/2014. Er samkvæmt þessu staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að efnisreglu 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 verði ekki beitt með lögjöfnun við andlát ábyrgðarmanns.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið efni rafbréfs er lögfræðingur í starfi hjá stefnda sendi lögmanni áfrýjenda 7. október 2013 sem svar við fyrirspurn hins síðarnefnda. Af hálfu stefnda er því haldið fram að efni rafbréfsins sé efnislega rangt. Því til stuðnings hefur stefndi lagt fram minnisblað lögmanns sem annast hefur innheimtu fyrir hann en minnisblaðið er frá 17. janúar 1997 og var beint til þáverandi forstjóra hans. Þar var vikið að áhrifum þess að ábyrgðarmaður að námsláni andast og sagði að við það hafi verið miðað að félli ábyrgðarmaður frá kæmi tvennt til greina. Annars vegar að lánþega væri gefinn kostur á að setja annan ábyrgðarmann í stað hins látna og hefði stefndi útbúið sérstakt eyðublað þar að lútandi. Hins vegar ef aðalskuldari eða ábyrgðarmenn hlutuðust ekki til um að skipt yrði um ábyrgðarmann að erfingjar hins látna tækju við ábyrgð hans á námsláninu eftir almennum reglum ef þeir hefðu á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins, sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991. Af því sem hér var rakið verður í mesta lagi ráðið að framkvæmd stefnda við innheimtu gjaldfallinna námslána í framhaldi af andláti ábyrgðarmanns kunni að hafa verið á reiki. Hafa áfrýjendur því ekki sýnt fram á að fastmótuð stjórnsýsluframkvæmd hafi verið til staðar hjá stefnda við innheimtu námslána eftir andlát ábyrgðarmanns.

Hvað staðhæfingar áfrýjenda um breytta stjórnsýsluframkvæmd varðar er einnig til þess að líta að samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 21/1992 er það meðal hlutverka stjórnar stefnda að setja reglur um úthlutun námslána. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laganna setur sjóðstjórn reglur um atriði er greinir í lögunum og reglugerð samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar og skulu þær samþykktar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Slíkar úthlutunarreglur hafa verið settar árlega. Í þeim hefur um langt árabil verið samhljóða ákvæði í grein 5.3.3 þess efnis að látist ábyrgðarmaður geti lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann en að öðrum kosti taki erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbús. Af þessu leiðir að það stendur ekki í valdi stjórnar stefnda að víkja í framkvæmd frá þeim reglum um úthlutun og innheimtu námslána sem ráðherra hefur samþykkt og birtar hafa verið í Stjórnartíðindum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að sýknukrafa áfrýjenda geti ekki náð fram að ganga á þeim grundvelli að áratugalangri stjórnsýsluframkvæmd hafi verið breytt á óheimilan hátt. Af hinu sama leiðir að þegar áfrýjendur skiptu dánarbúi Steingríms Hermannssonar einkaskiptum í árslok 2010 gátu þau ekki haft réttmætar væntingar um að innheimtu gagnvart þeim í skjóli ábyrgðarskuldbindingar Steingríms yrði hagað með öðrum hætti en birtar reglur stefnda kváðu á um. Getur þetta því heldur ekki leitt til sýknu áfrýjenda.

Loks er sýknukrafa áfrýjenda á því reist að ábyrgðarskuldbinding þeirra, sem er leidd af sjálfskuldarábyrgð Steingríms Hermannssonar, sé samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 fallin niður, þar sem stefndi hafi vanrækt verulega tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar gagnvart áfrýjendum. Í 2. gr. laga nr. 32/2009 er afdráttarlaust kveðið á um að þau gildi um lánveitingar stefnda. Samkvæmt 12. gr. laganna taka þau til ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku þeirra með þeim takmörkunum sem fram koma í ákvæðinu en þar er þess getið að ákvæði 4. gr., 5. gr., 1. mgr. 6. gr. og 8. gr. laganna taki ekki til eldri ábyrgða. Af þessu leiðir að stefnda bar gagnvart áfrýjendum að fullnægja tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna og innan þeirra tímamarka sem þar greinir. Það gerði stefndi á hinn bóginn ekki. Um afleiðingar vanrækslu á tilkynningarskyldu ræðir í 2., 3. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Í 4. mgr. 7. gr. laganna kemur fram að lánveitandi getur ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema honum hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir þess. Þótt stefndi hafi samkvæmt því sem fyrr er rakið gjaldfellt lánið gagnvart lántakanum Steingrími Neil, áður en hann gaf áfrýjendum sem ábyrgðarmönnum kost á að koma því í skil og gefa út nýtt skuldabréf fyrir eftirstöðvunum, hefur stefndi með því boði sínu til áfrýjenda fullnægt skyldu sinni samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 29. október 2015 í máli nr. 196/2015. Getur þessi vanræksla stefnda því með engu móti leitt til sýknu áfrýjenda af kröfu hans.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verður ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslu dráttarvaxta eða annars innheimtukostnaðar lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun. Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjendum gert að greiða stefnda dráttarvexti af hinni gjaldfelldu skuld frá þingfestingardegi málsins í héraði og málskostnaður gagnvart þeim felldur niður. Stefndi sem ekki gagnáfrýjaði héraðsdómi unir þeirri niðurstöðu og hefur með þeirri afstöðu meira en axlað gagnvart áfrýjendum skyldur lánveitanda samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Getur þetta heldur ekki leitt til sýknu áfrýjenda.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 kemur fram að ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Eins og áður getur stofnuðust með sjálfskuldarábyrgð Steingríms Hermannssonar á námslánum sonar hans Steingríms Neil tryggingarréttindi stefnda til handa í formi persónulegrar skuldbindingar og er þar um að ræða eignarréttindi sem varin eru af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í því ljósi og með hliðsjón af orðalagi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 er ljóst að þau eignarréttindi stefnda geta ekki á grundvelli fyrrgreinds lagaboðs fallið niður nema áfrýjendur sýni fram á að stefndi hafi við beitingu réttinda sinna valdið áfrýjendum sem ábyrgðarmönnum öðrum og meiri skaða en bættur verður með úrræðum 3. og 4. mgr. 7. gr. laganna. Áfrýjendur sem samkvæmt framansögðu mátti vera kunnugt um tilvist sjálfskuldarábyrgðarinnar hafa ekki sýnt fram á það með málatilbúnaði sínum. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að ekki hafi verið um að ræða verulega vanrækslu stefnda í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

Af öllu framangreindu leiðir að hinn áfrýjaði dómur verður staðfestur.

Rétt er að hver aðili beri sinn kostnað af rekstri máls þessa fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. febrúar 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. janúar 2015, var höfðað með stefnu útgefinni þann 2. ágúst 2013 af Lánasjóði íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, á hendur Steingrími Neil Hermannssyni, 20024 NW, 56th Ave, Miami, FL 33055, Bandaríkjunum, Eddu Guðmundsdóttur, Löngulínu 12, 210 Garðabæ, Hermanni Ö. Steingrímssyni, Frostaskjóli 79, 107 Reykjavík, Hlíf Steingrímsdóttur, Grjótási 8, 210 Garðabæ, Guðmundi Steingrímssyni, Nesvegi 59, 107 Reykjavík, John Bryan Steingrímssyni, 314 Grand Street, Redwood City, CA 94062, Bandaríkjunum, og Ellen Herdísi Steingrímsdóttur, 14510 Indigo Lakes Cir, Naples, FL 34119-4810108, Bandaríkjunum.

I.

        Stefnandi gerir þá dómkröfu að stefndu verði gert að greiða stefnanda sameiginlega (in solidum) 12.071.962 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 62.516 kr. frá 1.3.2010 til 1.9.2010, en af 376.293 kr. frá 1.9.2010 til 1.3.2011, en af 440.444 kr. frá 1.3.2011 til 1.9.2011, en af 665.726 kr. frá 1.9.2011 til 1.3.2012, en af 733.228 kr. frá 1.3.2012 til 2.7.2012, en af 12.071.962 kr. frá 2.7.2012 til greiðsludags.

        Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd sameiginlega (in solidum) til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum 24% virðisaukaskatti.

        Stefndi, Steingrímur Neil Steingrímsson, krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi þess að hann verði sýknaður. Til þrautavara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.

        Í öllum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

        Stefndu, Edda Guðmundsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Hlíf Steingrímsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi.

        Til vara krefjast stefndu þess að þau verði sýknuð.

        Til þrautavara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.

         Í öllum tilvikum gera stefndu kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

         Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. júlí 2014 var frávísunarkröfum stefndu hafnað.

        Í upphafi aðalmeðferð gerði lögmaður stefnanda grein fyrir því að stefnufjárhæð, sem var 12.072.462 kr., væri lækkuð um 500 kr. í 12.071.962 kr., sem væri rétt samtala gjalddaga í vanskilum og gjaldfallinna eftirstöðva. Þá var leiðrétt krafa um málskostnað vegna lækkunar á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24%.

II.

Málsatvik

        Krafa stefnanda er tilkomin vegna námslána stefnda Steingríms Neil Hermannssonar, sem hann tók hjá stefnanda. Til námslánaskuldarinnar var stofnað með útgáfu skuldabréfa á námsárum stefnda Steingríms Neil á árunum 1983-1987, en númer þeirra og upphafleg fjárhæð var eftirfarandi: T-10155 94.300 kr., T-11947 21.000 kr., T-13963 99.000 kr., T-17451 35.000 kr., T-22099 118.000 kr., T-22639 54.800 kr., T-22675 28.800 kr., T-22702 122.000 kr., T-22703 91.900 kr., T-38869 51.100 kr., T-042399 100.400 kr., T-45205 55.000 kr., T-47598 81.900 kr., T-52506 103.800 kr., T-52507 121.100 kr., T-69385 61.267 kr., T-74635 57.092 kr., T-74636 4.404 kr., T-63503 53.800 kr., T-69386 96.339 kr., T-76714 90.248 kr., T-76717 100.973 kr., T-84028 28.679 kr., T-90805 82.900 kr., T-91451 94.488 kr., T-98043 123.626 kr., T-99580 84.507 kr., og T-109004 43.290 kr.

        Lánin voru verðtryggð miðað við breytingar á lánskjaravísitölu Seðlabanka Íslands, sbr. lög nr. 13/1979. Skyldi verðtryggingin reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að lánið var tekið eða einstakir hlutar þess greiddir út, til fyrsta dags þess mánaðar þegar greiðsla færi fram. Samkvæmt skilmálum allra skuldabréfanna skyldi endurgreiðsla námslánanna hefjast þremur árum eftir námslok. Árleg endurgreiðsla lána ákvarðast skv. ákvæðum skuldabréfanna í tvennu lagi. Föst árleg greiðsla er 1.200 kr. miðað við lánskjaravísitölu 135 nema eftirstöðvar láns ásamt verðbótum séu lægri. Þessi upphæð breytist á hverju ári í hlutfalli við lánskjaravísitölu 1. janúar hvers árs. Gjalddagi föstu ársgreiðslunnar er 1. febrúar. Viðbótargreiðsla miðast við ákveðinn hundraðshluta af útsvarsstofni næsta ár á undan endurgreiðslu. Hundraðshluti þess er 3,75% margfaldaður samkvæmt hlutfallslegri breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári. Frá þessum hundraðshluta af útsvarsstofni dregst fasta greiðslan. Gjalddagi viðbótargreiðslunnar er 1. september. Hverri árlegri endurgreiðslu skal skipt á höfuðstól og verðbætur í hlutfalli, annars vegar við lánskjaravísitölu við lántöku og hins vegar hækkun vísitölu fram að þeim tíma þegar endurgreiðsla er innt af hendi.

       Í skuldabréfunum er ákvæði um að standi lántaki ekki í skilum  með greiðslu afborgana sé lánið allt gjaldfallið án uppsagnar og jafnframt tekið fram að risi mál út af þeim skuli lántakandi og ábyrgðarmenn láns skylt að svara til saka fyrir bæjarþingi Reykjavíkur og málsmeðferð þá lúta reglum 17. kafla laga nr. 85/1936.

        Að loknu námi voru veitt námslán sameinuð og þeim gefið nýtt sameiginlegt númer, S-910904.

       Stefndi Steingrímur Neil gaf Steingrími Hermannssyni þann 9.3.1980 fullt og ótakmarkað umboð til að koma fram fyrir hans hönd gagnvart stefnanda vegna lántöku hjá stefnanda, móttöku ferðastyrks og annarra styrkja. Auk þess veitti hann honum umboð til að útvega fyrir hann ábyrgðarmenn.

         Steingrímur Hermannsson gaf út öll skuldabréfin fyrir hönd stefnda Steingríms Neil samkvæmt framangreindu umboði og tók jafnframt á sig sjálfskuldarábyrgð á öllum framangreindum skuldabréfum til tryggingar skilvísri greiðslu á höfuðstól námslánanna að viðbættum verðtryggingum og þeim kostnaði sem vanskil lántakanda kynnu að valda.

         Endurgreiðslur skv. námslánaskuldinni hófust þann 1.9.1991 og voru í skilum þar til á gjalddaga afborgunar þann 1.3.2010. Síðan hefur ekkert verið greitt af skuldinni. Steingrímur Hermannsson lést þann 1.2.2010. Samkvæmt yfirliti um framvindu skipta á dánarbúi Steingríms, veitti Sýslumaðurinn í Hafnarfirði erfingjum þann 8.2.2010 heimild til að krefjast upplýsinga hjá öðrum um eignir búsins og skuldastöðu þess, sbr. 24. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Búsetuleyfi var veitt veitt þann 18.2.2010 og  leyfi til einkaskipta á dánarbúinu var  veitt þann 23.12.2010 og einkaskiptum lauk þann 30.12.2010. Stefndu tóku á sig sjálfskuldarábyrgð sameiginlega á öllum skuldbindingum dánarbúsins, er sótt var um leyfi til einkaskipta á dánarbúi Steingríms Hermannssonar, sbr. 5. tölulið 28. gr. laga nr. 20/1991.

        Vegna verulegra vanskila allt frá gjalddaga þann 1.3.2010 var skuldin öll gjaldfelld þann 2.7.2012. Með bréfi TCM innheimtu, dags. 23. október 2012, var stefndu Eddu Guðmundsdóttur, Hermanni Ö. Steingrímssyni, Hlíf Steingrímsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni, John Bryan Steingrímssyni og Ellen Herdísi Steingrímsdóttur tilkynnt að til innheimtu væri framangreint námslán stefnda Steingríms Neil, sem faðir þeirra heitinn, Steingrímur Hermannsson, hefði tekið á sig sjálfskuldarábyrgð vegna. Vegna vanskila frá gjalddaga þann 1. mars 2010 hafi námslánið allt verið gjaldfellt þann 2. júlí 2012, sbr. hjál. tilkynningu um gjaldfellingu. Nokkur samskipti fóru síðan fram milli innheimtufyrirtækisins og stefndu án þess að krafan væri greidd.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 28. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. geti sýslumaður veitt erfingjum hins látna leyfi til einkaskipta að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Eitt þessara skilyrða, sbr. 5. tölul. 28. gr. laganna, sé að erfingjar taki á sig sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kunna að hvíla á búinu og gjöldum sem leiði af skiptunum eða arftöku. Í 97. gr. laga nr. 20/1991 sé hnykkt á þessari sjálfskuldarábyrgð erfingja, en samkvæmt ákvæðinu beri erfingjar sem leyfi hafa fengið til einkaskipta sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum búsins eftir að einkaskiptum sé lokið, án tillits til þess hvort þeim var kunnugt um þær áður en skiptum var lokið. Sjálfskuldarábyrgð erfingja á skuldbindingum dánarbús standi því ekki aðeins á meðan einkaskiptin fari fram, heldur einnig eftir lok þeirra.

        Í yfirliti frá Sýslumanninum í Hafnarfirði komi fram að stefndu, Edda Guðmundsdóttir, Hlíf Steingrímsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan, Ellen Herdís og Steingrímur Neil væru lögerfingjar Steingríms Hermannssonar.

        Vegna verulegra vanskila allt frá gjalddaga þann 1.3.2010 hafi skuldin öll verið gjaldfelld þann 2.7.2012. Nánari sundurliðun kröfunnar sé sem hér segir:

Gjalddagi

Upphæð

1.3.2010

1.9.2010

1.3.2011

1.9.2011

1.3.2012

2.7.2012

62.516,00

313.777,00

64.151,00

225.282,00

67.502,00

11.338.734,00

Eða alls 12.071.962 kr., sem sé stefnufjárhæð þessa máls.

        Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé stefnanda því nauðsyn að fá dóm fyrir kröfu sinni.

        Stefnandi rekur mál þetta sem skuldabréfamál eftir ákvæðum XVII. kafla laga nr 91/1991 samkvæmt ákvæðum skuldabréfsins.

       Stefnandi byggir á því að með áritun Steingríms Hermannssonar skv. umboði þann 9.3.1980 á skuldabréfið hafi stefndi Steingrímur Neil Hermannsson skuldbundið sig til að greiða skuldina í samræmi við skilmála skuldabréfsins. 

        Þá byggir stefnandi á því að stefndu, Edda Guðmundsdóttir, Hlíf Steingrímsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir hafi tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu námslánaskuldarinnar, einn fyrir alla og allir fyrir einn, með því að rita undir yfirlýsingu um að þau tækju að sér sjálfskuldarábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins, er sótt var um leyfi til einkaskipta á dánarbúi Steingríms Hermannssonar, sbr. 5. tölulið 28. gr. laga nr. 20/1991.

         Varðandi lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og til meginreglu kröfuréttar um ábyrgðarskuldbindingar. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., einkum til 24. gr., 28. gr. og 97. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til laga nr. 21/1992, einkum II. kafla laganna. Kröfu um vexti og dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og kröfu um málskostnað við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991. Um varnarþing vísar stefnandi til ákvæða bréfsins sjálfs og 1. og 3. mgr. 42. gr., sbr. 43. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu um virðisaukaskatt styður stefnandi við lög nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt úr hendi stefndu.

Málsástæður og lagarök stefnda Steingríms Neil Steingrímssonar

        Stefndi Steingrímur Neil vísar til þess að stefnandi byggi málsókn sína á skuldabréfum, sem stefndi hafi gefið út vegna námslána og gefin hafi verið út á árunum 1983-1987. Alls séu þetta 28 skuldabréf. Tvö þessara bréfa séu gefin út árið 1988, þ.e. T-109004, dags. 2. maí 1988, og T-99580, dags. 6. janúar 1988. Í stefnu sé því lýst að samkvæmt skilmálum skuldabréfanna 28 skyldi endurgreiðsla námslánanna hefjast þremur árum eftir námslok. Í framhaldinu segi orðrétt í stefnunni: „Að loknu námi voru veitt námslán sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer S-910904.“ Stefnandi telji að endurgreiðslur hafi hafist 1. september 1991 og verið í skilum þar til á gjalddaga afborgunar þann 1. mars 2010. Stefnandi útskýri ekki frekar í stefnu „sameiningu“ skuldabréfanna en virðist byggja stefnukröfu sína á afsprengi þessarar sameiningar, þ.e. skuldabréfi nr. S-910904. Stefnandi kveði þetta skuldabréf vera dagsett 8. febrúar 1991 jafnvel þótt endurgreiðslur hafi ekki hafist fyrr en 1. september 1991, að sögn stefnanda. Í innheimtuviðvörun segi að „Númer skuldabréfs“ sé S-910904. Þetta skuldabréf númer S-910904 sé ekki meðal gagna svo sem skylt sé samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991

        Þá sé kröfugerð stefnanda í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í stefnu er því lýst að krafa stefnanda byggist á 28 skuldabréfum sem virðast hafa verið „... sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer S-910904“. Stefnandi byggi þrátt fyrir það ekki á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um kröfusamlag. Engin lagaheimild sé í þágildandi lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, fyrir þessari „sameiningu“ stefnanda árið 1991 á kröfum samkvæmt 28 skuldabréfum.

        Í stefnunni sé gerð grein fyrir sundurliðun dómkröfu stefnanda. Vísað sé til gjalddaga 1. mars 2010, 1. september 2010, 1. mars 2011, 1. september 2011, 1. mars 2012 og svo til gjaldfellingar skuldabréfsins S-910904 þann 3. júlí 2012. Stefnandi kveði stefnufjárhæðina í kjölfar gjaldfellingar vera 12.072.462 kr. Engan frekari rökstuðning eða útskýringu sé að finna í stefnunni á stefnufjárhæðinni. Í stefnu sé ekki útskýrt hvernig stefnandi reikni út þær fjárhæðir sem hann leggi til grundvallar þeim fimm gjalddögum sem komu til fyrir gjaldfellingu skuldabréfsins S-910904. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 skuli stjórn stefnanda áætla tekjustofn stefnda vegna árlegrar viðbótargreiðslu. Sama komi fram í 11. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um stefnanda. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn í þessu máli um ákvarðanir stjórnar stefnanda um áætlun tekna stefnda til að finna út tekjustofn til útreiknings á afborgunum námslána hans, svo sem skylt sé samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um stefnanda.

        Verði talið að stefnukrafan byggist á framangreindum 28 skuldabréfum, en ekki skuldabréfi nr. S-910904, sé kröfunni mótmælt af hálfu stefnda sem vanreifaðri og verulega óskýrri. Enginn útreikningur sé í stefnu eða öðrum gögnum málsins á því hvernig greiðslur stefnda á árunum 1991 til 2010 hafi farið inn á einstök skuldabréf og hvort eða hvernig afborgunum hafi verið ráðstafað inn á bréfin. Einnig skortir með öllu að fullnægjandi grein sé gerð fyrir því hvernig samtala 28 skuldabréfa geti verið 12.072.462 kr. líkt og stefnandi haldi fram. Engir útreikningar á þessum 28 skuldabréfum liggja fyrir í málinu. Ekki sé gerð grein fyrir áhrifum verðtryggingar, verðbóta eða vaxta á þessi 28 skuldabréf. Engin sundurliðun sé lögð fram af hálfu stefnanda að þessu leyti. Samtals sé nafnverð þessara skuldabréfa 2.073.713 kr., en stefnandi haldi því fram að upprunalegur höfuðstóll hafi verið kr. 4.893.948.

        Stefndi Steingrímur Neil vísar til þess að stefnandi segist hafa sent honum þann 21. október 2010 innheimtuviðvörun á íslensku vegna skuldabréfs nr. S-910904. Engin gögn séu lögð fram af hálfu stefnanda um móttöku stefnda á þessari innheimtuviðvörun eða að hann, sem sé bandarískur ríkisborgari sem hvorki tali né skilji íslensku, hafi skilið efni hennar. Innheimtuviðvörunin sé ekki undirrituð og engin sönnun sé fyrir því að hún hafi verið send til stefnda. Stefndi mótmælir því að hafa fengið innheimtuviðvörunina.

        Þá vísar stefndi til þess að þegar erfingjar Steingríms Hermannssonar hafi fengið leyfi hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði til einkaskipta þann 23. desember 2010 hafi verið stjórnsýsluframkvæmd og áralöng venja hjá stefnanda að ganga ekki að erfingjum ábyrgðarmanna við einkaskipti dánarbúa vegna skulda hjá stefnanda. Einkaskiptum hafi síðan lokið þann 30. desember 2010.

        Þá mótmælir stefndi því að hafa fengið þau bréf sem stefnandi hafi lagt fram í ljósriti og segist hafa sent stefnda vegna kröfu S-910904. Engin gögn liggi fyrir um að þau hafi verið send eða borist stefnda.

        Þá vísar stefndi til þess að í byrjun árs 2012 hafi stefnandi án tilkynningar eða formlegrar kynningar ákveðið að breyta stjórnsýsluframkvæmd sinni afturvirkt við innheimtu skulda hjá erfingjum ábyrgðarmanna við einkaskipti á dánarbúum og vísar til tölvusamskipta lögmanns stefndu og lögfræðings stefnanda. Stefnandi hafi þannig árið 2012 byrjað að ganga að erfingjum ábyrgðarmanna sem hafi fengið leyfi til einkaskipta fjögur ár aftur í tímann. 

         Á dómskjali nr. 9, bls. 7, sem sé bréf til stefnda, dags. 3. júlí 2012, komi fram að stefnandi hafi ákveðið að gjaldfella námslán með lánsnúmerið S-910904. Í þessu bréfi segi: „Þar sem um er að ræða veruleg vanskil hefur lánið allt verið gjaldfellt í samræmi við skilmála bréfsins.“ Með þessu „bréfi“ virðist stefnandi eiga við skuldabréf S-910904, enda sé ekki vísað til annarra „bréfa“ í þessu dómskjali. Stefndi mótmælir því að hafa fengið bréfið.

        Þá vísar stefndi til þess að þrátt fyrir að fyrrnefnd gjaldfelling skuldabréfs S-910904 hafi verið þann 3. júlí 2012, hafi stefnandi ekki sent ábyrgðarmönnum bréf um það fyrr en 23. október 2012. Þá hafi ábyrgðarmönnum borist innheimtubréf frá stefnanda vegna námsláns stefnda nr. S-910904. Fram að þeim tíma hafi ábyrgðarmenn ekki haft vitneskju um að námslán aðalskuldara væru í vanskilum. Þannig hafi stefnandi dregið að tilkynna ábyrgðarmönnum um vanskil skuldarinnar í tvö ár og átta mánuði.

        Stefndi byggir á því að skuldabréfið nr. S-910904 sé ekki lagt fram í málinu og engin gögn liggi fyrir um að stefndi hafi skrifað undir eða tekið lán samkvæmt skuldabréfi nr. S-910904. Af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts.

        Í stefnu sé því lýst að krafa stefnanda, 12.072.462 kr., byggist á 28 skuldabréfum sem stefnandi hafi sameinað og gefið sameiginlegt nýtt númer. Samtals sé nafnverð þessara skuldabréfa 2.073.713 kr. Greitt hafi verið af þessum skuldabréfum í 19 ár. Stefnandi leggi ekki fram nein gögn um þróun verðtryggingar á þessu tímabili eða um það hvernig ráðstöfun greiðslna stefnda hafi verið inn á þessi 28 skuldabréf.

        Stefndi telur ósannað að krafa stefnanda samkvæmt þessum 28 skuldabréfum sé 12.072.462 kr. Engin gögn hafi verið lögð fram um verðbólguþróun og áhrif hennar, verðbætur og vexti. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir fjárhæð kröfu sinnar. Sú sönnun hafi ekki tekist og því beri að sýkna stefnda.

        Með vísan til framangreindra málsástæðna og til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að bera fyrir sig kröfur á hendur stefnda. Stefnandi sé stjórnvald og bundinn af stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meginreglum stjórnsýsluréttar og almennum reglum um vandaða stjórnsýsluhætti. Auk meginreglna fjármunaréttar og viðskiptavenju.

        Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta honum ef talið yrði ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við sanngirnismatið skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til, sbr. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar.

        Stefndi telur ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefja hann um 12.072.462 kr. vegna námslána sem virðast hafa numið 2.073.713 kr. að nafnvirði auk þess sem greitt hafi verið af þeim í 19 ár. Sú stórkostlega hækkun sem orðið hafi á þessum námslánum sé ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju.

        Verðtrygging námslána stefnda virðist þannig hafa varpað allri áhættu af verðbólguskotum yfir á hann sem lántaka. Stefnandi, sem sé stjórnvald og sérfræðingur í lánastarfsemi, sé áhættuvarinn að fullu á meðan stefndi, sem lántaki, hafi engar áhættuvarnir. Í raun sé um ólögmæt afleiðuviðskipti að ræða. Stefndi hafi ekki verið upplýstur fyrir lántöku um áhrif verðtryggingar og verðbóta út lánstímann.

        Samkvæmt öllu framansögðu standi heildarmat á þeim atriðum sem greinir í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 til þess að ósanngjarnt sé af stefnanda, samkvæmt 1. mgr. sömu greinar, að bera fyrir sig hina umdeildu sjálfskuldarábyrgð.

        Verði ekki fallist á fyrri kröfur stefnda gerir stefndi þá þrautavarakröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Til viðbótar við þær málsástæður, sem vísað sé til í umfjöllun um aðalkröfu stefnda, vísar stefndi til eftirtalinna atriða til stuðnings þrautavarakröfu sinni: Stefnda hafi ekki verið tilkynnt um vanskil eða gjaldfellingu. Þá byggir stefndi lækkunarkröfu sína jafnframt á 36. gr. laga nr. 7/1936

        Sökum óvissu í málinu mótmælir stefndi því að stefnandi eigi rétt til málskostnaðar úr hendi stefnda þó að kröfur hans verði teknar að einhverju leyti til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðaryfirliti stefnanda samkvæmt dskj. nr. 15 sé auk þess mótmælt sem alltof háu og órökstuddu.

        Varðandi dráttarvaxtakröfu þá verði dráttarvextir fyrst dæmdir af kröfum stefnanda frá dómsuppsögu. Kröfur stefnanda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa, sem hafi gert stefnda nauðsynlegt að taka til varna. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísar stefndi að þessu leyti til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001.

Málsástæður og lagarök stefndu Eddu Guðmundsdóttur, Hermanns Ö. Steingrímssonar, Hlífar Steingrímsdóttur, Guðmundar Steingrímssonar, John Bryan Steingrímssonar og Ellenar Herdísar Steingrímsdóttur

        Stefndu vísa til þess að skuldabréfið S-910904 sé ekki lagt fram af hálfu stefnanda. Í stefnu kveði stefnandi málsókn sína vera til komna vegna útgáfu stefnda Steingríms Neil Steingrímssonar á skuldabréfum vegna námslána. Stefnandi kveði skuldabréfin hafa verið gefin út á árunum 1983 til 1987. Alls sé um að ræða 28 skuldabréf, tvö þessara bréfa séu gefin út árið 1988, þ.e. T-109004, dags. 2. maí 1988, og T-99580, dags. 6. janúar 1988.

        Í stefnu sé því lýst, að samkvæmt skilmálum skuldabréfanna 28, skyldi endurgreiðsla námslánanna hefjast þremur árum eftir námslok. Í framhaldinu segi orðrétt í stefnunni, bls. 1-2: „Að loknu námi voru veitt námslán sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer S-910904.“ Stefnandi telji að endurgreiðslur hafi hafist 1. september 1991 og verið í skilum þar til á gjalddaga afborgunar þann 1. mars 2010.

        Stefnandi útskýri ekki frekar í stefnu „sameiningu“ skuldabréfanna, en virðist byggja stefnukröfu sína á afsprengi þessarar sameiningar, þ.e. skuldabréfi nr. S-910904. Stefnandi kveði þetta skuldabréf, samkvæmt dómskjali nr. 7, vera dagsett 8. febrúar 1991 jafnvel þótt endurgreiðslur hafi ekki hafist fyrr en 1. september 1991, að sögn stefnanda.

        Í innheimtuviðvörun segi að „Númer skuldabréfs“ sé S-910904. Þetta skuldabréf númer S-910904 sé ekki meðal gagna málsins svo sem skylt sé samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991.

        Stefndu byggja á því að stefnufjárhæð sé vanreifuð og kröfugerð stefnanda í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í stefnu sé því lýst að krafa stefnanda byggist á 28 skuldabréfum sem virðist hafa verið sameinuð og gefið nýtt sameiginlegt númer S-910904. Stefnandi byggi þrátt fyrir það ekki á 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um kröfusamlag. Engin lagaheimild hafi verið í þágildandi lögum nr. 72/1982 um námslán og námsstyrki, fyrir þessari „sameiningu“ stefnanda árið 1991 á kröfum samkvæmt 28 skuldabréfum.

        Í stefnunni sé gerð grein fyrir sundurliðun dómkröfu stefnanda. Vísað sé til gjalddaga 1. mars 2010, 1. september 2010, 1. mars 2011, 1. september 2011, 1. mars 2012 og svo til gjaldfellingar skuldabréfsins S-910904 þann 3. júlí 2012, sbr. dskj. nr. 9, bls. 7. Stefnandi kveði stefnufjárhæðina í kjölfar gjaldfellingar vera 12.072.462 kr. Engan frekari rökstuðning eða útskýringu sé að finna í stefnunni á stefnufjárhæðinni.

        Þá sé í stefnu ekki útskýrt hvernig stefnandi reikni út þær fjárhæðir sem hann kveði vera til grundvallar þeim fimm gjalddögum sem komu til fyrir gjaldfellingu skuldabréfsins S-910904. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 skuli stjórn stefnanda áætla tekjustofn stefnda vegna árlegrar viðbótargreiðslu. Sama komi fram í 11. gr. reglugerðar nr. 478/2011 um stefnanda. Stefnandi hafi ekki lagt fram gögn í þessu máli frá stjórn stefnanda um áætlaðar tekjur stefnda til að finna út tekjustofn til útreiknings á afborgunum námslána hans, svo sem skylt sé samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um stefnanda. 

        Verði talið að stefnukrafan byggist á framangreindum 28 skuldabréfum, en ekki skuldabréfi nr. S-910904, sé kröfunni mótmælt af hálfu stefnda sem vanreifaðri og verulega óskýrri. Enginn útreikningur sé í stefnu eða öðrum gögnum málsins á því hvernig greiðslur stefnda á árunum 1991 til 2010 hafi farið inn á einstök skuldabréf og hvort eða hvernig afborgunum hafi verið ráðstafað inn á bréfin. Einnig skorti með öllu að fullnægjandi grein sé gerð fyrir því hvernig samtala 28 skuldabréfa geti verið 12.072.462 kr. líkt og stefnandi haldi fram. Engir útreikningar á þessum 28 skuldabréfum liggi fyrir í málinu. Ekki sé gerð grein fyrir áhrifum verðtryggingar, verðbóta eða vaxta á þessi 28 skuldabréf. Engin sundurliðun sé lögð fram af hálfu stefnanda að þessu leyti. Samtals sé nafnverð þessara skuldabréfa 2.073.713 kr., en stefnandi heldur því fram að upprunalegur höfuðstóll hafi verið 4.893.948 kr.

        Málatilbúnaður stefnanda sé því verulega vanreifaður og óskýr. Engin leið sé fyrir stefndu að átta sig á því hvernig heildarfjárhæð stefnukröfunnar sé til komin. Að öllu framangreindu virtu skorti mjög á skýran og ljósan málatilbúnað af hálfu stefnanda. Hann fullnægi ekki meginreglum einkamála­réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Samkvæmt þessu sé málatilbúnaður stefnanda andstæður b-, d-, e- og g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og mjög til þess fallinn að takmarka varnir stefndu.

        Stefndu vísa til þess að engin gögn liggi fyrir um að Steingrímur Hermannsson heitinn hafi verið ábyrgðarmaður að láni nr. S-910904 sem krafa stefnanda byggi á. Það sé ósannað. Af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfu stefnanda vegna aðildarskorts.

        Stefndu vísa til þess að stefnandi sé stjórnvald og bundinn af stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meginreglum stjórnsýsluréttar og almennum reglum um vandaða stjórnsýsluhætti. Auk meginreglna fjármunaréttar og viðskiptavenju. Enn fremur beri að gera kröfur þær til stefnanda að hann fari að lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009.

        Stefnandi heyrir undir mennta- og menningamálaráðuneytið og starfi samkvæmt lögum nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Stefnandi sé stofnaður og starfræktur eftir opinberum réttarreglum. Ráðherra skipi stjórn stefnanda og framkvæmdastjóra. Heimilt sé að kæra ákvarðanir stjórnar stefnanda til málskotsnefndar og hafi málskotsnefndin eftirlit með stjórnsýslu stefnanda og stjórnar hans. Umboðsmaður Alþingis telji að málskotsnefndin sé æðra stjórnvald og stefnandi og stjórn hans lægra sett stjórnvald.

        Þegar stjórnvöld taki ákvörðun um að breyta stjórnsýsluframkvæmd sé þeim skylt, á grundvelli almennra reglna stjórnsýsluréttar, skráðra og óskráðra, sem styðjist við sjónarmið um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og stöðugleika í stjórnsýslu, eða á grundvelli vandaðra stjórnsýsluhátta, að gæta að tilteknum málsmeðferðar- og formsatriðum. Í samræmi við þetta þurfi stjórnvöld að gæta sérstaklega að hagsmunum þeirra sem slík breyting bitni á. Ef þannig breytingar séu verulega íþyngjandi gagnvart borgurunum með tilliti til fyrri stjórnsýsluframkvæmdar verði stjórnvöld þannig að kynna breytinguna fyrir fram með skýrum og glöggum hætti og nægjanlegum fyrirvara þannig að þeir aðilar sem málið snerti hafi raunhæft tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir, bregðast við breyttri framkvæmd og gæta hagsmuna sinna.

        Þetta eigi sérstaklega við ef hin breytta stjórnsýsluframkvæmd leiðir til þess að breytt sé verulega með íþyngjandi hætti skilyrðum fyrir því að njóta tiltekinnar fyrirgreiðslu eða réttinda samkvæmt þeim reglum og framkvæmd sem stjórnvald hafi viðhaft. Borgararnir hafi réttmætar væntingar um að njóta fyrirgreiðslu og réttinda í samræmi við þekkta og gildandi stjórnsýsluframkvæmd.

        Þegar stefndu hafi tekið ákvörðun árið 2010 um að taka að sér sjálfskuldarábyrgð á skuldum hins látna ábyrgðarmanns hafi verið í gildi áralöng stjórnsýsluframkvæmd stefnanda, samkvæmt lýsingu hans sjálfs: „... þegar dánarbúi var skipt einkaskiptum var ekki gengið að erfingjum“, sbr. tölvusamskipti lögmanns stefndu við stefnanda í september og október 2013. Þessi stjórnsýsluframkvæmd sé auk þess staðfest bæði af fræðimönnum og fyrrum innheimtulögmönnum stefnanda.

        Í byrjun ársins 2012 hafi stefnandi ákveðið að breyta áralangri og venjuhelgaðri stjórnsýsluframkvæmd og hafið innheimtu mála fjögur ár aftur í tímann á hendur erfingjum sem fengið höfðu leyfi til einkaskipta á dánarbúi ábyrgðarmanns. Stefnandi hafi þannig tekið ákvörðun um að breyta stjórnsýsluframkvæmd með afturvirkum hætti og viðurkenni það skýrlega í tölvupósti lögfræðings stefnanda 7. október 2013. Þessi ákvörðun hafi ekki verið tekin með formlegum hætti og ekki verið kynnt opinberlega af hálfu stefnanda. Stefndu hafi því ekki átt þess kost að gæta hagsmuna sinna vegna þessarar afturvirku breytingar á innheimtu stefnanda. Stefndu telja að þessi afturvirka breyting á stjórnsýsluframkvæmd stefnanda sé ólögmæt og því beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

        Stefndu byggja jafnframt sýknukröfu sína á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og hafi þannig sýnt af sér verulegt tómlæti sem leiði til niðurfellingar ábyrgðar stefndu samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna. Í e-lið 2. gr. laga nr. 32/2009 komi skýrt fram að lögin gildi um stefnanda. Hann sé sérstaklega tilgreindur. Samkvæmt 12. gr. sömu laga gildi 7. gr. laganna um ábyrgðir sem stofnað hafi verið til fyrir gildistöku þeirra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sömu laga sé með ábyrgðarmönnum átt við einstakling sem gengist hafi persónulega í ábyrgð. Stefndu hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð með yfirlýsingu samkvæmt 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. og þannig orðið ábyrgðarmenn samkvæmt lögum nr. 32/2009.

        Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu svo fljótt sem kostur er um vanefndir lántaka. Samkvæmt d-lið skal lánveitandi með sama hætti tilkynna ábyrgðarmanni eftir hver áramót um stöðu láns sem ábyrgð stendur fyrir og senda honum jafnframt yfirlit yfir ábyrgðir. Samkvæmt athugasemdum í greinagerð með frumvarpi til laganna sé meginsjónarmiðið að baki 7. gr. það að lánveitandi tilkynni ábyrgðarmanni um öll þau atvik sem áhrif geti haft á forsendur ábyrgðar, ábyrgðarmanni í óhag.

       Ákvæðum 7. gr. laga nr. 32/2009 sé ætlað að tryggja að ábyrgðarmaður eigi þess alltaf kost að grípa inn í aðstæður og greiða gjaldfallna afborgun eins og hún standi á gjalddaga, en 4. mgr. kveður á um að lánveitandi geti ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Þá sé forsenda þess að lánveitandi geti innheimt dráttarvexti og annan vanskilakostnað sú að hann hafi tilkynnt ábyrgðarmanni með hæfilegum fyrirvara um vanefndir lántaka, sbr. 3. mgr. Stefnandi hafi ekki sinnt þessum skyldum sínum.

        Samkvæmt stefnu málsins og fylgiskjölum hafi verið tilefni fyrir stefnanda strax í marsmánuði 2010 að tilkynna stefndu um vanskil. Það hefði mátt gera með tilkynningu til dánarbús Steingríms Hermannssonar. Engin slík tilkynning hafi verið send. Þá hafi hvorki dánarbúinu né stefndu verið sent yfirlit frá stefnanda um stöðu þeirra lána (eða láns) sem stefnandi krefjist greiðslu á. Slíkt yfirlit hafi stefnanda borið að senda stefndu a.m.k. um hver áramót. Stefnandi hafi þvert á móti látið líða tvö ár og átta mánuði frá vanskilum aðalskuldara, samtals fimm gjalddaga auk þess að gjaldfella lánið, án þess að tilkynna ábyrgðarmönnum eða dánarbúinu. Það sé veruleg vanræksla af hálfu stefnanda sem stjórnvalds og sérfræðings í innheimtu skulda vegna námslána.

        Þá hafi stefnandi einnig vanrækt eigin reglur við tilkynningar til stefndu. Á heimasíðu stefnanda komi fram að hann tilkynni ábyrgðarmönnum 45 dögum eftir gjalddaga ef skuldin ef ógreidd. Jafnframt kveðist stefnandi senda ábyrgðarmönnum viðvörun 20 dögum eftir að tveir gjalddagar séu ógreiddir. Loks kveðist stefnandi senda viðvörun til ábyrgðarmanna 20 dögum eftir að þrír gjalddagar séu ógreiddir. Stefnandi hafi vanrækt þetta.

        Samkvæmt athugasemdum í greinagerð með frumvarpi til laga nr. 32/2009 sé einnig áréttað að það sé lánveitandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningaskyldu hafi verið gætt, enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni. Þar sem stefnandi taldi, eða mátti telja, að stefndu bæru ábyrgð á skuld aðalskuldara, hafi honum verið skylt að aðvara þau svo fljótt sem tilefni var til um vanefndir og annað stefndu í óhag. Það hafi hann alls ekki gert. Ábyrgðarmaður skuli vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á framangreindri tilkynningarskyldu og ef vanræksla er veruleg, líkt og í tilviki stefnanda, skuli ábyrgð falla niður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

        Stefndu telja ljóst að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að gætt hafi verið að ákvæðum a-, c- eða d-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Vanræksla stefnanda í þessum efnum sé veruleg. Af þeim sökum sé umrædd sjálfsskuldarábyrgð stefndu fallin niður samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og því sé krafist sýknu af dómkröfum stefnanda.

        Loks byggja stefndu sýknukröfu á þeim grundvelli að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. geti lánveitandi ekki, þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni, gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Samkvæmt framangreindu hafi stefnandi hins vegar sýnt af sér algert tómlæti í þeim efnum. Vegna þess telji stefndu að gjaldfelling stefnanda á láni S-910904 geti ekki haft gildi gagnvart þeim og beri af þeim sökum að fella niður sjálfskuldarábyrgðina. Stefndu krefjast því sýknu af dómkröfum stefnanda, sbr. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 eða til vara lækkunar á þeim grundvelli.

        Stefndu byggja jafnframt á því að gjaldfellingin hafi verið ólögmæt þar sem í henni sé vísað til skilmála skuldabréfs nr. S-910904, sem ekki sé lagt fram. Óvíst sé því hvað standi í þeim skilmálum. Auk þess sé gjaldfellingin ólögmæt þar sem stefnandi virðist ekki hafa farið að ákvæðum 3. mgr. 11. gr. laga nr. 21/1992.

        Þá byggja stefndu á því með vísan til framangreindra málsástæðna og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu stefnanda að bera fyrir sig sjálfskuldarábyrgð stefndu vegna skuldar aðalskuldara.

        Samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta honum ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við sanngirnismatið skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar hafi komið til, sbr. 2. mgr. fyrrnefndrar greinar. Hvað varði efni samningsins og atvik eftir samningsgerðina vísa stefndu til þess sem fyrr greinir um vanrækslu stefnanda á því að gæta að skyldum sínum samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 og ólögmætrar afturvirkrar breytingar á stjórnsýsluframkvæmd. Ef stefnandi hefði gætt að fyrrnefndum skyldum sínum hefðu stefndu getað gætt að hagsmunum sínum og réttindum. Stefnandi hafi hins vegar vanrækt skyldur sínar og verði að bera hallann af því. Þegar litið sé til stöðu aðila sé ljóst að stefnandi sé stjórnvald sem sérhæfi sig í lánveitingum. Til stefnanda hafi því mátt gera ríkar kröfur um sérfræðiþekkingu og vönduð vinnubrögð.

        Stefndu telja auk þess ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefja um greiðslu 12.072.462 kr. vegna námslána sem virðast hafa numið 2.073.713 að nafnvirði auk þess sem greitt hafi verið af þeim í 19 ár. Sú stórkostlega hækkun sem orðið hafi á þessum námslánum sé ósanngjörn og andstæð góðri viðskiptavenju.

        Verðtrygging námslána aðalskuldara virðist þannig hafa varpað allri áhættu af verðbólguskotum yfir á hann sem lántaka. Stefnandi, sem sé stjórnvald og sérfræðingur í lánastarfsemi, sé varinn fyrir áhættu að fullu en lántaki hafi engar áhættuvarnir. Í raun sé um ólögmæt afleiðuviðskipti að ræða. Hvorki aðalskuldari né ábyrgðarmaður hafi verið upplýstir fyrir lántöku um áhrif verðtryggingar og verðbóta út lánstímann.

        Samkvæmt öllu framansögðu standi heildarmat á þeim atriðum sem greini í 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 til þess að ósanngjarnt sé fyrir stefnanda samkvæmt 1. mgr. sömu greinar að bera fyrir sig hina umdeildu sjálfskuldarábyrgð.

        Stefndu byggja sýknukröfu sína einnig á lögjöfnun frá 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992. Samkvæmt ákvæðinu falli endurgreiðslur, sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast, sjálfkrafa niður. Með sams konar hætti ætti endurgreiðslukrafa stefnanda á hendur ábyrgðarmönnum sem andast einnig að falla sjálfkrafa niður. Stefndu byggja á 4. mgr. 9. gr. laganna með lögjöfnun, enda sé í þessu tilviki unnt að leggja lögfesta reglu til grundvallar ákvörðun um rétt og skyldu í ólögfestu tilviki. Þessi regla leiði til niðurfellingar endurgreiðslukröfu stefnanda og þar með sýknu stefndu.

        Jafnframt því að innheimta og málsókn stefnanda teljist vera ólögmæt afturvirk breyting á stjórnsýsluframkvæmd og brot gegn lögum nr. 32/2009 telja stefndu að hún brjóti gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 um stefnanda falli endurgreiðslur námslána hjá stefnanda niður sem falla í gjalddaga eftir að lánþegi andast. Erfingjar lánþega ábyrgist því ekki eftirstöðvar námslána þótt dánarbúi hans sé skipt einkaskiptum. Hins vegar sé engin sams konar lagaheimild til niðurfellingar námslána ef ábyrgðarmenn andast. Samkvæmt nýlegri breytingu á stjórnsýsluframkvæmd stefnanda hyggist stefnandi gera endurgreiðslukröfur á hendur erfingjum ábyrgðarmanna sem skipta dánarbúi hans einkaskiptum. Þá falli endurgreiðslur ekki niður gagnvart erfingjum þeirra. Staða ábyrgðarmanns og erfingja hans sé samkvæmt framangreindu verri en skuldara og erfingja hans. Stefndu telja að þetta feli í sér beina mismunun gagnvart erfingjum ábyrgðarmanna. Með reglu 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 séu erfingjum aðalskuldara veitt sérstök réttindi umfram erfingja ábyrgðarmanna. Námslán aðalskuldara falli niður gagnvart dánarbúi hans og erfingjum. Ábyrgð ábyrgðarmanns á þessum námslánum falli hins vegar ekki niður gagnvart dánarbúi hans og erfingjum. Erfingjar ábyrgðarmanns njóti þannig lakari réttar en erfingjar aðalskuldara vegna námslána og eftirstöðva þeirra. Um sambærileg tilvik sé að ræða sem hljóti mismunandi meðferð að lögum. Ekkert réttlæti þessa beinu mismunun. Engin málefnaleg sjónarmið liggi til grundvallar því að þessi sambærilegu tilvik fái ósambærilega meðhöndlun hjá löggjafanum. Stefndu telja að innheimta stefnanda og málsókn brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnskipunarréttar og því beri að sýkna þá af stefnukröfunni. 

        Verði ekki fallist á fyrri kröfur stefndu, gera stefndu þá þrautavarakröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Til viðbótar við þær málsástæður, sem vísað sé til í umfjöllun um aðalkröfu stefndu, vísa stefndu til eftirtalinna atriða til stuðnings þrautavarakröfu sinni:

        Lækkunarkrafa stefndu byggi á þeirri ótvíræðu skyldu stefnanda að gefa ábyrgðarmönnum sannanlega kost á að greiða gjaldfallnar afborganir námslánsins, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verði ábyrgðarmaður ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem falli til eftir gjalddaga, nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi með sannanlegum hætti gefið stefndu kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Þá byggja stefndu lækkunarkröfu sína jafnframt á 36. gr. laga nr. 7/1936, með vísan til fyrri sjónarmiða sinna.

        Sökum óvissu í málinu sé því mótmælt að stefnandi eigi rétt til málskostnaðar úr hendi stefndu þó að kröfur hans verði teknar að einhverju leyti til greina, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðaryfirliti stefnanda samkvæmt dskj. nr. 15 sé auk þess mótmælt sem alltof háu og órökstuddu.

        Dráttarvextir verði fyrst dæmdir af kröfum stefnanda frá dómsuppsögudegi. Kröfur stefnanda séu bæði óljósar og háðar verulegum vafa sem gert hafi stefndu nauðsynlegt að taka til varna. Ósanngjarnt sé að stefnandi njóti þess í formi dráttarvaxta. Vísa stefndu að þessu leyti til sjónarmiða að baki 9. gr. laga nr. 38/2001. Auk þess sé vísað til sjónarmiða sem fyrr séu reifuð um stórfelld brot stefnanda gegn lögum nr. 32/2009.

        Varðandi lagarök byggja stefndu á meginreglum réttarfars um skýra kröfugerð sem fái meðal annars stoð í 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

        Stefndu byggja einnig á ákvæðum laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Þá byggja stefndu á meginreglum stjórnsýslu- og fjármunaréttar og lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992.

        Þá vísa stefndu einnig til meginreglna laga um meðferð einkamála um sönnun og sönnunarbyrði.

IV.

Niðurstaða

        Stefnandi höfðar mál þetta sem skuldabréfamál á grundvelli XVII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála á hendur stefnda Steingrími Neil Steingrímssyni, sem útgefanda á framangreindum skuldabréfum, vegna námslána sem stefndi tók hjá stefnanda og sem ábyrgðarmönnum stefndu Eddu Guðmundsdóttur, Hermanni Ö. Steingrímssyni, Hlíf Steingrímsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni, John Bryan Steingrímssyni og Ellen Herdísi Steingrímsdóttur, lögerfingjum Steingríms Hermannssonar. Steingrímur Hermannsson tók á sig sjálfskuldarábyrgð á öllum framangreindum skuldabréfum til tryggingar skilvísri greiðslu á höfuðstól námslánanna að viðbættum verðtryggingum og þeim kostnaði sem vanskil kynnu að valda, en hann lést þann 1. febrúar 2010. Stefndu, sem voru lögerfingjar hans, fengu leyfi til einkaskipta og tóku á sig sjálfskuldarábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, á öllum skuldbindingum sem kynnu að hvíla á búinu, sbr. 5. tölulið 28. gr., sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991.

        Samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 118. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eru varnir stefndu takmarkaðar við þau atriði sem getið er um í 1. mgr. og 3. mgr. 118. gr. laganna. Stefnandi mótmælir því að frekari varnir komist að en þar sé getið. Við aðalmeðferð lýsti lögmaður stefnanda því yfir að hann mótmælti því ekki að dómskjal nr. 17, tölvupóstsamskipti lögmanns stefndu við stefnanda, kæmist að í málinu, en mótmælti því að um ólögmæta breytingu á stjórnsýsluframkvæmd væri að ræða.

        Í upphafi aðalmeðferðar gerði lögmaður stefnanda grein fyrir því að stefnufjárhæð, sem var 12.072.462 kr., væri lækkuð um 500 kr. í 12.071.962 kr., sem væri rétt samtala gjalddaga í vanskilum og gjaldfallinna eftirstöðva, en stefndu höfðu gert athugasemdir við samtölu krafna.

        Stefnandi lagði við þingfestingu fram frumrit þeirra 28 skuldabréfa sem málshöfðun hans byggir á og eru þau tilgreind í stefnu með númerum og fjárhæðum. Skýrt er tekið fram að innheimtan byggist á þessum skuldabréfum, en stefnandi vísaði til þess að ritvilla kæmi fram á bls. 3 í stefnu, þar komi fram orðin „skuldabréfsins“ og „skuldabréfið“, en þar hafi skuldabréf átt að vera í fleirtölu.

        Í stefnu kemur fram að veitt námslán hafi verið sameinuð að námi loknu og þá verið gefið nýtt sameiginlegt númer, S-910904. Í stefnu er sameiningu veittra námslána ekki lýst með þeim hætti að gefið hafi verið út sérstakt skjal sem málshöfðun þessi byggist á. Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að þeim skuldabréfum sem myndi heildarskuld stefndu við stefnanda hafi verið steypt saman í innheimtukerfi stefnda. Útreikningar á kröfu stefnanda eru samkvæmt yfirliti sem lagt er fram í málinu og kröfufjárhæð hefur verið leiðrétt samkvæmt ofansögðu. Í stefnu eru dómkröfur sundurliðaðar og á dskj. nr. 5 eru sýndir einstakir gjalddagar í vanskilum. Stefndu hafa ekki leitt neinar líkur að því að útreikningar á fjárhæðum í kröfu séu rangir eða fært fyrir því haldbær rök. Þá hefur stefnandi við efnismeðferð málsins lagt fram frekari gögn til skýringa á grundvelli stefnufjárhæðar, m.a. sundurliðaðan útreikning námsláns eftir gjalddögum og áhrifum verðbóta þar á og gögn varðandi áætlanir um tekjustofn til útreiknings á afborgunum námslána stefnda, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna nr. 21/1992 Ekki verður því fallist á þá málsástæðu stefndu að útreikningar á fjárhæðum í kröfu séu rangir.

        Stefndi Steingrímur Neil byggir á því í málsatvikalýsingu sinni að faðir sinn, Steingrímur Hermannsson hafi verið ábyrgðarmaður vegna námslána sinna. Önnur stefndu byggja sýknukröfu sína aftur á móti á því að stefnukrafa byggist á „skuldabréfi nr. S-910904“ sem ekki hafi verið lagt fram í málinu, engin gögn liggi fyrir um að Steingrímur Hermannsson hafi verið ábyrgðarmaður á því láni og af þeirri ástæðu beri að sýkna stefndu af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts. Á þetta verður ekki fallist þar sem fyrir liggur að stefnukröfur eru byggðar á fyrrgreindum 28 skuldabréfum og ekki er véfengt að Steingrímur hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á þeim. Er sýknukröfu stefndu á þessum grunni hafnað.

        Samkvæmt hljóðan framangreindra skuldabréfa féllu allar eftirstöðvar skuldar stefnda Steingríms Neil sjálfkrafa í gjalddaga í framhaldi af vanskilum 1. mars 2010 og er því ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að honum hafi ekki borist umrædd bréf. Þá er ekki fallist á með stefnda Steingrími Neil með vísan til 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 að dráttarvextir af kröfum stefnanda hvað hann varðar verði fyrst dæmdir frá dómsuppsögudegi.

         Ekki verður fallist á það með stefndu Eddu Guðmundsdóttur, Hermanni Ö. Steingrímssyni, Hlíf Steingrímsdóttur, Guðmundi Steingrímssyni, John Bryan Steingrímssyni og Ellen Herdísi Steingrímsdóttur, að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að bera fyrir sig ábyrgðina. Þá verður ekki fallist á að stefndu hafi sýnt fram á einhver atvik við samningsgerðina eða eftir hana sem leitt gætu til þess að skuldbindingu þeirra yrði vikið til hliðar eða krafa stefnanda lækkuð vegna hennar með vísan til tilvitnaðs ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936.

        Stefndu telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefjast greiðslu á stefnufjárhæð vegna þeirrar miklu hækkunar sem orðið hafi á námslánunum þrátt fyrir að greitt hafi verið af þeim í 19 ár. Verðtrygging námslána er lögbundin, sbr. 7. gr. laga nr. 21/1992 um Lánsjóð íslenskra námsmanna. Lög um neytendalán nr. 121/1994 taka samkvæmt c-lið 2. gr. laganna ekki til lánssamninga þar sem lán er veitt gegn lægra gjaldi en almennt gerist og stendur ekki almenningi til boða. Litið hefur verið svo á að þessi lög taki því ekki til lánveitinga Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Stefndu hafi ekki fært haldbær rök fyrir þessum málsástæðum og því er ekki fallist á þær.

        Varðandi lögjöfnun frá 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992, en þar segir að endurgreiðslur sem falli í gjalddaga eftir að lánþegi andast, falli sjálfkrafa niður, þá er ekki fallist á það með stefndu að lögjöfnun sé tæk. Lögjöfnun kemur til greina þegar aðrar réttarheimildir þrýtur og er reist á því sjónarmiði að um tilvik sem eigi efnislega samstöðu skuli fara eftir sams konar réttarreglum. Ekki verður litið svo á að það eigi við hér. Stefnandi byggði á því við aðalmeðferð að ekki væri mögulegt að svipta stefnanda eignarrétti sínum sem lögvarinn væri skv. 72. gr. stjórnarskrár með lögjöfnun. Þá er ekki fallist á að um ólögmæta mismunun sé að ræða vegna fyrirmæla 4. mgr. 9. gr. laga nr. 21/1992 þar sem ábyrgðarmaður skv. skuldabréfunum ber sjálfskuldarábyrgð námsláns meðan aðalskuldari er á lífi og erfingjar/dánarbú ábyrgðarmanns eru bundnir af því loforði.

         Á dómskjali nr. 17, sem er tölvupóstur lögfræðings stefnanda, dags. 7. október 2013, sem var svar við fyrirspurn frá lögmanni stefndu, dags. september 2013, kemur fram að framkvæmdin hafi verið sú að þegar dánarbú hafi verið tekin til opinberra skipta hafi stefnandi lýst kröfu í dánarbúið, en þar sem dánarbúi hafi verið skipt einkaskiptum hafi ekki verið gengið að erfingjum. Í byrjun árs 2012 hafi hins vegar verið ákveðið að það sama skyldi ganga yfir alla svo að ekki gætti ójafnræðis í þessum málum og hafi mál verið skoðuð fjögur ár aftur í tímann. Leyfi til einkaskipta í dánarbúi Steingríms Hermannssonar var veitt þann 23. desember 2010 og einkaskiptum lauk þann 30. desember sama ár. Í greinargerð stefndu kemur fram að þeim hafi fyrst verið kunnugt um að námslán stefnda Steingríms Neil væri í vanskilum þegar þeim barst bréf TCM innheimtu, dags. 23. október 2012.

        Gengið hefur verið út frá því að hafi stjórnsýsluframkvæmd tíðkast lengi og almennt verið kunn geti stjórnvald ekki breytt henni svo að íþyngjandi sé gagnvart almenningi á þeim grunni einum að málefnalegar ástæður búi að baki, heldur verði að taka slíka ákvörðun á formlegan hátt og kynna hana þannig að þeir, sem breytingin varðar, geti gætt hagsmuna sinna. Ekkert liggur fyrir um það í máli þessu að stefndu hafi haft samband við stefnanda í tengslum við skipti dánarbúsins og í framhaldi af því mátt hafa réttmætar væntingar um að þau yrðu ekki krafinn um þessa skuld dánarbúsins. Í málinu liggur ekkert annað fyrir um framkvæmd innheimtu stefnanda á kröfum á hendur erfingjum ábyrgðarmanna þegar um einkaskipti hefur verið að ræða vegna námslána en framangreindur tölvupóstur. Hér virðist fyrst og fremst um það að ræða að slæleg eftirfylgni hafi verið í innheimtu þessara krafna. Ekkert hefur verið fært fram af hálfu stefndu til staðfestingar á þeirri fullyrðingu í greinargerð að þessi stjórnsýsluframkvæmd sé auk þess staðfest af fyrrverandi innheimtumönnum stefnanda og fræðimönnum Ekki verður litið svo á að stefndu hafi fært sönnur á að það hafi verið venjuhelguð og alkunn framkvæmd að stefnandi innheimti ekki kröfur á hendur erfingjum ábyrgðarmanna þegar um einkaskipti hafi verið að ræða. Af því verða stefndu að bera hallann, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er því fallist á þá málsástæðu stefndu ábyrgðarmanna að stefnandi hafi með ólögmætum hætti breytt áralangri og venjuhelgaðri stjórnsýsluframkvæmd.

        Stefndu Edda Guðmundsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Hlíf Steingrímsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir, byggja á því að stefnandi hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni skv. ákv. a-, c- og d-liðar 1. mgr. og 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Með þessu hafi stefnandi sýnt af sér verulegt tómlæti sem eigi að leiða til þess að þau séu óbundin af ritun sinni undir sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsinguna, sbr. 2. mgr. 7. gr., en að öðrum kosti að gjaldfelling lánsins teljist ólögmæt, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar.

        Stefnandi byggði á því við aðalmeðferð að ábyrgð stefndu á grundvelli 5. tl. 28. gr., sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991 sé ábyrgð í eigin þágu og falli utan gildissviðs laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Þá byggir stefnandi á því að fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 hafi stefnandi átt lögmæta kröfu á hendur ábyrgðarmanni námslánsins og þau kröfuréttindi verði ekki skert með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Síðari málslið 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verði því ekki beitt með afturvirkum hætti um kröfuréttindi stefnanda, sbr. 72. gr. laga nr. 33/2944. Ef talið verður að lög um ábyrgðarmenn gildi um ábyrgð stefndu á skuldbindingum dánarbúsins mótmælir stefnandi því að vanræksla stefnanda sé veruleg í skilningi 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.

        Í 2. gr. laga nr. 32/2009 kemur fram að lögin taki til stefnanda og samkvæmt 12. gr. þeirra verður ákvæðum 7. gr. laganna beitt um ábyrgð þótt gengist hafi verið undir hana fyrir gildistöku laganna. Ábyrgðir Steingríms Hermannssonar á námslánunum eru frá því löngu fyrir gildistöku laganna. Stefndu tóku á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldum dánarbúsins þegar sótt var um leyfi til einkaskipta í desember árið 2010. Samkvæmt a-, b- og d-liðum 1. mgr. 7. gr. skal lánveitandi senda ábyrgðarmanni tilkynningu skriflega svo fljótt sem kostur er um vanefndir lántaka, um andlát lántaka eða að bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og eftir hver áramót með upplýsingum um stöðu láns sem ábyrgð standi fyrir og yfirliti yfir ábyrgðir. Þá segir í 4. mgr. 7. gr. að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallna afborgun.

        Í 2. gr. laga nr. 32/2009 kemur fram að lögin gildi um lánveitingar stefnanda þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur fram að með ábyrgðarmanni sé átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Ábyrgð stefndu skv. 5. tl. 28. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. felur í sér skilyrðislaust þriðjamannsloforð til allra þeirra sem eiga kröfu á hendur dánarbúinu. Ekki er fallist á að ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 leiði til þess að lögin taki ekki til þessara skuldbindinga stefndu og þau séu ekki ábyrgðarmenn í skilningi laganna, en þau tóku við ábyrgð dánarbúsins á námslánum stefnda Steingríms Neil en ábyrgðin var ekki í eigin þágu.

        Í máli þessu liggja ekki fyrir afrit af tilkynningum til dánarbús Steingríms Hermannssonar eða stefndu sem ábyrgðarmanna um vanskil afborgunar umrædds skuldabréfs með gjalddaga frá 1. mars 2010 fyrr en með bréfi TCM innheimtu, dags. 23. október 2012, en þar kom fram að lánið hafi allt verið gjaldfellt þann 2. júlí 2012, sbr. hjálagða tilkynningu um gjaldfellingu. Í bréfinu var gerð grein fyrir sjálfskuldarábyrgð Steingríms Hermannssonar á námslánum stefnda Steingríms Neil og ábyrgð erfingja þar sem þeir hefðu tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins. Stefndu er í bréfinu bent á að hafa samband við innheimtuaðilann til greiðslu eða samninga um uppgjör ábyrgðarskuldbindingarinnar. Ekki hafa verið lögð fram gögn um fyrri tilkynningar stefnanda, eða TCM innheimtu til stefndu og er því mótmælt af stefndu að slíkar tilkynningar hafi borist. Í greinargerð stefndu er byggt á því að þeim hafi borist framangreint bréf TCM innheimtu, dags. 23 október 2012 og áður hafi þeim ekki verið kunnugt um vanskil stefnda Steingríms Neil á framangreindum námslánum. Samkvæmt þessu, og þar sem stefnandi sem lánveitandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að tilkynningarskyldu skv. tilvitnaðri 7. gr. hafi verið gætt gagnvart ábyrgðarmönnum, verður að líta svo á að ósannað sé að stefnandi hafi sent stefndu tilkynningar um vanefndir lántaka eða um gjaldfellingu lánsins fyrr en með fyrrgreindu innheimtubréfi innheimtufyrirtækisins, dags. 23. október 2012.

        Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skal ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu skv. 1. mgr. og ef vanræksla er veruleg skal ábyrgð falla niður. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir svo að ábyrgðarmaður verði ekki krafinn um greiðslur á dráttarvöxtum eða öðrum innheimtukostnaði lántaka sem fellur til eftir gjalddaga nema liðnar séu tvær vikur frá því að ábyrgðarmanni var sannanlega gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Loks segir í 4. mgr. sömu greinar að lánveitandi geti ekki þannig að gildi hafi gagnvart ábyrgðarmanni gjaldfellt lán í heild sinni nema ábyrgðarmanni hafi áður verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins.

        Með bréfi dags. 23. október 2012 var stefndu bent á að hafa samband við innheimtufyrirtækið við fyrsta tækifæri til greiðslu og samninga um uppgjör ábyrgðarskuldbindingarinnar. Stefnandi byggir á því að með bréfi, dags. 7. janúar 2013, hafi stefndu verið boðið að koma námsláninu í skil og ítrekað hafi verið boð um að gefa mætti út nýtt skuldabréf til 10 ára fyrir eftirstöðvum námslánaskuldarinnar, en því boði hafi ekki verið tekið af stefndu. Þetta var hins vegar eftir að lánið hafði verið gjaldfellt. Þá mótmæla stefndu því að hafa móttekið bréf frá stefnanda þar sem þeim hafi verið boðið þetta. Samkvæmt því sem rakið hefur verið hefur stefnanda ekki tekist að færa sönnur á að stefndu hafi verið gefinn kostur á að greiða gjaldfallnar afborganir umrædds láns áður en það var gjaldfellt.

        Samkvæmt því sem rakið hefur verið ber að fallast á dómkröfur stefnanda á hendur stefnda Steingrími Neil.

        Samkvæmt því sem að framan er rakið, sbr. sérstaklega 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009, og þar sem með hliðsjón af aðstæðum öllum þykir eigi unnt að líta svo á að um verulega vanrækslu á tilkynningarskyldu stefnanda hafi verið að ræða. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 verða stefndu Edda Guðmundsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Hlíf Steingrímsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir, einungis krafin um greiðslu gjaldfallins höfuðstóls skuldabréfsins ásamt dráttarvöxtum frá og með þingfestingardegi málsins hinn 10. desember 2013 til greiðsludags.

        Þá greiði stefndi Steingrímur Neil stefnanda málskostnað, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamál nr. 91/1991, sem telst hæfilega ákveðinn eins og í dómsorði greinir. Með vísan til atvika málsins þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og annarra stefndu falli niður.

        Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

        Stefndu, Steingrímur Neil Steingrímsson, Edda Guðmundsdóttir, Hermann Ö. Steingrímsson, Hlíf Steingrímsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, John Bryan Steingrímsson og Ellen Herdís Steingrímsdóttir, greiði sameiginlega stefnanda, Lánasjóði íslenskra námsmanna 12.071.962 kr., stefndi Steingrímur Neil Steingrímsson ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 62.516 kr. frá 1.3.2010 til 1.9.2010, en af 376.293 kr. frá 1.9.2010 til 1.3.2011, en af 440.444 kr. frá 1.3.2011 til 1.9.2011, en af 665.726 kr. frá 1.9.2011 til 1.3.2012, en af 733.228 kr. frá 1.3.2012 til 2.7.2012, en af 12.071.962 kr. frá 2.7.2012 til greiðsludags, en aðrir stefndu með dráttarvöxtum frá 10. desember 2014 til greiðsludags.

        Stefndi, Steingrímur Neil Steingrímsson, greiði stefnanda 600.000 kr. í málskostnað.

        Málskostnaður milli stefnanda og annarra stefndu fellur niður.