Print

Mál nr. 449/2002

Lykilorð
  • Friðun
  • Náttúruvernd
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. apríl 2003.

Nr. 449/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Friðun. Náttúruvernd. Refsiheimild. Stjórnarskrá.

X var ákærður fyrir að hafa á árunum 2000 og 2001 raskað hreiðurstað arna og spillt friðlýstum náttúruminjum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp í Miðhúsaeyjum. Var X ákærður fyrir brot gegn nánar tilteknum ákvæðum í lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 425/1977. Ekki var talið ljóst hvort sá staður sem örn kynni að verpa á gæti fallið undir „lífsvæði dýra“ í ákvæðinu sem X sætti ákæru fyrir og kvað á um að ávallt skyldi „gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og lífsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun“. Var umrætt orðalag talið of almennt og því ekki nægilega ótvírætt og glöggt. Uppfyllti það ekki þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda. Þá varð ekki séð að friðlýsing eyjunnar H tæki til friðunar fugla og sérstaks lífríkis þeirra eða búsvæða. Var X því sýknaður af kröfu ákæruvaldsins í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. september 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu hans.

Ákærði krefst sýknu af kröfu ákæruvalds.

I.

Með ákæru 13. febrúar 2002 var ákærða gefið að sök að hafa haustið 2000 farið annars vegar í hólmann Arnarstapa, sem er í landi jarðarinnar Miðhúsa í Reykhólahreppi, og rekið þar niður við hreiðurstað arnar þrjá mannhæðarháa staura og hins vegar í Hrísey í landi sömu jarðar og sett þar fjórar tréfjalir yfir syllu við hreiðurstað arnar nyrst á eyjunni eins og nánar er lýst í ákæru. Einnig er honum gefið að sök með ákæru 10. maí 2002 að hafa um sumarið 2001 farið annars vegar í fyrrgreindan hólma, komið þar fyrir tveimur þrífótum úr timbri við hreiðurstað arnar og hins vegar í Hrísey þar sem hann hafi reist háa stöng með flaggi við hreiðurstað arnar á syllu nyrst á eyjunni eins og nánar greinir í ákæru.

Ákærði hefur viðurkennt framangreinda háttsemi, en telur að sér hafi verið refsilaust að setja upp umrædd mannvirki í því skyni að verjast ágangi arnar í æðarvarpi í Miðhúsaeyjum. Vísar hann meðal annars í því efni til neyðarvarnarsjónarmiða 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er fram komið í málinu að ákærði hefur um árabil stundað dúntekju í landi Miðhúsa, [...], og haft af því tekjur. Heldur hann því fram að verpi örn á þessu svæði, eins og áður hafi gerst, fæli hann æðarfugl frá varpstað og eyðileggi varpið. Geti örninn þannig valdið miklu tjóni í æðarvarpinu. Segist ákærði hafa orðið fyrir talsverðum búsifjum á umliðnum árum vegna ágangs arnar í varpinu. Þannig hafi tjón af minni dúntekju undanfarin sex ár numið um 250.000 til 500.000 krónum. Byggir ákærði á því að nytjar hans af dúntekjunni njóti verndar 72. gr. og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 10. gr. og 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Í báðum ákærum er ákærði talinn hafa með ofangreindri háttsemi sinni raskað hreiðurstað arna og spillt friðlýstum náttúruminjum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp á þessum stöðum. Eru brot hans þar talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 6. gr., sbr. 19. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og 1. og 3. tölulið 1. mgr. 53. gr. og 63. gr., sbr. b. og d. liði 50. gr. og 76. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 425/1977 um friðlýsingu Hríseyjar í Reykhólahreppi, Austur-Barðastrandarsýslu.

II.

Fram kemur í skýrslu Ævars Petersen, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, 21. maí 1999, sem að nokkru var rakin í héraðsdómi, að ernir hafi orpið nokkuð samfellt í Miðhúsaeyjum frá árinu 1959, oftast í Arnarstapa, sem sé mikilvægasti varpstaður í eyjunum, en einnig alloft í Hrísey. Eitt arnaróðal sé í Miðhúsaeyjum og hafi verið lengi. Verpi ernir sitt á hvað í Arnarstapa, Hrísey og Tóbakshólma. Miðhúsaeyjar séu vel þekkt arnarsvæði og þótt ernir hafi ekki orpið nýlega í Arnarstapa hafi ummerki um þá fundist síðast í maí 1999. Arnarstapi sé gamalgróið, hefðbundið arnarsetur. Geti ernir notað sama hreiðurstaðinn áratugum, jafnvel öldum saman, en þeir skipti um setur með óreglulegu millibili. Er nánar getið í skýrslunni um skráð arnarvarp annars vegar í Arnarstapa á árunum 1959 til 1999 og hins vegar í landi Miðhúsa í heild frá árinu 1990 til 1999. Kemur þar fram að ernir hafi orpið þar nokkuð samfellt frá árinu 1959, oftast í Arnarstapa, en síðast sé vitað um arnarvarp þar á árinu 1997. Ráða má af framangreindri skráningu að á þessum árum hafi fáeinir ungar komist upp og varpið misfarist í nokkur skipti. Þá kemur fram í vitnisburði Kristins Hauks Skarphéðinssonar, fuglafræðings hjá Náttúrufræðistofnun, fyrir héraðsdómi að ernir helgi sér varpóðöl eða varpsvæði sem geti náð yfir heilan eyjaklasa.

Íslenski haförninn er alfriðaður samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 1. gr. og 17. gr. laga nr. 64/1994 og aldrei má veiða hann í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tjón, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum. Í 2. mgr. 6. gr. laganna segir að ávallt skuli „gæta fyllstu varkárni og nærgætni gagnvart villtum dýrum og lífsvæðum þeirra og forðast óþarfa truflun.“ Ákærða er sem fyrr segir gefið að sök að hafa brotið gegn þessu ákvæði með því að hafa raskað hreiðurstað arna með framangreindri mannvirkjagerð á hreiðurstöðum þeirra í Arnarstapa og Hrísey. Fram er komið að á undanförnum áratugum hafa fáeinir arnarungar komist upp og á sama tíma hefur varp misfarist í nokkur skipti á þessum hreiðurstöðum. Er óumdeilt að síðast var kunnugt um arnarvarp í Arnarstapa árið 1997, en ekki er fram komið hvenær örn verpti síðast í Hrísey. Í orðskýringum 1. gr. laga nr. 64/1994 eru „lífsvæði“ talin vera „svæði sem dýr nota sér til framfærslu og viðkomu eða sem farleið.“ Ekki er ljóst af 6. gr. laganna og öðrum ákvæðum þeirra eða lögskýringargögnum hvort sá staður sem örn kunni að verpa á geti fallið undir lífsvæði dýra eða hvort gerð er sú krafa að hann verpi þar í raun. Þetta orðalag ákvæðisins er að þessu leyti of almennt og því ekki nægilega ótvírætt og glöggt. Uppfyllir það ekki þær kröfur sem gera verður til skýrleika refsiheimilda. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir brot gegn þessu ákvæði.

Kemur þá til umfjöllunar hvort ákærði hafi með háttsemi sinni sem lýst er í ákærum spillt friðlýstum náttúruminjum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp á fyrrnefndum stöðum og með þeirri röskun gerst brotlegur við ofangreind ákvæði laga nr. 44/1999. Í héraðsdómi var talið að þessi verknaður ákærða gæti ekki fallið undir 1. mgr. 53. gr. laganna og var hann því sýknaður af því broti. Féllst ákæruvaldið á þá niðurstöðu við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Þegar af þeirri ástæðu kemur það lagaákvæði ekki til álita sem refsiheimild í málinu.

Í VII. kafla laga nr. 44/1999 er fjallað um friðlýstar náttúruminjar. Þeim er skipað í fjóra flokka í a. til d. liðum 50. gr. laganna. Fjallar b. liður um friðlönd, en samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 53. gr. nefnast svo friðlýst landsvæði, en d. liður um friðlýstar lífverur, búsvæði, vistgerðir og vistkerfi. Samkvæmt 1. mgr. síðargreinds ákvæðis getur umhverfisráðherra friðlýst, að fengnum tillögum eða áliti Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sökum sérstaks lífríkis, sbr. 1. tölulið ákvæðisins, og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi, sem miklu skiptir að ekki sé raskað, fækkað eða útrýmt, sbr. 3. tölulið. Óumdeilt er að Arnarstapi hefur ekki verið friðlýstur. Verður ákærði því ekki sakfelldur fyrir að hafa með mannvirkjagerð sinni á þeim stað brotið gegn 63. gr. laga nr. 44/1999, en það ákvæði fjallar um röskun friðlýstra náttúruminja. Hrísey var hins vegar friðlýst árið 1977 með heimild í 24. gr. þágildandi laga nr. 47/1971 um náttúruvernd, sbr. auglýsingu nr. 425/1977. Er friðlýsingunni nánar lýst í héraðsdómi. Fyrir Hæstarétt var lögð fram yfirlýsing [...] og eigenda jarðarinnar Miðhúsa, frá júlí 1977, sem gefin var í tilefni samþykkis þeirrar fyrir friðlýsingu Hríseyjar. Eru þar talin upp fimm atriði sem lagt er til að gilda eigi um hið friðlýsta svæði. Í fyrsta lagi að bannað verði að skerða gróður eða breyta gróðurfari og beiting búfjár verði bönnuð, í öðru lagi að óheimilt verði að skerða fjörugróður, í þriðja lagi að bann verði lagt við drápi á fuglum, „nema svo sem nauðsynlegt kann að reynast vegna nytja æðarvarps“, í fjórða lagi verði umferð bönnuð á tilteknu tímabili án heimildar Náttúruverndarráðs og í fimmta lagi verði ráðinu heimilt að leyfa nytjar æðarvarps og annarra hlunninda í og við eyna. Ekki nýtur gagna í málinu um það hvort eigendur Miðhúsa hafi hlotið leyfi til að nytja æðarvarp í landi sínu, en hins vegar kom fram í vitnisburði Kristins Hauks Skarphéðinssonar að honum væri kunnugt um að eigendurnir hafi gert það með vitund og vilja ráðsins, og gerði hann ráð fyrir að það hafi verið „talinn sjálfsagður hlutur að veita þessa heimild“.

Ljóst er af því sem rakið hefur verið um tilgang og aðdraganda friðlýsingar Hríseyjar að henni var einkum ætlað að taka til friðunar lands og gróðurfars á eyjunni, en hvergi var þar vikið að friðlýsingu fugla eða lífríkis þeirra á eða við hana, nema að því er varðar hugsanlega friðlýsingu vegna nytja æðarvarps. Eins og fyrr segir er ákærða gefið að sök að hafa spillt friðlýstum náttúruminjum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp á umræddum stöðum. Þar sem ekki verður séð að friðlýsing Hríseyjar taki til friðunar fugla og sérstaks lífríkis þeirra eða búsvæða verður ákærði þegar af þeirri ástæðu ekki sakfelldur fyrir brot gegn 63. gr. laga nr. 44/1999. Að öllu framangreindu virtu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvalds.

Eftir þessum úrslitum ber að greiða allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, eins og nánar greinir í dómorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. júní 2002.

Mál þetta, sem var dómtekið 10. maí sl., höfðaði sýslumaðurinn á Patreksfirði 13. febrúar 2002 með ákæru á hendur X,

„fyrir brot á lögum um náttúruvernd og lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með því að hafa dag einn um haustið 2000 farið í land í hólmanum Arnarstapa í Miðhúsaeyjum í Reykhólahreppi, rekið niður þrjá staura um mannhæðarháa, staðsetta þannig að staurar voru skammt innan við brún stapans beggja vegna og einn staur þar á milli, strengt band á milli stauranna og einnig til hliðar út frá endastaurum í tréhæla í jörðinni, og með því að fara í land í Hrísey í Miðhúsaeyjum í Reykhólahreppi, sett 4 tréfjalir yfir syllu nyrst á eynni þannig að þær náðu frá klettabrún ofan við sylluna og niður á brún hennar frá öllum hliðum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp í arnarlaupum á fyrr­greindum stöðum, og með því raskað hreiðurstað arna og spillt friðlýstum náttúruminjum.

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 og við 1. og 3. tölul. 1. mgr. 53. og 63. gr. sbr. b og d lið 50. gr. og 76. gr. laga nr. 44/1999 sbr. auglýsingu nr. 425/1977.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Ákæra sama sýslumanns, út gefin 10. maí sl., var sam­einuð þessu máli samdægurs.  Með henni er höfðað mál á hendur ákærða

„fyrir brot á lögum um náttúruvernd og lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með því að hafa dag einn um sumarið 2001 farið í land í hólmanum Arnarstapa í Miðhúsaeyjum í Reykhólahreppi, komið þar fyrir tveimur þrífótum úr timbri, öðrum 120 cm. háum vestan við hreiðurstað arnarins og hinum 160 cm. háum austan við hreiðurstaðinn, og með því að fara í land í Hrísey í Miðhúsaeyjum í Reykhólahreppi, reist þar háa stöng með flaggi við hreiðurstað arna á syllu nyrst á eynni, í þeim tilgangi að hindra arnarvarp í arnarlaupum á fyrr­greindum stöðum, og með því raskað hreiðurstað arna og spillt friðlýstum náttúruminjum

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 6. gr., sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 64/1994 og við 1. og 3. tölul. 1. mgr. 53. og 63. gr. sbr. b og d lið 50. gr. og 76. gr. laga nr. 44/1999 sbr. auglýsingu nr. 425/1977.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst sýknu.

I.

Ákærði kveðst hafa komið fyrir þeim mannvirkjum sem í ákærum greinir og kveðst hafa gert það í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að ernir gerðu sér þar hreiður.  Telur hann arnarvarp þarna til þess fallið að valda sér búsifjum með usla í æðarvarpi.  Telur hann háttsemina ekki varða refsingu.

             Frammi liggur í málinu skýrsla Ævars Petersen, fuglafræðings, dagsett 21. maí 1999, þar sem meðal annars er að finna yfirlit um sögu arnarvarps í Mið­húsa­eyjum.  Segir að tvö gömul hreiður hafi fundist í Arnarstapa vorið 1999, en ernir hafi varla orpið þar það vor.  Arnarstapi sé engu að síður gamalgróið arnasetur.  Noti ernir yfirleitt fleiri setur, tvö til fjögur, á hverju óðali, og skipti óreglulega um þau.  Arnaóðalinu í Miðhúsaeyjum tilheyri þannig setur í Hrísey og Tóbaks­hólma, auk setursins í Arnarstapa.  Hafi ernir orpið nokkuð samfellt í Mið­húsa­eyjum frá árinu 1959, oftast í Arnarstapa.  Samkvæmt yfirliti fugla­fræð­ingsins er síðast vitað um arnarvarp í Miðhúsalöndum 1997, er par var með hreiður í Arnar­stapa 2. maí, en varp mis­fórst. 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson líffræðingur gaf skýrslu fyrir dómi við aðal­meðferð málsins.

             Með dómi Héraðsdóms Vestfjarða 15. september 2000 var ákærði sak­felldur fyrir brot gegn lögum nr. 61/1992 um sinubrennur og meðferð elds á víða­vangi með því að brenna sinu í Arnarstapa vorið 1999, en sýknaður af sakargiftum um að hafa raskað hreiður­stað arna með þeirri háttsemi.

II.

Dómurinn leggur til grundvallar að mannvirkjagerð ákærða, sem í ákærum er lýst, hafi verið til þess fallin að koma í veg fyrir að ernir gerðu sér hreiður í Arnar­stapa eða Hrísey, enda var það tilgangur ákærða með henni.  Ómögulegt er að vita hvort ernir hefðu gert þarna hreiður ef ákærði hefði ekkert aðhafst, en það er ekki ósennilegt miðað við sögu arnarvarps í Miðhúsaeyjum, en eins og rakið er að framan hafa ernir margoft orpið í Arnarstapa, en einnig alloft í Hrísey, sam­kvæmt tilvitnaðri skýrslu Ævars Petersen.

Í 1. gr. laga nr. 64/1994 segir að friðun merki bann við veiðum og öðrum að­gerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr viðkomu dýra af tiltekinni tegund.  Tekur friðun einnig til eggja og hreiðra þeirra fugla sem njóta algerrar eða tímabundinnar friðunar.   Íslenski haförninn er friðaður, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 64/1994 og í 7. gr. reglugerðar nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fugl­um er hann talinn meðal þeirra tegunda sem aldrei megi heimila tímabundnar veiðar á, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir tjón.

Aðgerðir ákærða, sem komu í veg fyrir að haförn gæti nýtt sér fyrri varpstaði voru til þess fallnar að draga úr viðkomu teg­undar­innar, en nærri má geta hver hún yrði að lokum, ef heimilt yrði talið að reisa varnarvirki á þekktum hreiðurstöðum til að koma í veg fyrir varp þar að nýju.  Varðar háttsemi ákærða, sem í ákærum er lýst, því við 1. mgr. 6.  gr., sbr. 19. gr., laga nr. 64/1994.

III.

Hrísey í Reykhólahreppi var friðlýst árið 1977, sbr. auglýsingu nr. 425/1977, með heimild í 24. gr. þágildandi laga nr. 47/1971, sbr. nú 2. mgr. 78. gr. laga nr. 44/1999.  Í auglýsingunni er tekið fram að eyjan sé friðland og bannað sé að skerða þar gróður, þ.m.t. fjörugróður, breyta gróðurfari og beita búfé, granda fuglum nema nauðsyn krefji vegna nytja æðarvarps og fara um eyjuna á tímabilinu 15. apríl til 15. júlí án heimildar Náttúruverndarráðs.  Náttúru­verndarráð getur heimilað nytjar æðarvarps og ann­arra hlunninda í og við eyj­una.  Í 1. tl. 53 gr. laga nr. 44/1999 er tekið fram að friðlýst landsvæði nefnist friðlönd.  Falla þau undir friðlýstar náttúruminjar samkvæmt b lið 50. gr. laganna.

Ákærði setti fjórar tréfjalir yfir syllu nyrst á greindu friðlandi haustið 2000 og reisti þar stöng með flaggi sumarið eftir.  Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 44/1999, sem háttsemi ákærða er heimfærð undir, er talið upp hvaða náttúrufyrirbæri umhverfis­ráðherra geti friðlýst, en þar er ekki að finna verknaðarlýsingu sem háttsemi ákærða fellur undir. 

Samkvæmt 63. gr. laga nr. 44/1999 má ekki granda friðlýstum náttúru­minjum, spilla þeim eða breyta.  Varðar slík röskun refsingu samkvæmt 76. gr. laganna.  Fjórar tréfjalir yfir syllu og stöng með flaggi verða að teljast spjöll á friðlandinu og varðar uppsetning þeira ákærða refsingu samkvæmt 76. gr. laga nr. 44/1999.  Er þá haft í huga að stöngin verður ekki talin hafa verið þáttur í nýtingu æðarvarps, eins og málið horfir við.  Við ákvörðun refsingar verður hins vegar litið til þess að ekki var um varanleg spjöll að ræða og auðvelt ætti að vera að koma friðlandinu í samt lag.

IV.

Ákærði, sem hefur ekki sætt refsingum, var sakfelldur hinn 15. september 2000 fyrir brot gegn lögum nr. 64/1994 og 61/1992, en ákvörðun refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár.  Ákærði hefur nú rofið skilorð þess dóms.  Ber að taka hann upp, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 7. gr. laga nr. 22/1955 og 7. gr. laga nr. 24/1999, og dæma ákærða refsingu fyrir öll brotin í einu lagi, samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga.  Refsing ákærða ákveðst 80.000 króna sekt til ríkis­­sjóðs, sem skal greiðast innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 12 daga.

Dæma ber ákærða til að greiða allan sakarkostnað.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans.

Dómsorð:

Ákærði, X, greiði 80.000 krónur í sekt til ríkis­sjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í  12 daga.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar.