Print

Mál nr. 743/2012

Lykilorð
  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn
  • Aðfinnslur

Fimmtudaginn 18. apríl 2013.

Nr. 743/2012.

K

(Gunnar Sólnes hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd A

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn. Aðfinnslur.

Barnaverndarnefnd A krafðist þess að K yrði svipt forsjá sonar síns. Með vísan til álits sérfræðinga taldi héraðsdómur að miklir annmarkar væru á forsjárhæfni K og ólíklegt að viðleitni til að bæta þar úr bæri nægjanlegan árangur. Var það mat dómsins að barnaverndarnefnd A hefði reynt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta, en að þau hafi ekki skilað viðunandi árangri. Var ekki fallist á með K að barnaverndarnefnd A hefði brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins. Þvert á móti hafi nefndinni borið skylda til að beita þeim úrræðum sem nauðsynleg voru til að tryggja vernd drengsins. Var fallist á kröfu barnaverndarnefndar A um að K yrði svipt forsjá drengsins enda væri vanhæfi hennar augljóst og barninu hætta búin hvað varðar heilsu og þroska. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins áfrýjaða dóms með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2012. Hún krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Með héraðsdómi var áfrýjandi svipt forsjá sonar síns en eftir uppkvaðningu hans hefur barnið verið nefnt D.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur með þeim hætti sem greinir í dómsorði.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Mál til forsjársviptingar sæta flýtimeðferð fyrir dómi samkvæmt 53. gr. b. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvorki fór stefndi eftir 2. mgr. 123. gr. laga nr. 91/1991 þegar stefna var gefin út né gætti héraðsdómur að sérreglum 1. mgr. 124. gr. sömu laga við meðferð málsins. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

            Áfrýjandi, K, er svipt forsjá sonar síns, D, sem fæddur er [...] [...] 2011.

            Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda skal óraskað.

            Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

            Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. október sl., er höfðað af Barnaverndarnefnd A, [...], [...], gegn K, kt. [...], nú með lögheimili að [...], [...].

Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefnda verði með dómi svipt forsjá yfir ónefndum syni sínum, kt. [...], en til vara að drengurinn verði vistaður á heimili fósturforeldra í 12 mánuði frá og með uppkvaðningu dóms.  Ekki er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda.  Þá krefst stefnda málskostnaðar að skaðlausu, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Mál þetta er rekið fyrir dómi í samræmi við fyrirmæli í X. kafla barnaverndarlaga nr. 80, 2002.

I.

1. Stefnda, K, er [...] ára [...], sem ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum.  Að loknum grunnskóla var hún u.þ.b. 1 ár í framhaldsskóla, en hóf þá sambúð og vann m.a. í fiskvinnslu.  Hún fluttist til Reykjavíkur árið 1999 og starfaði þar við ýmis þjónustustörf.  Hún kynntist þáverandi sambýlismanni sínum árið 2001 og eignuðust þau tvö börn, sem fædd eru 2002 og 2004, en þau slitu samvistum í ársbyrjun 2005.  Stefnda hefur ekki verið í fastri vinnu frá árinu 2007.

Stefnda hóf sambúð með síðari sambýlismanni sínum, B, á árinu 2008 og eignuðust þau dreng í [...] 2009  Við fæðingu drengsins reyndist stefnda jákvæð fyrir kannabisefnum.  Af gögnum verður helst ráðið að stefnda og nefndur sambýlismaður hennar hafi slitið eiginlegri sambúð sinni sumarið 2009, en þrátt fyrir það verið í allmiklum samskiptum mörg undanfarin misseri.

Stefnda eignaðist fjórða barn sitt, dreng þann sem mál þetta varðar, þann [...] 2011 á Sjúkrahúsinu á [...], en þá var faðerni drengsins óstaðfest.

Tveimur dögum eftir fæðingu drengsins fóru starfsmenn stefnanda, Barnaverndarnefndar [...], á sjúkrahúsið og óskuðu þess við stefndu að hún afsalaði sér umsjón drengsins tímabundið til nefndarinnar.  Þegar stefnda neitaði því var henni afhent tilkynning um neyðarráðstöfun, samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, um að ákvörðun hefði verið tekin um að drengurinn yrði um kyrrt á sjúkrahúsinu, í umsjá barnadeildar.  Um forsendur var vísað til þess að barnaverndarnefndin hefði verulegar efasemdir um hæfni stefndu og möguleika til að fara með forsjá drengsins og annast hann svo viðunandi væri.  Þann 17. október sama ár ákvað stefnandi með úrskurði að hinn nýfæddi drengur yrði vistaður í tvo mánuði hjá fósturforeldrum, en fyrir var þar í fóstri næstelsti sonur stefndu, sem fæddur er á árinu 2009.  Stefnda kærði úrskurð stefnanda til Héraðsdóms Norðurlands eystra, en með úrskurði dómsins þann 2. desember sama ár var úrskurður stefnanda staðfestur.  Úrskurður héraðsdóms var ekki kærður til Hæstaréttar Íslands.

Með stefnu birtri 7. desember 2011 ákvað stefnandi að höfða mál gegn stefndu til sviptingar forsjár nefnds drengs, en hann er óskírður.

2. Samkvæmt málavaxtalýsingu stefnanda og öðrum gögnum hafa samskipti málsaðila varað í nokkur ár.  Liggur þannig fyrir að afskipti starfsmanna stefnanda af málum tveggja elstu barna hennar hófust í ársbyrjun 2008 er tilkynningar bárust frá leikskóla og lögreglu um ætlaða fíkniefnaneyslu hennar og almenna vansæld barnanna.  Við fæðingu þriðja barns stefndu, drengsins sem fæddur er í [...] 2009, mældist þvagsýni sem tekið var úr stefndu jákvætt fyrir kannabis og barst barnaverndarnefnd erindi þar um frá starfsfólki Sjúkrahúss [...].

Mál yngsta drengs stefndu, þess barns sem í þessu máli er fjallað um, hófst hjá barnaverndarnefnd í lok mars 2011 þegar að mati nefndarinnar bárust áreiðanlegar tilkynningar, þar sem lýst var yfir áhyggjum af heilsu og lífi hans í móðurkviði vegna mjög bágra aðstæðna og óreglulegs lífernis stefndu, m.a. óhóflegrar fíkniefnaneyslu.

Stefnandi staðhæfir að málefni barna stefndu hafi verið til samfelldrar meðferðar, en allt frá upphafi hafi borist fjöldi tilkynninga er bent hafi til óviðunandi aðstæðna barnanna.  Hafi tilkynningar þessar verið frá lögreglu og ýmsum aðilum er vel hafi þekkt til aðstæðna stefndu.

Stefnandi staðhæfir að á meðan stefnda gekk með hinn óskírða dreng á árinu 2011 hafi starfsmönnum stefnanda borist fjórar barnaverndartilkynningar.  Tilkynningarnar hafi varðað geðrænt ástandi stefndu, neyslu hennar á fíkniefnum, ofneyslu lyfja og ofbeldissambands hennar við föður að næstyngsta syni hennar, fyrrnefndum B.

Stefnandi vísar til þess að við meðferð mála allra barna stefndu hafi verið aflað gagna frá sérfræðingum.  Hafi gögnin leitt í ljós að stefnda hafi um árabil glímt við margháttaðan geðrænan vanda sem gert hafi henni ókleift að fara með umsjón barna sinna.  Bendir stefnandi á að við sögu hafi m.a. komið geðlæknir stefndu, Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir, og Pétur Maack sálfræðingur, en skýrsla þess síðarnefnda um stefndu hafi verið unnin í lok árs 2010.  Þá hafi stefnandi vegna málsmeðferðar næstyngsta drengs stefndu aflað matsgerðar frá Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi, í mars 2011, og Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðingi, í ágúst 2011.  Síðast og undir rekstri þessa máls hafi verið aflað matsgerðar Guðrúnar Oddsdóttur sálfræðings, dagsettrar 5. maí sl.  Þessu til viðbótar liggi fyrir í málinu ítarlegar greinargerðir starfsmanna stefnanda svo og bókanir og fundargerðir, á árabilinu 2009-2011, þar sem fjallað hafi verið um málefni stefndu og barna hennar.

Stefnandi vísar til þess að þrátt fyrir að ekkert hafi komið fram um að stefnda hafi neytt fíkniefna á meðgöngu hins óskírða drengs eða lyfja án ávísunar frá lækni, þá hafi tækifæri til að meta slíkt sjaldan gefist þar sem stefnda hafi einungis mætt tvisvar í eftirlit til mæðraverndar, en þar hafi vikuleg fíkniefnaprófun átt að fara fram samkvæmt samkomulagi við stefndu.  Og þrátt fyrir hvatningu læknis á kvenlækningasviði Sjúkrahússins á [...] hafi stefnda lítt sinnt boðunum og þ. á m. ekki sótt viðtöl hjá starfsmönnum stefnanda á meðgöngu drengsins og ekki leitað eftir endurhæfingu, líkt og áætlanir hafi verið um.

Að því er varðar fyrrnefndar barnaverndartilkynningar bendir stefnandi á að efni þeirra hafi verið alvarlegt.  Nefnir stefnandi m.a. tilkynningar, sem hafi varðað samband stefndu við barnsföður sinn, sem eigi sér langa afbrotasögu, líkamsárásir hans gegn henni, en einnig um að stefnda hefði reynt að útvega sér lyf.

Af hálfu stefndu er málavaxtalýsingu stefnanda andmælt að verulegu leyti.  Staðhæfir stefnda að hún hafi undanfarin misseri unnið í sínum málum og tekið sig á.  Liggi þannig fyrir, sbr. framlögð gögn, að hún hafi sótt meðferð hjá geðlækni og ekki neytt fíkniefna.  Hún hafi þannig sýnt meðferðinni áhuga og hún skilað árangri. Að auki hafi hún margítrekað lýst yfir að hugur hennar standi til að hefja nám hjá [...] ellegar í [...] og þá í því skyni að styrkja sjálfa sig og búa sig undir að fara út á vinnumarkaðinn.  Stefnda staðhæfir að þær tilkynningar sem stefnandi vísi til séu óstaðfestar sögusagnir sem ekki eigi við rök að styðjast, þ.á m. um neyslu fíkniefna.  Hið rétta sé að hún hafi neytt lyfja samkvæmt læknisráði.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að með því að svipta stefndu forsjá drengsins og vista hann hjá fósturforeldrum sé verið að tryggja óskilyrtan rétt hans fyrir vernd og umönnun.  Stefnandi byggir á því að þótt réttur stefndu til einkalífs, heimilis og fjölskyldu sé rétthár þá verði ekki litið fram hjá þeirri grundvallarreglu barnaréttar að við úrlausn mála skuli hagsmunir barna hafðir að leiðarljósi og vega þyngra en forsjárréttur foreldra.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að fullvíst sé að líkamlegri og andlegri heilsu drengsins sé hætta búin fari stefnda með forsjá hans.  Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til matsgerðar Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings, dagsettrar 14. mars 2011, þar sem fram komi að stefndu skorti innsæi og skilning á ábyrgð á daglegu lífi.  Eins vísar stefnandi til matsgerðar Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings, dagsettrar 28. ágúst 2011, þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að margt þurfi að breytast hjá stefndu til að hún geti veitt þessum syni sínum öruggar aðstæður.  Við málflutning vísaði stefnandi loks til matsgerðar Guðrúnar Oddsdóttur sálfræðings, dagsettrar 5. maí sl., sem aflað var undir rekstri málsins, en þar sé rökstutt að stefnda sé ekki hæf til að fara með forsjá barna.

Stefnandi vísar til þess að auk fyrrgreindra sérfræðigagna liggi fyrir í málinu fjölmargar greinargerðir starfsmanna stefnanda, en þar komi m.a. fram að stefnda hafi ítrekað horfið af heimili sínu og skilið börn sín eftir í umsjá annarra, að hún hafi ítrekað vanrækt að fara með næstyngsta son sinn í ungbarnaeftirlit og hafi drengurinn þannig orðið af bólusetningum vegna heilahimnubólgu.  Og varðandi nefndan dreng bendir stefnandi á að stefnda hafi þann 31. mars 2011 kært barnsföður sinn fyrir líkamsárás, en við þær aðstæður sem þá sköpuðust hafi drengurinn lent á milli í átökum þeirra.

Stefnandi byggir á því að af framlögðum gögnum verði ekki um villst að daglegri umönnun þess drengs sem mál þetta varði sé stefnt í verulega hættu fari stefnda með forsjá hans.  Sé um það vafi telur stefnandi að þann vafa beri að skýra drengnum í hag.  Bendir stefnandi á að drengurinn dvelji nú hjá sömu fósturforeldrum og eldri bróðir hans og að mati stefnanda hafi sú fósturvistun gengið vel.

Stefnandi byggir á því, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist með stuðningsúrræðum að skapa börnum stefndu þau uppeldisskilyrði sem þau eigi skýlausan rétt á.  Staðhæfir stefnandi að í öllum aðgerðum hafi meðalhófs í hvívetna verið gætt og hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefndu og unnt hafi verið.  Það sé því mat stefnanda, í ljósi sögu stefndu, að ekki séu tiltæk önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting, en að því leyti telur stefnandi óhjákvæmilegt að horfa til þess að mál barna stefndu hafi verið til meðferðar hjá stefnanda um árabil.  Þannig hafi með fjölþættum stuðningsaðgerðum verið reynt að styrkja stefndu í forsjárhlutverki sínu með það að markmiði að tryggja börnum hennar viðunandi uppeldisaðstæður, m.a. með fjölda áætlana, sem gerðar hafi verið í samvinnu við stefndu um meðferð mála hennar.  Hafi þannig verið fjallað um stuðningsúrræði sem reynt hafi verið að fylgja eftir.  Síðasta áætlunin hafi verið gerð þann 1. júní 2011, en þar hafi, líkt og í eldri áætlunum, verið gert ráð fyrir samvinnu stefndu við stefnanda um úrræði og jafnframt að samvinna yrði við hlutaðeigandi stofnanir og sérfræðinga.  Þrátt fyrir það hafi samvinna við stefndu gengið illa og hafi hún lítt verið til samstarfs um úrbætur í málum barna sinna.  Hún hafi þannig ítrekað lofað að leita sér viðeigandi meðferðar, hætta neyslu fíkniefna og ofneyslu lyfja, en án árangurs.  Bendir stefnandi m.a. á að stefnda hafi ekki verið viljug til að gangast undir fíkniefnapróf og ekki leitað sér meðferðar vegna fíkniefnavanda síns.  Þá bendir stefnandi sérstaklega á að í framlagðri skýrslu Péturs Maack, sálfræðings geðsviðs Sjúkrahússins á [...], komi fram að stefnda hafi illa nýtt sér þjónustu geðdeildarinnar og jafnframt að meðferðarheldni hennar hafi ekki verið góð.  Loks bendir stefnandi á að stefndu hafi ekki reynst unnt að halda leiguíbúð þeirri sem hún hafi fengið fyrir tilstuðlan stefnanda hjá [...], en hún hafi misst hana veturinn 2011 vegna vanskila.

Stefnandi byggir á því að eitt af þeim úrræðum sem hafi verið gripið til í samráði við stefndu hafi verið að um tíma hafi verið tilsjón með heimili hennar, en með því hafi m.a. verið reynt að tryggja öryggi barna hennar með öflugu eftirliti, og þá t.d. með boðuðum og óboðuðum heimsóknum.  Þá hafi stefndu ítrekað verið boðið að nýta sér námsvist í starfsendurhæfingu, en hún ekki nýtt sér það.

Stefnandi bendir á að í samráði við stefndu hafi tvö elstu börn hennar, fædd 2002 og 2004, verið vistuð í fóstri hjá foreldrum hennar frá lokum árs 2009.  Þá hafi næstyngsti sonur stefndu, þá tveggja ára, verið í tímabundnu fóstri hjá föðurömmu drengsins í samtals sextán mánuði, eða allt þar til honum hafi verið komið í fóstur í kjölfar úrskurðar stefnanda þann 5. apríl 2011, en að málaferlum vegna forsjársviptingar hans hafi loks lokið með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands nr. 49/2012.

Stefnandi byggir á því að á meðgöngu hins óskírða drengs, síðari hluta árs 2011, hafi stefnda samþykkt að mæta í vikulegt eftirlit hjá mæðravernd til að gefa þvagsýni vegna fíkniefnaprófs, en að hún hafi sinnt því illa og einungis mætt tvisvar.  Þá hafi stefnda ekki efnt loforð sem hún hafi gefið á meðgöngunni um að óska eftir dagdeildarmeðferð á geðdeild, en í þess stað verið í sambandi við geðlækni símleiðis.  Þá hafi stefnda mætt illa í viðtöl hjá starfsmönnum stefnanda.  Vísar stefnda um þessi atriði og fleiri til undirritaðrar áætlunar stefndu og starfsmanns stefnanda frá 1. júní 2011.

Stefnandi byggir á því að þótt fallist sé á að staða stefndu hafi eftir atvikum eilítið batnað á meðgöngu drengsins þá sýni framlögð gögn að geðrænu ástandi hennar, fíkniefnaneyslu og misnotkun á geðlyfjum sé þannig háttað að hún sé ekki fær um að fara með forsjá þess drengs sem hér um ræðir.  Bendir stefnandi á að er eldri börn stefndu voru í hennar umsjá hafi umönnun þeirra verið verulega ábótavant og hafi stefnda boðið þeim upp á óverjandi aðstæður.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að nauðsynlegt sé að ráðstöfun sú sem kveðið hafi verið á um með fyrrgreindum úrskurði 17. október sl. standi lengur.  Telur stefnandi, með hliðsjón af hagsmunum drengsins, brýna nauðsyn á því að sú ráðstöfun standi lengur.  Byggir stefnandi varakröfu sína á þeim málsástæðum sem aðalkrafa hans er studd við og vísar til umfjöllunar hér að framan.

Stefnandi vísar um lagarök um sviptingu forsjár til barnaverndarlaga nr. 80, 2002, a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr., en varðandi varakröfu um framlengingu ráðstöfunar til b-liðar 1. mgr. 27. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr., laganna, en einnig um réttaráhrif.  Varðandi meðalhófsreglu vísar stefnandi til 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37, 1993.  Að því er varðar meginregluna um að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda vísar stefnandi til 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, 3. mgr. 76. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33, 1994 og samnings Sameinuðu þjóðanna um rétt barnsins nr. 18, 1992.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefnda byggir kröfur sínar á því að það þjóni hagsmunum barnsins best að það verði í umsjón móður sinnar, enda sé hún í stakk búin til að annast það.  Stefnda mótmælir því sem stefnandi heldur fram að hún sé ófær um að annast barnið sökum fíkniefnaneyslu, geðraskana og ofneyslu lyfja.  Staðhæfir stefnda að hún hafi ekki átt við fíkniefnavanda að stríða og hafi ekki neytt fíkniefna í lengri tíma og bendi ekkert til að svo sé.  Vísar stefnda til þess að þær þvagprufur sem hún hafi skilað inn á meðan á meðgöngu barnsins stóð hafi verið hreinar og hafi ekki fundist nein merki um ólögmæt fíkniefni.

Að því er varðar geðraskanir bendir stefnda á að hún hafi verið til meðferðar hjá geðlæknum undanfarna mánuði og unnið í sínum málum.  Því liggi fyrir, þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða af hálfu stefnanda, að hún sé nú allt önnur en hún hafi lengi verið.  Hún sé nú staðráðin í því að vinna í eigin málum í því skyni að styrkja sjálfa sig í foreldrahlutverkinu.  Stefnda bendir á að það hafi reynst henni afar þungbært að á sama tíma og hún hafi verið og sé í ákveðnu og markvissu bataferli skuli stefnandi fara fram með þeim hætti sem hann geri í máli þessu.

Stefnda byggir á því að stefnandi hafi í störfum sínum, og með þeirri aðgerð sinni að taka umræddan dreng hennar nokkurra daga gamlan úr umsjón hennar, brotið gróflega gegn þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar þar sem fjallað sé um að stjórnvöld skuli gæta meðalhófs í samskiptum sínum við almenning.  Bendir hún á að það úrræði sem hér hafi verið gripið til gangi lengst af öllum þeim úrræðum sem barnaverndaryfirvöldum séu falin í barnaverndarlögum nr. 80, 2002, í þeim skilningi að þau heimili inngrip í málefni barna án undangenginnar málsmeðferðar samkvæmt VIII. kafla laganna.  Telur stefnda að þeim mun ríkari kröfur verði að gera til þess að beiting úrræða samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnaverndarlaga sé ekki viðhöfð nema að telja megi allar bjargir bannaðar og ekki séu neinar aðrar leiðir færar.  Byggir stefnda á því að þetta eigi ekki við í tilfelli hennar, enda virðist sem svo að stefnandi hafi ekki gert neitt sjálfstætt mat á aðstæðum hennar eða hinum óskírða dreng.  Þvert á móti hafi eingöngu verið byggt á því að stefnda eigi talsverða sögu að baki hjá barnaverndaryfirvöldum.  Telur stefnda að þá kröfu verði að gera til barnaverndaryfirvalda að hvert mál sé metið sjálfstætt og án þess að fyrri saga þeirra aðila sem í hlut eiga sé dregin inn í það mat.  Bendir stefnda á að þau gögn sem stefnandi byggi á í máli þessu séu allt að þriggja ára gömul og hafi margt breyst hjá stefndu á því tímabili og að undanförnu.  Byggir stefnda á því að afar varhugavert sé að byggja ákvörðun um jafn alvarlegt inngrip í málefni drengs hennar á því eingöngu að hún hafi áður staðið í viðlíka málum.  Fáist slíkt ekki staðist þær meginreglur stjórnsýslulaga, ákvæði stjórnarskrár eða alþjóðasamninga um mannréttindi sem gera verði kröfur um að viðhafðar séu í málum af þessu tagi.  Það sé því mat stefndu að með aðgerðum sínum hafi barnaverndaryfirvöld gerst sek um alvarlegt brot á meginreglu stjórnsýslulaga og nægi því til stuðnings að benda á meðalhófs- og rannsóknarreglu téðra laga.

Stefnda byggir á því að í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga sé sú skylda lögð á barnaverndaryfirvöld að þau gæti þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið sé til annarra úrræða og að ávallt skuli beita vægustu úrræðum til að ná þeim markmiðum sem að sé stefnt.  Telur stefnda að gögn málsins beri með sér að því fari víðs fjarri að stefnandi hafi fullreynt vægari úrræði áður en gripið var til þess úrræðis sem lengst gekk.  Beri strax af þessari ástæðu að sýkna stefndu, enda helgi tilganginn ekki meðalið í þessum efnum.

Stefnda byggir á því að hún hafi stundað meðferð hjá geðlæknum með reglubundnum hætti síðastliðna mánuði og misseri og náð nokkrum árangri, en að auki hafi hún haldið góðu sambandi við eldri börn sín sem búi hjá foreldrum hennar og hafi þau samskipti gengið vel.  Stefnda vísar til þess að hún hafi í hyggju að styrkja stöðu sína með því að hefja nám hjá Starfsendurhæfingu [...], en að öðrum kosti í framhaldsskóla, líkt og ítrekað hafi verið bent á, á fundum hennar með starfsmönnum stefnanda.  Við meðferð og flutning málsins vísaði stefnda til þess að hún hefði hafið leit að leiguíbúð í hverfi nærri foreldrum sínum og eldri börnum og stefni að því að búa hinum óskírða dreng þar öruggt og gott heimili, en hún njóti stuðnings foreldra sinna eftir þörfum.  Við flutning var og á það bent að stefnda hefði þegar lagt fram umsókn til bæjarfélagsins um viðeigandi húsnæði.

Stefnda byggir á því að samkvæmt 71. gr. laga nr. 33, 1994 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sé henni tryggður réttur til friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og gildi það sama um hið óskírða barn.  Staðhæfir stefnda að sú krafa sem stefnandi hafi sett fram í máli þessu sé með öllu ótímabær, enda sé ekki útséð með að staða stefndu batni og aðstæður hennar breytist þannig að hún geti í framtíðinni tekið drenginn að sér og annast hann.

Að því er varðar varakröfu vísar stefnda til sömu málsástæðna og hér að framan hafa verið raktar varðandi aðalkröfu hennar.

Um lagarök er af hálfu stefndu vísað til ákvæða barnaverndarlaga nr. 80, 2002, sem og almennra reglna barnaréttarins, sbr. lög nr. 76, 2003.  Enn fremur vísar stefnda til meginreglna stjórnsýsluréttarins, sbr. lög nr. 37, 1993 og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 18, 1992, auk laga nr. 33, 1994 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.  Um málskostnað vísar stefnda til 129. og 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála og 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002, en enn fremur til gjafsóknarleyfis innanríkisráðuneytisins frá 22. desember 2011. Þá er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun, sbr. ákvæði laga nr. 50, 1988.

III.

Samkvæmt framansögðu vísa málsaðilar báðir til þess að málefni stefndu og barna hennar hafi verið til umfjöllunar hjá stefnanda, Barnaverndarnefnd A, um árabil.  Verður vikið að þeim gögnum hér á eftir sem aðilar hafa vísað til eins og tilefni þykir til.

Liggur fyrir að upphaflegt tilefni könnunar stefnanda á högum stefndu voru m.a. barnaverndartilkynningar frá leikskóla og lögreglu um ætlaða fíkniefnaneyslu hennar og almenna vansæld elstu barna hennar, en einnig samskipti hennar við barnsfeður.  Af þessu tilefni ritaði Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur álitsgerð um forsjárhæfni stefndu samkvæmt beiðni Fjölskyldudeildar A.  Álitsgerðin er dagsett 5. ágúst 2008, en efni hennar var kynnt stefndu á sínum tíma.  Í álitsgerðinni er fjallað um stöðu stefndu, en einnig er þar vikið að síðari sambýlismanni hennar, sem þá hafði nýverið komið inn í líf hennar.  Í álitsgerðinni er það álit látið í ljós að stefnda þarfnist aðstoðar við að auka persónulegt sjálfstæði sitt og finna leiðir til að skapa stöðugleika í aðstæðum sínum þar sem skipulag, áætlanir og framkvæmd séu látnar haldast í hendur.  Sálfræðingurinn segir að líf stefndu hafi tekið jákvæða stefnu síðustu misserin en að það sé áhyggjuefni hversu skammt nefndur sambýlismaður hennar sé kominn í sínum bataferli og það geti skapað ákveðna hættu.  Sálfræðingur leggur til að stefnda sæki samtalsmeðferð hjá sálfræðingi þar sem lögð sé áhersla á hugræna atferlismeðferð og að hún fari á sjálfstyrkingar- og uppeldistækninámskeið.  Þá segir í  lokaorðum álitsgerðarinnar:

„Mikilvægt er að K geri sér far um að vera í góðu sambandi við barnaverndarstarfsmenn og meðtaki þá aðstoð og eftirlitsskyldur sem barnaverndarnefnd telur nauðsynlegar á hverjum tíma.  Eins og fram hefur komið er skammt síðan K átti í erfiðleikum og ítrekaðar tilkynningar bárust Barnaverndarnefndar A.  Það er því mat undirritaðrar að fylgjast þurfi áfram með heimilinu og að velferð barnanna sé örugglega tryggð.  Berist frekari barnaverndartilkynningar má gera því skóna að vandamál K séu það djúpstæð að þau hindri hana í að ná viðunandi árangri í foreldrahlutverkinu og gildi þá einu stuðningur fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og góður vilji hennar sjálfrar.“

Samkvæmt gögnum fólust fyrstu stuðningsaðgerðir barnaverndarnefndar og félagsmálayfirvalda við stefndu og foreldra hennar á árinu 2008 og á fyrstu mánuðum ársins 2009 einkum í leiðbeiningum og ráðgjöf.  Að auki var henni veitt aðstoð við greiðslu gjalda vegna leikskólavistunar og skólamáltíða og henni fenginn tilsjónaraðili á heimili, með heimsóknum allt að þrisvar í viku.  Þá hófu starfsmenn stefnanda sérstaka athugun á málefnum drengsins sem fæddur er árið 2009, meðan hann var enn í móðurkviði, þann 11. febrúar, það ár, en þá voru u.þ.b. sex vikur í fæðingu.  Var það vegna upplýsinga um að stefnda stefndi lífi og heilsu drengsins í hættu með óviðunandi háskalegu líferni vegna fíkniefnaneyslu, en einnig vegna ætlaðs ofbeldis af hálfu föður hans og sambýlismanns stefndu.  Var ákveðið af hálfu nefndarinnar að hefja könnun samkvæmt 2. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Segir frá því í bókun nefndarinnar að stefnda hafi hafnað því með öllu að áðurnefndar grunsemdir um fíkniefnaneyslu ættu við rök að styðjast og hafi hún neitað að fara í fíkniefnapróf.  Í tilkynningu frá fæðingardeild Sjúkrahússins á [...], vegna fæðingar drengsins, þann 26. mars 2009, sagði, eins og áður er fram komið, að stefnda hefði mælst jákvæð fyrir kannabis, en þess jafnframt getið að hún sinnti drengnum vel, og að auki hefði hún lýst því yfir að hún væri reiðubúin að nýta sér aðstoð göngudeildar geðdeildar sjúkrahússins.

Í gögnum stefnanda kemur fram að stefnda hafi eftir ítrekaðar tilraunir fyrst fallist á að mæta til fundar með starfsmönnum barnaverndarnefndar 29. apríl 2009 og hafi hún þá viðurkennt að hafa í nokkur skipti notað hass á meðgöngunni, en staðhæft að hún væri hætt slíkri neyslu en tæki kvíðastillandi lyf og af þeim sökum hefði hún hætt brjóstagjöf.  Fram kemur að stefnda hefði notfært sér sálfræðiaðstoð geðdeildar Sjúkrahússins á [...] og jafnframt hafi hún lýst því yfir að hún vildi þiggja aðstoð og eiga samstarf við barnaverndarnefnd.

Samkvæmt gögnum voru á árunum 2009 og 2010 gerðar fimm samstarfsáætlanir með stefndu, sem starfsmenn stefnanda undirrituðu ásamt henni, sbr. ákvæði 23. gr. barnaverndarlaga, en stefnda hafði þá að sögn slitið sambandi sínu við nefndan sambýlismann.  Um tilefni þessara áætlana segir m.a. að þar komi til erfiðar félagslegar aðstæður og neysla stefndu, en markmiðið er sagt það að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barns og til að styrkja stefndu í uppeldishlutverki sínu.  Jafnframt segir í þessum áætlunum að það sé hlutverk stefndu að panta viðtalstíma hjá félagsþjónustu vegna framfærslumála, sjá til þess að ekki sé neysla eða varsla fíkniefna á heimilinu, fara í fíkniefna/lyfjapróf sé þess óskað, stunda sálfræðiviðtöl, mæta reglulega til ungbarnaverndar og mæta til reglulegs samráðs með barnaverndarnefnd.  Tiltekið er að stuðningsúrræði séu þau að vera stefndu til ráðgjafar og fylgjast með aðlögun og aðbúnaði barna í samráði við móður, móðurforeldra og ungbarnavernd, að fylgjast með framvindu sálfræðimeðferðar hjá móður, halda samráðsfundi með móður á framangreindum tímum, hafa samráð við félagsþjónustu um stuðningsaðgerðir.

Fyrir liggur að samkomulag var gert við stefndu af hálfu stefnanda um tímabundið fóstur drengs hennar, sem fæddur er á árinu 2009, hjá föðurömmu drengsins til að tryggja öryggi hans og umsjá meðan stefnda leitaði sér aðstoðar vegna margvíslegs vanda sem þótti skerða forsjárhæfni hennar, einkum ánetjunar lyfja og vímuefna og vegna geðræns óstöðugleika.

Samkvæmt framlögðum gögnum bárust starfsmönnum barnaverndarnefndar á árunum 2009 og 2010 fjölmargar tilkynningar sem bentu til þess að aðstæður á heimili stefndu og barna hennar væru óviðunandi.  Nefnt er í tilkynningunum m.a. að þar væri umferð fólks sem ætti við vímuefnavanda að etja, en að auki væri grunur um að geðrænt ástand stefndu væri óstöðugt, að hún neytti ólöglegra vímuefna og misnotaði geðlyf.  Einnig barst nefndinni tilkynning frá lögreglu um að stefnda hefði verið stöðvuð við akstur á bifreið vegna gruns um fíkniefnaakstur, en einnig um að hún hefði verið lögð inn á sjúkrahús þann 11. september 2009 eftir að hafa tekið of stóran skammt af lyfjum.

Samkvæmt gögnum barnaverndarnefndar reyndist örðugt að staðreyna efni fyrrnefndra barnaverndartilkynninga til hlítar þar sem stefnda hefði forðast að koma til fundar við starfsmenn nefndarinnar og verið ófáanleg til að gefa þvagsýni vegna vímuefnaleitar.  Þá hefðu áform um stuðning við hana og um meðferð hennar og endurhæfingu, þ. á m. hjá Starfsendurhæfingu [...], komið fyrir lítið.  Segir frá því í gögnum að í árslok 2009 hafi svo verið komið að mati barnaverndarstarfsmanna að stefnda hafi verið talin alls kostar ófær um að annast fyrrnefndan dreng vegna ítrekaðra vísbendinga um stjórnlausa vímuefnaneyslu og jafnframt að hún léti sig jafnvel hverfa svo sólarhringum skipti og skeytti lítt um öryggi drengsins.  Hafi þetta leitt til þess að í lok ársins hafi starfsmenn stefnanda og stefnda gert samkomulag um að foreldrar stefndu tækju að sér umsjá tveggja elstu barna hennar, og liggur fyrir að þau hafi æ síðan verið hjá þeim í vist.

Samkvæmt gögnum var stefnda til meðferðar og greiningar á geðdeild Sjúkrahússins á [...] frá 23. ágúst til 7. september 2010.  Segir í vottorði Sigmundar Sigfússonar, forstöðulæknis geðdeildarinnar, dagsettu 6. desember 2010, að stefnda hafi verið í sólarhringsvist og að hún hefði fylgt öllum fyrirmælum og tekið virkan þátt í deildarstarfi.  Þá segir að aldrei hefði vaknað grunur um að hún væri undir áhrifum fíkniefna og hefðu rannsóknir sýnt að engin fíkniefni hafi verið í þvagi hennar.  Einnig segir að stefnda hefði mætt reglulega í göngudeildarviðtöl, tvisvar til þrisvar í mánuði, frá janúar til loka maí 2010 og síðan aftur eftir vistina á geðdeildinni á tímabilinu frá 9. september til 10. október og loks í eitt skipti, þann 24. nóvember 2010. 

Í vottorðinu segir yfirlæknirinn að stefnda hefði fengið svohljóðandi sjúkdómsgreiningu:  Almenn kvíðaröskun, felmturröskun, endurteknar vægar geðlægðarraskanir, blandnar og aðrar persónuraskanir, (sjálfsdýrkunar/hlutleysis-ýgi persónuleikaröskun og jaðarpersónuröskun).  Aðrar raskanir á sálarþroska, skaðleg notkun slævilyfja eða svefnlyfja, skaðleg notkun kannabisefna, hálstognun og tognun og ofreynsla á lendahrygg.  Þá er þess getið í vottorðinu að stefnda taki inn kvíðalyf, en að fyrirhugað sé að hún fari í Starfsendurhæfingu [...] frá og með janúar 2011.

Í vottorði forstöðulæknisins er vísað til skýrslu Péturs Maack Þorsteinssonar, forstöðusálfræðings geðdeildarinnar, um stefndu.  Í nefndri skýrslu segir að hún hafi verið rituð eftir ítarlegt sálfræðilegt mat á stefndu eftir að fyrir hana hefðu verið lögð víðtæk sálfræðileg próf.  Í niðurstöðukafla segir sálfræðingurinn að hann telji að stefnda glími við margháttaðan geðrænan vanda og þann vanda hennar megi í öllum meginatriðum rekja til persónugerðarinnar, þannig að kvíða- og lyndisraskanir komi fram sem afleiðingar af eða í kjölfarið á endurteknum árekstrum hennar við umhverfi sitt og „kerfið“.  Persónuleikaraskanir myndi afar óheppilega samsetningu einkenna með tilliti til virðingar fyrir lögum og reglum, sjúkdómsinnsæi, meðferðarheldni og samvinnu við meðferðaraðila.  Persónuleikaprófin styðji þessa mynd og því liggi nokkuð góð vissa að baki þessum greiningum.  Sálfræðingurinn fjallar nánar um persónuleikaraskanir stefndu og segir að þær eigi það sameiginlegt að innsæi í orsakir og eigin ábyrgð á vanda sé mjög takmarkað og því sé hætt við að hún sjái ekki eigin ábyrgð á því hvernig komið sé fyrir henni heldur kenni öðrum um.  Þá segir að fátítt sé að slíkur einstaklingur sæki sérfræðiaðstoð og geri það helst vegna þvingunar eða ávinnings.  Einkenni þessara raskana séu mjög alvarleg á meðan þau vari þótt ýmsar rannsóknir bendi til að þau fari þverrandi með aldrinum eða eldist af fólki.  Þunglyndi og sjálfsvígstilraunir séu algeng vandamál hjá sjúklingum með jaðarpersónuleikaröskun og talið sé að 8-10% þeirra taki líf sitt.  Því sé ekki bara um að ræða erfiðleika í samskiptum heldur raunveruleg heilbrigðisvandamál, sem þarfnist meðhöndlunar.  Lokaorðin í skýrslu sálfræðingsins eru þessi:  „Líklegt er að á meðan persónuleikavandi K hefur virk áhrif á líf hennar munu kvíði og þunglyndi vera viðvarandi vandamál, sem komi og fari eftir þeirri stöðu sem K verður í gagnvart umhverfi sínu hverju sinni.  Því væri æskilegt að hún fengist til samstarfs um þétta meðferð með áherslu á að bæta innsæi og skilning hennar á eigin ábyrgð þegar kemur að þeim vandamálum sem hún býr við og lendir í endurtekið.  Við skipulag slíkrar meðferðar verður nauðsynlegt að taka tillit til stopullar meðferðarheldni fram að þessu, auk þess sem finna þarf leið til að bregðast við tíðum uppákomum varðandi notkun geðvirkra efna.  Það skal jafnframt lagt til að enginn einn aðili sinni meðferð K heldur verði það gert af teymi starfsmanna með sérfræðiþekkingu í meðferð persónuleikaraskana.  Vegna fyrri sögu um notkun geðvirkra efna og á köflum nokkuð tíðra barnaverndartilkynninga ætti þetta teymi einnig að vera í samstarfi við starfsfólk barnaverndaryfirvalda.“  Sálfræðingurinn tekur fram að við skipulag og val á meðferð sé nauðsynlegt að taka tillit til niðurstöðu greindarmats stefndu.  Hann minnir og á að snemma á fullorðinsárum hennar hafi engum sögum farið af geðrænum vanda og hún hafi áður sýnt tímabil stöðugrar líðunar með ábyrgri hegðun.  Markmið eða væntingar um meðferð ættu því ekki að útiloka að önnur slík tímabil geti átt sér stað.

Samkvæmt gögnum stefnanda var, á grundvelli áðurgreindrar sjúkrahúsmeðferðar stefndu, afráðið að sækja um forgang fyrir hana á félagslegri leiguíbúð, en einnig að gerð yrði áætlun til undirbúnings því að hún tæki að sér á ný umsjón þess drengs hennar sem fæddur er 2009 strax og hún gæti búið honum viðunandi aðstæður.  Liggur fyrir að þessar ráðstafanir gengu að nokkru eftir og ritaði stefnda undir áætlun fyrir tímabilið 24. september til 31. október 2010.  Að öðru leyti  virðast áætlanir stefndu ekki hafi gengið sem skyldi, en samkvæmt skýrslum stefnanda er vísað til þess að hún hafi ekki mætt til funda og ekki svarað boðum, en að auki er þess getið að starfsmönnum barnaverndarnefndar hafi borist tilkynningar um að hún væri að reyna að útvega sér fíkniefni og hefði frestað því að setjast að í íbúð þeirri sem hún hafði fengið úthlutað.  Segir frá því að er starfsmenn barnaverndar hefðu farið í vitjun til hennar í bráðabirgðahúsnæði á [...] hinn 20. október 2010 hefði hún verið í ójafnvægi og að útlit hennar og fas hefði jafnframt þótt benda til þess að hún kynni að vera á ný komin í neyslu fíkniefna.  Þá segir í gögnum að starfsmenn hefðu fengið upplýsingar um að stefnda hefði haft stopula umgengni við nefndan dreng þann tíma sem hann dvaldi hjá föðurömmu sinni, en að auki hefði stefnda aldrei grennslast fyrir um aðlögun drengsins og þroska á leikskóla.  Þá hefði það komið í ljós að hún hefði eytt öllum framfærslueyri sínum um miðjan októbermánuð og ekki átt fyrir mat.  Loks er sagt að samskipti hennar við starfsmann á bakvakt í lok október hefðu bent til þess að hún væri ekki í ástandi til að annast drenginn og hafi þess verið getið í fundargerð teymisfundar barnaverndarnefndar þann 27. október 2010.  Segir frá því í gögnum að eftir fundahöld starfsmanna stefnanda með stefndu og barnsföður hennar og lögmönnum þeirra í desember 2010 hafi orðið að ráði að þau færu hvort í sínu lagi í forsjárhæfnismat hjá óháðum sálfræðingum.  Annaðist Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur matið gagnvart stefndu K.

Matsskýrsla Valgerðar Magnúsdóttur er dagsett 14. mars 2011.  Í skýrslunni er lýst högum og aðstæðum stefndu og er þar m.a. vikið að áðurgreindum barnaverndaráætlunum, að eigin meðferð hennar og sýn hennar á móðurhlutverkinu.  Um þetta segir nánar í skýrslunni:

„K var fljót til svars þegar hún var spurð um það hvað skipti almennt mestu máli fyrir börn ... og hún á ekki erfitt með að draga upp nokkuð góða mynd af því hvaða áherslur hún vill hafa með börnunum sínum.  Í því felast vissir styrkleikar hjá henni.  Ekki er að efa að á sinn hátt þykir henni vænt um börnin sín.  Styrkleikar hennar felast einnig í því að á góðum stundum er hún áreiðanlega lífleg og skemmtileg móðir.  Helstu veikleikar hennar felast í því að andlegt heilsufar hennar einkennist af erfiðum persónuleikaröskunum sem valda árekstrum við umhverfið og árekstrarnir valda svo miklum kvíða hjá henni.  Við þetta bætist takmörkuð greind, sérstaklega hvað varðar skilning.  Því á hún erfitt með að bera ábyrgð á sjálfri sér og aðstæðum sínum og þar af leiðandi einnig á börnunum.  Einnig gefa persónuleikaraskanir hennar vísbendingar um vanda gagnvart dýpri tengslum við þau, sem afskiptaleysi hennar gagnvart þeim á tímabilum staðfesta.  Einnig er augljóst í samræðum við hana að innsæi hennar í þarfir barnanna er lítið og að hennar þarfir koma á undan.  Með ábyrgðarleysi sínu sinnir hún ekki einu sinni þeim grunnþörfum sínum og barnanna að hafa þak yfir höfuðið.

Lýsing hennar á því hvernig hún ætlast til að börnin hnippi í hana til þess að hún fari út úr því ástandi að geta ekki brugðist við þörfum þeirra sýnir að hún hefur ekki skilning á því að það er hún sem þarf að bera ábyrgðina á börnunum, ekki börnin á henni.  Það getur varla verið forsvaranlegt að börnin séu hjá henni undir slíkum kringumstæðum.  Í síðara viðtali okkar nefndi hún þrisvar sinnum að það væri svo gott fyrir sig að hafa börnin hjá sér eða vera í sambandi við þau á hverjum degi þegar henni líður illa.  Í þeim ummælum var augljóst að þarfir hennar höfðu forgang fram yfir þarfir barnanna.  Orsakasamhengi er alveg snúið á hvolf.  Athygli vakti að hún vissi ekki nafnið á leikskóla C. ( fæddur 2009).“

„K fylgdi engum áformum um frekari meðferð eftir og hefur þannig staðfest fyrir sitt leyti að það eru litlar líkur á að einstaklingur með hennar gerð af persónuleikaröskunum sæki sérfræðiaðstoð af frjálsum vilja.  Hún sagði undirritaðri að hún taki lyfin sem læknirinn ávísar og að hann sé mjög ánægður með að hún taki þau öðruvísi en ætlast sé til.  Fróðlegt væri að vita hvort hann vill staðfesta það.  Af samtölum K við matsmann má ráða að hún gerir sér ekki grein fyrir tilgangi frekari viðtalsmeðferðar við geðlækni eða sálfræðing og virðist telja að símtöl sem hún á við geðlækninn að sínum geðþótta geti komið í staðinn.  Hún sagðist hafa fengið kynningu á náminu hjá Starfsendurhæfingunni og hætt við að taka þátt af því að þetta væri upprifjun á því sem hún hefur tekið áður.  Hún virðist ekki gera sér grein fyrir að [...] sé hugsað sem liður í alhliða endurhæfingu hennar.

K fékk haustið 2010 leiguíbúð hjá [...] með forgangi vegna áforma um að taka börnin til sín á nýjan leik.  Þegar fyrra samtal okkar átti sér stað hafði hún lánað barnsföður sínum íbúðina.  Þegar síðara samtal okkar átti sér stað var hún að missa íbúðina vegna skemmda sem hann olli á  henni.  Hún ber ekki skynbragð á ábyrgð sína á þeirri stöðu.  Áður var hún húsnæðislaus eftir að hafa misst leiguíbúð hjá [...] vegna vangoldinna reikninga.  Nú hefur hún óraunsæja drauma um stórt og gott húsnæði, jafnvel utan við bæinn, þrátt fyrir að hún sé bíllaus og öðrum háð um far á milli húsa á [...].  Hún áttar sig ekki á að möguleikar hennar á húsnæðismarkaði geti verið slakir í ljósi forsögu hennar og stöðu, heldur svaraði hún undirritaðri því bara til að hún viti að hún geti það sem hún ætlar sér.  K hefur lítið verið á vinnumarkaði.  Hún hefur haft endurhæfingarörorkubætur síðan haustið 2010 en ekki fylgt eftir neinum áformum um endurhæfingu.

Saga K einkennist af áformum sem ekki verður af.  Í skýrslu Péturs Maack sálfræðings eru raktar ítarlega margendurteknar beiðnir K aftur til ársins 2006 um þjónustu geðdeildarinnar sem hún nýtti sér svo ekki.  Í greinargerð fyrir barnaverndarnefnd 18. mars 2009 segir að til hafi staðið að hún færi í endurhæfingu á dagdeild geðdeildar [...] í byrjun apríl 2007 en svo ekki nýtt sér það úrræði.  Annað dæmi er að K sagðist á fundi með barnaverndarstarfsmönnum þann 22. september 2009 ætla að sækja um endurhæfingarlífeyri  og nám hjá Starfsendurhæfingu [...] frá áramótum 2009-10.  Hún sagðist skilja alvarleika málsins og vera tilbúin að vinna með barnavernd að því að bæta hag barnanna (sbr. greinargerð 16. desember 2009).  Þriðja dæmið er að í bréfi sínu segir Sigmundur Sigfússon geðlæknir um áætlanir um áframhaldandi meðferð að K hafi fengið loforð um pláss í Starfsendurhæfingu [...] frá og með janúar 2011.  Hér að ofan segir af hverju hún nýtti sér það ekki.  Og í seinna viðtali við undirritaða nefndi hún sem hluta af framtíðaráformum sínum að sig langi að hefja þar nám í haust til að komast í [...].  Það skortir alla rökvísi í þessar hugmyndir.

Að einu leyti virðast aðstæður hennar nú geta verið heldur betri en áður, vegna þess að í kjölfar þeirrar ítarlegu greiningar sem fram fór á síðasta ári hefur hún átt kost á lyfjum við hæfi.  Þau eru forsenda fyrir því að hún geti nýtt getu sína eins vel og hægt er.  Einnig er á grundvelli niðurstaðna greiningarinnar hægt að gera raunhæfari áætlanir um stuðning og meðferð en áður var.  Hins vegar tekur hún ekki lyfin eins og til er ætlast og hún fylgir ekki eftir áætlunum um endurhæfingu.

Undirrituð tekur undir álit Péturs Maack um mikilvægi þess að K fáist til samstarfs um þétta meðferð sem snýst um að auka innsæi og skilning hennar á ábyrgð í daglegu lífi sem hún lendir endurtekið í vandræðum með.  Það á jafnt við hvort sem hún er með börnin sín eða ekki.  En þar er margvíslegur vandi við að fást, slök greind hennar og persónuleikaraskanir, slök meðferðarheldni, sem og endurtekin notkun geðvirkra efna.  Þar þarf að koma að málum teymi fagmanna með góða þekkingu á meðferð persónuleikaraskana og þétt og góð samvinna allra sem að málum hennar koma.  Gera þarf skýran og markvissan samning um meðferðina og þau inngrip sem gætu reynst nauðsynleg.  Það þurfa allir að vera sammála um að gefa henni skýr skilaboð um það til hvers er ætlast og fylgja hlutverkum sínum eftir af mikilli fagmennsku. Ef K ætti að eiga einhverja möguleika á að annast uppeldi drengsins/barnanna þannig að viðunandi teljist samkvæmt sjónarmiðum barnaverndarlaga þyrfti hún að geta nýtt sér slíka meðferð og geta á grundvelli hennar nýtt sér mikla og þétta ráðgjöf og stuðning varðandi daglegt líf og uppeldi barnanna.  Helstu óvissuþættir snúa að skilningi hennar og meðferðarheldni.  Staða hennar hefur versnað verulega að undanförnu úr því að hún lét renna úr greipum sér með ábyrgðarleysi sínu íbúðina sem hún hafði fengið.  Með því sýndi hún mikinn skort á ábyrgð og skilningi gagnvart mikilvægi þess að börnum sé búinn stöðugleiki og öruggar aðstæður.

Markvissar áætlanir samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga hafa verið í gangi í málinu og sú nýjasta sem undirrituð er með undir höndum er fyrir tímabilið 24. september 2010 til 31. október 2010.  K stóð ekki við hlutverk sitt um að halda áfram að stunda meðferð og fara að ráðum lækna og meðferðaraðila varðandi frekari meðferð.“

Í lokaorðum skýrslunnar segir um forsjárhæfni stefndu:

„Persónuleikaraskanir, slök greind og lyndisraskanir ásamt endurtekinni notkun geðvirkra efna skerðir forsjárhæfni K verulega.  Helsta eðli persónuleikaraskana af því tagi sem hér um ræðir er óstöðugleiki og ábyrgðarleysi.  Sagan sýnir að skilningur K á því hvað er meðferð sem og mikilvægi samfellu í meðferð er lítill.  Hún er ekki fær um að axla ábyrgð á uppeldi sonar síns, C. (fæddur 2009), eins og sakir standa og fyrirliggjandi upplýsingar gefa lítið tilefni til bjartsýni.“

Í kjölfar fundar með stefndu og fyrrverandi sambýlismanni hennar þann 5. apríl 2011 og framlagningar greinargerða var af hálfu stefnanda kveðinn upp úrskurður um vistun áðurnefnds drengs þeirra, sem fæddur er 2009, hjá fósturforeldrum í tvo mánuði, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2002.  Í kjölfar úrskurðarins var drengurinn vistaður hjá hjónum með varanlegt fóstur hans í huga, en jafnframt höfðaði stefnandi dómsmál til sviptingar forsjár.

Eftir höfðun ofangreinds dómsmáls var dómkvödd Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur til að meta forsjárhæfni, m.a. stefndu, og framtíðarhorfur hennar.  Liggur af þessu tilefni fyrir matsskýrsla um stefndu, dagsett 29. ágúst 2011. Í skýrslunni er m.a. vísað til áðurrakinnar skýrslu Kolbrúnar Baldursdóttur sálfræðings frá 5. ágúst 2008, um að berist frekari barnaverndartilkynningar megi gera því skóna að vandamál hennar séu það djúpstæð að þau hindri hana í að ná viðunandi árangri í foreldrahlutverkinu og gildi þá einu stuðningur fjölskyldu, félagsmálayfirvalda og góður vilji hennar sjálfrar.  Er það niðurstaða matsmannsins að segja megi að stefnda sé, að þremur árum liðnum, enn í sömu sporum, en hún hafi lítið gert til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu.  Segja megi að hún hafi góðan vilja til að standa sig í orði, en það sé ekki nóg.  Í skýrslunni segir að stefnda sé enn í sambandi við föður fyrrnefnds drengs, þótt þau búi sitt á hvorum stað.  Hafi sambandið verið mjög stormasamt, en að stefnda segist sjá hann fyrir sér sem framtíðarmaka sinn.  Í skýrslunni segir að samkvæmt gögnum hafi barnsfaðirinn beitt stefndu andlegu og líkamlegu ofbeldi og farið að heiman þegar drengurinn hafi verið þriggja mánaða gamall þar sem hann hafi [...].  Skömmu síðar hafi hann farið í fangelsi og hún verið því fegin.  Vísað er til þess að stefnda haldi því fram að hún sjái miklar breytingar á barnsföðurnum eftir fangelsisvistina og treysti honum.  Vikið er að því að stefnda hafi áður verið í sambandi við annan mann, föður elstu barnanna tveggja, í samtals fjögur ár.  Hafi þessi aðili verið í fíkniefnaneyslu og beitt hana ofbeldi.  Hann eigi fangelsisdvöl að baki.

Matsmaður vísar í skýrslunni til gagna málsins og segir að þau bendi til þess að margnefndur barnsfaðir stefndu sýni enn óábyrga hegðun og ofbeldi.  Þannig hafi stefnda verið á heimili hans í byrjun árs 2011 þegar lögreglan hafi gert þar leit og fundið fíkniefni.

Í matsgerðinni segir að stefnda hafi tekið á leigu 5 herbergja íbúð í gömlu húsi um 4 km fyrir utan [...], en hún hafi flutt þangað 15. júlí 2011.  Er það niðurstaða matsmannsins að húsnæðið sé þrifalegt, en að stefnda hafi lýst því að þar væri músagangur og að lagnir væru gamlar og slitnar.  Fram kemur að matsmaður hafi spurt stefndu hvernig hún kæmist milli staða bíllaus og hefði hún þá haft á orði að hún húkkaði sér far og gengi það vel.  Til þess er vísað að stefnda hafi í gegnum tíðina ítrekað misst húsnæði með því að standa ekki í skilum.  Lætur matsmaður það álit í ljós að ólíklegt sé að hún haldi húsnæði til lengri tíma þegar skoðuð sé húsnæðissaga hennar og veiki það foreldrahæfni hennar.  Einnig er sagt að staðsetning húsnæðisins sé ekki barnvæn, nálægt þjóðvegi 1 og að hjólbarðaverkstæði sé á bak við húsið.

Í lokaorðum matsskýrslunnar víkur matsmaðurinn að framtíðarhorfum stefndu hvað varðar forsjárhæfni.  Segir þar að fíkniefnavandi hennar sé ekki aðalvandinn heldur persónuleikaeinkenni, sem hingað til hafi komið í veg fyrir að hún hafi getað sinnt forsjárhæfni svo vel sé til lengri tíma litið, en að hún hafi lítið gert til að styrkja forsjárhæfni sína og meðferðarheldni.  Tekur matsmaður undir með Valgerði Magnúsdóttur sálfræðingi að eins og sakir standi gefi fyrirliggjandi upplýsingar lítið tilefni til bjartsýni.

Með dómi Hæstaréttar Íslands 27. september 2012 í máli nr. 49/2012 var staðfestur dómur Héraðsdómur Norðurlands eystra í ofangreindu dómsmáli, að stefnda og fyrrverandi sambýlismaður hennar, B, yrðu svipt forsjá nefnds drengs.

Eins og fyrr var rakið eignaðist stefnda fjórða barn sitt, dreng þann sem mál þetta varðar, þann [...].[...] 2011, á Sjúkrahúsinu á [...]. Með úrskurði stefnanda 17. sama mánaðar var drengurinn vistaður hjá fósturforeldrum.  Með stefnu birtri 7. desember 2011 ákvað stefnandi að höfða mál gegn stefndu til sviptingar forsjár drengsins.

Samkvæmt gögnum hófust afskipti stefnanda af málefnum yngsta drengs stefndu í lok mars 2011, þegar að mati barnaverndarnefndar bárust áreiðanlegar tilkynningar um bágar aðstæður og óreglusamt líferni stefndu, og tilkynnendur lýstu yfir áhyggjum af heilsu og lífi hans í móðurkviði.  Tilkynningarnar hafi verið frá lögreglu og ýmsum aðilum er vel hafi þekkt til aðstæðna og varðað geðrænt ástandi stefndu, neyslu hennar á fíkniefnum, ofneyslu örvandi lyfja og ofbeldissambands hennar við barnsföður að næstyngsta syni hennar.  Fram kemur í gögnum að við könnun stefnanda hafi stefnda vísað grunsemdum um neyslu fíkniefna eða lyfja á bug og sagst reiðubúin að fara reglulega í skoðun til mæðraverndar og að gangast undir fíkniefna- og lyfjapróf.  Á hinn bóginn hafi komið fram að hún hefði misst félagslega íbúð vegna vanefnda á leigusamningi og væri heimilislaus.  Starfsmenn stefnanda hafi talið nauðsynlegt, vegna fyrri sögu og aðstæðna stefndu, að hafa sem nákvæmast eftirlit með heilsu hennar, aðstæðum og þroska fóstursins.  Hafi þótt eðlilegt að þetta eftirlit yrði hjá mæðravernd Heilsugæslustöðvarinnar á [...].  Hafi stefnda lýst sig fúsa til þessa samstarfs, sbr. undirritaða áætlun þar um frá 1. júní 2011, en hún ekki efnt það samkvæmt framlögðu bréf ljósmóður, dagsettu 22. ágúst 2011.  Hafi þannig verið staðfest að hvað varðar ákvæði samkomulagsins um vikulegar heimsóknir stefndu til mæðraverndar á tímabilinu frá apríl og til ágústloka 2011 hafi hún aðeins einu sinni mætt í skoðun til ljósmóður, en þó farið þrívegis til skoðunar hjá lækni á kvennadeild, fyrst 30. júní.  Við fíkniefna- og lyfjapróf stefndu hafi stefnda hins vegar reynst neikvæð og aftur í prófun hjá mæðravernd 14. og 21. september.  Þá hafi þvagsýni, sem tekið var úr stefndu við fæðingu 12. október 2011, greinst neikvætt fyrir kannabis og rítalíni.

Á teymisfundi stefnanda 25. maí 2011 segir í bókun, sbr. ofangreint, að ekki hefði verið staðfest með prófunum að stefnda hefði neytt fíkniefna á meðgöngunni, en misvísandi upplýsingar hennar sjálfrar um lyfjatöku, tregða til að fara í vímuefnapróf og fas hennar á fundi barnaverndarnefndar 5. apríl hafi sterklega bent til þess að hún hefði neytt vímuefna og/eða lyfja umfram læknisráð á meðgöngunni.  Bókað er að hafðar hafi verið til hliðsjónar munnlegar upplýsingar frá nákomnum aðila stefndu og fyrri reynsla af samskiptum við hana þegar svipaðar grunsemdir hefðu verið kannaðar.  Þá segir að staðfest hafi verið að félagslegar aðstæður sóknaraðila væru bágar, hún væri húsnæðislaus og upp á vini og kunningja komin hvað varðaði næringu og húsaskjól.  Að teknu tilliti til fyrri reynslu hefði það verið álit teymisins að í þessu fælist óviðunandi öryggisleysi fyrir móður og barn, enda sýndi fyrri reynsla að samband hennar við nákomna væri óstöðugt og stormasamt.  Bókað er að teymið teldi skeytingarleysi stefndu um að sæta eðlilegu og nauðsynlegu eftirliti mæðraverndar vera óviðunandi.  Þá væru ekki talin efni til þvingunaraðgerða, heldur yrði reynt að koma á nauðsynlegum stuðningi í samvinnu við stefndu, sem hún hefði marglýst vilja til.  Því hefði verið lagt til að gerð yrði með henni áætlun um meðferð máls til þriggja mánaða.  Það hefði gengið eftir þann 1. júní 2011, en í þeirri áætlun sem þá hefði verið gerð hefði verið kveðið á um eftirlit og stuðning við stefndu m.a. í samvinnu við mæðravernd.  Í fundargerð frá fundi 14. september 2011, sem stefnda sótti, segir frá því að starfsmaður stefnanda hafi upplýst að stefnda hefði ekki staðið við ýmis atriði sem síðasta áætlunin hafi hljóðað um, svo sem að mæta til skoðunar hjá mæðravernd og ekki hafi hún sótt um að komast í endurhæfingu hjá [...].  Þá hafi hún ekki mætt til viðtals við starfsmann stefnanda, eins og kveðið hafi verið á um í áætluninni.  Á fundinum hafi stefnda verið spurð um aðstæður sínar.  Hún hafi sagst vera að fara að taka á sínum málum af alvöru, ætti tíma bókaðan hjá mæðravernd daginn eftir og myndi mæta þar reglulega í framhaldinu.  Hún væri í góðu sambandi við foreldra sína og fengi stuðning hjá þeim.  Hún hefði tekið á leigu íbúð að [...] í [...] þar sem hún myndi búa í haginn fyrir fæðingu barnsins.  Hún hefði hins vegar ekki fengið neinn stuðning frá stefnanda, t.d. ekki fengið starfsmann í heimsókn til að spjalla við og fara með á kaffihús, eins og hún hefði óskað eftir.  Þá hefði hún ákveðið að þiggja ekki endurhæfingu frá [...], þar sem geðlæknir hefði ráðið henni frá því.

Í læknisvottorðum áðurnefnds Sigmundar Sigfússonar geðlæknis, sem dagsett eru 3. október 2011 og 13. september 2012, er áréttað að hann hafi verið meðferðarlæknir stefndu frá árinu 2009 vegna alvarlegra kvíðaröskunar og persónuröskunar af blandaðri gerð.  Hafi meðferð stefndu verið fólgin í viðtölum og lyfjagjöf við kvíðaröskun, en einnig með innlögn og sálfræðimeðferð haustið 2010, en þar um er vísað til áðurrakins vottorðs.  Í nefndum vottorðum segir að margvíslegir félagslegir erfiðleikar og ofnotkun geðvirkra lyfja hafi unnið gegn og truflað árangur af meðferð og meðferðarheldni stefndu.  Þá segir að stefnda hafi þörf fyrir sérstakan stuðning og meðferð eftir endurtekin áföll þegar börn hennar fjögur hafi verið tekin úr umsjá hennar, eitt af öðru.  Hafi hún átt sérstaklega erfitt andlega eftir að nýfætt barn hafi verið tekið af henni á fæðingardeild í [...] 2011.  Fram kemur að stefnda hafi verið í göngudeildarviðtölum í eitt skipti í júlí og tvívegis í september 2011 og þá tekið lyf samkvæmt læknisráði.  Eftir það hafi þessi viðtöl verið stopul, en síðast hafi stefnda komið 17. ágúst 2012, en í þess stað hafi verið um símaviðtöl að ræða, eftir þörfum.  Samskiptin hefðu verið góð, stefnda tekið inn viðeigandi lyf, en jafnframt óskað eftir viðeigandi meðferð þannig að hún gæti aukið forsjárhæfni sína.

Samkvæmt gögnum hafði lögregla nokkur afskipti af stefndu fyrri hluta árs 2012.  Liggur þannig fyrir að stefnda var í bifreið fyrrverandi sambýlismanns síns er hann var handtekinn þann 29. janúar sl., en þá fundust við leit í bifreiðinni fíkniefni.  Þá var stefnda á heimili nefnds aðila þann 29. febrúar sl. er lögregla gerði þar leit og fann nokkurt magn fíkniefna.  Loks var lögregla kvödd til þann 24. mars sl. er tilkynning barst um að nefndur aðili hefði ráðist að stefndu og barið hana nokkur högg með hamri, en hún var þá gestkomandi á heimili vinkonu.

Við meðferð þessa máls fyrir dómi var dómkvödd sem matsmaður Guðrún Oddsdóttir sálfræðingur til að meta forsjárhæfni stefndu og framtíðarhorfur varðandi forsjárhæfni.  Samkvæmt matsbeiðni var því m.a. beint til matsmannsins að hún gerði nýtt ítarlegt sálfræðimat og greiningu á stöðu stefndu sem og þeim meðferðarúrræðum sem henni stæðu til boða.  Liggur fyrir í málinu matsskýrsla matsmannsins sem dagsett er 5. maí 2012.

Í matsskýrslu hins dómkvadda matsmanns segir um aðdraganda og tilhögun skýrslunnar að auk áðurgreindra gagna liggi fyrir fjórar sálfræðilegar matsgerðir vegna forsjárhæfni stefndu, á árabilinu 2008 til 2011.  Bendir matsmaðurinn á að í því ferli hafi flest þau sálfræðilegu próf og matstæki sem við hæfi sé að nota við matsvinnu verið lögð fyrir stefndu, en flest í ítarlegri greiningu Péturs Maack í áðurrakinni skýrslu hans frá árinu 2010.  Bendir matsmaðurinn á að sálfræðileg próf sem notuð séu í slíkum greiningum mæli þætti sem séu taldir stöðugir yfir tíma, svo sem greindarfar og persónulegir þættir.  Matsmaðurinn bendir á að endurtekning sálfræðilegra prófa til að fá nýja niðurstöðu sé röng, enda sé ekki ástæða til að ætla að greind eða persónuleiki stefndu hafi breyst hin síðustu misseri.  Af þessum sökum hafi við matsvinnu ekki verið lögð fyrir stefndu þau próf sem þegar hafi verið lögð fyrir hana heldur séu niðurstöður þeirra metnar gildar.  Til þess er vísað að matsfundur hafi farið fram þann 12. mars sl. en auk þess hafi matsmaður rætt við vitnin Áskel Örn Kárason, forstöðumann Barnaverndarnefndar [...], Sigmund Sigfússon geðlækni og Pétur Maack sálfræðing, en til hliðsjónar hafi að auki verið framlögð gögn málsins, þ. á m. stefna og greinargerð aðila.

Í matsskýrslunni er rakin forsaga máls þessa og að nokkru rakið lífshlaup stefndu en einnig samband hennar við síðari sambýlismann sinn, samskipti hennar við barnaverndarnefnd og upplýsingar frá lögreglu, svo og aðstæður hennar á liðnum misserum.

Matsmaður gerir grein fyrir viðtali sem hún átti við stefndu þann 4. apríl sl. og segir að hún hafi verið samvinnuþýð og tjáð sig greiðlega.  Áberandi hafi verið að er hún svaraði spurningalistum hafi hún þurft miklar útskýringar og hafi hún misskilið orðalag.  Hún hafi á hinn bóginn verið jákvæð og lýst yfir bjartsýni á horfur sínar og haft á orði að hún væri að snúa lífi sínu til betri vegar.  Matsmaður getur þess að stefnda hafi á matsfundi verið með stórt glóðarauga og hafi hún lýst því að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði beitt hana miklu ofbeldi rúmri viku áður.  Hafi hún kært athæfi hans til lögreglu.  Greindi hún matsmanni frá því að hún hefði verið búsett hjá þessum fyrrverandi sambýlismanni sínum síðustu mánuðina og þá verið í daglegri kannabisneyslu um lengri tíma eða allt frá því tveimur vikum eftir að sonur hennar var tekinn af henni á sjúkrahúsi í október 2011.  Hún greindi hins vegar frá því að eftir að hún hefði hætt skiptum við sambýlismanninn nokkru fyrir viðtalið hefði hún ekki haft neina löngun í fíkniefni og hefði samastað hjá foreldrum sínum.  Þá greindi stefnda matsmanninum frá því að eftir að sonur hennar var tekinn frá henni á fæðingardeildinni hefði „eitthvað smellst í hausnum á henni“ og hún í framhaldi af því farið að vinna í sjálfri sér.  Hefur matsmaður eftir stefndu að eftir þetta hefði persónuleiki hennar breyst mikið og hún m.a. orðið eftirtektarsamari.  Þá hafi hún enn fremur róast í samskiptum við fjölskyldu sína og þá ekki síst börn sín, en að auki náð góðu sambandi við fólk og þ. á m. upplifað hugsanaflutning.  Nánar lýsti stefnda fyrir matsmanninum aðstæðum sínum og áréttaði m.a. að hún ætti góð samskipti við tvö eldri börn sín en auk þess væri hún mjög ánægð með þá fósturforeldra sem væru með tvo yngri syni hennar.  Hún lýsti áformum sínum til framtíðar og þ. á m. búsetu í íbúð á vegum [...].  Þá hefði hún áform um frekara nám og þá hjá Starfsendurhæfingu [...].  Þá greindi hún frá því að hún teldi sig enga þörf  hafa fyrir  vímuefnameðferð.

Í matsskýrslu er vísað til þess að samkvæmt gögnum lögreglu hafi verið höfð veruleg afskipti af fyrrverandi sambýlismanni stefndu síðustu mánuðina eftir fæðingu umrædds drengs, en á þeim tíma hefði stefnda búið hjá honum.  Samkvæmt lögregluskýrslum hefði stefnda verið aðili að mörgum málum þar sem hún hafi verið á heimili hans eða í bíl þegar lögreglan hafi leitað og fundið fíkniefni.  Matsmaðurinn vísar til þess að samkvæmt dagbók lögreglu hafi stefnda komið fyrir á myndbandi þar sem hún hafi meðhöndlað kókaín á hóteli erlendis í lok nóvember 2011 og að fyrir liggi handtökuskipun gagnvart henni vegna vangoldinna sekta.

Í matsskýrslunni er vísað til sálfræðilegra prófa sem stefnda undirgekkst tvívegis, þ. á m. greindarprófs á fyrri stigum.  Annars vegar hjá Kolbrúnu Baldursdóttur sálfræðingi þar sem frammistaða á svonefndu Raven-prófi hafi mælst í meðallagi.  Hins vegar hafi Pétur Maack sálfræðingur lagt fyrir stefndu WAIS-III greindarpróf árið 2010, en þar hefði niðurstaðan orðið sú að styrkleiki í sjónrænni skipulagningu var í meðallagi en að aðrir þættir prófsins hafi sýnt slaka frammistöðu og hafi heildartala greindar verið í lágu meðallagi.  Þá bendir matsmaður á að stefnda hafi undirgengist ýmis persónuleikapróf, m.a. hjá nefndum sálfræðingum, þ. á m. svonefnd MMPI-persónuleikapróf og PAI-próf.  Þá kvaðst matsmaður í matsvinnu sinni, að kröfu stefndu, hafa lagt fyrir hana svonefnt DIP-Q og Gough persónuleikapróf.  Vísaði matsmaðurinn til þess að niðurstaða þeirra prófa hafi bent til þess að stefnda fegraði sig mjög mikið, en uppfyllti þó greiningarskilmerki fyrir persónuleikaraskanir og hafi mælst með einkenni yfir greiningarmörkum fyrir þráhyggju-áráttu, aðsóknar-geðklofagerðar og geðhrifa-persónuleikaraskanir.  Þá bentu niðurstöður prófanna til þess að stefnda hefði lélega félagsmótun og að hún mæti eigin stöðu óeðlilega jákvætt og í raun ekki í tengslum við þann raunveruleika sem hún búi við.

Í niðurstöðukafla matsskýrslunnar er til þess vísað að forsjárhæfni stefndu hafi verið metin ítrekað áður og til þess vísað að í sérfræðigögnum komi fram að vitsmunaþroski hennar sé slakur, og að hún sé með persónuleikaraskanir, lyndisraskanir og að neysla geðvirkra efna skerði forsjárhæfni hennar alvarlega.  Þá segir í skýrslu matsmannsins:

„Síðasta ár hefur staða K versnað enn meir, m.a. hefur hún misst frá sér börn sín, hún er heimilislaus, hefur verið í ofbeldissambandi og í neyslu.  Það er því ljóst að K er ekki hæf til að fara með forsjá barna.

Mikilvægt er að hafa í huga að vitsmunaþroski setur því skorður hvaða meðferð getur hentað einstaklingum.  Til að mynd er ólíklegt að inngrip sem byggja á hugrænni atferlismeðferð eða innsæi skili árangri þegar skilningur er lítill en þá þarf að leggja áherslu á umhverfisþætti, atferlismótun og ytri ramma í meðferð.  Draga má í efa að K geri sér alltaf fulla grein fyrir því sem við hana er sagt og því þarf að vanda sérstaklega útskýringar varðandi  meðferðaráætlanir, samninga og annað.

Persónuleikaraskanir eins og fram hafa komið í prófum á K eru viðvarandi mynstur upplifana og hegðana sem víkja frá þeim viðmiðum sem ríkja í okkar menningu.  Slík mynstur eru talin bæði víðtæk og ósveigjanleg, þau eru stöðug yfir tíma og leiða til vanlíðunar og/eða hömlunar í lífi fólks.  Þessi mynstur koma fram í atferli viðkomandi og samskiptum hans við aðra, en viðkomandi er yfirleitt ekki sjálfur ósáttur við skapgerð sína eða hegðun né skynjar truflandi áhrif þeirra á aðra.

K staðhæfir sjálf að persónuleiki hennar hafi breyst mikið til batnaðar síðustu mánuðina frá því að sonur hennar var tekinn af henni í október 2011.  K reyndi mikið að fegra sig í prófun og neitaði að fylgja leiðbeiningum á persónuleikaprófi heldur miðaði svör sín við breytingar á persónuleika hennar sem hún sagði sumar vera aðeins nokkurra daga eða vikna gamlar.  Engu að síður koma fram miklir brestir í persónuleikanum.  Breytingar sem K tíundar sem bötnun snúast að miklu leyti um yfirskilvitlega reynslu sem varla er hægt að túlka sem framför á geðrænu ástandi.  Í mati K á eigin líðan er nánast sem hana skorti raunveruleikatengsl.

Til þess að K gæti náð persónulegum bata væri best að hún fengi nokkurra ára langtímameðferð með áherslu á persónuleikaröskun.  K þyrfti að geta stigið út úr sínu félagslega neti, hætt fíkniefnaneyslu og að vera í sólarhringsvistun með fullu eftirliti.  Slík meðferð er að viti matsaðila ekki í boði á Íslandi en ef K væri fús til samstarfs má vera að [...] geti sérsniðið slíkt úrræði að hennar þörfum með liðsinni sveitarfélagsins.

Bæri langtímameðferð þann árangur að K næði langvarandi tökum á sjálfri sér mætti endurmeta forsjárhæfni hennar.  Þannig eru framtíðarhorfur varðandi forsjárhæfni slakar eins og sakir standa en myndu sennilega aukast ef K tæki af heilum hug þátt í öflugri langtímameðferð.

Eðli persónuleikabresta K eru meðal annars skortur á sjúkdómsinnsæi og meðferðarheldni og að hún tekur ekki á sig ábyrgð af vandamálum sínum heldur kennir öðrum um.  Þetta má glöggt sjá á því að K hafi það mottó að fara ekki í meðferð við vímuefnanotkun og að henni þyki nægjanlegt að vera í símasambandi við geðlækni eftir sínu eigin höfði.  Hætt er við að hver sú meðferð sem K yrði boðið upp á væri dæmd til að mistakast af þessum sökum.“

IV.

Stefnda gaf skýrslu fyrir dómi.  Þá gáfu skýrslur vitnin Áskell Örn Kárason, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar A, Harpa Ágústsdóttir, uppeldisráðgjafi og starfsmaður Barnaverndarnefndar A, Hulda Pétursdóttir, deildarstjóri mæðraverndar Heilsugæslustöðvarinnar á V, Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur, Sigmundur Sigfússon, forstöðulæknir geðdeildar Sjúkrahússins á [...], Pétur Maack Þorsteinsson, sálfræðingur geðdeildar Sjúkrahússins á [...], Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur og Guðrún Oddsdóttir sálfræðingur.

Í skýrslu stefndu kom fram að hún hefði síðustu mánuði dvalið á heimili vinkonu sinnar, en hefði einnig skjól á heimili foreldra sinna, þar sem tvö elstu börn hennar hefðu búsetu.  Stefnda skýrði frá því að hún hefði, í kjölfar þess áfalls sem hún varð fyrir er umræddur drengur var tekinn af henni í október 2011, neytt fíkniefna, en hún hefði þá leitað stuðnings hjá fyrrverandi sambýlismanni sínum og vísaði til þess að um síðir hefði komið í ljós að hann væri faðir drengsins.  Hún kvaðst hafa hætt allri fíkniefnaneyslu á vordögum og ætlaði að hún þyrfti ekki á vímuefnameðferð að halda.  Hún kvaðst taka inn lyf samkvæmt læknisráði, en ætlaði að hún þyrfti ekki á eiginlegri læknis- eða sálfræðimeðferð að halda.  Hún lýsti áformum um frekari menntu á næstunni.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008 er barnaverndarnefnd heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annað þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá.

Samkvæmt lagagreininni er það skilyrði sett, samkvæmt a-lið, að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska.  Samkvæmt d-lið lagagreinarinnar er á sama hátt heimilt að krefjast forsjársviptingar ef fullvíst er talið, að áliti nefndarinnar, að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska sé hætta búin.

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal kröfu um sviptingu forsjár aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Af hálfu stefndu er því alfarið mótmælt að hún verði svipt forsjá drengsins og  hefur hún m.a. vísað til þess að forsendur svo alvarlegra aðgerða séu ekki fyrir hendi.

Eins og fram er komið hefur stefnda, K, um allnokkurt skeið átt samskipti við barnaverndaryfirvöld, m.a. vegna barna hennar, sem fædd eru á árunum 2002 og 2004, en einnig vegna drengs sem fæddur er á árinu 2009.  Liggur þannig fyrir að í ágúst 2008 var þess farið á leit af Fjölskyldudeild [...] að sálfræðingur gerði á henni forsjárhæfnismat með tilliti til styrkleika og veikleika.  Verður af þessu ráðið að barnaverndaryfirvöldum hafi verið ljóst að hún hafði skerta hæfni til að annast börn án viðeigandi aðstoðar og að þau skárust í leikinn og hafa tvö elstu börn stefndu verið vistuð síðustu árin hjá foreldrum stefndu.  Þá var dreng stefndu, sem fæddur er árið 2009, þegar sem ungbarni komið í fóstur og var stefnda svipt forsjá hans.  Þá hófu barnaverndaryfirvöld könnun á aðstæðum stefndu fyrir fæðingu hins óskírða drengs til að vernda hagsmuni hans og fá stefndu til að bæta ráð sitt.  Að mati dómsins greip barnaverndarnefnd á fyrri stigum til viðeigandi úrræða, sem hefðu, undir eðlilegum kringumstæðum, átt að gera stefndu kleift að sinna hlutverki sínu.  Stefnda lét verða af því síðsumars 2010 að leita sér aðstoðar og meðferðar á geðdeild Sjúkrahússins á [...], en árangur reyndist skammvinnur.  Að mati dómsins hefði stefndu mátt vera ljóst að staða hennar sem forsjáraðila var viðkvæm og því mikilvægt að hlíta ráðleggingum, m.a. meðferðaraðila, og þá jafnframt að vinna með barnaverndaryfirvöldum, ekki síst eftir að hún hafði misst forræði yfir þremur börnum sínum.  Liggur fyrir að sá stuðningur sem stefndu var boðinn á árunum 2008 til 2011 hafði að mati stefnanda ekki borið tilætlaðan árangur og var umræddum dreng, þá nýfæddum, komið tímabundið í fóstur í október 2011 þar sem stefnda var talin ófær um að annast hann svo viðunandi væri.

Samkvæmt gögnum er vandi stefndu K langvarandi og er honum ítarlega lýst í skýrslum fjögurra sálfræðinga, sem lagðar voru fyrir dóminn og eru nokkuð samhljóma og benda allar til mikillar skerðingar á forsjárhæfni stefndu.  Er í skýrslunum þannig lýst geðrænum vanda stefndu, þroskamisfellum og efnamisnotkun, sem allt rýrir mjög hæfni stefndu sem uppalanda eða gerir hana ófæra til að sinna foreldrahlutverkinu að mati sérfræðinganna.  Vottorð og vætti geðlæknis stefndu fyrir dómi var í sama dúr.  Samkvæmt vætti læknisins glímir hún m.a. við kvíða og persónuleikaraskanir, sem koma fram í sveimandi hugsun, síbreytilegum áætlunum, andlegum óstöðugleika og ósamkvæmni, sem allt háir henni við umönnun barna og uppeldisstörf almennt.  Til að ná árangri og nægum styrk sem forsjáraðili er stefnda, að mati geðlæknisins, í þörf fyrir atferlismótandi kaflaskipta meðferð á stofnun í langan tíma.  Aðspurður taldi geðlæknirinn stefndu ekki hæfa til að annast um barn sitt nema mikil fagleg aðstoð væri í boði inni á heimili hennar mestallan vökutíma drengsins.  Þá taldi hann að fyrrgreind sjúkdómsgreining Péturs Maack væri rétt og ætlaði að ný greining á stefndu myndi leiða til sambærilegrar niðurstöðu.  Loks tók læknirinn undir niðurstöður annarra sérfræðinga um að stefnda væri óáreiðanleg, ætti erfitt með að skipuleggja gjörðir sínar og fylgja áætlunum eftir.  Hana skorti innsæi og skilning á vanda sínum, finnist ástandið öðrum að kenna, hafi tilhneigingu til að misnota lyf og hafi litla meðferðarheldni.  Það var hins vegar álit læknisins að stefnda væri ekki fíkill á ólögmæt fíkniefni, en bar að hún gæti orðið sljó vegna töku lyfja.  Samkvæmt mati fyrrnefndra sérfræðinga er meðferðarhæfni stefndu slök, m.a. sökum þess að hún á erfitt með skilning á flóknum hugtökum og orsakasamhengi.

Dómurinn tekur undir álit framangreindra sérfræðinga og telur að miklir annmarkar séu á forsjárhæfni stefndu og ólíklegt að viðleitni til að bæta þar úr beri nægjanlegan árangur á næstunni.  Þá verður að telja að staða stefndu hafi hin síðari misseri versnað til muna, enda hefur hún lítið gert til að skapa sér sterkari stöðu og er nánast heimilislaus í dag.

Samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga nr. 80, 2008 eiga börn rétt á vernd og umönnun í samræmi við aldur sinn og þroska.  Þá ber foreldrum að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra.  Þeim ber og að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

Samkvæmt 12. gr. barnaverndarlaga er það m.a. hlutverk barnaverndarnefnda að hafa eftirlit með aðbúnaði, hátterni og uppeldisskilyrðum barna og meta sem fyrst þarfir þeirra sem ætla má að búi við óviðunandi aðstæður.  Jafnframt ber barnaverndarnefndum að beita þeim úrræðum samkvæmt lögunum til verndar börnum sem best eiga við hverju sinni og heppilegust þykja til að tryggja hagsmuni og velferð þeirra.

Það er mat dómsins að barnaverndarnefnd hafi í þessu máli reynt að beita öðrum vægari úrræðum til úrbóta, en að þau hafi ekki skilað viðunandi árangri.  Verður ekki fallist á með stefndu að stefnandi hafi brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, og þ. á m. meðalhófsreglunni.  Þvert á móti bar nefndinni skylda til, í samræmi við áðurgreind ákvæði barnaverndarlaga, sbr. einnig ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem birtur var í C-deild Stjórnartíðinda nr. 18, 1992, að beita þeim úrræðum sem nauðsynleg voru til að tryggja vernd nefnds drengs.  Málatilbúnaður stefnanda í máli þessu þykir heldur ekki aðfinnsluverður eða málatilbúnaður hans vanreifaður.

Ber með vísan til alls framangreinds að fallast á aðaldómkröfur stefnanda um að stefnda, K, verði svipt forsjá óskírðs sonar síns, sem fæddur er [...] [...] 2011, enda vanhæfi hennar augljóst og barninu hætta búin hvað varðar heilsu og þroska, sbr. a- og d-liði 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar úr hendi stefndu.

Stefnda hefur gjafsókn í máli þessu, samkvæmt bréfi innanríkisráðuneytis, dagsettu 22. desember 2011.

Af hálfu lögmanns stefndu hefur verið lagður fram sundurliðaður málskostnaðarreikningur og verður gjafsóknarkostnaður ákveðinn m.a. með hliðsjón af honum en einnig með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands, m.a. í málum nr. 50/1974 og nr. 470/2011.

Gjafsóknarkostnaður stefndu, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Arnar Jóhannssonar hdl., þykir að öllu framangreindu virtu hæfilega ákveðinn 712.500 krónur og hefur þá ekki verið lagður á virðisaukaskattur.  Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála tekur dómurinn ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar og ekki til þess kostnaðar sem til féll við rekstur málsins fyrir barnaverndarnefnd, sbr. ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga.

Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991.

Dóm þennan kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Þorgeir Magnússon sálfræðingur og dr. Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, K, er svipt forsjá sonar síns, kt. [...].

Gjafsóknarkostnaður stefndu, þ. m. t. þóknun lögmanns hennar, Ásgeirs Arnar Jóhannssonar hdl., 712.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.