Print

Mál nr. 263/2015

Lykilorð
  • Afhending gagna
  • Upplýsingaréttur
  • Þagnarskylda
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnarskrá

                                     

Fimmtudaginn 17. desember 2015.

Nr. 263/2015.

Brit Insurance Ltd.

QBE Insurance (Europe) Ltd.

Liberty Mutual Insurance Europe Ltd.

Allianz Global Corporate & Specialty AG

Novae Syndicate 2007

Dan Re Syndicate 1400 og

QBE Syndicate 1886

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

gegn

Fjármálaeftirlitinu

(Einar Karl Hallvarðason hrl.)

Afhending gagna. Upplýsingaréttur. Þagnarskylda. Stjórnsýsla. Stjórnarskrá.

Mál þetta varðaði heimild B Ltd. o.fl. og skyldu F til að afhenda þeim nánar tilgreind gögn, sem þeir hygðust nota til að sýna fram á að LÍ hf. hefði vanrækt upplýsingaskyldu sína sem vátryggingartaki er hann samdi við B Ltd. o.fl. um ábyrgðartryggingu stjórnenda sinna í ársbyrjun 2008. Fyrir lá að LÍ hf. hafði höfðað þrjú mál á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem þeir hefðu valdið bankanum með saknæmri háttsemi sinni og gegn B Ltd. o.fl. til greiðslu bótanna á grundvelli áðurnefndrar ábyrgðartryggingar. Í málunum þremur hafði B Ltd. o.fl. gert kröfu um að F afhenti þeim umrædd gögn eftir ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en héraðsdómur synjaði kröfunni og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Af því leiddi að taka þyrfti afstöðu til þess hvort málsókn B Ltd. o.fl. á þeim grundvelli sem hún væri reist á í þessu máli, þ.e. á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012, veitti þeim rétt til aðgangs að gögnunum umfram það sem þegar hafði verið tekin afstaða til í málunum þremur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í máli þessu vógust á ólík sjónarmið sem ættu rót að rekja til tveggja andstæðra meginreglna, annars vegar meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og hins vegar meginreglna laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálstarfsemi og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki um þagnarskyldu og bankaleynd. Þegar slíkar meginreglur rækjust á og taka þyrfti afstöðu til þess við úrlausn málsins hvor reglan skyldi víkja væri þess að gæta að reglur um þagnarskyldu og bankaleynd ættu samstöðu með ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og lagaákvæðum sem sett væru til verndar þeim stjórnarskrárvörðu réttindum. Þá væri einnig til þess að líta að í 9. gr. upplýsingalaga kæmu fram takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Með hliðsjón af gildissviði upplýsingalaga og eðlis þagnarskylduákvæða laga nr. 87/1998 og 161/2002 og að virtri niðurstöðu Hæstaréttar í málunum þremur var ekki fallist á kröfu B Ltd. o.fl. um afhendinga umbeðinna gagna. Var F því sýknað af kröfu B Ltd. o.fl.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 8. apríl 2015. Þeir krefjast þess í fyrsta lagi að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 1. apríl 2014 þar sem staðfest var synjun stefnda 10. júní 2013 á beiðni áfrýjenda um aðgang að gögnum sem nánar eru tilgreind í átta töluliðum. Í öðru lagi krefjast áfrýjendur viðurkenningar á rétti til aðgangs að sömu gögnum. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins mun Landsbanki Íslands hf. hafa leitað til erlends vátryggingamiðlara í janúar 2008 um kaup á svokallaðri stjórnendatryggingu. Í tengslum við þetta mun bankinn hafa sent áfrýjendum útfyllta umsókn 9. janúar 2008, sem undirrituð var af þáverandi fjármálastjóra hans, ásamt fylgiskjölum þar sem fram komu ýmsar upplýsingar um fjárhagsstöðu bankans. Mun fjármálastjórinn jafnframt hafa lýst því yfir fyrir hönd bankans og annarra vátryggðra að allar veittar upplýsingar væru sannar og réttar. Niðurstaðan varð sú að áfrýjendur veittu umbeðna vátryggingarvernd 31. janúar og 1. febrúar 2008 fyrir tímabilið frá 1. febrúar 2008 til 31. janúar 2009.  

Alþingi samþykkti 6. október 2008 frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var stefnda veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Fyrrgreint lagaákvæði heimilaði stefnda einnig að framselja öll réttindi fjármálafyrirtækis að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Þá var kveðið á um að stefnda væri heimilt, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fara skyldi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. 

Á grundvelli heimildarinnar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 tók stefndi ákvörðun 7. október 2008 um að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Meðal annars skyldi skilanefndin hafa umsjón með allri meðferð eigna bankans og annast annan rekstur hans og fylgja í þeim efnum ákvörðunum sem stefndi tæki á grundvelli síðastgreinds lagaákvæðis. Í ákvörðun stefnda kom meðal annars fram að á fundi hans með stjórnendum Landsbanka Íslands hf. degi fyrr hafi komið fram að aðstæður bankans væru alvarlegar og teldi bankinn ljóst að hann myndi falla undir ákvæði 5. gr. frumvarps þess til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem þá lá fyrir Alþingi, yrði frumvarpið að lögum. Þá kom fram í ákvörðun stefnda að hann hefði einnig undir höndum afrit fundargerðar bankaráðs Landsbanka Íslands hf. þar sem meðal annars var fjallað um takmarkaða greiðslugetu hans. Með hliðsjón af þessu væri það mat stefnda að skilyrði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 væri fullnægt í ljósi þessara knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika Landsbanka Íslands hf., kerfislægs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt greiðsluþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið enda teldi stefndi önnur úrræði ekki líkleg til þess að bera árangur.

Landsbanka Íslands hf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2010 var Landsbanki Íslands hf. tekinn til slitameðferðar samkvæmt B hluta XII. kafla laga nr. 161/2002, sbr. 3. og 4. tölulið ákvæðis V til bráðabirgða í sömu lögum. Kom í forsendum úrskurðarins fram að í beiðni skilanefndar og slitastjórnar bankans um slitameðferð væri eignastaða hans skýrð. Áætluðu skilanefnd og slitastjórn að eignir bankans næmu því sem næst 1.138.000.000.000 krónum en skuldir hans 3.427.000.000.000 krónum.Væri samkvæmt því ótvírætt að Landsbanki Íslands hf. væri ógjaldfær og gæti ekki að fullu staðið í skilum við lánardrottna sína og útilokað væri að greiðsluörðugleikarnir liðu hjá innan skamms tíma, sbr. 3. tölulið 2. mgr. 101 gr. laga nr. 161/2002. Væru því uppfyllt skilyrði laga til að slitameðferð yrði ákveðin og því fallist á kröfu skilanefndar og slitastjórnar. Slitameðferð félagsins er ekki lokið.

II

Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað þrjú dómsmál á hendur fyrrverandi stjórnendum hans til heimtu skaðabóta fyrir það tjón sem bankinn telur sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi stjórnendanna í störfum þeirra. Jafnframt hefur bankinn beint málsóknum sínum að áfrýjendum á grundvelli stjórnendatryggingar þeirrar sem bankinn keypti í janúar og febrúar 2008 og áður er frá greint en að mati bankans á tryggingin að bæta tjón hans vegna saknæmrar háttsemi stjórnendanna fyrrverandi.

Í fyrsta lagi er um að ræða mál sem Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað gegn áfrýjendum annars vegar og fyrrverandi bankastjórum hins vegar, þeim Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni. Er þess krafist að bankastjórarnir fyrrverandi ásamt áfrýjendum greiði óskipt skaðabætur að fjárhæð 11.552.000.000 krónur auk nánar tilgreindra vaxta frá 2. október 2008 til greiðsludags. Er krafan á hendur bankastjórunum eins og í stefnu í því máli segir um „skaðabætur vegna gáleysis við gerð lánasamnings milli bankans og Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. ... en skrifað var undir samninginn þann 1. október 2008 ... Á þessum tíma var augljós hætta á því að íslenska bankakerfið myndi hrynja. Stefndu, Sigurjóni og Halldóri, var eða mátti vera ljóst að með því að lána þessa peninga án trygginga væri veruleg hætta á því að Landsbanki Íslands yrði fyrir tjóni þar sem Straumur myndi ekki geta endurgreitt lánið.“ Um ábyrgð áfrýjenda var í stefnunni vísað til fyrrgreindrar stjórnendatryggingar og sagt að þeir Sigurjón og Halldór væru „tryggðir fyrir tjóni sem þeir hafa valdið í störfum sínum hjá Landsbanka Íslands.“ Málið sem hér um ræðir var höfðað 1. og 5. júlí 2011 og þingfest 29. september sama ár.

Í öðru lagi er mál Landsbanka Íslands hf. gegn annars vegar áfrýjendum og hins vegar bankastjórunum fyrrverandi, Halldóri J. Kristjánssyni og Sigurjóni Þ. Árnasyni, og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans. Krefst bankinn þess að hin þrjú síðastnefndu greiði sér óskipt 16.200.000.000 krónur auk nánar tilgreindra vaxta frá 2. október 2008 til greiðsludags. Í stefnu segir að í júní 2008 hafi Fjárfestingarfélagið Grettir ehf. skuldað „yfir 40 milljarða króna. FG var í eigu Björgólfs Guðmundssonar þáverandi formanns bankaráðs Landsbanka Íslands og hann var jafnframt stór hluthafi og ráðandi aðili í bankanum ... Skuldir FG við Landsbanka Íslands voru m.a. tryggðar með bankaábyrgð frá Kaupthing Bank Luxembourg SA (KB Luxembourg) að fjárhæð 18 milljarðar króna og persónulegri ábyrgð Björgólfs Guðmundssonar. Bankaábyrgðin gilti til 26. júní 2008. Þann 18. júní 2008 féll í gjalddaga lán Landsbanka Íslands til FG að fjárhæð 18,4 milljarðar og rann bankaábyrgð KB Luxembourg út án þess að gerð væri krafa um greiðslur.“ Kröfur bankans „byggja á því að stefndu Sigurjón, Halldór og Sigríður Elín hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni m.a. með því að hlutast ekki til um að innheimta ábyrgð KB Luxembourg á lánveitingum bankans til FG. Háttsemi þeirra var gáleysisleg þar sem þeim mátti vera ljóst að bæði FG og Björgólfur Guðmundsson voru á þessum tíma ógjaldfærir aðilar ... Virðist sem bankaráðið hafi ekki verið upplýst um að ábyrgð KB Luxembourg hafi fallið niður fyrir vanrækslu á innheimtu hennar.“ Krafa Landsbanka Íslands hf. á hendur áfrýjendum var með sama hætti og í fyrstnefnda málinu reist á skilmálum stjórnendatryggingarinnar. Mál þetta var höfðað 1. og 5. júlí 2011 og þingfest 29. september sama ár.

Í þriðja lagi er um að ræða mál Landsbanka Íslands hf. gegn áfrýjendum annars vegar og hins vegar bankastjórunum fyrrverandi þeim Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, Jóni Þorsteini Oddleifssyni fyrrverandi forstöðumanni fjárstýringar bankans og bankaráðsmönnunum Kjartani Gunnarssyni, Andra Sveinssyni, Þorgeiri Baldurssyni og Svövu Grönfeldt. Í stefnu segir að gerð sé krafa á hendur hinum sjö síðastnefndu um „skaðabætur vegna gáleysis sem leiddi til þess að greiddir voru verulegir fjármunir út úr Landsbanka Íslands þann 6. október 2008 þegar fyrir lá að bankinn var ógjaldfær. Þann dag, sem var síðasti starfsdagur bankans áður en Fjármálaeftirlitið tók hann yfir og skipaði honum skilanefnd, runnu umtalsverðir fjármunir frá bankanum til verðbréfasjóða Landsvaka hf. („Landsvaki“), Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. („Straumur“) og MP fjárfestingarbanka (... „MP banki“). Greiddar voru kr. 16.879.746.580, USD 11.718.856 og EUR 11.292.410 vegna kaupa á kröfum úr Landsvaka, kr. 7.200.000.000 til Straums og kr. 7.359.755.111 til MP banka. Þann 7. október 2008 voru síðan greiddar kr. 158.955.015 til MP banka vegna leiðréttinga á uppgjöri vegna fyrri greiðslunnar. Miðað við sölugengi Seðlabanka Íslands þann 6. október 2008 var því samtals greitt jafnvirði kr. 34.699.635.944 út úr Landsbanka Íslands vegna þessara viðskipta. Kröfur sem keyptar voru af Landsvaka voru keyptar á umtalsverðu yfirverði og greiðslur til Straums og MP banka voru greiddar eftir ávarp forsætisráðherra þar sem tilkynnt var um yfirvofandi hrun íslenska bankakerfisins og eftir að bankanum hafði verið lokað á þessum örlagaríka degi. Á því er byggt að bankaráðsmönnum, bankastjórum og forstöðumanni fjárstýringar ... hafi verið eða mátt vera ljóst að frá 29. september 2008, þegar tilkynnt var um fyrirhugaða yfirtöku íslenska ríkisins á Glitni banka hf., hafi legið fyrir að Landsbanki Íslands var í verulegum fjárhagslegum erfiðleikum og uppfyllti ekki kröfur um eigið fé. Bankinn var að auki ógjaldfær, ef ekki fyrr, þá eigi síðar en þann 3. október 2008 ... Á því er byggt að framangreindar greiðslur hafi verið til þess fallnar að rýra verðmæti eigna bankans og mismuna kröfuhöfum hans og hafi af þeim sökum verið saknæmar og ólögmætar. Athafnaleysi hinna stefndu stjórnenda við að koma í veg fyrir slíkar ráðstafanir eða eftir atvikum að gefa fyrirmæli um ráðstafanirnar á fjármunum felur í sér saknæma háttsemi fyrrum bankaráðsmanna, bankastjóra og forstöðumanns fjárstýringar bankans.“ Krafa Landsbanka Íslands hf. á hendur áfrýjendum var með sama hætti og í fyrri tveimur málunum sem getið var reist á skilmálum fyrrgreindrar stjórnendatryggingar. Mál þetta var höfðað 17., 18. og 23. janúar 2012 og þingfest 8. mars sama ár.

III

Með beiðni 5. apríl 2013 óskuðu áfrýjendur þess að stefndi veitti þeim upplýsingar og gögn í 27 tölusettum liðum í tengslum við rekstur þeirra þriggja dómsmála sem áður er greint frá. Var í beiðninni vísað til þess að Landsbanki Íslands hf. krefði áfrýjendur um greiðslur úr fyrrgreindri stjórnendatryggingu á þeim grundvelli að hún ætti að mati bankans að bæta tjón hans vegna saknæmrar háttsemi fyrrverandi stjórnenda hans. Fram kom að áfrýjendur höfnuðu allri ábyrgð á grundvelli tryggingarinnar þar sem við töku hennar hefði gróflega verið brotið gegn upplýsingaskyldu vátryggingartaka og áfrýjendur ekki verið upplýstir um misferli og margvísleg brot af hálfu bankans og starfsmanna hans en öll slík atriði hefðu skipt áfrýjendur máli við mat þeirra á áhættu í tengslum við ákvörðun um veitingu vátryggingarverndar. Þá hafi áfrýjendum verið veittar rangar upplýsingar um fjölda atriða sem um var spurt í umsóknareyðublaði fyrir trygginguna. Þannig hafi þess verið látið ógetið í umsókninni og fylgiskjölum með henni að bankinn hafi átt í verulegum lausafjárvandræðum og stefndi í greiðsluþrot, að bankinn, stjórnendur hans og starfsmenn hafi brotið gegn reglum um stórar áhættuskuldbindingar og að brotið hafi verið í starfsemi bankans gegn reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja, lánveitingar, markaðsmisnotkun og fleira. Beinlínis hafi verið veittar rangar upplýsingar um stöðu og rekstur bankans í umsókn um trygginguna og í fylgiskjölum með henni. Þá sagði að áfrýjendur ynnu „að öflun gagna um framangreind atriði og hyggjast leggja þau fram í þeim dómsmálum sem getið er hér að framan ... Með vísan til framangreinds er þess vinsamlega óskað að Fjármálaeftirlitið ... veiti ... eftirfarandi upplýsingar og gögn. Óskað er eftir neðangreindum upplýsingum og gögnum fyrir tímabilið júlí 2007 - mars 2008 nema að annað sé sérstaklega tekið fram.“ Voru í framhaldinu talin upp í 11 tölusettum liðum þau gögn sem áfrýjendur óskuðu aðgangs að. Að lokinni þeirri upptalningu sagði að auk „ofangreinds er sérstaklega óskað eftir eftirfarandi gögnum, sem og öllum gögnum sem þeim tengjast, þ.m.t. öllum samskiptum milli FME og Landsbankans (s.s. bréfaskiptum, tölvupóstum o.s.frv., fundargerðum, minnisblöðum FME, ákvörðunum FME, athugasemdum FME, stjórnvaldssektum FME, kærum, sáttum o.fl.) sem varða eftirtalin mál“. Voru í framhaldinu talin upp í sextán tölusettum liðum nánar tilgreind gögn.

Með bréfi 22. apríl 2013 gaf stefndi áfrýjendum kost á að afmarka fyrstu 11 liði beiðninnar betur þannig að unnt væri að tengja þá við ákveðin mál eða fyrirliggjandi gögn. Stefndi taldi sér á hinn bóginn fært að taka aðra liði beiðninnar til afgreiðslu. Áfrýjendur afmörkuðu beiðni sína um gögn samkvæmt fyrstu 11 töluliðunum nánar með bréfi til stefnda 27. maí 2013. Með bréfi 10. júní 2013 hafnaði stefndi að veita aðgang að gögnum samkvæmt átta töluliðum í upphaflegri beiðni áfrýjenda, en þar var um að ræða töluliði 12, 13, 14, 16, 20, 23, 26 og 27. Vísaði stefndi í því sambandi meðal annars til ákvæðis um þagnarskyldu í 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og ákvæðis um bankaleynd í 58. gr. laga nr. 161/2002. Í fyrrnefnda ákvæðinu kemur meðal annars fram að stjórn, forstjóri og starfsmenn stefnda séu bundnir þagnarskyldu. Þeir megi ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hegningarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi stefnda, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra nema dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Í síðara ákvæðinu kemur meðal annars fram að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Um liði nr. 26 og 27 vísaði stefndi til ákvæða 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 og sagði að tæki „Fjármálaeftirlitið afstöðu til beiðni ... yðar um aðgang að fyrrgreindum gögnum þá væri Fjármálaeftirlitið um leið að upplýsa um hvort mál sem varða þá aðila sem beiðnin tilgreinir eru eða hafi verið til rannsóknar hjá stofnuninni og embætti sérstaks saksóknara. Með vísan til framangreinds og 5. tölul. 10. gr. upplýsingalaga synjar Fjármálaeftirlitið beiðni ... yðar.“

Synjun stefnda kærðu áfrýjendur til úrskurðarnefndar um upplýsingamál 8. júlí 2013 og tók kæran til framangreindra átta töluliða. Með úrskurði 1. apríl 2014 staðfesti nefndin synjun stefnda frá 10. júní 2013 um aðgang að gögnum samkvæmt liðum 12, 13, 14, 16, 20 og 23 en vísaði kærunni frá að því er varðaði gögn samkvæmt liðum 26 og 27. Í niðurstöðu nefndarinnar var vísað til efnisreglu 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og þeirra sjónarmiða sem ákvæðið byggir á en af því leiddi að stefnda væri ekki heimilt að veita almenningi upplýsingar um hvort tiltekin háttsemi hafi veitt stofnuninni tilefni til að kæra eða vísa máli til embættis sérstaks saksóknara og að sama niðurstaða leiddi af þagnarskylduákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. Því yrði ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að taka ekki afstöðu til beiðni kærenda um aðgang að gögnum í liðum nr. 26 og 27 í kæru staðfest og þessum hluta kærumálsins vísað frá úrskurðarnefndinni.

IV

Áður er getið þeirra þriggja dómsmála sem Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað gegn áfrýjendum og fyrrverandi fyrirsvarsmönnum bankans. Þegar málin voru tekin fyrir í héraðsdómi 26. nóvember 2013 lögðu áfrýjendur fram beiðnir í öllum málunum um að stefnda yrði með úrskurði gert að afhenda áfrýjendum gögn sem nánar greindi í tólf liðum. Til vara var þess krafist að stefndi legði gögnin fyrir dómara í trúnaði og gegn þagnarskyldu. Við fyrirtekt málanna 17. nóvember 2014 mótmælti stefndi beiðnum áfrýjenda og með úrskurðum 21. sama mánaðar hafnaði héraðsdómari beiðnunum.

Í fyrsta lagi óskuðu áfrýjendur eftir því samkvæmt lið 1 að fá afrit af öllum listum stefnda yfir málsgögn sem vörðuðu Landsbanka Íslands hf. og samkvæmt lið 2 að fá afrit af öllum ákvörðunum stefnda er vörðuðu bankann. Um þetta sagði í úrskurði héraðsdóms að ekki væri fram komið að áskorun um afhendingu gagnanna hefði áður verið beint að stefnda og væri því ekki fullnægt skilyrði 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Auk þess hefðu áfrýjendur ekki fært að því rök með hvaða hætti þeir ættu hagsmuni af afhendingu svo víðtækra upplýsinga.

Í öðru lagi laut beiðni áfrýjenda að gögnum sem í úrskurði héraðsdóms sagði að hlytu einnig að vera í fórum Landsbanka Íslands hf. Þar var um að ræða gögn samkvæmt liðum 4, 6 og 9 í beiðni áfrýjenda. Hefðu áfrýjendur í engu rökstutt hvers vegna þeim væri ekki nægilegt að skora á bankann að leggja þessi gögn fram í málinu að því viðlögðu að dómurinn brygðist við hugsanlegri neitun hans með því að telja bankann samþykkja staðhæfingar áfrýjenda um efni þeirra, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.

Í þriðja lagi óskuðu áfrýjendur samkvæmt lið 3 eftir að fá afhent afrit af öllum tilkynningum og kærum sem stefndi hefði sent embætti sérstaks saksóknara varðandi Landsbanka Íslands hf., stjórnendur hans og starfsmenn, samkvæmt lið 11 að fá afrit af kærum stefnda til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar stjórnenda og starfsmanna Landsbanka Íslands hf. á tilteknu tímabili og samkvæmt lið 12 að fá afrit af kærum vegna lánveitinga til nánar tilgreindra fyrirtækja. Í úrskurði héraðsdóms sagði að með hliðsjón af málsástæðum áfrýjenda væri fallist á að gögnin kynnu að hafa þýðingu fyrir málatilbúnað þeirra. Hins vegar yrði að ætla að gögnin væru þegar í vörslum Landsbanka Íslands hf. eða annarra stefndu í málinu og hefðu áfrýjendur í engu rökstutt hvers vegna þeim væri ekki nægilegt að skora á aðra málsaðila að leggja gögnin fram að viðlögðu því að dómurinn brygðist við hugsanlegri neitun með því að telja þá málsaðila samþykkja staðhæfingar áfrýjenda um efni þeirra, sbr. 1. mgr. 68 gr. laga nr. 91/1991.

Í fjórða lagi var samkvæmt lið 7 óskað eftir afhendingu fundargerðar vegna tiltekins innanhúsfundar hjá stefnda og samkvæmt lið 8 að fá afhent tiltekið minnisblað starfsmanns stefnda. Í úrskurði héraðsdóms sagði að eins og málið lægi fyrir hefðu áfrýjendur ekki leitt að því líkur að vinnugögn stefnda, sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, gætu haft þýðingu fyrir málatilbúnað þeirra.

Í fimmta lagi sagði í úrskurði héraðsdóms að samkvæmt lið 5 væri óskað eftir gögnum vegna áhættumats sem fram hafi farið meira en þremur árum áður en vátryggingarsamningur sá sem um ræddi í málinu var gerður. Ekki hafi verið færð nægjanleg rök fyrir því að þessi gögn gætu haft þýðingu fyrir málatilbúnað áfrýjenda. Um beiðni áfrýjenda samkvæmt lið 10 um aðgang að skýrslu stefnda um útlánaáhættu hjá Landsbanka Íslands hf. frá febrúar 2008 sagði í úrskurði héraðsdóms að áfrýjendur hefðu þegar fengið skýrsluna afhenta með útstrikunum og hefðu ekki rökstutt í hvaða atriðum þeim væri nauðsyn á frekari upplýsingum úr skýrslunni. Því væri beiðninni hafnað með vísan til 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991.

Með dómum Hæstaréttar 7. janúar 2015 í málum nr. 838/2014, 839/2014 og 840/2014 voru úrskurðir héraðsdóms staðfestir með skírskotun til forsendna þeirra.

V

Dómkröfur áfrýjenda í máli þessu eru eins og áður getur tvíþættar. Í fyrsta lagi er þess krafist að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál frá 1. apríl 2014 þar sem staðfest var synjun stefnda 10. júní 2013 á beiðni áfrýjenda um aðgang að þeim gögnum sem nánar eru tilgreind í átta töluliðum og grein er gerð fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Í öðru lagi krefjast áfrýjendur viðurkenningar á rétti sínum til aðgangs að hinum sömu gögnum. Með því að úrlausn um viðurkenningarkröfu áfrýjenda felur sjálfkrafa í sér niðurstöðu um ógildingarkröfu þeirra kemur síðarnefnda krafan eingöngu til umfjöllunar í tengslum við  málsástæður að baki viðurkenningarkröfunni.

Ágreiningslaut er að áfrýjendur eru réttir aðilar málsins til sóknar og að gögn þau sem krafist er aðgangs að eru í vörslum stefnda. Gögnin voru eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi lögð fyrir héraðsdómara í trúnaði en þau hyggjast áfrýjendur leggja fram í þeim þremur dómsmálum sem áður getur og Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað á hendur áfrýjendum og fyrrum stjórnendum bankans. Í þeim málum gerðu áfrýjendur kröfu um að stefndi afhenti þeim gögnin eftir ákvæðum X. kafla laga nr. 91/1991 en héraðsdómur synjaði  kröfunni og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu. Af því leiðir að taka þarf afstöðu til þess hvort málsókn áfrýjenda á þeim grundvelli sem hún er nú reist veiti þeim rétt til aðgangs að gögnunum umfram það sem þegar hefur verið tekin afstaða til í málunum þremur.

Viðurkenningarkröfu sína reisa áfrýjendur á 5. gr. upplýsingalaga. Í henni felst meginregla um rétt almennings til aðgangs að gögnum í vörslu stjórnvalds með þeim takmörkunum sem fram koma í 6. til 10. gr. laganna. Skiptir við beitingu 5. gr. ekki máli hvort sá sem aðgangs leitar er einstaklingur eða lögaðili, íslenskur ríkisborgari, heimilisfastur hér á landi eða með starfsstöð hér eða hver aldur hans er. Þá skiptir heldur ekki máli hver er tilgangur viðkomandi með því að óska aðgangs að þeim gögnum sem um ræðir að því undanskildu að í undantekningartilvikum má hafna beiðni ef sterkar vísbendingar eru um að hún sé sett fram í ólögmætum tilgangi. Telja áfrýjendur að þær almennu takmarkanir sem réttur samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga sætir eigi ekki við í tilviki þeirra. Stefndi heldur því á hinn bóginn fram að auk takmarkana samkvæmt 6. til 10. gr. upplýsingalaga sæti réttur áfrýjenda til aðgangs að upplýsingunum einnig takmörkunum samkvæmt 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002 sem séu sérstök þagnarskylduákvæði í skilningi upplýsingalaga og gangi framar ákvæðum þeirra.

Samkvæmt framangreindu vegast á í málinu ólík sjónarmið sem eiga rót að rekja til tveggja andstæðra meginreglna, annars vegar meginreglu 5. gr. upplýsingalaga um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum og hins vegar meginreglna laga nr. 87/1998 og laga nr. 161/2002 um þagnarskyldu og bankaleynd. Þegar slíkar meginreglur rekast á og taka þarf afstöðu til þess við úrlausn málsins hvor reglan skuli víkja er þess að gæta að reglur um þagnarskyldu og bankaleynd eiga samstöðu með ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem tryggir friðhelgi einkalífs, heimili og fjölskyldu og lagaákvæðum sem sett eru til verndar þeim stjórnarskrárvörðu réttindum. Þá er einnig til þess að líta að í 9. gr. upplýsingalaga koma fram takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna. Þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einkamálefni eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á. Einnig er í lagagreininni tekið fram að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum sem varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. 

Í 4. gr. upplýsingalaga er gildissvið þeirra afmarkað gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarskuldbindingum og kemur þar meðal annars fram í 1. mgr. að upplýsingalögin gildi ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Þegar af þeirri ástæðu að slíkar upplýsingar falla utan gildissviðs upplýsingalaga ber að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af kröfu áfrýjenda samkvæmt töluliðum 7 og 8 í viðurkenningarkröfu þeirra.

Þessu næst kemur til úrlausnar hvernig háttað er rétti áfrýjenda til aðgangs að gögnum samkvæmt töluliðum 1 til 6 í kröfugerð þeirra en það eru gögn sem ætla verður að hafi óhjákvæmilega að geyma upplýsingar um mikilvæg fjárhagsmálefni einstaklinga og lögaðila. Í síðari málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum kemur fram að það einkenni slík almenn þagnarskylduákvæði að þau sérgreini ekki þær upplýsingar sem þagnarskyldan gildi um heldur tilgreini aðeins „atriði, upplýsingar eða það“ sem starfsmaður fær vitneskju um og leynt skal fara.

Í sömu lögskýringargögnum er það á hinn bóginn talið meðal einkenna sérstakra þagnarskylduákvæða að brot á þeim geti varðað starfsmann refsiábyrgð. Jafnframt segir að finna megi lagaákvæði sem tilgreini „skýrar þær upplýsingar sem þagnarskylda á að ríkja um. Að því leyti sem slíkum ákvæðum er ætlað að vernda sömu hagsmuni og ákvæði 6. til 10. gr. frumvarpsins ber að skýra þau til samræmis við þau að svo miklu leyti sem hægt er ... Þá ber að skýra ákvæði, sem mæla fyrir um þagnarskyldu um efnahag, tekjur eða gjöld einstaklinga, til samræmis við 1. málslið 9. gr. frumvarpsins, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Í 2. málslið 9. gr. frumvarpsins er mælt svo fyrir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila ... Þau sérákvæði laga um þagnarskyldu þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til ganga skýrlega lengra en ákvæði 6. til 10. gr. frumvarpsins, eða taka til annarra upplýsinga en þar eru undanþegnar aðgangi almennings, ganga framar ákvæðum frumvarps þessa ... og hindra því aðgang að þeim upplýsingum sem þar er getið.“ Samkvæmt þessu leiðir gagnályktun frá síðari málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga til þeirrar niðurstöðu að hafi þagnarskylduákvæði í tilteknum lögum að geyma nánari sérgreiningu upplýsinganna víkur þagnarskyldan ekki, sbr. og dóm Hæstaréttar 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014. Af þessu leiðir að taka þarf afstöðu til hvort ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002 séu almenn eða sérstök þagnarskylduákvæði í skilningi upplýsingalaga.

Í 13. gr. laga nr. 87/1998 segir að stjórn, forstjóri og starfsmenn Fjármálaeftirlitsins séu bundnir þagnarskyldu. Mega þeir ekki að viðlagðri ábyrgð samkvæmt ákvæðum almennra hengingarlaga um opinbera starfsmenn skýra óviðkomandi aðilum frá því er þeir komast að í starfi sínu og leynt á að fara um starfsemi Fjármálaeftirlitsins, viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila, tengdra aðila eða annarra, nema dómari úrskurði að upplýsingar séu skylt að veita fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af því sem áður er rakið úr lögskýringargögnum með upplýsingalögum verður að leggja til grundvallar að þær upplýsingar sem 13. gr. laga nr. 87/1998 vísar til séu þar ekki tilgreindar með almennum hætti heldur séu þær nánar sérgreindar og telst þagnarskylduákvæði þetta því sérstakt í skilningi upplýsingalaga.

Í 58. gr. laga nr. 161/2002 segir að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Helst þagnarskyldan þótt látið sé af starfi. Þetta ákvæði er í öllum aðalatriðum efnislega sambærilegt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands. Þar kemur fram að starfsmenn seðlabankans séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem varðar hagi viðskiptamanna bankans og málefni hans sjálfs, svo og um önnur atriði sem þeir hafa fengið vitneskju um í starfi sínu og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Eins og segir í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 329/2014 gengur þetta þagnarskylduákvæði framar upplýsingarétti samkvæmt II. og III. kafla upplýsingalaga. Er samkvæmt þessu ótvírætt að 58. gr. laga nr. 161/2002 er einnig sérstakt þagnarskylduákvæði í skilningi upplýsingalaga.

Sú niðurstaða að 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002 séu sérstök þagnarskylduákvæði í skilningi upplýsingalaga stendur því í vegi að krafa áfrýjenda um aðgang að gögnum samkvæmt liðum 1 til 6 í kröfugerð þeirra geti náð fram að ganga nema annað komi til. Í þeim efnum vísa áfrýjendur til þeirra orða 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 að dómari úrskurði að upplýsingar sé skylt að veita fyrir dómi. Umrædd orð lagagreinarinnar verður að skýra með hliðsjón af ákvæðum VIII. og X. kafla laga nr. 91/1991 en í því felst að fullnægt þarf að vera skilyrðum þeirra kafla laganna svo dómari úrskurði að þriðja manni sé skylt að leggja skjal fram eða bera vitni um efni þess. Til þess álitaefnis var tekin afstaða í þeim þremur málum sem Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað gegn áfrýjendum og fyrrum stjórnendum bankans og var aðgangi hafnað eins og áður er frá greint. Er ekkert nýtt fram komið í málinu sem fær þeirri niðurstöðu breytt. Með sama hætti verður að skýra þau orð 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 að þegar eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram sé heimilt við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem þagnarskylda gildir um. Með rekstri einkamála í ákvæðinu er eðli máls samkvæmt átt við rekstur einkamála samkvæmt lögum nr. 91/1991 og þar með VIII. og X. kafla þeirra en máli eins og því sem hér er til úrlausnar og gagngert er höfðað á hendur stjórnvaldi til afhendingar tiltekinna gagna sem eru í vörslum þess til afhendingar í öðru dómsmáli milli annarra aðila verður ekki jafnað til einkamáls í þeim skilningi. Af því leiðir að þótt fallist sé á með áfrýjendum að Landsbanki Íslands hf. sé í þvinguðum slitum í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 getur það ákvæði ekki vikið til hliðar þagnarskyldu samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar. Getur krafa áfrýjenda um afhendingu umbeðinna gagna því ekki náð fram að ganga á þessum grundvelli. Loks er með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að þótt hluti umbeðinna gagna hafi að einhverju leyti verið birtur í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á grundvelli sérstakrar lagaskyldu getur slík afmörkuð undantekning frá leynd ekki leitt til þess að henni verði með öllu aflétt og réttur til afhendingar gagnanna viðurkenndur af þeim sökum.  

Samkvæmt öllu framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.

Eftir þessum úrslitum verður áfrýjendum gert að greiða stefnda málskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Brit Insurance Ltd., QBE Insurance (Europe) Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Allianz Global Corporate & Specialty AG, Novae Syndicate 2007, Dan Re Syndicate 1400 og QBE Syndicate 1886, greiði óskipt stefnda, Fjármálaeftirlitinu, 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2015.

                Mál þetta höfðuðu Brit Insurance Ltd., 55 Bishopsgate, London, Englandi, QBE Insurance (Europe) Ltd., Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, Englandi, Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Two Minster Court, Mincing Lane, London, Englandi, Allianz Global Corporate & Specialty AG, Fritz-Schaeffer-Strasse 9, München, Þýskalandi, Novae Syndicate 2007, 71 Fenchurch Street, London, Englandi, Dan Re Syndicate 1400, The Markel Building, 49 Leadenhall Street, London, Englandi og QBE Syndicate 1886, Plantation Place, 30 Fenchurch Street, London, Englandi, með stefnu birtri 10. september 2013 og framhaldsstefnu birtri 24. júní 2014 á hendur Fjármálaeftirlitinu, kt. 541298-3209, Höfðatúni 2, Reykjavík.  Málið var dómtekið 11. desember sl. 

                Stefnendur gera þessar kröfur: 

                (A) Að ógilt verði með dómi ákvörðun stefnda, sem tilkynnt var stefnanda með bréfi, dags. 10. júní 2013, með tilvísunarnúmeri 2013040014/11.5, þar sem stefndi:

-       synjaði stefnendum um aðgang að (1) gögnum um ágreining stefnda og Lands­banka Íslands hf. vegna athugasemda stefnda, sbr. og bréf stefnda dags. 22. mars 2007, í tengslum við úttekt sem framkvæmd var á áhættumælingum og áhættu­stýringum bankans á árinu 2005, sbr. kafla 8.6.5.5.1.1 í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, (2) athugun stefnda á áhættumati Landsbanka Íslands hf. (mál nr. 2005040012) og gögnum tengdum því, (3) bréfi Landsbanka Íslands hf. til stefnda, dags. 30. apríl 2007, þar sem bankinn mótmælti bréfi stefnda frá 22. mars. 2007, (4) fundargerð vegna innanhússfundar stefnda 29. mars 2007, þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við Lands­banka Íslands hf., og (5) minnisblaði starfsmanns stefnda í máli nr. 2005040012, dags. í september 2007 (fyrir utan að stefndi veitti stefnendum aðgang að bréfi stefnda til Landsbanka Íslands hf., dags. 11. apríl 2005, ásamt fylgiskjali (áhættugreining), bréfi stefnda til Landsbanka Íslands hf., dags. 2. febrúar 2006 og hluta að annars vegar bréfadrögum sem fylgdu með bréfi stefnda til Landsbanka Íslands hf., dags. 2. febrúar 2006 og hins vegar að bréfi stefnda til Landsbanka Íslands hf., dags. 22. mars 2007). 

-       synjaði stefnendum um aðgang að „Skýrslu um athugun á útlánaáhættu hjá Landsbanka Íslands hf.“ (að öðru leyti en því að stefnendur fengu aðgang að forsíðu skýrslunnar, efnisyfirliti með útstrikunum og inngangi).

-       synjaði stefnendum um aðgang að afriti af kæru stefnda til embættis sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar stjórnenda og starfsmanna Lands­banka Íslands hf. með hlutabréf í bankanum á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008.

-       synjaði stefnendum um aðgang að afriti af kærum og tilvísunum frá stefnda vegna lánveitinga til eftirfarandi aðila til kaupa á hlutum í Landsbanka Íslands hf.: Imon ehf., Sigurður Bollason ehf., Hunslow S.a., Burce Assets Limited og Pro-Invest Partners Crop.

                (B)  Að viðurkenndur verði með dómi réttur þeirra til aðgangs að eftirtöldum gögnum sem eru í vörslum stefnda:

1.       Gögn um ágreining stefnda og Landsbanka Íslands hf. vegna athugasemda stefnda, sbr. og bréf stefnda dags. 22. mars 2007, í tengslum við úttekt sem framkvæmd var á áhættumælingum og áhættustýringum bankans á árinu 2005, sbr. kafla 8.6.5.5.1.1 í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.  

2.       Athugun stefnda á áhættumati Landsbanka Íslands hf. (mál nr. 2005040012) og gögn tengd því. 

3.       Bréf Landsbanka Íslands hf. til stefnda, dags. 30. apríl 2007, þar sem bankinn mótmælti bréfi stefnda dags. 22. mars 2007. 

4.       Fundargerð vegna innanhússfundar stefnda 29. mars 2007, þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við Landsbanka Íslands hf.  

5.       Minnisblað starfsmanns stefnda í máli nr. 2005040012, dags. í september 2007. 

6.       Skýrsla stefnda: „Skýrsla um athugun á útlánaáhættu hjá Landsbanka Íslands hf.“, frá febrúar 2008. 

7.       Afrit af kæru stefnda til embættis sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðs­misnotkunar stjórnenda og starfsmanna Landsbanka Íslands hf. með hlutabréf í bankanum á tímabilinu frá maí 2003 til október 2008. 

8.       Afrit af kærum og tilvísunum frá stefnda vegna lánveitinga til eftirfarandi aðila til kaupa á hlutum í Landsbanka Íslands hf.: Imon ehf., Sigurður Bollason ehf., Hunslow S.A., Burce Assets Limited og Pro-Invest Partners Corp. 

                Við aðalmeðferð málsins bættu stefnendur við þessa kröfugerð þeim fyrirvara að skjölin yrðu afhent eftir atvikum með útstrikunum. 

                (C) Að stefnendum verði dæmdur málskostnaðar úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti. 

                Í framhaldsstefnu eru gerðar allar sömu kröfur, þó þannig að þess er krafist að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-524/2014 frá 1. apríl 2014 þar sem staðfest var synjun stefnda frá 10. júní 2013.  Stefnendur féllu ekki frá kröfu um ógildingu ákvörðunar stefnda, en lögmaður þeirra lýsti þeirri skoðun sinni að þegar ákvörðun hefði verið skotið til æðra stjórnvalds ætti eingöngu að ógilda endanlegan úrskurð. 

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda í frumsök og framhaldssök.  Þá krefst hann málskostnaðar að mati dómsins óskipt úr hendi stefnenda. 

                Mál þetta varðar heimild stefnenda og skyldu stefnda til að afhenda þeim umrædd gögn, sem þeir hyggjast nota til að sýna fram á að Landsbanki Íslands hf. hafi vanrækt upplýsingaskyldu sína sem vátryggingartaki er hann samdi við stefnendur um ábyrgðartryggingu stjórnenda sinna í ársbyrjun 2008. 

                Landsbanki Íslands hf., sem er fjármálafyrirtæki í slitameðferð, hefur höfðað þrjú mál á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem þeir hafi valdið bankanum með saknæmri háttsemi sinni, og gegn stefnendum til greiðslu bótanna á grundvelli áðurnefndrar ábyrgðartryggingar.  Telja stefnendur að í því máli verði að sýkna þá vegna þess að vátryggingartaki hafi ekki veitt réttar og tæmandi upplýsingar er vátryggingin var tekin. 

                Stefnendur segja að um upplýsingaskyldu vátryggingartaka gildi reglur 19. og 20. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga.  Hefði átt að segja frá því að bankinn ætti í verulegum lausafjárvandræðum og stefndi í greiðsluþrot, bankinn, stjórnendur hans og starfsmenn hefðu brotið gegn reglum um stórar áhættu­skuldbindingar, reglum um eigið fé fjármálafyrirtækja og reglum um lánveitingar og ástundað markaðsmisnotkun.  Þá hafi beinlínis verið veittar rangar upplýsingar um stöðu og rekstur bankans í umsókn um trygginguna og fylgiskjölum.  Bendir stefnandi á áðurgreind skaðabótamál sem höfðuð hafi verið á hendur fyrrverandi stjórnendum bankans og sakamál sem höfðuð hafi verið á hendur sömu aðilum. 

                Stefnendur óskuðu eftir aðgangi að gögnum sem þeir töldu upp í 27 liðum í bréfi til stefnda, dags. 5. apríl 2013.  Hluti af erindi stefnenda var afgreiddur með bréfi stefnda, dags. 10. júní 2013.  Var þeim neitað um aðgang að átta af níu þeirra gagna sem þeir vildu fá, en geymt að taka afstöðu til annarra liða í erindinu. 

                Með bréfi dags. 8. júlí 2013 var ákvörðun stefnda kærð til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.  Nefndin kvað upp úrskurð 1. apríl 2014.  Var kröfum stefnenda öllum hafnað.  Stefnendur kveðast hafa höfðað málið áður en úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð þar sem málshöfðunarfrestur samkvæmt 18. gr. laga nr. 87/1998 sé þrír mánuðir.  Var síðan þingfest framhaldsstefna þar sem krafist var ógildingar á niður­stöðu úrskurðarnefndarinnar. 

                Málsástæður og lagarök stefnenda

                Stefnendur vilja fá afrit af umræddum gögnum til að nota sem sönnunargögn í áðurgreindum málum sem Landsbanki Íslands hefur höfðað á hendur þeim til heimtu vátryggingabóta. 

                Stefnendur byggja á ákvæðum upplýsingalaga nr. 140/2012, einkum 5. og 15. gr.  Þá vísa þeir til laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Þagnarskylda takmarki ekki skyldu til að veita upplýsingar og aðgang að gögnum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998.  Landsbanki Íslands sé í slitameðferð og hafi því ekki hagsmuni af því að fyrri viðskipti fari leynt.  Þá hafi Rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar fjallað um þessi mál.  Hafi þessi gögn verið háð þagnarskylda eða banka­leynd, þá sé hún fallin niður þar sem upplýsingar úr þeim hafi verið gerðar opinberar í fjölmiðlum og í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

             Stefnendur byggja rétt til aðgangs að umræddum gögnum aðallega á 5. og 15. gr. upplýsingalaga.  Segja þeir að fram hafi komið í greinargerð með frumvarpi er varð að lögunum að markmiðið væri að auka rétt almennings til upplýsinga. 

             Meginreglan komi fram í 1. mgr. 5. gr. laganna.  Skylt sé að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum um tiltekið mál ef þess er óskað.  Undantekningar séu gerðar í 6.–10. gr. laganna, sem beri að skýra þröngt í samræmi við almennar lög­skýringarreglur.  Þá beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að tilteknar undantekningar eigi við. 

             Þá vísa stefnendur til 1. mgr. 11. gr. laganna, en ákvæði þetta heimili stjórn­völdum að veita aðgang í ríkari mæli en samkvæmt II. kafla laganna, nema ákvæði um þagnarskyldu standi því í vegi.  Hér eigi engin ákvæði um þagnarskyldu við.  Þá veiti upplýsingalögin almenningi lágmarksréttindi, en önnur lagaákvæði geti veitt víðtækari aðgang, sbr. t.d. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. 

                Stefnendur mótmæla því að 13. gr. laga nr. 87/1998 eigi við um þessi gögn.  Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. uppll. haldi lög sem veiti víðtækari aðgang að upplýsingum gildi sínu.  Þá segi þar að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Telja stefnendur að af þessu leiði að sérstök þagnarskylduákvæði geti hindrað aðgang að gögnum í vörslu stjórn­valda.  Því geti haft þýðingu að greina á milli almennra og sérstakra þagnarskyldu­ákvæða.  Segja stefnendur að ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 162/2002 séu almenn þagnarskylduákvæði og komi því ekki í veg fyrir að þeim verði veittur aðgangur að umræddum gögnum. 

                Nánar benda stefnendur á að áðurnefnd 1. mgr. 13. gr. hafi ekki að geyma neina sérgreiningu á þeim upplýsingum sem þagnarskyldan taki til.  Því takmarki ákvæðið ekki rétt þeirra til aðgangs að gögnum hjá stefnda samkvæmt upplýsinga­lögum. 

                Þá segir stefndi að þótt 1. mgr. 13. gr. yrði talin vera sérákvæði um þagnar­skyldu eigi hún ekki við, vegna ákvæðis 5. mgr. 13. gr.  Þar segi að heimilt sé við rekstur einkamála að upplýsa um atriði sem ella væru háð þagnarskyldu, ef eftirlits­skyldur aðili er gjaldþrota eða í þvinguðum slitum.  Stefnendur segja að Landsbanki Íslands sé bæði gjaldþrota og í þvinguðum slitum í þessum skilningi.  Bankinn sé til slitameðferðar samkvæmt lögum nr. 162/2002, samkvæmt úrskurði héraðsdóms 22. nóvember 2010.  Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laganna gildi við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga og kröfur á hendur því. 

                Stefnendur bæta því við að jafna megi stöðu bankans öldungis við gjaldþrot þannig að beita yrði 5. mgr. 13. gr. með lögjöfnun.  Þótt lög um fjármálafyrirtæki geri ráð fyrir því að beiðni um slitameðfe komi frá skilanefnd hafi bankinn ekki átt annarra kosta völ og því hafið yfir allan vafa að hann sé í þvinguðum slitum. 

                Þá benda stefnendur á að gagna sé leitað til framlagningar í einkamáli sem Landsbanki Íslands hafi höfðað.  Ákvæði 5. mgr. 13. gr. verði ekki skýrt svo þröngt að það eigi einungis við um aðgang að gögnum eða upplýsingum undir rekstri einkamáls sem óskað væri eftir á grundvelli laga um meðferð einkamála. 

                Stefnendur byggja á því að 58. gr. laga nr. 161/2002 verði ekki beitt til að neita þeim um aðgang að umræddum gögnum.  Þetta ákvæði varði einungis viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis, ekki málefni þess sjálfs.  Þá geti bankinn í þessu tilviki ekki haft hagsmuni af leynd þar sem hann sé gjaldþrota.  Enn fremur sé ákvæðið almennt og verði því að víkja fyrir ákvæðum upplýsingalaga. 

                Stefnendur mótmæla því að ákvæði 9. gr. upplýsingalaga eigi hér við.  Lands­banki Íslands hafi enga „virka“ viðskipta- eða fjárhagshagsmuni af afhendingu eða leynd gagna um bankann sem varða viðskipti og rekstur hans fyrir mörgum árum.  Væri svo hvíldi sönnunarbyrðin um að svo væri á stefnda, sem hefur gögnin undir höndum.  Í ljósi meginreglna uppll. verði að gera þá lágmarkskröfu til stefnda, að hann sýni fram á að eðli og inntak gagnanna falli undir þær þröngu undantekningar, sem heimilaðar séu frá meginreglunni um aðgang að gögnum. 

                Stefnendur byggja á því að umrædd gögn séu þegar opinber, rannsóknarnefnd Alþingis og fjölmiðlar hafi fjallað um umrædd gögn.  Því geti stefndi ekki sagt að leynd eigi að hvíla yfir þeim. 

                Nánar segjast stefnendur byggja á því að rannsóknarnefnd Alþingis hafi þegar fjallað um og birt upplýsingar úr þeim gögnum, sem stefnendur óska aðgangs að.  Þau gögn, sem þannig hafi verið birt opinberlega, ýmist beint og orðrétt eða með tilvísunum í efni þeirra, geti ekki verið háð þagnarskyldu eftir það.  Þau séu á vitorði almennings. 

                Þá hafi ákvörðun stefnda að þessu leyti farið í bága við uppll.  Þá byggja þeir á því að stefndi hafi ekki rannsakað hvort og með hvaða hætti umrædd gögn gætu verið háð þagnarskyldu eða hvernig þau hefðu verið gerð opinber.  Með þessu hafi stefndi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

                Nánar um einstaka liði 

                Í lið 3 er óskað aðgangs að bréfi bankans til stefnda dags. 30. apríl 2007.  Þar sé að finna umfjöllun um rekstur og viðskipti bankans auk þess sem viðskiptamanna sé getið og gerð grein fyrir viðskiptum við þá.  Úrskurðarnefndin hafi talið að ekki bæri að afhenda þetta bréf þar sem svo stór hluti þess væri bundinn þagnarskyldu að ekki kæmi til álita að veita aðgang að hluta þess. 

                Stefnendur segja að stefnda hafi borið að veita þeim aðgang að þessu skjali samkvæmt 1. mgr. 5. gr. uppll.  Þá eigi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 ekki við. 

                Stefnendur mótmæla því að 9. gr. uppll. eigi hér við.  Landsbanki Íslands hafi enga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni eins og áður segir.  Þá telja stefnendur að 58. gr. laga nr. 161/2002 komi ekki í veg fyrir aðgang að bréfinu, það geymi ekki slíkar upplýsingar um viðskipta- eða einkamálefni einstaklinga.  Þá yrði stefndi að sýna fram á það.  Þótt slíkar upplýsingar leyndust í bréfinu ætti að veita þeim aðgang að öðrum hluta þess. 

                Loks hafi efni þessa bréfs verið gert opinbert í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

                Í lið 4 er óskað aðgangs að fundargerð vegna innanhússfundar stefnda 29. mars 2007 þar sem sérstaklega var fjallað um skuldbindingar Björgólfs Thors Björgólfssonar og tengdra aðila við bankann.  Stefnendur vísa hér til sömu röksemda og um lið 14.  Þá mótmæla þeir því að gagnið sé vinnugagn, en vísa jafnframt til 3. tl. 2. mgr. uppll. um undanþágur varðandi vinnugögn.  Þá verði að skýra undantekningar þröngt. 

                Í lið 5 er fjallað um minnisblað starfsmanns stefnda í máli nr. 2005040012, sem er sagt vera dagsett í september 2007.  Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að ekkert minnisblað dagsett í febrúar sé að finna í gögnum sem stefndi afhenti nefndinni né í yfirliti um gögn máls nr. 2005040012.  Hins vegar sé að finna minnisblöð með öðrum dagsetningum og verði því leyst úr þessum lið samhliða liðum 12 og 13. Undið liðum 12 og 13 óskuðu stefnendur eftir gögnum um ágreining stefnda og Landsbanka vegna athugasemda stefnda í tengslum við úttekt sem framkvæmd var á áhættu­mælingum og áhættustýringum bankans á árinu 2005.  Taldi úrskurðarnefndin að öll gögn undir þessum liðum vörðuðu starfsemi stefnda og rekstur Landsbanka Íslands sem væri eftirlitsskyldur aðili.  Var talið að stefndi væri bundinn þagnarskyldu um þau þar sem þau hefðu að geyma umfangsmiklar upplýsingar um stöðu einstakra viðskiptamanna Landsbanka Íslands og viðskipti þeirra.  Þá vísaði nefndin um minnis­blaðið til 5. tl. 6. gr. uppll. 

                Um þetta vísa stefnendur til sömu röksemda og þeir reifuðu um áðurgreind skjöl.  Þó taka þeir fram að afhending minnisblaðanna til rannsóknarnefndar Alþingis hafi ekki verið afhending til eftirlitsaðila samkvæmt lagaskyldu, en nefndin hafi ekki verið eftirlitsaðili í skilningi 8. gr. uppll. 

                Liður 6 varðar skýrslu stefnda frá febrúar 2008 og athugun á útlánaáhættu hjá Landsbanka Íslands.  Hér er vísað til sömu röksemda og að framan eru rakin.  Auk þess er tekið fram að ósannað sé að stefnda hafi verið heimilt að takmarka svo aðgang stefnenda að skýrslunni að hann afhenti aðeins forsíðu, efnisyfirlit og inngang. 

                Liðir 7 og 8 varða tvær kærur stefnda til sérstaks saksóknara.  Í annarri er kærð markaðsmisnotkun stjórnenda og starfsmanna Landsbanka Íslands, en í hinni eru kærðar lánveitingar til tilgreindra aðila til kaupa á hlutafé í bankanum.  Stefnendur telja sig eiga rétt á að fá þessar kærur og öll fylgigögn.  Stefndi neitaði að taka afstöðu til beiðni stefnenda um aðgang að þessum gögnum þar sem að með því yrði jafnframt upplýst hvort mál sem varða þessa tilteknu aðila væru eða hefðu verið til rannsóknar hjá stefnda.  Málinu var síðan vísað frá úrskurðarnefndinni. 

                Stefnendur telja að ekki yrði nauðsynlega upplýst hvort einhverjir einstaklingar væru undir grun um refsiverða háttsemi þótt kærurnar yrðu afhentar.  Stefnda væri enda í lófa lagið að strika út öll nöfn. 

                Stefnendur vísa til almennra reglna stjórnsýsluréttar og stjórnskipunarréttar, sbr. og 60. gr. stjórnarskrárinnar.  Kröfu um að úrskurður úrskurðarnefndarinnar verði felldur úr gildi byggja stefnendur einkum á því að úrskurðurinn var ekki í samræmi við ákvæði upplýsingalaga, laga um fjármálafyrirtæki og lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.  Þá hafi stefndi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar þegar hann tók ákvörðun.  Ákvörðunin sé því ólögmæt og ógildanleg.  Stefnendur byggja heimild til útgáfu framhaldsstefnu á 29. gr. laga um meðferð einkamála.  Umræddur úrskurður hafi verið kveðinn upp hálfu ári eftir að málið var höfðað. 

                Málsástæður og lagarök stefnda

                Í greinargerð stefnda var krafist frávísunar, en fallið var frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.  Stefndi féll þó ekki frá þeim málsástæðum sem hann hafði þar uppi sérstaklega til stuðnings frávísunarkröfunni.  Var það annars vegar að hér væri skylt að tæma kæruleiðir innan stjórnsýslunnar áður en mál yrði lagt fyrir dómstóla og að mál yrði ekki rekið samtímis fyrir stjórnsýslunefnd og almennum dómstólum.  Hins vegar var byggt á því að kröfugerð og málsástæður stefnenda væru óljósar.  Þá væri ekki skýrt hvers vegna væri í senn krafist ógildingar á ákvörðun um tiltekin gögn og viðurkenningar á rétti til aðgangs að þeim. 

                Sýknukröfu kveðst stefndi styðja við ýmis ákvæði upplýsingalaga, 13. gr. laga nr. 87/1998, 58. gr. og 100. gr. a–103. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 

                Stefndi mótmælir því að stefnendur eigi rétt til aðgangs að umræddum gögnum samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, svo og því að skýra beri þröngt takmarkanir á upplýsingarétti samkvæmt 6.-10. gr. laganna og að á stefnda hvíli sönnunarbyrði um að þær eigi við.  Réttur til aðgangs samkvæmt 5. gr. sé háður takmörkunum bæði samkvæmt 6.-10. gr. og öðrum lagaákvæðum um þagnarskyldu.  Stjórnvald verði að rökstyðja synjun um aðgang, en ítarlegur rökstuðningur geti hins vegar falið í sér of mikla frásögn af þeim gögnum sem um ræðir. 

                Stefndi segir að hann hafi byggt ákvörðun sína um beiðni stefnenda á lög­mætum og málefnalegum sjónarmiðum.  Hann hafi lagt mat á efni gagna sem um ræði í liðum 12, 13, 14, 16, 20 og 23 í beiðninni og vísað til 13. gr. laga nr. 87/1998, 58. gr. laga nr. 161/2002 og ákvæða upplýsingalaga nr. 140/2012.  Réttur almennings sé tryggður skv. upplýsingalögunum, að teknu tilliti til hinna sérstöku ákvæða um þagnarskyldu í 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002.  Hvað varði liði 26 og 27 í beiðni stefnenda hafi hann talið sér óheimilt að veita upplýsingar um hvort umbeðin gögn væru í vörslu stofnunarinnar með vísan til 13. gr. laga nr. 87/1998.  Því hafi ekki komið til álita þar að leggja mat á efni gagna sem beiðnin gat varðað. 

                Stefndi telur stefnendur oftúlka þær breytingar sem urðu á upplýsingalögunum með gildistöku nýrra laga nr. 140/2012.  Ákvæði um þagnarskyldu séu samhljóða ákvæðum eldri laga og því gildi sömu sjónarmið um flokkun ákvæða um þagnar­skyldu og í tíð eldri laga.

                Stefndi byggir á því að ákvæði 13. gr. laga nr. 87/1998 um þagnarskyldu gildi um þau gögn sem hér er deilt um.  Þá vísar hann til 58. gr. laga nr. 161/2002 og upplýsingalaga nr. 140/2012.  Gögn samkvæmt liðum 12, 13, 14, 16, 20 og 23 í beiðni. hafi haft að geyma annars vegar upplýsingar um starfsemi stefnda og viðskipti, rekstur eftirlitsskyldra aðila og tengdra aðila, sem leynt eigi að fara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. fyrrnefndra laga.  Hins vegar hafi þarna verið að finna upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni viðskipavina Landsbankans, sem 58. gr. laga nr. 161/2002 eigi við um.  Þá varði þessar upplýsingar einkahagsmuni sem eigi að fara leynt samkvæmt. 9. gr. upplýsingalaga. 

                Um gögn samkvæmt liðum 26 og 27 segir stefndi sig ekki geta veitt upp­lýsingar um hvort slík mál væru eða hefðu verið til rannsóknar.  Þetta séu upplýsingar um starfsemi stefnda sem eigi að fara leynt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. 

                Stefndi byggir á því þagnarskylduákvæði 13. gr. sérstakt ákvæði um þagnarskyldu, enda tilgreini ákvæðið sérstaklega þær upplýsingar sem þagnarskyldan taki til.  Ákvæðið gangi því lengra en 6.-10. gr. upplýsingalaga.  Þá vill hann einnig benda á synjun um aðgang gögnum samkvæmt liðum 12, 13, 14, 16, 20 og 23 hafi einnig verið byggð á 9. gr. upplýsingalaga. 

                Stefndi byggir á því að skilyrði 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1992 séu ekki upp­fyllt.  Ákvæðið sé undantekning sem eigi við ef eftirlitsskyldur aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram og verði að skýra þröngt.  Þá taki það ekki til upplýsinga sem 58. gr. laga nr. 161/2002 fjalli um.  Stefndi segir að Landsbanki Íslands sé enn til slita­meðferðar sem hafi hafist að kröfu skilanefndar og slitastjórnar bankans.  Hann hafi ekki verið tekinn til gjaldþrotaskipta og því sé hann hvorki til gjaldþrotaskipta né í þvinguðum slitum. 

                Bankinn hafi enn takmarkaða heimild til stunda leyfisskylda starfsemi, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 161/2002.  Félagið því enn undir sérstöku eftirliti stefnda samkvæmt 101. gr. a í lögunum, sbr. 2. gr. laga nr. 87/1998.  Þá félagsins ekki til meðferðar samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 eins og segi í stefnu. 

                Þá segir stefndi 5. mgr. 13. gr. geti ekki tekið til almennra upplýsinga­beiðna, eins og beiðni stefnenda .  Ákvæðið bundið við upplýsa fyrir dómi um tiltekin atriði.  Gagnaöflun í einkamálum fari fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 91/1991 og geti aðili skorað á gagnaðila sinn, í þessu tilviki Lands­banka Íslands, leggja fram gögn.  Það hafi þá ákveðin réttaráhrif ef ekki er orðið við slíkri áskorun. 

                Stefndi mótmælir því að umrædd gögn varði ekki viðskipti eða einkamálefni viðskiptamanna Landsbanka Íslands.  Synjun sín um aðgang hafi verið byggð á því að hér væri um að ræða upplýsingar sem vörðuðu annars vegar einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga, sem sanngjarnt og eðlilegt væri að færu leynt, hins vegar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. 

                Stefndi byggir á því að þagnarskylduákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 sé sérstakt ákvæði um þagnarskyldu.  Ákvæðið tilgreini sérstaklega þær upplýsingar sem þagnarskyldan taki til.  Hún varði upplýsingar um viðskipta- og einkamálefni viðskiptamanna fjármálafyrirtækis.  Ákvæðið gangi því lengra en 6.-10. gr. upplýsingalaga. 

                Stefndi mótmælir því að birting gagna og upplýsinga í Skýrslu rannsóknar­nefndar Alþingis aflétti þagnarskyldu af þeim gögnum. 

                Stefndi telur að 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 sé sérstakt ákvæði um þagnar­skyldu og að skýra verði rúmt hugtakið gögn sem leynt eigi að fara. 

                Þá segir stefndi að ekki séu sett tímamörk á þagnarskyldu samkvæmt ákvæðinu.  Telur hann að þagnarskylda sín haldist að meginstefnu til þótt eftirlits­skyldur aðili sé ekki lengur undir eftirlitinu.  Þetta eigi einnig við aðila að lokinni slitameðferð samkvæmt XII. kafla laga nr. 161/2002 eða ákvæðum hlutafélagalaga.  Þetta sjónarmið sitt fái stuðning í 5. mgr. 13. gr. laganna. 

                Á sama hátt séu ekki sett tímamörk í 58. gr. laga nr. 161/2002. 

                Vegna umfjöllunar í stefnu tekur stefndi fram að synjun hans sem byggði á 58. gr. laga nr. 161/2002 varðaði eingöngu upplýsingar í gögnum um viðskipta- og einka­málefni viðskiptamanna.  Synjun byggði að öðru leyti á 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998.  Þá hafi synjun aðgangs að vinnuskjölum starfsmanna stefnda byggst á hinum sérstöku ákvæðum um þagnarskyldu.  Hann vísi að auki til ákvæða upplýsinga­laga um vinnuskjöl til áréttingar því að skjölin hefðu ekki verið afhent öðrum og innihéldu ekki upplýsingar sem 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga ætti við um. 

                Loks áréttar stefndi að illmögulegt hafi verið að rökstyðja synjun um aðgang nákvæmar án þess að gera um leið efni umræddra skjala opinbert. 

                Í greinargerð í framhaldssök hefur stefndi ekki uppi neinar nýjar málsástæður.  Hann segir að ekki sé grundvöllur til að úrskurður úrskurðarnefndarinnar verði felldur úr gildi. 

                Hann lýsir sig að mestu sammála úrskurðarnefndinni, nema hvað hann mótmælir því að Landsbanki Íslands sé gjaldþrota í skilningi 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998. 

                Niðurstaða

                Stefnendur telja sig eiga rétt á að fá í hendur afrit af umræddum gögnum samkvæmt ákvæðum II. kafla upplýsingalaga nr. 140/2012.  Er þar fjallað um aðgang almennings að gögnum í stjórnsýslunni, án þess að viðkomandi sé beint aðili að máli.  Þessi heimild almennings er almenn samkvæmt 5. gr. laganna, en taldar eru ákveðnar undantekningar í 6. til 10. gr. þeirra.  Þá er í öðrum lögum að finna sérákvæði sem geta takmarkað rétt til aðgangs að gögnum. 

                Í 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga er fjallað um skil milli laganna og annarra laga­ákvæða um upplýsinga- og þagnarskyldu.  Þar segir að ákvæði annarra laga sem heimili víðtækari aðgang að upplýsingum haldi gildi sínu.  Hins vegar takmarki almenn ákvæði laga um þagnarskyldu ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. 

                Þau sérákvæði sem á reynir í þessu máli eru 13. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki.  Útilokað er að kalla þessar reglur almenn ákvæði í skilningi áðurgreinds ákvæðis upplýsingalaga þannig að öllum væri heimill ótakmarkaður aðgangur að öllum gögnum sem Fjármálaeftirlitið aflar og vinnur, þ. á m. upplýsingum um við­skipti einstaklinga og fyrirtækja við banka og önnur fjármálafyrirtæki.  Bæði þessi ákvæða mæla fyrir um strangari þagnarskyldu heldur en leiðir af 9. gr. upplýsinga­laganna.  Þá er gildissvið þeirra skýrt afmarkað þótt það sé býsna víðtækt.  Verður að skýra bæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 og 58. gr. laga nr. 161/2002 svo að ákvæðin gildi eftir efni sínu, án tillits til ákvæða upplýsingalaga. 

                Gögnin sem deilt er um og þær upplýsingar sem þau veita hafa verið tekin til umfjöllunar að einhverju leyti í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem starfaði samkvæmt lögum nr. 142/2008.  Þótt þessar upplýsingar hafi þannig að einhverju leyti orðið opinberar eru þær ekki orðnar svo alkunnar að unnt sé að telja leynd um efni þeirra tilgangslaust.  Þá leiðir afmörkuð undantekning frá leynd ekki til þess að leyndinni sé alfarið aflétt. 

                Stefndi afhenti dómara þau gögn sem um er deilt í málinu í trúnaði, án þess að stefnendur fengju tækifæri til að skoða þau.  Um alla liði í kröfugerð stefnenda verður sagt að 1. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 kemur í veg fyrir að stefnendum verði afhent afrit af þeim gögnum.  Í öllum þessum tilvikum er um að ræða gögn sem Fjármála­eftirlitið hefur aflað um viðskipti og rekstur eftirlitsskyldra aðila.  Þá koma sumpart fram upplýsingar sem 58. gr. laga nr. 161/2002 kemur í veg fyrir að verði birt. 

                Varðandi gögn undir töluliðum 7 og 8 þá neitaði stefndi að upplýsa hvort þau væri yfirleitt að finna, þar sem hann taldi að sér væri óheimilt að upplýsa hvort hann hefði kært tiltekna háttsemi til lögreglu.  Þessi niðurstaða stefnda breytir því ekki að dómurinn verður að taka beina afstöðu til kröfu stefnanda og verður henni, eins og öðrum liðum í kröfugerð hans hafnað.  Þá eiga stefnendur heldur ekki rétt á að fá gögn afhent með útstrikunum. 

                Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 87/1998 er veitt heimild til þess að upplýsa við rekstur einkamáls atriði, sem 1. mgr. gilti annars um, ef hinn eftirlitsskyldi aðili er gjaldþrota eða þvinguð slit fara fram.  Þessi þrönga heimild verður ekki nýtt til að fá aðgang að gögnum.  Einungis er heimilt að fá svör við tilteknum spurningum eða lögð fram skjöl í því máli þar sem á þau reynir til sönnunar.  Þetta mál er ekki rekið til annars en að fá viðurkenndan rétt til aðgangs að tilteknum gögnum, en úr þessu verður að leysa í þeim málum þar sem stefnendur vilja sanna tiltekin atriði til að sýna fram á vanrækslu á upplýsingaskyldu vátryggingartaka.  Verður því ekki í þessu máli leyst úr því hvort Landsbanki Íslands sé gjaldþrota eða í þvinguðum slitum í skilningi þessa ákvæðis. 

                Stefnendur hafa ekki sýnt fram á að rannsókn stefnda á málefninu í tilefni af beiðni þeirra hafi verið ábótavant.  Verður ekki fallist á að ákvörðun stefnda verði ógilt samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga. 

                Samkvæmt framansögðu er kröfum stefnenda hafnað, bæði um ógildingu ákvörðunar og úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál, svo og um að viður­kenndur verði réttur þeirra til aðgangs að gögnum. 

                Í samræmi við þessa niðurstöðu verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 800.000 krónur. 

                Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan. 

D ó m s o r ð

                Stefndi, Fjármálaeftirlitið, er sýknaður af öllum kröfum stefnenda,  Brit Insurance Ltd., QBE Insurance (Europe) Ltd., Liberty Mutual Insurance Europe Ltd., Allianz Global Corporate & Specialty AG, Novae Syndicate 2007, Dan Re Syndicate 1400 og QBE Syndicate 1886. 

                Stefnendur greiði stefnda óskipt 800.000 krónur í málskostnað.