Print

Mál nr. 453/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (sjálfur)
Lykilorð
  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Stjórnarskrá
  • Réttlát málsmeðferð
  • Verjandi
Reifun

Héraðsdómari skipaði X verjanda þrátt fyrir að bókað hafði verið við þingfestingu málsins að X óskaði ekki eftir verjanda að svo stöddu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu skyldi sakborningur fá að halda uppi vörnum sjálfur og væri sá réttur liður í réttlátri málsmeðferð sem væri varin af 1. mgr. sömu greinar og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar. Um rétt þennan væri nánar kveðið á um í 29. gr. laga nr. 88/2008 en í 3. mgr. 31. gr. sömu laga væri kveðið á um heimild dómara til að skipa sakborningi verjanda þótt hann hefði ekki óskað þess ef hann væri að mati dómara ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við meðferð máls fyrir dómi. Ákvörðun héraðsdóms um að skipa X verjanda hefði hins vegar ekki verið reist á því að hann væri ófær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur, enda hefði ekkert komið fram í málinu sem benti til þess að hann hefði ekki verið til þess hæfur. Í því tilliti breytti engu þótt X talaði ekki íslensku enda hefði verið fullnægjandi að bregðast við því með því að fá túlk til að þýða það sem fram fór fyrir dómi. Var því ekki virtur lögbundinn réttur X til að verja sig sjálfur við meðferð málsins en ekki var hægt að útiloka að það kynni að hafa skipt einhverju um úrslit þess. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júlí 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Við þingfestingu málsins í héraði 19. júní 2014 sótti ákærði þing. Túlkur var ekki viðstaddur í þinghaldinu en ákærði er erlendur ríkisborgari. Við fyrirtökuna var eftirfarandi fært til bókar: „Ákærði óskar ekki eftir að honum verði skipaður verjandi að svo stöddu en ákærði kveðst neita sök en hann kveðst hafa kynnt sér ákæruna skilja íslensku ágætlega en talar hana ekki. Vegna þessa skipar dómari ákærða verjanda í málinu ...“. Samkvæmt þessu er ranglega staðhæft í hinum áfrýjaða dómi að ákærði hafi við þingfestingu málsins óskað eftir að sér yrði skipaður verjandi.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar ber öllum réttur til að fá úrslausn um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð. Þessi réttur sakbornings er einnig varinn af 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en honum var veitt lagagildi með lögum nr. 62/1994. Í sáttmálanum segir einnig í c. lið 3. mgr. sömu greinar að sakborningur skuli fá að halda uppi vörnum sjálfur og er sá réttur liður í réttlátri málsmeðferð. Í lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála er nánar kveðið á um þennan rétt en þar segir í 29. gr. að sakborningi sé heimilt að halda sjálfur uppi vörnum í máli kjósi hann það og sé hæfur til þess að mati dómara eða lögreglu. Þá segir í 3. mgr. 31. gr. laganna að dómara sé heimilt að skipa sakborningi verjanda þótt hann hafi ekki óskað þess ef hann er að mati dómara ekki fær um að gæta hagsmuna sinna sem skyldi við meðferð máls fyrir dómi.

Ákvörðun héraðsdóms um að skipa ákærða verjanda var ekki reist á því að hann væri ófær um að gæta hagsmuna sinna sjálfur, enda hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til að hann hafi ekki verið til þess hæfur. Í því tilliti breytir engu þótt ákærði tali ekki íslensku, sem er þingmálið, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/2008, og var fullnægjandi að bregðast við því með að fá túlk til að þýða það sem fram fór fyrir dómi. Samkvæmt þessu var við meðferð málsins í héraði ekki virtur lögbundinn  réttur ákærða til að verja sig sjálfur og er ekki hægt að útiloka að það kunni að hafa skipt einhverju um úrslit málsins. Er þetta slíkur annmarki á málsmeðferðinni að ómerkja verður hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði.      

Dómsorð:

Héraðsdómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar málmeðferðar og dómsálagningar að nýju.

Allur áfrýjunarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 19. júní 2014 og dómtekið 22. október sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 13. maí 2014, á hendur X, kt. [...], [...], [...], með dvalarstað að [...], [...]; 

„fyrir umferðar-, vopna- og lögreglulagabrot í Hafnarfirði með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 29. mars 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,03 ‰) norður Reykjavíkurveg, ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu heldur aukið hraðann og ekið inn á bifreiðastæði við Snælandsvídeó þar sem hann stöðvaði aksturinn og reyndi að komast undan lögreglu á hlaupum en var handtekinn af lögreglu á bifreiðaplaninu, og haft í vörslum sínum fjaðrahníf sem fannst við öryggisleit og lagt var hald á.

Telst þetta varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, 19. gr. sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og b-lið 2. mgr. 30 gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006, jafnframt er krafist upptöku á fjaðrahníf sem lagt var hald á skv. 1. mgr. 37. gr. nefndra vopnalaga.

Ákærði kom fyrir dóminn 19. júní sl. og óskaði eftir skipun verjanda. Þann 27. júní sl. mætti ákærði í dóminn ásamt verjanda sínum og neitaði sök utan að hann kvað rétt vera að hann hafi haft hníf, sem ákært er fyrir, í vörslum sínum. Aðalmeðferð, sem fara átti fram 7. október sl., var frestað og fór aðalmeðferð fram þann 22. október sl. Fór dómurinn á vettvang og var málið dómtekið að málflutningi loknum.

Málsatvik. 

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu veitti lögregla bifreiðinni [...] athygli þar sem hún mætti bifreiðinni á Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði umrætt sinn. Ákvað lögreglan að kanna ástand ökumanns og sneri við á umferðarljósum Reykjavíkurvegar og Hjallahrauns. Var ökumanni gefið merki, með bláum forgangsljósum lögreglu, um að stöðva bifreiðina en við það hafi ökumaður aukið hraðann og ekið inn á bifreiðastæði við Snælandsvídeó. Þar hafi ökumaður og farþegi stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið frá henni. Ökumaðurinn hafi hlaupið að bifreiðaplani bak við Snælandsvídeó og lögreglan ekið á eftir honum. Þegar þeir voru komnir nálægt ökumanninum hafi A, annar lögreglumannanna, stokkið út úr bifreiðinni og hlaupið ökumanninn uppi og handtekið hann. Við öryggisleit á honum hafi hnífurinn fundist. Hafi ökumanninum verið kynnt að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur og færður á lögreglustöð. Þar hafi blóðsýni verið tekið úr ökumanninum og honum sleppt í framhaldi af því.

Skýrslur fyrir dómi.

Ákærði kom fyrir dóminn og neitaði því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn. Hann hafi verið farþegi í bifreiðinni og setið aftur í henni. Annar farþegi hafi einnig verið í bifreiðinni auk ökumanns. Vildi ákærði ekki upplýsa hverjir það hafi verið. Ákærði lýsti uppdrætti, sem hann lagði fram, af vettvangi fyrir dóminum og sagði lögregluna ekki geta hafa séð hver það var sem ók bifreiðinni. Lögreglubifreiðin hafi verið svo langt á eftir þeim, auk þess sem ákærði hafi hlaupið fyrir horn og því hlyti lögreglan að hafa misst sjónar í einhvern tíma af þeim.

                Vitnið B lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í eftirliti ásamt A lögreglumanni. Þeir hafi mætt bifreið ákærða rétt áður en þeir komu að umferðarljósum á Reykjavíkurvegi og Hjallahrauni. Lögreglan hafi snúið við á ljósunum, kveikt á forgangsljósum og elt bifreiðina. Bifreiðin hafi skyndilega beygt til hægri og ekið inn á bifreiðastæði við Snælandsvídeó. Lögreglan hafi verið fast á eftir þeim þegar ákærði lagði bifreiðinni í bifreiðastæði og ökumaður og farþegi hlaupið út úr bifreiðinni. Ákærði hafi hlaupið fyrir horn á húsinu og inn á bifreiðastæði fyrir aftan húsið en lögreglan ekið á eftir honum, þar til A stökk út úr lögreglubifreiðinni og hljóp ökumanninn uppi. Kvaðst vitnið vera öruggt um að lögreglan hafi aldrei misst sjónar á bifreiðinni frá því að þeir mættu henni og þar til henni var lagt fyrir framan Snælandsvídeó og þeir hafi aldrei misst sjónar á ökumanninum frá því að hann hljóp út úr bifreiðinni og þar til hann var handtekinn og færður á lögreglustöðina. Þá hafi einungis tveir menn hlaupið út úr bifreiðinni og lögreglan lagt áherslu á að elta ökumanninn uppi en ekki farþegann.

                Vitnið A lögreglumaður kom fyrir dóminn og lýsti atvikum á sama hátt og vitnið B. Kvaðst vitnið vera öruggt með að það hafi aldrei misst sjónar á  bifreiðinni og ökumanninum eftir að hann stökk út úr bifreiðinni og hljóp í burtu.

Forsendur og niðurstöður.

Ákærði neitaði því að hafa ekið bifreiðinni umrætt sinn og neitaði að gefa upp hver hafi ekið henni. Ákærði krafðist sýknu og byggði þá kröfu m.a. á því að engin rannsókn hafi farið fram af hálfu lögreglu og engin framburðarskýrsla hafi verið tekin af honum og ekki liggi fyrir í málinu hverjir hafi verið með honum í bifreiðinni. Verður tekið undir þær málsástæður ákærða að lögreglu hafi borið að taka framburðarskýrslu af honum þar sem hans frásögn af atvikum kæmi fram, og hvort hann játaði eða neitaði að hafa ekið. Þá er í engu getið í frumskýrslu lögreglu um það hver eða hverjir hafi verið með ákærða í bifreiðinni. Verður að gera athugasemd við þennan þátt rannsóknar málsins. Þrátt fyrir þetta telur dómurinn að efnisdómur verði lagður á málið.

                Fyrir dóminum fullyrtu tveir lögreglumenn að þeir hafi aldrei misst sjónar á bifreið ákærða né ökumanninum eftir að hann hljóp út úr bifreiðinni og var handsamaður. Dómurinn fór á vettvang. Telur dómurinn sannað að lögreglumennirnir hafi verið í það miklu návígi við bifreiðina, frá því að þeir veittu henni fyrst athygli, og ökumanninn, eftir að hann hljóp út úr henni, að vafalaust sé að það hafi verið ákærði sem ók bifreiðinni. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi. Þá mótmælti ákærði því ekki að hafa hlaupið undan lögreglunni þegar hann var handtekinn. Verður ákærði einnig sakfelldur fyrir þá háttsemi. Ekki er ágreiningur um matsgerð, sem liggur fyrir í málinu, um alkóhólmagn í blóði ákærða. Verður ákærði því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er hún réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun þann 14. janúar 2009 fyrir ölvunarakstur og var gert að greiða 250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs auk þess að vera sviptur ökurétti í tuttugu mánuði. Ákærði gekkst undir sátt þann 5. ágúst 2009 fyrir að aka undir áhrifum áfengis og að aka sviptur ökurétti. Var honum þá gert að greiða 280.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og sviptur ökurétti í fjögur ár frá 14. janúar 2010. Ákærði var dæmdur í fjörutíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og auk þess sviptur ökurétti ævilangt 26. nóvember 2009. Hafa ofangreindar refsingar ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Með vísan til dómaframkvæmdar er refsing ákærða ákveðin fangelsi í sjötíu og fimm daga. Þá er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða áréttuð. Ákærði sæti upptöku á fjaðrahníf. Að auki verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti 21.467 krónur auk málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hdl., sem eru hæfilega ákveðin 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð.

Ákærði, X, sæti fangelsi í sjötíu og fimm daga.

Áréttuð er ævilöng ökuréttarsvipting ákærða.

Ákærði sæti upptöku á fjaðrahníf.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 209.717 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Unnars Steins Bjarndal hdl., 188.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.