Hæstiréttur íslands
Mál nr. 43/2023
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Ávana- og fíkniefni
- Skipulögð brotastarfsemi
- Heimfærsla
- Samverknaður
- Hlutdeild
- Sönnunargögn
- Stjórnarskrá
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2023 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að ómerkingarkröfu ákærða Halldórs Margeirs Ólafssonar verði hafnað, að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru að undanskildum hluta af ákærulið I.2 og refsing þeirra verði þyngd.
3. Ákærði Guðlaugur Agnar Guðmundsson krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa og til frádráttar henni komi með fullri dagatölu gæsluvarðhald sem hann hefur sætt.
4. Ákærði Halldór Margeir Ólafsson krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákærulið I.1, að refsing hans verði milduð til muna og frá dragist gæsluvarðhald sem hann hefur sætt. Til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til þrautavara krefst hann þess að refsing hans verði milduð og frá dragist gæsluvarðhaldsvist hans. Þá krefst hann þess að synjað verði um upptöku á raftækjum sem tilgreind eru í ákæru.
Málsatvik og ágreiningsefni
5. Þau ákæruefni sem eru til meðferðar fyrir Hæstarétti í þessu máli varða þá hluta ákæru héraðssaksóknara 11. ágúst 2022 sem snúa að aðild ákærðu að fíkniefnalagabrotum og starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Í fyrsta lagi aðild ákærðu að innflutningi á 53 lítrum af amfetamínvökva sem falinn var í saltdreifara sem fluttur var til landsins frá Hollandi í byrjun árs 2020 og framleiðslu amfetamíns úr vökvanum í sölu- og dreifingarskyni. Í öðru lagi aðild ákærða Halldórs Margeirs að kannabisræktun sem kom í ljós við húsleit 20. maí 2022 og í þriðja lagi að vörslum hans á kókaíni sem fannst við húsleit hjá honum sama dag. Tvö fyrri fíkniefnalagabrotin voru í ákæru talin stórfelld og framkvæmd þeirra liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, og 175. gr. a almennra hegningarlaga. Þriðja brotið var talið varða meðal annars við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974.
6. Upphaf rannsóknar lögreglu á þeirri háttsemi sem ákærðu er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 má rekja til rafrænna gagna sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum 15. júlí 2020 frá Europol sem er evrópsk löggæslustofnun sem Ísland hefur átt aðild að frá árinu 2001. Gögnin bárust um samskiptakerfi Europol sem nefnist Siena. Í upplýsingaskýrslum lögreglu sem liggja fyrir í málinu kemur fram að gagnanna hafi verið aflað í Frakklandi á grundvelli úrskurðar undirréttar í borginni Lille í lok janúar 2020 með þeim hætti að lögregla hafi fengið aðgang að netþjónum í Frakklandi sem þjónustuðu dulkóðuð, rafræn samskipti milli notenda samskiptakerfisins Encrochat. Einnig hafi verið komið þar fyrir búnaði sem gert hafi kleift að afkóða samskiptin og afrita þau. Heimildin hafi síðar verið framlengd. Samskiptakerfinu hafi verið ætlað að tryggja notendum leynd um samskipti sín og þeim staðið til boða að kaupa sérútbúna síma til hinna dulkóðuðu samskipta. Notendur hafi getað eytt gögnum sem fóru um kerfið. Löggæsluyfirvöld í Evrópu hafi lengi grunað að kerfið væri einkum notað til samskipta í tengslum við skipulagða brotastarfsemi. Sameiginlegt rannsóknarteymi frönsku og hollensku lögreglunnar (JIT) hafi verið myndað 10. apríl 2020 um þessar rannsóknaraðgerðir og starfað fyrir milligöngu Evrópustofnunar um löggæslusamvinnu, Eurojust, með stuðningi Europol. Rafrænum gögnum sem aflað hafi verið í þessum aðgerðum um samskipti milli notenda Encrochat hafi verið dreift til annarra evrópskra lögregluembætta í gegnum Europol og þau orðið grundvöllur lögreglurannsókna og sakfellinga víða í Evrópu. Óþekktur rekstraraðili Encrochat-kerfisins hafi lokað því 13. júní 2020 og jafnframt sent notendum orðsendingu um að ekki væri lengur unnt að tryggja öryggi gagna í kerfinu.
7. Gögn sem bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum voru í skrá sem geymdi meðal annars afrit rafrænna samskipta í samskiptakerfinu Encrochat milli notenda með nöfnunum Nuclearfork, Residentkiller, Sentientstream, Neptun og Beigepanda á tímabilinu mars til júní 2020. Samskiptin voru ýmist á íslensku, ensku eða hebresku. Þau vörðuðu meðal annars innflutning til Íslands á amfetamínvökva földum í „prófílum“ á saltdreifara sem fluttur hafði verið á tilgreindan sveitabæ, undirbúning, öflun búnaðar og leiðbeiningar um hvernig unnt væri að ná vökvanum úr saltdreifaranum og framleiða fíkniefni. Íslenskum löggæsluyfirvöldum bárust með sama hætti 7. október og 27. nóvember 2020 viðbótargögn úr sama kerfi, meðal annars um samskipti þessara sömu notenda. Umrædd gögn voru ljósmyndir, rituð samskipti, staðsetningar, upplýsingar um tengiliði, símtalaskrár og minnispunktar. Þau voru auðkennd sem EMMA95.
8. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og héraðssaksóknari sendu 15. mars 2021 réttarbeiðni til franskra yfirvalda á grundvelli samnings Evrópusambandsins um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum sem Ísland er aðili að. Þar var leitað formlegrar heimildar til að nota framangreind gögn í sakamálum sem sótt yrðu fyrir innlendum dómstólum á hendur öllum þeim sem kæmu við sögu í þeim. Í réttarbeiðninni var vísað til þess að gögnin hefðu verið notuð í þágu rannsóknar sem staðið hefði yfir í marga mánuði á hópi brotamanna sem hefðu flutt mikið magn fíkniefna til Evrópu og Íslands. Beiðni um heimild til að nota Encrochat-gögnin tæki meðal annars til notendanna Nuclearfork og Residentkiller.
9. Í bréfi rannsóknardómara í Lille í Frakklandi 1. júní 2021 var vísað til fyrrnefndrar réttarbeiðni og lýst heimildum sem veittar voru til notkunar umræddra gagna. Þar var sérstaklega vísað til samskipta notendanna Nuclearfork og Residentkiller. Í bréfinu kemur fram að heimildin taki til notkunar gagna sem miðlað væri innan ramma réttarbeiðninnar til sérhverrar rannsóknar sem miðaði að dómsmeðferð, saksókn og rannsóknar- eða dómsúrskurði á vegum íslenskra yfirvalda. Upplýsingarnar væru aðgengilegar frá og með dagsetningu bréfsins í tengslum við málsmeðferð fyrir dómi.
10. Í kjölfar móttöku gagnanna og á grundvelli upplýsinga sem þar komu fram hóf lögregla rannsókn sem leiddi til þess að grunur vaknaði um að saltdreifari hefði verið fluttur að bænum [...] í [...] og fíkniefni tekin úr honum þar. Saltdreifari sem svaraði til ljósmynda í gögnunum fannst þar í útihúsum 25. nóvember 2020 við leynilega húsleit sem heimiluð hafði verið af Héraðsdómi Reykjavíkur sama dag. Lögregla ákvað að bíða með frekari aðgerðir til að sjá hverjir kæmu til að sækja saltdreifarann og hvert hann yrði fluttur. Sýni voru þó tekin úr saltdreifaranum og málningarfötum í sömu útihúsum 20. september 2021 og 13. apríl 2022 við leynilegar húsleitir sem höfðu verið heimilaðar með dómsúrskurðum. Rannsókn á sýnunum staðfesti að í þeim voru leifar af amfetamíni.
11. Viðamiklar rannsóknaraðgerðir og frekari greining gagnanna leiddu til þess að lögregla taldi víst að notandinn Residentkiller væri ákærði Halldór Margeir en notandinn Nuclearfork ákærði Guðlaugur Agnar. Lögregla lét til skarar skríða 20. maí 2022 með handtöku ákærðu, húsleitum og haldlagningu meðal annars saltdreifarans, fíkniefna og ýmissa muna sem taldir voru hafa sönnunargildi. Sama dag var við húsleit að [...] staðfest að þar hefði farið fram kannabisræktun sú sem ákæruliður I.2 lýtur að en lögregla hafði haft hana til rannsóknar frá því í febrúar sama ár.
12. Með héraðsdómi 20. október 2022 voru ákærðu sakfelldir fyrir framangreind brot og ákærða Guðlaugi Agnari gert að sæta 10 ára fangelsi en ákærða Halldóri Margeiri 12 ára fangelsi.
13. Ákærðu áfrýjuðu báðir, ásamt þremur öðrum dómfelldu, héraðsdómi til Landsréttar. Með dómi Landsréttar 23. júní 2023 var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu Guðlaugs Agnars og Halldórs Margeirs staðfest að öðru leyti en því að ekki var fallist á að í háttsemi Halldórs Margeirs og meðákærðu samkvæmt ákærulið I.2 hefði falist þátttaka í starfsemi skipulagðra brotasamtaka í skilningi 175. gr. a almennra hegningarlaga. Landsréttur taldi ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að ákærðu hefðu framleitt að minnsta kosti 80,2 kg af amfetamíni úr amfetamínvökvanum en í ákæru var miðað við að þeir hefðu framleitt allt að 117,5 kg. Með dómi Landsréttar var ákærða Guðlaugi Agnari gert að sæta 8 ára fangelsi en ákærða Halldóri Margeiri 10 ára fangelsi. Aðrir ákærðu en Guðlaugur Agnar og Halldór Margeir undu dómi Landsréttar.
14. Ákærðu krefjast báðir sýknu af sakargiftum samkvæmt ákærulið I.1 og ákærði Halldór Margeir krefst þess jafnframt að dómur Landsréttar verði ómerktur. Þeir byggja dómkröfur sínar einkum á því að ósannað sé að þeir hafi verið notendur Encrochat-samskiptakerfisins undir notendanöfnunum Residentkiller og Nuclearfork og að sakfelling þeirra verði ekki byggð á framlögðum gögnum úr þessu samskiptakerfi vegna óvissu um uppruna þeirra, varðveislu og áreiðanleika. Þá telja þeir að sönnunarmati hafi verið áfátt í dómi Landsréttar.
15. Ákærði Halldór Margeir hefur játað háttsemi þá sem hann var sakaður um og sakfelldur fyrir samkvæmt ákæruliðum I.2 og III. Hann krefst ekki endurskoðunar á þeim hluta hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en varðar ákvörðun refsingar.
16. Ákæruvaldið telur hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi komið fram undir fyrrgreindum notendanöfnum í samskiptakerfinu Encrochat og að sönnunargildi gagnanna hafi verið metið með réttum hætti í heildstæðu mati á sönnun fyrir sekt ákærðu í dómi Landsréttar. Ákæruvaldið unir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en hvað varðar niðurstöðu um það magn fíkniefna sem framleitt hafi verið úr amfetamínvökva samkvæmt ákærulið I.1.
17. Áfrýjunarleyfi var veitt 6. september 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-102, á þeim grundvelli að telja yrði að dómsúrlausn um öflun og meðferð gagna við rannsókn máls, sönnunarfærslu svo og heimfærslu til refsiákvæða kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Tekið var fram að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu leyfisbeiðenda og önnur atriði að því leyti sem hún byggði á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar yrði ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. sömu greinar.
Niðurstaða
Um formhlið málsins
18. Enda þótt báðir ákærðu krefjist aðallega sýknu og aðeins ákærði Halldór Margeir hafi gert varakröfu um að dómur Landsréttar verði ómerktur er rétt að taka til skoðunar hvort varnir beggja ákærðu sem varða ágalla á rannsókn og saksókn og aðferð Landsréttar við mat á sönnunargildi gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu svo og refsilögsögu eigi að leiða til ómerkingar hins áfrýjaða dóms án kröfu.
1) Lok rannsóknar og grundvöllur fyrir útgáfu ákæru
19. Af hálfu ákærða Halldórs Margeirs er krafa um ómerkingu hins áfrýjaða dóms meðal annars studd þeim rökum að rannsókn málsins hafi hvergi nærri verið lokið við útgáfu ákæru og hafi hún staðið yfir fram að meðferð þess fyrir Landsrétti. Hann telur andstætt meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð að rannsókn málsins eða einstaka þátta þess hafi staðið yfir samtímis dómsmeðferð í héraði og allt fram til aðalmeðferðar fyrir Landsrétti.
20. Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 athugar ákærandi þegar hann hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi samkvæmt 152. gr., sbr. þó 146. gr. laganna.
21. Af rannsókn málsins og gangi hennar sem gerð er grein fyrir í dómi Landsréttar og héraðsdómi og ítarlegar upplýsingar liggja fyrir um í gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að gætt hafi verið fyrirmæla 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um að þeir sem rannsaki sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Þessi gögn bera jafnframt með sér að fylgt hafi verið fyrirmælum 1. mgr. 54. gr. laganna um það sem rannsaka skal. Á rannsókninni voru því ekki þeir ágallar að ákæranda hafi ekki með réttu verið fært að ákveða hvort sækja skyldi ákærðu til sakar og byggja á henni málatilbúnað fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. sömu laga.
22. Fyrir liggur að lögreglu tókst ekki að afla gagna úr tilteknum síma í eigu ákærða Guðlaugs Agnars fyrr en meðferð málsins í héraði var hafin en upplýsingaskýrsla um rannsókn á þeim gögnum var lögð fram fyrir upphaf aðalmeðferðar þess. Þá liggur fyrir að rannsókn á mögulegri þátttöku erlendra manna í þeirri brotastarfsemi sem ákæran lýtur að var ekki lokið þegar hún var gefin út og gögn um þær rannsóknaraðgerðir ekki lögð fram fyrir dómi fyrr en í Landsrétti. Upplýsingaskýrsla lögreglu um samanburð á staðsetningu notandans Nuclearfork og hnitsetningu ljósmynda úr farsíma ákærða Guðlaugs Agnars var heldur ekki lögð fram fyrr en í Landsrétti. Munnlegar skýrslur voru teknar fyrir Landsrétti af þeim lögreglumönnum sem stóðu að umræddum rannsóknaraðgerðum. Vörnum ákærða var þannig ekki áfátt þrátt fyrir síðbúna framlagningu umræddra gagna. Ekki var því brotið gegn meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð með því að byggt var á þessum gögnum við mat á sönnun um sekt ákærða.
2) Helstu varnir ákærðu um Encrochat-gögnin og endurskoðunarheimildir Hæstaréttar
23. Ákærðu telja að mikilvægustu sönnunargögnin sem lögð hafi verið til grundvallar sakfellingu þeirra í Landsrétti hafi verið rafræn sönnunargögn úr Encrochat-samskiptakerfinu en ranglega hafi verið talið að þeir hafi átt samskipti sín á milli í kerfinu sem notendurnir Residentkiller og Nuclearfork. Þeir telja að ekki hafi mátt leggja þessi sönnunargögn til grundvallar sakfellingu þeirra þar sem óvissa sé um hvernig þeirra var aflað, uppruna þeirra, varðveislu og áreiðanleika og að Landsréttur hafi auk þess ekki metið sönnunargildi þeirra með réttum hætti. Þannig hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
24. Ákærðu vísa sérstaklega til þess að við engar reglur sé að styðjast hér á landi um rannsókn á slíkum gögnum, könnun á uppruna þeirra, meðferð og áreiðanleika, gagnstætt því sem meðal annars sé í Danmörku.
25. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir á því að dulkóðuð gögn geti aðeins að uppfylltum ströngum skilyrðum um meðferð og úrvinnslu verið sönnunargögn tæknilegs eðlis í sakamáli enda liggi fyrir upplýsingar um öflun og meðferð þeirra og lýsing á göllum og vafaatriðum þeim tengdum. Þá verði að liggja fyrir hugtakayfirlit, tækni- eða gagnavinnslulýsing og gæðaeftirlitsskýrsla.
26. Ákærðu byggja báðir á því að engin gögn liggi fyrir um að hlutlæg greining eða mat hafi farið fram hjá lögreglu eða ákæruvaldi á gæðum gagnanna, atriðum sem beri að varast við notkun þeirra og hvernig þau geti haft áhrif á sönnunargildi þeirra. Þá séu skýrslur lögreglu um uppruna gagnanna og upphaf rannsóknar stuttar og efnisrýrar. Ekkert sé vitað um öflun þeirra og meðferð áður en þau komust í hendur íslenskra yfirvalda. Ekki hafi verið gerð glögg grein fyrir því hvernig aðgangsstýringu að gögnunum var háttað. Ekkert liggi heldur fyrir um öryggi þeirra, hérlendis eða erlendis, eða áreiðanleika þeirra að öðru leyti. Þau séu opin og auðvelt að breyta þeim og bæta við færslum. Þar af leiðandi sé ekki unnt að staðreyna falsleysi þeirra.
27. Hæstarétti er þröngur stakkur skorinn við endurskoðun á sönnunarmati Landsréttar að því leyti sem það byggist á heildarmati á sönnunargildi fram kominna sönnunargagna, þar á meðal munnlegs framburðar ákærðu og vitna fyrir dómi, enda ekki heimilt að veita leyfi til áfrýjunar á dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.
28. Séu á hinn bóginn annmarkar á málsmeðferð, þar á meðal aðferð við sönnunarmat í áfrýjuðum dómi, sem teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu þess geta þeir orðið til þess að leyfi til áfrýjunar skuli veita, sbr. d-lið 1. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Slíkir annmarkar geta eftir atvikum leitt til ómerkingar hins áfrýjaða dóms og heimvísunar máls, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020. Verður hér á eftir lagt mat á hvort slíkir annmarkar hafi verið til staðar.
3) Reglur um framlagningu sönnunargagna, sönnunarmat og sönnunarbyrði
29. Í dómi Hæstaréttar 3. mars 2006 í máli nr. 97/2006 var því hafnað að ríkislögreglustjóra yrði bönnuð notkun tiltekinna gagna í þágu lögreglurannsóknar með þeim rökum að Fjármálaeftirlitið hefði aflað þeirra á grundvelli dómsúrskurðar sem ekki hefði verið hnekkt og væri ekki til endurskoðunar í málinu. Til áréttingar þeirri niðurstöðu sagði: „Er þá jafnframt haft í huga að ekki er fyrir að fara í íslenskum lögum reglu sem útilokar að lögregla styðjist við gögn, sem hún hefur undir höndum, þó þeirra kunni að hafa verið aflað án þess að fylgt hafi verið ákvæðum laga um öflun sönnunargagna í opinberum málum.“
30. Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 aflar ákærandi sönnunargagna en ákærði getur einnig aflað þeirra telji hann ástæðu til. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvernig dómari getur haft frumkvæði að því að ákærandi afli frekari sönnunargagna um tiltekin atriði og í 3. mgr. kemur fram að telji dómari bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunarfærslu. Um skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn er sérstaklega fjallað í XX. kafla laganna. Segir þar í 1. mgr. 134. gr. að aðilar leggi fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls. Í þessum ákvæðum felst sú grundvallarregla að aðilar sakamáls geti aflað þeirra sönnunargagna sem þeir óska og synjun um framlagningu gagna verði að hafa lagastoð eða styðjast við önnur gild rök.
31. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, er fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafa, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sönnunargögn. Enn fremur metur dómari, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal en ályktanir má leiða af um það, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Sérstaklega er tekið fram í 137. gr. laganna að dómari meti sönnunargildi skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna með hliðsjón af atvikum hverju sinni.
32. Framangreind ákvæði mæla fyrir um það sem nefnt hefur verið frjálst sönnunarmat dómara og er þá átt við að sönnunarmatið sé ekki lögbundið. Markmiðið með hinu frjálsa sönnunarmati dómara er að komast að réttri niðurstöðu í samræmi við þá meginreglu í sakamálaréttarfari að leiða skuli hið sanna í ljós en hún er nefnd sannleiksreglan. Þá reglu verður þó að skýra í ljósi meginreglunnar um að sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Í samræmi við þetta er markmið rannsóknar sakamáls að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til saka, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laganna. Til viðbótar því að ákæruvaldið þarf samkvæmt framansögðu að axla sönnunarbyrðina gildir áðurgreind regla eftir 1. mgr. 109. gr. laganna um að sanna beri sekt ákærða svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum. Af því leiðir að vafa um sönnun sektar verður að skýra ákærða í hag. Samhliða gildir sú regla að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð, sbr. 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur lagagildi hér á landi eftir lögum nr. 62/1994.
4) Framlagning sönnunargagna og sönnunarmat í ljósi réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi
33. Við úrlausn um hvort heimilt sé að leggja fram tiltekið sönnunargagn og líta til þess við mat á sönnun um sekt sakbornings hafi það verið lagt fram, svo og við ákvörðun um hversu mikið vægi eigi að gefa því við sönnunarmat, hefur meðal annars verið horft til hvort þess hafi verið aflað með ólögmætum eða óvenjulegum hætti.
34. Við endurskoðun hins áfrýjaða dóms þarf að taka afstöðu til þess hvort Encrochat- gagnanna hafi verið aflað með ólögmætum eða óhefðbundnum hætti. Ef leitt þykir í ljós að þeirra hafi verið aflað með slíkum hætti þarf að taka afstöðu til þess hvort framlagning þeirra hafi verið heimil. Einnig þarf að meta hvort slík óvissa sé um uppruna, meðferð og áreiðanleika gagnanna að framlagning þeirra og það vægi sem þeim hefur verið gefið við mat á sönnun um sekt ákærðu leiði til þess að ákærði teljist ekki hafa notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi og slíkir annmarkar teljist hafa verið á aðferð við sönnunarmat að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm.
35. Ákvæðum 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er ætlað að tryggja réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Nánar er fjallað um samspil þessara ákvæða í athugasemdum við 8. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 sem varð að 70. gr. stjórnarskrárinnar.
36. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið litið til úrlausna Mannréttindadómstóls Evrópu við skýringu mannréttindasáttmálans þegar reynir á hliðstæð ákvæði stjórnarskrárinnar, sbr. meðal annars ummæli í dómum Hæstaréttar 19. maí 2005 í máli nr. 520/2004 og síðast 21. júní 2023 í máli nr. 8/2023.
37. Af framkvæmd mannréttindadómstólsins, svo sem dómi 12. júlí 1988 í máli nr. 10862/84, Schenk gegn Sviss, leiðir að dómstóllinn telur það almennt ekki hlutverk sitt heldur dómstóla í aðildarríkjum mannréttindasáttmálans að taka afstöðu til þess hvort tiltekið sönnunargagn verði lagt fram í dómsmáli og hvaða vægi það eigi að hafa við mat á því hvað teljist sannað. Frá þessu verði þó vikið ef innlendir dómstólar kunna að hafa brotið gegn réttindum sem vernduð eru af sáttmálanum eða niðurstöður þeirra geti talist handahófskenndar eða augljóslega ósanngjarnar. Þá þurfi jafnframt að meta hvort málsmeðferðin í heild hafi verið réttlát í skilningi 6. gr. sáttmálans að teknu tilliti til allra málsatvika, sbr. einnig dóm 27. október 2020 í málum nr. 29084/07 og 1191/08, Ayetullah Ay gegn Tyrklandi.
38. Við ákvörðun um hvort málsmeðferð í heild sinni hafi verið réttlát í ljósi sönnunargagna sem lögð voru til grundvallar niðurstöðu hefur mannréttindadómstóllinn talið að skoða verði hvort réttur ákærða til að halda uppi vörnum hafi verið virtur. Sérstaklega verði að huga að því hvort ákærða hafi verið gefinn kostur á að vefengja áreiðanleika sönnunargagna og andmæla notkun þeirra. Að auki verði að taka afstöðu til gæða sönnunargagna, þar á meðal hvort aðferð eða aðstæður við öflun þeirra séu til þess fallnar að vekja réttmætan efa um áreiðanleika þeirra eða nákvæmni, sbr. dóm 25. apríl 2013 í máli nr. 51198/08, Erkapić gegn Króatíu, og fyrrnefndan dóm í máli Ayetullah Ay gegn Tyrklandi.
39. Þá hefur mannréttindadómstóllinn talið geta skipt máli við mat á því hvort málsmeðferð í heild hafi verið réttlát hvort umdeilt sönnunargagn hafði afgerandi áhrif á niðurstöðu um sakfellingu. Því afdráttarlausari sem slík sönnunargögn eru og því minni efasemdir sem uppi eru um áreiðanleika þeirra þeim mun minni þörf er á að önnur sönnunargögn styðji þau. Um þetta má vísa til dóms 1. júní 2010 í máli nr. 22978/05, Gäfgen gegn Þýskalandi.
40. Mannréttindadómstóllinn hefur einnig bent á að réttur til réttlátrar málsmeðferðar geti ekki talist virkur nema varnir og athugasemdir aðila séu teknar til raunverulegrar skoðunar af innlendum dómstólum og þeir megi ekki virða að vettugi afmarkaða, viðeigandi og þýðingarmikla mótbáru sem sakborningur hefur sett fram, sbr. til dæmis dóm 29. nóvember 2016 í máli nr. 24221/13, Carmel Saliba gegn Möltu. Þá hefur dómstóllinn lagt áherslu á að dómstólum beri að tilgreina nægilega þau rök sem þeir byggja niðurstöðu á. Krafa um rökstuðning ráðist af eðli dómsúrlausnar og atvikum máls. Í kröfunni felist að málsaðilar eigi rétt á að tekin sé skýr afstaða til röksemda sem ráði úrslitum um niðurstöðu máls en dómstólum beri hins vegar ekki skylda til að svara öllum röksemdum þeirra nákvæmlega, sbr. meðal annars dóm 9. desember 1994 í máli nr. 18390/91, Ruiz Torija gegn Spáni.
41. Af framkvæmd mannréttindadómstólsins verður ráðið að við heildarmat á því hvort málsmeðferð teljist réttlát, þrátt fyrir að sakfelling hafi byggst á sönnunargagni sem aflað hefur verið með ólögmætum eða óvenjulegum hætti, skipti máli í hverju ólögmætið er fólgið. Þannig hefur dómstóllinn komist að þeirri niðurstöðu að hafi sönnunargagns verið aflað með pyndingum eða annars konar ómannlegri eða vanvirðandi meðferð sem falið hefur í sér brot gegn 3. gr. sáttmálans geti það komið í veg fyrir að málsmeðferðin teljist réttlát, sbr. til dæmis dóm 11. júlí 2006 í máli nr. 54810/00, Jalloh gegn Þýskalandi. Brot gegn 3. gr. sáttmálans við öflun sönnunargagns hefur þó ekki sjálfkrafa verið talið fela í sér brot gegn 6. gr. hans ef sakfelling hefur jafnframt verið reist á öðrum sönnunargögnum, sbr. fyrrnefndan dóm í máli Gäfgen gegn Þýskalandi.
42. Þá hefur mannréttindadómstóllinn ekki talið það fela í sér sjálfstætt brot gegn 6. gr. sáttmálans að byggja sakfellingu á sönnunargagni sem aflað hefur verið í andstöðu við rétt manna til friðhelgi einkalífs samkvæmt 8. gr. hans svo sem með símhlustun eða sambærilegri rannsóknaraðgerð sem ekki er framkvæmd í samræmi við heimildir í lögum, jafnvel þótt sakfellingin hafi ekki verið studd öðrum sönnunargögnum, sbr. dóm 12. maí 2000 í máli nr. 35394/97, Khan gegn Bretlandi.
5) Lögmæti öflunar Encrochat-gagnanna og heimild til framlagningar þeirra
43. Eins fram kemur í lið 30 að framan felst sú grundvallarregla í 110. og 134. gr. laga nr. 88/2008 að aðilar sakamáls geti aflað þeirra sönnunargagna sem þeir óska og synjun um framlagningu þeirra verði að hafa lagastoð eða styðjast við önnur gild rök. Hvorki eru í lögunum né öðrum lögum sérákvæði um öflun, framlagningu eða sönnunargildi gagna sem aflað er af erlendum yfirvöldum.
44. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að taka lögmæti Encrochat-gagnanna til skoðunar og hvort framlagning þeirra í málinu teljist ein og sér hafa komið í veg fyrir að ákærðu hafi notið réttlátrar málsmeðferðar. Kemur þar einkum til skoðunar hvort gagnanna hafi verið aflað í andstöðu við 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs, enda ljóst að dulkóðuð samskipti manna á milli eru almennt heimil og í öflun gagnanna fólst tilfinnanleg skerðing á friðhelgi einkalífs þeirra sem hlut áttu að máli. Strangar kröfur eru gerðar til takmarkana á slíkum réttindum.
45. Ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar svarar til 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í 2. mgr. 8. gr. er að finna almennt takmörkunarákvæði um að stjórnvöld skuli eigi ganga á rétt til friðhelgi einkalífs nema samkvæmt því sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Í 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar er sértækt ákvæði um takmarkanir á tilgreindum einkalífsréttindum. Þar segir meðal annars að ekki megi gera rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manna nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sem varð að 71. gr. stjórnarskrárinnar, er vísað til þess að takmörkunarheimildir þessar eigi einkum við um rannsóknaraðgerðir lögreglu sem séu ítarlega útfærðar í almennum lögum.
46. Í athugasemdum við XI. kafla frumvarps sem varð að lögum nr. 88/2008, en kaflinn fjallar um símahlustun og sambærileg úrræði, er áréttað að setja verði rannsóknaraðgerðum lögreglu sem fela í sér takmarkanir á friðhelgi einkalífs þröngar skorður. Í 83. og 84. gr. laganna er meðal annars gerð krafa um að til slíkra aðgerða þurfi úrskurð dómara, rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum sex ára fangelsi og ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þeirra.
47. Við úrlausn þess hvort heimilt hafi verið að leggja Encrochat-gögnin fram í málinu og líta til þeirra við sönnun ræður ekki úrslitum hvort öflun slíkra gagna, með þeim hætti sem gert var í Frakklandi, hefði verið heimiluð af dómstólum hér á landi. Engu að síður þarf að taka til skoðunar hvort gagnanna hafi verið aflað með þeim hætti að þau teljist lögmæt sönnunargögn í sakamáli hér á landi.
48. Enda þótt ákærðu telji ýmislegt óljóst um uppruna, meðferð og áreiðanleika þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu um rafræn samskipti manna um innflutning á saltdreifara, losun efna úr honum til framleiðslu fíkniefna og um þá framleiðslu hefur ekki verið dregið í efa að frumgögnin eiga uppruna sinn í dulkóðaða samskiptakerfinu Encrochat. Þótt ekki liggi fyrir nákvæmar upplýsingar um hvernig staðið var að öflun þeirra liggur þó nægjanlega ljóst fyrir að þeirra var aflað af lögreglu í Frakklandi á árinu 2020 í kjölfar samstarfs evrópskra löggæsluyfirvalda á grundvelli dómsúrskurða í Frakklandi. Komið var fyrir á netþjónum rekstraraðila samskiptakerfisins í Frakklandi búnaði sem afkóðaði rafræn samskipti notenda þess. Gögnin voru síðan afrituð og vistuð í gagnasafni en lögregluyfirvöldum í ýmsum Evrópulöndum síðan afhent gögn sem talin voru geta tengst glæpastarfsemi í viðkomandi landi. Gögnin bárust íslenskum löggæsluyfirvöldum í þrennu lagi í júlí til nóvember 2020 fyrir milligöngu Europol.
49. Ekki liggur fyrir í málinu hvort umræddra heimilda franskra dómstóla var aflað í þágu rannsóknar tiltekins eða tiltekinna refsiverðra verknaða en hins vegar er nægilega upplýst að samskiptakerfið var að stórum hluta notað í samskiptum glæpahópa.
50. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til að gagnanna hafi verið aflað í andstöðu við frönsk lög. Úrskurðir franskra dómstóla sem öflun gagnanna grundvallaðist á sæta heldur ekki endurskoðun íslenskra dómstóla sem leiðir meðal annars af gagnkvæmum þjóðréttarskuldbindingum ríkjanna samkvæmt samningi um gagnkvæma réttaraðstoð í sakamálum frá 29. maí 2000. Fyrirmæli samningsins um beiðnir til að afla sönnunargagna í öðru ríki voru innleidd í ákvæði IV. kafla laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum með síðari breytingum.
51. Við mat á lögmæti gagnanna verður jafnframt að líta til þess að Frakkland er aðili að mannréttindasáttmála Evrópu. Enda þótt þær takmarkanir á friðhelgi einkalífs sem felast í hlustun, öflun samtala og rafrænna merkja í þágu rannsóknar alvarlegra sakamála séu útfærðar með mismunandi hætti í lögum aðildarríkja sáttmálans verður að ganga út frá að við öflun umræddra sönnunargagna á grundvelli úrskurða dómara í Frakklandi hafi verið gætt að því að þær rúmuðust innan þeirra marka sem 2. mgr. 8. gr. sáttmálans setur rannsóknaraðgerðum lögreglu. Þar með má gera ráð fyrir að öflun gagnanna samræmist þeim grunnsjónarmiðum um réttaröryggi sakaðra manna sem gengið er út frá í íslenskum rétti.
52. Þá skiptir máli við mat á því hvort framlagning gagnanna í málinu var heimil að þeirra var ekki aflað að frumkvæði íslenskra löggæsluyfirvalda og því augljóslega ekki ætlunin að komast fram hjá ákvæðum íslenskra laga með rannsóknaraðgerðinni. Jafnframt skiptir máli við það mat að gögnin voru notuð hér á landi við rannsókn og málsmeðferð fyrir dómi vegna stórfellds fíkniefnalagabrots sem samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. skilyrði 2. mgr. 83. gr. laga nr. 88/2008 fyrir símhlustun og öðrum sambærilegum úrræðum.
53. Líta má til þess að sambærileg gögn og hér eru til skoðunar hafa komið til umfjöllunar dómstóla annars staðar á Norðurlöndum. Í dómi Hæstaréttar Noregs 30. júní 2022, í máli nr. 2022-1314-A, var komist að þeirri niðurstöðu að gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu hefði verið aflað með lögmætum hætti á grundvelli fyrrgreindra franskra úrskurða og ekki fallist á kröfu um útilokun þeirra í sakamáli sem rekið var fyrir norskum dómstólum. Í úrskurði Hæstaréttar Danmerkur 11. janúar 2023 í máli nr. 23/2022 var ekki fallist á kröfu um að gögnum sem aflað var á grundvelli sömu frönsku dómsúrskurða yrði hafnað sem sönnunargögnum í sakamáli sem rekið var fyrir dönskum dómstólum.
54. Þegar allt framangreint er virt telst framlagning Encrochat-gagnanna í málinu ekki fela í sér að brotið hafi verið gegn rétti ákærðu til réttlátrar málsmeðferðar sem varinn er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.
6) Um áreiðanleika Encrochat-gagnanna og afstöðu til varna ákærðu þar að lútandi
55. Fyrir liggur að í héraðsdómi og dómi Landsréttar var litið til Encrochat-gagnanna við mat á sönnun um sekt ákærðu. Eins og fyrr greinir hefur því verið haldið fram af hálfu ákærðu að vegna óvissu um meðferð gagnanna, áreiðanleika og nákvæmni hafi ekki verið unnt að byggja sakfellingu á þeim. Eins og áður er rakið hafa ákærðu meðal annars vísað til þess að hér á landi skorti á að settar hafi verið reglur um rannsókn á slíkum gögnum gagnstætt því sem sé raunin í Danmörku.
56. Aðferð við öflun tiltekinna sönnunargagna og meðferð þeirra getur verið til þess fallin að vekja réttmætar efasemdir um áreiðanleika og nákvæmni þeirra. Þótt hér að framan hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Encrochat-gagnanna hafi ekki verið aflað með ólögmætum hætti og framlagning þeirra í málinu heimil þarf engu að síður í ljósi eðlis þeirra og varna ákærðu að skoða hvernig mati á meðferð, áreiðanleika og nákvæmi þeirra var háttað í hinum áfrýjaða dómi. Jafnframt þarf að taka afstöðu til þess hvort brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við vörnum og athugasemdum ákærðu hvað þetta varðar við meðferð málsins og í hinum áfrýjaða dómi.
57. Ríkissaksóknari Danmerkur gaf 28. júní 2023 út fyrirmæli um dulkóðuð samskipti. Í þeim er meðal annars að finna upplýsingar um Encrochat-samskiptakerfið og hvernig lögreglu í Frakklandi og Hollandi ásamt Europol tókst að ráða dulkóðunina í mars 2020, nálgast gögnin og byggja upp gagnagrunn um þau í Hollandi og Frakklandi. Þá er þar fjallað um og gefin fyrirmæli um meðferð slíkra gagna, rannsókn á þeim og notkun við lögreglurannsókn og í dómsmálum. Sérstök grein er gerð fyrir atriðum sem dregið geta úr sönnunargildi gagnanna. Í viðauka með fyrirmælunum fylgdi efnislýsing (d. varedeklaration) fyrir Encrochat-gögnin frá dönsku lögreglunni 30. ágúst 2021. Fyrirmæli ríkissaksóknarans höfðu ekki verið gefin út þegar Hæstiréttur Danmerkur úrskurðaði 11. janúar 2023 að upplýsingar af samskiptanetinu Encrochat sem aflað hefði verið af hálfu erlendra yfirvalda væri unnt að nota sem sönnunargögn í sakamáli. Engum sambærilegum fyrirmælum mun vera til að dreifa hér á landi.
58. Encrochat-gögnin eru hluti af miklu safni sambærilegra gagna sem nýtt hafa verið við rannsókn og saksókn í fjölda Evrópulanda. Við mat á sönnunargildi þeirra verður að hafa í huga að þau hafa eingöngu farið um hendur innlendra og alþjóðlegra löggæslu- og réttarvörslustofnana. Gagnanna var ekki, svo sem fyrr segir, aflað að undirlagi íslenskra löggæsluyfirvalda heldur bárust þau í hendur þeirra fyrir milligöngu Europol og leiddu þannig til rannsóknar á ætluðu fíkniefnalagabroti samkvæmt ákærulið I.1 sem þá var löngu afstaðið. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum sem ekki þykir ástæða til að draga í efa hefur tiltölulega fámennur og afmarkaður hópur lögreglumanna haft aðgang að frumgögnunum eftir að þau voru send hingað til lands fyrir milligöngu Europol.
59. Í málsgögnum er skýrsla lögreglu um bakgrunn Encrochat-gagnanna, virkni og þjónustu síma sem tengdust samskiptakerfinu, afritun gagnanna og notkun þeirra við lögreglurannsóknir í Evrópu. Þá liggur fyrir fjöldi upplýsingaskýrslna lögreglu um notkun gagnanna við rannsókn málsins. Þar kemur meðal annars fram að rannsókn lögreglu var ekki einungis byggð á gögnum sem bárust frá Europol í júlí 2020 heldur var kallað eftir frekari gögnum um samskipti þeirra notenda Encrochat sem rannsóknin beindist að. Bárust viðbótargögn úr Encrochat-samskiptakerfinu 7. október og 27. nóvember 2020 um samskipti sömu notenda. Þá er í einni slíkri skýrslu tekið fram að á tímabilinu sem samskipti notenda Encrochat áttu sér stað hafi þeir verið á mismunandi tímabeltum í heiminum. Því hafi tímasetningar samskiptanna innan dags riðlast að einhverju marki.
60. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi, sem þar er vísað til liggja fyrir ítarlegar upplýsingar í málinu um efni rafrænna samskipta notendanna Nuclearfork, Residentkiller og fleiri. Í þeim er meðal annars fjallað um hvernig ná skuli olíu, sem lögregla telur hafa verið amfetamínbasa, úr saltdreifaranum, hversu mikið af því efni hefði þar verið falið og hversu mikið af amfetamíni mætti framleiða úr því. Þá koma þar fram leiðbeiningar um hvernig skuli framleiða fíkniefni úr amfetamínbasanum svo og um efni og aðföng til framleiðslunnar. Einnig var fjallað um kostnað við innflutninginn, flutning á fjármunum milli landa, skiptingu á íslenskum krónum í evrur og dreifingu tilbúinna fíkniefna á Íslandi. Af gögnunum má greina hlutverk þeirra sem stóðu að baki notendanöfnunum og hvernig leiðbeiningar og upplýsingar voru sendar á milli þeirra. Meðal gagna voru ljósmyndir af saltdreifaranum, amfetamínbasanum og tilbúnum efnum. Af gögnunum verður ráðið hvenær samskiptin fóru fram.
61. Að framangreindu verður ráðið að enda þótt skrifleg fyrirmæli hafi ekki legið fyrir um hvernig umrædd rafræn gögn yrðu rannsökuð og notuð við rannsóknina gætti lögregla að flestum sambærilegum atriðum og mælt er fyrir um í reglum danska ríkissaksóknarans. Þannig var upplýst um uppruna gagnanna, tæknilegt eðli þeirra, gengið úr skugga um hvort frekari samskiptagögnum væri til að dreifa og greint frá mögulegum vafaatriðum í gögnunum.
62. Sem fyrr segir eru viðamiklar upplýsingar um efnislegt innihald Encrochat-gagnanna í þeim skjölum málsins sem hafa verið ákærðu aðgengileg frá því fyrir þingfestingu þess í héraði. Frumrit gagnanna er hins vegar á rafrænu formi. Óumdeilt er að gögnin á því formi voru ekki afhent ákærðu við þingfestingu málsins í héraði.
63. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar hefur lögreglu ekki verið talið skylt á grundvelli 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008 að afhenda sakborningum afrit rafrænna gagna, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 21. september 2009 í máli nr. 495/2009. Hins vegar hefur verið talið skylt að veita sakborningum aðgang að slíkum gögnum á lögreglustöð. Í dómi Hæstaréttar 6. september 2012 í máli nr. 584/2012 var talið leiða af dómi réttarins 1. nóvember 2010 í máli nr. 614/2010, þar sem fjallað var um synjun lögreglu á afhendingu gagna samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, að sama gilti um aðgang verjanda sakaðs manns að upptökum eftir að mál hefði verið höfðað. Samkvæmt því verður að gera ráð fyrir að ákærðu hafi staðið til boða að fá aðgang að rafrænu afriti gagnanna á lögreglustöð við rannsókn málsins og meðferð þess í héraði, hefði verið leitað eftir því.
64. Með ákvörðun Landsréttar 25. maí 2023 var ákæruvaldi gert skylt að afhenda verjendum þeirra ákærðu sem Encrochat-gögnin vörðuðu USB-lykil með afriti þeirra en slíkur lykill með afriti gagnanna hafði verið lagður fram í Landsrétti 10. sama mánaðar.
65. Efnislegt innihald Encrochat-gagnanna er að finna í málsgögnum sem ákærðu hafa haft undir höndum frá upphafi málsmeðferðar í héraði, afrit hinna rafrænu frumgagna var þeim aðgengilegt fyrir þann tíma til skoðunar á lögreglustöð og þeir fengu rafrænt afrit gagnanna í hendur fyrir aðalmeðferð málsins í Landsrétti. Að því virtu og með hliðsjón af málatilbúnaði ákærðu á öllum dómstigum verður ráðið að þeir hafi haft fullnægjandi grundvöll til að halda uppi vörnum um efni, form, áreiðanleika og önnur atriði sem varða gögnin. Vörnum ákærðu var því ekki áfátt að þessu leyti.
66. Í hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi sem vísað er til í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er fjallað um alla helstu þætti í vörnum ákærðu og brugðist við mikilvægustu athugasemdum þeirra. Þetta á meðal annars við um varnir ákærðu sem lutu að meðferð, áreiðanleika og nákvæmni Encrochat-gagnanna.
67. Varnir ákærðu sem lúta að því að gögnin séu óáreiðanleg hafa að miklu leyti verið byggðar á því að þau hafi verið óvarin og einfalt hafi verið að breyta þeim. Fyrir Hæstarétti hafa ákærðu þannig bent á að í skjölum sem lögregla hafi unnið upp úr frumgögnunum hafi íslenskum texta verið breytt verulega. Þeir telja að þar sem mögulegt sé að breyta gögnunum sé fullkomin óvissa um áreiðanleika þeirra og nákvæmni. Af hálfu ákæruvaldsins hefur verið bent á að þessar breytingar feli aðeins í sér að textinn hafi verið færður yfir á íslenskt ritmál í framlögðum upplýsingaskjölum lögreglu og þannig gerður læsilegri. Íslenskir stafir hafi ekki verið notaðir í þeim samskiptum á íslensku sem komi fram í frumgögnunum. Engar efnislegar breytingar hafi hins vegar verið gerðar á efni skilaboðanna.
68. Ákærðu hafa bent á atriði sem þeir telja benda til að átt hafi verið við gögnin eða að þau séu ónákvæm. Þau lúta að því að á tveimur stöðum komi íslenska orðið „og“ fyrir í enskum texta. Um er að ræða textabrotin „I will organize that my guy og to the farm...“ og „It came out 2310g“. Í fyrra tilvikinu virðist augljóslega hafa orðið stafavíxl hjá þeim sem ritaði textann þar sem átt hafi að standa „go“ í stað „og“, fremur en að átt hafi verið við textann síðar. Í síðara tilvikinu virðist augljóst að verið sé að ræða um „2310 g“ en ekki „231 og“. Benda þessi stuttu textabrot ekki til þess að átt hafi verið við gögnin.
69. Af samanburði á efni samskipta notenda Encrochat-samskiptakerfisins í upplýsingaskýrslum lögreglu annars vegar og hins vegar í framlögðu afriti af frumriti rafrænna gagna sem íslenskum stjórnvöldum bárust frá Frakklandi verður ráðið að í skjölum sem lögregla útbjó við rannsóknina hafi samskiptunum verið raðað upp í tímaröð til að fá heildstæða mynd af þeim. Eins hafi íslenskur texti í þeim verið aðlagaður að íslensku ritmáli. Af þessum samanburði verður ekki ráðið að gerðar hafi verið efnislegar breytingar á samskiptunum frá hinum hráa frumtexta.
70. Af hálfu ákærða Guðlaugs Agnars hafa verið gerðar athugasemdir við að í Landsrétti hafi sönnun um að hann hefði verið notandinn Nuclearfork meðal annars verið byggð á skýrslu lögreglu sem hafði að geyma upplýsingar um staðsetningar ákærða og Nuclearfork í Taílandi á grundvelli samanburðar á upplýsingum úr Encrochat-gögnunum og skoðunar á ljósmyndum úr síma ákærða. Ákærði telur ákæruvaldið ekki hafa skýrt hvernig þessi skýrsla samræmist þeim upplýsingum sem fram komi í gögnum málsins um að unnt hafi verið að leyna staðsetningu slíkra símtækja. Í annarri lögregluskýrslu um virkni Encrochat-kerfisins kemur fram að þjónustan hafi verið fáanleg fyrir símtæki þar sem GPS, myndavél og hljóðnemar hafi verið gerð óvirk til að tryggja næði og leynd. Síðar í skýrslunni kemur fram að tæki með Encrochat hafi mátt ræsa í tvenns konar stillingu og hafi önnur verið fyrir dulkóðað viðmót fyrir leynileg samskipti. Með vísan til þessa og þar sem fyrir liggur að haldlögð samskiptagögn frá notandanum Nuclearfork höfðu að geyma staðsetningar á símtækinu verður ekki talið að annmarkar hafi verið á ályktunum Landsréttur um þetta atriði.
71. Þegar allt framangreint er metið verður ekki talið að uppruni Encrochat-gagnanna eða aðferð við öflun þeirra svo og meðferð þeirra af hálfu franskra, alþjóðlegra og innlendra löggæsluyfirvalda og aðstæður að öðru leyti gefi réttmætt tilefni til að draga áreiðanleika þeirra í efa. Er það í samræmi við mat Landsréttar á áreiðanleika gagnanna. Af dómi Landsréttar, þar sem meðal annars var vísað til héraðsdóms að þessu leyti, verður ekki annað ráðið en að brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við athugasemdum ákærðu varðandi uppruna, meðferð, áreiðanleika og nákvæmni gagnanna og mikilvægustu atriðum í vörnum þeirra þar að lútandi svarað með viðeigandi hætti. Engir annmarkar voru þannig á aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi hvað varðar mat á áreiðanleika og nákvæmni þessara gagna og málsmeðferðin að þessu leyti réttlát í skilningi 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans.
7) Um mat Landsréttar á vægi Encrochat-gagnanna við ákvörðun um sakfellingu ákærðu
72. Þeirri spurningu er þá ósvarað hvort þeir ágallar hafi verið á sönnunarmati Landsréttar að Encrochat-gögnunum hafi verið gefið of mikið vægi við ákvörðun um sakfellingu ákærðu og með því hafi verið brotið gegn rétti þeirra til réttlátrar málsmeðferðar með þeim afleiðingum að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm.
73. Í hinu frjálsa sönnunarmati dómara felst að lagt er mat á sönnunargildi hvers sönnunargagns fyrir sig og þeirra allra í heild og komist að niðurstöðu um hvort fram sé komin sönnun um sekt ákærða sem hafin sé yfir skynsamlegan vafa.
74. Eins og ráða má af hinum áfrýjaða dómi og héraðsdómi felst þungamiðja sönnunarmats í þessu máli í því hvort sönnun sé fram komin um að ákærðu hafi notað Encrochat-samskiptakerfið undir nöfnunum Nuclearfork og Residentkiller. Sönnunarmat Landsréttar um það atriði er aðeins að hluta til reist á framlögðum gögnum úr því kerfi en einnig á fjölmörgum öðrum sönnunargögnum sem tengja ákærðu við þessa notendur svo sem rafrænum gögnum sem aflað var úr farsímum og tölvum ákærðu og annarra.
75. Að fenginni niðurstöðu um að fram væri komin sönnun um að ákærðu hefðu verið umræddir notendur var heildarmat Landsréttar á sönnun á þeirri háttsemi sem þeir voru sakfelldir fyrir samkvæmt ákærulið I.1 ekki aðeins reist á hinum umfangsmiklu gögnum úr Encrochat-samskiptakerfinu heldur jafnframt á ýmsum öðrum sönnunargögnum sem talin voru veita fyrrnefndu gögnunum mikinn stuðning. Þar er um að ræða ljósmyndir, gögn úr símtækjum ákærðu, rannsókn á staðsetningu símtækja, rannsókn á sýnishornum af efnum sem fundust í saltdreifaranum og öðrum munum sem fundust við húsleitir. Þá tekur heildarmatið jafnframt mið af munnlegum framburði. Samkvæmt því verður ekki fallist á þær varnir ákærðu að sakfelling þeirra hafi eingöngu verið reist á Encrochat-gögnunum eða að þeim hafi verið gefið of mikið vægi við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi.
76. Samkvæmt öllu framangreindu og þegar meðferð málsins er virt heildstætt braut framlagning Encrochat-gagnanna, notkun þeirra við mat á sönnun fyrir sekt ákærðu, aðferð Landsréttar við mat á sönnunargildi þeirra svo og það vægi sem þeim var gefið við heildarmat á því hvort sök ákærðu teldist sönnuð, ekki í bága við rétt þeirra til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi sem verndaður er af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
8) Um heimild til notkunar Encrochat-gagnanna í íslenskri refsilögsögu
77. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir varnir sínar á því að heimild sú sem frönsk yfirvöld veittu til notkunar á Encrochat-gögnunum hafi aðeins tekið til ætlaðrar refsiverðrar háttsemi í íslenskri refsilögsögu. Refsilögsaga íslenska ríkisins í málinu nái ekki til hans, sbr. 4., 5. og 6. gr. almennra hegningarlaga, þar sem hann hafi búið í Taílandi þegar þau brot sem honum eru gefin að sök hafi verið framin. Hann hafi ekki getað komið að þeim brotum sem ákæruvaldið telji að hafi verið framin á Íslandi eftir að saltdreifarinn var kominn að [...]. Þá þurfi brot að vera saknæmt samkvæmt refsilöggjöf í Taílandi en ekkert liggi fyrir um það í málinu. Ákærði telur að ekkert hafi verið fjallað um þessar varnir fyrir Landsrétti.
78. Í 7. gr. almennra hegningarlaga er kveðið á um að sé refsing að einhverju leyti bundin að lögum við afleiðingar verknaðar skuli litið svo á að verkið sé einnig unnið þar sem þessar afleiðingar gerast eða er ætlað að koma fram. Í máli þessu er ákærðu ásamt einum meðákærða gefið að sök í ákærulið I.1 að hafa staðið saman að innflutningi verulegs magns fíkniefna til Íslands í félagi við þrjá ónafngreinda menn. Brotinu er lýst með þeim hætti að um verkskipta aðild hafi verið að ræða. Háttsemi þeirra ber að virða sem eina heild en í skilningi 173. gr. a almennra hegningarlaga var brotið fullframið þegar efnin voru flutt inn í landhelgi Íslands. Háttsemi ákærða Guðlaugs Agnars verður ekki skilin frá þætti annarra ákærðu í málinu. Af þeim sökum var hún liður í verknaði sem ætlað var að hafa afleiðingar hér á landi og nær því íslensk refsilögsaga til háttsemi hans samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði, sbr. einnig 1. tölulið 4. gr. sömu laga. Um þetta má vísa til dóma Hæstaréttar 3. desember 2009 í máli nr. 509/2009 og 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014.
79. Engum vafa er undirorpið að heimild sú sem frönsk yfirvöld veittu íslenskum löggæsluyfirvöldum 1. júní 2021, samkvæmt því sem rakið var í lið 9 að framan, til að nota Encrochat-gögnin við rannsókn sakamála og meðferð þeirra fyrir dómi náði til þessa máls. Um þessar varnir ákærða var fjallað og tekin afstaða til þeirra í dómi héraðsdóms sem staðfestur var í Landsrétti um sakfellingu hans, meðal annars með vísan til forsendna.
80. Samkvæmt öllu framangreindu eru engin efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.
Um efnishlið málsins
1) Um sönnun á háttsemi sem ákærðu er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 og huglæga afstöðu þeirra
81. Eins og að framan greinir eru heimildum Hæstaréttar til efnislegrar endurskoðunar á áfrýjuðum dómi í sakamáli takmörk sett að því leyti sem niðurstöður hans eru byggðar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á þetta einkum við um endurskoðun á niðurstöðu áfrýjaðs dóms um sönnun fyrir sekt ákærða, hvort heldur sönnun um hlutræna þætti verknaðar eða huglæga afstöðu til hans.
82. Samkvæmt því sem áður greinir eru ekki ágallar á aðferð Landsréttar við mat á sönnun um háttsemi ákærðu og huglæga afstöðu þeirra til brota. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu ákærðu af sakarefnum samkvæmt ákærulið I.1 byggðist á rökstuddu heildarmati á sönnunargildi munnlegs framburðar og fjölmargra rafrænna, skjallegra og tæknilegra sönnunargagna, þar með talið gagna úr Encrochat-samskiptakerfinu, og hvernig þessi sönnunargögn samrýmdust innbyrðis. Með vísan til alls framangreinds, meginreglu sakamálaréttarfars um milliliðalausa sönnunarfærslu, svo og c-liðar 1. mgr. og 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, verður ekki hróflað við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu samkvæmt þessum ákærulið.
83. Í hinum áfrýjaða dómi er talið sannað að magn amfetamínvökva sem flutt hafi verið til landsins í saltdreifara hafi verið 53 lítrar eins og byggt var á í ákæru. Í ákæru kom fram að framleidd hefðu verið úr honum allt að 117,5 kg af amfetamíni í sölu- og dreifingarskyni. Dómkvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að styrkleiki amfetamínvökvans hefði verið 57% og samkvæmt því hefði verið unnt að framleiða 189 til 324 kg af amfetamíni úr umræddum 53 lítrum miðað við 14% neyslustyrkleika. Þrátt fyrir þá niðurstöðu lagði Landsréttur til grundvallar að framleidd hefðu verið að minnsta kosti 80,2 kg af amfetamíni úr vökvanum. Þegar litið er til þess að umræddur amfetamínbasi var ekki haldlagður og útreikningar á magni sem framleiða mátti úr honum voru háðir ýmsum óvissuþáttum þykir mega fallast á með Landsrétti að ákærðu eigi að njóta vafans að þessu leyti.
2) Um heimfærslu háttsemi samkvæmt ákærulið I.1 til refsiákvæða
84. Ákærði Guðlaugur Agnar byggir á því að teljist sú háttsemi sem honum er gefin að sök sönnuð geti hún aðeins talist hlutdeildarbrot.
85. Þess er að gæta að löng dómaframkvæmd liggur fyrir um að afmarkaður þáttur manns í skipulagningu og framkvæmd fíkniefnalagabrots sem fleiri en einn tekur þátt í og felst í því að útvega fíkniefni erlendis í því skyni að selja hér á landi, búa til flutnings, flytja til landsins, taka á móti þeim, afhenda til dreifingar, varðveita efnin, dreifa þeim og selja, telst verkskipt aðild að fíkniefnalagabrotinu í heild. Með vísan til þess sem Landsréttur taldi sannað um háttsemi ákærðu og huglæga afstöðu þeirra áttu ákærðu allir verkskipta aðild að fíkniefnalagabroti samkvæmt lið I.1 í ákæru. Verður því fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að um samverknað þeirra allra hafi verið að ræða. Þáttur ákærða Guðlaugs Agnars í brotinu telst því ekki hlutdeild, samkvæmt 22. gr. almennra hegningarlaga, í broti annarra ákærðu gegn 173. gr. a sömu laga.
86. Samkvæmt framansögðu verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærðu hafi gerst sekir um stórfellt fíkniefnalagabrot sem þeim er gefið að sök í ákærulið I.1 og heimfærslu þess til 173. gr. a almennra hegningarlaga.
87. Ákærðu mótmæla því báðir að háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákærulið I.1 teljist hafa verið þátttaka í starfsemi skipulagðra brotasamtaka og verði hún því ekki heimfærð til 175. gr. a almennra hegningarlaga. Ákæruvaldið krefst hins vegar staðfestingar á þeirri niðurstöðu Landsréttar að heimfæra háttsemi þeirra til þess ákvæðis.
88. Eins og gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi kom 175. gr. a inn í almenn hegningarlög með 5. gr. laga nr. 149/2009. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að þeim lögum kom fram að með því væri með heildstæðum hætti leitast við að endurskoða gildandi ákvæði laganna um skipulagða brotastarfsemi til að unnt væri að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi (Palermósamninginn) frá 15. nóvember 2000. Samningurinn var fullgiltur hér á landi 13. maí 2010 og tók gildi gagnvart Íslandi 12. júní sama ár. Í athugasemdunum segir jafnframt að með samningnum sé tekið skref fram á við í baráttunni gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri brotastarfsemi. Með alþjóðavæðingu, framförum í upplýsingatækni, stórauknum alþjóðaviðskiptum, auðveldari samgöngum og breyttri landamæravörslu hafi starfsumhverfi skipulagðra brotasamtaka gjörbreyst. Í athugasemdum við 5. gr. kemur fram að um skilgreiningu á hugtakinu skipulögð brotasamtök í 2. mgr. 5. gr. sé meðal annars byggt á skilgreiningu a-liðar 2. gr. samningsins. Þar segir að „skipulögð glæpasamtök“ merki samhæfð samtök þriggja eða fleiri manna sem fyrirfinnast á ákveðnu tímabili og starfa í þeim tilgangi að fremja einn eða fleiri alvarlega glæpi eða brot, sem gerð eru refsiverð samkvæmt samningnum í því skyni að hagnast fjárhagslega eða efnislega með öðrum hætti á beinan eða óbeinan hátt. Hugtakið „samhæfð samtök“, í a-lið 2. gr., merkir samkvæmt c-lið sömu greinar samtök sem eru ekki mynduð með tilviljunarkenndum hætti til að fremja brot þegar í stað. Hins vegar þarf hlutverkaskipting meðlima slíkra samtaka ekki að vera formlega ákveðin eða þátttaka í þeim varanleg eða uppbygging þeirra fastmótuð.
89. Undirbúningur og framkvæmd fíkniefnalagabrots sem ákærðu er gefið að sök samkvæmt ákærulið I.1 og Landsréttur taldi sannað að þeir hefðu tekið þátt í fór fram á löngu tímabili í mörgum löndum með aðkomu manna af ýmsu þjóðerni og var þannig liður í alþjóðlegri brotastarfsemi. Brotið var vandlega skipulagt meðal annars með aðstoð flókinnar alþjóðlegrar upplýsingatækni. Þótt ekki verði fullyrt að uppbygging og hlutverkaskipting þeirra samtaka manna sem stóðu að brotinu hafi verið fastmótuð liggur fyrir að þátttakan var ekki með tilviljunarkenndum hætti heldur var um þaulskipulagða verkaskiptingu að ræða þar sem þeir sammæltust um framkvæmd brotsins. Hverjum og einum sem annaðist einstaka þætti þess var ljóst að fleiri ættu hlut að máli. Sú háttsemi ákærðu sem Landsréttur taldi sannaða hafði þannig öll einkenni þess að vera liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka eins og þeim er lýst í 175. gr. a almennra hegningarlaga og Palermósamningnum.
90. Með vísan til framangreinds og forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti ber að staðfesta þá niðurstöðu hans að með þátttöku ákærðu í fíkniefnalagabroti því sem þeim er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.1 hafi þeir sammælst um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti fjögurra ára fangelsi og að framkvæmd hans hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Þeir hafa því gerst sekir um brot gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga. Með vísan til þess tilgangs og þeirra sérstöku refsivörslusjónarmiða sem búa að baki ákvæðinu telst hvorugt þeirra brota sem ákærðu eru sakfelldir fyrir samkvæmt þessum ákærulið tæma sök gagnvart hinu.
3) Ákæruliðir I.2 og III
91. Í ákærulið I.2 er ákærða Halldóri Margeiri sem fyrr segir gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot sem lýst er nánar í ákæru og í ákærulið III gefnar að sök vörslur fíkniefna sem þar er nánar lýst. Ákærði hefur játað brotin og unir niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu og heimfærslu þeirra til refsiákvæða. Kemur sakfelling hans ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.
4) Um ákvörðun refsingar, upptöku og sakarkostnað
92. Við ákvörðun refsingar beggja ákærðu verður litið til 77. gr. almennra hegningarlaga um brotasamsteypu. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verða ákvæði hans um refsingu ákærðu staðfest. Gæsluvarðhaldsvist ákærðu skal koma til frádráttar refsingu hvors þeirra um sig að fullri dagatölu eins og nánar greinir í dómsorði, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.
93. Ákærði Halldór Margeir krefst þess að synjað verði um upptöku á raftækjum hans sem gerð er krafa um í ákæru og byggir þá kröfu á sömu rökum og kröfu um sýknu af ákærulið I.1. Ákærði Guðlaugur Agnar krefst þess einnig að synjað verði um upptöku muna í hans eigu. Hann telur að Landsréttur hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að í kröfu hans um sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins hafi ekki falist krafa um endurskoðun á niðurstöðu héraðsdóms um upptöku. Því hafi rétturinn ranglega talið að sú krafa hans í greinargerð væri of seint fram komin. Fyrir liggur að ákærði setti ekki fram eiginlega kröfugerð í tilkynningu sinni um áfrýjun á héraðsdómi og var hún þannig ekki í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í 2. mgr. 199. gr. laga nr. 88/2008. Hins vegar kom hann á framfæri við ríkissaksóknara eftir lok áfrýjunarfrests kröfu um sýknu af öllum kröfum ákæruvalds samkvæmt ákæru og kom slík krafa fram í áfrýjunarstefnu til Landsréttar. Fyrir Landsrétti hafði ákærði Guðlaugur Agnar einungis uppi efnislegar varnir gegn upptöku á Rolex-úri og taldi að upptökuheimild 1. mgr. 69. gr. b almennra hegningarlaga yrði að skýra þröngt þannig að ekki væri heimilt að gera upptæka sérhverja persónulega muni sem dómfelldi ætti. Landsréttur féllst á upptökukröfur ákæruvaldsins án frekari umfjöllunar um varnir ákærða. Ákærði hefur hins vegar ekki fært fram efnislegan rökstuðning gegn upptökukröfunum fyrir Hæstarétti.
94. Af ákæruvaldsins hálfu eru ekki gerðar athugasemdir við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um upptöku. Þar sem niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærðu hefur verið staðfest og upptökukröfur sem fallist var á í dóminum voru réttilega heimfærðar til lagaákvæða í ákæru verða ákvæði dómsins um upptöku staðfest.
95. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti verða staðfest. Ákærðu verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess að Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður var skipaður verjandi ákærða Halldórs Margeirs fyrir Hæstarétti frá 12. til 20. september 2023 en var þá leystur frá verjandastörfum. Arnar Þór Stefánsson lögmaður var þá skipaður verjandi ákærða Halldórs Margeirs. Litið er til þess við ákvörðun málsvarnarlauna fyrir Hæstarétti að hann annaðist ekki varnir ákærða í héraði eða fyrir Landsrétti. Þá er tekið tillit til þess við ákvörðun málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða Guðlaugs Agnars að hann gegndi jafnframt verjendastörfum fyrir ákærða í héraði og fyrir Landsrétti
Dómsorð:
Dómur Landsréttar skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Guðlaugs Agnars Guðmundssonar, dregst gæsluvarðhald sem hann sætti frá 20. maí til 5. júlí 2022 og frá 20. október 2022 til uppkvaðningar dóms þessa og að frá refsingu ákærða, Halldórs Margeirs Ólafssonar, dregst gæsluvarðhald sem hann sætti, frá 20. maí 2022 til uppkvaðningar dóms þessa.
Ákærði Guðlaugur Agnar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns, 3.546.400 krónur.
Ákærði Halldór Margeir greiði málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 322.400 krónur og Arnars Þórs Stefánssonar lögmanns, 4.191.200 krónur.
Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, 577.345 krónur.