Hæstiréttur íslands

Mál nr. 41/2024

A (Stefán Geir Þórisson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Umferðarslys
  • Ökutæki
  • Viðurkenningarkrafa
  • Vátrygging
  • Ábyrgðartrygging
  • Orsakatengsl
  • Sennileg afleiðing
  • Sönnun
  • Gjafsókn

Reifun

A varð fyrir líkamstjóni eftir að hann féll af reiðhjóli þegar hann mætti bifreið sem var ábyrgðartryggð hjá S hf. Deilt var um hvort tjónið hefði hlotist af notkun bifreiðarinnar þannig að það væri bótaskylt úr ábyrgðartryggingu hennar. Ekki var á það fallist að aðstæður hefðu verið með þeim hætti að A hefði verið að afstýra árekstri eða annarri yfirvofandi hættu af völdum bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hann féll af hjólinu. Taldist fallið því ekki sennileg afleiðing af hættueiginleikum bifreiðarinnar eða notkunar hennar sem ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar. Á hinn bóginn lagði Hæstiréttur til grundvallar að líkamstjón A hefði komið til þegar hann rann eftir veginum og lenti á bifreiðinni sem var á hreyfingu. Af þessum ástæðum var litið svo á að tjón hans hefði hlotist af hættueiginleikum bifreiðarinnar og þar með notkun ökutækis. Var bótaskylda S hf. gagnvart A því viðurkennd.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2024. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] hjá stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi […] 2020. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

4. Dómendur gengu á vettvang 11. febrúar 2025.

Ágreiningsefni

5. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort tjón vegna slyss sem áfrýjandi varð fyrir á reiðhjóli hafi hlotist af notkun ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar og sé bótaskylt úr ábyrgðartryggingu bifreiðar sem tryggð var hjá stefnda.

6. Með héraðsdómi 13. apríl 2023 var viðurkennd bótaskylda úr ábyrgðartryggingunni. Með hinum áfrýjaða dómi 24. maí 2024 var stefndi hins vegar sýknaður af kröfu áfrýjanda þar sem talið var ósannað að fall hans af hjólinu hefði orsakast af notkun ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019. Þá var ekki heldur talið að líkamstjón það sem hann varð fyrir vegna snertingar við bifreiðina eftir að hann rann eftir veginum og utan í hana hefði hlotist af notkun hennar.

7. Áfrýjunarleyfi var veitt 28. ágúst 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-78, á þeim grunni að úrslit málsins gætu haft verulegt almennt gildi um túlkun 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019.

Málsatvik

8. Áfrýjandi var […] 2020 að hjóla eftir Elliðavatnsvegi, sem er tvíbreiður með bundnu slitlagi, í átt að Vífilsstöðum við Maríuhella í Heiðmörk. Féll hann þar af hjólinu með þeim afleiðingum að hann hlaut tilfært brot á upphandleggsbeini hægri handar og áverka á sveifartaug. Bifreiðinni […], sem er ábyrgðartryggð hjá stefnda, var ekið í gagnstæða átt eftir veginum. Aðila greinir á um hvort fall áfrýjanda megi rekja til notkunar bifreiðarinnar í umrætt sinn. Gegn mótmælum stefnda byggir áfrýjandi einnig á því að hann hafi rekist utan í bifreiðina þar sem hann rann eftir veginum eftir fallið og við það hlotið líkamstjónið.

9. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom á vettvang slyssins. Samkvæmt lögregluskýrslu […] 2020 skýrði áfrýjandi svo frá að hann hefði verið að hjóla eftir veginum þegar hann fór í holu og missti reiðhjólið undan sér. Hann hefði þá runnið yfir veginn og farið utan í fyrrgreinda bifreið áður en hann hafnaði utan vegar. Í þeirri sömu skýrslu kemur fram sameiginleg endursögn framburða B sem ók bifreiðinni, og C, farþega hennar. Segir þar að þær hafi verið að koma úr gagnstæðri átt þegar áfrýjandi hefði komið hjólandi fyrir hornið og runnið til í rigningunni. Einnig var haft eftir þeim að hann hefði runnið þvert yfir veginn og farið aftur fyrir bifreiðina. Töldu þær reiðhjól áfrýjanda hafa farið í vinstra afturdekk hennar. Í skýrslunni er akstursskilyrðum meðal annars lýst þannig að slysið hafi gerst í dagsbirtu en rigning hafi verið og bleyta.

10. Eftir atvikið var áfrýjandi fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala í Fossvogi og eru tildrög atviksins rakin í nokkrum færslum í sjúkraskrá. Í bráðamóttökuskrá […] 2020 kemur fram að hann hafi verið á hjóli, líklega á um 25 km hraða í beygju, þegar hann datt og skautaði á malbikinu. Á meðferðarseðli sem ber með sér að hafa verið ritaður sama dag segir að áfrýjandi hafi hjólað á um 25 km hraða á klukkustund niður brekku. Hann hafi verið að beygja frá bifreið og dottið af hjólinu í kjölfarið. Í innlagnarskrá sem einnig var rituð sama dag segir að áfrýjandi hafi dottið af hjóli við Kaldársselsveg í Hafnarfirði. Í nótu sjúkraþjálfara, sem skráð var í sjúkraskrá hans tveimur dögum síðar, segir að áfrýjandi sé að bíða eftir aðgerð vegna brots sem hann hafi hlotið í reiðhjólaslysi er hann lenti á mikilli ferð í árekstri við bíl. Í læknabréfi […] það ár kemur fram um tildrög slyssins að áfrýjandi hafi fallið af hjóli á talsverðri ferð og lent á bifreið með hægri hlið sinni.

11. Lögmaður áfrýjanda sendi stefnda kröfubréf vegna atviksins 4. nóvember 2020. Stefndi hafnaði bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu ökutækisins með bréfi næsta dag með vísan til þess að ekki væri að sjá af lögregluskýrslu að áfrýjandi hefði orðið fyrir eða snert bifreiðina. Með tölvubréfi 28. janúar 2021 óskaði lögmaður áfrýjanda eftir að stefndi tæki fyrri ákvörðun sína til endurskoðunar en með bréfi 6. maí það ár hafnaði stefndi bótaskyldu að nýju.

12. Við aðalmeðferð málsins í héraði gáfu meðal annars skýrslu fyrrnefndur ökumaður bifreiðarinnar, farþegi og áfrýjandi. Ökumaðurinn bar að hún hefði nýlega verið komin út á „Flóttamannaveginn“ og verið á lítilli ferð þegar hún mætti nokkrum hjólreiðamönnum sem voru að hjóla samsíða. Örstuttu síðar hefði hún séð áfrýjanda koma „skautandi“ að sér. Hún hefði þá reynt að sveigja út á aðrein en fundið eitthvað smella á bifreiðinni. Hún kvaðst ekki geta sagt til um hvort það hefði verið hjól, bíll eða manneskja. Hún greindi frá því að eftir atvikið hefði verið örlítil sprunga í einum hjólkoppi bifreiðarinnar.

13. Farþegi ökumannsins bar fyrir héraðsdómi að það hefði verið búið að rigna mjög mikið þegar slysið varð og vegurinn því blautur. Þær hefðu verið nýbúnar að mæta hópi hjólreiðamanna sem hefðu að hennar mati hjólað glannalega miðað við hvað vegurinn var mjór. Þær hefðu keyrt aðeins lengra og þá hefði komið maður sem var á hjóli „á hliðinni“ og greinilega búinn að detta. Þær hefðu þá þegar reynt að forðast hann og ekið bifreiðinni út af veginum. Þær hefðu heyrt einhvern „smá dynk“ og ekki vitað hvort það var hjólið eða maðurinn. Bifreiðin hefði verið á „eiginlega engum hraða“ þegar dynkurinn hefði heyrst. Þær hefðu fært hjólið en ekki tekið eftir því hvort það var beyglað.

14. Í skýrslu sinni í héraði greindi áfrýjandi frá því að hann hefði verið að hjóla með félögum sínum umræddan dag. Hann hefði svo ákveðið að hætta að fylgja þeim vegna þess hve hratt þeir fóru. Hann hefði hjólað Elliðavatnsveg til norðausturs frá Hafnarfirði en sá vegarkafli mun einnig ganga undir heitinu „Flóttamannaleiðin“. Í grennd við gatnamót við þann veg sem liggur upp í Heiðmörk og að Maríuhellum hefði hann komið að blindri hægri beygju. Þegar hann hjólaði inn í beygjuna, niður í móti, hefði hann séð bifreið koma á móti sér. Vegurinn hefði verið mjór og því lítið rými til að mætast. Hann hefði því séð að hann gæti ekki haldið þeirri „aksturslínu“ sem hann ætlaði sér að taka í gegnum beygjuna og breytt um stefnu til að afstýra því að lenda á bifreiðinni. Þar sem þetta hefði verið hægri beygja hefði hann þurft að taka krappari beygju en ella til að komast fram hjá bifreiðinni. Hann hefði því hallað sér inn í beygjuna til að ná henni en hallinn orðið of mikill með þeim afleiðingum að afturhjólið hefði runnið til hliðar undan honum. Hann hefði þá lent á jörðinni, snúist hefði upp á hann, orðið hefðu „allt að því endaskipti á hjólinu“ og hann lent utan í bifreiðinni. Hann hefði handleggsbrotnað við höggið sem kom vegna árekstursins við bifreiðina og heyrt brothljóð frá handleggnum þegar hann skall á henni. Þá gat hann þess að það hallaði að beygjunni og hún væri nokkuð kröpp. Enn fremur kom fram að á þessum tíma hefði vegurinn verið mjög slitinn í köntunum og skörð inn í hann út frá hliðum.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

15. Áfrýjandi byggir á því að hann hafi verið hjólandi á reiðhjóli og slasast er hann lenti á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Því sé um að ræða árekstur við ökutæki sem var á ferð og því ljóslega í notkun. Ökutækið hafi verið tryggt ábyrgðartryggingu hjá stefnda og beri hann bótaábyrgð á líkamstjóninu. Þá séu orsakatengsl á milli líkamstjóns hans og árekstursins.

16. Áfrýjandi áréttar að þótt ekki verði talið sannað að hann hafi beygt frá bifreiðinni liggi fyrir að hann hafi lent á henni og slasast. Það eitt og sér nægi til þess að um sé að ræða tjón sem hlotist hafi af notkun ökutækis í skilningi laga nr. 30/2019.

Helstu málsástæður stefnda

17. Stefndi byggir á að skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 séu ekki uppfyllt þar sem áfrýjandi hafi ekki sýnt fram á orsakasamband milli notkunar bifreiðarinnar og tjónsins. Raunveruleg orsök slyssins hafi verið sú að áfrýjandi missti stjórn á reiðhjólinu vegna aðstæðna sem ekki hafi verið í nokkrum tengslum við notkun ökutækis.

18. Stefndi telur hafið yfir vafa að slysið hafi ekki orðið vegna notkunar ökutækis heldur af öðrum ótengdum orsökum. Ef áfrýjandi hafi lent á bifreiðinni hafi það verið fyrir tilviljun. Megi jafna þessu við að áfrýjandi hafi lent á kyrrstæðri bifreið eins og lagt hafi verið til grundvallar í hinum áfrýjaða dómi. Slysið verði því ekki rakið til neinna hættueiginleika bifreiðarinnar sem ökutækis.

19. Stefndi mótmælir jafnframt málsatvikalýsingu áfrýjanda. Hann hafi verið að hjóla þegar hann féll í hægri beygju og rann eftir veginum. Af lögregluskýrslu verði ráðið að hann hafi hjólað í holu, misst reiðhjólið undan sér og svo farið utan í bifreiðina. Stefndi telur ósannað að hreyfing bifreiðarinnar hafi verið meðvirkandi ástæða falls áfrýjanda og leggja verði til grundvallar framburð hans hjá lögreglu og vætti þeirra sem voru í bifreiðinni.

20. Stefndi andmælir því að áfrýjandi hafi breytt akstursstefnu þegar hann sá bifreiðina eða verið að leitast við að varna árekstri. Hvorki sé hægt að leggja síðari tíma skýringar hans til grundvallar né skráningu hjúkrunarfræðings á slysdegi en sú síðarnefnda hafi ekki gefið skýrslu fyrir dómi.

21. Stefndi vísar einnig til þess að ekkert liggi fyrir sem gefi til kynna að meiðsli hafi hlotist af því að lenda utan í bifreið umfram það að falla af hjóli og renna eða velta utan vegar.

22. Stefndi byggir að lokum á því að fella eigi bótarétt áfrýjanda niður eða viðurkenna aðeins að hluta með vísan til 4. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019. Áfrýjandi hafi verið vanur hjólreiðamaður sem sýnt hafi af sér stórkostlegt gáleysi þar sem hann hafi verið á „racer-hjóli“ í erfiðum aðstæðum vegna ástands vegar og bleytu.

Niðurstaða

23. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 skal eigandi eða umráðamaður ökutækis bæta tjón sem hlýst af notkun þess þótt það verði ekki rakið til bilunar eða galla á því eða ógætni ökumanns. Stefndi er ábyrgðartryggjandi bifreiðarinnar […] í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 8. gr. laganna og ber á þeim grunni að bæta það tjón sem hlotist hefur af notkun hennar. Ber því að fallast á kröfu áfrýjanda ef nægilega liggur fyrir að líkamstjón hans vegna slyssins […] 2020 hafi hlotist af notkun bifreiðarinnar enda teljist hann ekki hafa verið meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi, sbr. 4. mgr. fyrrnefndrar greinar.

24. Til þess er fyrst að líta að fyrir liggur löng dómaframkvæmd Hæstaréttar um efnislega sambærilegt skilyrði og nú kemur fram í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019. Af þeirri framkvæmd, svo og forsögu ákvæðisins, verður ráðið að það taki ekki til hvers kyns notkunar ökutækis heldur þeirrar aðstöðu að sérstaða og hættueiginleikar þess, einkum hraði, þyngd og vélarafl, hafi orsakað tjón. Í samræmi við þetta hefur verið gengið út frá því að um notkun ökutækis í þessum skilningi sé jafnan að ræða þegar það er á hreyfingu fyrir eigin vélarafli, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 20. nóvember 2018 í máli nr. 439/2017. Fer þá ekki á milli mála að tjón getur hlotist af slíkri notkun þótt engin snerting verði á milli tjónþola eða annars andlags tjóns og ökutækis, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. nóvember 2001 í máli nr. 181/2001.

25. Hvað sem þessu líður verður einnig ráðið af dómaframkvæmd að ekki sé nægilegt að notkun ökutækis hafi verið einhver þáttur í þeirri atburðarás sem leiddi til tjóns ef notkunin skipti litlu eða engu máli fyrir tjónsatburð, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 6. nóvember 1959 í máli nr. 141/1958 sem birtur er á bls. 671 í dómasafni réttarins það ár. Skylt því er þegar tjón er talið svo fjarlæg og óvenjuleg afleiðing af notkun ökutækis að tjónsatburður getur ekki talist sennileg afleiðing hennar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 22. október 2015 í máli nr. 166/2015.

26. Í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar er það tjónþola að sýna fram á að tiltekin notkun ökutækis, og þar með hættueiginleikar þess, hafi staðið í nægilega nánu sambandi við tjónsatburð. Í því sambandi athugast að dómaframkvæmd og forsaga 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 ber með sér að almennt megi búast við að dýr geti fælst vegna nálægrar notkunar ökutækis, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. mars 1947 í máli nr. 15/1947 sem birtur er á bls. 168 í dómasafni réttarins það ár. Önnur sjónarmið eiga hins vegar við um hvers megi vænta af mönnum sem mæta eða komast í námunda við ökutæki í notkun, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 181/2001.

27. Í málinu liggur fyrir að bifreiðinni […] var ekið suður Elliðavatnsveg þegar áfrýjandi, sem var vel kunnugur leiðinni, féll af reiðhjóli sínu. Hvað sem líður ágreiningi aðila um nánari tildrög þessa liggur fyrir að um er að ræða tvíbreiðan veg og er ekkert annað komið fram en að bifreiðinni hafi verið ekið á réttum vegarhelmingi á eðlilegum hraða miðað við aðstæður. Af atvikum málsins og skoðun vettvangs verður ráðið að nokkur fjarlægð hafi verið á milli áfrýjanda og bifreiðarinnar þegar hann féll af hjólinu. Jafnvel þótt fallist væri á þá frásögn áfrýjanda að hann hafi breytt akstursstefnu sinni við það að sjá bifreiðina getur það eitt og óstutt ekki helgað þá niðurstöðu að raunveruleg hætta hafi á því tímamarki stafað af bifreiðinni eða líta beri svo á að nægileg orsakatengsl liggi fyrir milli hættueiginleika hennar og falls hans af hjólinu.

28. Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi ber gögnum málsins ekki saman um hvort áfrýjandi féll við það að hann hjólaði ofan í holu eða hvort hjólið rann undan honum þegar hann breytti um akstursstefnu. Hins vegar ber gögnum saman um að aðstæður til hjólreiða hafi verið slæmar þegar slysið varð, rigning og yfirborð vegarins blautt. Þótt vegurinn væri með bundnu slitlagi hefur áfrýjandi sjálfur lýst honum svo fyrir héraðsdómi að hann hafi verið mjög slitinn í köntum með skörðum. Þá bera gögn málsins með sér að áfrýjandi hafi verið á svonefndu „racer-hjóli“ en alkunna er að slík hjól eru hönnuð fyrir meiri hraða en almenn reiðhjól og með fíngerðari dekkjum.

29. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi gat áfrýjandi ekki sagt til um hraða sinn með vissu en vísaði til þess að hjólreiðamennirnir sem hefðu verið á undan honum hefðu hjólað þessa beygju á um það bil 40 km hraða á klukkustund. Á meðferðarseðli […] 2020, sama dag og slysið varð, er skráð að áfrýjandi hafi verið að hjóla á 25 km hraða á klukkustund. Í öðrum gögnum málsins, svo sem læknabréfi […] það ár, er látið við það sitja að segja að áfrýjandi hafi verið á „talsverðri ferð“.

30. Að öllu virtu, þar á meðal lýsingu áfrýjanda sjálfs á tildrögum slyssins, er ekki hægt að fallast á að aðstæður hafi verið með þeim hætti að hann hafi í umrætt sinn verið að afstýra árekstri eða annarri yfirvofandi hættu af völdum bifreiðarinnar […] með þeim afleiðingum að hann féll af hjólinu. Verður því að leggja til grundvallar að meginorsök þess að áfrýjandi féll af því hafi verið hraði hans, staðsetning á vegi og slæmar aðstæður til hjólreiða af því tagi sem hann stundaði í umrætt sinn. Í þessu ljósi getur fall hans af hjólinu ekki talist sennileg afleiðing af hættueiginleikum fyrrgreindrar bifreiðar eða notkunar hennar sem ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019.

31. Að þessari niðurstöðu fenginni kemur til úrlausnar sú málsástæða áfrýjanda að eftir fallið af reiðhjólinu hafi hann runnið eða kastast eftir veginum og rekist utan í bifreiðina áður en hann stöðvaðist í vegkanti. Byggir áfrýjandi á því að einnig af þessari ástæðu hafi líkamstjón hans hlotist af notkun bifreiðarinnar.

32. Í hinum áfrýjaða dómi var talið sannað að eftir fallið af hjólinu hefði áfrýjandi runnið eða kastast eftir veginum og lent með hægri líkamshelming sinn utan í bifreiðinni við vinstra afturdekk hennar. Þá komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að við þessa snertingu við bifreiðina hefði áfrýjandi orðið fyrir því líkamstjóni sem áður er vikið að. Eins og málið liggur fyrir eru ekki efni til annars en að staðfesta þessa niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Verður úrlausn málsins því miðuð við að fyrir liggi viðhlítandi sönnun þess að við snertingu við bifreiðina hafi áfrýjandi hlotið það líkamstjón sem kröfugerð hans í málinu lýtur að.

33. Í lögregluskýrslu […] 2019, eða þremur dögum eftir slysið, er „sagður hraði“ bifreiðarinnar tilgreindur 40 km á klukkustund. Af skýrslunni verður þó ekki ráðið hvort sá hraði hafi miðast við það tímamark þegar áfrýjandi féll af hjólinu eða þegar hann rakst í bifreiðina eftir að hafa runnið eftir veginum og ökumaður leitast við að stöðva hana á vegbrún. Í hinum áfrýjaða dómi er komist að þeirri niðurstöðu, í ljósi framburðar ökumanns og farþega fyrir héraðsdómi, að miða verði við að bifreiðin hafi verið á mjög lítilli ferð þegar áfrýjandi lenti á henni. Hefði þáttur bifreiðarinnar í tjóninu verið áþekkastur því þegar hjólað væri á kyrrstæða bifreið. Í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar er því hins vegar haldið fram að afar huglægt sé hvað felist í „mjög lítilli ferð“ bifreiðar. Þannig megi vel hugsa sér að hún hafi verið á 25 km hraða á klukkustund þegar áfrýjandi skall á henni þrátt fyrir að vera á mjög lítilli ferð í huga ökumanns og farþega.

34. Hvað sem líður óvissu um nákvæman hraða bifreiðarinnar liggur fyrir að hún var á hreyfingu þegar áfrýjandi skall á henni og telst sannað að afleiðing þess var sú að hann hlaut áðurlýst beinbrot. Áður hefur verið vikið að dómaframkvæmd Hæstaréttar um þá aðstöðu þegar tjón hlýst af ökutæki sem er á hreyfingu. Í því ljósi verður að leggja til grundvallar að hættueiginleikar bifreiðar séu jafnan fyrir hendi þegar hún er á hreyfingu fyrir eigin vélarafli og gildi þá einu þótt hún sé einungis á mjög hægum hraða, sbr. til dæmis fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 439/2017. Að þessu virtu er hafnað þeirri forsendu hins áfrýjaða dóms að atvikum í máli þessu verði í reynd jafnað til þess að bifreiðin hafi verið kyrrstæð.

35. Af þessum ástæðum er fallist á að líkamstjón áfrýjanda hafi hlotist af hættueiginleikum bifreiðarinnar […] og þar með notkun ökutækis í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019.

36. Áður hefur verið gerð grein fyrir háttsemi áfrýjanda og aðstæðum þegar slysið varð. Þótt fallast megi á með stefnda að áfrýjandi hafi hagað hjólreiðum sínum ógætilega með hliðsjón af aðstæðum og þeim búnaði sem notast var við verður hvorki litið svo á að hann hafi valdið tjóni sínu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi þannig að fullnægt sé skilyrðum 4. mgr. 4. gr. laganna til niðurfellingar eða skerðingar bótaréttar hans. Er málsástæðum stefnda þar að lútandi því hafnað.

37. Samkvæmt öllu framangreindu er fallist á kröfu áfrýjanda með þeim hætti sem nánar greinir í dómsorði.

38. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn samtals 2.800.000 krónur á öllum dómstigum.

39. Áfrýjandi nýtur gjafsóknar í málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarsóknarkostnað hans fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar […] gagnvart áfrýjanda, A, vegna líkamstjóns sem hann hlaut í umferðarslysi […] 2020.

Stefndi greiði samtals 2.800.000 krónur í málskostnað á öllum dómstigum, þar af renni 1.000.000 króna í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Stefáns Geirs Þórissonar, 1.000.000 króna.