- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
- Tilraun
|
Fimmtudaginn 7. október 2004. |
Nr. 167/2004. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Jökli Ísleifssyni og (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) Ægi Ísleifssyni (Jóhannes Albert Sævarssonar hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Upptaka. Tilraun.
J og Æ voru ásamt tveimur öðrum mönnum ákærðir fyrir innflutning á fíkniefnum. Voru þeir J og Æ sakfelldir fyrir innflutning á 1 kg af amfetamíni og tilraun til innflutnings á 1 kg af sama efni. Þá voru báðir ákærðir fyrir að hafa í félagi flutt til landsins og haft í fórum sínum 1 kg af kannabis, J fyrir að hafa falið fíkniefnin í flutningaskipi á leið til landsins, en Æ fyrir að hafa fjarlægt þau úr skipinu þegar það var komið til Íslands, um leið og hann fjarlægði pakka sem hann taldi vera amfetamín. Í dómi Hæstaréttar var fallist á að hvorki væri sannað að Æ hafi tekið þátt í ráðagerðum um innflutning kannabisefnanna né vitað að til stæði að flytja þau inn til landsins og hann hafi því ekki tekið þátt í innflutningnum. Var hann því, eins og ákæru var háttað, sakfelldur fyrir að hafa haft efnið í vörslum sínum. Þótti refsing J hæfilega ákveðin tvö ár en Æ hlaut eins árs fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 2004 að fenginni yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.
Ákærðu krefjast báðir aðallega sýknu af ákæruliðum 1 og 3 eða að þeim verði ekki gerð refsing vegna þeirra, en til vara að refsing verði lækkuð. Ákærði Ægir krefst þess að auki að hann verði sýknaður af þeim þætti ákæruliðs 2 sem snertir innflutning á kannabisefnum og að honum verði veitt vægasta refsing sem lög leyfi fyrir þann ákærulið. Báðir krefjast þess og að 16 daga gæsluvarðhaldsvist dragist frá dæmdri refsivist.
Mál þetta var í héraði höfðað gegn ákærðu og tveimur öðrum mönnum, sem una dómi, en allir voru sakfelldir í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu í ákæruliðum 1 og 3. Þegar litið er til 2. ákæruliðar og þess hvort ákærði Ægir hafi átt þátt í innflutningi kannabisefnis, sem hann sótti um borð í ms. Arnarfell 16. september 2003 eins og nánar greinir í héraðsdómi, verður að fallast á að hvorki sé sannað að hann hafi tekið þátt í ráðagerðum um innflutninginn né vitað að til stæði að flytja þetta efni inn til landsins og hann hafi því ekki tekið þátt í innflutningnum. Verður hann því, eins og ákæru er háttað, sakfelldur fyrir að hafa haft efnið í vörslum sínum.
Með vísan til framangreinds og forsendna héraðsdóms þykir refsing ákærða Jökuls hæfilega ákveðin fangelsi 2 ár en ákærða Ægis 1 ár. Frá refsingu beggja dregst 16 daga gæsluvarðhaldsvist. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði Jökull Ísleifsson sæti fangelsi 2 ár. Frá refsingunni dregst 16 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði Ægir Ísleifsson sæti fangelsi 1 ár. Frá refsingunni dregst 16 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku efna og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði Jökull greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og ákærði Ægir málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað málsins greiði ákærðu óskipt.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2004.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 19. desember sl. á hendur ákærðu, Á [ ], D [ ], Jökli Ísleifssyni, kt. [ ], Gyðufelli 8, Reykjavík og Ægi Ísleifssyni, kt. [ ], Kirkjustétt 13, Reykjavík, fyrir stórfelld fíkniefnabrot framin í ágóðaskyni á árinu 2003, eins og hér greinir:
1. Gegn öllum ákærðu með því að hafa í félagi gert tilraun til að flytja inn 1 kg af amfetamíni ætlað til söludreifingar hér á landi. Lögðu ákærðu Á og D til fé til kaupanna, ákærði, D, sá um kaup á efnunum í Amsterdam og afhenti þau þar ákærða Jökli sem faldi efnin um borð í flutningaskipinu Arnarfelli sem statt var í Rotterdam. Skipið kom til hafnar í Reykjavík, þann 15. september og fór ákærði Ægir daginn eftir um borð í skipið og fjarlægði þaðan pakka sem hann taldi innihalda 1 kg af amfetamíni en pakkinn reyndist innihalda 959,20 g af óþekktu efni.
2. Gegn ákærðu, D, Jökli og Ægi, með því að hafa í félagi flutt til landsins og haft í vörslum sínum 1015,48 g af kanabis. Ákærði, D, keypti fíkniefnin, sem hann hugðist selja hér á landi, í Amsterdam og afhenti þau þar ákærða, Jökli, sem faldi þau um borð í ofangreindu flutningaskipi ásamt ætluðu amfetamíni, sbr. 1. tölulið. Ákærði, Ægir, fjarlægði fíkniefnin síðan úr skipinu þann 16. september um leið og hann fjarlægði pakkann sem hann taldi innihalda amfetamín.
3. Gegn ákærðu, Jökli og Ægi, með því að hafa í félagi flutt til landsins 1006,84 g af amfetamíni ætlað til söludreifingar. Ákærðu tóku að sér að flytja inn fíkniefnin fyrir ónafngreindan mann gegn peningagreiðslu. Tók ákærði, Ægir, við íslenskum peningum frá manninum og skipti í erlendan gjaldmiðil og afhenti manninum aftur, en peningarnir voru notaðir til kaupa á fíkniefnunum ytra. Ákærði, Jökull, tók við fíkniefnunum í Rotterdam af manninum og faldi þau um borð í flutningaskipinu Arnarfelli, þar sem ákærði starfaði sem háseti. Eftir að skipið kom til hafnar í Reykjavík þriðjudaginn 5. ágúst tókst ákærðu hins vegar ekki að finna fíkniefnin þrátt fyrir ítrekaða leit.
Brot ákærðu teljast varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. lög nr. 64,1974, sbr. lög nr. 32,2001 og sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga hvað varðar brot sem lýst er í 1. tölulið.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Ennfremur er með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002, krafist upptöku á 1015,48 g af kannabis og 1006,84 g af amfetamíni."
Ákæruvaldið hefur komið að þeirri leiðréttingu á ákærunni að þar sem segi “óþekktu efni” í lok 1. töluliðar hennar eigi að standa “koffíni”.
Málavextir
Upphaf máls þessa er að rekja til upplýsinga sem nokkrir ónafngreindir menn létu lögreglumönnum hjá ávana- og fíkniefnadeild Lögreglunnar í Reykjavík í té í ágúst og september 2003 um innflutning fíkniefna til landsins. Fram kom hjá þeim að ákærði Jökull Ísleifsson sem væri háseti á ms. Arnarfelli, fraktskipi frá Samskipum, stæði að innflutningnum með því að fela fíkniefnin um borð í skipum. Hefði hann notið aðstoðar tvíburabróður síns Ægis, en einnig kæmi maður að nafni D eða Daði að innflutningum. Væri ætlunin að flytja fíkniefnin inn frá Hollandi en haft var eftir manni í skýrslu lögreglunnar frá 8. september 2003 að ákærði Jökull væri þar staddur í þessum erindargjörðum. Vegna þessara upplýsinga var fenginn dómsúrskurður um að hlera mætti og hljóðrita símtöl hjá ákærða, Jökli, og að fengnar yrðu upplýsingar hjá símafyrirtækjum um símanúmer. Bárust þá böndin jafnframt að meðákærðu, D, Ægi Ísleifssyni og Á, og sams konar úrskurður fenginn um þá. Þá var sett á lögreglueftirlit við ms. Arnarfell sem lá við festar við bryggju Samskipa við Vogabakka hinn 16. september sl. Þann dag voru ákærðu, Á og Jökull, handteknir ásamt öðrum manni sem grunaður var um aðild að málinu. Þá var ákærði, Ægir, handtekinn þar sem hann kom gangandi frá athafnasvæði Samskipa. Vísaði hann lögreglunni á tvo pakka sem hann bar innanklæða og kvað þá innihalda hassefni og amfetamín. Samkvæmt efnaskýrslu tæknideildar Lögreglustjórans í Reykjavík reyndust þetta annars vegar vera 1015,48 g af hassi og 959,20 g af óþekktu efni. Nú liggur fyrir niðurstaða efnarannsóknar um það að efni þetta var ekki amfetamín heldur nærri hreint koffín.
Samkvæmt skýrslu Tollstjórans í Reykjavík fóru tollverðir daginn eftir um borð í ms Arnarfell til að æfa leitarhunda tollgæslunnar. Fannst þá poki sem talinn var innihalda fíkniefni. Samkvæmt efnaskýrslu var um að ræða 1006,84 g af amfetamíni.
Ákærði, D, var handtekinn 17. september sl. og yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir. Neitaði hann sök. Kvaðst hann vera nýkominn ásamt Jökli frá Amsterdam í Hollandi og kvaðst hann hafa neytt hass og kókaíns í ferðinni. Var hann þennan sama dag úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í lögregluskýrslu hinn 19. september kvaðst hann hafa lánað meðákærða, Jökli, peninga en ekki hefði hann vitað í hvað lánið fór. Hann kvaðst hafa vitað að Jökull væri á leið til Hollands og þeir orðið samferða út. Hefði hann grunað að Jökull ætlaði að smygla fíkniefnum til Íslands. Hefði hann látið Jökul fá samtals um 250.000 krónur þar ytra. Hann hefði ekki viljað vitað hvað Jökull væri að braska en grunað að það tengdist fíkniefnum. Í ferðalok hefðu þeir orðið saupsáttir og ekki ræðst við eftir heimferðina. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 29. september sl. og viðurkenndi þá að hafa átt aðild að því að flytja 1 kg af amfetamíni frá Hollandi hingað til lands. Hefði Á komið honum í samband við bræðurna Ísleifssyni. Kvaðst hann hafa komið á fund heima hjá Ægi þar sem voru staddir, auk húsráðanda, Jökull og Á. Hefðu bræðurnir stungið upp á því að ákærði legði fram 250 þúsund krónur í fyrirtækið gegn því að hann fengi 250 g af amfetamíni. Hann hafi gengist inn á þetta og einnig hefði hann lánað Á 130 þúsund til þess að hann gæti lagt fram sömu fjárhæð. Hefði verið ákveðið að smygla efninu með einu af skipum Samskipa. Ákærði kvaðst hafa farið út til Hollands með Jökli til þess að skemmta sér. Hefði hann látið Jökul hafa peningana þegar út var komið en áður hefði hann verið búinn að skipta þeim í evrur. Hann hefði ekki skipt sér af efniskaupunum og hvorki séð efnið sem keypt var né tekið þátt í því að koma þeim fyrir í skipinu. Hann kvaðst hafa ætlað að neyta sjálfur síns hluta af efninu. Hann segir að aldrei hafi verið talað um kaup á hassi í þessari ferð og ekki hafa frétt um það fyrr en í þessari yfirheyrslu. Daginn eftir gaf ákærði aðra skýrslu að viðstöddum verjanda og breytti framburði sínum á þann veg að hann sjálfur hefði séð um að kaupa fíkniefnin þar ytra en Jökull ekki komið nærri því. Ástæðan hefði verið sú að hann ætlaði að kaupa hass handa sjálfum sér og nota peningana í það en láta amfetamínið mæta afgangi þannig að það yrði af lélegri gæðum fyrir bragðið. Hefði hann sagt við seljandann að hann væri með 3000 evrur og þyrfti að fá fyrir þær eitt kg af hassi en hann þyrfti einnig að kaupa eitt kg af amfetamíni. Hann hefði látið þess getið að honum stæði nokkuð á sama um gæði amfetamínsins. Þegar hann fékk efnin í hendur hefði verið sterkur amfetamínþefur af pakkanum með því efni. Kvaðst hann hafa haft orð á þessu við seljandann sem hefði þá svarað því til að hann hefði gert sér far um að láta þetta líta út sem ekta. Kvaðst ákærði hafa álitið að um væri að ræða mjög lélegt amfetamín. Hann hefði þó ekki grunað að um annað efni en amfetamín væri að ræða. Hann hefði borgað 2000 evrur fyrir hassið og 1000 evrur fyrir amfetamínið. Amfetamínið hefði verið rakt og kögglótt í plastpoka en hassið hefði verið í plötum sem voru lausar í innkaupapoka. Eftir að hann hafði keypt efnin hefði hann látið þau í hendur Jökli og skrökvað því að honum að tengiliður hans þarna úti hefði beðið sig um það að láta fljóta með til Íslands. Jökull hefði skoðað amfetamínið og hreytt í hann að þetta væri “djöfulsins drasl”. Hann kvaðst einnig hafa bragðað á efninu og fundið að þetta væri rétt hjá Jökli en hafa samt talið Jökli trú um það að þetta væri ágætis efni. Jökull hefði pakkað efnunum inn fyrir flutninginn til Íslands. Eftir að Jökull hafði farið einn niður að höfn til þess að kanna aðstæður hefðu þeir farið þangað báðir saman. Jökull hefði farið og komið efnunum fyrir en ákærði kvaðst ekki hafa séð skipið fyrir gámum sem voru á hafnarsvæðinu. Þeir hefðu hins vegar verið í farsímasambandi og hist eftir að Jökull hafði komið efnunum fyrir.
Ákærði var rækilega yfirheyrður í dómi um sakirnar 30. september sl. Hann skýrði svo frá að Á hefði kom að máli við hann um 10-15 dögum fyrir ferðina til Hollands. Stuttu seinna hefðu þeir farið heim til bræðranna og þeir þá lagt til að þeir flyttu inn eitt kíló amfetamíni. Hefðu þeir sagt að Jökull ætlaði að koma þessu fyrir í skipinu en Ægir að taka það úr því. Kvaðst ákærði hafa ákveðið á þessum fundi að taka þátt í þessu. Hann hefði lagt til 250 þúsund krónur og Á jafn mikið. Hann hefði þó lánað Á fyrir helmingnum af hans hluta. Á móti ætluðu bræðurnir að sjá um framkvæmdina en fram hefði komið að hana hefðu þeir þegar hugsað út. Skyldi Jökull koma efninu fyrir í skipinu ytra en Ægir að fjarlægja það úr skipinu hér heima. Svo átti að skipta efninu í fjóra hluta og ákærði þannig að fá 250 g af efninu í sinn hlut en ekki hefði verið rætt um að selja efnið hér á landi. Ákærði kvaðst hafa tekið við peningum af Á. Ákærði sagði að hann hefði þegar á fundinum ákveðið með sjálfum sér að svíkja þá hina og nota þessa ferð til þess að flytja inn kíló af hassi til eigin nota. Þeir Jökull hefðu farið út á fimmtudegi og daginn eftir hefði hann farið á kaffihús þar sem hann þekkti til og komið sér í samband við mann þar. Hefði hann sagt við manninn að hann væri með 3000 evrur og fyrir þær þyrfti hann aðallega að kaupa eitt kíló af hassi, þ.e. fyrir 2000 evrur en þyrfti svo að fá kíló af amfetamíni fyrir afganginn og sér væri alveg sama um gæðin. Hefði hann keypti eitt hasskíló á laugardagskvöldið og mjög lélegt amfetamín, að hann hélt. Amfetamínið hefði lyktað mjög undarlega og sterkt og hann spurt strákinn þegar hann kom með þetta hvað þetta væri, og af hverju þetta lyktaði svo. Hefði hann svarað eitthvað á þá leið að hann hefði reynt að láta þetta líta betur út fyrir ákærða. Kvaðst ákærði hafa tekið það gott og gilt og farið með þetta upp á hótel. Amfetamínið hefði verið helmingi ódýrara heldur en hassið og segi það sína sögu um efnisgæðin. Hann hefði sagt við Jökul að hann hefði verið beðinn um flytja hassið fyrir annan mann. Hann hefði farið strax með efnið á hótelið þeirra til Jökuls þegar hann var búinn að kaupa það og Jökull pakkað því inn. Jökull hefði fyrst farið einn að athuga með skipið en hann svo farið með honum í hádeginu. Hann hefði átt að standa á verði en ekki getað séð til þess að fylgjast með.
Í lögregluyfirheyrslu 17. september sl., sem fram fór að viðstöddum verjanda, neitaði ákærði Jökull aðild að þessu máli. Kvaðst hann hafa dvalist í Hollandi í eina viku og hefði D verið með honum í för. Lýsti hann svo ferðum sínum deginum áður að hann hefði verið staddur rétt við athafnasvæði Samskipa við Holtaveg ásamt ákærða, Á. Fyrir tilviljun hefði Ægir verið staddur þar á svipuðum tíma með fíkniefni í fórum sínum. Væru engin fíkniefnatengsl á milli þeirra bræðra eða sín og ákærða, Á. Hann svaraði því ekki hvort slík tengsl væru á milli hans og ákærða, D, en kvaðst tengjast honum aðallega í gegnum skemmtanalífið. Hann kvaðst hafa notað ýmis konar fíkniefni sem hann keypti fyrir vinnulaun sín. Hann neitaði að heimila lögreglu að afla allra gagna um bankaviðskipti hans á undanförnum tveimur árum. Í framhaldi af þessari skýrslu var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald og neitaði hann þá fyrir dómi allri sök um innflutning fíkniefna. Ákærði gaf skýrslu 19. september hjá lögreglu, einnig að viðstöddum verjanda, og viðurkenndi þá að hann ætti aðild að málinu. Hann kvaðst hafa átt hugmyndina að því að flytja inn fíkniefni frá Hollandi til Íslands með því að fela þau um borð í skipum. Hefði hann fjármagnað innflutninginn með lánsfé tveggja manna sem hefðu átt að fá ágóða af viðskiptunum. Einnig hefði hann fengið fleiri menn til liðs við sig. Í byrjun september hefði hann keypt 1 kg af amfetamíni úti í Hollandi fyrir andvirði 320.000 króna í evrum sem hann hafði haft með sér frá Íslandi. Hann hefði verið beðinn um að koma pakka af hassefni til Íslands og fallist á að gera það þar sem hann hefði vitað að gæði amfetamínsins voru léleg. Hefði hassið því verið eins konar trygging. Hefði hann ætlað sér að selja amfetamínið á Íslandi og losna þannig úr fjárkröggum en um leið að kosta eigin neyslu. Hefði hann fengið hassið og amfetamínið í pökkum, en hann hefði gengið betur frá þeim og farið með þá um borð í Arnarfell í Rotterdam. Þar hefði hann stungið þeim í geymslukassa fyrir björgunarvesti. Hefði hann aðeins sagt þeim sem sótti pakkana hvar þeir væru geymdir. Eftir að til Íslands kom hefði hann tekið að sér að fylgjast með mannaferðum í kringum hafnarsvæðið á meðan maðurinn sækti pakkann. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 23. september, sem verjandinn var viðstaddur, staðfesti ákærði, Jökull, fyrri frásögn sína og lýsti því frekar hvernig hann umpakkaði fíkniefnunum. Varðandi hassefnið kvaðst hann hafa hugsað sér að koma því í verð ef amfetamínið reyndist vera ónýtt. Hann hefði sett sig í samband við aðra aðila er tengdust máli til þess að greina þeim frá grunsemdum sínum um að svo kynni að vera og hefðu þeir verið viðbúnir hinu versta. Hann kvaðst ekki vita hver ætti hassið en sá maður myndi setja sig í samband við hann síðar. Ekki hefði verið rætt um hvað ákærði ætti að fá í sinn hlut fyrir innflutninginn á hassinu. Hann kvað það vera rangt eftir ákærða, Ægi, haft að ákærði, D, hefði keypt hassefnið. Kvað hann þá Ægi hafa ákveðið að ákærði tæki áhættuna erlendis en Ægir hér heima og því hefði hann sótt fíkniefnapakkana um borð. Þá kvað hann ósætti nú vera á milli hans og Ægis sem varðaði persónuleg fjölskyldumál. Þegar gengið var á ákærða sagði hann svo frá að meðákærðu, Ægir og Á, hafi stungið upp á því hann að flytja inn amfetamín og spurt hvort hann gæti komið efninu inn í landið þar sem hann væri í millilandasiglingum. Þar sem hann átti ekki að sigla fyrir jól kvaðst hann hafa stungið upp á annarri áhættusamari hugmynd, sem sé að Á og D leggðu fram fé en ákærði sæi um að koma fíkniefnum fyrir um borð í skipinu og Ægir tæki sendinguna og flytti hana frá borði hér heima. Hlutur hvers um sig í fyrirtækinu yrði 250 g af amfetamíni. Þá hefði verið ákveðið að hann og D færu út til Hollands þar sem hann væri í sambandi við mann. Hefði D alfarið séð um kaupin enda hefði hann verið með peningana. D hefði einnig stungið upp á því að þeir tækju að sér að flytja hass til landsins fyrir ákveðinn aðila. Ákærði sagði að eftir að honum varð ljóst að amfetamínið var ekki gott hefði hann álitið þetta góða hugmynd. Ákærði kvaðst hafa komið efnunum fyrir um borð í skipinu og D hafi staðið álengdar og fylgst með. Þá greindi ákærði frá því að Ægir hefði heimsótt vin sinn, A, um borð í Arnarfell þegar það lá við bryggju hér á landi í þeim tilgangi að eiga hægara með að nálgast efnin.
Ákærði gaf ítarlega skýrslu fyrir dómi 24. september sl. Staðfesti hann þá þessar lögregluskýrslur, 19. og 23. september. Hann skýrði frá því að málið hefði byrjað með því að Ægir bróðir hans hefði komið að máli við hann og sagst geta útvegað fjármagn til fíkniefnakaupa ef ákærði gæti komið þeim til landsins. Kvaðst ákærði hafa sagt að það gæti hann gert, en áhættan væri mjög mikil. Úr því hafi orðið að Á kom í heimsókn til þeirra bræðranna og sagðist vera með mann tiltækan sem væri með fé í þetta. Sá maður, D, hefði komið seinna og þá verið ákveðið að þeir D færu út og keyptu efnin. D hafi sagst vera með sambönd úti, einhvern sem hann þekkti. D og Á hafi lagt til peningana en ekki vissi hann hvernig þeir hefðu samið um sín skipti. Þeir D hafði haldið út 4. september því Arnarfell átti að vera þar 9. september og þá ætluðu þeir að koma efninu fyrir í því. Þeir hefðu tekið sér gistingu saman á hóteli og daginn eftir hefði D haft samband við þann sem átti að útvega þeim efnin. Á laugardeginum hefði D sótt efnið meðan ákærði beið. D hafi áður verið búinn að spyrja hvort ákærði samþykkti að taka með 800 g af hassi í leiðinni en ákærði kveðst hafa maldað í móinn. Hefði D haldið áfram að tuða um þetta og kvaðst ákærði hafa spurt hann að því hvort hann væri með hassið og D þá játað því og ákærði fallist á það að það fengi að fljóta með, úr því sem komið væri. Þeir hefðu svo haldið með efnin til Rotterdam þar sem ákærði umpakkaði þeim. Hann kvaðst hafa bragðað á amfetamíninu og orðið “nokkuð viss” um að það var ekki amfetamín. Hann hafi samt ákveðið að flytja efnið til landsins þar sem hann “gat ekki komið tómhentur til baka og sagt mönnum að ég hefði fengið neitt að ég hefði hent því. Ég þurfti að sýna mönnum fram á það að ég hafi verið svikinn eða við. Það er eiginlega aðal ástæðan fyrir að við tókum þetta með okkur.” D hefði verið tvístígandi um þetta því hann hefði verið í mikilli neyslu. Ákærði kvaðst hafa verið “nokkuð viss um það” eða eins og hann einnig orðaði það “má segja 99%” viss að um svik væri að ræða. Hann kvaðst hafa pakkað efnunum og farið að höfninni með D. Hann hefði komið pökkunum fyrir eins og hann hafði ráðgert. Þegar skipið kom til landsins hefði komið í hlut Ægis að vitja um pakkana og Á að vera á sveimi um svæðið á meðan.
Að því er varðaði hassið sagði ákærði að D hefði verið með pakkann í herberginu og kvaðst hann ekki hafa hugsað sér að farga honum “vitandi ekkert hvaða fólk ég fengi í bakið á mér” en eins hefði hann séð fram á það að “ef við hefðum verið sviknir að þá ætlaði ég að hirða hassið og selja andvirði þess fyrir ferðirnar svo við kæmum ekki út í fjárhagslegu tapi.” Hann hefði því pakkað hassinu inn með hinu. Ekki kvaðst hann muna til þess að rætt hefði verið um að skipta hassinu í fernt.
Ákærði, Jökull, var enn yfirheyrður hjá lögreglu miðvikudaginn 1. október sl. og staðfesti þá enn fyrri skýrslur sínar og þá skýrslu staðfesti hann svo síðar um daginn fyrir dómi. Daginn eftir var borinn undir ákærða framburður meðákærða, D, sem rakinn er hér á öðrum stað, um að D hefði keypt hassið til eigin nota og látið gæði amfetamínsins sér liggja í léttu rúmi, því hann hefði ætlað að svíkja félaga sína. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað um það hvernig meðákærði D hefði staðið að kaupunum en taldi ólíklegt að D hefði ætlað að hafa 1 kg af hassi til eigin neyslu. Þá var borinn undir ákærða framburður meðákærða, Ægis, sem rakinn er hér á öðrum stað, um það hvernig þeir hefðu áður staðið að innflutningi fíkniefna með skipum Samskipa. Kvaðst hann ekki kannast við þetta. Kvað hann það rétt sem haft væri eftir Ægi að hann hefði skipt íslenskum peningum yfir í evrur á þessu ári en neitaði að greina frá því í hvað þær hefðu farið.
Ákærði kannaðist við að hafa staðið að innflutningi fíkniefna áður þegar hann var til sjós hjá Samskipum. Hann hefði í júlí flutt inn eitt kg af amfetamíni. Hann hefði komið efninu fyrir um borð í Arnarfelli erlendis en þegar hann hefði vitjað um það þegar skipið var komið til Reykjavíkur hefði það verið horfið og hann álitið langlíklegast að það hefði fundist við leit. Ægir hefði farið með honum í skipið skömmu síðar að leita að efninu en án árangurs. Því hafi verið ákveðið að nota aðra aðferð við innflutning í það skipti sem um ræðir í máli þessu. Ákærða var þá greint frá því að þessi fíkniefni hafi fundist við leit í skipinu skömmu eftir handtöku Ægis. Ákærði staðfesti þessa játningu sína fyrir dómi 2. október sl. og viðurkenndi að hafa flutt inn 1 kg af amfetamíni í júlí. Hefði hann fengið efnið afhent í Rotterdam, pakkað í glæran plastpoka með smellirennilás og falið hann í skipinu. Hann hafi hins vegar ekki fundið pokann þegar skipið kom til Íslands. Hann kvaðst hafa átt að fá hálfa milljón fyrir innflutninginn og bróðir hans hefði átt þátt í þessu og átti að fá 150.000 í sinn hlut.
Ákærði, Ægir, var yfirheyrður 17. september sl. að viðstöddum verjanda sínum. Sagði hann svo frá að þegar Jökull hefði verið í siglingum til Evrópulanda hefði hann tekið eftir því að auðvelt væri að smygla hlutum til landsins með skipum. Vegna slæms fjárhags kvaðst ákærði hafa rætt við Jökul um fíkniefnainnflutning og sagt að hann gæti tekið að sér að fela fíkniefnapakka um borð í skipinu. Ákærði kvaðst hafa talað við meðákærða, Á, sem hefði komið honum í samband við D. Kvað hann þá geta fjármagnað kaup á fíkniefnum. Hefðu þeir fjórir ákveðið að Jökull og D færu til Hollands til þess að kaupa kíló af amfetamíni. Hafi hlutverk ákærða verið það að sækja fíkniefnin í ms Arnarfell þegar skipið kæmi til baka frá Rotterdam þar sem fíkniefnunum skyldi komið fyrir. Hefði hann fengið vin á skipinu til þess að hleypa sér um borð í skipið hér þegar þar að kæmi. Hver þeirra um sig hefði átt að fá 250 g af efninu í sinn hlut og aðild að innflutningnum. Ætluðu þeir að koma efninu í verð og hagnast á því. Eftir að Jökull kom til landsins hefði hann sagt að D hefði viljað flytja inn hassefni og taldi hann að því yrði einnig skipt jafnt á milli þeirra fjögurra. Hefði hann sagst hafa komið tveimur fíkniefnapökkum fyrir um borð í skipinu og væru þeirr faldir á botni kassa með björgunarvestum fremst í skipinu. Hefði verið ákveðið að Jökull og Á myndu rúnta um svæðið á meðan hann sækti pakkana. Þetta hefði gengið eftir og hann stungið þeim inn á sig en verið handtekinn þegar hann gekk út af athafnasvæði Samskipa. Hann kvað engin önnur fíkniefnatengsl vera á milli þeirra bræðra. Hann kvaðst vera amfetamínneytandi og hefði hann fjármagnað neyslu sína með launum sínum og lánum.
Skýrsla var tekin af ákærða hinn 23. september sl., einnig að viðstöddum verjanda. Kvaðst hann hafa borið upp við meðákærða, Á, þá hugmynd að smygla fíkniefnum til landsins með aðstoð Jökuls, skipverja á skipinu, og hefði sú hugmynd þróast áfram og Á bent á meðákærða, D. Hefði hann rætt við D um þetta og fjármögnunina. Sjálfur hefði hann ekki vitað um heildarkostnað við innflutninginn enda hefðu þeir D og Á alfarið séð um þá hlið málsins. Hefði hann álitið að hann yrði um 500.000 krónur. Þeir hefðu hist fjórir 24. ágúst og línurnar verið lagðar um kaupin á fíkniefnunum og hvernig staðið skyldi að innflutningnum. Hefði hann tekið við 28.000 krónum af D fyrir flugmiða Jökuls. Ákærði kom fyrir dóm 24. sepember og greindi frá á sama veg og hjá lögreglu. Varðandi Hollandsferð Jökuls og D kvað hann Jökul hafa þekkt aðstæður þarna úti og að hann hefði komið efninu fyrir um borð. Hefði hann sagt að D hefði alfarið séð um kaupin.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 1. október sl. Viðurkenndi hann þá að þeir Jökull hefðu í annað skipti flutt inn fíkniefni til landsins frá útlöndum þegar Jökull hefði verið lausráðinn hjá Samskipum. Hefði maður sett sig í samband við Jökul um vorið 2003 og verið ákveðið að smygla um einu kg af amfetamíni. Kvaðst ákærði hafa skipt 300-400.000 kr. í evrur í nafni bróður síns vegna þessa. Hefðu þeir átt að fá um 500.000 kr. fyrir innflutninginn. Þar af átti ákærði að fá 150.000 krónur í sinn hlut. Þegar skipið kom til Íslands hefði Jökull ekki fundið pakkann sem hann hafði falið um borð. Kvaðst ákærði hafa farið og leitað um borð nokkru síðar en án árangurs. Hann kvaðst ekki hafa vitað um þau áform meðákærða D að kaupa hassefni og láta það koma niður á gæðum amfetamínsins sem upphaflega stóð til að kaupa. Ákærði kom fyrir dóm 2. október sl. og skýrði frá á sama veg og hjá lögreglunni, sem rakið hefur verið.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi.
Ákærði, Jökull, kveður hugmynd um að flytja inn amfetamínið til landsins sem vísað er til í 1. tölulið ákæru, hafa kviknað hjá þeim bræðrum. Hefði Ægir unnið með Á sem hafi þekkt D og þeir hinir komið þannig í málið. Þeir hafi hist heima hjá Ægi og þá verið ákveðið að ákærði og D færu út og keyptu fíkniefnin. Hlutverk ákærða hafi verið að koma efnunum fyrir í skipinu en Ægir átt að sækja þau þegar til Íslands væri komið. Heildarkostnaðinn hafi átt að vera um hálf milljón en hann kveðst ekki hafa staðið að því að fjármagna fyrirtækið. Ætlunin hafi svo verið sú að skipta efnunum á milli þeirra fjögurra. Þegar komið var til Amsterdam hafi þeir keypt efni sem reyndist vera 959 g af koffíni. Þegar þeir hafi uppgötvað það hafi verið keypt kanabisefni til þess að bæta upp tapið. D hafi alfarið séð um það. Þegar D kom til baka með efnið á hótelherbergið kveðst ákærði strax hafa uppgötvað að ekki væri um amfetamín að ræða. Kaupin á hassinu hafi verið til þess að koma út á sléttu eftir að þetta lá fyrir með því að koma því í verð hér á landi. Hann kveðst ekki hafa vitað að D ætti hassið, heldur hafi hann talið það vera þann sem seldi þeim ónýta amfetamínið. Því hafi hann ætlaðs sér að hirða hassið en ekki reynt að fá leiðréttingu á þessu þar ytra. Hann hafi síðan pakkað efninu inn í plastpoka og vafið um það límbandi. Þegar til landsins var komið kveðst ákærði hafa sagt Á og Ægi strax frá því hvernig í pottinn væri búið, en hann hafi ekki verið í samskiptum við þá meðan hann var úti. Hafi hann ákveðið að taka koffeinið með sér heim til þess að sýna þeim fram á að þeir hefðu verið sviknir. Kvaðst ákærði hafa verið staddur ásamt Á í bíl og fylgst með Ægi þegar hann fór til þess að sækja efnin um borð í skipið.
Um ákærulið 3. kvaðst ákærði hafa ætlað að flytja inn 1 kg af amfetamíni fyrir annan mann en hætt svo við það því hann treysti sér ekki í að gera það. Hafi hann hætt við áform sín eftir að hann fór frá skipinu. Ákærði lýsti aðdraganda að fyrirhuguðum innflutningi þannig að hann hefði hitt þennan aðila sem bauð honum greiðslu fyrir innflutning á fíkniefnunum. Kvaðst ákærði hafa fengið efnin úti í Rotterdam en þegar heim kom hafi hann ekki getað fundið amfetamínið sem hann hafði falið á þremur stöðum í skipinu frammi í bakka. Taldi hann hugsanlegt að tollurinn hefði fundið efnið en svo reyndist ekki vera því hann lenti ekki í vandræðum vegna þessa. Aðspurður kvað ákærði Ægi aldrei hafa hitt þennan ónefnda aðila. Hafi hann í raun ekkert vitað um hvað bjó að baki fyrr en 6. ágúst þegar hann fór frá skipinu. Um aðkomu Ægis að málinu kvað ákærði hann aðeins hafa skipt peningum í evrur fyrir sig. Þá hafi hann einnig farið um borð í skipið seinna, nánar tiltekið 19. ágúst, til þess að leita að efnunum en hann hafi ekki vitað hverju var verið að smygla inn í landið. Þóknun ákærða fyrir verkið hafi átt að vera hálf milljón og síðan hafi hann ætlað að gera upp við Ægi. Ákærði kvaðst ekki hafa farið sjálfur aftur að leita um borð í skipinu. Kvaðst hann aðspurður eflaust hafa fundið efnið ef hann hefði leitað aftur. Aðspurður kvaðst ákærði hafa komist í vandræði vegna þessa máls gagnvart fyrrgreindum ónefndum aðila og því hafi hann leiðst út í hitt.
Ákærði, Ægir, kvað hugmyndina um að flytja inn amfetamínið til landsins sem vísað er til í 1. tölulið ákæru, hafa kviknað hjá honum eftir að hafa orðið fyrir þrýstingi vegna fyrri innflutningsins sem Jökull hafði klúðrað. Hafi hann rætt um þetta við Á, sem var kunningi hans og vinnufélagi. Síðan hafi Á rætt við vin sinn D, sem ákærði ekki þekkti, og hann þá komið inn í málið. Hlutverk D hafi verið að koma með fjármagn inn í þetta. Kveðst ákærði ekki hafa vitað hversu mikla peninga D og Á ætluðu að leggja í þetta. Þeir fjórir hafi rætt fyrirtækið á fundi en ekki muni hann nákvæmlega um hvað var rætt. Þó geti verið að þeir hafi rætt um það að flytja inn 1 kg af amfetamíni. Hann kveðst hafa ætlað að neyta fíkniefnanna og selja þau, en þeir félagar hafi ætlað að skipta efninu jafnt á milli sín. Hafi þeir bræður átt að fá helminginn en hann hafi ekki vitað hvernig þeir hinir hafi ætlað að skipta með sér. Jökull og D hafi átt að fara til Hollands og koma efnunum fyrir um borð í skipinu en annað kveðst hann ekki vita um framkvæmdina. Hann hafi einu sinni talað við Jökul meðan hann var úti, en fíkniefni hafi þá ekki borið á góma. Þegar til landsins var komið hafi Jökull strax sagt honum að þeir hefðu verið sviknir úti og efnið væri ekki amfetamín. Með efninu hafi komið hasspakki sem þeir hafi ætlað að hirða en hann hafi ekki vitað um hassið fyrr en hann fór um borð í Arnarfellið til að sækja sendinguna eins og ráðgert hafði verið. Það eina sem hann vissi þá var það að hann átti að sækja tvo pakka. Hafi hann ekki vitað hvor pakkinn væri með hassinu og hvor væri með ónýta efninu.
Um 3. ákæruliðinn segir ákærði að hann hafi flækst inn í það mál og ekki komið nálægt því að öðru leyti en því að hann hafi skipti 3-400 þúsund krónum í evrur fyrir Jökul. Hafi hann ekki vitað til hvers féð var ætlað. Ónefndur maður hafi látið hann fá peningana og hann svo skipt honum í nafni Jökuls. Jökull hafi svo komið heim að utan og þá sagt honum frá því að eitthvað hefði gerst þarna úti. Síðan hafi ákærði orðið fyrir þrýstingi hjá einhverjum sem hann ekki nefnir og verið lagt að honum að bjarga málunum sem Jökull hefði “klúðrað.” Hann hafi farið um borð í Arnarfellið að leita því honum hefði verið hótað með illu. Hann hafi þó ekki vitað hvað það væri sem hann hafi átt að finna. Um það sem fram kemur í lögregluskýrslu hans um fund Jökuls og ákærða með ónefndum manni þá um vorið þar sem rætt hefði verið um að smygla fíkniefnum inn til landsins í næstu ferð Jökuls segist ákærði ekki muna eftir þessu og hafi hann eflaust sagt þetta í einhverju rugli eftir gæsluvarðhaldið. Þá sé það ekki rétt sem fram komi í lögregluskýrslu að upphaflega hafi verið ákveðið að flytja inn 2 kg af amfetamíni, en síðan 1 kg, og ennfremur að hann hafi átt að fá 150 þúsund krónur fyrir en Jökull 350 þúsund. Hafi hann búið þessar tölur til.
Ákærði, Á, hefur sagt frá því að hann hafi verið samstarfsmaður Ægis sem hafi átt hugmyndina að þessum fíkniefnainnflutningi. Hafi hann haft samband við vin sinn D og þeir í sameiningu lagt til peningana í þetta. Þeir hafi síðan allir hist á fundi og ákveðið að kaupa 1 kg af amfetamíni. Hafi áætlaður kostnaður við fyrirtækið verið um 300 þúsund krónur. Ákærði kveðst hafa lagt til 120 þúsund en D greiddi afganginn, þar af voru 100 þúsund krónur sem ákærði átti að endurgreiða honum. Hann hafi álitið að hann fengi í sinn hlut ágóðann af fíkniefnasölu, sem myndi skiptast jafnt á alla en hann hafi ekki átt að fá fíkniefni í hendurnar. Um utanlandsferðina kveðst hann ekkert vita, en eftir að Jökull var kominn heim hafi hann hitt þá bræður á sunnudeginum og þá fengið að vita að efnið væri ónýtt. Um kvöldið hafi D einnig sagt honum þetta. Hann hafi ekki vitað um hassið fyrr en málið komst upp.
Ákærði, D, segist hafa komið í málið þegar Á hafi haft samband við hann og hafði þá fengið hugmynd að fíkniefnainnflutningi frá félaga sínum í vinnunni. Ákveðið hafi verið á fundi að kaupa 1 kg af amfetamíni en áætlaður kostnaður var um 300 þúsund krónur en heildarkostnaður um 500 þúsund krónur. Skyldu þeir Á skipta með sér kostnaðinum til helminga. Hann kveðst hafa keypt efnin þar ytra, en frá upphafi hafi hann verið ákveðinn í því að kaupa hass fyrir sjálfan sig og þannig hlunnfara félaga sína. Ástæðan fyrir þessu hafi verið sú að hann hafi reykti 2-5 grömm af hassi á dag á þessum tíma. Hafi hassið verið ætlað til eigin neyslu og það verið fjárhagslegur ávinningur hans að fá efnið erlendis frá því það hafi verið ódýrara en hér á landi. Kveðst hann hafa verið ágætlega fjáður á þessum tíma enda hefði hann fengið allháar slysabætur, 8 milljónir, á þessum tíma og því skuldlaus með öllu. Hann kveðst hafa keypt 1 kg af hassi ytra og um leið beðið um að fá lélegt amfetamín með. Fyrir þetta allt hafi hann greitt samtals 3000 evrur. Kveðst hann hafa ætlað að eiga hassið sjálfur og ekki hafa óttast hefndaraðgerðir hinna í kjölfarið. Hann hafa skáldað upp sögu um hassið þegar hann kom til baka á hótelið en ekki vitað hvort Jökull trúði henni. Ekki muni hann nákvæmlega hvort hann afhenti Jökli bæði efnin saman, enda hafi hann verið í mikill neyslu þar ytra. Jökull hafi strax áttað sig á því að ekki væri um amfetamín að ræða og hafi þeir rætt það og endað með því ákærði rauk út. Það sem gerðist eftir að heim var komið kveðst ákærði ekkert hafa vitað enda hafði slest upp á vinskapinn á milli þeirra Jökuls úti. Hann hafi þó vitað að Ægir hafi átt að sækja efnið um borð eins og ákveðið var á fundinum.
Jakob Kristinsson, dósent í eiturefnafræðum við læknadeild Háskóla Íslands, hefur staðfest þær tvær matsgerðir sem lagðar hafa verið fram í málinu. Um koffínið sem greint var segir hann að engin önnur efni hafa fundist í þeim en koffín. Algengt sé að því efni væri blandað út í amfetamín og útilokað að sjá af útlitinu einu hvort um sé að ræða amfetamín eða koffín. Til þess þurfi efnarannsókn.
Niðurstaða
Um 1. tl. ákærunnar
Fyrir liggur játning allra ákærðu, sem er samhljóða í öllum meginatriðum, að þeir sammæltust um að flytja inn 1 kg af amfetamíni til þess að selja það hér á landi. Lögðu ákærðu D og Á til fé í fyrirtæki þetta, D þó mest. D og Jökull héldu til Hollands og skiptu þar með sér verkum, eins og fram er komið. Þá liggur fyrir að koffín-efni það sem D var selt í stað amfetamíns var flutt til landsins og að þeir Ægir og Á höfðu hvor sitt hlutverk við það að ná sendingunni úr skipinu, eins og einnig er komið fram.
Frásögn D um það að hann hafi þegar í upphafi ákveðið að hlunnfara félaga sína og kaupa hass fyrir megnið af fénu getur ekki talist vera sérlega trúverðug. Er á það að líta að hann lagði sjálfur megnið af fénu í fyrirtækið og að hann átti mikið undir meðákærðu um það hvernig til tækist og myndi vísast baka sér reiði þeirra. Þá þykir frásögn ákærða af orðaskiptum hans og sölumannsins ekki vera trúleg að heldur. Þykir dóminum óhætt að slá því föstu að ákærðu hafi verið hlunnfarnir af þeim sem seldi þeim efnið. Aftur á móti verður að byggja á því sem fram er komið hjá ákærðu, að þeir hafi komist að því þegar þeir höfðu athugað efnið á hótelherberginu, að ekki væri allt með felldu um það. Ákærði, D, hefur sagt að mikill amfetamínþefur hafi verið af efninu. Þá skýringu ákærða Jökuls, að efnið hafi verið flutt inn til þess að sýna þeim Ægi og Á fram á það að þeir hinir hefðu verið sviknir, álítur dómurinn haldlausa, enda verður ekki séð að það sanni neitt um það. Telur dómurinn óhætt að ganga út frá því að ákærðu hafi álitið að duftið hefði að geyma eitthvað af amfetamíni og að það hafi verið flutt inn í þeirri trú.
Sem fyrr segir reyndist ekkert amfetamín vera í duftinu sem um ræðir og verða ákærðu því ekki sakfelldir fyrir fullkomnað brot. Aftur á móti hafa ákærðu allir orðið sekir um tilraun til þess að flytja inn eitt kílógramm af amfetamíni og teljast þeir, efnismagnsins vegna og eiginleika þessarar tegundar fíkniefnis, hafa brotið gegn 173. gr. a, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Um 2. tl. ákærunnar
Fyrir liggur játning ákærðu, D, Jökuls og Ægis, um það að þeir hafi flutt til landsins hassefni það sem um ræðir. Ósannað er að ákærði, Jökull, hafi vitað um þetta efni fyrr en D hafði keypt það í Hollandi og Ægir fyrr en Jökull sagði honum af því þegar þeir komu til landsins á undan skipinu. Viðbára ákærða, D, um það að hann hafi ætlað hassið til eigin neyslu að öllu leyti getur ekki talist trúleg og ber að hafna henni. Verður að líta svo á að efnið hafi verið ætlað til sölu. Teljast ákærðu hafa með þessu orðið sekir um brot gegn 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. lög nr. 60,1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75,1982, sbr. lög nr. 13,1985 og 2. gr. sbr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233,2001, sbr. reglugerð nr. 490,2001.
Um 3. tl. ákærunnar
Fyrir liggur játning ákærða, Jökuls, um það að hann hafi um sumarið farið til Hollands og tekið þar við 1 kg af amfetamíni sem hann kom fyrir í m.s. Arnarfelli. Ákærði Ægir segist hafa fengið í hendur peninga hjá ókunnum manni en ekki vitað til hvers þeir voru ætlaðir. Hafi hann skipt fúlgunni, 3-400 þúsund krónum, í evrur og látið Jökul fá þær. Þá er komið fram hjá ákærðu að þegar skipið kom til landsins hafi Jökull ekki fundið efnið og að Ægir hafi farið um borð nokkru seinna að leita að því, en einnig farið erindisleysu. Þykir óhætt að slá því föstu að það var efnið, 1006,84 g að þyngd, sem leitarhundur tollgæslunnar fann í m.s. Arnarfelli daginn eftir komu skipsins til landsins, eins og frá greinir hér að framan. Sú viðbára Ægis að hann hafi ekki vitað til hvers féð var ætlað er í hæsta máta ótrúleg og ber að hafna henni. Þá þykir liggja fyrir að efni þetta var ætlað til sölu hér á landi. Teljast ákærðu hafa orðið sekir um fullkomnaðan innflutning á amfetamíninu. Með sömu rökum og greinir í lið 1 hér að ofan telst það eiga undir 173. gr. a í almennum hegningarlögum.
Viðurlög og sakarkostnaður
Ákærði, Á, hefur verið sektaður nokkrum sinnum á undanförnum árum, mest fyrir umferðarlagabrot. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði. Rétt er að fresta því að framkvæma refsinguna og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins í 9 daga ber að draga frá refsingunni, komi hún til framkvæmda.
Ákærði, D, hefur verið sektaður nokkrum sinnum á undanförnum árum, aðallega fyrir umferðarlagabrot. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Rétt þykir að fresta því að framkvæma 9 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð. Gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins í 12 daga ber að draga frá refsingunni.
Ákærði, Jökull, hefur þrisvar verið sektaður fyrir umferðarlagabrot. Auk þess var hann dæmdur í 60 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás 1999 og árið 2000 í jafnlanga fangavist fyrir réttindaleysi við akstur. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 2 ½ ár. Gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins í 15 daga ber að draga frá refsingunni.
Ákærði, Ægir, hefur verið sektaður fjórum sinnum fyrir umferðarlagabrot. Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 20 mánuði. Gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti vegna málsins í 15 daga ber að draga frá refsingunni.
Að kröfu ákæruvalds og í samræmi við 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni ber að gera upptæk 1015,48 g af kannabis og 1006,84 g af amfetamíni.
Dæma ber ákærða, Á, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, D, til þess að greiða verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, Jökul, til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða, Ægi, til þess að greiða verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl, 200.000 krónur í málsvarnarlaun. Loks ber að dæma ákærðu til þess að greiða annan sakarkostnað óskipt.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Á, sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er því að framkvæma refsinguna og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð. Frá refsingunni dragist 9 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, D, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frestað er því að framkvæma 9 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð. Frá refsingunni dregst 12 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, Jökull Ísleifsson, sæti fangelsi í 2 ½ ár. Frá refsingunni dregst 15 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, Ægir Ísleifsson, sæti fangelsi í 20 mánuði. Frá refsingunni dregst 15 daga gæsluvarðhaldsvist.
Upptæk eru 1015,48 g af kannabis og 1006,84 g af amfetamíni.
Ákærði, Á, greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærði, D, greiði verjanda sínum, Kristjáni Stefánssyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærði, Jökull, greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 200.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, Ægir, greiði verjanda sínum, Brynjari Níelssyni hrl, 200.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað greiði ákærðu óskipt.