Print

Mál nr. 411/2003

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Orlof
  • Tómlæti

Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2. apríl 2004.

Nr. 411/2003.

Sveitarfélagið Skagafjörður

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Snorra Birni Sigurðssyni

(Karl Axelsson hrl.)

og gagnsök

 

Ráðningarsamningur. Orlof. Tómlæti.

SB, sveitarstjóri hjá sveitarfélaginu S, krafðist þess af S að honum yrði greitt orlofsfé á fasta yfirvinnu fjögur ár aftur í tímann. Með hliðsjón af skýrum ákvæðum laga nr. 30/1987 um orlof var talið að enda þótt dregist hefði af hálfu SB að setja kröfuna fram, leysti sá dráttur ekki S undan þeirri skyldu sem á því hvíldi samkvæmt lögunum. Með vísan til 1. gr. laga nr. 30/1987 og meginreglu 2. mgr. 7. gr. sömu laga var SB talinn eiga rétt til umkrafinna orlofslauna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Árni Kolbeinsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. október 2003. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda. Verði fallist á kröfu gagnáfrýjanda krefst hann þess til vara að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við þingfestingu málsins í héraði. Þá krefst aðaláfrýjandi þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti.

Héraðsdómi var gagnáfrýjað 28. janúar 2004. Gagnáfrýjandi krefst þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 1.205.620 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. maí 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð staðfesting aðaláfrýjanda um starfstíma gagnáfrýjanda hjá honum. Ekki er lengur umdeilt að hlutfall orlofs af launum gagnáfrýjanda skuli vera 13,04%. Þá fellst gagnáfrýjandi á niðurstöðu héraðsdóms um fyrningu hluta höfuðstóls kröfu sinnar. Er því í máli þessu einungis deilt um greiðsluskyldu aðaláfrýjanda á orlofi af fastri yfirvinnu gagnáfrýjanda, en hins vegar er ekki lengur tölulegur ágreiningur milli aðila.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á dómkröfur gagnáfrýjanda á þann hátt, sem í dómsorði greinir, en ekki er ágreiningur um framsetningu vaxtakröfu hans.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Sveitarfélagið Skagafjörður, greiði gagnáfrýjanda, Snorra Birni Sigurðssyni, 1.205.620 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi: Af 19.701 krónu frá 1. maí 1998, af 19.701 krónu frá 1. júní 1998, af 19.701 krónu frá 1. júlí 1998, af 19.701 krónu frá 1. ágúst 1998, af 19.701 krónu frá 1. september 1998, af 27.630 krónum frá 1. október 1998, af 27.630 krónum frá 1. nóvember 1998, af 27.630 krónum frá 1. desember 1998, af 28.641 krónu frá 1. janúar 1999, af 28.641 krónu frá 1. febrúar 1999, af 28.641 krónu frá 1. mars 1999, af 28.641 krónu frá 1. apríl 1999, af 28.641 krónu frá 1. maí 1999, af 28.641 krónu frá 1. júní 1999, af 28.641 krónu frá 1. júlí 1999, af 27.377 krónum frá 1. ágúst 1999, af 27.377 krónum frá 1. september 1999, af 27.377 krónum frá 1. október 1999, af 27.377 krónum frá 1. nóvember 1999, af 27.377 krónum frá 1. desember 1999, af 27.377 krónum frá 1. janúar 2000, af 27.377 krónum frá 1. febrúar 2000, af 27.377 krónum frá 1. mars 2000, af 27.377 krónum frá 1. apríl 2000, af 27.377 krónum frá 1. maí 2000, af 27.377 krónum frá 1. júní 2000, af 27.377 krónum frá 1. júlí 2000, af 27.377 krónum frá 1. ágúst 2000, af 27.377 krónum frá 1. september 2000, af 27.377 krónum frá 1. október 2000, af 27.377 krónum frá 1. nóvember 2000, af 27.377 krónum frá 1. desember 2000, af 27.377 krónum frá 1. janúar 2001, af 27.377 krónum frá 1. febrúar 2001, af 27.377 krónum frá 1. mars 2001, af 27.377 krónum frá 1. apríl 2001, af 27.377 krónum frá 1. maí 2001, af 42.278 krónum frá 1. júní 2001, af 29.861 krónu frá 1. júlí 2001, af 29.861 krónu frá 1. ágúst 2001, af 29.861 krónu frá 1. september 2001, af 29.861 krónu frá 1. október 2001, af 29.861 krónu frá 1. nóvember 2001, af 29.861 krónu frá 1. desember 2001, í öllum tilvikum til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 18. júlí 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. júní s.l., hefur Snorri Björn Sigurðsson, Drekahlíð 6, Sauðárkróki, höfðað hér fyrir dómi gegn Sveitarfélaginu Skagafirði, v/Faxatorg, Sauðarkróki, með stefnu birtri þann 27. apríl 2002.

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði dæmt til að greiða honum kr. 1.284.424,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir;

af kr. 19.701 frá 01.01.98

af kr. 19.701 frá 01.02.98

af kr. 19.701 frá 01.03.98

af kr. 19.701 frá 01.04.98

af kr. 19.701 frá 01.05.98

af kr. 19.701 frá 01.06.98

af kr. 19.701 frá 01.07.98

af kr. 19.701 frá 01.08.98

af kr. 19.701 frá 01.09.98

af kr. 27.630 frá 01.10.98

af kr. 27.630 frá 01.11.98

af kr. 27.630 frá 01.12.98

af kr. 28.641 frá 01.01.99

af kr. 28.641 frá 01.02.99

af kr. 28.641 frá 01.03.99

af kr. 28.641 frá 01.04.99

af kr. 28.641 frá 01.05.99

af kr. 28.641 frá 01.06.99

af kr. 28.641 frá 01.07.99

af kr. 27.377 frá 01.08.99

af kr. 27.377 frá 01.09.99

af kr. 27.377 frá 01.10.99

af kr. 27.377 frá 01.11.99

af kr. 27.377 frá 01.12.99

af kr. 27.377 frá 01.01.00

af kr. 27.377 frá 01.02.00

af kr. 27.377 frá 01.03.00

af kr. 27.377 frá 01.04.00

af kr. 27.377 frá 01.05.00

af kr. 27.377 frá 01.06.00

af kr. 27.377 frá 01.07.00

af kr. 27.377 frá 01.08.00

af kr. 27.377 frá 01.09.00

af kr. 27.377 frá 01.10.00

af kr. 27.377 frá 01.11.00

af kr. 27.377 frá 01.12.00

af kr. 27.377 frá 01.01.01

af kr. 27.377 frá 01.02.01

af kr. 27.377 frá 01.03.01

af kr. 27.377 frá 01.04.01

af kr. 27.377 frá 01.05.01

af kr. 42.278 frá 01.06.01.

Jafnframt krefst stefnandi dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir;

af kr. 29.861 frá 01.07.01

af kr. 29.861 frá 01.08.01

af kr. 29.861 frá 01.09.01

af kr. 29.861 frá 01.10.01

af kr. 29.861 frá 01.11.01

af kr. 29.861 frá 01.12.01

í hverju tilviki til greiðsludags.

Í öllum tilvikum krefst stefnandi þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að sveitarfélagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur hans verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.

 

Í máli þessu er um það deilt hvort stefnandi eigi rétt til greiðslu orlofs á yfirvinnu úr hendi stefnda.

Málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem sveitarstjóri á Sauðárkróki og síðar hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.  Stefnda og stefnandi undirrituðu ráðningarsamning 30. september 1998 sem gilda skyldi skv. efni sínu til 31. maí 2000.  Áður en sá samningur rann út ákvað sveitarstjórn stefnda að ráða stefnanda til áframhaldandi starfa út kjörtímabilið eða til júnímánaðar 2002.

Aðilar gerðu á miðju ári 2001, n.t.t. þann 31. júlí, samkomulag um starfslok stefnanda hjá stefnda.  Í 2. gr. samkomulagsins sagði eftirfarandi: „Snorri Björn mun njóta fullra launa skv. ráðningarsamningi til 30. nóvember 2002.  Mun hann á þessum tíma taka það orlof sem hann á inni hjá sveitarfélaginu.“  Þá var í 4. gr. samkomulagsins tekið fram að stefnandi myndi eftir því sem tök væru á og óskað væri eftir verða nýjum sveitarstjóra hjálplegur við að setja sig inn í þau verkefni sem í gangi væru hjá stefnda.

Með bréfi dags. 4. febrúar 2002 óskaði stefnandi eftir því við sveitarstjóra stefnda að honum yrði greitt orlofsfé á fasta yfirvinnu fjögur ár aftur í tímann.  Í bréfinu vísaði stefnandi til þess að aðrir starfsmenn stefnda hefðu nýlega fengið slíkar greiðslur.  Þann 11. s.m. ritaði lögmaður stefnanda sveitarstjórn stefnda bréf vegna málsins.  Vísaði hann m.a. til áðurnefnds bréfs stefnanda og krafðist fyrir hans hönd ógreidds orlofs á yfirvinnu frá 1. janúar 1998 til 31. desember 2001, samtals kr. 1.284.424,-, auk dráttarvaxta.  Sveitarstjóri stefnda svaraði bréfi lögmannsins með bréfi dags. 2. apríl 2002.  Í bréfinu upplýsti hann að á fundi byggðaráðs stefnda 20. mars 2002 hefði verið ákveðið að hafna kröfum stefnanda og hafi samþykkt byggðaráðs verið staðfest á fundi sveitarstjórnar þann 26. s.m.  Í bréfinu var lögmæti kröfu stefnanda dregið í efa og jafnframt vísað til þess starfslokasamnings sem aðilar hefðu gert með sér þann 31. júlí 2001.

Aðilar náðu ekki að jafna þennan ágreining og höfðaði stefnandi því mál þetta.

 

Stefnandi kveðst hafa gert starfslokasamning við stefnda 31. júlí 2001 að kröfu nýs meiri hluta í sveitarstjórn stefnda.  Í samkomulaginu segi að stefnandi eigi að njóta fullra launa skv. ráðningarsamningi til 30. nóvember 2002.  Ráðningarsamningur sá sem stefnandi hafi gert við stefnda sé frá 30. september 1998.  Í 3. gr. samningsins segi að stefnandi skuli fá greiddar 65 klst. á mánuði í yfirvinnu.  Þá skuli laun stefnanda taka mið af launatöflu Launanefndar sveitarfélaga á samningstímanum og vera í launaflokki 94, 7. þrepi og taka hækkunum og launaflokkabreytingum sem verða kunni á umræddum launaflokki á samningstímanum.

Stefnda hafi í upphafi talið, líkt og nokkur önnur sveitarfélög, að því væri ekki skylt að greiða orlof á fasta yfirvinnu starfsmanna sinna.  Þessari framkvæmd stefnda hafi hins vegar verið hnekkt fyrir dómstólum sem ítrekað hafi dæmt sveitarfélög í samræmi við lög og kjarasamninga til að greiða orlof á yfirvinnu, bæði fasta og unna.

Um áramótin 2001-2002 hafi stefnda greitt starfsmönnum sínum orlof á yfirvinnu frá árinu 1998 og út árið 2001.  Stefnandi hafi talið að hann ætti einnig að fá greitt orlof fyrir sama tíma og með sama hætti, samtals kr. 1.284.424,-, auk vaxta samtals kr. 628.719,-.  Þegar hann hafi ekki fengið orlof sitt greitt um mánaðarmótin janúar-febrúar 2002 hafi hann ritað sveitarstjóra stefnda bréf og spurst fyrir um hvað liði orlofsgreiðslum til hans.  Stefnda hafi í kjölfarið hafnað orlofskröfum stefnanda og í bréfi setts sveitarstjóra til lögmanns stefnanda dags. 2. apríl 2002 hafi þau rök helst verið færð fyrir höfnuninni að stefnandi hafi samþykkt starfslokasamning frá júlí 2001 án allra athugasemda eða fyrirvara og því væri það túlkun stefnda að hvorugur aðila ætti kröfu á hinn umfram það sem segi í starfslokasamningi.  Þessum rökum kveðst stefnandi alfarið hafna enda komi ekkert það fram í samkomulagi aðila sem felli niður lögmætar og samningsbundnar greiðslur eins og orlof á yfirvinnu stefnanda.  Slíkt hefði enda verið beinlínis andstætt lögum þar sem aðilar hafi ekki heimild til að semja sig undan lögmætum réttindum í blóra við kjarasamninga og almenn lög.

Stefnandi segir að samkvæmt 2. tl. samkomulags aðila frá 31. júlí 2001 hafi hann átt að „... njóta fullra launa skv. ráðningarsamningi til 30. nóvember 2002.  Mun hann (stefnandi) á þessum tíma taka það orlof sem hann á inni hjá sveitarfélaginu.“  Stefnandi kveður síðari málsliðinn einungis þýða að honum hafi borið að taka á umræddum tíma það ótekna orlof sem hann hafi átt inni hjá stefnda.  Það orlof hafi verið umtalsvert enda hafi hann ekki tekið fullt orlof skv. kjarasamningi í mörg ár og líklega aldrei þann tíma sem hann hafi verið bæjar- og sveitarstjóri á Sauðárkróki.

Þá segir stefnandi það aldrei hafa komið til tals að með starfslokasamningnum væri hann að afsala sér rétti til orlofsfjár á fasta yfirvinnu en byggðaráð hafi nokkrum sinnum fjallað um kröfur starfsmanna til slíkra orlofsgreiðslna án þess að ráðið tæki afstöðu til þeirra.  Stefnandi segir enda aldrei hafa komið til álita af hans hálfu að afsala sér rétti til þessara greiðslna sem þá þegar hafi legið skýr fyrir skv. niðurstöðum dómstóla.

Málatilbúnað sinn kveður stefnandi byggja á kjarasamningi Launanefndar sveitarfélaga og starfsmanna sveitarfélaganna.  Þá byggi hann á lögum nr. 70, 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sérstaklega 11. gr. laganna, og lögum um orlof nr. 30, 1987, sérstaklega 2. og 7. gr. laganna.  Þá vísar stefnandi einnig til laga nr. 94, 1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  

Stefnda segir kröfu um sýknu byggja á því að sveitarfélagið hafi að fullu og öllu leyti uppfyllt skyldur sínar gagnvart stefnanda, þ.m.t. til greiðslu launa, orlofs o.þ.h. á grundvelli ráðningarsamnings aðila svo og starfslokasamnings.  Samkomulag hafi verið milli aðila um tilhögun greiðslna á yfirvinnu.  Ákvæði ráðningarsamningsins um greiðslu 65 yfirvinnustunda á mánuði hafi grundvallast á þeirri augljósu forsendu að ekki yrði greitt orlof til viðbótar yfirvinnugreiðslum 12 mánuði á ári.   Með því að greiða yfirvinnu til stefnanda alla mánuði ársins hafi stefnda uppfyllt skyldur sínar gagnvart honum, stefnandi fengið yfirvinnu greidda á orlofstímabili, og því hafi ekki átt að greiða orlofsfé ofan á umrædda yfirvinnu.  Samkomulag þetta hafi hvorki gengið gegn lögum nr. 30, 1987 né úrlausnum dómstóla.  Segir stefnda kröfu stefnanda fela í sér að hann fái greidd laun fyrir 13. mánuðinn.

Þá bendir stefnda á að stefnandi hafi verið sveitarstjóri þess og sem slíkur framkvæmdastjóri þess.  Hann hafi því borið ábyrgð á framkvæmd og túlkun ákvæða kjarasamninga og ráðningarsamninga starfsmanna sveitarfélagsins.  Stefnandi hafi hvorki haft uppi kröfu um greiðslu orlofs til viðbótar yfirvinnu á starfstíma sínum hjá stefnanda né hafi hann gert reka að því að greiða starfsmönnum stefnda, sem fastrar yfirvinnu nutu, slíkar greiðslur.  Í þessari afstöðu stefnanda hafi falist skýr og ótvíræð efnisleg afstaða hans til ákvæða ráðningarsamnings aðila, þ.e. að orlof skyldi ekki greiða til viðbótar yfirvinnu.  Þá hafi stefnandi í reynd, starfs síns vegna sem framkvæmdastjóri, haft stöðu vinnuveitanda og því ekki fallið undir ákvæði laga nr. 30, 1987 um orlof og njóti í reynd ekki verndar ákvæða þeirra laga eða annarra og/eða kjarasamninga.

Sveitarfélagið byggir einnig á því að stefnandi hafi með gerð starfslokasamnings, án sérstaks áskilnaðar eða fyrirvara, í reynd fallist á túlkun og efnisinnihald ráðningarsamningsins og þannig firrt sig rétti til að hafa uppi frekari kröfur á hendur stefnda en leiða má af starfslokasamningi.  Starfslokasamningurinn hafi haft að geyma fullnaðaruppgjör milli aðila vegna starfa og starfsloka stefnanda hjá stefnda.  Frekari kröfur verði því ekki hafðar uppi milli aðila.  Vísar stefnda til þess að er samningurinn var gerður hafi legið fyrir dómsniðurstöður þær er stefnandi vísi til í málatilbúnaði sínum.

Jafnframt byggir stefnda á því að ákvæði 2. tl. starfslokasamnings aðila hafi kveðið á um að stefnandi skyldi taka út það orlof sem hann átti inni hjá stefnda á gildistíma samnings, þ.e. frá 31. júlí 2001 til 30. nóvember 2002.  Ákvæði þetta hafi verið án takmarkana og tekið til alls orlofs sem stefnandi kynni að eiga inni hjá stefnda.  Dómkrafa málsins varði í reynd meinta orlofsinneign og bendir stefnda í því sambandi á að ákvæði laga nr. 30, 1987 mæli fyrir um útreikning orlofs í vinnustundum.  Álíti dómurinn að krafa stefnanda eigi við rök að styðjast hafi krafan talist til orlofsinneignar sem stefnandi hafi gert samkomulag um að taka út á gildistíma starfslokasamningsins.  Krafan sé því samkvæmt þessu að fullu greidd.  Þá heldur stefnda því fram að við túlkun starfslokasamningsins verði að hafa í huga að starfslokasamningurinn hafi í reynd verið mjög ívilnandi fyrir stefnanda en hann hafi kveðið á um launagreiðslur í 16 mánuði án sérstaks vinnuframlags.

Þá byggir stefnda auk þess sem áður hefur verið rakið á því að stefnandi hafi með tómlæti og aðgerðarleysi sínu í reynd fallist á tilhögun greiðslu yfirvinnu í 12 mánuði ársins þannig að orlof hafi verið innifalið í yfirvinnugreiðslunum.  Allt frá því að stefnandi fékk greidda yfirvinnu í september 1998 hafi ríkt sameiginlegur skilningur á ráðningarbundnum kjörum stefnanda enda hafi hann ekki sætt ágreiningi fyrr en í febrúar 2002, eftir formleg starfslok stefnanda hjá stefnda.  Þá hafi verið liðin tæplega 4 ár frá því að stefnandi undirritaði ráðningarsamning við stefnda og hafði hann fengið útborguð laun í meira en 40 skipti frá því að samningurinn var gerður án þess að hreyfa andmælum.  Launaseðlar stefnanda hafi allan þennan tíma borið með sér að ekki var greitt orlofsfé til viðbótar fastri yfirvinnu.  Með aðgerðarleysi sínu og tómlæti hafi stefnandi firrt sig rétti til að hafa uppi þær kröfur sem hann nú geri í málinu.

Stefnda mótmælir því að niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands vestra í máli E-23/2000 og niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 473/1999, en þær dómsúrlausnir hafi varðað óskylda aðila, geti breytt efnisinnihaldi ráðningarsamnings aðila.  Ráðningarsamband aðila þessa máls hafi ekki verið til umfjöllunar í nefndum málum.

Varakröfu stefnda kveður sveitarfélagið byggja á því að nokkur hluti stefnukröfunnar sé fyrndur, þ.e. eldri en 4 ára.  Ennfremur hafi stefnandi ekki notið hámarksréttar til orlofs samkvæmt ráðningarsamningi og því sé útreikningur stefnanda er byggi á 13,04 % orlofsprósentu allt of hár.  Því beri að leggja til grundvallar 10,17 % orlofsprósentu.

Þá mótmælir stefnda alfarið kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta á dómkröfuna.  Stefnandi hafi aldrei á starfstíma sínum haft uppi kröfu um greiðslu orlofs til viðbótar yfirvinnu.  Sú krafa hafi fyrst komið fram í bréfi stefnanda til stefnda dags. 4. febrúar 2002.  Verði kröfur stefnanda teknar til greina að einhverju leyti beri því að miða upphafstíma dráttarvaxta við stefnubirtingardag eða þingfestingardag.  Jafnframt mótmælir stefnda því sem ráða megi af kröfugerð stefnanda að yngri dráttarvextir en 12 mánaða verði höfuðstólsfærðir.

Að lokum kveðst stefnda byggja á því að hluti greiðslna stefnda til stefnanda skv. starfslokasamningi varði rétt stefnanda til greiðslu biðlauna samkvæmt ráðningarsamningi.  Fyrir því séu skýr dómafordæmi að orlof skuli ekki greiða til viðbótar biðlaunagreiðslum

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda til orlofslaga nr. 30, 1987, sbr. t.d. 7. gr., og laga nr. 70, 1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. t.d. 11. gr.  Ennfremur vísar stefnda til laga nr. 14, 1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.  Þá vísar stefnda til grundvallarreglna vinnuréttar, reglna um tómlæti og réttaráhrif þess og meginreglna samningaréttar.

Samkvæmt framlögðum ráðningarsamningi dags. 30. september 1998, sem ágreiningslaust er að innihaldi ákvæði það um yfirvinnu sem miða skal við úrlausn máls þessa, greiddi stefnda stefnanda 65 yfirvinnutíma á mánuði.  Fyrir liggur að þessi tímafjöldi var greiddur alla 12 mánuði ársins.  Ekkert hefur komið fram um það í málinu að við ákvörðun þessa tímafjölda hafi verið tekið tillit til orlofs þannig að bætt hafi verið við yfirvinnutímum sem orlofinu nam.  Er því ósannað að orlofslaun hafi verið innifalin í umræddum yfirvinnugreiðslum.

Samkvæmt 1. gr. laga um orlof nr. 30, 1987 skulu allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum eiga rétt á orlofi og orlofslaunum skv. reglum laganna.  Að mati dómsins er augljóst, sbr. t.d. framlagðan ráðningarsamning, að stefnandi féll undir þetta ákvæði er hann starfaði sem sveitarstjóri stefnda.

Stefnandi þykir með vísan til framangreinds og meginreglu 2. mgr. 7. gr. laga um orlof nr. 30, 1987 hafa átt rétt til orlofslauna á umræddar 65 yfirvinnustundir á mánuði.

Í starfslokasamningi þeim er aðilar undirrituðu 31. júlí 2001 er hvergi að finna yfirlýsingu um að samningurinn sé endanlegt uppgjör milli aðila.  Honum verður því ekki gefið slíkt vægi í málinu.  Þá verður 2. tl. samningsins ekki skilinn svo að hann taki til réttar til orlofslauna á yfirvinnu heldur einungis til þess frítökuréttar sem stefnandi átti inni hjá stefnda við gerð samningsins, en skilningur stefnda á samningnum styðst að mati dómsins hvorki við orðalag hans, sbr. „... mun hann á þessum tíma taka það orlof sem hann á inni ...“ né önnur framlögð gögn.

Fram kom í skýrslu stefnanda fyrir dómi að á árinu 1999 hafi komið fram krafa frá kennurum hjá stefnda um að sveitarfélagið greiddi orlof á fasta yfirvinnu.  Kvaðst stefnandi strax hafa bent á að ágreiningsmál þetta varðaði launakjör hans sjálfs með beinum hætti.  Deilan um orlofslaunin hafi ítrekað verið rædd í byggðaráði á árinu 2000 og á miðju ári 2001 hafi dómur komið til vitundar sveitarstjórnarmanna sem varðað hafi sambærilegt ágreiningsefni í öðru sveitarfélagi, en stefnandi kvað stefnda áður hafa ákveðið að dómur í því máli myndi ráða úrslitum um afstöðu stefnda í umræddu deilumáli.  Það hafi hins vegar tafist að gera orlofslaunin upp við starfsmenn stefnda, m.a. vegna hræringa í sveitarstjórninni, en nýr meiri hluti hafi tekið við á miðju síðastnefndu ári.  Stefnda hafi síðan greitt orlof fjögur ár aftur í tímann til viðkomandi starfsmanna um áramótin 2001-2002, þó ekki til stefnanda.

Samkvæmt fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar frá 27. janúar 2000 barst stefnda bréf dags. 19. janúar 2000 varðandi kröfur kennara um greiðslu orlofs á yfirvinnu.  Er bókun þessi í samræmi við áðurrakinn framburð stefnanda.  Liggur því fyrir að stefnda var ljóst í síðasta lagi með bréfi þessu að uppi væri ágreiningur um skyldu sveitarfélagsins til að greiða orlof á fasta yfirvinnu.  Hefur í málinu ekkert komið fram um að stefnda hafi haft ástæðu til að ætla að annað gilti um stefnanda en aðra starfsmenn sveitarfélagsins að þessu leyti.

Eins og áður hefur verið rakið byggði réttur stefnanda til orlofslauna á yfirvinnu á ákvæðum orlofslaga.  Þó svo dregist hafi af hálfu stefnanda að setja fram kröfu vegna þessa réttar, en skýringar á þeim drætti hafa verið raktar hér að framan, verður ekki séð að sá dráttur hafi getað losað stefnda undan þeirri skyldu sem á sveitarfélaginu hvíldi skv. ákvæðum orlofslaga, umfram það sem felst í ákvæðum laga nr. 14, 1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda.

Fallast ber á það með stefnda með vísan til 1. tl. 3. gr. laga nr. 14, 1905 að kröfur stefnanda eldri en 4 ára frá birtingu stefnu séu fyrndar.  Stefnandi á því ekki rétt til orlofsgreiðslna af yfirvinnustundum sem gjaldkræfar urðu fyrir 27. apríl 1998.

Stefnda hefur sett fram þá fullyrðingu að hluti greiðslna sveitarfélagsins til stefnanda skv. starfslokasamningi varði rétt stefnanda til biðlauna.  Óumdeilt er að ráðningarsamningur stefnanda sá er fyrir liggur í málinu hafi áður en hann rann út verið framlengdur til júnímánaðar 2002.  Ekkert uppsagnarákvæði var í samningnum.  Þar sem kröfur stefnanda í máli þessu varða yfirvinnugreiðslur fram til áramóta 2001/2002 er það niðurstaða dómsins að umrædd fullyrðing stefnda sé ósönnuð.  Verður þegar af þeirri ástæðu ekki á henni byggt í málinu.

Í 11. gr. ráðningarsamnings aðila er m.a. vísað til þess að orlof sveitarstjóra skuli vera í samræmi við kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga.  Í málinu liggur fyrir bréf ritað af Guðfinni Þór Newmann f.h. Launanefndar sveitarfélaga.  Fram kemur í bréfinu að í kjarasamningum milli Launanefndarinnar og bæjarstarfsmannafélaga með gildistíma frá árinu 1997 til ársins 2000 hafi verið greinar um orlofslaun svohljóðandi:  „Starfsmaður skal fá 10,17 % orlofslaun á yfirvinnu og álagsgreiðslur samkvæmt samningi þessum.  Við 8 ára starfsaldur eða 40 ára aldur skal hann fá 11,59 %.  Við 12 ára starfsaldur eða 50 ára aldur skal hann fá 13,04 %.“  Jafnframt segir í bréfinu að ákvæði um starfsaldur hafi fallið út í kjarasamningum sem gerðir hafi verið 2001 og miðist orlofslaunin nú því eingöngu við lífaldur.  Orlofsprósentan sé 10,17 % fram að 30 ára aldri, 11, 59 % eftir 30 ára aldur og 13,04 % þegar 40 ára aldri sé náð.

Ekkert liggur fyrir um starfsaldur stefnanda í skilningi ofangreindra kjarasamningsákvæða.  Aldur stefnanda liggur hins vegar fyrir en hann er fæddur 23. júlí 1950 og varð því ekki fimmtugur fyrr en 23. júlí 2000.   Frá 1. maí 1998 og til 31. júlí 2000 báru honum því 11,59 % orlofslaun ofan á umræddar yfirvinnugreiðslur skv. framansögðu, en eftir þann tíma og til 31. desember 2001 13,04 %.

Umræddar orlofslaunagreiðslur gjaldféllu um leið og þær yfirvinnustundir sem þær reiknuðust af, sbr. meginreglu 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 og 1.mgr. 5. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu.  Að því athuguðu sem áður hefur verið rakið í umfjöllun um meint aðgerðarleysi stefnanda þykja ekki efni til að falla frá nefndri meginreglu í máli þessu.  Stefnda ber því að greiða stefnanda dráttarvexti á orlofslaunin frá gjalddögum viðkomandi yfirvinnugreiðslna.

Krafa stefnanda um höfuðstólsfærslu dráttarvaxta á 12 mánaða fresti leiðir af ákvæðum 12. gr. vaxtalaga nr. 25, 1987 og 12. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu.  Það er því óþarfi að kveða á um slíka höfuðstólsfærslu í dómsorði.

Í samræmi við allt framangreint dæmist stefnda til að greiða stefnanda kr. 1.126.631,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir; af kr. 17.511 frá 01.05.98, af kr. 17.511 frá 01.06.98, af kr. 17.511 frá 01.07.98, af kr. 17.511 frá 01.08.98, af kr. 17.511 frá 01.09.98, af kr. 24.558 frá 01.10.98, af kr. 24.558 frá 01.11.98, af kr. 24.558 frá 01.12.98, af kr. 25.456 frá 01.01.99, af kr. 25.456 frá 01.02.99, af kr. 25.456 frá 01.03.99, af kr. 25.456 frá 01.04.99, af kr. 25.456 frá 01.05.99, af kr. 25.456 frá 01.06.99, af kr. 25.456 frá 01.07.99, af kr. 24.333 frá 01.08.99, af kr. 24.333 frá 01.09.99, af kr. 24.333 frá 01.10.99, af kr. 24.333 frá 01.11.99, af kr. 24.333 frá 01.12.99, af kr. 24.333 frá 01.01.00, af kr. 24.333 frá 01.02.00, af kr. 24.333 frá 01.03.00, af kr. 24.333 frá 01.04.00, af kr. 24.333 frá 01.05.00, af kr. 24.333 frá 01.06.00, af kr. 24.333 frá 01.07.00, af kr. 27.377 frá 01.08.00, af kr. 27.377 frá 01.09.00, af kr. 27.377 frá 01.10.00, af kr. 27.377 frá 01.11.00, af kr. 27.377 frá 01.12.00, af kr. 27.377 frá 01.01.01, af kr. 27.377 frá 01.02.01, af kr. 27.377 frá 01.03.01, af kr. 27.377 frá 01.04.01, af kr. 27.377 frá 01.05.01, af kr. 42.278 frá 01.06.01, og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir; af kr. 29.861 frá 01.07.01, af kr. 29.861 frá 01.08.01, af kr. 29.861 frá 01.09.01, af kr. 29.861 frá 01.10.01, af kr. 29.861 frá 01.11.01, af kr. 29.861 frá 01.12.01, í hverju tilviki til greiðsludags.

Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991, dæmist stefnda til að greiða stefnanda kr. 330.000,- í málskostnað.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Sveitarfélagið Skagafjörður, greiði stefnanda, Snorra Birni Sigurðssyni, kr. 1.126.631,- ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir; af kr. 17.511 frá 01.05.98, af kr. 17.511 frá 01.06.98, af kr. 17.511 frá 01.07.98, af kr. 17.511 frá 01.08.98, af kr. 17.511 frá 01.09.98, af kr. 24.558 frá 01.10.98, af kr. 24.558 frá 01.11.98, af kr. 24.558 frá 01.12.98, af kr. 25.456 frá 01.01.99, af kr. 25.456 frá 01.02.99, af kr. 25.456 frá 01.03.99, af kr. 25.456 frá 01.04.99, af kr. 25.456 frá 01.05.99, af kr. 25.456 frá 01.06.99, af kr. 25.456 frá 01.07.99, af kr. 24.333 frá 01.08.99, af kr. 24.333 frá 01.09.99, af kr. 24.333 frá 01.10.99, af kr. 24.333 frá 01.11.99, af kr. 24.333 frá 01.12.99, af kr. 24.333 frá 01.01.00, af kr. 24.333 frá 01.02.00, af kr. 24.333 frá 01.03.00, af kr. 24.333 frá 01.04.00, af kr. 24.333 frá 01.05.00, af kr. 24.333 frá 01.06.00, af kr. 24.333 frá 01.07.00, af kr. 27.377 frá 01.08.00, af kr. 27.377 frá 01.09.00, af kr. 27.377 frá 01.10.00, af kr. 27.377 frá 01.11.00, af kr. 27.377 frá 01.12.00, af kr. 27.377 frá 01.01.01, af kr. 27.377 frá 01.02.01, af kr. 27.377 frá 01.03.01, af kr. 27.377 frá 01.04.01, af kr. 27.377 frá 01.05.01, af kr. 42.278 frá 01.06.01, og dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 af fjárhæðum og eftir tímabilum sem hér segir; af kr. 29.861 frá 01.07.01, af kr. 29.861 frá 01.08.01, af kr. 29.861 frá 01.09.01, af kr. 29.861 frá 01.10.01, af kr. 29.861 frá 01.11.01, af kr. 29.861 frá 01.12.01, í hverju tilviki til greiðsludags.

Stefnda greiði stefnanda kr. 330.000,- í málskostnað.