- Kjarasamningur
- Vátrygging
- Hópvátrygging
- Persónutrygging
|
Fimmtudaginn 21. febrúar 2013. |
Nr. 554/2012.
|
Árni G. Sigurðsson (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Icelandair Group hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) |
Kjarasamningur. Vátrygging. Hópvátrygging. Persónutrygging.
Á, sem var atvinnuflugmaður hjá I hf., varð að láta af störfum á árinu 1998 vegna veikinda og fékk hann vegna þessa greitt fé úr kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu. Á öðlaðist réttindi sem atvinnuflugmaður á ný og starfaði hjá I hf. fram til ársins 2008 er hann varð að láta endanlega af störfum vegna veikinda. Kröfu Á um bætur var hafnað á þeim grunni að hann nyti ekki tryggingarinnar, en I hf. hafði ekki tryggt atvinnuflugmannsskírteini hans er hann hóf aftur störf hjá félaginu. Höfðaði Á því mál á hendur I hf. og krafðist greiðslu þeirrar fjárhæðar sem honum hefði borið úr tryggingunni. Hæstiréttur féllst á það með héraðsdómi að þær ástæður sem leiddu til veikinda Á árið 1998 hefðu verið af sama meiði og þær sem urðu til þess að hann missti flugskírteini sitt endanlega á árinu 2008. Hefði I hf. sýnt fram á að ekki hefði verið unnt að taka tryggingu í þágu Á án takmarkana vegna þessa. Þá taldi Hæstiréttur að í ljósi samskipta þáverandi lögmanns stéttarfélags Á og starfsmannastjóra I hf. hefði lögmanni stéttarfélagsins og þar með Á sjálfum verið ljóst að hann hefði ekki notið tryggingarinnar, en ósannað var að Á eða stéttarfélagi hans hefði borist bréf I hf. þess efnis. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu I hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 47.384.021 krónu með 3,5% ársvöxtum frá 24. nóvember 2009 til 24. mars 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Við meðferð málsins í héraði var gætt lokamálsliðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málavöxtum, málsástæðum og lagarökum aðila er lýst í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar greinir hafði áfrýjandi starfað lengi sem atvinnuflugmaður hjá stefnda og forverum hans er hann fékk heilaáfall í október 1998 með skammvinnum einkennum. Vegna þess voru honum ekki heimiluð áfram störf sem atvinnuflugmaður. Áfrýjandi sætti sig ekki við þessa niðurstöðu og öðlaðist síðar atvinnuflugmannsréttindi sín að nýju á grundvelli úrskurðar sérstakrar áfrýjunarnefndar og hvarf til fyrri starfa í maí eða júní 2001. Í desember það ár var honum á ný synjað um heilbrigðisvottorð. Eftir kæru áfrýjanda var sú ákvörðun staðfest. Áfrýjandi kærði einnig þá ákvörðun og í kjölfarið var sett á fót sérstök áfrýjunarnefnd um málefnið sem komst að þeirri niðurstöðu 15. september 2003 að áfrýjandi uppfyllti heilbrigðiskröfur til að gegna starfinu. Áfrýjandi hóf störf að nýju í október 2003 og sinnti þeim að því er ráðið verður fram á vordaga 2008, en miðað er við í málinu að hann hafi verið óvinnufær frá og með 15. júní 2008.
Þrátt fyrir framangreindan ágreining um atvinnuflugmannsréttindi áfrýjanda var honum í árslok 1999 greitt í einu lagi fé úr kjarasamningsbundinni skírteinistryggingu er hann naut. Forveri áfrýjanda, Flugleiðir hf., gerði fyrirvara um endurgreiðslu tryggingarfjárhæðarinnar yrði atvinnuflugmannsskírteini áfrýjanda endurnýjað og hann myndi öðlast á ný full réttindi sem atvinnuflugmaður. Áfrýjandi lýsti sig samþykkan þessum skilmálum „með fyrirvara á endurgreiðslu sem aðeins kemur til hlutfallslega ef undirritaður endurheimtir íslenskt atvinnuflugmannsskírteini I. flokks.“
Tryggingafélag það, sem nú annast umrædda skírteinistryggingu fyrir stefnda, hafnaði kröfu áfrýjanda um bætur er hann lét endanlega af störfum hjá stefnda á árinu 2008 á þeim grunni að hann nyti hennar ekki, en óumdeilt er að stefndi tryggði ekki atvinnuflugmannsskírteini áfrýjanda er hann hóf aftur störf haustið 2003. Eins og rakið er nánar í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína í málinu á því að það sé á ábyrgð stefnda að hann hafi ekki fengið greitt úr tryggingunni síðara sinnið. Bæði stefndi og forverar hans hafi vanefnt ákvæði kjarasamnings þar um. Stefndi gerir ekki athugasemdir við að kröfu áfrýjanda sé beint að honum á þeirri forsendu að stefndi hafi yfirtekið bæði réttindi og skyldur forvera sinna gagnvart áfrýjanda, en hann kveður þá hafa fylgt umþrættum kjarasamningsbundnum skyldum sínum til fullnustu.
Trygging sú sem um ræðir er persónutrygging sem ætlað er að bæta flugmönnum tjón vegna missis atvinnuflugmannsréttinda. Var kveðið á um hana í kjarasamningum stéttarfélags áfrýjanda, Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) við atvinnurekendur 14. júní 1992, sem endurnýjaður var með breytingum 2. júní 2000 og svo í kjarasamningi 10. maí 2004. Umþrætt ákvæði framangreindra kjarasamninga voru samhljóða um atriði er máli skipta um ágreining aðila, en um trygginguna segir svo í grein 08-3 í síðastnefnda kjarasamningunum: „Flugleiðir skulu á sinn kostnað tryggja skírteini hvers flugmanns fyrir kr. ... Trygging þessi skal ná yfir réttindamissi um stundarsakir og réttindamissi vegna aldurshrörnunar. ... Skírteinistrygging er eingreiðsla sem greiðist í einu lagi eða áföngum ... að vali flugmanns.“ Þá segir í grein 08-6: „Flugleiðir skulu sjá um, að FÍA fái fullnægjandi sönnunargögn fyrir því, að framangreindum tryggingarskilmálum hafi verið fullnægt og senda hverjum þeim flugmanni, sem þess óskar afrit af skírteini slysa- og skírteinistryggingar.“ Einnig sagði í grein 08-8: „Ef tryggingafélag Flugleiða neitar endurnýjun eða hækkun á skírteinistryggingu flugmanns eða takmarkar svið hennar við hækkun eða endurnýjun á grundvelli samhljóða læknisvottorðs trúnaðarlækna samningsaðila, skulu Flugleiðir ekki ábyrgir fyrir þeirri hækkun eða takmörkun. Í slíkum tilfellum munu Flugleiðir reyna að fá þær takmarkanir sérstaklega tryggðar og gera það í samráði við FÍA. FÍA er jafnframt heimilt, fáist ekki viðunandi trygging skv. ofanskráðu, að leita til tryggingafélaga, innlendra eða erlendra um tryggingu á skírteini viðkomandi flugmanns. Fáist trygging á þennan hátt, greiða Flugleiðir sama iðgjald fyrir þann, sem í hlut á, eins og fyrir aðra skírteinistryggingarhafa, án takmarkana í sama aldursflokki. ...“
Í gögnum málsins er tryggingaskírteini eða „endurnýjunarkvittun“ frá 4. janúar 2002, útgefin af tryggingafélagi því sem á þeim tíma sá um tryggingar þessar, þar sem sérstaklega var gerð svofelld takmörkun varðandi stöðu áfrýjanda vegna þessarar tryggingar: „Árni Sigurðsson flugstjóri áhætta vegna beinna eða óbeinna afleiðinga heilablóðfalls hér með undanskilin gildissviði vátryggingar gegn missi flugskírteinis eða hóplíftryggingar.“ Ekki var leitað frekar eftir skírteinistryggingu fyrir áfrýjanda, sbr. bréf Icelandair hf. 7. nóvember 2003 til áfrýjanda og stéttarfélags hans þar sem fram kemur sá skilningur að áfrýjandi ætti ekki tilkall til skírteinistryggingar þegar hann kæmi aftur til starfa það haust. Með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að framangreindar ástæður, sem tilgreindar eru í tryggingaskírteininu og vörðuðu áfrýjanda sérstaklega, hafi verið af sama meiði og þær sem urðu til þess að áfrýjandi missti endanlega flugskírteini sitt á árinu 2008. Er jafnframt fallist á að stefndi hafi sýnt fram á að ekki hafi verið unnt að taka tryggingu í þágu áfrýjanda án þeirra takmarkana, sem gerðar voru af hálfu vátryggjanda 4. janúar 2002 og að framan var getið.
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að ósannað sé að framangreint bréf 7. nóvember 2003 hafi borist áfrýjanda eða stéttarfélagi hans. Á hinn bóginn er fram komið að þáverandi lögmaður stéttarfélagsins og þáverandi starfsmannastjóri stefnda og forvera hans áttu samskipti um haustið 2005 varðandi uppgjör á kröfum áfrýjanda sem þá hafði fengið endurútgefið flugskírteini sitt. Í bréfi lögmannsins til starfsmannastjórans 26. september 2005 sagði meðal annars: „Í framhaldi af fundi með þér nýverið um mál Árna G. Sigurðssonar hef ég borið undir hann það sem okkur fór á milli um hugsanlega lausn málsins. Árni getur fallist á þær hugmyndir sem fram komu ...“ Því næst voru listuð upp í fimm liðum ýmis atriði varðandi starfskjör áfrýjanda allt frá árinu 2001, en í lið 5 sagði: „Að Árni verði ekki bókaður í leiguflug utan Evrópu og Bandaríkjanna, sbr. umræður okkar um skírteinistryggingu og veikindarétt, nema gagnkvæmt samkomulag sé þar um.“ Síðan sagði í lok bréfsins: „Á fundinum ræddum við ennfremur um skírteinistryggingu og veikindarétt Árna og vorum við sammála að láta þá þætti liggja á milli hluta þar til og ef á þá reyndi í framtíðinni. Ég er að vonast til að unnt sé að ganga frá endanlegu samkomulagi í þessum mánuði og bið þig að vera í sambandi við mig fljótlega.“ Í svarbréfi starfsmannastjórans 4. október 2005 var farið yfir ýmsa liði sem um ræðir í fyrrnefndu bréfi, en í lok þess sagði: „Fimmti liðurinn er erfiðari. Við getum ekki ákveðið að Árni fljúgi einungis í Evrópu og Bandaríkjunum. Í kjarasamningi við FÍA er félaginu skylt að jafna flugi félagsins á flugmenn. Auk þess sem slík framkvæmd myndi valda leiðindum og ósætti meðal flugmanna, þar sem margir hafa farið fram á að vera fyrst og fremst í áætlunarflugi félagsins.“ Í svarbréfi lögmannsins daginn eftir kom fram að lausn ágreinings væri í sjónmáli, en síðan sagði: „Hvað fimmta liðinn varðar er hann settur fram með tilliti til þess að áhöld eru um skírteinistryggingu Árna og veikindarétt, sbr. samræður okkar. Árni tjáir mér að flugmenn hafi í ferðum á staði þar sem heilbrigðismál og aðbúnaður eru lök fengið matareitranir og aðra sjúkdóma. En ég hygg að við ættum að fara nánar yfir þennan þátt málsins munnlega þegar niðurstaða liggur fyrir um annað. ...“ Fram kom hjá áfrýjanda fyrir dómi að lögmaðurinn hafi látið sig vita um að leyst hefði verið þræta samkvæmt fyrstu fjórum liðunum sem tilgreindir voru í framangreindu bréfi 26. september 2005. Varðandi fimmta liðinn kvað hann lögmanninn hafa sett fram óskir fyrir sína hönd um að hann yrði ekki bókaður í flug nema til Evrópu og Bandaríkjanna, en ekki hafa vitað til þess að ágreiningur hafi komið upp í viðræðunum um umrædda skírteinistryggingu. Fyrir dómi bar starfsmannastjórinn að hann hefði átt í talsverðum samskiptum við lögmanninn vegna ágreinings um uppgjör við áfrýjanda á árinu 2005. Hefði þeim síðarnefnda verið gerð skýrlega grein fyrir því að áfrýjandi ætti ekki kost á nýrri skírteinistryggingu og vísaði vitnið til framangreindra bréfa þar um. Þó hafi verið ákveðið að láta ágreining um það atriði ekki koma í veg fyrir sátt um önnur atriði sem um var deilt. Lögmaðurinn gaf einnig skýrslu fyrir dómi og kvaðst hafa vitað að áfrýjandi hefði fengið greidda skírteinistryggingu árið 1999 en ekki talið að um svokallaða einskiptistryggingu væri að ræða. Hafi fulltrúi stefnda lýst þeirri skoðun að vafi væri um trygginguna, en lögmaðurinn kvaðst ekki hafa viljað ræða það. Hafi þeir ákveðið að umrædd skírteinistrygging skyldi „algjörlega liggja á milli hluta 2005“. Þó kvaðst vitnið telja að áfrýjandi hafi á þessu tímamarki verið tryggður þar sem stéttarfélagi hans hafi ekki borist orðsending um annað. Nánar aðspurður sagði vitnið að skoðun starfsmannastjórans hafi verið „þessi, sem haldið [er] fram af stefnda í þessu máli. Skoðun mín var allt önnur.“
Af því sem að framan er rakið verður ráðið að lögmanni stéttarfélags áfrýjanda og þar með umbjóðanda hans hafi verið fullljóst að áfrýjandi naut ekki umræddrar tryggingar. Verður því þegar af þeirri ástæðu ekki fallist á að framangreind ákvæði kjarasamnings í greinum 08-6 og 08-8 um skort á tilkynningum um tryggingarmál áfrýjanda skuli leiða til ábyrgðar stefnda.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, en rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júlí 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. maí sl., var þingfest 31. mars 2011.
Stefnandi er Árni G. Sigurðsson, Birkigrund 57, Kópavogi.
Stefndi er Icelandair Group, Reykjavík.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 47.384.021 krónu með 3,5% ársvöxtum frá 24. nóvember 2009 til 24. mars 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, stefnanda að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því er þess krafist að málskostnaður beri virðisaukaskatt.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.
Þá er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til þess að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.
Málavextir
Stefnandi starfaði í áratugi sem atvinnuflugmaður og flugstjóri hjá stefnda. Í október árið 1998 fékk stefnandi heilaáfall með skammvinnum einkennum og vegna þess var heilbrigðisvottorð fellt niður. Í árslok 1999 var stefnanda eingreidd samningsbundin skírteinistrygging á grundvelli greinar 08-3 í kjarasamningi aðila, þar eð hann var metinn varanlega óvinnufær af heilsufarsástæðum.
Í grein 08-3 í kjarasamningi aðila frá 1992 er fjallað um svokallaða skírteinistryggingu sem ætlað er að bæta flugmönnum tjón vegna missis atvinnuflugmannsréttinda. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skuldbatt Flugleiðir hf. sig til þess að tryggja, á sinn kostnað, atvinnuflugmannsréttindi (skírteini) hvers flugmanns fyrir 6.971.168 krónur.
Í ódagsettu bréfi Flugleiða til stefnanda kemur fram að fallist hafi verið á að greiða stefnanda úr skírteinistryggingunni þrátt fyrir að endanleg niðurstaða um skírteinismissi stefnanda hafi ekki legið fyrir á þeim tíma. Skyldi greiðslan bundin þeim fyrirvara að tryggingin yrði endurgreidd kæmi til þess að atvinnuflugmannsskírteini stefnanda yrði endurnýjað og hann myndi öðlast réttindi sem atvinnuflugmaður.
Stefnandi áritaði þetta bréf hinn 15. desember 1999. Í áritun hans segir: „Samþ. með fyrirvara á endurgreiðslu sem aðeins kemur til hlutfallslega ef undirritaður endurheimtir íslenskt atvinnuflugmannsskírteini I. flokks.“
Í framhaldi af þessu fékk stefnandi greiddar 8.819.225 krónur úr skírteinistryggingunni.
Á árinu 2000 leitaði stefnandi eftir endurnýjun heilbrigðisvottorðs þar sem hann taldi sig hafa náð heilsu að nýju. Stefnandi fékk útgefið heilbrigðisvottorð á grundvelli úrskurðar áfrýjunarnefndar og hvarf til fyrri starfa um mitt ár 2001. Á grundvelli þess starfaði stefnandi sem atvinnuflugmaður í hálft ár, eða fram í desember 2001. Þá var stefnanda aftur synjað um endurnýjun heilbrigðisvottorðs. Stefnandi kærði þá ákvörðun. Í október 2002 skipuðu stjórnvöld nýja áfrýjunarnefnd ad hoc til þess að fjalla um málefni stefnanda. Nefndin var skipuð þeim Hauki Hjaltasyni taugalækni og prófessor Jónasi Hallgrímssyni meinafræðingi. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt á því að útgefið yrði 1. flokks heilbrigðisvottorð honum til handa þar sem taugaskoðun var eðlileg, engar nýjar breytingar höfðu komið fram á tölvusneiðmyndum og segulómskoðun á heila og þá voru fimm ár liðin frá heilaáfallinu án þess að stefnandi kenndi sér meins.
Frá október 2003 og fram á árið 2008 starfaði stefnandi hjá stefnda sem flugstjóri. Stefnandi sætti reglubundnu lækniseftirliti vegna starfs síns. Á vordögum 2008 komu fram í hjartasíritum óeðlilegar vísbendingar.
Stefnandi hafði tíð aukaslög frá sleglum og runur af slegla hraðtakti (ventricular tachycardia). Þetta leiddi til þess að stefnandi varð óvinnufær að mati Þorkels Guðbrandssonar, trúnaðar- og hjartalæknis, frá 15. júní 2008. Stefnandi var frá þessu tímamarki undir læknishendi og meðal annars Þórðar Harðarsonar, hjarta- og fluglæknis, er skoðaði stefnanda. Fluglæknir taldi áhættuna á skyndilegum hjartsláttartruflunum vera orðna of mikla og dró til baka heilbrigðisvottorð stefnanda með bréfi, dags. 24. nóvember 2009. Með vísan til þessa varð stefnandi óvinnufær frá og með 15. júní 2008.
Stefnanda var tilkynnt um ákvörðun fluglæknis Flugmálastjórnar Íslands, Þórðar Harðarsonar, frá 24. nóvember 2009, um að hafna útgáfu heilbrigðisvottorðs. Með bréfi, dags. 29. janúar 2010, óskaði lögmaður stefnanda eftir upplýsingum frá Flugmálastjórn Íslands um það hvort synjun þessi væri tímabundin ráðstöfun eða varanleg. Formlegt svar barst lögmanni stefnanda, dags. 15. mars 2010, undirritað af Einari Erni Héðinssyni, deildarstjóra skírteinadeildar Flugmálastjórnar Íslands. Þar var lögmanni tilkynnt að Sigurður B. Þorsteinsson hefði verið skipaður yfirlæknir heilbrigðisskorar í málinu ad hoc og að hann hefði það til athugunar. Með bréfi, dags. 27. apríl 2010, fór Flugmálastjórn Íslands þess á leit við stefnanda að hann gengist undir 24-stunda Holter skráningu og segulómskoðun á heila. Með bréfi, dags. 1. júlí 2010, frá Flugmálastjórn Íslands var talið nægjanlegt að stefnandi hitti Sigurð B. Þorsteinsson lækni og sætti skoðun hjá honum.
Hinn 25. ágúst 2010 lá niðurstaða Sigurðar B. Þorsteinssonar læknis fyrir en þar kemur fram að synja bæri varanlega um útgáfu heilbrigðisvottorðs til handa stefnanda. Í greinargerð Sigurðar segir að stefnandi hafi ýmsa áhættuþætti sem auki líkur á skyndilegum hjarta- og heilaáföllum og eru þeir tilgreindir þessir:
1. Saga um lacunert drep í heila.
2. Háþrýstingur sem reyndar virðist þokkalega stjórnað með lyfjameðferð en blóðþrýstingur mælist þó hækkaður í skoðunum hjá fluglæknum.
3. Vægur kransæðasjúkdómur greindist við hjartaþræðingu og um tíma sýndu áreynslupróf á hjarta verulegar ST lækkanir sem virtust tímabundnar og ástæða þeirra óljós en gæti stafað af smáæðasjúkdómi í hjartavöðvanum.
4. Hjartsláttartruflanir.
Með bréfi, dags. 15. september 2010, var stefnanda veittur andmælaréttur, en Flugmálastjórn lýsti í bréfinu afstöðu sinni til þess að ekki yrði unnt að endurnýja atvinnuflugmannsskírteini stefnanda.
Með bréfi, dags. 29. september 2010, lýsti lögmaður stefnanda þeirri afstöðu stefnanda að ekki yrði gerð athugasemd við boðaða ákvörðun flugmálastjórnar.
Með bréfi, dags. 7. október 2010, var stefnanda kynnt niðurstaða Flugmálastjórnar Íslands að synja stefnanda um endurnýjun 1. flokks atvinnuflugmannsskírteinis sökum varanlegs hæfisbrests. Stefnanda var kynntur réttur hans til að kæra ákvörðunina til samgönguráðuneytisins samkvæmt 10. gr. laga um Flugmálastjórn Íslands nr. 100/2006.
Lögmaður stefnanda fór þess á leit við stefnda, með bréfi dags. 19. október 2010, að gengið yrði til uppgjörs vegna starfsloka stefnanda, með vísan til kjarasamnings Félags íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, og stefnda. Í bréfinu var jafnframt óskað eftir upplýsingum um skírteinistryggingu stefnanda.
Í bréfi, dags. 21. desember 2010, undirrituðu af Davíð Þorlákssyni hdl., lögmanni stefnda er vísað til greinar 8-3 í kjarasamningi aðila og vísað til þess að 19. desember 1999 hafi félagið greitt stefnanda samningsbundna skírteinistryggingu að fjárhæð 8.819.225 krónur vegna réttindamissis flugskírteinis. Þá hafi verið talið að stefnandi gæti ekki starfað lengur sem flugmaður af heilsufarsástæðum og hafi því verið um fullnaðargreiðslu að ræða samkvæmt kjarasamningi aðila. Heilsa stefnanda hafi hins vegar farið batnandi og hafi hann fengið útgefið flugskírteini að nýju og hafið störf að nýju. Með bréfi, dags. 7. desember 2003 hafi honum verið tilkynnt að hann ætti ekki tilkall til skírteinistryggingar þegar hann kæmi aftur til starfa. Í ljósi þessa taldi félagið sér ekki skylt að greiða stefnanda frekari bætur vegna réttindamissis flugskírteinis. Með fullnaðargreiðslu, sem átti sér stað 19. desember 1999, hafi félagið uppfyllt skyldur sínar samkvæmt kjarasamningi.
Stefnandi kveðst ekki kannast við að hafa fengið framangreint bréf, dags. 7. desember 2003, og hafi lögmaður hans óskað eftir afriti þess frá stefnda, með bréfi, dags. 22. desember 2010. Þá var óskað eftir upplýsingum um það hvort félagið hefði fylgt ákvæðum kjarasamninga og leitað eftir skírteinistryggingu. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um það hvort stefndi hefði haft samráð við FÍA vegna þessa.
Stefnanda barst afrit bréfs, dags. 7. desember 2003. Í því bréfi kemur fram að afrit hafi verið sent Félagi íslenskra atvinnuflugmanna.
Með bréfi, dags. 4. janúar 2011, óskaði lögmaður stefnanda eftir upplýsingum frá FÍA varðandi þetta atriði. Í bréfinu var tveimur fyrirspurnum beint til FÍA: barst félaginu ofangreint bréf og ef svo hefur verið fylgdu því þá einhverjar aðgerðir af hálfu FÍA?
FÍA svaraði fyrirspurnunum í bréfi, dags. 13. janúar 2011, undirrituðu af Franz Ploder, formanni FÍA. Þar segir að bréfið finnist ekki í skjalasafni FÍA og því verði félagið að álykta að umrætt bréf hafi aldrei borist. Enn fremur hefði mátt telja öruggt að bréfið hefði kallað fram hörð viðbrögð af hálfu forráðamanna FÍA á þeim tíma.
Með bréfi, dags. 20. janúar 2011, sendi lögmaður stefnanda stefnda bréf, þar sem hann óskaði eftir upplýsingum um það hvort stefndi hefði leitað eftir skírteinistryggingu fyrir stefnanda. Enn fremur óskaði hann eftir upplýsingum um það hvort IceCap Ltd., tryggingafélag stefnda, hefði íslenskan umboðsmann, ella hver væri tengiliður félagsins vegna trygginga íslenskra flugliða.
Með bréfi, dags. 4. febrúar 2011, og undirrituðu af yfirlögfræðingi stefnda, var fyrirspurnum svarað. Í bréfinu var upplýst að ekki hefði verið leitað eftir skírteinistryggingu fyrir stefnanda líkt og stefnanda og FÍA hefði verið tilkynnt í bréfi dags. 7. desember 2003. Þá var upplýst að tengiliður IceCap Ltd. vegna tryggingar íslenskra flugliða væri starfsmaður stefnda.
Með bréfi, dags. 8. mars 2011, setti stefnandi fram kröfur sínar á hendur stefnda vegna skírteinistryggingar. Stefndi hafnar kröfum stefnanda í málinu og hinn 31. mars 2011 var mál þetta þingfest.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttar. Stefndi hafi valdið stefnanda tjóni þegar hann vanrækti samningsskyldur sínar samkvæmt kjarasamningi. Á þeim tíma hafi verið í gildi samningur á milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða hf. um kaup og kjör frá 10. maí 2004. Þessi ákvæði séu óbreytt í núgildandi kjarasamningi frá 10. febrúar 2010. Í kafla nr. 08 um tryggingar sé fjallað um skírteinistryggingar í lið nr. 08-3. Í 1. mgr. liðs nr. 08-3 sé skýrt kveðið á um skyldu stefnda til þess að tryggja, á sinn kostnað, skírteini hvers flugmanns fyrir 25.000.000 króna. Þar segi enn fremur í 2. mgr. liðs nr. 08-3 að greiða skuli óskerta tryggingarfjárhæð að 60 ára aldri vegna missis skírteinis. Í lið nr. 08-10 sé kveðið á um það að tryggingarfjárhæðir taki breytingum með vísitölu frá janúar 2000, sem sé 194 stig.
Stefnandi hafi orðið að fella niður störf 15. júní 2008 þar sem hann varð óvinnufær vegna hjartsláttartruflana er síðar leiddu til þess að heilbrigðisvottorð var afturkallað af trúnaðarlækni flugmálastjórnar 24. nóvember 2009. Stefnandi hafi verið 59 ára gamall þegar hann varð að fella niður störf af heilsufarsástæðum og brast varanlega hæfi til atvinnuflugmannsréttinda.
Stefnda hafi jafnframt borið að tryggja það að FÍA fengi fullnægjandi sönnun fyrir því að framangreindum tryggingarskilmálum hafi verið fullnægt, sbr. 1. mgr. liðs nr. 08-6 í samningnum.
Í lið nr. 08-7 sé tekið á því hvernig með skuli fara þegar tryggingarfélag neiti endurnýjun eða hækkun á skírteinistryggingu flugmanns. Stefndi hafi ekki gert reka að því að tryggja stefnanda skírteinistryggingu og hafi, þrátt fyrir samningsákvæði, hvorki tilkynnt honum né FÍA um það og sé því ábyrgur fyrir því tjóni sem stefnandi varð fyrir með því að njóta ekki kjarasamningsbundinnar tryggingar.
Stefndi hafi borið því við í samskiptum sínum við stefnanda að hann hefði þegar fengið greitt fyrir starfslok árið 1999 og ætti því ekki rétt á að fá skírteinistryggingu öðru sinni. Þessum sjónarmiðum hafni stefnandi. Þau séu fengin að láni úr skaðabótarétti og byggist á því að tjón sé ekki tvíbætt, þ.e. að maður eigi ekki að hagnast á tjóni. Skuldbindingar stefnda gagnvart stefnanda hafi stofnast með kjarasamningi við stéttarfélag hans en ekki fyrir einstakan skaðabótaskyldan atburð á ábyrgð stefnda og beri stefnda að reiða af hendi umsamdar greiðslur, enda skilyrðum í ákvæðum samningsins fullnægt.
Þegar stefnandi hafi fengið atvinnuflugmannsréttindi gefin út að nýju hafi það verið gert á grundvelli ítarlegra læknisskoðana sem Flugamálastjórn Íslands hafi látið framkvæma. Þar með hafi stefnandi fengið sömu stöðu gagnvart stefnda og aðrir flugliðar í þjónustu stefnda. Í samningnum sé ekki kveðið á um annað og stefndi hafi heldur ekki gert reka að því að upplýsa stefnanda eða stéttarfélag hans, FÍA, um að stefnandi væri ótryggður.
Dómkrafa stefnanda sé því sú að stefndi greiði stefnanda andvirði skírteinstryggingar er sundurliðist þannig: samkvæmt kjarasamningi, höfuðstóll tryggingar 25.000.000 króna, verðtrygging samkvæmt kjarasamningi, vísitala neysluverðs, grunnvísitala janúar 2000, 194,0 stig, vísitala útgefin í febrúar 367,7 stig, verðbætur 22.384.021króna. Krafist sé skaðabótavaxta samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001 frá 25. nóvember 2009 til þingfestingardags en dráttarvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Þá sé krafist málskostnaðar, stefnanda að skaðlausu.
Um lagarök er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins, samnings milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna & Icelandair Group hf./Icelandair ehf. um kaup og kjör, samnings á milli Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Flugleiða hf. um kaup og kjör frá 10. maí 2004, laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 laga, um meðferð einkamála nr. 91/1991um réttarfar og málskostnað og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Málsástæður stefnda og lagarök
Í greinargerð sinni gerir stefndi grein fyrir aðild stefnda. Kemur þar fram að Flugleiðir hf. hafi verið aðili að kjarasamningum sem gerðir voru við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (hér eftir FÍA) fram til ársins 2002. Frá árinu 2002 til 2005 hafi bæði Flugleiðir hf. og dótturfélag þess, Icelandair ehf. sem hafði tekið yfir flugreksturinn, verið aðilar að kjarasamningunum. Á árinu 2005 hafi Icelandair Group hf. verið stofnað og í framhaldi þess hafi stefndi og Icelandair ehf. verið aðilar að kjarasamningum við FÍA. Vinnuréttarsamband flugmanna sé við Icelandair ehf. sem sé dótturfélag stefnda. Þá hafi móðurfélögin einnig verið aðilar að kjarasamningunum. Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir við að kröfum stefnanda sé beint að honum í þessu máli á þeirri forsendu að félagið hafi tekið yfir bæði réttindi og skyldur Icelandair ehf. gagnvart stefnanda.
Aðalkrafa
Stefnanda var ekki skylt skv. kjarasamningi að tryggja skírteini stefnanda aftur
Aðalkrafa stefnda byggist á því að félaginu hafi ekki verið skylt að tryggja stefnanda aftur fyrir missi atvinnuflugmannsréttinda og því sé engin sök hjá félaginu sem sé skilyrði bótaskyldu samkvæmt almennu skaðabótareglunni.
Samkvæmt grein 08-3 í kjarasamningi á milli FÍA og stefnda frá 10. maí 2004 hafi Icelandair ehf. og Flugleiðum hf. verið skylt að tryggja atvinnuflugmannsréttindi (skírteini) hvers flugmanns, á sinn kostnað, fyrir 25.000.000 króna.
Í ákvæði 08-8 í kjarasamningnum komi fram að Flugleiðir séu ekki ábyrgir ef tryggingarfélag hafni útgáfu skírteinistryggingar en þar segi orðrétt:
Ef tryggingarfélag Flugleiða neitar endurnýjun eða hækkun á skírteinistryggingu flugmanns eða takmarkar svið hennar við hækkun eða endurnýjun á grundvelli samhljóða læknisvottorðs trúnaðarlækna samningsaðila, skulu Flugleiðir ekki ábyrgir fyrir þeirri hækkun eða takmörkun.
Þá komi jafnframt fram í greininni að í slíkum tilfellum skuli Flugleiðir reyna að fá slíkar takmarkanir sérstaklega tryggðar í samráði við FÍA og að FÍA sé einnig heimilt, ef viðunandi trygging fáist ekki, að leita til annarra tryggingarfélaga um tryggingu viðkomandi flugmanns. Fyrir liggi að ekki hafi verið unnt að fá slíka tryggingu keypta vegna áhættuþátta sem leiddu til upphaflegra veikinda stefnanda.
Það sé þekkt að vátryggingafélög tryggi ekki áhættur sem eru þekktar við tryggingartöku. Í þessu sambandi megi t.d. vísa til 1. mgr. 19. gr. og 1. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Þar komi fram að vátryggingafélag geti óskað eftir upplýsingum um atvik sem geta haft þýðingu fyrir mat þess og áhættu og að vátryggingartaka, eða eftir atvikum vátryggðum, skuli veita rétt og tæmandi svör við spurningum félagsins. Vanræksla upplýsingaskyldu geti leitt til niðurfellingar ábyrgðar félagsins í heild eða að hluta.
Fyrir liggi að á meðan óvissa var um endanlegt mat á heilbrigði stefnanda hafi eldri skírteinistrygging verið í gildi með undanþágu vegna þeirrar áhættu sem var þekkt á þeim tíma, þ.e. bein eða óbein tengsl við heilaáfall. Hafi sú tryggingarvernd verið til komin vegna þess að stefnandi fékk endurnýjað atvinnuflugskírteini í júní 2001, en það hafi fallið úr gildi í desember sama ár. Ástæða þess hafi verið sú að meðan ekki lá fyrir hvort stefnandi myndi koma til starfa aftur, og endurgreiða trygginguna, hafi þurft að hafa hana í gildi með þessari takmörkun.
Þegar stefnandi hafi síðan komið aftur til starfa á árinu 2003, og stefndi hafi óskað eftir skírteinistryggingu til handa stefnanda, hafi viðbrögð vátryggingafélagsins Harlequin Insurance Pcc limited verið þau að félagið gæti ekki veitt honum skírteinistryggingu í ljósi veikindasögu stefnanda og þess að hann hafi áður fengið greitt að fullu úr skírteinistryggingu. Af þessu sé ljóst að ekki hafi verið mögulegt fyrir stefnda að útvega stefnanda skírteinistryggingu. Að sama skapi sé ljóst að stefnandi hefði hvergi fengið skírteinistryggingu sem hefði tryggt hann gegn þeim áhættuþáttum sem síðar leiddu til þess að hann fékk ekki útgefið nauðsynlegt heilbrigðisvottorð.
Að ofangreindu virtu sé ljóst að skylda stefnda takmarkist við að félagið geti keypt tryggingu en fyrir liggur í málinu staðfesting vátryggingarfélagsins á því að það var ekki unnt. Engin sök liggi því fyrir hjá stefnda.
Til skýringar sé rétt að benda á að stefnandi hefði þurft að endurgreiða þá fjármuni sem hann fékk úr tryggingunni ef ný trygging hefði verið gefin út. Eins og áður segi liggi ljóst fyrir að umræddur áhættuþáttur hefði ávallt verið undanskilinn tryggingarvernd. Það hefði því skaðað hagsmuni stefnanda ef hann hefði endurgreitt tryggingabæturnar og fengið tryggingu sem hefði undanskilið áðurgreinda áhættuþætti.
Eins og áður segi hafi verið farin sú leið að krefja ekki stefnanda um endurgreiðslu á ofangreindri fjárhæð heldur hafi félagið litið svo á það hefði þegar greitt stefnanda út skírteinistryggingu og því yrði skírteinistrygging stefnanda ekki í gildi þegar hann hóf aftur störf hjá Icelandair ehf. á árinu 2003. Stefnanda hafi verið tilkynnt um þetta fyrirkomulag með bréfi dags. 7. nóvember 2003. Stefnandi hafi ekki gert athugasemdir við þetta fyrirkomulag og hafi því með tómlæti sínu samþykkt að tryggingin væri ekki til staðar.
Af framansögðu telji stefndi því að honum hafi ekki verið skylt að tryggja skírteini stefnanda og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Tjón ekki sannað
Stefndi byggi aðalkröfu sína jafnframt á því að tjón stefnanda sé ekki sannað. Í fyrsta lagi telji stefndi að stefnandi hefði hvergi fengið skírteinistryggingu sem hefði tryggt hann fyrir starfsréttindamissinum árið 2008. Í öðru lagi hafði stefnandi þegar fengið fullar greiðslur úr skírteinistryggingu og úr fyrrnefndri IFALPA tryggingu sem Flugleiðir hf. greiddu iðgjöld fyrir.
Fyrir liggi að hinn 19. desember 1999 voru stefnanda greiddar 8.819.225 krónur vegna skírteinismissis frá Flugleiðum hf. Félagið hafi innt greiðsluna af hendi með þeim fyrirvara að stefnandi myndi endurgreiða félaginu fjárhæðina ásamt vöxtum ef hann myndi aftur hefja störf hjá félaginu. Þá sé rétt að taka fram að fjárhæðin að teknu tilliti til verðbóta sé 17.479.703 krónur miðað við vísitölu neysluverðs í apríl 2011, 374,1. Auk þess bendi stefndi á að Flugleiðir hf. hafi greitt iðgjald af svokallaðri IFALPA skírteinistryggingu stefnanda sem á þessum tíma hafi verið hluti af kjarasamningsskyldum. Stefndi hafi ekki aðgang að því hve háa fjárhæð né hvenær stefnandi fékk greidda né hvenær úr þeirri tryggingu en að neðan er sett fram áskorun á hendur stefnda að upplýsa hversu háa greiðslu hann fékk úr tryggingunni.
Af framansögðu sé ljóst að stefnandi hafi ekki sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni og beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Sömu tjónsorsakir
Aðalkrafan byggist einnig á því að veikindi stefnda, bæði árið 1998 og 2008, eigi rætur sínar að rekja a.m.k. að stórum hluta til sömu orsaka. Upphaflegur skírteinismissir stefnanda hafi komið til vegna heilaáfalls vegna of hás blóðþrýstings og of hárrar blóðfitu í október 1998. Stefnandi hafði verið í læknismeðferð vegna þessara veikinda í nokkur ár. Síðari skírteinismissirinn hafi komið til vegna sömu orsaka eins og fram komi í greinargerð Sigurðar B. Þorsteinssonar læknis. Telji stefndi því að stefnandi hafi þegar fengið tjón sitt vegna þessara orsaka bætt með fyrrnefndum greiðslum frá vátryggingarfélögum. Í raun sé um sama tjónsatburð ræða þegar stefnandi hætti störfum á árinu 2008.
Varakrafa stefnda um lækkun
Draga á fyrri greiðslur úr skírteinistryggingum frá tjónsfjárhæð
Stefndi byggi varakröfu sína á því að til frádráttar kröfu stefnanda eigi að koma sú fjárhæð sem stefnandi fékk greidda árið 1999 frá Flugleiðum hf. og þær greiðslur sem stefnandi fékk úr fyrrnefndri IFALPA tryggingu sem Flugleiðir hf. greiddi iðgjöld af samkvæmt þágildandi kjarasamningi. Stefnandi telji því að það sé hvorki sanngjarnt né í samræmi við tilgang skírteinistryggingar samkvæmt kjarasamningi stefnda og FÍA, eða almennar skaðabótareglur, að stefnandi fái tjón sitt tvíbætt og að ofangreind fjárhæð eigi að koma til frádráttar á kröfu stefnanda.
Mótmæli við útreikninga og dráttarvaxtarkröfu stefnanda
Stefndi bendi á að í stefnu komi fram að skaðabótavextir skuli reiknast af kröfu stefnanda frá 25. nóvember 2009 með vísan í 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Af því megi ráða að stefnandi telji að hið bótaskylda atvik hafi átt sér stað hinn 25. nóvember, þ.e. degi eftir að stefnanda var tilkynnt að Flugmálastjórn Íslands hefði hafnað útgáfu heilbrigðisvottorðs til handa stefnanda. Stefndi mótmæli því að í útreikningi stefnanda á verðbótum á vátryggingarfjárhæð sé miðað við vísitölu neysluverðs í febrúarmánuði 2011 (367,7 stig). Rétt sé að miða við vísitölu neysluverðs í nóvembermánuði 2009 (356,2 stig) þegar hið bótaskylda atvik átti sér stað.
Þá mótmæli stefndi því að krafa stefnanda beri dráttarvexti frá þingfestingardegi til greiðsludags. Samkvæmt 9. gr. nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu skulu skaðabótakröfur bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna að liðnum mánuði frá því að kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Mótmæli stefnanda byggist í fyrsta lagi á því að ekki liggi fyrir fullnægjandi læknisfræðilegar upplýsingar sem sýni að skírteinismissir stefnanda á árinu 2009 eigi rætur sínar að rekja til sjálfstæðs tjónsatburður. Í öðru lagi hafi stefnda ekki verið unnt að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta þar sem stefndi hefur ekki fengið upplýsingar um hve háa greiðslu stefnandi hafi fengið úr fyrrnefndri IFALPA greiðslu. Ekki sé því unnt að krefja um dráttarvexti fyrr en þessar upplýsingar liggi fyrir.
Um lagarök vísar stefndi til meginreglna kröfuréttar og samningalaga nr. 7/1936, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, einkum 19. og 20 gr. laganna. Málskostnaðarkrafan styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Valur Stefán Ásgeirsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar og trygginga hjá stefnda, bar fyrir dómi að 1994 eða 1995 hafi stefndi stofnað svokallað bundið tryggingafélag IceCap Ltd.og hafi fengið fyrirtæki sem sérhæfi sig í rekstri slíkra bundinna tryggingafélaga til að annast reksturinn. Fyrst hafi þeir leigt aðstöðu hjá Polygon, sem hafi rekið fyrirtækið fyrir IceCap Ltd. Síðar hafi þeir fengið leigða „sellu“ hjá Harlequin og hafi Harlequin og Heritage insurance management rekið hið bundna tryggingarfélag stefnda. Bar Valur að flest flugfélög reki slík félög. Samkvæmt framburði Lorraine Goodlad, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Heritage, hefur Heritage starfað í samstarfi við Icelandair frá því að hið bundna tryggingarfélag þess var stofnað árið 1996. Kvað hún félagið hafa gefið út tryggingarskírteini fyrir einstaklinga og hópa frá árinu 1997.
Fyrir liggur að stefnandi, sem hafði starfað í fjölda ára sem atvinnuflugmaður, var tryggður skírteinistryggingu. Eins og nánar er rakið hér að framan, fékk hann heilaáfall á árinu 1998. Í kjölfar þess var heilbrigðisvottorð hans fellt niður og fékk hann greitt úr skírteinistryggingunni 8.819.225 krónur.
Í málinu liggur frammi afrit bréfs Icelandair ehf. til stefnanda, dags. 7. nóvember 2003, þar sem segir að félagið líti svo á að skírteinistrygging, sem ætluð sé til þess að styðja flugmann sem missir réttindi sín endanlega, verði einungis greidd einu sinni til hvers flugmanns. Því sé það skoðun félagsins að stefnandi eigi ekki tilkall til skírteinistryggingar þegar hann komi nú aftur til starfa. Ágreiningur er um það í málinu hvort stefnanda og FÍA, Félagi íslenskra atvinnuflugmanna, hafi borist þetta bréf.
Á árinu 2000 fór stefnandi að leita eftir því að heilbrigðisvottorð hans yrði endurnýjað en nokkur óvissa ríkti um það á tímabili hvort vottorð hans yrði endurnýjað. Í framburði Lorraine Goodlad, aðstoðarframkvæmdastjóra hjá Heritage fyrir dómi kom fram að vegna þrýstings frá stefnda hefði stefnandi á árinu 2002 haft takmarkaða skírteinistryggingu þar sem undanskilin voru frá tryggingunni þau veikindi sem höfðu leitt til þess að heilbrigðisvottorð stefnanda var fellt niður.
Bar Lorraine að á árinu 2003 hefði stefndi tilkynnt þeim að stefnandi hefði fengið flugskírteini sitt á ný og lagt fram fyrirspurn um það hvort tryggingafélagið væri reiðubúið að veita stefnanda fulla tryggingu. Hafi þau tilkynnt stefnda að þau væru ekki reiðubúin til þess, að teknu tilliti til afturköllunar flugskírteinis hans og vegna viðvarandi heilsufarsástands hans. Hafi stefnda því verið tilkynnt að stefnandi væri ekki lengur tryggður. Er framburður hennar í samræmi við yfirlýsingu Heritage, dags. 25. nóvember 2011, sem Lorraine staðfesti fyrir dómi að væri rétt.
Stefnandi kom aftur til starfa í október 2003 og starfaði hjá stefnda til ársins 2008 sem flugstjóri. Sætti hann reglubundnu eftirliti þann tíma en vorið 2008 komu fram í hjartasíritum óeðlilegar vísbendingar. Fór svo að heilbrigðisvottorð hans var dregið til baka og var stefnandi talinn óvinnufær frá og með 15. júní 2008.
Fyrir liggur, samkvæmt því sem að framan er rakið, að þegar stefnandi hætti störfum 2008 var flugskírteini hans ekki tryggt.
Stefnandi byggir kröfur sínar í málinu á grein 08-3 í kjarasamningi aðila. Byggir stefnandi á því að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni með því að hafa vanrækt skyldu sínar samkvæmt nefndu ákvæði kjarasamningsins. Þá er því haldið fram að stefndi hafi engan reka gert að því tryggja stefnanda skírteinistryggingu samkvæmt ákvæðinu og sé stefndi því ábyrgur fyrir því tjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir.
Stefndi ber því við að stefnda hafi, samkvæmt kjarasamningi, ekki verið skylt að tryggja skíreini stefnanda aftur. Vísar hann í því sambandi til greinar 08-8 í kjarasamningi aðila. Það sé þekkt að vátryggingafélög tryggi ekki áhættur sem þekktar eru við tryggingartöku. Vísar hann í því sambandi til 1. mgr. 19. gr. og 1. og 2. mgr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Tryggingafélag stefnda hafi hafnað skírteinistryggingu fyrir stefnanda og ekki hafi verið mögulegt fyrir stefnda að útvega stefnanda skíteinistryggingu. Því er haldið fram að stefnandi hefði hvergi fengið skírteinistryggingu sem hefði tryggt hann gegn þeim áhættuþáttum sem síðar leiddu til þess að hann fékk ekki útgefið heilbrigðisvottorð. Skylda stefnda takmarkist við að félagið geti keypt tryggingu, en fyrir liggi í málinu staðfesting vátryggingafélagsins á því að það var ekki unnt.
Í grein 08-3 í kjarasamningi aðila frá 2010 segir að Flugleiðir skuli á sinn kostnað tryggja skírteini hvers flugmanns fyrir 25.000.000 króna og skuli tryggingin ná yfir réttindamissi um stundarsakir og réttindamissi vegna aldurshrörnunar. Verður að skilja ákvæðið svo að Flugleiðum eða Icelandair Group, sem er aðili málsins eins og áður er gerð grein fyrir, beri að kaupa, á sinn kostnað, frjálsa tryggingu sem ætla verður að sé háð venjulegum skilmálum er gilda á tryggingamarkaði. Í grein 08-8 virðist gert ráð fyrir þessu en þar segir að ef tryggingafélag neitar endurtryggingu eða hækkun á skírteinistryggingu flugmanns eða takmarkar svið hennar við hækkun eða endurnýjun á grundvelli samhljóða læknisvottorðs trúnaðarlæknis samningsaðila skuli Flugleiðir ekki ábyrgir fyrir þeirri hækkun eða takmörkun.
Í ákvæðinu segir einnig að í slíkum tilfellum muni Flugleiðir reyna að fá þær takmarkanir sérstaklega tryggðar og gera það í samráði við FÍA, Félag íslenskra atvinnuflugmanna. FÍA sé jafnframt heimilt, fáist ekki viðunandi trygging samkvæmt ofanskráðu, að leita til tryggingafélaga, innlendra eða erlendra um tryggingu á skírteini viðkomandi flugmanns. Fáist skírteinistrygging allt að einu ekki keypt, greiði Flugleiðir flugmanni þeim sem í hlut á andvirði iðgjalds, sem á við um aðra skírteinistryggingarhafa.
Af grein 08-3 í kjarasamningi aðila verður ekki ráðið að einungis einu sinni verði greitt úr umræddri tryggingu. Felst í ákvæðinu að stefnda beri að tryggja flugmenn sína skírteinistryggingu með þeim takmörkunum sem getur um í grein 08-8. Fyrir liggur að tryggingafélag stefnda hafði alfarið hafnað að tryggja flugskírteini stefnanda. Gegn andmælum stefnanda hefur stefnda ekki tekist að sýna fram á að stefnanda hafi borist bréf félagsins, dags. 7. nóvember 2003. Þá telst stefndi heldur ekki hafa sýnt fram á að félagið hafi sent FÍA afrit þess bréfs eða leitað samráðs við FÍA, eins og ráð er fyrir gert í fyrrgreindu ákvæði kjarasamningsins.
Eins og áður greinir ber stefndi því við að stefnandi hefði hvergi fengið skírteinistryggingu sem hefði tryggt hann gegn þeim áhættuþáttum sem síðar leiddu til þess að hann fékk ekki útgefið heilbrigðisvottorð. Til stuðnings þeirri fullyrðingu sinni aflaði stefndi matsgerðar dómkvadds matsmanns til þess að meta hvort orsakatengsl væru á milli þeirra áhættuþátta sem leiddu til þess að stefnandi missti atvinnuflugmannsskírteini sitt á árinu 1998 og þess að hann missti það aftur á árinu 2008. Í matsgerð sinni lýsir Halldóra Björnsdóttir, hjarta- og lyflæknir, sjúkrasögu stefnanda og þeim einkennum sem stefnandi hefur greinst með. Í niðurlagi matsgerðar segir:
„Líklegt er að bæði vægt heilaáfall sem Árni fékk á árinu 1998 og þær takttruflanir sem hann greinist með á árinu 2008, tengist hans háþrýstingi og mögulegum háþrýstingstengdum breytingum í hjartavöðva (hypertensive heart disease). Um þetta er þó ekki hægt að fullyrða. Ómskoðun sem gerð var í febrúar 2002 sýndi ekki merki um þykknun á hjartavöðva en eins og áður segir er ekki getið um mögulega aukna stífni.“ Fyrr í matsgerðinni er þess getið að stefnandi hefði verið í háþrýstingslyfjameðferð í átta ár. Það sé vel þekkt að langvarandi háþrýstingur geti leitt til þykknunar á hjartavöðva en þó veggþykkt sé ekki aukin, geti á fyrri stigum sjúkdómsins, sést ákveðnar flæðisbreytingar á ómskoðun sem bent geti til aukinnar stífni í hjartavöðva. Á ómskoðun, sem gerð var í febrúar 2002, hafi ekki verið að sjá merki um aukna veggþykkt en ekki getið um hvort væru merki um aukna stífni. Síðan segir í niðurlagi matsgerðar: „Hann var síðan á lyfjameðferð sem virtist skila árangri. Eftir að hann síðan greindist með takttruflanir voru hins vegar ekki gerðar frekari rannsóknir, ómskoðun eða áreynslupróf sem hefðu skýrt þetta nánar. Það verði að telja líklegt að þær orsakir sem leiddu til þess að Árni missti atvinnuflugmannsréttindi á árinu 1998 hafi a.m.k. verið meðvirkandi þegar hann missti réttindin aftur á árinu 2008 þó ekki sé hægt að fullyrða það út frá fyrirliggjandi gögnum.“
Fallast ber á með stefnda að það sé þekkt staðreynd að tryggingafélög selja ekki tryggingar þegar áhætta er þekkt. Eins og fram kemur í 19. gr. laga nr. 30/2004 ber tryggingartaka að upplýsa um sérstök atvik, sem hann veit, eða má vita, að hafa verulega þýðingu fyrir mat tryggingafélagsins á áhættu.
Fyrir liggur að í ljósi sjúkrasögu stefnanda hafnaði tryggingafélag stefnda því að endurnýja flugskírteinistryggingu hans. Með framlagðri matsgerð þykir stefndi hafa gert það sennilegt að orsakir sem leiddu til þess að Árni missti atvinnuflugmannsréttindi á árinu 1998 hafi a.m.k. verið meðvirkandi þegar hann missti réttindin aftur á árinu 2008. Hefur stefndi þannig sýnt nægilega fram á að í ljósi sjúkrasögu stefnanda hefði stefndi ekki getað tryggt flugskírteini stefnanda vegna þeirra veikinda sem síðar leiddu til að heilbrigðisvottorð hans var fellt úr gildi. Ber því að fella sönnunarbyrði um annað á stefnanda. Þar sem stefnandi hefur ekki sýnt fram á í máli þessu að unnt hefði verið að kaupa slíka tryggingu fyrir hann ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Eins og atvikum háttar þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Icelandair Group hf, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Árna G. Sigurðssonar.
Málskostnaður fellur niður.