Print

Mál nr. 622/2015

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Þuríður B. Sigurjónsdóttir hdl. )
Lykilorð
  • Kærumál
  • Farbann
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. september 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2015, þar sem varnaraðila var áfram gert að sæta farbanni til miðvikudagsins 14. október 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2015.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt fram kröfu um að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að útlendingi, sem kveðst heita X kt. [...], verði gert að sæta farbanni, allt til miðvikudagsins 14. október 2015 kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að lögregla hafi nú til rannsóknar mál sem varðar grun um vísvitandi útbreiðslu smitsjúkdómsins HIV. Sé ætlað brot talið geta varðað við 1. mgr. 175. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. 7. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 og jafnframt við 4. mgr. 220. gr. hegningarlaga.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærði komið til lands í [...]2014 og óskað eftir hæli á lögreglustöðinni Hverfisgötu hinn 9. sama mánaðar. Við það tilefni hafi hann gefið upp nafnið X og sagst vera [...] ríkisborgari og fæddur [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn [...] hafi kærði sagst hafa sótt um hæli bæði í [...] og á [...] en í báðum tilvikum hafi beiðni hans hafnað. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að kærði hafi sótt um hæli á [...] hinn [...] og í [...] [...] en umsóknum hans hafi verið hafnað í báðum löndunum. Kærða muni hafa verið vísað á brott með endurkomubanni frá [...] hinn [...]. Hinn 4. mars s.l. hafi kærða verið birt ákvörðun Útlendingastofnunar þar sem hælisumsókn hans var hafnað. Hafi hann kært þá ákvörðun og sæti mál hans meðferð hjá Kærunefnd útlendingamála.

Eftir að kærði kom til landsins hafi hann hafið samband við íslenska konu (A) sem staðið hafi í um 2 mánuði. Upp úr því sambandi hafi slitnað og hann hafið samband við aðra íslenska konu (B). Í lok júní 2015 muni kona frá [...] hafa hringt í A og upplýst hana um að kærði væri smitaður af HIV. Umrædd kona hafi sagst hafa átt í sambandi við kærða í [...] og sagt að hann hefði ásakað hana um að hafa smitað hann af HIV. Í kjölfar upplýsinganna sem A hafi borist frá [...] konunni hafi  A farið í próf og hafi hún reynst smituð af HIV. Í kjölfarið hafi kærði verið boðaður í smitsjúkdómapróf á Landspítalanum sem hafi staðfest að hann sé kominn með annað stig sjúkdómsins, Alnæmi (Aids). Þá hafi B einnig gengist undir smitsjúkdómapróf og hafi hún einnig reynst smituð. Samkvæmt læknabréfi, dagsettu 20. júlí 2015, sé áætlað að smit kærða sé um 5 til 7 ára gamalt.

Lögreglan hafi yfirheyrt tvo einstaklinga sem hafi verið í samskiptum við kærða fyrir komu hans til Íslands í september sl. Af framburði þeirra megi ráða að kærði hafi vitað að hann væri smitaður af HIV áður en hann hafi stofnað til sambands við áðurnefndar konur.

Þrjár íslenskar konur sem hafi átt í kynferðislegu sambandi við kærða hér á landi hafi lagt fram kæru á hendur honum. Fram komi hjá þeim öllum að kærði hafi ekki upplýst þær um að hann væri HIV smitaður meðan þær hafi verið í sambandi við hann. Tvær þessara kvenna hafi nú verið greindar HIV smitaðar.

Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins og neiti hann að hafa vitað að hann væri smitaður af HIV. Hann segist ekki hafa vitað af smitinu fyrr en hann hafi verið boðaður í smitsjúkdómapróf fyrrihluta sumars 2015. Kærði kannist hins vegar við að hafa logið því að konu sem hann hafi verið í sambandi við í [...] að hann væri smitaður af HIV.

Samkvæmt reglugerð um skýrslugerð vegna sóttvarna nr. 221/2012 teljist Alnæmi og HIV-veiran til sjúkdóma sem ógni almannaheill og séu þeir tilkynningaskyldir, sbr. sbr. 2. gr. reglugerðarinnar, sem sett sé með stoð í 3. gr. laga nr. 19/1997, um sóttvarnir. Sjúkdómurinn smitist við kynmök og sé smithætta mikil, sérstaklega þegar sjúkdómurinn sé kominn á stig alnæmis. Samkvæmt landlækni sé HIV alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur nái hann að þróast án meðferðar. Engin lækning sé enn til við honum og sé hún ekki í augsýn.

Rannsókn málsins  hafi miðað vel. Lögreglan hafi óskað eftir aðstoð [...] yfirvalda til að afla upplýsinga um heilsufarsgögn kærða meðan hann hafi dvalið á [...]og sé þeirra gagna beðið.

Kærði sé útlendingur og til að tryggja nærveru hans á meðan mál hans sé til meðferðar fyrir yfirvöldum hér á landi þyki nauðsynlegt að honum verði gert að sæta farbanni þar til mál hans sé til lykta leitt. Sé það mat lögreglustjóra að ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi ellegar reyna að koma sér með öðrum hætti undan yfirvöldum.

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 4. mgr. 220. gr. og 1. mgr. 175. gr. hegningarlaga sbr. 7. gr. sóttvarnarlaga nr. 19/1997 1944 og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 100. gr. laga um meðferð sakamála telji lögreglustjóri nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta farbanni til miðvikudagsins 14. október 2015 kl. 16.00.

Niðurstaða síðasta úrskurðar

Varnaraðili liggur undir rökstuddum grun um að hafa framið brot hér á landi sem fangelsisrefsing er lögð við. Varnaraðili er útlendingur sem óskað hefur hælis hér á landi. Hælisumsókn hans hefur verið hafnað af Útlendingastofnun en hann kærði þá ákvörðun og er sú kæra nú fyrir kærunefnd útlendingamála. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er í kærunefnd beðið niðurstöðu rannsóknar lögreglu í þessu máli.

Verði varnaraðili fundinn sekur um brot þau sem hann er grunaður um á hann yfir höfði sér refsingu hér á landi sem getur samkvæmt ákvæðum hegningarlaga varðað fangelsi. Varnaraðili sætti fyrst gæsluvarðhaldi á grundvelli úrskurðar héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. júlí sl. en farbanni frá 19. ágúst sl. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 538/2015 var úrskurður héraðsdóms um farbann staðfestur. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en varnaraðili sé enn undir rökstuddum grun um að hafa framið brot þau sem eru til rannsóknar. Eru skilyrði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 því enn fyrir hendi.

Þótt varnaraðili hafi í upphafi komið til landsins í því skyni að óska hér hælis og upplýst sé að hann sé nú í sambandi með íslenskri konu, verður, vegna þessarar rannsóknar lögreglu og hugsanlegrar málsóknar í kjölfarið, að ætla að nú sé hætta á að hann reyni að koma sér hjá málssókn og mögulegri refsingu hér á landi með því að koma sér úr landi. Eru því enn fyrir hendi skilyrði þess að varnaraðila verði gert að sæta farbanni sbr. 1. mgr. 100. gr. sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu sóknaraðila þar að lútandi.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðili, [...], fæddur [...], skal áfram sæta farbanni, allt til miðvikudagsins 14. október 2015 kl. 16:00.