Mál nr. 683/2017
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. október 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. nóvember 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 30. október 2017 eru varnaraðila gefin að sök tiltekin brot, meðal annars gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Að því gættu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 30. október 2017
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, fæddum [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. nóvember 2017, kl. 16:00.
Í greinargerð sækjanda kemur fram að X hafi sótt um hæli á Íslandi í september 2015. Kvaðst hann þá heita X og vera frá Marokkó, m.a. komi fram í viðtali hans að hann kvaðst hafa setið í fangelsi í Marokkó í fimm mánuði vegna þátttöku sinnar í andspyrnuhreyfingu. X hafi staðfest nafn sitt í viðtalinu og við lögreglu. Búið sé að taka ákvörðun um hælisumsókn X og hafi honum verið synjað um vernd síðast með ákvörðun kærunefndar útlendingamála þann 26. janúar 2017. Unnið sé að því brottvísa X frá Íslandi. Embætti Ríkislögreglustjóra (RLS) hafi í því skyni sent formlega beiðni til yfirvalda í Marokkó um að útbúa ferðaskilríki fyrir kærða og taka á móti honum og hafi sendiráð Íslands í Osló einnig komið að samskiptunum milli landanna. Þá hafi RLS ásamt sendiráði Íslands verið í stöðugum samskiptum við sendiráð Marokkó í Ósló, Noregi, og knúið á afgreiðslu beiðnarinnar sem sé í vinnslu. X hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald þann 3. september sl. samfleytt til dagsins í dag með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur nr. R-296/2017 og 310/2017, Hæstiréttur hafi staðfest síðarnefndan úrskurð með dómi nr. 595/2017 frá 20. september 2017. Þá hafi Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðað kærða til áframhaldandi gæsluvarðhalds til dagsins í dag með úrskurði 2. október sl. í máli nr. R-344/2017.
Sækjandi vísar til þess að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af X undanfarna mánuði vegna m.a. hótana, ógnandi og annarlegrar hegðunar hans, ofbeldis og fíkniefnalagabrota. Í kjölfar þess hafi farið fram ógnarmat á X hjá embætti Ríkislögreglustjóra þar sem m.a. hafi verið óskað eftir upplýsingum frá erlendum löggæslustofnunum um X. Við gerð matsins hafi komið í ljós að X hafi birt mynd á Facebooksíðu sinni þann 1. ágúst sl. tengda hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og ritað Ísland undir myndina.
Einnig hafi komið í ljós að X hafi ekki gefið upp eftirnafn sitt við íslensk yfirvöld, eftirnafn hans muni vera X og hann hafi því villt á sér heimildir með því að leyna eftirnafni sínu. X hafi gefið það upp við síðustu fyrirtöku gæsluvarðhalds að hann kysi að nota ekki ættarnafn sitt en útskýrir í engu hvers vegna hann hafi ekki gefið nafnið upp við lögreglu. Þá hafi einnig komið fram upplýsingar að hann hefði gefið upp nokkur mismunandi nöfn og útgáfur af nafni sínu og annað fæðingarár, m.a. í Noregi, Belgíu, Hollandi og Frakklandi. Þá fylgdu upplýsingar frá alþjóðlegum löggæslustofnunum um að X hafi gerst sekur um þjófnaði í Noregi á árinu 2014, notað fölsuð ferðaskilríki í Hollandi, brotið útlendingalög í Frakklandi á árinu 2008. Þá sé hann skráður í málaskrá lögreglu í Marokkó fyrir ofbeldi og hótanir í garð foreldra sinna árið 2012. Niðurstaða ógnarmats RLS hafi verið að X sé brotamaður og fullt tilefni til að lögregla ynni í hans málum vegna ógnandi og undarlegs atferlis hans.
Ríkislögreglustjóra hafi síðan borist nýjar upplýsingar sem urðu til þess að ógnarmatið hafi verið uppfært þann 27. september sl. Kærði mun hafa meðan hann sætti gæsluvarðhaldi í september sýnt af sér ógnandi og niðrandi hegðun gagnvart bæði samföngum sínum og starfsmönnum. Kærði hafi sagst vera liðsmaður ISIS hryðjuverkasamtakanna og skrifað áróður tengdan samtökunum í klefa sínum, en RLS hafi ekki fengið upplýsingar sem staðfesta að kærði sé tengdur ISIS. Þá hafi kærði haft uppi hótanir og ógnandi hegðun gagnvart starfsmönnum, sem og almenningi.
Lögreglustjóri gaf í dag út ákæru dagsetta í dag vegna neðangreindra brota ákærða:
[...] – 6. júlí 2017
Lögreglu barst tilkynning um ákærða þar sem hann var nakinn og blóðugur og gengi berserksgang. Hafði ákærði m.a. brotið topplúgu á bifreið og tekið um andlit manns, rifið af honum gleraugun og klínt blóði í fötin hans. Ákærði kvaðst hafa neytt lyfja og reykt marijúana áður en þetta gerðist og því hafi hann ekki getað ráðið við sig og ekki geta útskýrt hegðun sína.
[...] – 2. ágúst 2017.
Ákærði tekinn við að reykja marijúana. Efnin tekin af honum.
[...] – 16. ágúst 2017
Starfsmaður í húsnæði fyrir hælisleitendur tilkynnir um ákærða. Starfsmenn voru að vísa honum úr húsnæðinu en hann hafði einnig fíkniefni í vörslum sínum. Var hann að reykja marijúana þegar lögreglan hafi komiðá vettvang og kastaði frá sér poka með efnum í, sem lögreglan haldlagði.
[...] – 2. september 2017
Tilkynnt um mann á [...] í Skeifunni. Var þar um ákærða að ræða. Hafði hann beðið um að fá að fara á salerni en ekki fengið. Varð hann þá ósáttur og heimtaði að fá gaffal. Var honum einnig neitað um það og hótaði hann þá að eyðileggja posa á staðnum ef hann fengi ekki gaffal. Þegar honum var aftur neitað, reif hann í snúrur sem voru í posum í afgreiðslunni og eyðilagði tvo posa. Þá fór hann út og reif rúðuþurrku af bifreiðinni [...] sem stóð fyrir utan staðinn og fótspor voru á bifreiðinni. Er lögregla kom á staðinn var hann farinn af vettvangi, en fundu lögreglumenn hann í [...], Skeifunni. Sáu þeir hann ganga rakleiðis framhjá afgreiðslukössum verslunarinnar. Handtóku þeir hann, en við handtökuna datt svitalyktareyðir undan úlpu hans og vildi kærði meina að lögreglumenn hefðu komið þessu fyrir á honum. Við handtökuna spurði kærði lögreglumenn hvort þeir væru ekki vopnaðir byssum og hvort þeir gætu ekki skotið hann.
Önnur mál sem séu til meðferðar og til rannsóknar hjá lögreglu undanfarna mánuði eru eftirfarandi:
[...] – 2. ágúst 2017
Tilkynnt um kærða þar sem hann var með óspektir í íbúð fyrir hælisleitendur. Hafði hann neytt mikils magns af áfengi og neytt marijúana.
[...] – 10. ágúst 2017
Starfsmaður hjá hælisteymi Reykjavíkurborgar tilkynnir um undarlega hegðun hælisleitanda og taldi hann vera í geðhvörfum. Hafði kærði þar brotið rúðu og viðurkenndi það þar sem verkamenn hafi verið að vinna í húsinu fyrr um daginn.
[...] – 10. ágúst 2017
Starfsmaður hjá hælisteymi Reykjavíkurborgar tilkynnir um fíkniefnaneyslu kærða á heimili fyrir hælisleitendur á [...]. Þá vildi starfsmaðurinn jafnframt leggja fram kæru á hendur kærða fyrir eignaspjöll, en kærði hafði eyðilagt fánastöng einhverjum dögum áður. Játaði kærði vörslur kannabisefna sem fundust á honum, sem og eignaspjöllin.
[...] – 16. ágúst 2017
Þá var tilkynnt um mann með ólæti á samkomustaðnum [...]. Kærði var þar í annarlegu ástandi og æstur og gestir og starfsfólk [...] voru hrædd við hann. Var hann handtekinn fyrir brot á lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.
[...] – 24. ágúst 2017
Starfsmaður hælissviðs tilkynnir um að kærði hafi sagt við sig: „Perhaps I need to get a gun and kill somebody to be able to get in jail, I want to be in jail“. Þó var kærði yfirvegaður þegar hann lét þessi orð falla. Kærði hefur viðurkennt að hafa uppi þessi ummæli og kvaðst aðspurður ekki vita hvort að hann myndi gera það sem hann hótaði.
[...] – 2. september 2017
Sjúkrabíll fenginn til að aðstoða kærða, sem var með brjóstverk. Í sjúkrabílnum á leiðinni á slysadeild sýndi hann af sér afbrigðilega hegðun sökum vímuástands og ekki var hægt að sinna honum á slysadeild vegna þessa. Var hann vistaður í fangaklefa. Í fangaklefa neitaði hann að fá föt til að klæðast eða mat og drakk einungis eitt vatnsglas.
Sækjandi vísar einnig til þess að í lögreglukerfinu séu bókanir frá 30. ágúst til 1. september sl. þar sem lögregla hafi ítrekað þurft að hafa afskipti af kærða vegna hegðunar hans, en hann hafi t.d. neitað að yfirgefa húsnæði [...], verið ógnandi við starfsfólk og gesti tjaldsvæðisins í [...] og hótað öryggisverði Securitas sem starfi í þjónustumiðstöð fyrir hælisleitendur líkamsmeiðingum. Þá hafi kærði einnig verið handtekinn fyrir þjófnað á rakspíra þann 5. október 2015 í máli nr. [...].
Þann 1. september sl. hafi verið tekin ákvörðun á grundvelli a. og b. liðar 114. gr. um að kærða yrði gert að sæta tilkynningarskyldu á lögreglustöð, en honum hafði áður verið vísað úr húsnæði á vegum Útlendingastofnunar og hafi því verið húsnæðislaus. Lögregla hafi þurft að hafa afskipti af kærða og handtaka hann vegna ástands og brota í tvígang þann 2. september sl. Þykir því ljóst að kærði hafi ekki látið af hegðun sinni þrátt fyrir að reynt hafi verið að beita vægari úrræðum.
Að mati lögreglu séu skilyrði a. og b. liðar 115. gr. laga, um útlendinga nr. 80/2016, uppfyllt enda liggi fyrir að X hafi villt á sér heimildir með því að fela eftirnafn sitt, þá hafi hann sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að hann ógni almannahagsmunum bæði með ofbeldishneigðri hegðun, ógnandi og annarlegri háttsemi og ítrekuðum hótunum gagnvart starfsmönnum og almennum borgurum. Talið sé fullt tilefni til að taka hótanir hans alvarlega, sem og ofbeldishegðun hans undanfarna mánuði, þar sem lögregla hafi margítrekað haft af honum afskipti. Ekkert lát virðist vera á ógnandi og hættulegri hegðunar hans þrátt fyrir að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi og því sé að mati lögreglu ekki unnt að beita vægari úrræðum en áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Vegna framangreinds sé að mati lögreglu nauðsynlegt að X verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en ekki verði talið að vægari ráðstafanir hafi náð eða muni ná ætluðum tilgangi til að vernda almannahagsmuni og koma í veg fyrir ofbeldishegðun, sem og sjálfskaðandi hegðun, með vísan til 2. mgr. 115. gr. sömu laga.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, a. og b. liðar 115. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, er þess beðist að krafan nái fram að ganga.
Varnaraðili mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann málsvarnarlauna fyrir skipaðan verjanda sinn.
Varnaraðili byggir mótmæli sín einkum á því að vægari úrræði hafi ekki verið fullreynd að hans mati. Vísar hann til þess að ákæra lögreglu lúti að brotum sem ekki geta talist alvarleg. Þá telur hann sig hafa verið of lengi í gæsluvarðhaldi og telur ekki þörf á að hann sæti svo löngu gæsluvarðhaldi þar sem það standi til að vísa honum úr landi.
Niðurstaða
Samkvæmt gögnum málsins var kærði upphaflega úrskurðaður í gæsluvarðhald frá og með 3. september sl. og síðan aftur 18. september til 2. október sl. á grundvelli a- og b-liðar 115. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 með úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur. Síðari úrskurðinn var kærður til Hæstaréttar sem staðfesti úrskurðinn með dómi 20. september 2017.
Eins og nánar er lýst í greinargerð sóknaraðila var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna gruns um nokkur brot en samkvæmt ákæru sem lögð er fram í dóminum og dagsett er í dag hefur hann nú verið ákærður fyrir nokkur þessara brota.
Í uppfærðu ógnarmati ríkislögreglustjóra frá 27. september 2017 kemur fram að varnaraðili hafi sýnt af sér ógnandi hegðun í gæsluvarðhaldi gagnvart fangavörðum og samföngum. Í skýrslu fangavarðar í fangelsinu á Hólmsheiði kemur fram að ákærði hafi mikið verið að tala um hryðjuverkasamtökin ISIS og annað tengt hryðjuverkastarfsemi. Ákærði hafi einnig verið með ógnandi hegðun við samfanga sína og talað um að hann hefði áður verið í fangelsi og væri harður ISIS liði. Þá hafi ákærði glaðst yfir fréttum sem birst hafi um árásir íslamskra hryðjuverkasamtaka á Vesturlandabúa. Einnig hafi ákærði verið með yfirlýsingar um dauða yfir Íslandi og Íslendingum.
Í kjölfarið krafðist lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir kærða á grundvelli almannahagsmuna, sbr. 2. mgr. 115. gr. nr. 80/2016, um útlendinga. Féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á þá beiðni með úrskurði 2. október sl., en þar var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Kærði lýsti því yfir við uppkvaðningu úrskurðarins að hann undi úrskurðinum.
Krafa lögreglustjóra í máli þessu byggist á ákvæðum a- og b-liðar 1. mgr. 115. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga. Samkvæmt a-lið ákvæðisins má handtaka útlending og setja hann í gæsluvarðhald ef ekki liggur fyrir hver útlendingurinn er, útlendingurinn neitar að gefa upp hver hann er eða ef rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er. Í b-lið sama ákvæðisins er að finna heimild til handtöku og gæsluvarðhalds ef útlendingur sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að hann ógni allsherjarreglu, öryggi ríkisins eða almannahagsmunum.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja ljóst að ákærði hafi sýnt af sér háttsemi sem sé þess eðlis að uppfyllt séu skilyrði b-liðar 1. mgr. 115. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þegar litið er til gagna málsins og greinargerðar lögreglu verður enn fremur að telja að vægari úrræði hafi verið fullreynd.
Með vísan til alls framangreinds er fallist á kröfu lögreglu eins og hún er fram sett. Ekki þykja efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma.
Þóknun skipaðs verjanda kærða fyrir rekstur málsins hingað til og að meðtöldum virðisaukaskatti skal greidd úr ríkissjóði eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærði, X, fæddur [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 27. nóvember 2017, kl. 16:00.
Þóknun verjanda ákærða, Björgvins Jónssonar hrl., 124.000 krónur skal greidd úr ríkissjóði.