Mál nr. 95/2017
- Kærumál
- Dómari
- Vanhæfi
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem dómari málsins vék sæti með vísan til f. og g. liða 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2017 sem barst héraðsdómi sama dag og réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. janúar 2017 þar sem Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað á um að hann viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn, Ólafur Ólafsson, krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en aðrir varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Sóknaraðili, sem kveðst vera hagsmunasamtök almennra hluta- og sparifjáreigenda og hafi meðal annars þann skráða tilgang að gæta hagsmuna félagsmanna gagnvart stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, útgefendum hlutabréfa og annarra verðbréfa, fjölmiðlum og öðrum þeim sem haft geta áhrif á hag þeirra er fjárfesta í hlutabréfum, verðbréfum og öðrum sparnaðarleiðum. Tilgangi sínum kveðst sóknaraðili meðal annars ná með því að hafa vakandi auga með því að reglur um verðbréfaviðskipti séu virtar og reka í eigin nafni eða annarra dómsmál til þess að tryggja að lögbundin réttindi félagsmanna séu virt. Sóknaraðili höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi með stefnu birtri 10. og 19. febrúar 2016 til heimtu skaðabóta úr hendi varnaraðila eða til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra. Sóknaraðili gerir grein fyrir því í héraðsdómsstefnu að samtökin hafi eignast fyrir framsal öll hlutabréf sem tiltekinn lífeyrissjóður hafi átt í Kaupþingi banka hf. Varnaraðilar hafi verið í fyrirsvari fyrir bankann eða haft sérstök tengsl við hann og eigi það að leiða til þess að skaðabótaábyrgð þeirra allra sé óskipt á því tjóni sem krafan tekur til. Sóknaraðili kveðst hafa eignast 196.108 hluti í bankanum með framangreindum hætti ,,auk allra tilheyrandi kröfuréttinda, þ.m.t. skaðabótakrafna ... vegna allra þeirra hlutabréfa sem lífeyrissjóðurinn átti í Kaupþingi fram að falli bankans 2008.“ Reiknist sóknaraðila svo til að tjón lífeyrissjóðsins, sem hann leiði rétt sinn frá, hafi verið 902.493.733 krónur. Hafi það falist í nettómismun kaupverðs hlutabréfa sem lífeyrissjóðurinn keypti annars vegar og söluverðs þeirra hlutabréfa, sem hann seldi fyrir fall bankans, auk arðs sem hann hafi notið af hlutabréfunum hins vegar. Er framangreind fjárhæð aðalkrafa sóknaraðila í málinu.
Sóknaraðili reisir rétt sinn til skaðabóta á því að varnaraðilar beri óskipta ábyrgð á því tjóni, sem lífeyrissjóðurinn hafi orðið fyrir vegna markaðsmisnotkunar sem átt hafi sér stað í starfsemi Kaupþings banka hf. á árunum 2007 til 2008. Hafi þeir með markaðsmisnotkun, meðal annars þeirri sem þeir Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur og Magnús hafa verið sakfelldir fyrir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013 og dómi Hæstaréttar frá 6. október 2016 í máli nr. 498/2015, valdið tjóninu. Varnaraðilinn Ólafur beri einnig ábyrgð óskipt með hinum vegna áhrifa sinna á stjórn bankans. Auk þess vísar sóknaraðili til markaðsmisnotkunar sem sakfellt var fyrir í dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að veigamesta tilvik áðurnefndrar markaðsmisnotkunar sé það sem ákært var fyrir í I. kafla ákæru þeirrar er dæmt var um í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013 og síðar í Hæstarétti í máli nr. 498/2015. Sú markaðsmisnotkun hafi átt sér stað á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 9. október 2008 og hafi í stórum dráttum falist í því að deild eigin viðskipta Kaupþings banka hf. keypti mikið magn hlutabréfa í bankanum í svonefndum pöruðum viðskiptum og seldi síðan hlutabréfin í stórum utanþingsviðskiptum til eignalausra eða eignalítilla félaga þannig að bankinn lánaði kaupverðið að fullu eða að verulegu leyti, oftast án annarra trygginga en hlutabréfanna sjálfra. Með þessu hafi verði hlutabréfa í bankanum á markaði verið haldið of háu og látið líta svo út að mun meiri eftirspurn væri eftir hlutabréfunum en raun bar vitni.
Varnaraðilar kröfðust aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara sýknu þar sem skilyrði til skaðabóta væru ekki fyrir hendi.
II
Með hinum kærða úrskurði vék héraðsdómari sá, sem með málið skyldi fara, sæti þar sem sonur hans, Magnús Kristinn Ásgeirsson, yfirlögfræðingur kauphallar Nasdaq OMX á Íslandi hf., hafi gefið skýrslu sem vitni fyrir héraðsdómi í málinu nr. S-206/2013. Taldi dómarinn sig vera vanhæfan til að fara með málið með vísan til f. liðar og eftir atvikum g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Af gögnum málsins verður ráðið að Magnús Kristinn Ásgeirsson, lögfræðingur, hafi ráðist til starfa sem fastráðinn starfsmaður á eftirlitssviði kauphallar Nasdaq OMX á Íslandi hf. í byrjun árs 2008 og átt að sinna þar ráðgjöf. Hann hafi síðar orðið forstöðumaður lögfræðisviðs kauphallarinnar. Fyrir liggur að Magnús Kristinn ritaði ásamt forstöðumanni eftirlitssviðs bréf 27. janúar 2009 til Fjármálaeftirlitsins um viðskipti með hlutabréf í Glitni banka hf., Kaupþingi banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. Í bréfinu kom meðal annars fram að kauphöllin hafi athugað verðmyndun á hlutabréfum í bönkunum og veitt því athygli að miðlarar innan bankanna, sem áttu viðskipti fyrir eigin reikning þeirra á síðustu mánuðum, hafi keypt mun fleiri hlutabréf í þeim en þeir seldu. Þegar mikill söluþrýstingur hafi verið hafi miðlararnir ,,allt að því“ einokað viðskiptin á kauphlið tilboðabókar eigin banka. Slíkur kaupþrýstingur geti haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna. Í bréfinu var jafnframt gerð sérstaklega grein fyrir athugun sem tók til tímabilsins frá 2. maí til 3. október 2008 og fjallað um kaup miðlara hjá hverjum hinna fjögurra banka, meðal annars hjá Kaupþingi banka hf. Í niðurstöðum bréfsins kom fram að ástæða væri til að rannsaka frekar hvort þessi eigin viðskipti bankanna hafi verið í samræmi við lög. Væri vert að taka til skoðunar hvort bankarnir hafi verið að tryggja óeðlilegt verð á markaði með því að halda verði hlutabréfa uppi eða koma í veg fyrir lækkun þeirra og hvort bankarnir hafi með fyrrgreindri háttsemi sinni brotið gegn ákvæði 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu og sendi 1. október 2009 kæru til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. frá júní 2005 til október 2008. Sú kæra leiddi til ákæru meðal annars á hendur varnaraðilunum Hreiðari Má, Ingólfi, Magnúsi og Sigurði sem um var dæmt í áðurnefndu héraðsdómsmáli nr. S-206/2013 og var til endurskoðunar í hæstaréttarmálinu nr. 498/2015. Í því máli gaf Magnús Kristinn skýrslu fyrir héraðsdómi sem vitni. Þar bar hann meðal annars um eftirlit kauphallarinnar með hlutabréfamarkaði og rannsókn á ætlaðri markaðsmisnotkun í starfi Kaupþings banka hf.
Í málinu liggur einnig fyrir bréf kauphallarinnar 30. september 2011, undirritað af Magnúsi Kristni, sem er svar við bréfi Fjármálaeftirlitsins 16. ágúst sama ár þar sem því var haldið fram að kauphöllin hefði ekki sinnt rafrænu eftirliti með hlutabréfamarkaði hér á landi með fullnægjandi hætti fram til hausts 2008. Í áðurnefndu svarbréfi kauphallarinnar var meðal annars fjallað um ætlaða markaðsmisnotkun bankanna, ástæður fyrir henni, um burði bankanna til þess að hafa áhrif á verð hlutabréfa á markaði, ætlaðan hlut stjórnenda bankanna í markaðsmisnotkuninni, sölu bankanna á miklu magni hlutabréfa í utanþingsviðskiptum og takmarkaða möguleika kauphallarinnar við eftirlitsstarf sitt vegna eðlis ætlaðrar markaðsmisnotkunar og aðferðar við hana.
III
Eins og fram er komið er mál þetta höfðað af hálfu sóknaraðila til heimtu skaðabóta óskipt úr hendi varnaraðila vegna tjóns sem leiddi af markaðsmisnotkun þeirri sem þeir hafi með einum eða öðrum hætti verið sakfelldir fyrir. Veigamikill hluti markaðsmisnotkunarinnar er sá hluti sem dæmt var um í héraðsdómsmáli nr. S-206/2013 og dómi Hæstaréttar í máli nr. 498/2015. Í málinu er meðal annars ágreiningur um hvort skilyrði skaðabótaábyrgðar vegna ætlaðs tjóns af markaðsmisnotkuninni séu fyrir hendi. Ekki er sjálfgefið að um skaðabótaábyrgðina sjálfa og umfang hennar, ef til kemur, gildi að öllu leyti sömu sjónarmið og við mat á refsinæmi háttsemi þeirrar, sem sakfellt hefur verið fyrir. Vegna þátttöku Magnúsar Kristins í rannsókn á atvikum að markaðsmisnotkun þeirri, sem sóknaraðili telur að valdið hafi því tjóni sem hann krefst bóta fyrir, og bréfa sem Magnús Kristinn hefur undirritað og hafa þýðingu í málinu, kann að vera að hann verði kvaddur fyrir dóm sem vitni. Eru því ekki efni til að hnekkja því mati héraðsdómara að honum beri að víkja sæti í málinu með vísan til f. og g. liða 5. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilanum Ólafi Ólafssyni kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Samtök sparifjáreigenda, greiði varnaraðila, Ólafi Ólafssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 25. janúar 2017.
Mál þetta, sem þingfest var 5. apríl 2016, er höfðað af Samtökum sparifjáreigenda, Borgartúni 23, Reykjavík, með stefnu birtri 10. og 19. febrúar 2016. Stefndu eru Hreiðar Már Sigurðsson, með lögheimili í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, með lögheimili í Lúxemborg, Magnús Guðmundsson, með lögheimili í Lúxemborg, Ólafur Ólafsson, með lögheimili í Sviss, og Sigurður Einarsson, með lögheimili að Þorragötu 7, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 902.493.733 krónur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu in solidum gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlotist hafi af markaðsmisnotkun stefndu með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Stefndu Hreiðar Már, Magnús, Ólafur og Sigurður tóku til varna í málinu og krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt krefjast þeir málskostnaðar að mati dómsins.
Fram kemur í stefnu að stefnandi byggir málatilbúnað sinn á almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð utan samninga. Fullsannað sé að stefndu hafi sameiginlega viðhaft markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi á árunum 2007-2008, orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi og tjóns stefnanda og að tjónið sé sennileg afleiðing hennar. Er m.a. vísað til þess að stefndu hafi allir verið sakfelldir fyrir þá háttsemi sem málatilbúnaður stefnanda byggist að mestu leyti á, sbr. dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013. Hafi dómarnir fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í þeim greini þar til hið gagnstæða sé sannað, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með tilliti til þess hvernig mál þetta er vaxið, og þar sem dómara er kunnugt um það að sonur hans, Magnús Kristinn Ásgeirsson, yfirlögfræðingur Kauphallarinnar, Nasdaq á Íslandi, gaf skýrslu sem vitni fyrir héraðsdómi í framangreindu máli nr. S-206/2013, lítur dómari svo á að hann sé vanhæfur til að fara með málið með vísan til ákv. f-liðar og eftir atvikum g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ákveður dómari því að víkja sæti í máli þessu.
Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Ásgeir Magnússon dómstjóri víkur sæti í máli þessu.