Print

Mál nr. 731/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Kári Ólafsson fulltrúi)
gegn
X (Steinbergur Finnbogason hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. nóvember 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. desember 2017 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og að honum verði ekki gert að sæta einangrun á meðan á því stendur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

                                                              

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2017.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 6. desember nk. til kl. 16.00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð sækjanda kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar mál er varði grun um mansal og vændisstarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Upphaf rannsóknarinnar megi rekja til þess að upplýsingagjafi hafi haft samband við lögreglu og viljað koma því á framfæri að X hefði í viðræðum við sig greint frá því að hann væri að gera út stúlkur í vændi á Íslandi. Það hafi verið mat lögreglu að upplýsingagjafi væri trúverðugur. Upplýsingagjafi segist hafa hlustað á frásögn X sem hefði greint frá því að mikið væri að gera í þessari vændisstarfsemi og að hann væri með nokkrar stúlkur á sínum snærum, þar með talið stúlkur frá Suður-Ameríku og að fyrirtæki hans hér á Íslandi gengi undir nafninu „[...]“.

                Þá er þess getið að lögregla hafi að undanförnu, og í framhaldi af samtali við upplýsingagjafa, aflað frekari gagna er varði X, kt. [...]. X eigi eldri mál í lögreglukerfi er varði fjársvik og skjalafals og óstaðfestar upplýsingar séu um að hann hafi afplánað dóm á Spáni vegna fíkniefnamisferlis. X hafi áður heitið [...] en hafi látið breyta nafni sínu. Samkvæmt upplýsingum lögreglu sé X í sambúð með Y og sé hún upprunalega frá Perú.

                Í greinargerð lögreglustjóra er tekið fram að lögregla hafi rökstuddan grun um umfangsmikla vændisstarfsemi sem hafi verið haldið úti af X og Y. Leiki grunur á akstri vændiskvenna til kaupenda þjónustunnar og skipulagning á aðstæðum í húsnæði á þeirra vegum en nú þegar sé umfang starfseminnar á þann veg að vændi sé gert út frá þremur stöðum og samtals fimm konur séu að selja sig. Þá hafi lögreglan einnig aflað gagna þar sem X ræði við óþekktan karlmann um þær vændiskonur sem séu á hans snærum og hann kalli “dilkakjötið sitt”.

                Þá er þess getið að lögregla hafi einnig við rannsókn þessa máls aflað gagna sem sýni fram á kaup á fjölda einstaklinga á vændi í gegnum þá þjónustu X og Y sem lögreglan hafi haft til rannsóknar og muni lögreglan fylgja eftir rannsókn á þeim málum, aðskildri frá ofangreindu máli, þar sem einstaklingar verði yfirheyrðir vegna þeirra, en sú vinna sé ekki enn hafin enda umfangið mikið að því er talið sé.

                Sækjandi tekur fram að þann 21. nóvember sl. hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu framkvæmt þrjár húsleitir á grundvelli úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur vegna rannsóknar málsins. Við aðgerðir lögreglu hafi þau X og Y verið handtekinn, X hafi verið handtekinn í [...] en Y í [...]. Þá hafi þremur stúlkum frá Suður-Ameríku verið komið fyrir í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Við húsleitir lögreglu hafi verið lagt hald á töluvert magn fjármuna í reiðufé, síma- og tölvubúnað, ásamt skjölum sem lögregla ætli að tengist rannsókn þessari með beinum hætti, svo sem viðskiptadagbók og skipulag um greiðslur. Ekki hafi tekist að yfirfara öll hin haldlögðu gögn enda fylgir því tímafrek vinna, einkum og sér við tölvugögnin.

                Þá er þess getið að í framhaldi af aðgerðum lögreglu þann 21. nóvember sl. hafi þau X og Y verið yfirheyrð þar sem þau hafi notið réttarstöðu sakborninga. X hafi að litlu leyti viljað tjá sig um sakarefnið og neitað sök. X hafi greint frá því að kona hans væri með einhverja starfsemi sem hann kynni ekki deili á og segði hana þurfa að greina frá þessari starfsemi við lögreglu. Ljóst sé að frásögn þessi sé í engu samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar lögreglu. Ekki sé samræmi í framburði kærðu og X að mati lögreglu.

                Í greinargerð sækjanda kemur einnig fram að lögregla hafi jafnframt tekið skýrslur af vitnum sem lögreglu hafi grunað að væru að stunda vændi. Við þær skýrslutökur liggi fyrir játningar um vændi af þeirra hálfu og á meðan húsleit hafi farið fram var Y titluð sem “organiser” eða skipuleggjandi. Vitað sé með nokkurri vissu um eina aðra stúlku sem gerð hafi verið út í umræddri vændisstarfssemi en ekki hafi tekist að hafa upp á henni svo hægt væri að yfirheyra hana. Lögregla eigi eftir að kanna frekar hvert umfang stafseminnar hafi verið og hvort fleiri stúlkur hafi verið fengnar í umrædda starfsemi eða reynt að fá þær til þess.

                Sækjandi áréttar að það sé mat lögreglu að fram sé kominn áframhaldandi rökstuddur grunur um þá starfsemi sem hafi verið til rannsóknar, þ.e. að X og Y hafi staðið að milligöngu um og haft viðurværi af vændi annarra. Lögregla hafi einnig lagt hald á mikið magn rafrænna skjala sem þurfi að afrita og telji þar af leiðandi afar mikilvægt fyrir rannsókn málsins að fenginn verði tíma til þess að afrita þau skjöl án þess að sakborningar málsins geti spillt sönnunargögnum en um sé að ræða samskipti á samskiptaforritum, tölvupóst og fleiri rafræn gögn sem ætla megi að torveldi rannsókn málsins komi þau til með að spillast. Rannsókn málsins miði vel en ennþá eigi eftir að bera undir sakborninga málsins frekari gögn sem lögreglan hafi aflað.

                Um lagarök tekur sækjandi fram að lögreglu þyki fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sek um hagnýtingu vændis og verið aðalskipuleggjandi annars umfangsmikillar vændisstarfsemi, en slík háttsemi geti varðað allt að fjögurra ára fangelsi og eftir atvikum allt að tólf árum. Í þágu rannsóknarinnar þyki nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna meðan frekari rannsókn fari fram án þess að hætta sé á spillingu rannsóknarhagsmuna af hennar hálfu. Afar mikilvægt þyki að kærða gefist ekkert ráðrúm til þess að spilla rannsóknarhagsmunum svo og með því að setja sig í samband við vitni málsins með tilheyrandi hættu á réttarspjöllum. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur sé vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Niðurstaða:

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varða fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi en þegar hefur verið aflað mikils magns gagna sem þörf er á að rannsaka. Skýrsla hefur verið tekin af kærða og öðrum sakborningi í málinu og er misræmi milli framburða þeirra. Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsókn málsins, t.d. með því að setja sig í samband við samseka eða vitni og hugsanlega afmá ummerki eftir brot. Með vísan til ofangreinds er fallist á að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, til að kærði sæti gæsluvarðhaldi og einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur sbr. 2. mgr. 98. gr. sömu laga. Er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Sigríður Elsa Kjartandóttir héraðsdómari kveður upp þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 6. desember nk. til kl. 16.00. Kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.