Print

Mál nr. 391/2007

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Fyrning

         

Fimmtudaginn 29. nóvember 2007.

Nr. 391/2007.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari)

gegn

Þórði Guðmundssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Fyrning.

 

Hafnað var kröfu Þ um ómerkingu hins áfrýjaða dóms, en krafa hans um frávísun frá héraðsdómi fékk ekki efnislega umfjöllun þar sem hennar var ekki getið í áfrýjunaryfirlýsingu hans. Var Þ sakfelldur fyrir brot á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti til ríkissjóðs að fjárhæð 646.186 krónur og með því að hafa ekki skilað skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu af launum starfsmanna á nánar tilgreindu tímabili og hafa ekki staðið skil á umræddri staðgreiðslu samtals að fjárhæð 3.545.156 krónur. Áttu brotin sér fyrst stað í starfsemi félagsins Í en síðan í starfsemi félagsins I. Voru brotin talin samkynja og eðlislík og framin samfellt á tímabili frá upphafi árs 2000 til september 2001 og töldust í heild stórfelld og því réttilega heimfærð til 1.mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Ekki var fallist á með Þ að brotin væru fyrnd og talið að vegna heimfærslu brotanna til framangreinds ákvæðis almennra hegningarlaga ætti við 10 ára fyrningarfrestur 3. tl. 1. mgr. 81. gr. laganna. Var Þ dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til greiðslu 8.500.000 króna sektar en sæta ella fjögurra mánaða fangelsi. Ekki voru skilyrði til að beita heimildum 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 eða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 til að fara niður úr fésektarlágmarki.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi eða ómerkingar og heimvísunar, til vara sýknu og að því frágengu mildunar refsingar.

Málsatvikum og ferli málsins er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákæran varðar vanskil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda tveggja félaga, Ísland allt ehf. og ICM upplýsingatækni ehf. Ákærði var framkvæmdastjóri þessara félaga. Í yfirlýsingu ákærða um áfrýjun 6. júní 2007 er ekki tekið fram að áfrýjað sé í því skyni að fá málinu vísað frá héraðsdómi. Kemur krafan því ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Ákærði krefst ómerkingar hins áfrýjaða dóms. Skilja verður málflutning hans svo um þetta atriði að með gjaldþroti félaganna á árinu 2003 og 2004 og kröfum starfsmanna um laun í uppsagnarfresti hafi málsgrundvöllur breyst þannig að nauðsynlegt hafi verið að héraðsdómur yrði fjölskipaður samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 þar sem úrslit málsins ráðist að verulegu leyti af mati á sönnun um sérfræðileg efni er varði bókhald og skattskil. Dómara er heimilt en ekki skylt, samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, að kveðja tvo sérfræðinga til setu í dómi. Ekki er tilefni til að hnekkja mati héraðsdómara að þessu leyti. Er hafnað kröfu ákærða um að héraðsdómur verið ómerktur af þeim sökum.

Þau brot sem ákærði var sakfelldur fyrir í héraðsdómi varða vanskil á innheimtum virðisaukaskatti í starfsemi Ísland allt ehf. samtals að fjárhæð 646.186 krónur vegna tímabilanna nóvember til desember 2000 og janúar til febrúar 2001. Þá varða þau vanhöld á að standa skil á lögboðnum skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launum fimm starfsmanna sama félags frá og með janúar 2000 til og með janúar 2001 og að hafa ekki réttilega staðið skil til innheimtumanns ríkissjóðs á lögboðinni afdreginni staðgreiðslu sömu gjalda samtals að fjárhæð 2.226.972 krónur. Komið er fram í málinu að greiddar voru 449.564 krónur af síðastnefndum gjöldum eftir gjalddaga þeirra á grundvelli áætlunar innheimtumanns ríkissjóðs. Einnig var ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekki staðið skil á lögboðnum skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda af launum tveggja starfsmanna ICM upplýsingartækni ehf. á tímabilinu janúar til og með september 2001 og að hafa ekki staðið skil á lögboðinni afdreginni staðgreiðslu sömu gjalda samtals að fjárhæð 1.318.184 krónur. Eins og greinir í héraðsdómi nema umrædd vanskil samtals 4.191.342 krónum. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota hans til refsiákvæða laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Brot þau sem ákærði er sakfelldur fyrir og varða staðgreiðsluskil stóðu yfir samfellt frá upphafi árs 2000 til september 2001 og eru framin í rekstri tveggja einkahlutafélaga. Eru brotin framin í starfsemi Ísland allt ehf. fyrri hluta tímabilsins en í starfsemi ICM upplýsingartækni ehf. þann síðari. Er ákærði hóf rekstur ICM upplýsingartækni ehf. hélt hann áfram samskonar brotum og áður í starfsemi Ísland allt ehf. Brotin í starfsemi ICM upplýsingartækni ehf. varða afdregna staðgreiðslu opinberra gjalda tveggja starfsmanna sem báðir voru meðal þeirra starfsmanna sem brot ákærða í starfsemi Ísland allt ehf. vörðuðu. Brot ákærða gegn lögum nr. 50/1988 í starfsemi Ísland allt ehf. verður að telja eðlislík þeim brotum sem fyrr er getið um. Eins og atvikum er hér háttað eru ekki efni til annars en að meta brotastarfsemi ákærða í heild. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um heimfærslu brota ákærða til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot ákærða sem hann er sakfelldur fyrir verður að telja bæði samkynja og eðlislík og framin samfellt á tímabili frá upphafi árs 2000 til september 2001 í starfsemi tveggja einkahlutafélaga. Miðast fyrningarfrestur við þann tíma þegar síðasta brotið var fullframið við gjalddaga greiðslu vegna staðgreiðsluskila vegna september 2001, þann 15. október sama ár. Var fyrningarfrestur rofinn við skýrslutöku af ákærða sem sakborningi vegna beggja félaganna fyrir skattrannsóknarstjóra ríkisins 16. júní 2004, sbr. 4. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga. Hafa ekki orðið slíkar tafir á meðferð málsins frá þeim tíma að telja megi að ákvæði 2. ml. 5. mgr. sama lagaákvæðis eigi við. Vegna heimfærslu brota ákærða til 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga telst fyrningarfrestur 10 ár, sbr. 3. tl. 1. mgr. 81. gr. sömu laga. Eru brot ákærða samkvæmt framansögðu ekki fyrnd.

Ákærði stóð ekki skil á skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu starfsmanna nefndra félaga og kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til greina að beita ákvæði 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 til að fara niður úr fésektarlágmarki. Þá kemur ekki til greina að beita sambærilegri heimild í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 þar sem ekkert var greitt upp í vanskil á virðisaukaskatti vegna þeirra tímabila sem ákært var fyrir.

Að þessu gættu en með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um ákvörðun refsingar ákærða og ákvörðun um sakarkostnað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Þórður Guðmundsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 415.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2007.

Mál þetta sem dómtekið var 26. mars sl., er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjórans dagsettri 9. nóvember 2006 á hendur Þórði Guðmundssyni, [kt.], Sæbóli 44a, Grundarfirði, fyrir eftirtalin skatta- og hegningarlagabrot, sem framkvæmdastjóri einkahlutafélaganna ICM upplýsingatækni, kt. 700797-3179, og Ísland allt, kt. 600598-2799.

A.  Ísland allt ehf.

I.    Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og almennum hegningarlögum.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík,  í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á uppgjörstímabilunum nóvember – desember 2000 og janúar – febrúar 2001, samtals að fjárhæð kr. 646.186, sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil                        

nóvember – desember             2000                              kr.             215.035

janúar-febrúar                          2001                              kr.             431.151

samtals   kr.   646.186     

            

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42, 1995, 191. gr. laga nr. 82, 1998, og 3. gr. laga nr. 134, 2005 og sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga nr. 37, 1995, og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II.         Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og almennum hegningarlögum

Með því að hafa vanrækt að standa skil á skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins, á neðangreindum tímabilum, samtals að fjárhæð kr. 2.226.972, og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil

Árið 2000

janúar                       kr.     171.138

febrúar                      kr.     211.771

mars                          kr.     100.990

apríl                           kr.       87.932

maí                            kr.     128.983

júní                            kr.     188.369

júlí                             kr.     188.369

ágúst                        kr.     188.369

september                 kr.     237.753

október                     kr.     170.729

nóvember                 kr.     202.200

desember                      kr.     211.530                                       kr.     2.088.133

Uppgjörstímabil

Árið 2001

janúar                       kr.     138.839                                       kr.           138.839

                                                                         samtals     kr.     2.226.972

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995, og 1. gr. laga nr. 134, 2005 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga 39, 1995, og 139. gr. laga nr. 82, 1998. 

B.  ICM upplýsingatækni ehf.

I.                     Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og almennum hegningarlögum

Með því að hafa vanrækt að standa skil á skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda og eigi staðið sýslumanninum í Hafnarfirði, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins, tekjuárið 2001, samtals að fjárhæð kr. 1.366.614 og sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil

janúar                       kr.       48.424

febrúar                      kr.     153.419

mars                          kr.     153.419

apríl                           kr.     158.845

maí                            kr.     180.615

júní                            kr.     211.635

júlí                             kr.     153.419

ágúst                        kr.     153.419

september                 kr.     153.419

samtals           kr.     1.366.614

 

Telst þetta varða við 2. mgr. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995, og 1. gr. laga nr. 134, 2005 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr. laga 39, 1995, og 139. gr. laga nr. 82, 1998. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

          Fyrir aðalmeðferð málsins leiðrétti sækjandi ákærukafla B-I, þannig að ákærufjárhæð sem þar greinir, 1.366.614 krónur, lækkar í 1.318.184 krónur. Sækjandi kvað lækkunina stafa af því að september greiðsla ársins 2001 lækkaði úr 153.419 krónum niður í 104.989 krónur.

          Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds, en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna er greiðist úr ríkissjóði.

Málsatvik.

          Með bréfi til Ríkislögreglustjórans 27. janúar 2006 vísaði skattrannsóknarstjóri ríkisins máli skattaðilanna ICM upplýsingatækni ehf., og Ísland allt ehf. til opinberrar rannsóknar vegna meintra brota á ákvæðum laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og eftir atvikum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum. Í bréfinu er tilgreint að tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra á skattskilum ICM ehf. og Ísland allt ehf. hafi verið athugun skattrannsóknarstjóra á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti. Rannsókn hafi hafist formlega á skattskilum ICM upplýsingatækni ehf., 19. maí 2004, með því að tilkynning hafi verið send á lögheimili félagsins þess efnis að hafi væri rannsókn á skilum skattaðilans á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda vegna ársins 2001. Þá hafi rannsókn formlega hafist á skattskilum Ísland allt ehf. með því að tilkynning hafi verið send félaginu 19. maí 2004 þess efnis að hafin væri rannsókn á skilum skattaðilans á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti vegna tekjuáranna 2000 og 2001. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá var ákærði skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins ICM ehf. og ákærði var einnig skráður framkvæmdastjóri félagsins Íslandi allt ehf.  Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins frá 13. maí 2005 voru mál skattaðila send yfirskattanefnd og þess krafist að fyrirsvarsmönnum skattaðila, ákærða og A, sem einnig sat í stjórn félaganna tveggja, yrði ákvörðuð sekt vegna brota í störfum sínum. Þar sem afstaða A til meðferðar málsins hjá yfirskattanefnd lá ekki fyrir, hafi brostið skilyrði til þess að fjalla um málið hjá nefndinni og hafi því verið vísað frá með úrskurði nefndarinnar 30. nóvember 2005.

   Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra voru þær að vangoldin afdregin staðgreiðsla opinberra gjalda ICM ehf., vegna janúar til og með september 2001 nam 1.366.614 krónum, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá innheimtumanni ríkissjóðs hafi ekkert verið greitt inn á staðgreiðsluskuld eftir 19. maí 2004.

Niðurstöður rannsóknar skattrannsóknarstjóra vegna Ísland allt ehf. voru þær að vangoldin afdregin staðgreiðsla vegna greiðslutímabilanna janúar 2000 til og með janúar 2001, nam 1.830.972 krónur auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Samkvæmt upplýsingum frá innheimtumanni ríkissjóðs hafi ekkert verið greitt inn á staðgreiðsluskuld eftir 19. maí 2004.

Þá hafi vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur vegna uppgjörstímabilanna nóvember-desember 2000 og janúar til febrúar 2001 numið 646.186 krónum auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar.

Bú Ísland allt ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði uppkveðnum 11. júlí 2002 og bú ICM upplýsingatækni ehf. með úrskurði uppkveðnum 10. febrúar 2003.

Ákærði var yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 16. júní 2004 vegna málefna ICM ehf.  Þar voru bornir undir ákærða launaseðlar B vegna ársins 2001 ásamt umsóknum hans til RSK um leiðréttingu á afdreginni staðgreiðslu og bréfi frá ákærða, merkt sem fylgiskjöl nr. 4.1-4.10. Kvaðst ákærði þá kannast við þessi gögn. Efni skjals nr. 4.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra og ber undirritun ákærða, er á þá leið að þar lýsir ákærði því yfir launagreiðslur fyrir ágúst, september, og hluta af október 2001 hafi verið greiddar til B, starfsmanns ICM ehf., að frádreginni staðgreiðslu. Afdregin staðgreiðsla hafi numið 209.978 krónum. Einnig kvaðst ákærði kannast við launaseðla C merkt sem fylgiskjöl nr. 5.1-5.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Ákærði kvað að ekki hafa verið til peningar nema fyrir útborguðum launum, og því hafi afdreginni staðgreiðslu ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Ákærði kvað að í raun hafi ekki verið tekin ákvörðun um að skila ekki staðgreiðslu, heldur hafi peningar ekki verið til. Ákærði kvað laun hafa verið greidd að fullu, en ekki alltaf á réttum tíma.

Þá var ákærði yfirheyrður hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 16. júní 2004 vegna málefna Ísland allt ehf. Hann kvaðst kannast við launaseðla B, C, D, E og F vegna áranna 2000 og 2001 merkt sem fylgiskjöl nr. 4.1.-4.15. Hann kvaðst hafa staðið í þeirri meiningu að hann hafi skilað staðgreiðsluskilagreinum fyrir árið 2000, en ekki geta sannað það. Hann kvaðst sjálfur hafa annast launaútreikning og útreikning staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir skattaðilann. Mætti kvaðst telja að hann hefði skilað inn skilagreinum, en kvaðst ekki vita hver fjárhæð staðgreiðsluskuldarinnar væri. Þá kvað hann fjárhagserfiðleika skattaðilans hafa verið ástæðu þess að afdreginni staðgreiðslu var ekki skilað og að fjármunir vegna staðgreiðslu hafi verið notaðir í útborguð laun vegna starfsmanna. Hann kvað laun hafa verið greidd að fullu, en ekki alltaf á réttum tíma.

Þá voru borin undir ákærða ljósrit af virðisaukaskattskýrslum skattaðilans merktar sem fylgiskjal nr. 9.1-9.2. Kvaðst ákærði kannast við skýrslurnar og staðfesti undirritun sína á þær. Hann kvað virðisaukaskatti ekki hafa verið skilað á lögmæltum tíma vegna fjárhagserfiðleika skattaðilans og kvaðst ekki hafa neinar forsendur til þess að vefengja tilgreinda skuld við innheimtumann ríkissjóðs. Ákærði kvað að innheimtur virðisaukaskattur hafi verið notaður til að greiða laun.

Ákærði var yfirheyrður hjá Ríkislögreglustjóra 1. apríl 2006 um málefni Ísland allt ehf. Hann kvaðst hafa borið ábyrgð á skattskilum vegna rekstrartímabilsins janúar 2000 til og með febrúar 2001, enda hafi hann verið framkvæmdastjóri félagsins. Ákærða var kynnt samantekt RLS frá 17. febrúar 2006, þar sem teknar voru saman fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu af launum launþega vegna tímabilanna janúar 2000 til og með janúar 2001, sem byggð var á fyrirliggjandi launaseðlum launþeganna B, C, E, D og F. Ákærða kvað öll laun félagsins hafa verið greidd, eftir því sem hann best myndi og kvaðst staðfesta að fyrirliggjandi gögn stöfuðu frá félaginu og væru í samræmi við bókhald eftir því sem hann best vissi, en kvaðst ekki geta tjáð sig um tölulegar niðurstöður RLS, þótt hann rengdi þær ekki. Þá kvað hann mikla rekstrarerfiðleika skattaðilans hafa valdið því að ekki var unnt að greiða gjöldin, laun hafi verið látin hafa forgang. Kvaðst ákærði bera á þessu ábyrgð sem framkvæmdastjóri félagsins. Þá kvað ákærði að allt það fé sem kom inn hafi farið til greiðslu rekstrarkostnaðar.

Þá voru borin undir ákærða ljósrit virðisaukaskattskýrslna í nafni Ísland allt ehf. og staðfesti ákærði gerð og réttmæti skýrslnanna.

Því næst voru málefni ICM upplýsingatækni ehf. borin undir ákærða. Ákærði kvaðst hafa annast daglega fjármálastjórn og borið ábyrgð á skattskilum vegna rekstrartímabilsins janúar til og með september 2001. Ákærði var spurður um það hvers vegna ekki hefði verið skilað inn lögboðnum skilagreinum vegna afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir tímabilið janúar til og með september 2001. Kvaðst ákærði bera á því ábyrgð, en kvaðst ekki muna hvers vegna þeim var ekki skilað. Þá var ákærða kynnt samantekt RLS dagsett 17. febrúar 2006,  þar sem teknar eru saman fjárhæðir afdreginnar staðgreiðslu af launum launþega vegna tímabilanna janúar til og með september 2001. Byggt var á fyrirliggjandi launaseðlum B og C auk yfirlýsingar ákærða frá 15. október 2002 varðandi launagreiðslur til B fyrir ágúst, september og hluta af október 2001. Ákærði staðfesti að fyrirliggjandi gögn stöfuðu frá félaginu og kvað öll laun hafa verið greidd eftir því sem hann best myndi. Honum voru kynntar tölulegar niðurstöður RLS varðandi skil afdreginnar staðgreiðslu og kvaðst hann ekki geta tjáð sig um niðurstöðurnar en að hann rengdi þær ekki. Hann kvað allt fé sem inn kom hafa farið til greiðslu rekstrarkostnaðar.

Í málinu hafa verið lagðar fram kröfulýsingar launþega í þrotabú ICM upplýsingatækni ehf. Kröfulýsing C er vegna launa í uppsagnarfresti fyrir september, október og nóvember 2001, auk orlofs, orlofsuppbótar, desemberuppbótar, dráttarvaxta og málskostnaðar.

Kröfulýsing B er vegna launa í október 2001, auk orlofs, desemberuppbótar, orlofsuppbótar, dráttarvaxta og málskostnaðar.

Þá hafa verið lagðar fram kröfulýsingar í þrotabú Ísland allt ehf. frá launþegunum F, E og D. Kröfulýsing F er vegna mismunar á launum vegna janúar 2001, launa vegna 1.-9. febrúar 2001, orlofs, orlofsuppbótar, dráttarvaxta og málskostnaðar. Kröfulýsing E er vegna launa fyrir október 2000, nóvember 2000 og desember 2000. Þá er gerð krafa um bætur í uppsagnarfresti vegna janúar, febrúar og mars 2001, orlof, orlofsuppbót, dráttarvexti og málskostnað. Kröfulýsing D er vegna sölulauna, orlofs, dráttarvaxta og málskostnaðar.

Þá hefur verið lögð fram kröfulýsing Tollstjóraembættisins í þrotabú Ísland allt ehf. og kröfuskrá í þrotabúi ICM upplýsingatækni ehf.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri félaganna ICM ehf. og Ísland allt ehf. á þeim tíma sem ákæra tekur til og kvaðst hafa séð um daglegan rekstur félaganna. Spurður um ákærukafla II vegna Ísland allt ehf. og hvort hann hafi skilað skilagreinum, kvað ákærði að hann minnti að hann hefði skilað skilagreinum. Spurður um framburð sinn í lögregluskýrslu, þar sem ákærði kvaðst bera ábyrgð á að hafa ekki skilað skilagreinum, kvað ákærði að hann myndi þetta ekki nógu vel og ekki geta tjáð sig um þetta. Ákærði var spurður um launaseðla fimm starfsmanna, þ.e. B, C, D, E og F, merkt í skýrslu skattrannsóknarstjóra 4.2-8.2 og hvort starfsmönnum hafi verið greidd laun samkvæmt launaseðlunum. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því, en kvaðst hafa haft þetta starfsfólk í vinnu. Ákærði kvaðst hafa séð um launaútreikning á árinu 2000 fyrir Ísland allt ehf. Borinn var undir ákærða framburður ákærða hjá lögreglu, þar sem ákærði kannaðist við að greidd hefðu verið laun í samræmi við þessa launaseðla og hann spurður hvort hann gæti staðfest þann framburð. Kvaðst ákærði ekki geta staðfest þann framburð. Spurður um hvers vegna hann hefði horfið frá þeim framburði kvaðst ákærði ekki vita það. Þá kvaðst ákærði hafa ástæðu til að rengja þær fjárhæðir sem fram koma á launaseðlum, þar sem um ,,sléttar launatölur” sé að ræða. Ákærði kvað rekstur félagsins hafa fjarað út á árinu 2000. Ákærði kvað að laun hafi verið greidd svo lengi sem það var hægt.

Undir ákærða var borið skjal II/1.3, sem sýnir m.a. samantekt afdreginnar staðgreiðslu af launum launþega Ísland allt ehf. á árunum 2000 og 2001. Kvaðst ákærði ekki kannast við þá afdregna staðgreiðslu sem fram kemur á því skjali, en kannaðist við að hafa haft starfsfólkið í vinnu sem þar greinir og að hafa greitt því laun. Spurður um það hvers vegna hann hefði ástæðu til að rengja þær fjárhæðir sem nefndar eru á þessu yfirlitsblaði, kvaðst ákærði ekki hafa forsendur til að rengja þær fjárhæðir eða staðfesta þær. Ákærði kvaðst þó hafa séð um launaútreikning á þessu tímabili.

Ákærði var spurður um málefni ICM upplýsingatækni ehf. Ákærði kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri félagsins á árinu 2001, frá janúar til september það ár. Ákærði kvaðst telja að hann hafi skilað inn skilagreinum vegna þess árs. Spurður um hvers vegna hann hefði borið á annan veg hjá lögreglu, kvaðst ákærði ekki vita það. Spurður um hvort staðið hafi verið skil á afdreginni staðgreiðslu kvaðst ákærði ekki vita hversu mikilli afdreginni staðgreiðslu hafi verið skilað, en nánar spurður hvort ákærði hefði skilað einhverri staðgreiðslu frá janúar til september 2001, kvaðst ákærði ekki muna það. Ákærði kvað fjárhæðir í ákæru ,,dálítið sérstakar” þar væri margsinnis sama talan nefnd, sem gæti varla staðist. Lagðir voru fyrir ákærða launaseðla B og C, sem merktir eru 4.3-4.9 í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Ákærði var fyrst spurður um launaseðil B frá febrúar 2001, merktur sem skjal 4.3 og spurður um staðgreiðslu sem þar er greind 104.989 krónur. Kvaðst ákærði ekki geta staðfest að það væri rétt. Þá kvaðst ákærði ekki geta staðfest staðgreiðslu sem greinir í launaseðli frá mars 2001 og ekki geta staðfest að B hefði haft laun að upphæð 350.000 krónur, en kvaðst staðfesta að hann hefði verið í vinnu í mars 2001. Jafnframt gat ákærði ekki staðfest þá staðgreiðslu sem greinir í launaseðli B frá apríl 2001 og gat ekki staðfest hvort B hefði verið í vinnu í apríl 2001 og kvaðst ekki muna það. Þá gat ákærði ekki staðfest staðgreiðslu sem greinir í maí 2001, á skjali merktu 4.6. Ákærði kvaðst heldur ekki geta staðfest að sá launaseðill væri gefinn út af fyrirtækinu.

Ákærði var spurður um skjal sem merkt er 4.10, sem er svohljóðandi yfirlýsing, undirrituð af ákærða: ,,Hér með staðfestist að launagreiðslur fyrir ágúst, september og hluta af október 2001 voru greiddar til [B]...starfsmanni ICM upplýsingatækni ehf....að frádreginni staðgreiðslu. Samtals laun á þessu tímabili voru 800.000 kr. og dregin var af staðgreiðsla skatta að upphæð 209.978 kr.”

Fyrir hönd ICM

Þórður Guðmundsson (sign)

...

Ákærði kvaðst ekkert kannast við þessa yfirlýsingu og skjalið sé ekki undirritað af sér. Ákærða var spurður hvers vegna hann hefði ekki borið á sama veg fyrir lögreglu um skjal þetta, og hvort hann hefði ekki séð ástæðu til að koma á framfæri athugasemdum um skjalið þar. Kvað ákærði það hljóta að vera, ef hann hefði skoðað  skriftina undir skjalinu. Ákærði kvaðst ekki hafa grun um hver hafi skrifað nafn hans á yfirlýsinguna. Ákærði kvað það ekki geta staðist að B hefði fengið laun á þeim tíma er í yfirlýsingunni greinir.

Ákærði var spurður um launaseðla C, merkt sem skjal 5.2, 5.3, 5.4, 5.5, 5.6., 5.7, 5.8, 5.9. og 5.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra.

Staðfesti ákærði að C hefði verið starfsmaður ICM ehf. en kvaðst ekki þora að fullyrða á hvaða tíma hann var starfsmaður. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær starfsemi ICM ehf. hætti.

Ákærði var spurður um launaseðla E vegna ágústmánaðar 2000 og septembermánaðar 2000, merkt 7.4. og 7.5 í skýrslu skattrannsóknarstjóra, en handritað sé á þá launaseðla. Kvaðst ákærði ekki kannast við rithöndina á launaseðlana.

Vitnið, B, kvaðst hafa verið starfsmaður Ísland allt ehf., á árinu 2000 og þegið laun frá fyrirtækinu. Hann kvaðst hafa fengið launin greidd. Vitnið var spurður um launaseðla frá Ísland allt ehf. merkt 4.2-4.15 í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Kvað vitnið að heildarlaun sem þar greinir séu í samræmi við þau laun sem hann þáði frá fyrirtækinu. Þá kvað vitnið launaseðil fyrir janúar 2001, merkt sem 4.15 í skjalaskrá vera réttan.

Vitnið var spurður um málefni ICM ehf. Kvaðst vitnið hafa unnið þar frá janúar 2001 til september 2001. Vitnið kvaðst hafa fengið greidd laun þessa mánuði frá fyrirtækinu. Bornir voru undir vitnið launaseðlar sem greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra merkt 4.3-4.8 og kvaðst hann hafa þegið þau laun sem þar greinir. Spurður um yfirlýsingu sem ber undirritun ákærða, merkt 4.10, kvað vitnið ástæðu yfirlýsingarinnar hafa verið beiðni frá vitninu, þar sem vitnið hefði lent í vandræðum vegna fyrirspurnar frá ríkisskattstjóra um afdregna staðgreiðslu og hefði vitnið átt erfitt með að sanna að staðgreiðslan hefði verið dregin af launum vitnisins. Í yfirlýsingunni kemur fram að staðgreiðsla hafi verið 209.978 krónur og kvað vitnið það vera sennilegt að það hefði verið í samræmi við þau laun sem vitnið hafði. Vitnið kvaðst hafa verið í símasambandi við ákærða og hafi hann beðið ákærða að senda sér yfirlýsingu þessa og hefði ákærði sent yfirlýsinguna, en vitnið kvaðst ekki vita hvort ákærði hefði sent hana sjálfur til ríkisskattstjóra, eða hvort vitnið hafi gert það sjálfur. Vitnið kvað C hafa verið samstarfsmann sinn á þessum tíma. Vitnið kvað launaseðla sem liggja frammi vera þá launaseðla sem hann hafi afhent ríkisskattstjóra. Vitnið var spurt um kröfulýsingu hans í þrotabúið ICM ehf., merkt á dómskjali nr. 7 og kvaðst vitnið hafa fengið greitt úr ábyrgðarsjóði launa, en vitnið kvaðst ekki vita fyrir hvaða tíma það var.

Vitnið, C, kvaðst hafa unnið hjá Ísland allt ehf. á árinu 2000 og fengið laun greidd fyrir það ár. Vitnið var spurt um launaseðla sem merktir eru 5.2-5.13, í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Kvaðst vitnið kannast við þá og að þau heildarlaun sem þar greinir væru í samræmi við þau laun sem vitnið þáði frá fyrirtækinu. Vitnið kvaðst ekki alveg muna hvenær hann hætti og kvaðst ekki muna fyrir hvaða tímabil vitnið fékk greidd laun úr ábyrgðarsjóði launa.

Vitnið var spurt um málefni ICM upplýsingatækni ehf. Vitnið kvaðst hafa unnið þar frá janúar 2001 til september s.á. Vitnið kvaðst hafa fengið laun greidd fyrir einhverja þessara mánaða, en kvaðst ekki alveg viss fyrir hvaða tímabil vitnið fékk laun greidd úr ábyrgðarsjóði launa.

Vitninu voru sýndir launaseðlar merktir 5.2-5.10, þ.e. fyrir tímabilin febrúar til september 2001, í skýrslu skattrannsóknarstjóra, og kvaðst vitnið hafa þegið laun þau úr fyrirtækinu sem þar eru tilgreind.

Vitnið kvaðst hafa starfað hjá fyrirtækjunum í um 2-3 ár. Vitnið kvað að þeir launaseðlar sem liggi fyrir í málinu séu vegna launa sem hann hafi fengið greidd frá fyrirtækinu. Spurður um hvaða laun hann hafi þá verið að innheimta hjá ábyrgðarsjóði launa, kvaðst vitnið ekki muna hvenær hann hætti störfum hjá fyrirtækinu, og kvað að sig minnti að hann hefði átt inni 2-3 mánuði þegar hann hætti störfum.

Vitnið, E kvaðst hafa hafið störf hjá félaginu Ísland allt ehf. vorið 2000 og að hann hafi hætt störfum um mitt árið 2000. Vitninu voru sýndir launaseðlar merktir 7.2, 7.3., 7.4 og 7.5. í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Kvað vitnið þær fjárhæðir og bankareikninga sem þar eru greind geta stemmt. Kvað vitnið að hann myndi ekki hvort hann hefði fengið þessi laun greidd frá fyrirtækinu, en erfiðlega hefði gengið að fá laun greidd. Vitnið kvað handskrift ákærða vera á launaseðli sem merktur er 7.5 og ályktaði því að þau laun sem greind eru á launaseðli 7.4 og 7.5 hafi verið greidd úr fyrirtækinu, en vitnið kvaðst ekki muna eftir þessum launaseðlum sérstaklega. Vitnið kvaðst þó muna að fjárhæð launa átti að vera 270.000 krónur. Vitnið var spurt um greiðslu sem hann fékk úr ábyrgðarsjóði launa og kvað vitnið að staðgreiðsla hafi verið dregin af þeirri fjárhæð, en sú greiðsla hafi verið vegna launa í uppsagnarfresti.

Niðurstaða.

Af hálfu verjanda ákærða hefur því verið haldið fram að brot ákærða séu fyrnd. Brot ákærða samkvæmt A- I kafla ákæru fyrnast á 6 árum samkvæmt 5. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en brotin náðu yfir greiðslutímabilin nóvember-desember 2000 og janúar-febrúar 2001. Ákærði var yfirheyrður 16. júní 2004 hjá skattrannsóknarstjóra um brot sín. Var þá ofangreindur 6 ára fyrningarfrestur rofinn, en ákæra var gefin út í málinu 9. nóvember 2006 og málið þingfest 27. nóvember 2006. Eru brot ákærða samkvæmt framangreindu því ekki fyrnd.

Brot ákærða samkvæmt A-II kafla ákæru náðu yfir greiðslutímabilin janúar 2000-desember 2000 og janúar 2001, og samkvæmt B kafla ákæru yfir greiðslutímabilin janúar 2001 til september 2001, en brotin fyrnast á 6 árum samkvæmt 5. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Ákærði var yfirheyrður 16. júní 2004 hjá skattrannsóknarstjóra um brot sín. Var þá ofangreindur 6 ára fyrningarfrestur rofinn, en ákæra var gefin út í málinu 9. nóvember 2006 og málið þingfest 27. nóvember 2006. Eru brot ákærða samkvæmt framangreindu því ekki fyrnd.

Af hálfu verjanda ákærða hefur verið á það bent að í ákærukafla B er tilgreint að ákærði hafi eigi ,,staðið sýslumanninum í Hafnarfirði“ skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, en ekki sýslumanninum í Kópavogi, eins og rétt hefði verið og skuli þessi misritun í ákæru leiða til sýknu af þessum ákærulið. Hér er um aukaatriði brots að ræða og vörn var ekki áfátt vegna þess. Er því ekki fallist á sýknukröfu ákærða af þessum sökum.

Ákærði játaði brot samkvæmt A kafla ákæru, undir I. lið. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem þar greinir og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Ákærði neitaði ákærði sök fyrir dómi, varðandi þá háttsemi sem greinir í II. lið A kafla ákæru. Er ákærði var yfirheyrður hjá ríkislögreglustjóra um málefni Ísland allt ehf. kvaðst hann bera ábyrgð á skattskilum vegna rekstrartímabilsins janúar 2000 til og með febrúar 2001, enda hafi hann verið framkvæmdastjóri félagsins. Þá staðfesti hann einnig að launaseðlar B, C, E, D og F væru í samræmi við bókhald félagsins og kvaðst ekki geta tjáð sig um tölulegar niðurstöður ríkislögreglustjóra, þótt hann rengdi þær ekki. Á sömu lund bar ákærði hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins, en kvaðst telja að hann hafi skilað staðgreiðsluskilagreinum fyrir árið 2000. Fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum og kvaðst ekki kannast við þá afdregnu staðgreiðslu launþega er fram komi á skjali II/1.3 í rannsóknargögnum málsins frá 17. febrúar 2006, sem ákærða hafði verið sýnt við yfirheyrslu hjá ríkislögreglustjóra. Hann kvaðst þó ekki hafa forsendur til að rengja þær fjárhæðir er þar kæmu fram eða staðfesta þær. Hann kvaðst hafa haft það starfsfólk í vinnu sem að ofan greinir og að hann hefði verið framkvæmdastjóri félagsins þann tíma sem ákæra tekur til.

Ákærði neitaði einnig sök varðandi þá háttsemi sem greinir í B kafla ákæru, en við yfirheyrslu hjá skattrannsóknarstjóra kannaðist ákærði við launaseðla B vegna ársins 2001 og C. Hann kannaðist einnig við skjal sem merkt er nr. 4.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra, sem ber undirritun ákærða, þar sem því er lýst yfir að launagreiðslur fyrir ágúst, september og hluta af október 2001 hafi verið greiddar til B að frádreginni staðgreiðslu. Hann kvað að eingöngu hefðu verið til peningar fyrir launum og því hefði staðgreiðslu ekki verið skilað, en hann kvaðst bera á því ábyrgð. Fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum og kvaðst ekkert kannast við framangreinda yfirlýsingu sem merkt er nr. 4.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra og ekki vita hver hefði ritað nafn hans undir yfirlýsingu þessa. Hann kvaðst ekki muna hvort einhverri staðgreiðslu hefði verið skilað frá janúar til september 2001 og kvaðst ekki geta staðfest að þær fjárhæðir sem fram komi á launaseðlum B og C væru réttar.

Samkvæmt framangreindu hvarf ákærði frá fyrri framburði sínum um háttsemi þá sem í ákæru greinir án þess að gefa trúverðugar skýringar á því. Að mati dómsins er mjög ótrúverðugt afturhvarf ákærða frá fyrri framburði fyrir skattyfirvöldum og lögreglu og framburður hans fyrir dómi var einkar óljós og ruglingslegur, gagnstætt skýrum framburði hans fyrir lögreglu. Þá rennir vitnisburður B um yfirlýsingu sem greind er á skjali nr. 4.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra, stoðum undir þann framburð sem ákærði gaf fyrst hjá lögreglu og fyrir skattyfirvöldum.

Samantektaryfirlit þau sem liggja frammi í málinu um afdregna vangoldna staðgreiðslu félaganna tveggja, sem ákærufjárhæðir byggja á, eru í samræmi við launaseðla sem lagðir hafa verið fram í málinu og yfirlýsingu sem ber undirritun ákærða á skjali nr. 4.10 í skýrslu skattrannsóknarstjóra. Þá taka þær kröfulýsingar sem lagðar hafa verið fram í þrotabú félaganna tveggja vegna vangoldinna launa fyrrum starfsmanna félaganna ekki til þeirra launatímabila sem greinir í leiðréttri ákæru.

Óumdeilt er að ákærði var framkvæmdastjóri ICM ehf. og Ísland allt ehf. á þeim tíma er ákæra tekur til og samkvæmt framburði hans fyrir dómi sá hann um daglegan rekstur félaganna. Ákærði bar sem framkvæmdastjóri á því ábyrgð að starfsemi og skipulag félagsins væri í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Þar undir fellur ábyrgð á því að staðin séu skil á afdreginni staðgreiðslu en samkvæmt 1. málslið 3. mgr. sömu greinar skal félagsstjórn annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins og framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur. Með aðgerðaleysi sínu um að skila inn skilagreinum og greiða lögboðin gjöld hefur ákærði af stórkostlegu hirðuleysi vanrækt þær skyldur sem á honum hvíldu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. gr. laga nr. 134/2005. Þá hefur ákærði játað háttsemi samkvæmt A kafla ákæru, I. lið og með því brotið gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, 191. gr. laga nr. 82/1998 og 3. gr. laga nr. 134/2005. Með háttsemi sinni hefur ákærði því gerst sekur um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld, þar sem um verulegar fjárhæðir er að ræða, en heildarvanskil ákærða á virðisaukaskatti og afdreginni staðgreiðslu nema 4.191.342 krónum samkvæmt leiðréttri ákæru og varða því brot ákærða einnig við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og í ákæru greinir.

Ákvörðun viðurlaga.

Ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda um heimild til að fara niður úr fésektarlágmarki á ekki við í máli þessu og ákærði á sér ekki málsbætur að öðru leyti.

Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann dæmdur í 2 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, 22. september 2004, fyrir brot gegn 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga. Brot þau sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu eru framin fyrir uppkvaðningu þess dóms og er því um hegningarauka að ræða við þann dóm. Ber að ákvarða refsingu ákærða með hliðsjón af 60. gr. almennra hegningarlaga og taka upp skilorðsdóminn og ákveða refsingu ákærða í einu lagi, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða þykir með hliðsjón af ofangreindu hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en rétt er að fresta fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Heildarvanskil ákærða nema 4.191.342 krónum samkvæmt leiðréttri ákæru. Verður ákærði samhliða skilorðsbundinni fangelsisrefsingu dæmdur til að greiða sekt í ríkissjóð, 8.500.000 króna, og komi fangelsi í 4 mánuði í stað hennar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 greiði ákærði sakarkostnað málsins sem er málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns 260.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Karl Ingi Vilbergsson fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Þórður Guðmundsson sæti fangelsi í 6 mánuði. Frestað er fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum 2 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 8.500.000 krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 260.000 krónur.