Print

Mál nr. 343/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald

                                       

Mánudaginn 19. maí 2014.

Nr. 343/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(enginn)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði [...], kt. [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 12. júní nk. kl. 16.00.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að þann 7. maí sl. hafi 16 ára stúlka lagt fram kæru hjá lögreglu vegna kynferðisbrots sem eigi að hafa átt sér stað aðfaranótt sunnudagsins 4. maí sl. Nánar tiltekið hafi hún kært nauðgun af hálfu fimm manna í íbúð við [...] í [...], m.a. kærða. Brotaþoli hafi lýst því að hún hafi verið stödd í samkvæmi á heimili eins kærða ásamt fleira fólki. Er líða tók á nóttina hafi hún farið afsíðis inn í eitt af svefnherbergjum íbúðarinnar og skömmu síðar hafi kærði [...] komið inn í herbergi til hennar og farið að kyssa hana. Í kjölfarið hafi kærðu [...] og [...] komið inn og hafi þeir þrír tekið sér stöðu fyrir framan brotaþola og skipst á að stinga limum sínum upp í munn hennar. Loks hafi kærðu [...] og [...] komið og þá hafi henni í kjölfarið verið ýtt niður í rúmið og þeir allir farið að eiga við hana samfarir og munnmök. Brotaþoli kvæðist hafa reynt að sporna við þessum athöfnum, sem hún hafi ekki kært sig um. Henni hafi fundist vonlaust að komast undan þessum fimm mönnum og fljótt gefist upp á því. Hún hafi talið að það eina fyrir hana í stöðunni væri að hætta að streitast á móti og bíða þess að nauðguninni lyki. Þetta hafi staðið yfir í um eina klukkustund og þegar allir nema einn hafi haft sáðlát upp í munn hennar, hafi sá fimmti leitt hana inn á baðherbergi þar sem hann hafi þvingað hana til áframhaldandi samfara og munnmaka þar til hann hafi haft sáðlát upp í munn hennar. Að því loknu hafi hún klætt sig og farið heim til sín.

                Lögreglustjóri tekur fram að í kjölfar kærunnar hafi hinir grunuðu í málinu verið handteknir. Kærðu hafi allir gengist við því að hafa haft samfarir við stúlkuna umrætt sinn. Þeir telji að kærandi hafi verið því samþykk að þeir, ásamt fjórum öðrum, hefðu við hana kynferðismök í umrætt sinn í íbúðinni, án þess þó að geta lýst þeim samskiptum við brotaþola sem gefið hafi til kynna samþykki hennar öðruvísi en svo, að hún hafi ekki sagt neitt né hlaupið í burtu. Kærðu beri jafnframt ekki saman að öllu leyti um atburðinn og atburðarás tengda atburðinum. Síðar sama dag, þ.e. á sunnudeginum, hafi brotaþoli sagt vinkonu sinni frá atvikinu og hafi hún lýst atvikum máls á sama veg og brotaþoli hafi gert hjá lögreglu. Vitnið teldi brotaþola hafa verið niðurbrotna er hún hafi sagt frá atvikinu.

                Í greinargerð lögreglustjóra kemur einnig fram að kærunni hafi fylgt myndbandsupptaka af hluta atviksins sem tekin hafi verið upp á síma kærða [...], en á myndbandinu megi sjá hvar kærðu gangi skeytingarlaust fram og skiptist á að hafa við hana samfarir og munnmök. Þar sjáist m.a. að brotaþoli liggi hreyfingarlaus á meðan hin ætlaða nauðgun eigi sér stað og jafnframt hvernig kærðu liggi ofan á andliti hennar með limi sína í andliti hennar eða munni og framkvæmi samfarahreyfingar, en að mati lögreglu staðfesti myndbandið frásögn brotaþola af verknaðinum. Brotaþoli hafi síðan leitað á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis miðvikudaginn 7. maí og sé lýsing hennar þar á atvikum máls með sama hætti og hjá lögreglu. Í skýrslu Neyðarmóttökunnar komi fram að brotaþoli sé með áverka á kynfærum, í munni og á geirvörtu. Jafnframt séu marblettir á nokkrum stöðum, m.a. á læri, sem samræmist lýsingu brotaþola um að belti hafi verið strengt þar utan um.

                Þá er þess getið að í málinu liggi fyrir facebook-samskipti milli kærðu þar sem þeir ræði m.a. atvikið. Ræði þeir m.a. sín á milli að einn kærðu hafi verið hræddur og bendi á að honum hafi verið frjálst að hætta þegar honum sýndist. Jafnframt hafi komið í ljós að kærðu hafi frétt af því þriðjudaginn 6. maí að brotaþoli hyggðist kæra daginn eftir og einn hinna kærðu, [...], hafi í millitíðinni eytt öllum gögnum af facebook, en hann hafi verið í samskiptum við brotaþola eftir atvikið og beðist afsökunar, auk þess sem hann hafi sagt eftirfarandi í samskiptum sínum við kærða [...]: „það er sem gott nuna er að enginn getur seð myndbandið enginn sönun“.

                Lögreglustjóri telur að í máli þessu liggi fyrir greinargóður og skýr framburður brotaþola. Þau sönnunargögn og þær athuganir sem lögregla hafi aflað í máli þessu styðji frásögn brotaþola. Framburður kærða sé á hinn bóginn ótrúverðugur og um margt á skjön við það sem fram hafi komið við rannsókn málsins. Þá gæti ósamræmis í framburði hans og framburði meðkærðu. Það sé því mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að uppfyllt séu lagaskilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, enda sé kærði nú undir sterkum grun um að hafa, ásamt fjórum öðrum karlmönnum, þvingað brotaþola, sem sé 16 ára stúlka, til þess að þola að þeir allir hefðu við hana samfarir í svefnherbergi í íbúðinni í [...] í [...]. Brotið geti varðað allt að 16 ára fangelsi, auk refsiþyngingar vegna samverknaðar, og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannhagsmunir krefjist þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Það myndi valda mikilli hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi kærði frjáls ferða sinna.

                Um beitingu og túlkun ákvæðis 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála vísi lögreglustjóri til dóma Hæstaréttar Íslands nr. 616/2007, 324/2009, 473/2011 og 574/2011. Rannsókn málsins sé á lokastigi og verði málið sent ríkissaksóknara til ákvörðunar um saksókn á næstu dögum.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða

                Kröfugerð sóknaraðila er reist á heimild í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Til þess að úrskurða megi sakborning í gæsluvarðhald á þeim grundvelli þarf að liggja fyrir annars vegar sterkur grunur um að hann hafi framið afbrot, sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, og hins vegar að ætla megi varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

                Kærði er grunaður um að hafa ásamt fjórum félögum sínum, sem allir eru á táningsaldri, nauðgað 16 ára stúlku aðfaranótt sunnudagsins 4. maí sl. Kærði hefur gengist við því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna með félögum sínum en kveður stúlkuna hafa verið samþykka því að taka þátti í kynferðisathöfnunum. Hafi hann dregið þá ályktun af því að stúlkan hafi tekið þátt í þeim. Meðkærðu bera í megin atriðum á sama veg. Kærði neitar samkvæmt framansögðu eindregið sök.

                Í skýrslu sinni hjá lögreglu ber stúlkan að hún hafi reynt í fyrstu að sporna við því að piltarnir næðu fram vilja sínum, en henni fundist vonlaust að komast undan þeim og fljótlega gefist upp og beðið þess að nauðguninni lyki. Við rannsókn málsins, sem er langt komin, hefur ýmislegt komið fram sem styður frásögn stúlkunnar. Þrátt fyrir að þessi atriði kunni að undangenginni ákæru og sönnunarfærslu fyrir dómi að leiða til sakfellingar, þykir á þessu stigi málsins varhugavert að slá því föstu að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi í félagi við aðra beitt stúlkuna ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung til þess að eiga við hana samræði eða önnur kynferðismök, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Ekki liggur því fyrir að fullnægt sé skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að verða við kröfu sóknaraðila. Henni er því hafnað.

                Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, um að kærði, [...], skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi er hafnað.