Print

Mál nr. 481/2011

Lykilorð
  • Lögmaður
  • Lögmannsþóknun

                                     

Fimmtudaginn 1. mars 2012.

Nr. 481/2011.

 

Kristján Sveinbjörnsson

(sjálfur)

gegn

Jóni Egilssyni

(sjálfur)

 

Lögmenn. Lögmannsþóknun.

Aðila greindi á um þóknun J vegna lögmannsstarfa í þágu K. K þótti hvorki hafa sýnt fram á að tímagjald né fjöldi vinnustunda væri með þeim hætti að krafan teldist ósanngjörn. Var honum því gert að greiða kröfuna, en málskostnaður var felldur niður þar sem J hafði ekki gert K ljóst hvert endurgjald fyrir þjónustuna gæti orðið.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. ágúst 2011. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafa hans verði lækkuð verulega. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

Í máli þessu deila aðilar um hvert sé hæfilegt endurgjald fyrir þjónustu þá er lögmannsstofa stefnda veitti áfrýjanda á tímabilinu frá því í febrúar 2009 og fram í september 2010. Í hinum áfrýjaða dómi er gerð grein fyrir eðli og umfangi þessara verkefna, tímafjöldans er lögmannsstofan kveðst hafa varið til verksins og þess tímagjalds er hún áskildi sér fyrir hverja unna klukkustund. Í málinu liggja hvorki fyrir gögn sem staðfesta með ótvíræðum hætti að málsaðilar hafi samið um ákveðið tímagjald fyrir hverja unna klukkustund né að gjaldskrá lögmannstofu stefnda hafi legið frammi á skrifstofu hans þegar áfrýjandi leitaði þangað fyrst og óskaði eftir þjónustu í tengslum við málarekstur þann sem nánar er gerð grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Verður því við úrlausn málsins að líta til ákvæða 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn og þeirrar meginreglu kröfuréttar sem meðal annars kemur fram í lokamálslið 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

Í málinu liggur fyrir ítarleg skýrsla stefnda um þann tímafjölda sem lögmannsstofa hans varði til þjónustu við áfrýjanda í tengslum við málareksturinn og yfirlit um tölvupóstsamskipti málsaðila á þeim tíma sem hér skiptir máli. Þegar þessi gögn eru virt í ljósi eðlis þeirra verkefna sem lögmannsstofan tók að sér að sinna fyrir áfrýjanda, verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að sýna fram á að krafa stefnda á hendur honum sé reist á óeðlilegum eða ósanngjörnum fjölda vinnustunda. Þá verður heldur ekki talið að áfrýjandi hafi sýnt fram á að gjald það sem stefndi áskildi sér fyrir hverja unna klukkustund sé ósanngjarnt eða óhæfilegt. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 77/1998 skal lögmaður eftir því sem unnt er gera umbjóðanda sínum grein fyrir því hvert gæti orðið hæfilegt endurgjald í heild sinni fyrir störf lögmannsins. Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að áfrýjanda hafi verið gert ljóst hvert endurgjald fyrir þjónustu stefnda gæti orðið. Með hliðsjón af því og atvikum málsins að öðru leyti þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. maí 2011.

Mál þetta, sem var þingfest 8. desember sl., var höfðað af Jóni Egilssyni, kt. 200656-3349, Knarrarvogi 4, Reykjavík, með birtingu stefnu 1. desember sl., gegn Kristjáni Sveinbjörnssyni, kt. 190658-3179, Miðskógum 6, Álftanesi. 

Dómkröfur stefnanda eru að stefnda verði gert að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.716.791 króna ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla, sbr. 1. mgr. 6. gr., vaxtalaga nr. 38/2001 af stefnufjárhæð til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum þann 14. september 2010 að fjárhæð 200.000 krónur og þann 5. nóvember 2010 að fjárhæð 60.000 krónur, sem dragist frá skuldinni miðað við stöðu hennar á hverjum innborgunardegi. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti. Auk þess er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða málskostnaðarreikningi.

Stefndi krafðist þess í greinargerð í fyrsta lagi að málinu yrði vísað frá dómi og til vara að stefndi yrði sýknaður af kröfu stefnanda og til þrautavara að stefnufjárhæðin yrði lækkuð verulega. Þá var í öllum tilvikum krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda ásamt virðisaukaskatti. Úrskurður var kveðinn upp þann 23. mars sl., þar sem frávísunarkröfu stefnda var hafnað. Aðalmeðferð fór fram þann 3. maí 2011 og var málið dómtekið að henni lokinni.

Málsatvik.

Mál þetta er byggt á útgefnum reikningi, ódagsettum, vegna vinnu fulltrúa stefnanda, Auðar Bjargar Jónsdóttur hdl., fyrir stefnda á grundvelli tímaskýrslu. Samkvæmt stefnanda fólst vinnan í vörn stefnda í ærumeiðingarmálinu E-1262-2009, fyrir Héraðsdómi Reykjaness, sem Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason höfðuðu gegn stefnda og vinnu við kæru til lögreglu.

Í gögnum málsins er að finna nokkurt magn tölvupósts, sent á milli stefnda annars vegar og Auðar Jónsdóttur hins vegar. Fyrsti tölvupósturinn er sendur þann 11. febrúar 2009, frá stefnda til Auðar. Þar kemur fram að stefndi sé að leita að lögmanni vegna kæru sem hann þurfi að leggja fram vegna aðdróttana sem hann hafi orðið fyrir sem forseti bæjarstjórnar Álftaness og spyr hvort hún hafi áhuga á að skoða málið.  Þá er annar tölvupóstur sendur frá stefnda til Auðar þann 26. febrúar 2009 þar sem stefndi sendir viðhengi með tölvupóstinum og spyr hvort hún geti útbúið kæru fyrir hann fljótlega. Þann 27. apríl 2009 sendi stefndi Auði tölvupóst þar sem hann setur fram í nokkrum töluliðum tillögu að samkomulagi. Í svarpósti þann sama dag svaraði Auður stefnda þar sem fram kemur að hún sé búin að vera í sáttaumleitunum við stefnendur í ofangreindu dómsmáli.  Ekki er ástæða til að telja fram annan tölvupóst sem varðar samskipti aðila þar sem ekki er ágreiningur um að þau hafi átt sér stað.

Þann 10. mars 2009 lagði lögmaður stefnda fram kæru vegna ærumeiðingarbrota hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að stefndi hafi falið undirrituðum lögmanni að kæra skrif á opinberum vettvangi um stefnda í máli þessu.  Þá liggur frammi greinargerð stefnda, unnin af lögmanni hans, lögð fram í Héraðsdómi Reykjaness í ofangreindu dómsmáli þann 20. maí 2009. Er þar aðallega krafist frávísunar málsins frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnenda. Var málið flutt um frávísunarkröfuna, sem var hrundið með úrskurði og fór aðalmeðferð fram í því máli. Dómur gekk þann 14. september 2010 og voru nokkur ummæli stefnda í því máli dæmd dauð og ómerk og var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda í því máli málskostnað.

Þann 30. júní 2010 sendi Auður Jónsdóttir stefnda tölvupóst ásamt tímaskýrslu og segir þar að þau þurfi að fara að semja um greiðslu á lögmannskostnaði. Með tölvupósti þann 16. ágúst s.á., frá Auði til stefnda, kvaðst Auður vera að reka á eftir greiðslu. Með tölvupósti þann 17. ágúst 2010 kvaðst stefndi hafa fengið áfall þegar hann sá tímaskýrsluna en kvaðst geta lagt inn 100.000 krónur þá þegar og 100.000 um mánaðamótin. Þann 18. ágúst s.á. svaraði Auður ofangreindum tölvupósti og upplýsti stefnda um reikningsnúmer ásamt kennitölu, sem hann gæti lagt greiðslur inn á.

Þann 4. október 2010 sendi stefnandi stefnda viðvörun um innheimtuaðgerðir þar sem stefndi er krafinn um stefnufjárhæð. Er útgáfudagur reiknings þar sagður vera 14. september 2010. Þann 29. október 2010 sendi stefnandi stefnda innheimtubréf þar sem hann krafði stefnda um greiðslu á stefnufjárhæð ásamt dráttarvöxtum og kostnaði. Stefna var birt stefnda þann 1. desember 2010 og málið þingfest 8. desember s.á. eins og áður segir.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfu sína á því að fulltrúi hans, Auður Jónsdóttir hdl., hafi unnið fyrir stefnda við vörn í héraðsdómsmálinu hjá Héraðsdómi Reykjaness, nr.  E-1262/2009. Í því máli hafi stefnda verið stefnt fyrir meiðyrði. Auður Jónsdóttir hdl. starfi á lögmannsstofu stefnanda og stafi reikningsgerð á hendur viðskiptavinum stefnanda og fulltrúa hans ávallt frá lögmannsstofunni sem stefnandi eigi og reki. Stefndi hafi leitað til Auðar þann 11. febrúar 2009 með tölvupósti, með beiðni um að hún tæki að sér umrætt mál fyrir hans hönd. Í framhaldi hafi tölvupóstur gengið á milli Auðar og stefnda sem gjaldfært er fyrir. Þá hafi Auður samið kæru fyrir stefnda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Lögmaðurinn hafi mætt við þingfestingu málsins þann 25. mars 2009, verið í samskiptum við stefnda, lagt fram greinargerð, mætt við fyrirtökur, flutt kröfu stefnda um frávísun málsins frá dómi, unnið að undirbúningi aðalmeðferðar og flutt málið fyrir dóminum þar sem sættir náðust ekki milli aðila. Þá hafi málið verið endurflutt og dómur gengið þann 14. september 2010. Samtals hafi vinna fyrir stefnda verið 68,8 klukkustundir. Tímagjald lögmannsstofunnar sé 19.500 krónur auk virðisaukaskatts og liggi gjaldskrá frammi á skrifstofu hans en samið hafi verið við stefnda um að greiða 18.500 krónur auk virðisaukaskatts fyrir hverja unna klukkustund.  Þá kveður hann fulltrúa sinn hafa rætt gjaldskrána við stefnda í upphafi. Þá hafi tímaskýrsla vegna málsins verið send stefnda í lok júní 2010 og hann krafinn um greiðslu. Með tölvupósti þann 16. ágúst 2010 hafi stefndi enn verið krafinn um greiðslu. Stefndi hafi greitt inn á skuldina 27. ágúst 2009 100.000 krónur, þann 14. september 2010 100.000 krónur og 5. nóvember 2010 60.000 krónur eða samtals 260.000 krónur.

Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en reglan fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 51. gr. laga nr. 50/2000 og 28. gr. laga nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi einkum til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Þá vísar hann til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup. Krafa um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/201, 1. mgr. 5. gr., sbr. 6. gr. með síðari breytingum. Kröfuna um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi krafðist aðallega frávísunar málsins frá dómi. Varakrafa stefnda er að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Byggir stefndi á því að enginn lögformlegur reikningur hafi verið gefinn út af hálfu stefnanda sem hægt sé að innheimta fyrir dómstólum. Reikningurinn uppfylli ekki skilyrði 20. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en þar sé skýrt tekið fram að reikningur skuli bera útgáfudag. Svo sé ekki með reikning stefnanda. Þá komi ekki greinilega fram á reikningnum þau viðskipti sem áttu sér stað, þ.e. hvort þau beri virðisaukaskatt eða ekki. Þá hafi stefndi ekki fengið umkrafinn reikning afhentan. Þá hafi engin  skrifleg viðvörun borist stefnda eins og áskilið sé í 7. gr. laga nr. 95/2008, einungis hafi honum borist tölvupóstur þar sem hann sé krafinn um skuld sína við stefnanda. Þá sé reikningurinn gefinn út af stefnanda Jóni Egilssyni hdl., og beri hans kennitölu, en stefndi hafi aldrei stofnað til nokkurra viðskipta við stefnanda. Þá byggir stefndi á því að vinna Auðar Jónsdóttur hdl. í ofangreindu máli hafi ekki verið samkvæmt óskum, tilmælum eða beiðni stefnda. Þá hafi kæra sem Auður samdi fyrir stefnda til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu verið illa unnin og hafi málið verið fellt niður. Stefndi hafi því sjálfur kært málið til ríkissaksóknara sem hafi fellt málið niður sökum fyrningar. Sýni það slæleg vinnubrögð lögmannsins. Þá hafi varnir lögmannsins í meiðyrðamálinu reynst að mestu gagnslausar. Stefndi hafi lagt aðaláherslu á að vörnin ætti að byggjast á „orðhefnd“ en lögmaðurinn hunsað það að mestu og enga áherslu lagt á þann þátt. Þá hafi lögmaðurinn litla sem enga rannsóknarvinnu í þáttinn um „orðhefnd“. Þá hafi stefndi fengið lögfræðing til að fara yfir dóminn í málinu E-1262/2009, sem hafi gert fjölmargar rökstuddar athugasemdir við varnir í því máli. Stefndi hafi því ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar Íslands en áfrýjunarleyfi ekki fengist.

Stefndi byggir þrautavarakröfu sína um verulega lækkun á stefnufjárhæð stefnanda á sömu rökum og sýknukröfu sína. Þá mótmælir stefndi tímaskrifum lögmannsins sem röngum. Tímar séu oftaldir. Dagana 25. og 26. mars 2009, sem gjaldfært sé fyrir, hafi lögmaðurinn ekki verið kominn með málið, en hann hafi ekki fengið upplýsingar um málið fyrr en 30. mars, samkvæmt tölvupósti þann sama dag. Þá mótmælir hann gjaldtöku fyrir móttöku og lestur tölvupósts. Stefnandi reikni fimmtán mínútur á hvern tölvupóst þrátt fyrir að hann hafi verið stuttur og ekki ætti að taka meira en tíu sekúndur til þrjár mínútur að lesa hann. Þá hafi sjaldnast verið viðbrögð við tölvupósti sendum frá stefnda til lögmannsins. Þá hafi lögmaðurinn ekki lagt fram gögn eða greinargerðir sem stefndi sendi lögmanninum með tölvupósti, í umræddu dómsmáli. Svör sem hafi borist vegna tölvupósts hafi verið örstutt og fyrir liggi að lögmaðurinn hafi ekki lesið allan tölvupóst sem henni barst.  Þá bendir stefndi á að lögmaðurinn innheimti fyrir fimm klukkustundir vegna aðalmeðferðar sem hófst klukkan 9:17 og lauk kl. 10:48. Því sé augljóst að lögmaðurinn sé með óraunhæfa tímaskráningu. Þá kveðst stefndi hafa lagt sjálfur fram ítarleg drög að greinargerð sem lögmaðurinn hafi getað nýtt sér. Þá sé útselt tímagjald 18.500 krónur auk virðisaukaskatts. Lögmaður gagnaðila í umræddu dómsmáli hafi krafið sinn umbjóðanda um 13.500 krónur fyrir hverja klukkustund. Þá hafi dómsmálaráðherra gefið út reglugerð um tímagjald við ákvörðun þóknunar til verjenda nr. 715/2009, þar sem viðmiðunarfjárhæð fyrir útselda vinnu sé 10.000 krónur á klukkustund að meðtöldum virðisaukaskatti. Kveður stefndi lögmanninn hafa skráð tíma 25. til 26. mars, samtals 3,25 klst., ranglega. Þá séu tímaskrif vegna lesturs tölvupósts samtals 4,25 klukkustundir. Rest af tímaskráningu lögmannsins megi lækka um helming, sem geri samtals 30,7 klukkustundir. Sé reiknað með 10.000 krónum á klukkustund séu það samtals 307.000 krónur.

Stefndi vísar til laga nr. 42/2000 um þjónustukaup, II. kafla laganna, 4., 5. og 6. gr.  Þá vísar hann til 9. til 18. gr. laganna sem fjalli um galla á seldri þjónustu. Svo hafi verið með þjónustu Auðar Jónsdóttur. Þá vísar hann til siðareglna Lögmannafélags Íslands.

                 Forsendur og niðurstaða.

Aðilar gáfu skýrslu fyrir dóminum auk Auðar Jónsdóttur.

Stefndi, sem flutti mál sitt sjálfur, krafðist við aðalmeðferð málsins þess að máli þessu yrði vísað frá dómi á sömu forsendum og áður hafði verið úrskurðað um þann 23. mars sl. Verður að því leyti ekki tekin efnisleg afstaða til þeirrar frávísunarkröfu aftur. 

Mál þetta snýst um réttmæti reiknings sem stefnandi krefur stefnda um greiðslu á auk dráttarvaxta og kostnaðar. Afrit af umræddum reikningi var lagður fram við þingfestingu málsins, reikningi nr. 007968, þar sem fram kemur að stefnandi sé útgefandi reikningsins og er reikningurinn stílaður á stefnda. Á reikningnum kemur fram að krafið sé um útlagðan kostnað vegna tveggja endurrita, 4.500 krónur, og málskostnað vegna vinnu Auðar Bjargar Jónsdóttur hdl., fyrir stefnda á grundvelli tímaskýrslu, sem er sögð fylgja reikningnum. Vinnan hafi falist í vörn viðtakanda í ærumeiðingarmáli (E-1262/2009) sem Hlédís Sveinsdóttir og Gunnar Árnason hafi höfðað gegn stefnda. Einnig vegna kostnaðar við að kæra ofangreinda aðila samkvæmt ósk stefnda. Umsamið tímagjald sé 18.500 krónur auk virðisaukaskatts, x 68,8 klst. eða samtals 1.364.375 krónur. Virðisaukaskattur sé 25,5% eða 347.916 krónur eða samtals 1.716.791 króna. Með reikningnum fylgdi ítarleg tímaskýrsla þar sem vinna hefst 11. febrúar 2009 og stendur til 14. september 2010. Stefndi hefur haldið því fram að lögmaðurinn hafi fyrst fengið vitneskju um stefnuna gegn sér í því máli 30. mars 2009 með tölvupósti. Því mótmælti vitnið fyrir dóminum og kvaðst hafa verið komin með málið í febrúar þegar stefndi óskaði eftir því að hún kærði ummæli um stefnda til lögreglu. Þá hafi lögmaðurinn mætt með stefnda við þingfestingu þess máls í héraðsdómi en stefndi hafi þá tekið afrit gagnanna með sér heim til skoðunar. Við aðalmeðferð málsins mótmælti stefndi því ekki. 

Stefndi krefst sýknu á grundvelli þess að reikningur stefnanda uppfylli ekki skilyrði laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Á reikningi stefnanda er reikningseiganda getið, greiðanda, númeraröð reikningsins, sundurliðun á vinnu og útlögðum kostnaði auk virðisaukaskatts. Er þar að auki vitnað í meðfylgjandi tímaskýrslu, sem stefndi hefur ekki borið brigður á að hafa fengið í hendur. Umræddur reikningur uppfyllir öll skilyrði um bókhald og reikningagerð utan að á honum er ekki tilgreind dagsetning. Þá liggur afrit af reikningnum frammi í málinu. Skiptir engu um gildi kröfunnar þó að stefndi hafi fengið ljósrit af reikningnum við þingfestingu málsins. Auk þess hefur stefndi ekki sýnt fram á, eins og hann heldur fram, að hann hafi ekki fengið frumrit reikningsins í hendur. Hvergi er lögð sú sönnunarbyrði á kröfueiganda, að sýna fram á  að greiðanda hafi borist með sannanlegum hætti frumrit reiknings, svo hægt sé að höfða dómsmál til innheimtu skuldar. Er þessari málsástæðu stefnda hafnað.

Stefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að stefnandi sé ekki aðili að málinu. Af öllum tölvupósti sem liggur fyrir í málinu og bréfhausum, sem stafa frá stefnanda, kemur fram að um Lögmannsstofu Jóns Egilssonar hdl. og Auðar Jónsdóttur hdl. sé að ræða. Að þessu leyti mátti stefnda vera ljóst að Jón Egilsson hdl. rak umrædda lögmannsstofu. Hvort Auður Jónsdóttir hdl. hafi verið fulltrúi á lögmannsstofu stefnanda eða eigandi breytir engu um aðild stefnanda, né það rekstrarform sem viðhaft er um rekstur stefnanda, enda hefur stefndi ekki borið því við að hann hefði ekki leitað eftir vinnuframlagi Auðar Jónsdóttur, hdl. hefði hann vitað að hún rak ekki lögmannsstofu sjálf í eigin reikning með sérstöku virðisaukaskattsnúmeri. Þess heldur upplýsti stefndi að hann hefði leitað sérstaklega til Auðar þar sem hún hafði nokkru áður rekið mál fyrir dómstólum vegna meiðyrða.  Á reikningi stefnanda er tilgreint að krafið sé fyrir vinnu Auðar Jónsdóttur hdl. Er sá háttur á reikningsgerð ákvörðun eigenda lögmannsstofunnar og breytir engu um greiðsluskyldu stefnda, enda hefur lögmaðurinn sem vann verkið ekki mótmælt því að stefnandi væri réttur aðili að málinu. Þá liggur fyrir að stefndi hefur þrívegis lagt inn greiðslur á bankareikning á nafni stefnanda. Gat það ekki farið fram hjá stefnda að hann var að greiða innborganir fyrir vinnuframlag Auðar inn á reikning stefnanda. Þó svo að það breyti engu um niðurstöðuna, þá komu þessar mótbárur stefnda ekki fram fyrr en í greinargerð hans þann 26. janúar 2011. Verður því kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts hafnað.

Þá krefst stefndi sýknu á þeim forsendum að hann sé krafinn um greiðslu fyrir vinnu sem ekki hafi verið innt af hendi. Vinna lögmannsins hafi ekki hafist fyrr en 30. mars 2009 og hann vísar til tölvupósts þar um. Þá geti stefnandi  ekki krafist greiðslu fyrir fimmtán mínútna vinnu í hvert sinn sem stefnandi fær eða sendir tölvupóst, þar sem ekki fari nema nokkrar sekúndur til örfárra mínútna í að lesa tölvupóst.

Varðandi upphaf vinnu stefnanda fyrir stefnda þá liggur fyrir í gögnum málsins afrit af tölvupósti, sendum frá stefnda til Auðar Jónsdóttur hdl. þann 11. febrúar 2009, þar sem hann spyr hvort hún geti tekið að sér að kæra tiltekna aðila til lögreglu fyrir meiðyrði. Samkvæmt kæru til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem dagsett er 10. mars 2009, er sannað að lögmaðurinn var byrjaður að vinna fyrir stefnda á þeim tíma. Verða mótbárur stefnda hvað þetta varðar því ekki teknar til greina. Þá kveður stefndi stefnanda hafa borið að gera sér reikninga í sitt hvoru lagi. Annars vegar fyrir vinnu sem sneri að kæru til lögreglu og hins vegar fyrir vinnu sem sneri að vörn í meiðyrðamáli sem höfðað var gegn honum. Þrátt fyrir að vinna lögmannsins hafi annars vegar snúið að kæru til lögreglu og hins vegar að vörn stefnda fyrir dómi, þá sneri sú vinna lögmannsins að sömu aðilum og er tekið undir það með stefnanda að lögmanninum hafi ekki verið skylt að aðgreina vinnu sína svo að honum hafi borið að gera aðskilda reikninga fyrir þá vinnu en vinnan er sundurliðuð í tímaskýrslu stefnanda. Þá verður ekki séð af kröfugerð stefnanda að gjaldtaka og tímaskráning sé ósanngjörn né í ósamræmi við gjaldtöku almennt fyrir lögmannsstörf, en hann kvað tímagjald á stofu sinni vera 19.500 krónur fyrir hverja unna klukkustund auk virðisaukaskatts, samkvæmt gjaldskrá. Þá kvað vitnið Auður að stefndi hefði samið um lægra tímagjald við sig í upphafi eða 18.500 krónur auk virðisaukaskatts. Stefndi mótmælti því að honum hafi verið kynnt gjaldskrá lögmannsstofunnar í upphafi starfa lögmannsins. Þrátt fyrir að ekkert hafi verið lagt fram um að svo hafi verið, telur dómurinn að stefnda hafi mátt vera ljóst hvert tímagjaldið væri, en stefnandi kveður gjaldskrá liggja frammi á stofu sinni og hafa gert það á þeim tíma er stefndi leitaði þangað fyrst. Þrátt fyrir að sýna megi fram á að aðili sé ekki nema stutta stund að lesa tölvupóst, þá er alvita að tölvupóstur getur kallað á aðra og meiri vinnu en eingöngu lesningu póstsins, eins og vitnið Auður lýsti fyrir dóminum, en hún kvað stefnda hafa ítrekað sent sér í tölvupósti greinar, álit eða ábendingar um skrif um stefnda í fjölmiðlum eða á bloggsíðum. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að sú tímaskráning sé ósanngjörn eða of mikil eða að sú vinna hafi ekki verið unnin sem liggur í að kynna sér gögn máls. Þá liggur fyrir samkvæmt framlagðri tímaskýrslu og tölvupósti að lögmaðurinn hefur ekki í öllum tilvikum gjaldfært vinnu við afgreiðslu tölvupósts frá stefnda. Stefndi vísar til þess að lögmaður stefnenda í málinu E-1262/2009 hafi reiknað sér 13.500 krónur í tímagjald í því máli og beri að hafa það til viðmiðunar við gjaldtöku stefnanda. Þó taldi stefndi að um 5.000 krónur á klukkustund væri hóflegt gjald fyrir störf lögmannsins. Verður ekki tekið undir það með stefnda að hann geti sjálfur ákvarðað gjald það er innheimt er fyrir vinnu á lögmannsstofu stefnanda. Verður því að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Þegar allt framanritað er virt ber því að fallast á kröfur stefnanda í málinu eins og segir í dómsorði.

Stefnandi krefur stefnda um dráttarvexti frá 14. september 2010 til greiðsludags, að frádregnum tilgreindum innborgunum. Sá reikningur sem liggur fyrir í málinu er ódagsettur og ósannað er að hann hafi verið gefinn út þann 14. september 2010 eins og stefnandi heldur fram, þrátt fyrir að þess sé getið í innheimtuviðvörun og innheimtubréfi frá stefnanda til stefnda. Verður stefndi því ekki dæmdur til að greiða stefnanda vexti fyrr en frá þingfestingardegi, en þá var afrit af reikningnum lagt fram.

Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 300.000 krónur.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð :

                Stefndi, Kristján Sveinbjörnsson, kt. 190658-3179, Miðskógum 6, 225 Álftanesi, greiði stefnanda, Jóni Egilssyni, kt. 200656-3349, Knarrarvogi 4, Reykjavík, 1.716.791 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 8. desember 2010 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum þann 14. september 2010 að fjárhæð 200.000 krónur og þann 5. nóvember 2010, 60.000 krónur.

                Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.