- Uppsögn
- Biðlaun
- Kjarasamningur
|
Fimmtudaginn 3. október 2013 |
Nr. 231/2013.
|
Margrét Ólöf Ívarsdóttir (Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn Reykjavíkurborg (Kristbjörg Stephensen hrl.) |
Uppsögn. Biðlaun. Kjarasamningur.
M höfðaði mál gegn sveitarfélaginu R og krafðist greiðslu biðlauna sem hún taldi sig eiga að fá óskert greidd í kjölfar þess að henni hafði verið sagt upp störfum og deildarstjórastaða hennar við grunnskóla R verið lögð niður. Í kjarasamningi var kveðið á um að starfsmaður með eins langan starfsaldur og M skyldi jafnan frá föst laun er starfi fylgdi í tólf mánuði frá því að látið væri af starfi, enda hefði starfsmaðurinn ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélögum. Hélt M því fram að R hefði verið óheimilt að draga frá biðlaunum hennar laun sem hún fékk á meðan hún starfaði út þriggja mánaða uppsagnarfrest. Talið var að efnislegt inntak umrædds kjarasamningsákvæðis ætti rót sína að rekja til ákvæðis í brottföllnum lögum nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Með vísan til dómafordæma Hæstaréttar um beitingu þess ákvæðis var talið að telja bæri uppsagnarfrest til biðlaunatíma. Var R því sýknað af kröfum M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. apríl 2013. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.280.178 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 426.726 krónum frá 1. apríl 2012 til 1. maí sama ár, af 853.452 krónum frá þeim degi til 1. júní sama ár, en af 1.280.178 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Margrét Ólöf Ívarsdóttir, greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
I.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 23. janúar 2013, er höfðað af Margréti Ólöfu Ívarsdóttur, Hjálmholti 4, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 26. júní 2012 á hendur Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu, Tjarnargötu 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 1.280.178 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af 426.726 krónum frá 1. apríl 2012 til 1. maí s.á., af 853.452 krónum frá þeim degi til 1. júní s.á. en af 1.280.178 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefn¬anda málskostnað að mati réttarins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda hvernig svo sem málið fer.
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi, sem lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1992, starfaði hjá stefnda sem kennari við Austurbæjarskóla 1996 - 2003. Stefnandi var í barneignarleyfi skólaárið 1998 - 1999 en frá 2003 -2005 starfaði hún sem deildarstjóri við sama skóla og var deildarstjóri sérkennslu frá árinu 2005 og fram til 2011. Hluti af starfi hennar sem deildarstjóra var kennsla en laun hennar miðuðust við 100 % starf deildarstjóra.
Stefnandi er félagsmaður í Skólastjórafélagi Íslands (SÍ) sem er eitt af aðildarfélögum Kennarasambands Íslands (KÍ). Um laun og launakjör sem og réttindi og skyldur stefnanda fór samkvæmt kjarasamningi SÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Laun stefnanda voru greidd fyrir fram.
Með lögum nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, var skólastjórnendum, þar með talið deildarstjórum, tryggður sami biðlaunaréttur og verið hafði í gildi meðan grunnskólar voru á vegum ríkisins. Hinn 28. apríl 2008 gerðu KÍ og launanefnd sveitarfélaga með sér samkomulag um framlengingu kjarasamnings SÍ. Í 9. gr. samningsins var samið um að nýr kafli kæmi í kjarasamninginn sem fjallaði um réttindi og skyldur skólastjórnenda. Samningnum fylgdi fylgiskjal IV þar sem fram komu ákvæði um réttindi og skyldur, þ.m.t. biðlaun skólastjórnenda. Hinn 1. júlí 2008 tóku gildi lög nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Með þeim lögum var biðlaunaréttur kennara og skólastjórnenda felldur úr lögum.
Hinn 31. mars 2011 afhenti skólastjóri Austurbæjarskóla stefnanda bréf sem bar yfirskriftina: Uppsögn úr starfi og tilboð um nýtt starf. Þar kom fram að stefnanda væri sagt upp starfi sem deildarstjóra við Austurbæjarskóla frá og með 1. apríl 2011 og að ástæður uppsagnarinnar væru þær að ákveðið hefði verið að leggja niður stöður deildarstjóra vegna hagræðingar í rekstri. Fram kom að uppsagnarfrestur stefnanda væri 3 mánuðir frá og með 1. apríl 2012 og tekið fram að stefnandi ætti að vinna út uppsagnarfrestinn eða til 31. maí 2011. Í uppsagnarbréfinu kom einnig fram að stefnanda væri boðið 100% starf sem kennari við skólann.
Með bréfi, dagsettu 20. apríl sama ár, til skólastjóra Austurbæjarskóla gerði stefnandi athugasemdir við efni framangreinds bréfs frá skólanum og vakti athygli á röngum dagsetningum. Benti stefnandi á að hún hefði unnið sér inn sumarleyfi sumarið 2011 og liti svo á að starfsári hennar lyki með lokum skólaársins 31. júlí sama ár. Þá mótmælti stefnandi því að frá biðlaunarétti hennar yrði dreginn 3ja mánaða uppsagnarfrestur. Lögmaður stefnanda sendi Austurbæjarskóla bréf, dagsett 10. maí 2012, þar sem óskað var tiltekinna upplýsinga í ljósi framangreinds bréfs stefnanda. Lögmaður stefnanda ritaði launadeild stefnda bréf, dagsett 11. maí 2012, þar sem óskað var upplýsinga í tengslum við uppgjör á launum hennar vegna starfslokanna. Í bréfi stefnda til lögmanns stefnanda frá 22. maí 2012 kom fram að uppsagnarfrestur hefði verið frá 1. apríl 2011 til 30. júní sama ár og að staða stefnanda hefði verið lögð niður frá og með 1. júlí sama ár.
Óumdeilt er að stefnanda voru greidd laun í 3ja mánaða uppsagnarfresti frá 1. apríl 2011 til 30. júní sama ár og síðan biðlaun í 9 mánuði.
Hinn 4. júní 2012 var stefnda sent bréf þar sem hann var krafinn um ógreidd biðlaun í 3 mánuði auk dráttarvaxta. Stefndi hafnaði þeirri kröfu og höfðaði stefnandi mál þetta í kjölfarið.
II.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að við niðurlagningu á stöðu hennar hjá stefnda hafi um réttindi hennar og skyldur farið samkvæmt kjarasamningi KÍ og SÍ við Samband íslenskra sveitarfélaga sem tók gildi 1. maí 2011. Um uppsagnarfrest hennar gildi ákvæði gr. 14.9 í sama kjarasamningi þar sem segi að þegar starfsmaður sé ráðinn ótímabundið þá skuli uppsagnarfrestur hans vera 3 mánuðir. Stefnandi hafi verið ráðinn ótímabundinni ráðningu og því hafi hún átt, eins og viðurkennt sé af stefnda, rétt á 3ja mánaða uppsagnarfresti sem hafi lokið 30. júní 2011. Uppsagnarfresturinn sé lágmarksréttur, sbr. ákvæði 24.gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi kosið að segja starfi stefnanda lausu með uppsagnarfresti þegar fyrir lá að staðan yrði lögð niður og beri stefndi ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Ekki hafi þurft að tilkynna starfsmönnum um niðurlagningu á stöðu með uppsagnarfresti og engin sérstök ákvæði séu um slíkt. Stefndi hafi hins vegar kosið að hafa þann háttinn á og við það sé hann bundinn og geti því ekki valið að fella uppsagnarfrestinn inn í biðlaunatímann. Hann sé bæði bundinn af ákvæði um uppsagnarfrest, kjósi hann að notast við það, og jafnframt ákvæði um biðlaun, leggi hann stöðuna niður. Til viðbótar þeim uppsagnarfresti, sem stefndi hafi viðurkennt, eigi stefnandi rétt til biðlauna í 12 mánuði. Um þann rétt vísar stefnandi til gr. 14.2. í kjarasamningi KÍ og SÍ við Samband íslenskra sveitarfélaga.
Stefnandi hafi hafið störf hjá stefnda 1996 og eigi hún því að baki starfsaldur sem sé lengri en 15 ár. Hún eigi því rétt á 12 mánaða biðlaunum og sé sá réttur lágmarkskjör en óheimilt sé að semja um eða greiða lægri laun en kjarasamningur segi til um samkvæmt 24.gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. og 1.gr. s.l. Stefndi geti ekki haft kjarasamningsbundinn biðlaunarétt af stefnanda með því að láta hann renna inn í rétt hennar til uppsagnarfrests. Um sé að ræða tvö aðskilin kjaraatriði sem hafi sjálfstætt gildi hvort á móti öðru. Á engan hátt sé um það samið í kjarasamningi að lækka megi biðlaun ef vinnuveitandi kjósi að segja starfsmanni fyrst upp störfum áður en til niðurlagningar á stöðu hans komi. Til þess að stefndi megi draga uppsagnarrétt frá biðlaunarétti stefnanda samkvæmt kjarasamningi, hefði þurft að vera ákvæði þess efnis í kjarasamningnum en svo sé ekki. Um sé að ræða ákveðin grunnréttindi og hafi það verið ætlun aðila kjarasamnings að þau mætti skerða hvort á móti öðru, hefðu aðilar kjarasamnings þurft að semja svo um.
Þá telur stefnandi að ákveðin rökvilla felist í því að halda því fram að biðlaunaréttur geti runnið saman við rétt til uppsagnarfrests. Biðlaun geti ekki komið til fyrr en staða hafi verið lögð niður en það leiði af eðli máls og eins ákvæði gr. 14.9 í kjarasamningnum. Í bréfi stefnda komi fram að staða stefnanda hafi fyrst verið lögð niður hinn 1. júlí 2011. Fram að þeim tíma hafi laun hennar verið laun í uppsagnarfresti en eftir þann tíma hafi hún notið biðlauna og hafi biðlaunin því fyrst getað komið til eftir að staðan hafði verið lögð niður. Sé því ekki hægt að blanda biðlaunum saman við rétt sem verið hafi til staðar áður og sé að fullu uppfylltur.
Stefnandi byggir á því að stefndi geti ekki byggt niðurstöðu sína á dómum Hæstaréttar nr. 1995:2342 og 1996:4043. Þeir dómar hafi verið uppkveðnir þegar enn voru í gildi lög nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Það biðlaunaákvæði, sem nú sé að finna í gr. 14.9 í kjarasamningi KÍ og SÍ við sveitarfélög, eigi rót sína að rekja til biðlaunaákvæðis, sem hafi verið að finna í lögum nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, en það biðlaunaákvæði laganna sé ekki lengur í gildi. Eins og fram komi í formála að kafla 14 í nefndum kjarasamningi, hafi aðilar samið um þessi réttindi í kjarasamningi. Ef það hefði verið ætlun aðila að uppsagnarfrestur og biðlaun gætu skarast, hefðu aðilar kjarasamningsins þurft að taka það fram. Fullt tilefni hefði verið til þess þar sem þessi tvö dómafordæmi hafi verið til staðar. Engu að síður hafi aðilar kjarasamningsins samið um óbreytt biðlaun og óbreyttan uppsagnarfrest og hafi ekki verið minnst á það einu orði að uppsagnarfrestur ætti að dragast frá biðlaunum. Engin slík ákvæði sé að finna í þeim kjarasamningi sem aðilar gerðu með sér 2008 eða 2011. Þá byggir stefnandi á því að ekki sé hægt að líkja saman lagatúlkun og túlkun kjarasamninga. Lagatúlkun sú, sem hafi átt sér stað með fyrrgreindum dómum, hafi byggst á þeim lagatexta sem fyrir var. Túlkun kjarasamninga lúti hins vegar öðrum lögmálum en kjarasamningar og það sem í þeim standi sé lágmarksréttur og verði að túlka slíka samninga í því ljósi, sbr. 24. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. einnig 7.gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, og 1.gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launþega.
Þá sé ekkert fram komið sem bendi til þess að aðilar kjarasamningsins hafi ætlað að semja um að nefnd dómafordæmi ættu að teljast hluti af kjarasamningi aðila. Ekkert í aðdraganda þess kjarasamnings, sem aðilar hafi gert á sínum tíma, né í texta samningsins bendi til þess. Þá beri að líta til þess að í samkomulagi SÍ og Sambands íslenskra sveitarfélaga um réttindi og skyldur, sem fram komi í fylgiskjali merktu IV og fylgdi kjarasamningi þeirra, sem gerður var í apríl 2008, hafi komið fram skýringar á biðlaunaákvæði samkomulagsins. Þar sé skilyrðið um óslitið starf skilgreint og eins hugtakið staða. Þá sé fjallað um skýringu og túlkun á biðlaunatímanum. Hvergi sé á það minnst að uppsagnarfrestur eigi að skerða biðlaun eða öfugt en fullt tilefni hefði verið til þess ef svo hefði átt að vera.
Þá vísi stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 223/1999. Þar hafi Hæstiréttur ekki fallist á að ákvæði til bráðabirgða, sem kvað á um bótarétt vegna þess að staða var lögð niður, mætti túlka á sama hátt og fyrri úrlausnir réttarins sögðu til um. Í dóminum hafi verið lögð áhersla á að löggjafinn hefði þurft að tiltaka það með tvímælalausum hætti, ef bótarétturinn hefði átt að sæta frekari skerðingum en ákvæðið sjálft hafi sagt til um. Á sama hátt hefðu aðilar kjarasamnings þurft að semja svo um með tvímælalausum hætti að biðlaunaréttur gæti skarast við rétt til launa í uppsagnarfresti. Það hafi ekki verið gert og því geti stefndi ekki byggt rétt sinn á þessu.
Stefnandi bendir á að kjarasamningar séu formbundnir, sbr. 10.gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Ef ætlun aðila hefði verið sú að biðlaunaákvæðið ætti í raun að vera 9 mánuðir í stað 12, vegna ákvæða um uppsagnarfrest, hefði þurft að setja slíkt ákvæði í samning aðila vegna skilyrðisins um að kjarasamningar skuli vera skriflegir. Þá sé og til þess að líta að Reykjavíkurborg sé nánast eina sveitarfélagið sem túlki kjarasamning aðila þannig að skerða eigi biðlaun vegna uppsagnarfrests.
Stefnandi hafi mótmælt þessum áformum stefnda um leið og þau hafi verið tilkynnt og hafi stefndi því mátt vita að hann yrði krafinn um það sem eftir stóð af biðlaunum stefnanda. Stefnandi hafi heldur ekki unnið hjá öðrum á biðlaunatímanum og því eigi biðlaun hennar ekki að skerðast vegna þess.
Um kröfu sína um dráttarvexti vísar stefnandi til 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og um málskostnaðarkröfu til 130.gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og hafnar því að stefnandi eigi kröfu um greiðslu biðlauna fyrir apríl, maí og júní 2012. Samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ vegna SÍ, sem gildi frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014, hafi stefnda verið heimilt að draga laun stefnanda í uppsagnarfresti, sem hafi verið þrír mánuðir, frá tólf mánaða biðlaunum hennar. Stefndi hafi því gert upp við stefnanda að fullu.
Stefnandi grundvalli meintan rétt sinn á ákvæðum í 14. kafla kjarasamnings Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ. Inngangsorð 14. kafla kjarasamningsins beri með sér að tilurð kaflans skýrist af því að lög nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, hafi verið felld úr gildi.
Stefnandi byggi meintan rétt sinn á gr. 14.9 um uppsagnarfrest og á gr. 14.12 um biðlaun. Beri orðalag gr. 14.12 með sér að biðlaunaákvæði kjarasamningsins eigi rót sína að rekja til biðlaunaákvæðis, sem hafi verið að finna í 14. gr. laga nr. 72/1996. Ákvæði kjarasamningsins og lagaákvæðið séu orðrétt hin sömu. Í greinargerð með frumvarpi því, sem hafi orðið að síðastnefndum lögum, segi um 14. gr.: „Grein þessi svarar til 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins“. Fyrirmynd biðlaunaákvæðisins sé því ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Með dómum Hæstaréttar nr. 1995:2342 (mál nr. 93/1994) og 1996:4043 (mál nr. 235/1996) hafi dómurinn kveðið úr um það að frá biðlaunatíma, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954, skyldi draga uppsagnarfrest. Niðurstaða Hæstaréttar sé skýr um að biðlaun samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 komi ekki til viðbótar launum í uppsagnarfresti, heldur komi laun í uppsagnarfresti til frádráttar biðlaunum.
Ástæðulaust sé að ætla að biðlaunaákvæði kjarasamningsins hafi verið ætlað annað inntak en fyrirmyndarinnar, þ.e. ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954. Þvert á móti sé, með vísan til inngangsorða 14. kafla kjarasamningsins, fullt tilefni til að ætla að biðlaunaákvæði kjarasamningsins hafi verið ætlað að tryggja starfsmönnum sama rétt og lagaákvæðið, fyrirmyndin, hefði áður gert. Hefði vilji samningsaðila staðið til þess við gerð kjarasamninga að rýmka og/eða þrengja biðlaunaréttinn, sem fyrirmyndarákvæðið hafi kveðið á um, hefði samningsaðilum verið í lófa lagið að semja á þá leið. Hafi niðurstöður Hæstaréttar í málum nr. 1995:2342 og 1996:4043 og í dómi Hæstaréttar í máli nr. 223/1999 allar legið fyrir við gerð kjarasamninganna. Verði því að ætla að samningsaðilum hafi við samningsgerðina verið fullkunnugt um inntak þeirrar lagareglu sem notast hefði verið við sem fyrirmynd.
Stefndi mótmælir þeirri skoðun stefnanda, sem fram komi í stefnu, að það felist rökvilla í því að biðlaunaréttur renni saman við rétt til uppsagnarfrests. Í dómum Hæstaréttar nr. 1995:2342 og 1996:4043 hafi verið staðfest sú framkvæmd sem stefnandi telji rökvillu. Þá sé fordæmisgildi þessara dóma Hæstaréttar, hvað varði ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954, engu minna þó að lögin hafi verið felld úr gildi.
Stefnandi vísi í stefnu til dóms Hæstaréttar í máli nr. 223/1999 og geti þess réttilega að niðurstaða dómsins í því máli hafi verið öndverð við áðurnefnda niðurstöðu réttarins í áðurnefndum dómum nr. 1995:2342 og 1996:4043. Stefndi bendir hins vegar á að það komi skýrt fram í dóminum í máli nr. 223/1999 að inntak bótaréttarins samkvæmt 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, sem þar liggur til grundvallar, sé ekki hið sama og inntak biðlaunaréttarins samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954, sem fjallað hafi verið um í dómum Hæstaréttar nr. 1995:2342 og 1996:4043. Þá komi skýrt fram að ólíkt inntak lagaákvæðanna,1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954 og 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996, skýri það mat réttarins að fyrri dómsúrlausnir Hæstaréttar um skerðingu vegna launa í uppsagnarfresti hafi ekki fordæmisgildi við úrlausn réttarins í málinu nr. 223/1999. Því sé ljóst að Hæstiréttur hafi ekki horfið frá þeirri afstöðu sem fram kemur í dómum réttarins nr. 1995:2342 og 1996:4043 og standi sú túlkun réttarins því óhögguð. Óútskýrt sé í stefnu hvers vegna stefnandi telji nærtækara að líta til túlkunar Hæstaréttar á biðlaunaákvæði laga nr. 70/1996 fremur en að líta til túlkunar réttarins á því lagaákvæði sem óumdeilanlega sé fyrirmynd þess samningsákvæðis, sem á reyni í þessu máli, þ.e. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 38/1954.
Stefndi bendir á að fullyrðing stefnanda í stefnu um að stefndi sé nánast eina sveitarfélagið, sem túlki kjarasamning aðila þannig að skerða eigi biðlaun vegna uppsagnarfrests, sé ekki studd neinum gögnum, auk þess sem túlkun annarra sveitarfélaga geti ekki bundið stefnda í þessu máli. Samband íslenskra sveitarfélaga, sem fari með samningsrétt f.h. sveitarfélaganna gagnvart KÍ, hafi leiðbeint aðildarsveitarfélögum sínum um samtúlkun uppsagnarfrests og biðlaunaréttar. Leiðbeiningarnar séu á þá leið að rétt sé að telja uppsagnarfrest til biðlaunatíma. Stefndi vísar til framanritaðs um að krafa stefnanda um greiðslu biðlauna fyrir apríl, maí og júní 2012 verði ekki grundvölluð á ákvæðum kjarasamnings. Af þeim sökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi byggir málatilbúnað sinn m.a. á meginreglum samningaréttar um túlkun samningsskuldbindinga og kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV.
Ekki er í málinu tölulegur ágreiningur milli aðila málsins og þá eru þeir sammála um að stefnandi hafi við starfslok átt rétt á biðlaunum í 12 mánuði. Jafnframt er óumdeilt að uppsagnarfrestur stefnanda var 3 mánuðir Hins vegar lýtur ágreiningur málsins að því, hvort stefnda hafi verið heimilt að draga laun stefnanda í uppsagnarfresti frá biðlaunum hennar svo sem stefndi gerði við uppgjör gagnvart stefnanda.
Í 14. kafla kjarasamnings milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og KÍ vegna SÍ, sem gildir frá 1. maí 2011 til 31. mars 2014, segir í inngangsorðum að nýr kafli hafi bæst við kjarasamninginn 1. ágúst 2008 en þá hafi fallið úr gildi lög nr. 72/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. Í 14. gr. laganna var að finna svohljóðandi biðlaunaákvæði: „Nú er staða lögð niður og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í sex mánuði frá því að hann lét af starfi ef hann hefur verið í þjónustu sveitarfélaga skemur en 15 ár, en í tólf mánuði eigi hann að baki lengri þjónustualdur, enda hafi hann þá ekki hafnað annarri sambærilegri stöðu hjá sveitarfélögum.“ Segir um lagaákvæðið í athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögunum, að það svari til 14. gr. fyrri laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 38/1954. Ákvæðið er tekið orðrétt upp í ákvæði gr. 14.12 í núgildandi kjarasamningi, sem fjallar um biðlaun. Má af þessu ráða, að efnislegt inntak gr. 14.12 í núgildandi kjarasamningi á rót sína að rekja til síðastgreindra laga nr. 38/1954. Í athugasemdum með biðlaunaákvæði 14. gr. þeirra laga er lýst þeim tilgangi ákvæðisins að tryggja starfsmanni laun sem samsvari launum í ríflegum uppsagnarfresti ef staða hans er lögð niður. Með vísan til þessa hefur Hæstiréttur Íslands litið svo á að telja beri uppsagnarfrest til biðlaunatíma.
Þegar litið er til þess, sem áður er rakið um efni og tilurð biðlaunaákvæðis gr. 14 í kjarasamningnum, verður ekki fallist á það með stefnanda að við kjarasamningsgerðina hefði þurft að semja sérstaklega um að draga mætti uppsagnarfrest frá biðlaunarétti stefnanda, enda lágu dómafordæmin þá fyrir. Verður því að líta svo á að ef til hefði staðið að víkja frá þeim skilningi sem kemur fram í dómsniðurstöðum þeirra mála, hefði þurft að ganga til samninga um það. Breytir engu að þessu leyti þótt í 10. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sé mælt fyrir um að kjarasamningar séu skriflegir. Þá verður, að öllu framangreindu virtu, hvorki fallist á það með stefnanda að réttur hennar að því er varðar annars vegar uppsagnarfrest og hins vegar biðlaun séu tvenns konar lágmarksréttindi sem ekki geti skarast né heldur að á rétti til launa í uppsagnarfresti og rétti til biðlauna sé slíkur eðlismunur að þau geti ekki mæst. Loks verður ekki fallist á það með stefnanda að niðurstaða dóms í máli Hæstaréttar Íslands nr. 223/1999 verði lögð hér til grundvallar. Er enda í forsendum þess dóms sérstaklega tekið fram að inntak bótaréttar samkvæmt tilteknu bráðabrigðaákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem ágreiningur málsins snerist um, sé ekki að öllu leyti hið sama og biðlaunaréttarins og því hafi fyrri dómsúrlausnir Hæstaréttar um skerðingu vegna launa í uppsagnarfresti ekki fordæmisgildi við úrlausn málsins.
Samkvæmt öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að stefnda hafi verið heimilt að draga laun stefnanda í 3ja mánaða uppsagnarfresti frá 12 mánaða biðlaunum stefnanda. Óumdeilt er að stefndi hefur gert upp við stefnanda í samræmi við þá niðurstöðu. Að þessu virtu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Reykjavíkurborg, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Margrétar Ólafar Ívarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.