- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Neyðarréttur
- Rannsókn
|
Fimmtudaginn 11. september 2014. |
Nr. 233/2014.
|
Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari) gegn Pétri Vatnari Péturssyni (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Neyðarréttur. Rannsókn.
P var sakfelldur fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, en bifreiðin hafði verið dregin af annarri bifreið. P var ekki talinn hafa rennt haldbærum stoðum undir þá málsvörn sína að aðstæðum hafi verið þannig háttað er atvik málsins gerðust að honum hafi með vísan til 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verið refsilaus sú háttsemi sem honum var gefin að sök. Var refsing P ákveðin fangelsi í 30 daga og hann sviptur ökurétti ævilangt.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst sýknu.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa fimmtudaginn 30. ágúst 2012 ekið bifreiðinni A, óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, norður [...] í Hafnarfirði við [...], en bifreiðin hafi verið dregin áfram af bifreiðinni B.
Ákærði heldur því fram að sú háttsemi, sem honum er gefin að sök, sé honum refsilaus eftir 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 af þeim ástæðum, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag. Leiðir þegar af þeim orðum að ekki hvílir á ákæruvaldinu að hnekkja staðhæfingu ákærða um atvik, sem horft gætu honum til refsileysis. Verður gagnstæð regla hvorki leidd af 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, né 2. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með áorðnum breytingum, eins og henni hefur verið beitt í framkvæmd, sbr. dóm Hæstaréttar 2. nóvember 2000 í máli nr. 248/2000. Ákærði hefur engum haldbærum stoðum rennt undir þá málsvörn sína að aðstæðum hafi verið þannig háttað umrætt sinn að honum hafi með vísan til 13. gr. almennra hegningarlaga verið refsilaus sú háttsemi sem honum er gefin að sök.
Þá reisir ákærði málsvörn sína á því að ekki liggi fyrir lögfull sönnun um að hann hafi haft ásetning til þess að stjórna bifreiðinni greint sinn. Af gögnum málsins er ljóst að ákærði settist undir stýri bifreiðarinnar, sem dregin var af annarri bifreið, og stjórnaði akstri hennar þar til lögregla stöðvaði hann. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni, sem ákærða var tekið í þágu rannsóknar málsins, var hann undir áhrifum ávana- og fíkniefna og því óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega. Að framansögðu virtu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í máli þessu. Refsing ákærða og ökuréttarsvipting verður staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Ráðið verður af gögnum málsins að rannsókn þess hafi lokið í byrjun október 2012 er fyrrgreind niðurstaða rannsóknar á blóðsýni úr ákærða lá fyrir. Ákæra var ekki gefin út fyrr en í nóvember 2013. Þessi dráttur á útgáfu ákæru, sem ekki hefur verið skýrður, fer í bága við reglu 3. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 um að hraða beri meðferð mála. Þá athugist að ekki var tekin formleg skýrsla af ákærða við rannsókn málsins. Eins og atvikum var háttað, ekki síst vegna þess að sú háttsemi sem ákærði var sakaður um gat varðað fangelsisrefsingu, hefði verið rétt að taka slíka skýrslu af ákærða, meðal annars til að gera honum grein fyrir sakargiftum og gefa honum kost á að tjá sig um þær, sbr. VIII. kafla laga nr. 88/2008, einkum 1. mgr. 64. gr. þeirra.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Pétur Vatnar Pétursson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 265.574 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Steingríms Þormóðssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 28. febrúar 2014.
Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, útgefinni 12. nóvember 2013, á hendur Pétri Vatnari Péturssyni, kt. [...], Lynghvammi 6, Hafnarfirði, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 30. ágúst 2012, ekið bifreiðinni A sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 90 ng/ml og kókaín 25 ng/ml) norður [...] í Hafnarfirði við [...], en bifreiðin var dregin áfram af bifreiðinni B.
Telst brot þetta varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar skv. 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.
Í þinghaldi þann 12. desember 2013, lýsti ákæruvaldið því yfir að fallið væri frá ákæru að því leyti að ákærði hafi verið sviptur ökurétti þegar hann ók bifreiðinni A, fimmtudaginn 30. ágúst 2012.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, verði greiddur úr ríkissjóði
I
Um málsatvik segir í frumskýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögreglumenn á lögreglubifreið hafi verið að aka austur [...] við [...] í Hafnarfirði og þá veitt athygli bifreiðinni B sem var þar á ferð með bifreiðina A í togi. Hafi verið ákveðið að athuga með ökuréttindi og ástand ökumanna. Við nánari skoðun hafi vaknað grunur um að báðir ökumenn bifreiðanna væru undir áhrifum fíkniefna og hafi próf þar að lútandi gefið jákvæða svörun.
II
Hér verður eftir þörfum, rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi. Fyrir dómi bar ákærði að hafa hitt bróður sinn í [...] og hafi bróðir hans spurt hann hvort hann gæti sótt með honum bíl. Hafi ákærði játað því og þeir mælt sér mót þar sem bifreiðin var staðsett. Á leiðinni þangað hafi ákærði hitt C og hafi verið ákveðið að fá hann til að draga bíl bróður hans. Er ákærði hafi sest inn í bifreiðina sem átti að draga, hafi C strekkt á spottanum milli bifreiðanna og síðan rokið af stað. Hafi ákærði þegar þetta gerðist setið farþegamegin í bifreiðinni enda hafi bróðir hans sem var rétt ókominn, ætlað að sitja undir stýri. Þar sem bifreiðin var komin af stað hafi ákærði ekki haft aðra möguleika en að setjast undir stýri bifreiðarinnar. Fyrir framan lögreglustöðina hafi C síðan „svínað“ beint fyrir framan lögregluna. Hafi lögreglan þurft að bremsa til að keyra ekki beint inn í hliðina á honum. Hann hafi reynt að stíga á bremsurnar sem hafi verið lélegar og því hafi hann ekkert getað gert auk þess sem C hafi verið á stórum pallbíl. Aðspurður sagðist ákærði hafa verið undir áhrifum fíkniefna þegar hann var stöðvaður í akstri. Aðspurður sagði hann að aksturinn hafi byrjað á [...] „annarri blokk eða eitthvað“, frá lögreglustöðinni. Ferðinni hafi verið heitið á verkstæði sem sé staðsett bak við lögreglustöðina. Aðspurður sagði hann að hann hafi ekki flautað þar sem flautan hafi ekki virkað enda bifreiðin klesst að framan. Aðspurður sagði hann að kveikjulás bifreiðarinnar hafi verið ræstur, en hann hafi ekki getið gefið C merki með ljósum þar sem þau hafi ekki virkað. Aðspurður sagðist hann ekki hafa reynt að hringja í C til að fá hann til að stöðva þar sem ökuferðin hafi bara staðið í nokkrar sekúndur. Hann upplýsti að þeir hafi verið búnir að keyra um það bil eitt hundrað metra þegar þeir hafi keyrt í veg fyrir lögregluna. Aðspurður sagðist hann ekki hafa reynt að skrúfa niður rúðu bifreiðarinnar til að veifa C og þannig reynt að fá hann til þess að stöðva aksturinn. Upplýstur um að það sé bæði hraðahindrun og biðskylda áður en ekið er af [...] inn á [...] sagði ákærði að C hafi stöðvað þar en síðan ekið beint í veg fyrir lögregluna og því hafi honum ekki áunnist tími til að fara út úr bifreiðinni. Aðspurður um af hverju C hafi ekið af stað fyrst bróðir hans átti að vera ökumaður bifreiðarinnar A, upplýsti ákærði að C hafi ekki vitað um það. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa gefið C merki um að aka af stað. Aðspurður taldi ákærði að hann hafi ekki haft möguleika á því að henda sér út úr bifreiðinni, hann hafi reynt að gera það besta miðað við aðstæður.
Í frumskýrslu hjá lögreglu kemur fram að ákærða hafi verið kynntur réttur hans og að hann þyrfti ekki að tjá sig um brotið frekar en hann kysi, og hafi hann sagt að hann skildi það. Ekki kom annað fram um afstöðu ákærða til brotsins í gögnum lögreglu.
Vitnið C bar fyrir dómi að hafa verið beðinn af ákærða um að draga bíl. Þegar hann hafi komið á staðinn, hafi ákærði tengt spotta í bílinn hans sem er stór Ford pallbíl við bílinn sem átti að draga. Hafi hann ekið af stað þegar ákærði hafi gefið honum merki og hann tekið því þannig að hann ætti að aka af stað. Aðspurður sagði hann að ákærði hafi verið undir stýri þegar hann gaf honum merkið en hurðin hafi verið opin. Aðspurður sagði vitnið að bróðir ákærða hefði einnig verið á vettvangi þegar þeir óku af stað. Aðspurður kvaðst vitnið hafa litið í baksýnisspegilinn „við og við“. Hann kvaðst hafa orðið þess var að ákærði hafi verið að „sikk sakka“ og bremsa en hann hafi tekið því þannig að hann hafi bara verið að athuga með bílinn eða ástand hans enda hafi bifreiðin staðið lengi. Aðspurður sagðist hann ekki hafa verið með síma á sér en hann hafi séð síðar að það hafi verið ósvöruð hringing frá ákærða. Hann kvaðst ekki hafa séð að ákærði hafi reynt að veifa honum meðan á akstri stóð. Aðspurður kvaðst vitnið hafa stöðvað akstur í 2-3 sekúndur við biðskyldu áður en hann ók inn á [...].
Vitnið D, bróðir ákærða sem gaf símaskýrslu fyrir dómi, bar að hafa beðið ákærða þennan dag að aðstoða sig við að draga bifreið sem hann átti. Aðspurður sagði hann það rétt að hann sjálfur hafi ætlað að keyra bílinn en hann hafi hins vegar ekki komið á staðinn fyrr en klukkutíma síðar og því hafi hann ekki verið á staðnum og geti ekki vitnað frekar um það sem fram fór.
Vitnið Gunnar Brynjólfur Sigurðsson lögreglumaður, bar fyrir dómi, að hafa séð tvær bifreiðar þar sem önnur var í togi. Hafi þeir haft afskipti af ökumönnum þar sem þeir hafi kannast við þá vegna fyrri afskipta. Farið hafi verið með aðilana á lögreglustöð þar sem þeir voru látnir gefa þvag- og blóðsýni. Vitnið mun hafa rætt við ákærða en gat aðspurður ekki gefið nánari upplýsingar um atburði og vísaði til frumskýrslu málsins. Aðspurður af hverju ekki hafi verið tekin framburðarskýrsla af ákærða upplýsti vitnið að því hafi verið hætt samkvæmt verklagsreglum í málum sem þessum.
Vitnið Guðrún Jónína Sigurpálsdóttir lögreglumaður, gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hafa stöðvað akstur tveggja bifreiða þar sem önnur hafi verið í togi og hafi verið kannað með ástand ökumanna. Aðspurð man hún eftir að bifreiðin hafi stöðvað við stöðvunarskyldu á gatnamótum [...] og [...] og taldi að það hafi verið í nokkrar sekúndur en myndi það ekki nákvæmlega. Aðspurð af hverju ekki hafi verið gerð framburðarskýrsla af ákærða upplýsti vitnið að það hafi bara verið gerð vettvangsskýrsla eins og vaninn sé í svona málum.
Vitnið Kristín Magnúsdóttir deildarstjóri hjá Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum, gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að í þessu máli hafi bæði komið blóð- og þvagsýni og þar hafi mælst bæði Amfetamín og Kókaín. Sýnin hafi síðan farið í framhaldsrannsókn til magnrannsóknar. Fram kom að með gasgreiningu sé í raun tekið „fingrafar“ af sýnunum og þannig fundið út hvort eingöngu þessi efni sé að finna í sýnunum. Aðspurð sagði hún að reynslan af þessu væri mikil, þetta væri viðurkennd alþjóðleg mæliaðferð. Vitnið staðfesti matsgerð sína sem liggur frammi í málinu.
III
Niðurstöður málsins:
Í skýrslu fyrir dómi bar ákærði að hann hafi setið undir stýri bifreiðarinnar A sem dregin hafi verið áfram af bifreiðinni B og þannig stjórnað henni þar til akstur bifreiðanna var stöðvaður af lögreglu við [...] í Hafnarfirði og er því ekki ágreiningur um það atriði. Einnig kom fram hjá ákærða að hann hafi verið undir áhrifum fíkniefna við aksturinn sem er í samræmi við niðurstöður Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum um að hann hafi verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega.
Málsvörn ákærða grundvallast á því að honum hafi ekki verið gerður annar kostur en að setjast undir stýri eftir að bifreiðin var dregin af stað, og aka henni samkvæmt framangreindu og eigi því við sjónarmið neyðarréttar í máli hans. Í 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, kemur fram að það verk sé refsilaust, sem nauðsyn bar til að unnið væri í þeim tilgangi að vernda lögmæta hagsmuni fyrir yfirvofandi hættu, þótt með því séu skertir aðrir hagsmunir, sem telja verður að miklum mun minni.
Að mati dómsins geta neyðarréttarsjónarmið komið til skoðunar ef aðstæður hafa verið með þeim hætti sem ákærði lýsti sjálfur. Þá má fallast á það með ákærða að líf hans og heilsa séu lögmætir hagsmunir í þessu sambandi og þeir hagsmunir séu mun meiri en þeir hagsmunir sem skertir voru. Málið snýst því um það hvort þær aðstæður sem ákærði lýsti verði nægilega sannaðar eða hvort fram sé komin nægileg sönnun um sekt ákærða sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, skv. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Möguleg vitni að því að aðstæður hafi verið með framangreindum hætti, er ásamt ákærða sjálfum vitnið C. Í vitnisburði C kom fram að hann hafi séð ákærða veifa honum þar sem ákærði sat undir stýri bifreiðarinnar A og hann því ekið af stað. C bar einnig að þetta hafi verið mistök hjá honum því bróðir ákærða, D hafi átt að keyra og að D hafi verið á staðnum. Vitnið D, bróðir ákærða bar að hann hafi beðið ákærða að aðstoða sig við að draga bifreiðina, en að hann hafi ekki verið vitni að akstrinum sjálfum eða atvikum að öðru leyti þar sem hann hafi ekki verið á staðnum. Ákærði er því einn til frásagnar um það að hann hafi setið í ferþegasæti bifreiðarinnar þegar hún var dregin af stað.
Kemur þá til skoðunar hvort skýring ákærða sjálfs sé sennileg. Ekki verður sannað hvert ástand bifreiðarinnar var, hvort flauta, ljós eða bremsur hafi virkað. Hins vegar kom fram hjá ákærða að kveikjuláslyklar hafi verið komnir í og búið að „svissa“ á bifreiðinni þegar hún fór af stað. Ákærði bar að hann hafi reynt að bremsa en bremsur verið lélegar og C á stórri og aflmikilli bifreið og því sennilega ekki tekið eftir því að hann var að reyna að stöðva bifreiðina. C taldi að ákærði hefði verið að prófa bifreiðina sem hefði verið búin að standa mjög lengi. Þá bar ákærði að hann hafi ekki reynt að veifa til C á meðan á þessu stóð og C sagðist ekki hafi séð ákærða reyna að veifa til hans meðan á akstri stóð. C bar hins vegar að ákærði hafi gefið honum merki úr ökumannsæti sem hann hafi túlkað á þann veg að hann ætti að aka af stað. Ákærði sagðist ekki hafa gefi C merki um að aka af stað. C bar að hann hafi ekki verið með síma á sér, en það hafi verið ósvarað símtal frá ákærða og gaf það í skyn að ákærði hefði reynt að hringja í hann meðan á akstri stóð. Ákærði bar hins vegar sjálfur að hann hafi ekki reynt að hringja í C meðan á þessu stóð, það hafi ekki unnist tími til þess.
Að mati dómsins er frásögn ákærða um málsatvik ekki trúverðug enda fær hún enga stoð í framburði vitna.
Með vísan til framangreinds telst fram komin sönnun sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum að ákærði hafi verið undir stýri bifreiðarinnar A þegar hún var dregin af stað og stjórnað henni þar til akstri lauk við [...] í Hafnarfirði. Er því ekki fallist á það með ákærða að sú háttsemi sem hann er ákærður fyrir hafi á grundvelli neyðarréttar verið honum refsilaus samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og málum var háttað.
Ákærði telur að hann hafi ekki verið að „aka“ bifreiðinni heldur hafi hann „stjórnað“ henni. Eigi því við ákvæði 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála um að ekki megi dæma hann fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greini og beri því að sýkna hann. Í ákæru kemur fram að ákærði hafi: „Ekið bifreiðinni ... óhæfur til að stjórna henni örugglega ...“. Að mati dómsins ók ákærði bifreiðinni með því að stjórna henni eins og ákæru greinir og er því fallist á heimfærslu brotsins í ákæru enda ekki séð að vörn ákærða hafi verið áfátt vegna þessa.
Þá er ekki fallist á það með ákærða að skilyrði ásetnings skv. 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi skort og því beri að sýkna í málinu. Í málinu kom fram að ákærði ásamt bróður hans höfðu sammælst um að draga umrædda bifreið. Ekki verður annað ráðið af málavöxtum en ásetningur hafi vaknað strax hjá ákærða að hann myndi taka þátt í því að draga bifreiðina. Auk þess telst sannað að hann hafi sest í ökumannssæti bifreiðarinnar og ræst kveikjulás hennar. Þá verður af framangreindu ekki ráðið að ákærði hafi reynt að gefa C merki um að stöðva aksturinn.
Í máli ákærða kom fram að hann teldi að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað af hálfu lögreglunnar. Einungis lægi fyrir frumskýrsla í málinu en á engum tímapunkti hafi verið reynt að leita eftir afstöðu ákærða til sakarefnisins og eigi því við 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að ekki hafi verið gætt hlutleysis við rannsókn málsins. Á það má fallast með ákærða að gögn málsins eru eins fá og verða má þó það hafi ekki í þessu tilfelli komið niður á sönnun málsins. Hins vegar er óskýrður sá dráttur sem hefur orðið á málinu við að gefa út ákæru. Brotið átti sér stað í ágúst 2012 en ákæra er ekki gefin út fyrr í nóvember 2013, þrátt fyrir að gögn málsins beri það með sér að rannsókn málsins hafi verið lokið þegar matsgerðir úr blóð- og þvagrannsókn barst lögreglu í september 2012.
IV
Ákærði er fæddur árið 1976. Samkvæmt sakarvottorði var hann dæmdur þann 15. nóvember 2007 til greiðslu sektar og sviptur ökurétti í 6 mánuði og þann 3. febrúar 2010 gekkst hann undir viðurlagaákvörðun til greiðslu sektar og sviptur ökurétti í 2 mánuði. Brot hans nú er því ítrekun öðru sinni á broti gegn ákvæðum 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Ákvæði 70.gr. almennra hegningarlaga sem og 74. gr. sömu laga eiga ekki við í þessu máli. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin í samræmi við dómvenju, fangelsi í 30 daga. Ákærði verður sviptur ökurétti ævilangt í samræmi við ákvæði 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga, frá birtingu dómsins að telja.
V
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 122.265 krónur. Þá skal ákærði greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Þormóði Skorra Steingrímssyni hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Bogi Hjálmtýsson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Pétur Vatnar Pétursson, sæti fangelsi í 30 daga
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá birtingu dóms að telja.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, 122.265 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Þormóðs Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns, 251.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.