Print

Mál nr. 496/2016

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Guðrún Sveinsdóttir settur saksóknari)
gegn
X (Jón Bjarni Kristjánsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. júlí 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. júlí 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Gögn málsins bera með sér að eftir að varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi kom hann því til leiðar að nafngreind kona kom skilaboðum frá honum í póstkassa brotaþola, sem sum hver höfðu að geyma hótanir. Hann hefur því ekki látið af þeirri háttsemi sem krafa um áframhaldandi gæsluvarðhald er meðal annars reist á. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                                                    

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. júní 2016.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til fimmtudagsins 28. júlí nk. kl. 16:00.  

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 7. mars sl., sem staðfest hafi verið með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-[...]/2016, hafi X verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart A, kt. [...],  og B , kt. [...], sem eru stjúpdætur hans, og móður þeirra og eiginkonu sinni, C, kt. [...], þannig að lagt hafi verið bann við því að hann kæmi á eða í námunda við lögheimili sitt og þeirra að [...] í Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt hafi verið lagt bann við því að X veitti C, A og B eftirför, nálgaðist þær á almannafæri eða setti sig í samband við þær með öðrum hætti. Úrskurður héraðsdóms hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 198/2016.

Ákvörðun lögreglustjóra hafi grundvallast á því að X væri undir rökstuddum grun um að hafa í áraraðir brotið gegn mæðgunum með refsiverðum hætti og raskað friði þeirra. Um sé að ræða ítrekuð  kynferðisbrot, líkamlegt ofbeldi og hótanir, sbr. mál lögreglu nr. [...], [...] og [...]. Rannsókn þessara mála sé nú lokið og að mati lögreglustjóra er hann undir sterkum grun um ítrekuð brot gegn mæðgunum.

X hafi með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 4. apríl sl., verið gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar þess að þær mægður höfðu ítrekað tilkynnt um brot X gegn nálgunarbanninu og lagt fram kæru á hendur honum vegna brotanna. Ákvörðun lögreglustjóra hafi verið staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-120/2016 og hafi úrskurður héraðsdóms verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 258/2016.

Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 2. maí, sl. hafi X aftur verið gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni og brottvísun af heimili í kjölfar ítrekaðra brota hans gegn nálgunarbanninu. Hafi ákvörðunin verið staðfest með úrskurði héraðsdóms í máli nr. R-149/2016. Með ákvörðun lögreglustjóra, dags. 30. maí sl., hafi X enn aftur verið gert að sæta nálgunarbanni og brottvísun af heimili gagnvart þeim A og B og hafi ákvörðunin verið birt fyrir honum kl. 22:45 að kvöldi 30. maí sl.

Í framangreindum úrskurðum héraðsdóms og dómum Hæstaréttar séu efnisatriði málanna rakin með nánari hætti og atriði sem fram hafi komið við skýrslutökur af aðilum og vitnum málsins og er einnig vísað til þess til stuðnings kröfu þessari.

Þann 1. júní sl. hafði A samband við lögreglu í miklu uppnámi og kvaðst vera hrædd um líf sitt. Kvaðst hún vera nýkomin í vinnuna og að X væri kominn með enn eitt símanúmerið og væri að brjóta nálgunarbannið með því að senda henni líflátshótanir í smáskilaboðum. Kvað hún hann einnig hafa byrjað að senda henni hótanir um leið og honum var sleppt úr haldi lögreglu daginn áður, eftir að hann hafði verið handtekinn fyrir meint brot gegn nálgunarbanninu. Skömmu síðar hafi B hringt í lögreglu frá heimili sínu og sagði að X væri að senda henni hótanir frá nýju símanúmeri. Kærði hafi verið handtekinn vegna þessa og þann 2. júní sl. hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli c. og d. liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-173/2016. Hæstiréttur hafi staðfest úrskurð héraðsdóms að því leyti að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.  88/2008 um meðferð sakamála.

Að mati lögreglu sé X undir sterkum grun um ítrekuð brot gegn nálgunarbanninu, m.a. með því að senda þeim A og B samtals 917 smáskilaboð og hringja 437 sinnum í þær auk þess með því að koma að [...] í Reykjavík, nálgast að þær á almannafæri og veita þeim eftirför, sbr. mál lögreglu nr. [...], [...] og [...].

Fjölmörg ofangreindra smáskilaboða fela í sér grófar hótanir um líflát, líkamsmeiðingar og kynferðisbrot. Þá sé um að ræða fjölmörg skilaboð sem fela í sér kynferðislega áreitni og stórfelldar ærumeiðingar sem séu móðgandi og smánandi í garð þeirra A og B. Þá liggi jafnframt fyrir hótanir í garð C í gögnum málsins í smáskilaboðum og á upptökum af samtölum þeirra.

Meðal gagna málsins séu símagögn sem staðfesta ofangreint og af þeim sé ljóst að smáskilaboðin og símhringingarnar voru úr símanúmerum sem X sé skráður fyrir og einnig tveimur óskráðum frelsisnúmerum. Við handtöku þann 1. júní sl. hafi X verið með símkort sem annað frelsisnúmerið, S: [...], tilheyri í fórum sínum og hafi það verið haldlagt. Tveir símar sem X hafi verið með í fórum sínum hafi einnig verið haldlagðir þann 1. júní sl. og skv. rannsókn á símagögnum þá hafi hitt frelsisnúmerið sem um ræðir, S: [...], verið notað í annan símann en símkortið sjálft hafi ekki fundist. Við rannsókn á símagögnum kom jafnframt í ljós að í stórum hluta tilvika þar sem sendir sé skráður í símtali eða smáskilaboðum til mæðgnanna komu símar X fram á sendum í [...]nálægt dvalarstað hans á meðan nálgunarbanninu og brottvísuninni stóð.

Strax eftir að X hafi farið í gæsluvarðhald tilkynntu þær mæðgur um að X hringdi nær látlaust í þær úr fangelsinu. Í kjölfarið hafi verið látið loka á númer þeirra svo X gæti ekki hringt í þær úr fangelsinu. Frá 18. júní sl. hafi handskrifuð blöð verið sett daglega í póstkassa C.  Þetta séu ýmis skilaboð og hótanir undirrituð með nafni X. C kvaðst telja að vinkona X, D, væri að skrifa þetta fyrir X. Þann 24. júní sl. kom D að eigin frumkvæði á lögreglustöð og kvaðst bera skilaboð og bréf frá X til C.

X hafi neitað sök í skýrslutökum vegna allra framangreindra mála. Hann hafi hins vegar játað að hafa farið inn á stigaganginn á [...] í Reykjavík þann 1. júní sl. en kvaðst neita að það væri brot á nálgunarbanni. Þá hafi hann játað að hafa þann 6. mars sl. sent skilaboð til A þar sem hann hafi beðið um kynlíf en kvað skilaboðin hafa farið óvart á A. Þá hafi hann játað að hafa sagt við C þann 7. mars sl., eftir að hún hafi sagst ætla að kalla til lögreglu vegna ástandsins á heimilinu, að ef hún gerði það myndi hann ríða henni í rassgat en kvaðst bara hafa sagt það í gríni.

Í skýrslutöku í gær kvaðst hann eiga og hafa notað þá síma sem haldlagðir voru við handtöku þann 1. júní. Varðandi óskráða frelsisnúmerið [...] kvaðst hann gruna að C hefði sett það símkort og önnur símkort í veski hans og bíl. Varðandi óskráða frelsisnúmerið [...] kvaðst hann ekki kannast við það númer og hafði ekki skýringar á því af hverju það hefði verið notað í hans síma. Hann neitaði alfarið sök og kvaðst ekki hafa verið í símasamskiptum við B og A á meðan nálgunarbanninu stóð, aðeins C. Hann neitaði að hafa hótað mæðgunum og er hann spurður um hver var að senda hótanir í smáskilaboðum til þeirra kvaðst hann í fjögur skipti hafa hitt fyrrum tengdaforeldra A niðri í Mjódd. Hann grunar þau um að hafa sent smáskilaboð úr síma hans á meðan hann var á klósettinu og gleymdi síma sínum á borðinu. Einnig hafi E, kunningi hans, verið með einn símann en hann gat ekki gert frekari grein fyrir E.

Nú í júní hafi verið talið nauðsynlegt að rannsaka nokkur atriði í málunum nánar og einnig var tekin skýrsla af B fyrir dómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Rannsókn málanna allra sé nú lokið og verða þau send embætti héraðssaksóknara á allra næstu dögum.

Það athugast að til meðferðar hjá embættinu séu tvö mál til viðbótar þar sem X sé undir rökstuddum grun um kynferðisbrot og fjárhagslega misneytingu gagnvart þroskaskertri konu, sbr. mál nr. [...] og [...].

 Að mati lögreglu séu yfirgnæfandi líkur fyrir því að X muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. Það sé því talið nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi meðan málum hans sé ólokið. Hann hafi sýnt einbeittan brotavilja og ekki látið af háttsemi sinni þrátt ítrekuð afskipti lögreglu og fyrirmæli þar um. Telji lögregla ljóst að hann muni ekki fá skilorðsbundinn dóm vegna fjölda mála sem um ræðir og alvarleika þeirra.

Með vísan til framangreinds sé það mat lögreglustjóra að uppfyllt séu skilyrði til að X sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til alls framangreinds, framlagðra gagna og c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

         Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið og greinir í gögnum málsins er fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi ítrekað brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga, m.a. um hótanir og kynferðisbrot, sem varða fangelsisrefsingu ef sönnuð verða. Í ljósi sakargifta, alvarleika brotanna og fjölda þeirra þykir alls ekki sýnt að þau brot sem kærði er sakaður um muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður.

         Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í gögnum málsins og ekki síður með hliðsjón af afstöðu kærða sjálfs til þeirra alvarlegu sakarefna sem honum eru gefin að sök og fram kemur í framburði hans hjá lögreglu má ætla að kærði muni halda áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið. Það er mat dómsins að uppfyllt séu skilyrði til að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli c- liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Telja verður að af hálfu lögreglu sé gætt tilhlýðilegs meðalhófs varðandi kröfu um gæsluvarðhald og ekki verður séð að óhóflegur dráttur sé á rannsókn málsins, en mikill fjöldi tilkynninga um áframhaldandi meint brot kærða hafa borist eftir að rannsókn þess hófst í mars sl. Fyrir dóminum var upplýst að rannsókn sé að ljúka og verði málið sent til héraðssaksóknara í næstu viku. Ekki eru efni til að fallast á að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.

Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett og verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kærði, X, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 28. júlí nk. kl. 16:00.