Print

Mál nr. 542/2012

Lykilorð
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Matsgerð
  • Þjáningarbætur

                                     

Fimmtudaginn 24. janúar 2013.

Nr. 542/2012.

Þóra Magnea Magnúsdóttir og

Vátryggingafélag Íslands hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Helgu R. Hansen

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

Skaðabætur. Líkamstjón. Matsgerð. Þjáningarbætur.

H krafðist skaðabóta úr hendi Þ, ökumanns bifreiðar, og V hf., ábyrgðartryggjanda bifreiðarinnar, vegna líkamstjóns sem hún taldi sig hafa orðið fyrir er Þ ók bifreið sinni aftan á bifreið H. Þ og V hf. héldu því fram að matsgerð, sem H hafði aflað einhliða og reist kröfur sínar á, yrði ekki lögð til grundvallar í málinu, þar sem þau hefðu ekki verið boðuð á matsfund. Talið var að matsgerðin yrði lögð til grundvallar í málinu, enda var upplýst að Þ og V hf. hafði verið boðið að matsfundur yrði endurtekinn að þeim viðstöddum, auk þess sem þau neyttu ekki heimildar skaðabótalaga nr. 50/1993 til að bera matsgerðina undir örorkunefnd eða óska eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni. Þá var talið sannað að virtum atvikum málsins að H hefði orðið fyrir líkamstjóni umrætt sinn sem Þ og V hf. bæri að bæta henni. Kröfur H voru því teknar til greina að undanskilinni kröfu hennar um þjáningarbætur þar sem skilyrði 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga voru ekki talin uppfyllt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 15. ágúst 2012. Þau krefjast aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður látinn niður falla á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

I

Þann 8. janúar 2009 ók stefnda bifreið sinni eftir aðrein frá Kringlumýrarbraut að Bústaðavegi í Reykjavík. Hugðist hún beygja til hægri austur Bústaðaveg en staðnæmdist við gatnamótin vegna umferðar á Bústaðavegi, en merki er um biðskyldu efst á aðreininni. Áfrýjandinn Þóra Magnea, sem var á sömu leið, stöðvaði bifreið sína aftan við bifreið stefndu á aðreininni. Í skýrslu hennar fyrir héraðsdómi kemur fram að þegar hún hafi talið verða hlé á aðvífandi umferð eftir Bústaðavegi hafi hún lagt af stað í þeirri röngu trú að stefnda hafi nýtt þetta lag. Bifreið stefndu hafi á hinn bóginn áfram verið kyrrstæð og bifreið áfrýjandans Þóru Magneu því lent aftan á bifreið hennar. Taldi áfrýjandinn sig hafa verið á 10 til 15 km hraða á klukkustund er áreksturinn varð, en tók þó fram að hún ætti erfitt með að gera sér grein fyrir hraðanum. Í skýrslu hennar kemur ekki fram að hún hafi hemlað áður en áreksturinn varð. Kvað hún þær báðar hafa farið út úr bílunum. Við skoðun hafi hún ekki séð neitt á sínum bíl en þorði ekki að fullyrða með bíl stefndu. Sú síðarnefnda hafi hins vegar sagst finna fyrir eymslum í hálsi og hún því gefið henni símanúmerið sitt svo hún gæti haft samband við sig „ef að það yrði eitthvað úr því.“ Daginn eftir leitaði stefnda til Sveins Rúnars Haukssonar læknis. Í vottorði hans kemur fram að hún hafi kvartað um verki í hnakka, aftan í hálsi og í herðum, sérstaklega vinstri öxl. Finni hún fyrir stirðleika og hafi haft höfuðverk daginn áður. Greindi læknirinn vöðvaeymsli í herðum en ekki áberandi eymsli í hálshryggjartindum.

Í skýrslu áfrýjandans Þóru Magneu kemur fram að nokkrum mánuðum eftir áreksturinn hafi stefnda komið til sín með útfyllta tjónstilkynningu sem hún hafi undirritað. Hafi stefnda þá sagst „finna fyrir í hálsinum.“ Er tjónstilkynningin meðal gagna málsins og virðist hún móttekin af áfrýjandanum Vátryggingafélagi Íslands hf. 2. október 2009. Í tilkynningunni er sjáanlegt tjón á bifreið stefndu tilgreint „rispur aftan á bíl“ en ekkert er tilgreint í reit á eyðublaðinu fyrir sjáanlegt tjón á bíl áfrýjandans. Meðal gagna málsins er vottorð sjúkraþjálfara sem stefnda leitaði til vegna verkja í hálsi og herðum. Kemur þar fram að stefnda hafi byrjað í meðferð hjá sjúkraþjálfaranum 18. september 2009 og komið þangað 25 sinnum þegar vottorðið var ritað 19. febrúar 2010. Í vottorðinu kemur meðal annars fram að heilsa stefndu hafi almennt verið góð fram að árekstrinum, en einkennum hennar samkvæmt vottorðinu og árangri meðferðarinnar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þá er meðal gagna málsins vottorð Boga Jónssonar bæklunarskurðlæknis 31. ágúst 2010. Kemur þar fram að umræddur árekstur sé eina slysið sem stefnda segist hafa lent í. Taldi læknirinn að stefnda hefði tognað í hálsi, mjóbaki og vinstri öxl við slysið, en efni vottorðsins er nánar lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Með beiðni 5. júlí 2010 óskaði lögmaður stefndu þess að Björn Daníelsson lögfræðingur og Stefán Dalberg bæklunarskurðlæknir mætu afleiðingar umferðarslyssins. Meðal gagna sem lágu fyrir matsmönnunum voru framagreind tvö læknisvottorð og vottorð sjúkraþjálfarans. Matsfundur var haldinn 2. september 2010 og er óumdeilt að áfrýjendur voru ekki boðaðir til fundarins. Með tölvupósti sem matsmaður sendi áfrýjandanum Vátryggingarfélagi Íslands hf. að morgni 6. sama mánaðar var félaginu gefinn kostur á að leggja fram frekari gögn eða koma með athugasemdir. Þá var félaginu gefinn kostur á að biðja um að matsfundur yrði endurtekinn. Þessum tölvupósti svaraði félagið samdægurs þar sem það kom með athugasemd varðandi fyrrnefnda tjónstilkynningu og upplýsingar er lutu að skemmdum á ökutækjunum. Félagið fór þess hins vegar ekki á leit að matsfundurinn yrði endurtekinn. Í matsgerðinni er tekið fram að tjónþoli hafi sagst hafa verið heilsuhraust fram að slysinu og að í fyrirliggjandi gögnum virðist gert ráð fyrir því að svo hafi verið. Í umfjöllun matsgerðarinnar um tímabil þjáningabóta er tekið fram að matsmenn telji stefndu hafa verið nokkuð þjáða í þrjá mánuði eftir slysið. Segir þar að hún hafi eftir það leitað læknis en hún virðist „hafa þraukað í vinnu á þessu tímabili þrátt fyrir einkenni.“ Efni matsgerðar þeirra Björns og Stefáns er að öðru leyti rakið í hinum áfrýjaða dómi.

Með bréfi 7. september 2010 krafði stefnda áfrýjandann Vátryggingafélag Íslands hf. um bætur á grundvelli fyrrnefndrar matsgerðar. Félagið svaraði erindinu 15. nóvember sama ár og hafnaði bótaskyldu. Kom fram að samkvæmt útreikningum í skýrslu Aðstoðar og öryggis ehf., sem tryggingafélagið hefði aflað, hefði höggþyngd sem virkaði á líkama stefndu við áreksturinn verið svo lítil að hún hefði með engu móti getað orðið fyrir þeim meiðslum sem hún héldi fram. Í skýrslu Aðstoðar og öryggis ehf. kemur fram að útreikningurinn taki mið af formbreytingum sem verði á ökutækjum við óhapp. Er gengið út frá því að hraði á ökutæki áfrýjandans Þóru Magneu áður en hemlun hófst hafi verið 10 km á klukkustund, en við áreksturinn 5 km á klukkustund.

Stefnda höfðaði mál þetta 1. febrúar 2011. Þann 20. maí sama ár fóru áfrýjendur fram á að dómkvaddir yrðu tveir menn til að meta á hvaða hraða bifreið áfrýjandans  Þóru Magneu hafi verið er hún rakst á bifreið stefndu, hvaða kraftar hafi verkað á stefndu sem ökumann bifreiðarinnar og hvort varanlegt líkamstjón geti verið afleiðing slíkrar ákomu. Matsmennirnir Sigurður Thorlacius heila- og taugasjúkdómalæknir og Magnús Þór Jónsson prófessor í vélaverkfræði skiluðu matsgerð 2. nóvember 2011. Helstu niðurstöður matsgerðarinnar voru þær að miðað við að ekki hafi orðið formbreyting á ökutækjunum við áreksturinn yrði hraði bifreiðar áfrýjandans við áreksturinn ætlaður 6,1 km á klukkustund og sé gengið út frá þeim hraða væri ekki unnt að útiloka varanlegan áverka þótt líkurnar væru litlar.

II

Áfrýjendur reisa kröfu sína á því að matsgerð þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg verði ekki lögð til grundvallar í málinu þar sem þeir hafi ekki verið boðaðir á matsfund. Með því sem að framan er rakið er sannað að áfrýjendum var með tölvupósti 6. september 2010 boðið að matsfundur yrði endurtekinn að þeim viðstöddum. Til svars þeim tölvupósti komu áfrýjendur upplýsingum varðandi málið á framfæri við matsmennina, en kusu að svara ekki boði um að matsfundur yrði endurtekinn. Að þessu gættu verður ekki litið fram hjá umræddri matsgerð við niðurstöðu málsins enda þótt áfrýjendur hafi ekki verið boðaðir til matsfundar sem haldinn var 2. september 2010. Af þeirra hálfu hefur heldur ekki verið bent á neitt það atriði er máli skiptir og þeim hafi ekki gefist kostur á að koma á framfæri við matsmenn.

 Umræddrar matsgerðar var aflað einhliða af hálfu stefndu á grundvelli 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og því ákvæði var breytt með 9. gr. laga nr. 37/1999. Þar sem áfrýjendur hafa hvorki nýtt sér heimild framangreinds ákvæðis til að bera matsgerðina undir örorkunefnd né óskað eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni verður hún lögð til grundvallar niðurstöðu í málinu. Breytir engu þar um sú gagnrýni áfrýjenda að matsmönnum hefði verið rétt að afla frekari læknisfræðilegra gagna um fyrra heilsufar stefndu. Fyrir liggur að stefnda kvartaði um eymsli í hálsi strax á vettvangi og leitaði læknis degi síðar. Þá gekkst hún undir sjúkraþjálfun fáum mánuðum síðar eins og nánar er rakið hér að framan. Einnig liggur fyrir staðfesting bæklunarskurðlæknis, sem hún leitaði til 5. júlí 2010, um meiðsli hennar. Að gættu því sem að framan er rakið verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að sannað sé að stefnda hafi orðið fyrir líkamstjóni 8. janúar 2009 sem áfrýjendum beri að bæta henni.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga eins og ákvæðinu var breytt með 2. gr. laga nr. 37/1999 skal ekki greiða þjáningabætur vegna tímabils sem tjónþoli er vinnufær nema sérstaklega standi á. Í máli þessu nýtur engra viðhlítandi gagna um heilsufar stefndu á þessu tímabili sem leiða megi af þá niðurstöðu að sú undantekningarregla eigi hér við. Verður því ekki fallist á kröfu hennar um greiðslu þjáningabóta. Niðurstaða héraðsdóms um aðra þætti krafna stefndu verður staðfest og verða áfrýjendur því dæmd óskipt til að greiða stefndu 1.545.775 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Áfrýjendur verða óskipt dæmd til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Um gjafsóknarkostnað stefndu fer eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Þóra Magnea Magnúsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefndu, Helgu R. Hansen, 1.545.775 krónur með 4,5% ársvöxtum af 654.500 krónum frá 8. janúar 2009 til 7. september 2010, en af 1.545.775 krónum frá þeim degi til 7. október 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru óröskuð.

Áfrýjendur greiði óskipt 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 600.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. maí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. mars sl., var höfðað 1. febrúar 2011.

Stefnandi er Helga R. Hansen, Sörlaskjóli 66, 107 Reykjavík.

Stefndu eru Þóra Magnea Magnúsdóttir, Gvendargeisla 78, Reykjavík og  Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 1.762.845 krónur ásamt 4.5% ársvöxtum frá 8. janúar 2008 til 7. september 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti við aðalmeðferð málsins, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málavextir

Málsatvik eru þau að hinn 8. janúar 2009 ók stefnandi bifreið sinni, YV-102, eftir aðrein frá Kringlumýrarvegi að Bústaðavegi. Stefnda Þóra sem ók Hyundai bifreiðinni, AO-960, sem tryggð var lögbundinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. stöðvaði bifreið sína fyrir aftan bifreið stefnanda. Stefnda Þóra taldi stefnanda vera að leggja af stað inn á Bústaðaveg og leit til hliðar til að athuga með umferð. Hún lagði síðan af stað inn á Bústaðaveg í þeirri röngu trú að stefnandi hefði lagt af stað og ók aftan á bifreið stefnanda. Samkvæmt framlagðri tjónstilkynningu, undirritaðri af báðum aðilum, var sjáanlegt tjón eingöngu rispur aftan á bifreið stefnanda. Bifreið stefndu Þóru skemmdist ekkert við umferðaróhappið.

Stefnandi heldur því fram að mikið högg hafi komið á bifreiðina við áreksturinn og kveðst hún hafa skollið aftur í ökumannssætinu. Bifreiðin hafi runnið áfram og hún stigið á hemla bifreiðarinnar svo hún færi ekki út á Kringlumýrarbrautina og þá hafi höfuð hennar sveiflast fram á við. Stefnandi hafi því fyrst fengið hnykk á hálsinn er ekið var aftan á bifreiðina og síðan aftur er hún hemlaði. 

Stefnandi leitaði til Sveins Rúnars Haukssonar læknis daginn eftir. Í vottorði hans segir m.a.: „Hörð aftanákeyrsla, hún var í kyrrstæðum bíl, í bílbelti. Fékk hnykk á hálsinn. Er með verki í hnakka, aftan á hálsi og í herðum, sérstaklega vinstri öxl. Finnur fyrir stirðleika, stíf á HHH svæðinu. Fannst hún vera að fá höfuðverk í gær, fær annars aldrei höfuðverk. 

R: vöðvaeymsli í herðum, ekki áberandi eymsli á hálshryggjartindum.“

Stefnandi hóf sjúkraþjálfun 18. september 2009, en að sögn stefnanda höfðu verkir og stirðleiki þá ágerst. Í framlögðu vottorði Önnu K. Ottesen sjúkraþjálfara segir m.a: „Hún kvartaði mjög mikið undan verkjum í hálsi og herðum og hnakkafestum (tannpínuverk) sem hún metur upp á 8 skv. Vas verkjakvarðanum. Einnig kvartaði hún undan höfuðverk og svima.  Helga átti erfitt með að keyra bíl og að snúa hálsinum til vi.  Einkenni versnuðu ef hún vann, málaði eða sat við tölvu of lengi, eða gerði heimilisverk.  Einkennin skánuðu ef hún lá fyrir með hita á hnakka og herðum, liggjandi í heitum pottum eða eftir nudd.“  

Þegar vottorðið var ritað hafði stefnandi þegar sótt meðferð í 25 skipti.  Um árangur af meðferðinni segir:„ Höfuðverkur er að mestu horfinn.  Bólgur og verkir hafa minnkað í hálsi, herðum suboccipitalis, milli herðablaðanna, efri thorax og upphandlegg.  Hefur styrkst, er farin að keyra bíl aftur. Hún er meðvituð um hvernig hún þarf að bera líkamann, svo stífni ekki upp. Helga er þó misjöfn af verkjum eftir dögum og fer mikið eftir því hvort hún hefur verið að vinna of mikið á tölvu, mála eða gera heimilisverk. Verst er þó fyrir stefnanda að horfa aftur til vinstri.“

Stefnandi leitaði til Boga Jónssonar, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, hinn 5. júlí 2010. Í vottorði hans segir um skoðun: „Erfitt að snúa til vinstri 50% skerðing en aðrar hreyfingar í lagi í hálsinum. Paravertebral eymsli. Bólginn vinstra megin frá hálsi og niður að öxlinni vinstra megin. Var hraust fyrir slys ekki dofi í hendur. Aum yfir C7. Var ekki þannig. Verkir erfitt að snúa til vinstri við bolsnúning. Verkjar í mjóbaki við ystu hreyfimörk.“ Taldi læknirinn stefnanda hafa tognað í hálsi og mjóbaki og vinstri öxl við slysið. Verkir hafi lítið lagast við sjúkraþjálfun, en ekki sé búist við frekari bata og einkenni því komin til að vera.

Stefnandi óskaði eftir mati Björns Daníelssonar, lögfræðings og sérfræðings í líkamstjónarétti, og Stefáns Dalberg, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Í matsgerðinni segir um skoðun: „Við skoðun á hálsi kemur fram að hún hefur skertar hreyfingar. Við framsveigju vantar eina og hálfa fingurbreidd upp á að hakan nái niður í bringubein. Hliðarsveigja til vinstri er 40 gráður og til hægri 35 gráður, það er sárara að sveigja til hægri. Aftursveigjan er 70 gráður. Snúningur til hægri er 85 gráður og til vinstri 60 gráður. Það eru þreifieymsli yfir hnakkafestum og hálsvöðvum þar sem eymslin eru verulega meiri vinstra megin. Það eru væg þreifieymsli yfir hálshryggjartindum. Við skoðun á vinstri öxl kemur fram að hún hefur nánast fullar hreyfingar en töluvert sárar, fráfærslan sárust. Það eru töluverð þreifieymsli yfir supraspinatus sininni utanvert á öxlinni. Það eru þreifieymsli yfir vöðvafestum við innanvert og neðanvert vinstra herðablað.“ Var það því niðurstaða matsmanna að líkamstjón stefnanda væri rétt metið til 8 miskastiga, en varanleg örorka væri rétt metin til 5%, þjáningarbætur væru án rúmlegu í þrjá mánuði. Ástæða þess að tímabundið atvinnutjón var ekki metið var hins vegar skortur á gögnum.

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 7. september 2010, til stefnda, VÍS, setti stefnandi fram bótakröfu sína á hendur félaginu sem byggðist á matsgerð Björns og Stefáns. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2010, hafnaði stefndi greiðslu bóta með þeim rökstuðningi að félagið teldi það ekki geta staðist að stefnandi hefði við áreksturinn hlotið þau meiðsl sem lýst er í tjónstilkynningu til félagsins. Í bréfi stefnda er vísað til rannsóknar Aksturs og Öryggis ehf. á árekstrinum, sem aftur byggist á svokölluðu PC Crash forriti. Stefnandi telur að mat stefnda fái ekki staðist og telur sig knúna til að leita réttar síns fyrir dómstólum. 

Undir meðferð málsins fór stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til þess að meta á hvaða hraða bifreiðin AO-960 var er hún rakst á bifreiðina YV-102 og hvaða kraftar hafi verkað á matsþola, sem var ökumaður bifreiðarinnar YV-102, við ákomuna og hvort varanlegt líkamstjón geti verið afleiðing af slíkri ákomu. Til þess að meta þetta voru dómkvaddir þeir Sigurður Thorlacius, sérfræðingur í taugasjúkdómum og mati á líkamstjóni, og Magnús Þór Jónsson, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands. Er matsgerð þeirra dags. 2. nóvember 2011.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja bótakröfu sína á hendur stefndu á 88.-91. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem stefnandi slasaðist er ökutæki stefndu, Þóru Magneu, sem tryggt er hjá hinu stefnda félagi ók aftan ökutæki stefnanda sem var kyrrstætt, með þeim afleiðingum að stefnandi hlaut þá líkamsáverka, sem lýst er í matsgerð og framlögðum læknisvottorðum.  Þá byggi hún enn fremur á 95. gr. og 1. mgr. 97. gr. sömu laga vegna vátryggingafélagsins. Stefnandi hafi sótt sér mat á grundvelli 10. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með breytingu samkvæmt 9. grein laga nr. 37/1999,  eins og hún hafi heimild til að gera. Því mati hafi ekki verið hnekkt.

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á sérfræðimati Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg.  Sundurliðast dómkrafa stefnanda með  eftirfarandi hætti:

1.                       Miskabætur 8 stig654.500 kr.

2.                       Bætur fyrir 5% varanlega örorku 891.275 kr.

3.                       Þjáningarbætur í 90 daga137.070 kr.

4.                       Annað fjártjón  80.000 kr.

Samtals sé krafan að fjárhæð kr.          1.762.845 kr.

1.                       Miskabætur séu grundvallaðar á 4. gr. skaðabótalaga, sbr. 2. mgr. 15. gr. sömu laga, og reiknaðar á eftirfarandi hátt: ((37600:3282)*7142)*8=654.575 à654.500 kr.

2.                       Bætur fyrir varanlega örorku reikni stefnandi út frá lágmarkslaunum 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Aldursstuðull stefnanda á stöðugleikatímapunkti sé 6.932. Grundvallist bætur fyrir varanlega örorku á 5.-7. gr. skaðabótalaga og séu reiknaðar þannig: ((1.200.000:3282)*7033)*5%=891.275à 891.275 kr.

3.                       Þjáningabætur án rúmlegu grundvallist á 3. gr. skaðabótalaga og séu reiknaðar út á eftirfarandi hátt: ((700:3282)*7142)*90=137.070 à 137.070 kr.

4.                       Annað fjártjón byggi stefnandi á 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga og að hún hafi haft nokkurn kostnað af máli þessu, vegna komu til lækna og sjúkraþjálfara og greiðslu til þeirra vegna læknisathugana og sjúkraþjálfunar.  Byggi stefnandi á að kostnað þennan sé eðlilegt að meta að álitum, sbr. og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 35/2009.

Séu kröfur þessar byggðar á þeim sömu grunnfjárhæðum og miðað hafi verið við í kröfubréfi til stefnda VÍS en kröfugerðin hafi tekið mið af niðurstöðu sérfræðimats þeirra Björns Daníelssonar, sérfræðings í líkamstjónum, og Stefán Dalbergs, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum.

Byggi stefnandi á því að ein af meginreglum skaðabótalaga sé sú að tjónþoli eigi rétt á því  að líkmastjón hans verði metið þegar stöðugleikapunkti er náð, sbr. 5. grein skaðabótalaga og greinargerð með þeirri lagagrein. Mat á því hvenær stöðugleikapunkti er náð sé læknisfræðilegs eðlis og geti hvorir tveggja, tjónþoli og hinn bótaskyldi, krafist þess að mat á varanlegri örorku fari fram á því tímamarki, svo sem lesa megi í riti Viðars Más Matthíassonar, Skaðabótarétti, bls. 670, sbr. og 9. grein laga nr. 37/1999 og greinargerð með þeirri lagagrein. Stöðugleikapunktur í máli þessu hafi verið ákveðinn hinn 18. september 2008 samkvæmt því sérfræðimati sem stefnandi byggi kröfur sínar á. Eigi stefnandi því rétt á umkröfðum bótum þar sem hið stefnda félag hafi hvorki sinnt því að bera sérfræðimatið undir örorkunefnd né að biðja um dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja sérfræðimatinu. Stefnandi árétti að hún hafi sótt sér sérfræðimatið á grundvelli 10. greinar laga nr. 50/1993, eins og greininni hafi verið breytt með 9. grein laga nr. 37/1999, en í greinargerð með þeirri grein segi á þessa leið:

„Aðalreglan verði sú að málsaðilar afli sjálfir sérfræðilegs álits um örorku- og/eða miskastig og þá læknisfræðilegu þætti sem meta þarf skv. 2. og 3. gr. laganna til þess að ljúka megi bótauppgjöri. Sérfræðilegt mat, sem annar málsaðila aflar, geti tjónþoli eða sá sem krafinn er bóta borið undir örorkunefnd.“

Byggi stefnandi á að hið stefnda félag hafi ekkert gert til að hnekkja sérfræðimatinu.

Auk þess sem hér að ofan hafi verið rakið byggi stefnandi dómkröfur sínar á neðangreindum málsástæðum.

Stefnandi og stefnda, Þóra Magnea, hafi sameiginlega ritað nöfn sín undir framlagða tjónstilkynningu til hins stefnda tryggingafélags. Þar með hafi stefnda Þóra Magnea viðurkennt að hafa ekið aftan á bifreið stefnanda með þeim hætti sem í tjónstilkynningunni segi. Ofarlega á tjónstilkynningunni segi að tjónsstaður sé gatnamót Kringlumýrar og Bústaðavegar. Einnig komi fram að exað sé í reitinn „slys á fólki“. Þar með viðurkenni stefnda, Þóra Magnea, að stefnandi hafi slasast við áreksturinn. Þá sé exað við 8. lið tjónstilkynningarinnar er hljóði svo: „Ók aftan á ökutækið í akstri á sömu akrein og í sömu átt.“ Þar með viðurkenni stefnda, Þóra Magnea, að hún hafi gerst brotleg við varúðareglu umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, sbr. 4. grein laganna, sbr. og 3. mgr. 14. greinar, sem og meginreglu 25. greinar umferðarlaga. Stefnda Þóra Magnea hafi því valdið árekstrinum og beri ábyrgð á líkamstjóni stefnanda samkvæmt 89. grein umferðarlaga, og 3. mgr. 90. greinar sömu laga.

Tilkynning hafi verið send hinu stefnda tryggingafélagi strax eftir áreksturinn og hafi tilkynningin ekki sætt andmælum tryggingafélagsins sem hafi einnig greitt athugasemdalaust þá reikninga sem lögmaður stefnanda hafi sent tryggingafélaginu vegna vottorða heimilislæknis stefnanda, sjúkraþjálfara og bæklunarlæknis. Það hafi ekki verið fyrr en stefnandi krafði hið stefnda félag um bætur, á grundvelli sérfræðimatsins, sem stefndi hafi neitað bótagreiðslum og upplýst formlega að félagið teldi ekki orsakasamband milli árekstursins og þess líkamstjóns sem metið hafi verið. Einnig sé í þessu sambandi vísað til tölvupósts frá Sigurði Pálssyni sem sendur var lögmanni stefnanda eftir símtal við Sigurð Pálsson hinn 6. september 2010.

Tryggingafélög hér á landi útvegi slíkar tilkynningar til bifreiðareigenda og gefi einnig út leiðbeiningar um hvernig þessar tilkynningar skuli útfylltar. Hafi stefnandi gert það eftir bestu getu í samræmi við leiðbeiningar tryggingafélagsins. Geti tryggingafélagið því ekki lagt frekari byrðar á stefnanda varðandi sönnun fyrir tjóni sínu en stefnandi hefur þegar innt af hendi. Hún hafi farið til heimilislæknis daginn eftir áreksturinn sem hafi greint hana með ákveðna líkamsáverka eftir slysið. Síðar hafi stefnandi leitað til sjúkraþjálfara. Í ársbyrjun 2010 hafi stefnandi leitað til lögmanns þar sem henni hafi ekki batnað. Lögmaðurinn hafi vísað henni til bæklunarlæknis, bæði til að takmarka tjón sitt sem verða mátti, og eins til að fá það staðfest, hvort stefnandi hefði beðið varanlegt tjón eftir áreksturinn. Á grundvelli skoðunar bæklunarlæknisins, og með hliðsjón af vottorði heimilislæknisins og hins löggilta sjúkraþjálfara, hafi bæklunarlæknirinn Bogi Jónsson komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hefði beðið varanlegt líkamstjón við áreksturinn. Þessari málsástæðu til stuðnings skírskoti stefnandi til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómum Hæstaréttar Íslands í málunum nr. 615/2007, 661/2007, 259/2008 og 378/2009.

Stefnandi byggi og á því að það sé af og frá, miðað við það sem hér að ofan sé rakið, að hið stefnda félag geti nú byggt sýknukröfu sína á þeirri skýrslu sem félagið hafi aflað einhliða hjá hlutafélaginu Akstri og Öryggi ehf. sem aftur byggi niðurstöðu sína á tölvuforriti, einhvers konar „play station græju“. Byggi stefnandi á því að ýmsar forsendur sem starfsmaður Aksturs og Öryggis ehf. gefi sér séu greinilega mataðar í forritið, án þess að forsendur þessar séu samþykktar af stefnanda, en bifreið stefnanda hafi verið Benzbifreið af stærstu gerð með sterkum afturstuðara úr stáli. Framstuðari bifreiðarinnar, sem ekið var aftan á bifreið stefnanda, hafi verið úr plasti eða hertu gúmmíi sem hafi getað gefið þungt högg, án þess að stórvægilegar skemmdir hafi orðið. 

Varðandi framlögð vottorð og sérfræðimat skírskoti stefnandi til 3. mgr. 60. greinar laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 10. grein skaðabótalaga með áorðnum breytingum samkvæmt 9. grein laga nr. 5071993, og til meginreglna um sönnun í líkamstjónamálum. Þá skírskoti stefnandi sérstaklega til reglu skaðabótaréttar um sennilega afleiðingu. Varðandi þá skyldu sem á hinu stefnda félagi liggi vísi stefnandi til 1. mgr. 61. greinar laga um meðferð einkamála.

Stefnandi byggi og á því að hún hafi beðið um sérfræðimatið hinn 5. júlí 2010 og hafi það verið tilkynnt félaginu. Kröfubréf á hendur félaginu hafi verið sent til félagsins hinn 7. september 2010. Það hafi síðan ekki verið fyrr en 15. nóvember 2010 sem hið stefnda félag hafi formlega neitað að greiða bætur á þeim grundvelli að orsakasamband væri ekki milli árekstursins og líkamstjóns stefnanda. Bréfi hins stefnda félags hafi verið svarað þann 6. desember 2010, þar sem beðið hafi verið um ákveðnar skýringar á þeim staðhæfingum sem komið hafi fram í bréfi félagsins frá 15. nóvember 2010, en ekkert svar hafi borist. Byggi stefnandi á því að þetta vinnulag hins stefnda félags sé ekki í samræmi við meginreglur laga nr. 30/2004, t.d. 48. grein, sbr. 121. grein laganna, sbr. og ákvæði 22. greinar vátryggingasamningalaga, hverju það varði að hið stefnda félag hafi fengið ofangreinda tjónstilkynningu strax eftir slysið, án þess að mótmæla tilkynningunni á nokkurn hátt. Þá vísi stefnandi sérstaklega til VII. kafla vátryggingasamningalaga, sbr. 4. grein reglugerðar nr. 424/2008 um lögmæltar ökutækjatryggingar, sem og til greinargerðar með lögum nr. 155/2007.

Stefnandi styðji kröfur sínar við meginreglur bótakafla umferðarlaga, en bótafjárhæðina sjálfa byggi stefnandi 1.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 með síðari breytingum. Þá skírskoti stefnandi sérstaklega til 10. gr. skaðabótalaga, sbr. breytingu með 9. gr. laga nr. 37/1999. Stefnandi vísi einnig til reglna vátryggingaréttarins, sbr. meginreglur laga nr. 30/2004, um upplýsingar og leiðbeiningaskyldu og að félögin geti ekki takmarkað ábyrgð sína nema samkvæmt skýrum lagaheimildum, og til þeirra lagareglna sem hér að ofan séu tilgreindar.

Málsástæður stefndu og lagarök

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að ósannað sé, og afar ólíklegt, að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni sem sé afleiðing umferðaróhapps sem stefndu beri bótaábyrgð á. Þeir afar litlu kraftar sem á stefnanda virkuðu í óhappinu 8. janúar 2009, og atvik að öðru leyti, bendi eindregið til þess að ekki sé mögulegt að það líkamstjón sem stefnandi lýsi í stefnu og krefjist bóta fyrir, sé afleiðing umferðaróhappsins. Stefndu byggi á því að líkur á tímabundnum eða varanlegum meinum í umferðaróhappi því sem um ræðir séu hverfandi eða engar.  Í ljósi þeirra krafta sem stefnandi hafi orðið fyrir í umræddu slysi, og með hliðsjón af öðrum atvikum, hafi stefnandi því ekki sýnt fram á að hún hafi orðið fyrir því tjóni sem hún byggi kröfur sínar á sökum bótaskyldrar háttsemi stefndu og verði því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Þá byggja stefndu á því að eðli þeirra líkamsmeina sem stefnandi hafi verið greind með og fullyrði að séu afleiðing umferðaróhappsins sé slíkt að þau séu ekki varanleg. Það sé eðli tognunaráverka að þeir gangi til baka. Alls sé óvíst að varanlegt líkamstjón verði afleiðing þeirra tognunaráverka sem stefnandi hafi verið greind með. Með hliðsjón af framangreindu sé einnig á því byggt að ekki sé unnt að krefja stefndu um greiðslu bóta þar sem varanlegar afleiðingar hinnar bótaskyldu háttsemi séu ekki ljósar og að stöðuleikatímapunkti hafi ekki verið náð og að í öllu falli beri að sýkna að svo stöddu af þessum sökum.

Matsgerð þeirra Björns og Stefáns hafi ekkert sönnunargildi í málinu þar sem um sé að ræða matsgerð sem stefnandi hafi aflað einhliða, og án þess að stefndu væru boðaðir á matsfund og gefinn fullnægjandi kostur á að gæta hagsmuna sinna. Ekki hafi stefndu heldur haft neitt að segja um val á matsmönnum. Auk þess sé matsgerðin haldin alvarlegum annmörkum sem einir og sér valdi því að ekki sé unnt að leggja hana til grundvallar niðurstöðu í máli þessu.

Framangreindir annmarkar felist meðal annars í því að við gerð matsgerðarinnar hafi ekki legið fyrir neinar upplýsingar um sjúkrasögu stefnanda. Þá byggi allar niðurstöður um líkamsástand stefnanda á frásögn hennar sjálfrar. Staðfest hafi verið með dómum Hæstaréttar frá 12. júní 2003 í máli nr. 8/2003, sbr. og dómi Hæstaréttar frá 18. desember 2008 í máli nr. 240/2008, að matsmenn líkamstjóna eigi að byggja niðurstöður sínar á áþreifanlegum gögnum en ekki að meta trúverðugleika matsþota vegna framburðar hans á matsfundi. Engin áþreifanleg læknisfræðileg gögn liggi til grundvallar fullyrðingum stefnanda. Að lokum sé niðurstaða matsmanna, um að víkja frá þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli teljist ekki veikur í skilningi skaðabótalaga eftir að hann hefur vinnu að nýju eftir slys, órökstudd með öllu. Öllum niðurstöðum matsgerðarinnar sé því mótmælt.

Önnur læknisfræðileg gögn sem fyrir liggi séu afar rýr og byggi öll á þeirri röngu forsendu að um harðan árekstur hafi verið að ræða. Sönnunarskortur um afleiðingar bótaskyldrar háttsemi stefndu sé því algjör.

Þau einkenni sem stefnandi lýsi séu almenns eðlis og ekki sértæk fyrir slys eða ákomu á líkama. Það þurfi því ekki að hafa komið til sérstakra atburða í lífi stefnanda til þess að slík einkenni gætu gert vart við sig auk þess sem hvers konar atburðir aðrir en umferðaróhapp gætu hafa gert það að verkum að einkennin gerðu vart við sig. Skortur á sönnun um orsakatengsl sé því einnig algjör.

Stefndu byggja einnig á því að hafi stefnandi orðið fyrir líkamstjóni í kjölfar umrædds umferðaróhapps þá sé það ekki í eðlilegum orsakatengslum við umferðaróhappið og afleiðingarnar svo fjarlægar slysinu sökum þess hversu lítill ökuhraðinn var að ekki sé unnt að fella bótaábyrgð á stefndu vegna þess. Þessum málsástæðum sínum til frekari stuðnings bendi stefndu á dóma Hæstaréttar Noregs frá 17. mars 2000 í máli nr. 276/1998 og frá 9. mars 2001 í máli nr. 316/1999.

Verði talið sannað að stefnandi hafi í raun orðið fyrir líkamstjóni sem sé í orsakasambandi við umferðarslysið og sennileg afleiðing þess þá sé á því byggt að umfang þess sé ósannað og að það sé í raun minna en lýst sé í matsgerð.

Fyrir liggi í gögnum málsins, þ.m.t í matsgerð, að stefnandi stundaði að einhverju leyti vinnu á þeim tíma sem krafist sé þjáningarbóta vegna. Slíkar bætur verði ekki dæmdar nema í undantekningartilvikum á meðan tjónþoli stundar vinnu og verði því í öllu falli að sýkna stefndu af kröfu um greiðslu á umræddum bótalið.

Krafa um að dæmdar verði skaðabætur að álitum vegna ótiltekins kostnaðar sé ódómtæk. Þá hafi stefndi VÍS þegar greitt fyrir læknisvottorð Boga Jónssonar og Sveins R. Haukssonar, skýrslu sjúkraþjálfara og afrit skattframtala auk eigin kostnaðar vegna könnunar á bótaskyldu í málinu.

Stefndu byggi einnig á að metin örorka og miski séu of há og að tekið sé tillit til meintra meina sem ekki sé sannað að séu afleiðing umferðaróhappsins.

Vaxtakröfum stefnanda sé mótmælt enda beri bætur fyrir varanlega örorku eingöngu vexti frá upphafsdegi metinnar örorku, sbr. 16. gr. skaðabótalaga en ekki frá tjónsdegi líkt og stefnandi geri kröfu um.

Upphafstíma dráttarvaxta sé andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi enda hafi stefnandi ekki við þingfestingu máls þessa lagt fram upplýsingar sem þörf var á til að meta fjárhæð bóta en mat sem aflað sé einhliða af stefnanda á afleiðingum slyssins geti ekki talist fela í sér slíkar upplýsingar. Í öllu falli beri að miða við það tímamark er mánuður var liðinn frá því að stefnandi sendi stefndu kröfubréf, sbr. 9. gr. vaxtalaga.

Niðurstaða

Í stefnu er því haldið fram, eins og áður er rakið, að mikið högg hafi komið á bifreið stefnanda við áreksturinn og kveðst stefnandi hafa skollið aftur í ökumannssætinu. Bifreiðin hafi runnið áfram og hún stigið á hemla bifreiðarinnar svo hún færi ekki út á Kringlumýrarbrautina og þá hafi höfuð hennar sveiflast fram á við. Stefnandi kveðst því fyrst hafa fengið hnykk á hálsinn er ekið var aftan á bifreiðina og síðan aftur er hún hemlaði.

Stefnda, Þóra Magnea Magnúsdóttir, ökumaður bifreiðarinnar AO-960, bar fyrir dómi að hún hefði verið á leiðinni upp aðreinina. Bifreið á undan henni hefði verið kyrrstæð og hún stoppað fyrir aftan hana. Kvaðst hún hafa litið til vinstri til þess að sjá umferðina sem var að koma vinstra megin við sig og séð að það var autt pláss á akbrautinni. Henni hafi fundist bifreiðin á undan fara af stað en það hafi ekki reynst rétt. Hún hafi gefið í og lent aftan á bílnum. Kvað hún stefnanda hafa sagt að hún fyndi fyrir eymslum í hálsi. Hún kvað stefnanda hafa komið með tjónaskýrsluna til sín síðar og hún hafi skrifað undir hana. Stefnandi hafi sagst finna til í hálsinum og kvaðst hún ekki hafa rengt það og hafi síðan undirritað tjónaskýrsluna. Spurð um hraða bifreiðar sinnar taldi Þóra að hún hefði verið á 10-15 km hraða eins og þegar maður sé að taka af stað. Hugsun hennar hafi verið að aka inn á akbrautina.

Eins og áður hefur verið lýst leitaði stefnandi til læknis daginn eftir áreksturinn. Kemur fram á vottorð Sveins Rúnars Haukssonar læknis að hún hafi verið með verki í hnakka, aftan á hálsi og í herðum, sérstaklega á vinstri öxl og kvartað um höfuðverk. Hún hafi reynst vera með vöðvaeymsli í herðum, ekki áberandi eymsli á hálshryggjartindum. Stefnandi leitaði ekki aftur til læknisins og voru ekki frekari upplýsingar um hana að finna í sjúkraskrá hans.

Fyrir liggur að stefnandi byrjaði í sjúkraþjálfun hjá Önnu K. Ottesen 18. september 2009. Stefnandi hóf sjúkraþjálfun 18. september 2009, en að sögn stefnanda höfðu verkir og stirðleiki þá ágerst. Í framlögðu vottorði Önnu K. Ottesen kemur fram að við skoðun hafi hreyfiferlar í hálsi stefnanda að mestu verið eðlilegir en við hreyfingar hafi hún fengið mikla verki í háls sem leiddu niður í vinstra herðablað. Við þreifingu hafi stefnandi verið mjög slæm af verkjum og miklar bólgur í öllum mjúkvefjum í hálsi, herðum og festum vinstra megin. Í niðurstöðu skoðunar segir: „Kona á miðjum aldri sem lenti í whiplash á hálsi og er með dæmigerðar afleiðingar í hálsi, verki og óþægindi daglega.“

Eftir meðferð í 25 skipti hjá sjúkraþjálfaranum var, samkvæmt vottorði hans, höfuðverkur að mestu horfinn og bólgur höfðu minnkað í hálsi, herðum og milli herðablaða. Stefnandi hafði styrkst og var farin að keyra bíl aftur. Hún var þó misjöfn af verkjum eftir dögum og fór það mikið eftir því hvort hún hafði verið að vinna of mikið á tölvu, mála eða gera heimilisverk. 

Í vottorðinu kemur fram að heilsa stefnanda hafi almennt verið góð þar til eftir áreksturinn.

Bogi Jónsson, sérfræðingur í bæklunarskurðlækningum, skoðaði stefnanda 5. júlí 2010. Um hana segir í vottorði hans, dags. 31. ágúst 2010: „Erfitt að snúa til vinstri 50% skerðing en aðrar hreyfinga í lagi í hálsinum. Paravertebral eymsli. Bólgin vinstra megin frá hálsi og niður að öxlinni vinstra megin. Var hraust fyrir slys ekki dofi í hendur. Aum yfir C/. Var ekki þannig. Verkir erfitt að snúa til vinstri við bolsnúning. Verkjar í mjóbaki við ystu hreyfimörk.“

Í samantekt hans segir síðan að stefnandi hafi tognað í hálsi, mjóbaki og vinstri öxl við þetta slys. Verkir hafi lítið lagast þrátt fyrir sjúkraþjálfun. Ekki sé búist við frekari bata úr þessu og séu einkenni því komin til að vera. Ekki sé hægt að lækna hana með frekari læknisaðgerðum en hins vegar gæti sjúkraþjálfun bætt ástandið tímabundið.

Eins og áður greinir aflaði stefnandi mats Björns Daníelssonar, lögfræðings og sérfræðings í líkamstjónarétti, og Stefáns Dalberg, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum. Í matsgerð þeirra segir í kafla um læknisskoðun: „Við skoðun á hálsi kemur fram að hún hefur skertar hreyfingar. Við framsveigju vantar eina og hálfa fingurbreidd upp á að hakan nái niður í bringubein. Hliðarsveigja tilvinstri er 40 gráður og til hægri 35 gráður, það er sárara að sveigja til hægri. Aftursveigjan er 70 gráður. Snúningur til hægri er 85 gráður og til vinstri 60 gráður.  Það eru þreifieymsli yfir hnakkafestum og hálsvöðvum þar sem eymslin eru verulega meiri vinstra megin. Það eru væg þreifieymsli yfir hálshryggjartindum. Við skoðun á vinstri öxl kemur fram að hún hefur nánast fullar hreyfingar en töluvert sárar, fráfærslan sárust. Það eru töluverð þreifieymsli yfir supraspinatus sininni utanvert á öxlinni. Það eru þreifieymsli yfir vöðvafestum við innanvert og neðanvert vinstra herðablað.“ 

Niðurstöður matsmanna eru þær að ekki hafi verið að vænta frekari bata á heilsutjóni stefnanda vegna umferðarslyssins eftir 8. janúar 2010 er stöðugleikapunkti hafi verið náð. Matsmenn höfðu ekki undir höndum gögn vegna tímabundins atvinnutjóns og meta því ekkert tímabundið tjón. Tímabil þjáningabóta er talið þrír mánuðir frá slysdegi eða fram til 8. apríl 2009. Telja matsmenn að stefnandi hafi verið nokkuð þjáð fyrst eftir tjónsatburðinn þegar verstu einkennin gengu yfir. Stefnandi hafi þraukað í vinnu á þessu tímabili þrátt fyrir einkenni og meta þeir þjáningabætur á taxta án rúmlegu.

Varanlegur miski er metinn til 8 stiga. Miða matsmenn við að stefnandi hafi aðallega tognað í hálsi við slysið en miða einnig við að hún hafi fengið minni háttar tognun á vinstri öxl. Hún glími við einkenni frá framangreindum svæðum, einkum hreyfiskerðingu og verki. Þá sé allt úthald skert. Meta þeir meiri hluta miskans vegna einkenna frá hálsi og minni hluta vegna einkenna frá axlarsvæði. Afleiðingarnar muni hafa áhrif á leik og störf en þeir telja að ekki séu skilyrði til þess að víkja frá almennu mati í málinu (svokölluðu töflumati). Var það því niðurstaða matsmanna að líkamstjón stefnanda væri rétt metið til 8 miskastiga, en varanleg örorka væri rétt metin 5%, þjáningarbætur væru án rúmlegu í þrjá mánuði. Ástæða þess að tímabundið atvinnutjón var ekki metið var hins vegar skortur á gögnum.

Um varanlega örorku segir í matsgerð að stefnandi hafi verið heilsuhraust fyrir umferðarslysið. Hún hafi aðallega starfað við kennslu í myndlist og sem leiðsögumaður. Ekkert liggi fyrir um annað en að hún hefði án líkamstjóns áfram sinnt sambærilegum störfum og hún hafði með höndum. Gildi það m.a. um förðun en horfa verði til þess að hún sé menntuð í faginu og hafi starfað við þá iðju í mörg ár, þó ekki undanfarið.

Stefnandi hafi eftir slysið glímt við nokkur einkenni í hálsi, einnig eitthvað í vinstri öxl. Kvarti hún m.a. yfir úthaldsleysi í starfi sem þyki trúlegt miðað við einkenni hennar samkvæmt þeim upplýsingum er liggi fyrir. Þrátt fyrir það ætti hún ekki að þurfa að skipta um starfssvið.

Matsmenn telja stefnanda hafa orðið fyrir minni háttar skerðingu á getu til tekjuöflunar vegna afleiðinga slyssins. Þá aðallega vegna hálseinkenna og getu til að vinna langa vinnudaga, mikla auka- og yfirvinnu. Er varanleg örorka hennar metin 5%.

Af hálfu stefnda er á því byggt að ósannað sé og afar ólíklegt að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í árekstrinum. Atvik bendi eindregið til þess að ekki sé mögulegt að það líkamstjón, sem stefnandi lýsi í stefnu og krefjist bóta fyrir, sé afleiðing umferðaróhappsins. Þá er því haldið fram af stefndu að eðli þeirra líkamsmeina sem stefnandi hafi verið greind með, og fullyrði að séu afleiðing umferðaróhappsins, séu slík að þau séu ekki varanleg. Þá hafi matsgerð þeirra Björns og Stefáns ekkert sönnunargildi í málinu þar sem hennar hafi verið aflað einhliða af stefnanda. Þá sé hún haldin þeim annmörkum að ekki hafi legið fyrir neinar upplýsingar um sjúkrasögu stefnanda. Þá byggi allar niðurstöður um líkamsástand stefnanda á frásögn hennar sjálfrar. Önnur læknisfræðileg gögn sem fyrir liggi séu afar rýr og byggi öll á þeirri röngu forsendu að um harðan árekstur hafi verið að ræða. Sönnunarskortur um afleiðingar bótaskyldrar háttsemi stefndu sé því algjör. Þau einkenni sem stefnandi lýsi séu almenns eðlis og ekki sértæk fyrir slys eða ákomu á líkama. Skortur á sönnun um orsakatengsl sé því einnig algjör.

Eins og áður greinir aflaði stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., matsgerðar dómkvaddra matsmanna, þeirra Sigurðar Thorlacius og Magnúsar Þórs Jónssonar, til þess að meta á hvaða hraða bifreiðin AO-960 var er hún rakst á bifreiðina YV-102 og hvaða kraftar hafi verkað á matsþola, stefnanda, sem var ökumaður bifreiðarinnar YV-102, við ákomuna og hvort varanlegt líkamstjón geti verið afleiðing af slíkri ákomu.

Matsgerðin er ítarleg og er þar svarað sjö spurningum matsbeiðanda um líklegan hraða bifreiðar stefndu og þyngdarkraft sem ætla má að hafi verkað á stefnanda við umferðaróhappið og er þar miðað við að ekki hafi orðið varanleg formbreyting á ökutækjunum.

Í sjöundu spurningu eru matsmenn spurðir að því hversu líklegt sé að varanlegt líkamstjón, líkt því sem stefnandi hefur lýst, sé afleiðing af því er bifreiðin AO-960 rakst á bifreiðina YV-102, á aðreininni að Bústaðavegi.

Í svari sínu gera matsmenn grein fyrir rannsóknum sem hafa verið gerðar á því hversu miklar líkur séu á varanlegu heilsutjóni við lághraða-aftanákeyrslu. Niðurstaða þeirra er sú að miðað við ætlaðan hraða hafi höfuð ökumannsins fengið hröðun sem sé 4,3 g og því sé ekki hægt að útiloka varanlegan áverka þótt líkurnar séu litlar.

Fyrir liggur að stefnandi aflaði einhliða matsgerðar þeirra Björns Daníelssonar og Stefáns Dalberg. Stefndi nýtti sér hins vegar hvorki heimild í 1. mgr. 10. gr. skaðabótalaga til þess að bera matsgerðina undir örorkunefnd né óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að hnekkja henni. Hefur matsgerðinni því ekki verið hnekkt og verður á henni byggt.

Í læknisvottorðum og matsgerð er gengið út frá því að stefnandi hafi verið heilsuhraust fyrir umferðarslysið 8. janúar 2009 og að þau einkenni sem þar eru tilgreind stafi frá slysinu enda hefur ekkert komið fram í málinu er sýnir fram á annað. Samkvæmt framburði stefndu, Þóru Magneu, kvartaði stefnandi um eymsli í hálsi strax eftir áreksturinn.Hún leitaði læknis strax eftir atvikið og var í meðhöndlun hjá sjúkraþjálfara í kjölfarið. Þegar virt er það sem fram hefur komið í málinu, og áður er rakið, þykir stefnandi hafa sýnt fram á að þau einkenni sem lýst er í matsgerð, og metin eru til miska og varanlegrar örorku, séu afleiðingar af árekstrinum hinn 8. janúar 2009. Þykir matsgerð Sigurðar Thorlacius og Magnúsar Þórs Jónssonar ekki hnekkja þeirri niðurstöðu enda útiloka þeir ekki að stefnandi hafi getað hlotið varanlegan áverka við áreksturinn.

Ber samkvæmt framansögðu að fallast á að stefnandi hafi hinn 8. janúar 2009 hlotið líkamstjón sem stefnda beri að bæta henni.

Kröfur stefnanda um bætur fyrir miska og varanlega örorku byggja á framlagðri matsgerð og er ekki tölulegur ágreiningur um þær. Verða þessir kröfuliðir því teknir til greina.

Stefnandi krefst þjáningabóta í 90 daga sem er í samræmi við matsgerð. Fram kemur í matsgerð að stefnandi hafi þraukað í vinnu á þessu tímabili þrátt fyrir að hún hafi verið nokkuð þjáð vegna afleiðinga slyssins. Þykir fram komið að stefnandi hafi á þessu tímabili glímt við þjáningar og úthaldsleysi. Ber því eftir atvikum að taka til greina kröfu stefnanda um þjáningabætur.

Krafa um bætur vegna annars fjártjóns er ekki studd neinum gögnum og er henni hafnað.

Samkvæmt framansögðu verða kröfur stefnanda um bætur fyrir miska, varanlega örorku og þjáningabætur teknar til greina en þær nema samtals 1.682.845 krónum.

Vextir dæmast af kröfu um varanlega örorku frá dagsetningu matsgerðar 7. september 2009. Dráttarvextir dæmast frá 7. október 2010 en þá var mánuður liðinn frá því að stefnandi setti fram kröfur sínar gagnvart stefndu er byggðust á matsgerð.

Eftir þessari niðurstöðu ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 691.649 krónur og greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 241.649 krónur, eða samtals 741.649 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Þóra Magnea Magnúsdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði stefnanda óskipt 1.682.845 krónur með 4,5% ársvöxtum af 791.570 krónum frá 8. janúar 2009 til 7. september 2010, en af 1.682.845 krónum frá þeim degi til 7. október 2010 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndu greiði stefnanda 741.649 krónur í málskostnað sem greiðist í ríkissjóð.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 500.000 krónur, og útlagður kostnaður, 241.649 krónur, eða samtals 741.649 krónur, greiðist úr ríkissjóði.