Print

Mál nr. 336/2017

Andri Þór Guðmundsson, Hallur Kristvinsson, Páll Guðmundsson, Ragnheiður Þórunn Guðmundsdóttir og Vilhjálmur Guðmundsson (Hjörleifur B. Kvaran hrl.)
gegn
Ara Má Lúðvíkssyni, Baldri Ó. Svavarssyni, Jóni Þór Þorvaldssyni, Reykjavíkurborg og Þreki ehf. (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kveðið var á um að allir dómarar við þann dómstól vikju sæti vegna vanhæfis í máli AÞG o.fl. gegn AML o.fl. sökum þess að einn af aðilunum væri bróðir setts héraðsdómara sem þar starfaði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að héraðsdómari yrði aldrei vanæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að annan dómara við sama dómstól brysti til þess hæfi samkvæmt d. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af rökstuðningi fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar yrði ekkert ráðið um að aðrir dómarar við dómstólinn en systir aðilans stæðu í einhverjum þeim tengslum við hann að valdið gæti vanhæfi þeirra, en þessi aðstaða ein og sér gæti ekki orðið til þess að með réttu mætti draga í efa óhlutdrægni þeirra í málinu samkvæmt g. lið lagagreinarinnar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2017, þar sem kveðið var á um að allir dómarar við þann dómstól vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðilum, en samkvæmt kæru mun sóknaraðilum fyrst hafa orðið kunnugt um úrskurðinn 22. maí 2017. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir dómstjóra „að úthluta málinu til reglulegs dómara við dóminn til frekari meðferðar“. Þá krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með hinum kærða úrskurði, sem starfandi dómstjóri við Héraðsdóm Reykjavíkur kvað upp á grundvelli heimildar í 1. málslið 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, var sem fyrr segir kveðið á um að í málinu vikju allir dómarar við þann dómstól sæti vegna vanhæfis, þar sem einn af aðilunum, varnaraðilinn Ari Már Lúðvíksson, væri bróðir Ingiríðar Lúðvíksdóttur setts héraðsdómara, sem þar starfar. Samkvæmt úrskurðinum leiddi þetta vanhæfi af ákvæði g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

Í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 er mælt svo fyrir að héraðsdómari sé sjálfstæður í dómstörfum og leysi þau af hendi á eigin ábyrgð. Skuli hann fara eingöngu eftir lögum við úrlausn máls og aldrei lúta þar boðvaldi annarra. Vegna þessa verður héraðsdómari aldrei vanhæfur til að fara með mál af þeirri ástæðu einni að annan dómara við sama dómstól bresti til þess hæfi samkvæmt d. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Af rökstuðningi fyrir niðurstöðu hins kærða úrskurðar verður ekkert ráðið um að aðrir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur en systir varnaraðilans standi í einhverjum þeim tengslum við hann að valdið gæti vanhæfi þeirra, en þessi aðstaða ein og sér getur ekki orðið til þess að með réttu megi draga í efa óhlutdrægni þeirra í málinu samkvæmt g. lið áðurnefndrar lagagreinar. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi.

Í ljósi þess að ekki verður ráðið af gögnum málsins að varnaraðilar hafi átt á nokkurn hátt frumkvæði að ákvörðuninni, sem hinn kærði úrskurður snýr að, og þeir hafa ekki tekið til varna hér fyrir dómi verða þeir ekki dæmdir til að greiða sóknaraðilum  kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2017.

                Mál þetta, sem þingfest var 30. júní 2016, af Halli Kristvinssyni, Vilhjálmi Guðmunds­syni, Páli Guðmundssyni, Ragnheiði Þórunni Guðmundsdóttur og Andra Þór Guðmundssyni, á hendur Þreki ehf., Reykjavíkurborg, Úti og inni sf., Ara Má Lúðvíkssyni og Baldri Ó. Svavars­syni.  Greinargerð stefndu var lögð fram á reglulegu dómþingi 12. janúar sl., og fór málið þá til dóm­stjóra til úthlutunar.

                Dómkröfur stefnenda eru að viðurkennt verði með dómi að viðbygging við íþrótta­mið­stöð­ina Austurbergi 3, Reykjavík, sem hýsa á líkamsræktarstöð í eigu stefnda Þreks ehf. og breyt­ingar stefndu Reykjavíkurborgar á íþróttamiðstöðinni í tengslum við gerð við­bygg­ingar­innar, fari í bága við höfundarrétt Guðmundar Þórs Pálsonar, hönnuðar íþrótta­mið­stöðv­ar­innar.  Þá krefst stefn­andi þess einnig að viðurkennt verði með dómi að framlagning stefndu, Ara Más, Baldurs og Úti og inni sf., á uppdráttum til byggingaryfirvalda af viðbyggingu við íþrótta­mið­stöðina Austur­bergi 3, Reykjavík, feli í sér hlutdeild í höfundarréttarbrotum stefndu, Þreks hf. og Reykja­víkur­borgar, og fari þannig í bága við höfundarrétt Guðmundar Þórs Pálssonar, hönnuðar íþrótta­mið­stöðv­arinnar.

                Þá krefjast stefnendur þess að viðurkennt verði með dómi að gerð og framlagning stefndu, Ara Más, Baldurs og Úti og inni sf., á ýmsum uppdráttum til byggingaryfirvalda, sem sýna hönnun Guðmundar Þórs Pálssonar á íþróttamiðstöðinni Austurbergi 3, Reykjavík, ásamt þeirra eigin hönnun, sem unnin hafi verið ofan í eða sem viðbót við uppdrætti Guðmundar Þórs, án til­vís­unar til hans sem hönnuðar, fari í bága við höfundarrétt Guðmundar Þórs.  Einnig krefjast stefn­endur málskostnaðar úr hendi stefndu.  

                Einn stefndu, Ari Már Lúðvíksson, er bróðir Ingiríðar Lúðvíksdóttur, setts héraðsdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur.  Í ljósi þeirra tengsla og með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur víki sæti í þessu máli.

Hervör Þorvaldsdóttir varadómstjóri kvað upp úrskurð þennan, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, en dómstjóri er í námsleyfi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur víkja sæti í máli þessu.