- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Útlendingur
|
Mánudaginn 23. febrúar 2015 |
Nr. 143/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Jón Sigfús Sigurjónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. febrúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. mars 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa sín verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, til vara að beitt verði mildari úrræðum en frelsissviptingu, en til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími en krafist er.
Samkvæmt 29. gr. laga um útlendinga nr. 96/2002 hvílir sú skylda á útlendingi, sem dvelst hér á landi, að upplýsa hver hann er. Ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta er heimilt samkvæmt 7. mgr. 29. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008 um breytingu á lögunum, að úrskurða útlending í gæsluvarðhald samkvæmt reglum laga nr. 88/2008 eftir því sem við á. Einnig getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu afmörkuðu svæði. Fyrrgreind tilvísun í reglur laga nr. 88/2008 felur það eitt í sér að um meðferð máls fer samkvæmt þeim lögum eftir því sem við á, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2013 í máli nr. 781/2013.
Samkvæmt gögnum málsins leikur rökstuddur grunur á því að varnaraðili hafi gefið upp rangar upplýsingar um hver hann er. Þá benda gögn málsins einnig til þess að varnaraðili hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af honum stafi hætta. Samkvæmt þessu eru skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 fyrir hendi. Þótt framangreindum skilyrðum sé fullnægt má ekki beita útlending varðhaldi nema að það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og að því verði ekki náð með öðru og vægara móti.
Í athugasemdum með 18. gr. frumvarps til áðurnefndra laga nr. 86/2008 um breytingu á 29. gr. laga nr. 96/2002 segir meðal annars að nauðsynlegt sé í tilvikum eins og því sem hér um ræðir að lögregla geti lagt fyrir viðkomandi útlending að dvelja á ákveðnu afmörkuðu svæði áður en látið yrði reyna á gæsluvarðhald. Með „afmörkuðu svæði“ sé til dæmis átt við tiltekinn bæjarhluta, gistiheimili eða aðra aðstöðu sem komið yrði upp fyrir þá útlendinga sem um ræði. Til þessa úrræðis hefur ekki verið gripið af hálfu sóknaraðila í máli þessu. Að framansögðu gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. febrúar 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að að útlendingur sem kveðst heita X og kveðst vera fæddur [...] 1998, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 5. mars 2015, kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að 21. janúar 2015 hafi tveir erlendir karlmenn komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu 113 í Reykjavík. Hafi þeir greint frá því að þeir væru bræður frá [...]. Annar þeirra hafi sagst heita A, f. [...] og hinn X, f. [ ]1998. Hafi þeir skírt frá því að þeir hefðu engin skilríki undir höndum, aldrei átt slíkt og ekki hafa notast við skilríki á ferðalagi sínu. Hafi þeir farið frá heimabæ sínum, [...] í [...], fyrir nokkrum árum til [...]. Þaðan hafi þeir farið til [...] og [...], í gegnum [...] til [...], til [...] og þaðan til Íslands. Hafi þeir flogið með flugfélaginu [...] 20. janúar sl. til Íslands og lent hér samdægurs en ekki gefið sig fram við lögreglu fyrr en daginn eftir. Fram kemur í greinargerð lögreglustjórans að þeir hafi sagt að lögreglan í [...], [...] og [...] hafi haft afskipti af þeim þegar þeir hafi komið til viðkomandi landa, tekið fingraför þeirra og boðið þeim að sækja um hæli, sem þeir hafi þó ekki gert. Á lögreglustöðinni við Hverfisgötu hafi verið teknar ljósmyndir og fingraför af þeim. Hafi þeir lagt fram beiðni um hæli í og í kjölfarið verið komið fyrir í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar.
Samkvæmt greinargerð lögreglustjóra mun verkefnastjóri í málefnum hælisleitenda hafa upplýst að kærði, X, hafi fljótlega farið að sýna af sér sjálfsskaðandi hegðun. Hafi hann m.a. brennt gat á rúmið sitt og þá sagst vera að að reyna að kveikja í sér. Hafi hann þá verið fluttur á annað heimili á vegum barnaverndar Reykjavíkur þar sem hann hafi einnig sýnt af sér ógnandi hegðun, barið í veggi og stiga og hótað starfsfólki heimilisins með því að taka niður nöfn þeirra og segjast ætla að refsa þeim. Þá hafi hann einnig skemmt bíl starfsmanns. Hegðun hans muni hafa versnað til muna kvöldið áður en hann hafi átt að fara í aldursgreiningu hjá tannlækni. Hann hafi svo verið fluttur á þriðja heimili þar sem hann hafi sýnt af sér ógnandi framkomu við starfsmann barnaverndar sem hafi vitjað hans. Hafi í kjölfarið verið ákveðið að ekki yrði sendur barnaverndarfulltrúi til hans nema í lögreglufylgd.
Fram kemur í greinargerðinni að lögregla hafi fengið heimild barnaverndar til þess að spegla tölvu í eigu barnaverndar sem kærði, X, hafi notað meðan hann hafi verið vistaður hjá þeim og sé ljóst af þeirri skoðun að hann hafi verið að skoða mikið af efni sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Íslamska ríkinu og Boko Haram, m.a. þar sem sjá megi aftökur á fólki.
Þann 16. febrúar sl. hafi lögreglu borist beiðni um að vera til taks þegar tilkynna hafi átt kærða, X, niðurstöðu aldursgreiningar tannslæknis. Hafi lögreglumenn verið viðstaddir er honum hafi verið kynnt niðurstaða matsins en skv. henni sé hann eldri en 18 ára. Samkvæmt framburði starfsmanns útlendingastofnunar og túlki kærða á fundinum hafi hann viðhaft hótanir um að sprengja þúsund manns í loft upp ef hann yrði sendur til [...]. Þá hafi einnig sagt að hann myndi fremja sjálfsmorð.
Vísað er til þess að meðal gagna málsins sé tölvupóstur frá verkefnastjóra í málefnum hælisleitanda. Hafi hún kveðið mál beggja kærðu hafa verið óvenjuleg frá byrjun. Ætlaður bróðir kærða hafi strax fyrsta sólahringinn verið vistaður nótt á bráðamóttöku geðdeildar vegna sjálfsvígshótana. Örfáum dögum seinna hafi hann verið lagður inn á bráðamóttöku i Fossvogi vegna hnífsstungu sem hann sagðist hafa veitt sér sjálfur og í kjölfarið hafi hann verið sendur aftur á geðdeild Landspítalans en hafi verið úrskurðaður þaðan samdægurs.
Í greinargerð lögreglustjóra er tekið fram að kærði, X, hafi á lögreglustöð þann 21. janúar sl. sagst vera fæddur [...] 1998. Hann hafi einnig gefið yfirvöldum upplýsingar að hann sé fæddur [...] 1998, það hafi hann gert m.a. í skýrslutöku fyrr í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá Interpol í [...] sé kærði og samferðarmaður hans þekktir af þarlendum yfirvöldum undir öðrum nöfnum, fæðingardögum og árum. Kærði X sé þekktur undir nafninu Y, fæddur [...] 1992. Hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sömu aðila sé að ræða þrátt fyrir mismunandi nöfn og fæðingarár. Hafi þess sérstaklega verið getið að þetta væru upplýsingar sem kærði hafi sjálfur gefið upp í [...], en ekki væri staðfest að um réttar upplýsingar væri að ræða.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í [...] sé kærði, X, einnig þekktur undir öðru nafni og öðrum fæðingardögum, þ.e. annars vegar X, [...]1994 og hins vegar Z, [...]1996. Hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sama aðila væri að ræða þrátt fyrir mismunandi nöfn og fæðingarár.
Á það er bent að kærði og samferðarmaður hans séu eftirlýstir innan [...] þar sem brottvísa eigi þeim til [...] á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Báðir séu þeir eftirlýstir í [...] þar sem þeir hafi ekki sinnt boðunum vegna hælisumsókna sinna.
Vísað er til þess að í skýrslutöku af kærða, X, 19. febrúar sl. hafi hann játað m.a. að hafa gefið upp rangar persónuupplýsingar í [...] og í [...]. Hann hafi ekki getað skýrt hvers vegna hann hafi gefið upp mismunandi fæðingardag fyrir yfirvöldum hérlendis. Hafi hann jafnframt greint frá því að hann hafi reynt að fá fölsuð skilríki til þess að komast á til Íslands. Aðspurður hvort að kærði styddi aðferðir ISIS hryðjuverkasamtakanna hafi hann sagst elska samtökin, þau væru ekki fyrir stríð og ekki fyrir pyntingar. Kærða hafi verið kynnt að skv. netsögu tölvu, sem hann notaði, hafi hann skoðað youtube myndbönd með Boko Haram, ISIS og Dasch o.fl. vefsíðum. Hafi hann þá sagst vilja fara aftur til [...] og taka þátt í stríði fyrir guð.
Í skýrslutöku af samferðarmanni kærða, A, hafi hann játað að hafa gefið upp rangar persónuupplýsingar í [...] en kvað að um misskilning hefði verið að ræða í [...] varðandi fæðingardag hans. Aðspurður um það hvenær bróðir hans væri fæddur hafi hann upplýst að hann héldi að það væri árið 1996. Hann hafi hins vegar ekki getað greint frá því hvaða mánaðardag hann væri fæddur. Hafi hann skýrt frá því að þeir hafi verið samferða allan tímann frá [...] til Íslands.
Fram kemur í greinargerð lögreglustjóra að hann telji í ljósi þess sem að framan greini að kærði ásamt samferðarmanni hans séu undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar hjá yfirvöldum um hverjir þeir eru, en þeir hafi gefið upp mismunandi nöfn og aldur milli landa. Ekki sé vitað hver séu raunveruleg nöfn, þjóðerni og aldur þeirra, eða hvort þeir séu bræður í raun og veru. Þá sé ljóst að þeir hafi verið í miklu ójafnvægi síðan þeir komu til landsins og sé það mat lögreglu að þeir hafi sýnt af sér hegðun sem gefi til kynna að af þeim stafi hætta og að talin sé hætta á því að þeir kunni að grípa til ofbeldis gangi þeir lausir.
Er það jafnframt mat lögreglustjóra að ætla megi að þeir muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan yfirvöldum og lögmætum ráðstöfunum, svo sem flutningi til [...]. Þá sé það enn fremur mat lögreglustjóra að aðgerðir og athafnir kærðu eftir að þeir komu til landsins séu þess eðlis að af þeim stafi hætta og óöryggi.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008 og b. og d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála telur lögreglustjóri nauðsynlegt að kærð verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til fimmudagsins 5. mars nk. kl. 16.00.
Niðurstaða:
Í 29. gr. laga nr. 96/2002 er lögð sú skylda á útlending, sem dvelst hér á landi, að upplýsa hver hann er. Þar er gerð nánari grein fyrir rannsóknarúrræðum stjórnvalda til að varpa ljósi á það. Í 7. mgr. greinarinnar, sbr. 18. gr. laga nr. 86/2008, kemur fram að ef útlendingur neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að útlendingur gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða hann sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta er heimilt að handtaka útlendinginn og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt reglum um meðferð sakamála, eftir því sem við á. Einnig getur lögregla lagt fyrir hann að tilkynna sig á ákveðnu afmörkuðu svæði.
Varnaraðili hefur ekki neitað að gefa upp hver hann er. Þegar hann gaf sig fram á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 21. janúar 2015, og sótti um hæli hér á landi, kvaðst hann heita X og vera á ferð með bróður sínum A, en nöfn þeirra eru þannig skráð í dagbók lögreglu. Þar kemur einnig fram að varnaraðili hafi upplýst að hann sé fæddur [...] 1998 í borginni [...] í [...]. Fram kemur í gögnum málsins að varnaraðili hafi í samtölum við starfsmenn Útlendingastofnunar tilgreint annan fæðingardag, eða [...] 1998, en við skýrslutöku af honum hjá lögreglu í gær kvað hann það vera réttan fæðingardag. Bræðurnir voru án skilríkja er þeir gáfu sig fram.
Með fingrafarasamanburði hefur komið í ljós að varnaraðili er skráður hjá yfirvöldum í [...] undir nafninu, Y, en þar kvaðst hann vera fæddur [...] 1992. Í [...] er hann skráður undir nafninu X, sem er sama nafn og hann hefur gefið upp hér á landi, en þar kvaðst hann vera fæddur [...] 1994. Í skýrslutöku hjá lögreglu í gær sagðist hann hafa gefið upp rangar upplýsingar um sig í [...] þar sem hann hafi ætlað að fara beint til Íslands. Þá liggur fyrir niðurstaða tannrannsóknar sem var ætlað að varpa ljósi á aldur varnaraðila. Samkvæmt henni er hann að minnsta kosti 19,6 ára með staðalfráviki sem nemur 1,3 ári. Það er mat tannlæknanna, sem framkvæmdu rannsóknina, að ekki sé þó hægt að útiloka að hann sé yngri en 18 ára, en að það sé mjög ólíklegt. Varnaraðili þvertekur fyrir það að hann sé eldri en 16 ára.
Þegar á allt framangreint er litið er á það fallist með sóknaraðila að rökstuddur grunur leiki á því að varnaraðili hafi gefið upp rangar upplýsingar um hvenær hann er fæddur og að af þeim sökum leiki ákveðin óvissa á því hver hann er. Að þessu leyti er skilyrði fyrrgreindrar 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 fyrir hendi. Hins vegar liggur ekki fyrir álit kunnugra á því hvort heyra megi á máli hans að hann geti ekki verið frá [...], eins og ýjað er að í gögnum málsins.
Varðhald felur í sér afar íþyngjandi frelsissviptingu. Þó að framangreindu skilyrði 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 sé fullnægt má ekki beita útlending varðhaldi nema að það sé nauðsynlegt til að ná lögmætu markmiði, sem að er stefnt, og að því verði ekki náð með öðru og vægara móti. Ekki verður á það fallist að nauðsynlegt sé að setja varnaraðila í gæsluvarðhald í ljósi óvissu um að hann hafi greint rangt frá um aldur sinn. Ber þá að hafa í huga að lögregla getur lagt fyrir útlending, sem svo er ástatt um, að halda sig á ákveðnu, afmörkuðu svæði.
Varnaraðili hefur á köflum sýnt af sér ógnandi hegðun og tilburði í þá átt að skaða sjálfan sig, eins og rakið er í greinargerð sóknaraðila. Þá bendir skýrslutaka af honum til þess að hann sé í nokkru andlegu ójafnvægi, auk þess sem hann virðist sækja í myndefni á internetinu sem tengist ógnarverkum hryðjuverkasamtaka bókstafstrúarmanna. Dómurinn telur þó ekki nægjanlega í ljós leitt að ástand varnaraðila eða hegðun hans að undanförnu hafi verið með þeim hætti að það réttlæti svo íþyngjandi ráðstöfun sem felst í varðhaldi. Þá telur dómurinn ekki liggja fyrir að skilyrðum b- eða d-liða 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt svo hneppa megi varnaraðila í gæsluvarðhald. Að þessu gættu þykir ekki ástæða til þess að verða við kröfu sóknaraðila og verður henni því hafnað.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að varnaraðila, X, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi.