Print

Mál nr. 360/2017

Ákæruvaldið (Marín Ólafsdóttir saksóknari)
gegn
X (Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá stjórnvöldum og dómstólum, en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 21. júní 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er undir rökstuddum grun um verknað samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur hann fangelsi í meira en eitt ár, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. júní 2017.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að varnaraðili, X, fæddur [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 21. júní nk., kl. 16:00.  Til vara er þess krafist að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, fæddur [...], verði gert að sæta farbanni allt til miðvikudagsins 30. ágúst nk., kl. 16:00.

                Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að varnaraðili hafi verið handtekinn þann 7. maí sl., í kjölfar komu sinnar til landsins, eftir að í ljós hafi komið að hann var eftirlýstur af hollenskum yfirvöldum í Schengen-upplýsingakerfinu. Framsalsbeiðni hollenskra yfirvalda, dags. 18. maí sl., hafi borist dómsmálaráðuneytinu þann 22. maí sl. Óskað sé eftir framsali varnaraðila til meðferðar sakamáls, sem sé til rannsóknar hjá lögreglunni í [...]. Fram komi í beiðninni og fylgigögnum með henni að varnaraðili sé grunaður um tilraun til manndráps þann 5. maí sl. um borð í gámaflutningaskipinu [...], þar sem skipið hafi verið statt undan ströndum [...], með því að hafa ítrekað stungið A, [...] ríkisborgara, fæddan [...]. Hafi brotaþoli verið fluttur með þyrlu bresku strandgæslunnar á sjúkrahús í [...] með stungusár á brjósti og í handlegg. Samkvæmt framburði brotaþola og vitna muni aðdragandi atviksins hafa verið rifrildi vegna athugasemda brotaþola um reykingar varnaraðila og annarra áhafnarmeðlima í matsal skipverja og hafi varnaraðili sótt tvo hnífa í eldhús skipsins og gert atlögu að brotaþola. Háttsemin sé talin varða við 289. gr., sbr. 45. gr. hollenskra hegningarlaga, en til vara við 287. gr., sbr. 45. gr. sömu laga. Þá komi fram í beiðninni að [...] sé fánaríki skipsins, [...]. Samkvæmt 3. gr. hollensku hegningarlaganna fari hollensk yfirvöld með lögsögu í málinu.

                Í greinargerðinni kemur og fram að samhliða meðferð málsins hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu haft til meðferðar beiðnir frá [...] yfirvöldum um réttaraðstoð við rannsókn málsins og öflun sönnunargagna. Tekin hafi verið skýrsla af varnaraðila hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þann 8. maí sl. þar sem hann hafi kannast við brotið en hafi borið því við að hafa verið mjög ölvaður og að ásetningur hans hefði ekki staðið til þess. Þá hafi varðaraðili skýrt frá því að hann hafi engin tengsl við Ísland og þurfi að komast sem fyrst heim til [...]. 

                Í framsalsbeiðninni komi fram að þann 7. maí sl. hafi saksóknari í [...] gefið út handtökuskipun á hendur varnaraðila. Sama dag hafi evrópsk handtökuskipun verið gefin út á hendur honum. Um nánari lýsingu málavaxta vísist til framsalsbeiðninnar og álitsgerðar ríkissaksóknara, dags. 2. júní sl.

                Varnaraðila hafi verið kynnt framsalsbeiðnin þann 26. maí sl. hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Hafi hann kannast við sakamálið sem sé grundvöllur beiðninnar en hafi sagst hafna henni og mótmæla framsali. Þá hafi  varnaraðili greint frá því að hann hefði ekki nein tengsl við Ísland. Eftir að framsalsbeiðnin hafi verið kynnt varnaraðila hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hafi ríkissaksóknari sent dómsmálaráðuneytinu gögn málsins ásamt umsögn, dags. 2. júní sl., þar sem talið hafi verið að uppfyllt væru skilyrði framsals skv. lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sé nú af hálfu ráðuneytisins unnið að ákvörðun um það hvort orðið verði við framsali varnaraðila og samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu muni niðurstaða liggja fyrir innan skamms. Fallist ráðuneytið á framsalsbeiðnina hafi varnaraðili kost á því að krefjast dómsúrskurðar um skilyrði framsals.

                Varnaraðili sé [...] ríkisborgari, sem hafi engin tengsl við landið. Stutt sé síðan brot þetta hafi verið framið og þyki raunhæf hætta á því að hann kunni að reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsmeðferð vegna framsalsmálsins, sem og málsmeðferð [...] yfirvalda. Til að tryggja nærveru varnaraðila á meðan framsalsmál hans sé til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum og með hliðsjón af alvarleika sakargiftanna, sé þess beiðst að krafan nái fram að ganga. 

                Ef ekki verði fallist á aðalkröfu um gæsluvarðhald sé þess krafist að varnaraðila verði gert að sæta farbanni til að tryggja nærveru hans hér á landi meðan mál hans sé til meðferðar. Varnaraðili hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 8. maí sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í málum nr. [...], sbr. dóm Hæstaréttar nr. [...], og úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur [...].

                Meint brot varnaraðila muni varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um lagaheimild fyrir kröfu um gæsluvarðhald vísist til b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.  Um varakröfu sé að auki vísað til 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins hafa hollensk yfirvöld krafist framsals varnaraðila, sem er [...] ríkisborgari. Við skýrslutöku lögreglu 8. maí sl. kvaðst varnaraðili mótmæla framsali. Í umsögn ríkissaksóknara til dómsmálaráðuneytisins, dags. 2. júní sl., var talið að uppfyllt væru skilyrði framsals skv. lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Varnaraðili er grunaður um tilraun til manndráps hinn 5. maí sl., með því að hafa ítrekað stungið annan skipverja í handlegg og brjóst. Atburðurinn átti sér stað um borð í skipinu [...] sem var á leið til Íslands. Varnaraðili hefur kannast við brotið en ber við að ásetningur hans hafi ekki staðið til þess. Varnaraðili hefur ekki kosið að tjá sig um sakarefnið hér fyrir dóminum. Fyrir hendi er rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Fallist verður því á með ríkissaksóknara að skilyrðum b-liðar 95. gr. laga nr.88/2008 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila sé enn fullnægt, enda má ætla að hann muni reyna að komast úr landi á meðan mál hans er til meðferðar hér á landi. Varnaraðili virðist ekki hafa tengsl við Ísland og það brot sem varnaraðili er grunaður um er alvarlegt.

[...] yfirvöld gáfu út handtökuskipan á hendur varnaraðila og var hann handtekinn 7. maí sl. Að beiðni [...] yfirvalda hefur lögreglan annast rannsókn málsins og í því sambandi var varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi til dagsins í dag, samanber dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. [...] um að skilyrðum til gæsluvarðhalds sé fullnægt. Hefur ekkert nýtt komið fram sem breyti þeirri niðurstöðu. Breyta þau tímamörk sem verjandi vísar til að sett séu í Evrópusamningi frá 1957 um hámarkstíma engu um að lagaskilyrði eru fyrir hendi til að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi svo sem krafist er. Þykja ekki efni til að varnaraðili sæti farbanni í stað gæsluvarðhalds.

Með vísan til framgreinds er krafa ríkissaksóknara tekin til greina og ákveðið með heimild í 15. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum og b-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi í tvær vikur, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Varnaraðili, X, fæddur [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi á meðan framsalsmál hans er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 21. júní nk., kl. 16:00.