Print

Mál nr. 674/2009

Lykilorð
  • Líkamsárás
  • Ávana- og fíkniefni
  • Neyðarvörn
  • Sératkvæði

                                                        

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 674/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Magnúsi Magnússyni                        

(Brynjar Níelsson hrl.)

Líkamsárás. Ávana- og fíkniefni. Neyðarvörn. Sératkvæði.

M var ákærður fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa lagt til A með hnífi og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft fíkniefni í vörslum sínum. Talið var að þótt A hefði í umrætt sinn ráðist að fyrra bragði að M, ásamt hópi manna, væri ekki unnt að fallast á að M yrði metið refsilaust samkvæmt 12. gr. almennra hegningarlaga að hafa beitt hnífi sér til varnar. Hins vegar yrði að líta til aðdraganda atlögunnar við ákvörðun refsingar hans. Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu M fyrir fíkniefnalagabrot var staðfest. Var refsing M ákveðin fangelsi í þrjá mánuði en fullnustu refsingarinnar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi hann almennt skilorð. 

             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. nóvember 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Til vara gerir hann kröfu um að sér verði ekki gerð refsing. Að því frágengnu krefst hann refsilækkunar og þess að refsing verði bundin skilorði að öllu leyti.

Ákærði hefur játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru, en borið því við að líkamsárás hans hafi verið unnin í neyðarvörn. Framburður ákærða og vitna er nægilega rakinn í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram var ákærði á gangi í Bankastræti er hópur pilta hóf að áreita hann án sýnilegs tilefnis og síðar veittust einhverjir úr hópnum að ákærða með höggum og spörkum. Virðist af því sem fram er komið í málinu sem högg hafi komið í hnakka ákærða, en ekki verður séð að ákærði hafi orðið fyrir teljandi áverkum í viðskiptum sínum við piltana. Þá verður ekki með öruggum hætti ráðið hversu margir piltarnir voru, en ætla má að þeir hafi verið að minnsta kosti fimm saman. Nægilega er fram komið að vitnið A var einn af þeim sem mest hafði sig í frammi. Ákærði lagði á flótta undan piltunum en einhverjir þeirra virðast hafa hlaupið á eftir honum. A náði ákærða neðar í Bankastrætinu og tók hann tökum, en ákærði stakk hann þá með hníf og kom lagið aftan til á hægri síðu hans þannig að af varð 3 cm langur og 2 cm djúpur skurður. Bæði ákærði og vitni bera að ákærði hafi skömmu áður en þetta gerðist sveiflað hnífnum í kring um sig sér til varnar, þótt ekki verði ráðið hvort hann hafi gert það strax eftir að ráðist var á hann eða síðar eftir að hann hafði reynt að flýja árásarmennina. Hnífnum er lýst í héraðsdómi.

Eins og að framan er rakið varð ákærði fyrir tilefnislausri og harkalegri líkamsárás af hálfu margra manna. Hann reyndi að flýja þá en án árangurs og var honum nauðsyn að verja sig. Á hinn bóginn verður talið að með því að draga fram eggvopn og stinga A með ómarkvissum hætti hafi hann beitt stórhættulegri aðferð. Kom lagið í síðu A en olli honum þó ekki mjög verulegum áverka. Telst ákærði því hafa beitt vörnum sem voru augljóslega hættulegri en árásin og tjón það sem af henni mátti vænta. Fram er komið að nokkru áður en atvik gerðust hafði maður verið dæmdur til refsingar fyrir líkamsárás á ákærða og má meta framgöngu hans í því ljósi þótt ekki verði talið að ákvæði 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga skuli leiða til þess að sýkna beri ákærða. Samkvæmt framansögðu hefur ákærði gerst sekur um brot gegn ákvæðum 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga en með aðgerðum sínum fór hann út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar. Eins og atvikum máls er háttað þykir mega líta til 1. töluliðs 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar hans.

Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu fyrir brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni verður staðfest.

Sakarferill ákærða er nægilega rakinn í héraðsdómi. Refsing hans verður í ljósi framanritaðs og að teknu tilliti til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga ákveðin fangelsi í þrjá mánuði sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

 Ákærði, Magnús Magnússon, skal sæta fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 276.845 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er sammála meirihluta dómenda um lýsingu á málsatvikum. Eins og þar kemur fram varð ákærði fyrir algjörlega tilefnislausri og harkalegri líkamsárás A og að minnsta kosti fjögurra annarra manna. Ákærði hafði áður en hann stakk A með hníf sveiflað hnífnum í kring um sig í varnarskyni, þótt ekki verði fullyrt nákvæmlega hvenær það var. Veittu árásarmenn ákærða bæði hnefahögg og spörk. Er nægilega upplýst að sum höggin komu í höfuð hans. Ákærði reyndi fyrst að flýja með því að hlaupa undan árásarmönnunum en einhverjir af þeim eltu ákærða og náðu honum á flóttanum. Stökk A þegar á ákærða og tók hann tökum. Þá fyrst stakk ákærði hnífnum einu sinni í síðu A án þess þó að lagið hafi valdið honum mjög verulegum áverka.

Ákærða var nauðsyn að verja sig fyrir árás A og annarra þeirra sem eltu ákærða á flótta hans, en af því sem á undan var gengið hafði ákærði tilefni til að ætla að hann væri í bráðri hættu. Þá má meta framgöngu ákærða umrætt sinn í því ljósi að nokkru áður en atvik gerðust hafði maður verið dæmdur til refsingar fyrir líkamsárás á hann. Ég tel rétt að fallast á með ákærða að skilyrði neyðarvarnar hafi verið fyrir hendi þannig að hann skuli sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás samkvæmt 1. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Á hinn bóginn ber að gera ákærða sektarrefsingu fyrir fíkniefnalagabrot hans og staðfesta jafnframt ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað. Þá ber, með vísan til 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að fella áfrýjunarkostnað málsins á ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur30. október2009.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 12. maí 2009 á hendur Magnúsi Magnússyni, Skúlagötu 72, Reykjavík, fyrir eftirfarandi brot, framin í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 9. nóvember 2008:

1.                       Sérstaklega hættulega líkamsárás, með því að hafa í Bankastræti við Lækjargötu stungið A, með hnífi í hægri síðu með þeim afleiðingum að hann hlut 3 sm langan og 2 sm djúpan skurð aftan til á hægri síðu.

Þetta er talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

2.                       Fíkniefnalagabrot, með því að hafa í fangamóttöku á lögreglustöðinni við Hverfisgötu 113 haft í vörslum sínum 10 töflur með vímuefninu MDMA, sem lögregla fann við leit.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerðar verði upptækar 10 töflur af vímuefninu MDMA og hnífur, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga.

Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði sýknaður af ákæru um líkamsárás. Til vara er þess krafist að ákærði verði ekki dæmdur til refsingar en til þrautavara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfi. Þá er krafist málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Ákæruliður 1

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu lögreglu barst tilkynning, kl. 04.29, aðfaranótt sunnudagsins 9. nóvember 2008, um að maður hefði verið stunginn í Lækjargötu, við Austurstræti, og að lögreglumenn sem staddir hefðu verið á Austurvelli hefðu verið sendir á vettvang. Kemur fram að þegar lögreglumennirnir komu á staðinn hafi þeir séð mann liggjandi á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Hafi maðurinn, A, reynst vera með opið sár á mjóbaki og hafi hann í framhaldi verið fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss. Hjá honum hafi staðið maður, B, sem í framhaldi hafi vísað lögreglumönnum á ákærða við skemmtistaðinn Hressó í Austurstræti. Hafi B sagst hafa séð ákærða stinga A tveimur stungum með hníf. Fram kemur að ákærði hafi verið handtekinn og færður á lögreglustöð. Við líkamsleit á honum þar hafi meðal annars fundist tíu töflur af „ecstasy“, eða vímuefninu MDMA.

Fram kemur í rannsóknargögnum að dyravörður á skemmtistaðnum Hressó hafi gefið sig fram á vettvangi og sagst vera með hníf sem hann hefði tekið af ákærða þar á staðnum. Hefði hann tekið hnífinn af ákærða þegar til átaka hefði komið á milli þeirra er ákærði kom þar að með látum. Liggja fyrir í málinu ljósmyndir af hnífnum, sem lögregla lýsir sem sjálfskeiðungi með brúnu tréskefti af tegundinni „M-tech, USA“. Hafi hnífurinn reynst vera 11,3 cm að lengd og 146,10 g að þyngd. Hafi heildarlengd hnífsins verið 19,8 cm en blaðlengd  8,3 cm, mæld frá hjöltum. Fremst á hnífsblaðinu, öðrum megin, hafi verið kám sem náð hafi 3,7 cm inn á blaðið, mælt frá hnífsoddi. Hafi kámið gefið jákvæða svörun við blóðprófi.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, dags. 8. desember 2008, vegna áverka á A. Kemur þar fram að A hafi komið á slysa- og bráðadeild sjúkrahússins aðfaranótt 9. nóvember 2008, upp úr kl. 04.00. Við skoðun hafi hann verið með eðlilega meðvitund. Við líkamsskoðun hafi ekki fundist önnur áverkamerki en um 3 sm skurður, aftan til á hægri síðu. Hafi hann virst grunnur og ekki náð í gegnum vöðvalög. Þá hafi niðurstaða röntgenskoðunar verið sú að líffæri kviðarhols hefðu ekki skaðast.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærði kvaðst hafa verið á leið niður Bankastræti, frá veitingastaðnum Sóloni. Er hann hefði verið kominn neðst í Bankastrætið, á móts við á þann stað sem húsaröðin endar og garðurinn við Stjórnarráðið taki við, hefði hópur stráka allt í einu verið búinn að umkringja hann án þess að hann vissi ástæðu þess. Hefðu þeir elt hann, veist að honum og slegið hann ítrekað í höfuðið. Hefði hann fundið „höggin dynja á hnakkanum á sér“ og orðið hræddur um líf sitt. Kvaðst hann þá hafa tekið hníf sem legið hefði í götunni og otað honum frá sér. Sagði hann brotaþolann, A, hafa haft sig mest í frammi þó hann teldi öruggt að aðrir hefðu komið þar að, án þess að hafa séð hver gerði hvað. Hefði A loks stokkið á sig og gripið sig hálstaki og í framhaldi látið höggin dynja á sér. Kvaðst ákærði þá hafa reynt „að hræða hann frá“ með því að sveifla hnífnum í kringum sig. Hljóti hann þá að hafa stungið hnífnum í síðuna á A án þess að hafa ætlað að gera það. Hefði hann svo náð að losa sig með því að berja sig úr fanginu á A og hlaupa áfram. Hefði brotaþoli og allur hópurinn þá hlaupið á eftir honum, allt þar til hann hefði verið stöðvaður af dyravörðum á Hressingarskálanum í Austurstræti. Hefði lögreglan svo komið stuttu síðar og handtekið sig. Aðspurður kvaðst ákærði hafa verið búinn að drekka allnokkuð áfengi áður en þetta gerðist, um hálfa flösku af rommi. Hefði hann upplifað atburðinn þannig að hópur manna hefði ráðist á sig en ekki bara brotaþoli. Sagðist ákærði hafa fyllst mikilli hræðslu á meðan á árás hópsins á hann stóð og hefði þar spilað inn í að hann hefði þá nokkru áður orðið fyrir líkamsárás þar sem hann hefði verið sleginn hnefahögg í andlitið auk þess sem ítrekað hefði verið sparkað í hann.

Vitnið A sagðist hafa verið staddur ásamt nokkrum félögum sínum neðst á Laugaveginum. Hefðu einhverjir úr hópnum verið eitthvað að atast utan í ákærða en vitnið vissi þó ekki nákvæmlega hver ástæða þess hefði verið. Hefðu einhverjir þeirra kýlt ákærða en A minntist þess ekki að hafa sjálfur kýlt ákærða. Kvaðst hann ekki muna vel hvað þarna gerðist. Hann myndi þó að þeir hefðu haft yfirhöndina gagnvart ákærða. Þar sem ákærði hefði brugðist við áreitni hópsins með ógnandi hætti, eða kannski bara verið var um sig, hefði „þá langað í eitthvað meira“, viljað meiri átök. Ákærði hefði svo í framhaldi hlaupið af stað niður Bankastrætið og hefði hann sjálfur þá hlaupið á eftir honum. Kvaðst A þó ekki vita ástæðu þess að hann elti ákærða. Þegar þeir hefðu verið komnir neðst í götuna taldi hann sig muna að ákærði hefði tekið þar upp hníf en hann myndi þó ekki hver viðbrögð hans sjálfs hefðu þá verið. Kvaðst A ekkert hafa fundið fyrir hnífsstungu og ekki áttað sig á því fyrr en nokkru síðar hvað gerst hefði. Þá myndi hann lítið eftir því sem gerðist eftir hnífsstunguna. Hann hefði gengið eitthvað áfram og svo dottið niður. Hins vegar sagðist hann ekki minnast þess að ákærði hefði kýlt sig. Kannaðist A ekki við að hafa slegið ákærða, en hann hefði þó sparkað í rassinn á honum. Spurður um þann framburð sinn hjá lögreglu að hann hefði kýlt ákærða sagðist vitnið ekki geta skýrt þann framburð. Hann hefði átt við að hann hefði verið með í aðförinni að ákærða en hann hefði þó ekki kýlt hann.

B kvaðst hafa verið á gangi niður Bankastrætið og séð þar hóp manna atast utan í ákærða. Hefði hann ekki þekkt þessa menn en þó kannast lítillega við einn þeirra, sem hann minnti að héti C. Neðst í Bankastræti hefðu einhverjir úr hópnum staðið í kringum ákærða og verið eitthvað að rífast við hann þegar einn þeirra hefði skyndilega, og án tilefnis, stokkið að ákærða og slegið hann aftan á hnakkann. Hefði ákærði þá allt í einu verið kominn með hníf í hönd og sveiflað honum í kringum sig. Hefði ákærði svo skyndilega gengið að einum úr hópnum, þó ekki þeim sem hefði slegið hann, og stungið manninn einu sinni eða jafnvel tvisvar. Hefði sér virst sem tilviljun hefði ráðið því hvern hann stakk. Eftir það hefði ákærði hlaupið af stað niður í Austurstræti og hópurinn á eftir. Kvaðst vitnið ekki hafa séð að maður þessi hefði áður veist að ákærða. Hefði enginn veitt því athygli að maðurinn hefði verið stunginn. Í framhaldi kveðst hann hafa gengið til mannsins og athugað með hann. Hefði þá við nánari athugun komið í ljós að hann hefði verið stunginn. Vitnið kvaðst ekki geta séð að um sjálfsvörn ákærða hafi verið að ræða og að ákærði hefði að hans mati getað komist út úr þeim aðstæðum sem hann hefði verið kominn í. Sérstaklega spurður hvort hann hefði séð hver aðdragandi þessara átaka var, efst í götunni, kvaðst vitnið ekki hafa séð það. Vitnið tók sérstaklega fram að hann hefði ekki verið búinn að drekka áfengi þetta kvöld.

D kvaðst lítið muna eftir atvikum. Hann myndi þó eftir að hafa hitt A og tvo aðra stráka, þá E og F, neðst í Bankastræti. Hefðu þeir þar verið í einhverjum slagsmálum við einhverja aðra. Ákærði hefði gengið þar fram hjá og sagt sem svo: „Flott hjá þér.“ Hefði A þá haldið að hann væri að gera grín að sér og snúið sér að honum. Síðan hefðu hinir tveir félagar A einnig farið að veitast að ákærða. Fljótlega eftir það hefði ákærði dregið upp hníf. Nokkru seinna hefðu strákarnir haldið að ákærði væri búinn að loka hnífnum og því snúið sér aftur að honum. A hefði svo „hlaupið inn í þetta“ og annað hvort ráðist á ákærða eða alla vega ætlað sér það og ákærði þá líklega stungið hann. Vitnið kvaðst þó ekki beinlínis hafa séð hnífsstunguna sjálfa. Ákærði hefði svo hlaupið niður í Austurstræti og hópurinn á eftir. Enginn hefði þó gert sér grein fyrir því að A hefði verið stunginn en hann hefði svo stuttu síðar hnigið niður. Aðspurt kvaðst vitnið telja að deila mætti um það hvort um sjálfvörn hefði verið að ræða af hálfu ákærða. Vissulega hefði staðan verið sú að nokkrir menn hefðu veist að ákærða og gengið í skrokk á honum. Vitnið kvaðst þó ekki vita hvernig þessi átök hefðu byrjað. Spurður hvort hann hefði munað betur eftir atvikum þegar hann gaf lögregluskýrslu vegna málsins kvað hann svo vera og staðfesti hann að framburður hans þar væri réttur.

G kvaðst hafa verið staddur niðri í bæ með félaga sínum H. Hefðu þeir séð þar A og einhverja fleiri sem hann þekkti ekki. Hefðu þeir A og félagar hans öskrað á ákærða og hugsanlega hefði einhver þeirra ráðist á hann. Hefði ákærði þá tekið upp hníf og otað honum ógnandi frá sér. Síðan hefði virst sem ákærði hefði lokað hnífnum og hefði A þá ráðist á ákærða með því að stökkva á hann. Ákærði hefði þá brugðist við með því slá A tvívegis þegar þeir voru í þessum átökum.

I kvaðst hafa verið staddur við almenningssalernin, neðst í Bankastræti, með H, J og einhverjum fleirum, þegar þeir hefðu hitt þar A, E og D. Hefðu þeir verið í einhverjum slagsmálum við nokkra aðra og hefði ákærði ekkert komið þar við sögu. Kvaðst vitnið eftir það ekki hafa fylgst nákvæmlega með framvindu mála en það næsta sem hann hefði séð væri það að ákærði hefði staðið hoppandi með hníf í hendi og otaði honum frá sér. Hefði sér virst eins og ákærði væri skelkaður og í varnarstöðu, að hann hefði talið sig þurfa að verja sig fyrir hópi stráka. Hefði alla vega A verið hluti þess hóps. Ákærði hefði svo verið kominn nokkuð frá hópnum, á leiðinni burtu, og virst sem hann væri búinn að loka hnífnum. Hefði A þá byrjað aftur að kalla á eftir ákærða með mjög ögrandi hætti. Sagðist vitnið hafa, ásamt fleirum, beðið A um að hætta því. A hefði samt haldið því áfram. Hefðu þeir staðið sitt hvorum megin við götuna en þeir báðir síðan fært sig nær hvor öðrum og loks mæst á miðri götunni. Hefði A svo gripið um ákærða og haldið honum, en ákærði þá á móti brugðist við með því að slá A í tvígang með vinstri hendi í bakið. Sagði vitnið að hvorki hann né aðrir hafi virst átta sig á því fyrr en síðar að A hefði verið stunginn.              

H kvaðst hafa verið staddur í Bankastræti með nokkrum félögum sínum umrædda nótt þegar þeir hefðu séð þar A og nokkra fleiri, þar á meðal E og F, sem hann vissi þó ekki hvað hétu. Hefði þessi hópur, líklega um tíu manns samtals, veist að ákærða og verið ógnandi í hans garð. Stuttu síðar hefði svo einhver úr þeim hópi sparkað í fótinn á ákærða  Ákærði hefði þá tekið upp hníf, augljóslega í þeim tilgangi að verja sig. Rámaði vitnið eitthvað í að A hefði verið að atast í ákærða. Svo hefði vitnið talið að ákærði hefði stungið hnífnum aftur á sig. A hefði svo virst atast eitthvað meira í ákærða, og jafnvel slá eitthvað til hans, og þá hefði ákærði virst slá á móti til A.

E kvaðst hafa verið með nokkrum félögum sínum niðri í bæ, þar á meðal A. Kvaðst hann fyrst hafa séð til ákærða þar sem hann veifaði í kringum sig hnífi. Vitnið kvaðst hafa sagt honum að róa sig niður og hefði ákærði gert það. Vitnið kvaðst eitthvað ráma í að A hafi verið með „einhvern kjaft“ gagnvart ákærða, en hann hefði ekki séð neitt annað en það. Hann kvaðst svo hafa séð ákærða slá til A en ekki áttað sig á því fyrr en eftir á að ákærði hefði stungið A. Ákærði kvaðst ekki hafa séð aðdraganda átakanna en hann hefði þó vitað að A hefði verið með einhverja stæla gagnvart ákærða. Sjálfur kvaðst hann ekki hafa slegið til ákærða.

Niðurstaða

Ákærði hefur viðurkennt að hafa stungið A með hnífi eins og lýst er í ákæru. Með vísan til þess, auk framburðar vitna, læknisvottorðs og annarra gagna málsins verður ákærði sakfelldur fyrir að stinga A með hnífi í greint sinn eins og lýst er í ákæru. Var árásin sérstaklega hættuleg og réð tilviljun því að ekki fór verr. Varðar þessi verknaður ákærða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Ákærði hefur haldið því fram að um neyðarvörn af hans hálfu hafi verið að ræða þar sem hann hafi verið að verjast ítrekuðum árásum frá hópi manna sem A hafi verið hluti af. Hafi árás A og félaga hans verið hafin þegar hann hafi brugðist til varnar gagnvart A með hnífnum og hafi vörn hans ekki verið augsýnilega hættulegri en atlagan að honum.

Þegar framburður ákærða og vitna fyrir dómi eru vegnir saman, og þá ekki síst með hliðsjón af framburði A sjálfs, þykir óhætt að slá því föstu að ákærði hafi sætt harkalegri áreitni og árásum umrædds hóps áður en til árásar ákærða kom. Hafi hann þá meðal annars verið sleginn í höfuðið af einhverjum úr hópnum og síðan tekinn tökum af ákærða rétt áður en ákærði brást við með þessum hætti. Með hliðsjón af aðstæðum öllum verður þó að telja að ákærði hafi farið út fyrir takmörk leyfilegrar neyðarvarnar með því að beita hnífnum sér til varnar og veita A þann áverka með honum sem lýst er í ákæru. Verður ekki fallist á að árás A eða annarra hafi gefið ákærða tilefni til svo harkalegra viðbragða sem raunin varð. Verður þessi verknaður ákærða því ekki metinn honum refsilaus með vísan til 1. eða 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar verður litið til framangreinds aðdraganda árásarinnar við ákvörðun refsingar ákærða, sbr. 3. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga.

Ákæruliður 2

Ákærði hefur játað þann verknað sem lýst er í þessum ákærulið. Þar sem játning ákærða er í samræmi við gögn málsins að öðru leyti telst sök hans sönnuð. Er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru.

Ákvörðun refsingar

Ákærði á að baki sakaferil allt frá árinu 1994, en frá þeim tíma hefur honum í tólf skipti verið gerð refsing vegna umferðarlagabrota og brota gegn löggjöf um ávana- og fíkniefni. Hafa brot þess ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú. Til refsilækkunar horfir að ákærði hefur játað að hafa framið bæði brotin sem um ræðir í máli þessu. Þá verður einnig, til refsimildunar, horft til þess hver aðdragandi árásarinnar var eins og áður var rakið. Að þessu virtu, og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð skv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upptækar eru gerðar 10 töflur af vímuefninu MDMA og hnífur sá sem ákærði beitti í greint sinn, með vísan til þeirra lagaákvæða sem rakin eru í ákæru.

Ákærði greiði 30.700 krónur í útlagðan sakarkostnaðar samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarsson hdl., sem ákveðast 320.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Magnús Magnússon, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu á 7 mánuðum refsingarinnar og sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum haldi ákærði almennt skilorð skv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upptækar eru gerðar 10 töflur af vímuefninu MDMA og hnífur.

Ákærði greiði 350.700 krónur í sakarkostnað, þar með talin 320.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarsson hdl.