- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
Héraðsdómur vísaði máli ákæruvaldsins á hendur X frá dómi sökum þess að ekki hefðu verið skilyrði fyrir endurupptöku málsins eftir að lögregla hafði áður tilkynnt X um að rannsókn þess hefði verið hætt. Í sama þinghaldi lýsti fulltrúi ákæruvaldsins því yfir að úrskurður héraðsdóms „verði kærður til Hæstaréttar“. Taldi Hæstiréttur að sú yfirlýsing hefði ekki falið í sér kæru heldur aðeins fyrirætlun um hana. Þar sem kæra hafði ekki borist héraðsdómi innan kærufrests var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Mál þetta barst réttinum 26. maí 2017 ásamt gögnum þess. Málið lýtur að úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til t. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðarins og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var því lýst yfir af hálfu sóknaraðila í kjölfar uppkvaðningar úrskurðarins að hann „verði“ kærður til Hæstaréttar í því skyni að fá úrskurðinn felldan úr gildi þannig að málið hljóti efnismeðferð.
Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 skal maður sem vill kæra úrskurð lýsa því yfir innan þriggja sólahringa frá því hann fékk vitneskju um úrskurðinn. Ef kæru er lýst yfir á dómþingi má kærandi láta við það sitja að bókað verði um hana í þingbók, þar á meðal í hvaða skyni kært er. Fyrrgreind yfirlýsing sóknaraðila fól ekki í sér kæru heldur aðeins fyrirætlan um hana. Þar sem kæra barst ekki héraðsdómi innan kærufrests verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24.maí 2017.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 7. mars 2017, á hendur:
,,X kt. [...], [...],
fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 13. maí 2015, ráðist með ofbeldi á A, þáverandi sambýliskonu sína, á heimili þeirra að [...] á [...], ýtt höfði hennar á hurðarkarm, rifið í hár hennar og dregið hana á hárinu inn á skrifstofu þar sem hann sagði henni að setjast í stól, ýtt stólnum þannig að A féll á gólfið, hrækt ítrekað í andlit hennar, slegið hana í andlit, tekið um eyru hennar og lamið höfði hennar ítrekað í stólbakið, potað fingrum fast í bringu og háls hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut eymsli víða í hársverði, eymsli aftan á hálsi beggja vegna, fimm litla marbletti hægra megin ofarlega á hálsi og tvo marbletti vinstra megin á hálsi sem voru 1-1,5 cm í þvermál, mar á hægri eyrnasnepli og blæðingu í vinstri hljóðhimnu, grunna rispu á vinstra kinnbeini og mar þar í kring, marbletti á handleggi, eymsli í brjóstkassa og um bæði herðablöð, mar yfir brún vinstra herðablaðs, rispu aftanvert yfir spjaldbein, rispu og mar hliðlægt á hægri mjöðm og eymsli þar við.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Þá gerir Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir, hdl., fyrir hönd A, [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola skaða- og miskabætur að fjárhæð krónur 2.500.000,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 13.05.2015 þar til mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga.“
Málið var þingfest 23. mars 2017 en við fyrirtöku 10. f.m. krafðist verjandi ákærða frávísunar málsins og að allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins, yrðu lögð á ríkissjóð. Vísaði verjandinn til þess að ákærði hefði fengið bréf um niðurfellingu málsins, sbr. 4. mgr. 52 gr. sakamálalaga nr. 88/2008, og taldi verjandinn engin ný gögn hafa komið fram í málinu sem heimiluðu endurupptöku þess.
Ákæruvaldið andmælti frávísunarkröfunni og krefst efnismeðferðar málsins. Taldi ákæruvaldið ný gögn hafa komið fram sem heimiluðu að taka málið upp og var í því sambandi vísað til 3. mgr. 57. gr. sakamálalaga.
Niðurstaða
Í bréf lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 30. júní 2015, var ákærða tilkynnt að með vísan til 4. mgr. 52. gr. sakamálalaga væri rannsókn máls þessa hætt.
Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til ákærða, dagsett 17. september 2015, var honum tilkynnt að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði tekið upp rannsókn málsins „þar sem ný sakargögn hafi komið fram“.
Verjandi ákærða óskaði hinn 23. september 2015 eftir afriti hinna nýju sakarganga sem vísað er til í ofangreindu bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 17. september 2015.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi verjandanum bréf, dagsett 2. október 2015, þar sem fram kemur að hin nýju gögn séu eftirfarandi: „Samantekt úr skýrslu A 22.07.2015.“
Í 3. mgr. 57. gr. sakamála segir að hafi rannsókn á hendur sakborningi verið hætt vegna þess að sakargögn hafi ekki þótt nægjanleg til ákæru eigi ekki að taka rannsókn upp á ný gegn honum nema ný sakargögn séu fram komin eða líklegt sé að þau komi fram. Þau sakargögn sem lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu vísaði til í gögnum sem rakin voru að ofan til að styðja upptöku málsins eru frá 22. júlí 2015 og lágu því fyrir er tilkynning barst ákærða um að rannsókn málsins væri hætt. Það hafa því hvorki komið fram ný gögn sem geta verið grundvöllur endurupptöku málsins né hefur verið sýnt fram á það að sennilegt sé að þau komi fram, sbr. 3. mgr. 57. gr. sakamálalaga. Samkvæmt þessu voru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að taka rannsókn málsins upp og ber að vísa málinu frá dómi og dæma ríkissjóð til að greiða 501.270 króna málsvarnarlaun Agnars Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða.
Sonja Berndsen héraðsdómslögmaður var skipuð réttargæslumaður A og skal ríkissjóður greiða 501.270 króna réttargæsluþóknun hennar. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar lögmanna.
Eftir þessum úrslitum málsins verður ekki dómur lagður á kröfu um útlagðan kostnað A.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Máli nr. S-162/2017, ákæruvaldið gegn X er vísað frá dómi.
Ríkissjóður greiði 501.270 króna málsvarnarlaun Agnars Þórs Guðmundssonar héraðsdómslögmanns og 501.270 króna réttargæsluþóknun Sonju Berndsen héraðsdómslögmanns.