- Skaðabætur
- Börn
- Umferðarlög
Fimmtudaginn 6. nóvember 2014. |
|
Nr. 283/2014.
|
Sigurður Ívar Sigurjónsson (Óðinn Elísson hrl.) gegn Yngva Frey Óðinssyni og til réttargæslu Vátryggingafélagi Íslands hf. (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) |
Skaðabætur. Börn. Umferðarlög.
S krafði Y um bætur vegna slyss sem hann hafði orðið fyrir er Y hljóp yfir götu, sem S var að hjóla niður, og í veg fyrir S. Í dómi héraðsdóms kom meðal annars fram að S hefði ekki sýnt næga aðgæslu og þá sérstöku tillitssemi sem sýna bæri börnum samkvæmt ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987, enda hefði hann haft svigrúm til að láta Y vita af ferðum sínum mun fyrr en hann gerði greint sinn. Þá yrði að telja að S hefði getað stöðvað hjólið eða í öllu falli dregið úr hraða þess áður en hann og Y rákust saman. Að öðru leyti hefði S ekki tekist að sýna fram á að Y hefði sýnt af sér saknæma háttsemi og var hann því sýknaður. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest og tekið fram í því sambandi að þær aðstæður, sem blöstu við S þegar hann kom hjólandi niður götuna, sem var í íbúðahverfi, hefðu krafist þess að S sýndi sérstaka árvekni. Takmarkaðra gagna nyti við um aðdragandann að slysinu en S bæri í samræmi við almennar reglur sönnunarbyrðina fyrir því að Y bæri bótaábyrgð. Væri við mat á þeirri ábyrgð til þess að líta að Y hefði verið 11 ára þegar slysið varð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2014. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í slysi við Brekkuás í Hafnarfirði 24. september 2010. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að bótaskylda hans gagnvart áfrýjanda verði aðeins viðurkennd að hluta. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í málinu krefst áfrýjandi þess að viðurkennd verði bótaábyrgð stefnda vegna slyssins sem varð þegar stefndi hljóp yfir Brekkuás og í veg fyrir áfrýjanda sem kom á reiðhjóli niður götuna. Var áfrýjandi að koma frá heimili sínu að Hlíðarási 9 og hjólaði sem leið lá eftir þeirri götu og beygði niður Brekkuás en skammt frá þeim gatnamótum varð slysið. Stefndi kom gangandi eftir götunni hægra megin frá áfrýjanda séð en á sama tíma kom vörubifreið akandi upp götuna til vinstri. Þessar aðstæður sem blöstu við áfrýjanda þegar hann kom hjólandi niður Brekkuás, sem er gata í íbúðarhverfi, kröfðust þess að hann sýndi sérstaka árvekni. Svo sem nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi nýtur við takmarkaðra gagna um aðdragandann að slysinu en áfrýjandi ber í samræmi við almennar reglur sönnunarbyrðina fyrir því að stefndi beri bótaábyrgð. Við mat á þeirri ábyrgð stefnda er til þess að líta að hann var 11 ára þegar slysið varð. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 19. febrúar 2014.
Mál þetta, sem var dómtekið 23. janúar síðastliðinn, er höfðað 24. júní 2013.
Stefnandi er Sigurður Ívar Sigurjónsson, [...],[...].
Stefndu eru Elín María Nielsen f.h. ólögráða sonar, Yngva Freys Óðinssonar, [...],[...] og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík til réttargæslu.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í slysi við Brekkuás í Hafnarfirði 24. september 2010. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar, en til vara að sök verði skipt þannig að skaðabótaskylda stefnda verði aðeins viðurkennd að hluta til, komi til þess að skaðabótaskylda stefnda verði viðurkennd, en stefnandi beri tjón sitt sjálfur að öðru leyti vegna eigin sakar.
Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda sem gerir ekki aðrar kröfur í málinu en um greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I
Þann 24. september 2010 varð það slys á akbrautinni Brekkuási í Hafnarfirði að stefnandi, sem var á reiðhjóli og stefndi, sem var fótgangandi, rákust saman með þeim afleiðingum að stefnandi féll af hjólinu og slasaðist. Brekkuás liggur í nokkuð miklum halla þar sem slysið varð. Í umrætt sinn hjólaði stefnandi niður brekkuna á hægri akrein. Stefndi gekk upp brekkuna sömu megin á móti umferð alveg upp við rennustein. Á vinstri akrein var vörubifreið á leið upp (suður) Brekkuás.
Í tilkynningu stefnanda um slysið til Sjúkratrygginga Íslands 4. október 2010 segir að stefnandi hafi verið á leið í vinnu hjólandi. Hann hafi verið nýbúinn að beygja niður Brekkuás þegar hann sjái sér á hægri hönd dreng sem gangi á götunni við rennustein á móti umferð. Á móti stefnanda hafi vörubíll komið akandi upp brekkuna og þegar drengurinn hafi séð vörubílinn hafi hann ætlað sér að fara yfir götuna áður en bílinn keyrði framhjá. Þá segir orðrétt: „Þá hleypur strákurinn beint á framhjólið á hjólinu mínu áður en hann nær að líta upp til vinstri og sjá mig koma niður brekkuna. Það vildi okkur báðum til happs að ég er ekki á mikilli ferð kannski 5 10 km/klst. Ég reyni að bremsa og sveigja framhjá, en lendi í samstuði við strákinn.“
Við slysið stöðvaði bílstjóri vörubifreiðina og aðstoðaði stefnanda með hjólið heim til hans. Stefnandi leitaði í kjölfarið á slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss, þar sem hann var greindur með tognun og ofreynslu á axlarhyrnu- og viðbeinslið og mar á hægri öxl og upphandlegg. Kemur þetta fram í læknisvottorði Herberts Arnarssonar sérfræðings 12. október 2010.
Á slysdegi voru foreldrar stefnda með fjölskyldutryggingu í gildi hjá réttargæslustefnda en hluti af þeirri tryggingu var ábyrgðartrygging. Með bréfi 28. september 2011 óskaði stefnandi eftir því að réttargæslustefndi viðurkenndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingunni vegna slyssins, en stefndi var meðvátryggður samkvæmt tryggingunni. Með bréfi 29. mars 2012 hafnaði réttargæslustefndi bótaskyldu vegna slyssins þar sem hann taldi að slysið væri ekki að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda eða annarra atvika sem stefndi bæri skaðabótaábyrgð á. Stefnandi sætti sig ekki við afstöðu réttargæslustefnda og skaut málinu til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum með bréfi 4. júní 2012. Nefndin féllst á það 10. júlí 2012 að stefnandi ætti rétt á bótum úr ábyrgðarlið fjölskyldutryggingar foreldra stefnda. Með bréfi 18. júlí 2012 tilkynnti réttargæslustefndi að félagið hygðist ekki una úrskurði nefndarinnar.
Með matsbeiðni 16. október 2012 óskaði stefnandi eftir mati Sigurðar Thorlacius, heila- og taugaskurðlæknis, á varanlegum afleiðingum slyssins. Í matsgerð hans 10. desember 2012 segir að í slysinu hafi stefnandi hlotið liðhlaup í hægri axlarhyrnulið, það er liðnum á milli viðbeins og herðablaðs í hægri öxl. Hafi hann haft mikil einkenni eftir það, allt þar til hann hafi gengist undir aðgerð 21. júní 2011. Dregið hafi úr verkjum eftir aðgerðina og styrkur hafi aukist. Vegna mikilla óþæginda af festibúnaði í öxlinni hafi hann verið fjarlægður með skurðaðgerð 18. október 2011. Varanlegar afleiðingar séu viðvarandi óþægindi og eymsli, álagsverkir og lítillega skert hreyfigeta í hægri öxlinni og jafnframt verkir í brjóstbaki. Var stefnandi metinn til 8% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Þá var tímabundin örorka hans metin 100% frá slysdegi til 30. september 2010 og í kjölfar skurðaðgerða 100% frá 21. júní til 21. júlí 2011 og frá 18.-25. október 2011.
II
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi beri fulla skaðabótaábyrgð á því slysi sem stefnandi varð fyrir 24. september 2010 samkvæmt meginreglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni, og skaðabótalögum, einkum I. kafla laganna, og því eigi stefnandi fullan skaðabótarétt vegna þess tjóns er hann varð fyrir vegna slyssins. Þar með sé slysið bótaskylt úr ábyrgðarlið fjölskyldutryggingar stefnda og foreldra hans, sem í gildi var hjá réttargæslustefnda á slysdegi.
Skaðabótaábyrgð sé fyrst og fremst á því byggð að slysið hafi verið afleiðing saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda. Stefnandi byggir á því að stefndi hafi með háttsemi sinni og aðgæsluleysi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og með því meðal annars brotið skráðar reglur sem gildi um umferð fótgangandi vegfarenda við akbrautir. Framangreint hafi leitt til þess að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Byggt sé á því að stefnandi hafi sannanlega sýnt af sér alla þá aðgæslu sem hafi mátt krefjast af honum og sé því ekki um hans eigin sök að ræða.
Stefnandi kveðst vísa til 2. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 um orðskýringar er skipti máli, einkum skilgreininga á akbraut, gangstétt, reiðhjóli og vegfaranda. Í umferðarlögum sé reiðhjól skilgreint sem ökutæki. Óumdeilt sé að stefndi hafi hlaupið yfir götuna í umrætt sinn án þess að gæta að umferð frá vinstri. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum hafi samþykkt fullan bótarétt stefnanda úr ábyrgðarlið fjölskyldutryggingar stefnda. Byggi stefnandi á því að úrskurður nefndarinnar sé vel rökstuddur og niðurstaðan skýr. Því beri að taka fullt mið af niðurstöðunni og forsendum hennar í máli þessu.
Þá byggi stefnandi á því að stefndi og réttargæslustefndi hafi ekki stutt staðhæfingar sínar um að úrskurðurinn sé ekki réttur með gögnum af nokkru tagi. Hafi réttargæslustefndi látið nægja að vísa til framburðar stefnda hjá lögmönnum réttargæslustefnda. Byggt sé á því að það hafi enga þýðingu fyrir úrslit málsins þótt stefndi hafi á síðari stigum þess dregið til baka fyrri lýsingu sína á atvikum málsins. Allt að einu hafi háttsemi hans verið saknæm, hvort sem hann hafi litið til vinstri eða ekki. Í fyrsta lagi vegna þess að háttsemi hans, það er að hlaupa í veg fyrir stefnanda, beri þess merki að hann hafi ekki litið til vinstri. Það sé fyrsta rökrétta ályktunin sem hægt sé að draga af atburðarrás sem þessari, þar sem stefndi hlaupi beint á framhjól reiðhjóls sem aki í akstursstefnu þvert á þá gönguleið sem stefndi hugðist fara. Í öðru lagi vegna þess, að jafnvel þótt stefndi hafi mögulega litið til vinstri og hafi hlaupið yfir götuna þrátt fyrir þá sýn sem hafi mátt blasa við honum þá feli sú háttsemi engu að síður í sér gáleysi, ef ekki stórkostlegt gáleysi. Hafi raunin verið þessi hefði stefnda ekki getað dulist nálægð stefnanda við hann og sú hætta sem það myndi fela í sér að hlaupa yfir götuna á þessari stundu. Byggt sé á því að háttsemi stefnda í umrætt sinn hafi falið í sér brot á reglum umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 11. gr. og 1. og 2. mgr. 12. gr. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að vegfarandi skuli sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum, og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Hann skuli og sýna þeim, sem búi eða staddir séu við veg, tillitssemi. Í 1. mgr. 11. gr. sé kveðið á um að gangandi vegfarandi skuli nota gangstétt, gangstíg eða þann hluta vegar sem liggi utan akbrautar (vegöxl). Sé ekki gangstétt, gangstígur eða vegöxl meðfram vegi megi nota akbraut.
Þá sé kveðið á um það í 1. og 2. mgr. 12. gr. umferðarlaga að gangandi vegfarandi, sem ætli yfir akbraut, skuli hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum sem nálgist en reiðhjól sé skilgreint sem ökutæki samkvæmt 2. gr. umferðarlaga. Þá segi að vegfarandi skuli fara yfir akbraut án óþarfrar tafar. Þegar farið sé yfir akbraut skuli nota gangbraut, sé hún nálæg. Að öðrum kosti skuli ganga þvert yfir akbraut og að jafnaði sem næst vegamótum.
Stefnandi kveðst byggja á því að stefndi hafi horft niður á tærnar á sér eða á jörðina, þar til hann hafi heyrt vörubifreiðina koma. Þá hafi hann litið niður (norður) götuna, en á sama tíma hafi stefnandi nálgast stefnda að ofan (sunnan). Stefndi hafi eingöngu heyrt í vörubifreiðinni og hlaupið rakleitt af stað. Stefnandi kveðst hafa æpt á stefnda. Hafi stefndi ekki verið búinn að snúa höfðinu að stefnanda þegar stefnandi hafi neyðst til að sveigja frá stefnda og taka í handbremsuna, með þeim afleiðingum að stefnandi hafi lent saman við stefnda og kastast fram fyrir sig. Stefnandi byggi því á því að stefndi hafi aldrei litið til beggja hliða, heldur hafi hann eingöngu litið í átt að vörubifreiðinni neðar í götunni. Eins og fyrr hafi verið rakið sé þó jafnframt byggt á því að háttsemi stefnda hafi verið saknæm, hvort sem hann hafi litið til vinstri eða ekki.
Byggt sé á því að foreldrar stefnda hafi upplýst stefnanda um það að stefndi hefði gefið sömu atvikalýsingu af slysinu og stefnandi, sbr. tölvupóst þeirra til stefnanda 19. september 2011. Hafi foreldrar stefnda staðfest réttmæti lýsingar stefnanda í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands 4. október 2010. Eins og fyrr segi sé byggt á því að sök stefnda sé óumdeild, óháð því hvort hann breyti málsatvikalýsingu sinni á síðari stigum málsins.
Þá kveðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi verið mjög miður sín eftir slysið. Hafi stefndi og faðir hans heimsótt stefnanda eftir að hann hafi verið kominn heim af sjúkrahúsinu, gefið honum blóm og velfarnaðarkort. Stefndi hafi beðist afsökunar á óðagotinu og óskað stefnanda góðs bata. Faðir stefnda hafi tjáð stefnanda að stefndi hafi verið miður sín í skólanum þennan dag og komið snemma heim. Foreldrar stefnda hafi þurft að koma fyrr heim úr vinnu til að styðja stefnda eftir atvikið. Hafi stefndi verið í miklu ójafnvægi vegna samviskubits eftir slysið.
Samkvæmt framangreindu telji stefnandi ljóst að stefndi hafi ekki uppfyllt þær skyldur sem lagðar séu á hann sem gangandi vegfaranda í umferðarlögum nr. 50/1987, einkum 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 11. gr. og 1. og 2. mgr. 12. gr.
Stefndi hafi verið 11 ára á slysdegi. Byggt sé á því að óumdeilt sé að sakarreglan gildi um skaðabótaábyrgð barna. Beita beri hefðbundnum mælikvarða við sakarmatið og horfa skuli til þess hvað börn á þessum aldri megi vita. Byggt sé á því að börn á þessum aldri megi vel vita og skilja að hættulegt sé að hlaupa fyrirvaralaust yfir tvístefnuakbraut án þess að líta til beggja hliða og gæta að umferð frá vinstri og hægri. Hafi það verið stefnda til happs að reiðhjól á litlum hraða hafi komið honum á vinstri hönd en ekki vélknúið ökutæki. Byggt sé á því að stefnandi hafi verið sá sem verst hafi farið vegna slyssins, þar sem hann hafi kastast af hjólinu og lent á öxlinni, en eins og fyrr segi hafi stefndi hlaupið á framhjólið þegar hann hafi ætlað að hlaupa yfir götuna.
Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi sannanlega sýnt af sér alla þá aðgæslu sem hafi mátt krefjast af honum. Stefnandi hafi hjólað á réttum vegarhelmingi og á mjög litlum hraða. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki gætt að sér og hagað sér andstætt þeim athafnaskyldum sem lagðar séu á gangandi vegfarendur samkvæmt umferðarlögum. Þessu til stuðnings sé vísað til þess er fram komi í staðfestingu foreldra stefnda þar sem þau staðfesti að stefndi hafi verið sammála atvikalýsingu stefnanda er fram komi í málsatvikalýsingu í málinu og einnig í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands 4. október 2010.
Stefnandi kveðst ennfremur byggja á því að skýr orsakatengsl séu á milli varanlegs líkamstjóns hans og saknæmrar háttsemi stefnda. Byggt sé á því að líta verði til þess hversu auðveldlega stefndi hefði getað komið í veg fyrir slysið einfaldlega með því að gæta að sér og líta til beggja hliða. Þótt hann hafi litið til beggja hliða hafi hann engu að síður sýnt af sér gáleysi, ef ekki stórkostlegt gáleysi, með því að fara engu að síður yfir götuna. Þá byggi stefnandi á því að miðað við atvik málsins, það er að stefndi hafi hlaupið á framhjól á reiðhjóli stefnanda, þá sé ólíklegt að stefndi hafi litið til vinstri. Í raun hafi stefndi þá verið alveg upp við stefnanda og samt ákveðið að hlaupa beint á framhjól reiðhjólsins. Hafi sú verið raunin sé einsýnt að háttsemin hafi að minnsta kosti falið í sér gáleysi, ef ekki stórkostlegt gáleysi. Í öllu falli hafi háttsemin því verið saknæm og leiði til þess að skaðabótaábyrgð hafi stofnast á hendur stefnda.
Af öllu framangreindu virtu telji stefnandi ljóst að stefndi beri fulla skaðabótaskyldu á því líkamstjóni sem stefnandi hafi orðið fyrir í slysinu.
Málsókn og kröfugerð byggist á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en stefnandi hafi mikla hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist og efni kröfu hans á hendur stefnda. Sýnt hafi verið fram á tjón stefnanda og hagsmuni með framlögðum læknisfræðilegum gögnum, þar á meðal matsgerð um varanlegt líkamstjón stefnanda. Stefndi beri fulla ábyrgð á þessari saknæmu og ólögmætu háttsemi sinni og beri á þeim grundvelli skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda en það skapi greiðsluskyldu úr ábyrgðarlið fjölskyldutryggingar stefnda sem í gildi hafi verið hjá réttargæslustefnda á slysdegi.
Hvað lagarök varðar vísar stefnandi um heimild til höfðunar viðurkenningarmáls til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um bótaábyrgð vísar stefnandi til laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og til meginreglna vátryggingaréttar og íslensks skaðabótaréttar, einkum almennu sakarreglunnar. Þá er vísað til umferðarlaga nr. 50/1987, einkum 2. gr., 1. mgr. 4. gr., 1. mgr. 11. gr. og 1. og 2. mgr. 12. gr. laganna. Vísað er til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum I. kafla laganna. Þá er vísað til vátryggingarskilmála fyrir F plús 4 tryggingu, nr. GH25, sem giltu frá 19. júlí 2010. Um aðild málsins er vísað til 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og III. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en varðandi fyrirsvar málsins, einkum til 1. mgr. 16. gr., 3. mgr. 17. gr. og 21. gr. Um varnarþing er vísað til ákvæða V. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 1. og 5. mgr. 32. gr. laganna. Varðandi málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á ákvæðum laga nr. 50/1988.
III
Stefndi og réttargæslustefndi hafna bótaábyrgð vegna þess atviks þegar stefnandi og stefndi skullu saman þar sem stefnandi hafi verið á leið sinni á reiðhjóli niður Brekkuás í Hafnarfirði en stefndi að fara fótgangandi yfir sömu akbraut. Byggt sé á því að atvik máls séu of óljós til að unnt sé að draga ályktun um sök stefnda. Einnig sé byggt á því að jafnvel þó að atvik máls, eins og þeim sé lýst í stefnu, væru talin sönnuð og atvikalýsing stefnanda lögð til grundvallar, þá sé ekki um sök að ræða hjá stefnda, heldur sé um að ræða óhappatilvik sem hvorugur aðila máls þessa eigi sök á, eða þá eigin sök stefnanda sjálfs á atvikinu.
Ágreiningur sé um nánari atvik og sé aðdragandi atviksins illa upplýstur. Ekki hafi verið gerð lögregluskýrsla og ekki liggi fyrir framburður vitna. Stefnandi haldi því fram að stefndi hafi „hlaupið beint á framhjólið á reiðhjóli stefnanda“. Stefnandi hafi hjólað niður Brekkuás og nærtækara væri að lýsa atvikinu svo að hann hafi hjólað rakleiðis, og án þess að stöðva, á gangandi vegfaranda, það er stefnda Yngva Frey. Stefndu mótmæli því sérstaklega að lýsing stefnanda í tilkynningu hans um slysið til Sjúkratrygginga Íslands hafi sönnunargildi í málinu þar sem um einhliða lýsingu stefnanda sjálfs á atvikinu sé að ræða. Jafnframt sé því mótmælt að stefndu hafi samþykkt þessa atburðarlýsingu í einu og öllu í tölvupósti 19. september 2011 þó að þar komi fram að lýsing „stemmi við“ lýsingu stefnda frá því heilu ári fyrr. Að mati stefndu hafi þessi yfirlýsing einungis það gildi að hún sýni fram á að ekki sé ágreiningur um að atvikið hafi átt sér stað. Foreldrar stefnda hafi hvorki verið í aðstöðu til að gera athugasemdir við einstök atriði atburðarásarinnar né mögulega sök aðila á óhappinu.
Stefndi hafi einungis verið 11 ára gamall þegar atvikið hafi átt sér stað. Haldi stefndu því fram að eðlilegt sé að taka tillit til ungs aldurs hans þegar hugsanleg sök hans sem aðila að umferðaróhappi sé metin. Ljóst megi vera að hæfni hans til aðgæslu í umferðinni, til að taka ákvarðanir og til að gera ráð fyrir hinu óvænta sé ekki sú sama og hjá fullorðnum vegfaranda sökum aldurs og minni reynslu í umferðinni og ekki sé hægt að gera kröfu um það. Þó að talið sé að börn á þessum aldri geti undir vissum kringumstæðum skapað sér bótaskyldu með saknæmri háttsemi, til dæmis með háskalegri hegðun í leik með öðrum börnum, þá sé því haldið fram að mjög mikið þurfi til að koma svo að lögð verði bótaábyrgð á 11 ára barn vegna minniháttar yfirsjónar í umferðinni, sama eðlis og eigi sér stað hjá fullorðnu fólki í umferðinni á hverjum degi.
Stefndi telji sig hafa litið til beggja hliða áður en hann hafi haldið yfir götuna Brekkuás í umrætt sinn. Af hálfu stefnda sé því haldið fram að hann hafi verið á gangi upp Brekkuás þegar hann heyrði vörubíl nálgast. Hafi hann þá litið til beggja hliða áður en hann hafi haldið af stað yfir götuna. Sé því ekki sannað að hann hafi brotið af sér með nokkrum hætti í aðdraganda óhappsins. Þegar metin sé möguleg sök hans beri að líta til þess að ekki sé óeðlilegt að hann hafi veitt vörubifreið meiri athygli en reiðhjólamanni sem hafi farið löturhægt niður götuna og séð stefnda vel. Eðlilegt sé að gangandi vegfarendur og ekki síst börn hugsi fyrst og fremst um að verða ekki fyrir bifreið þegar farið sé yfir götu og þess þá heldur þegar um vörubifreið sé að ræða. Að mati stefndu hafi hér fyrst og fremst verið um óhapp að ræða og í öllu falli sé það ekki að rekja til sakar stefnda. Tilviljun ein hafi ráðið því að stefnandi máls þessa hafi slasast en stefndi sloppið ómeiddur frá atvikinu.
Í málatilbúnaði stefnanda komi fram að hann hafi veitt stefnda athygli þar sem hann hafi gengið í vegarkantinum upp Brekkuás. Einnig komi fram að stefnandi hafi sjálfur aðeins hjólað á um 5-10 km. hraða, sem sé rétt rúmlega rösklegur gönguhraði, eða í mesta lagi hraði á við skokkandi mann. Miðað við þennan litla hraða á stefnanda og að hann hafði veitt stefnda athygli skömmu áður sé með ólíkindum að honum hafi ekki tekist að koma í veg fyrir árekstur þeirra þar sem hann hafi farið niður brekkuna. Hafi reiðhjólið verið búið eðlilegum hemlabúnaði hefði stjórnandi þess átt að geta stöðvað það auðveldlega á svona litlum hraða og nánast um leið og hann hafi orðið drengsins var á leið yfir götuna. Stefndu haldi því fram að verði ekki talið að um óhappatilvik hafi verið að ræða verði atvikið rakið til sakar stefnanda sjálfs, fullorðins manns sem hafi farið mjög hægt niður götu og veitt 11 ára dreng í vegarkanti athygli, en hafi þó ekki tekist að afstýra árekstri þeirra. Hann hefði tvímælalaust átt að hafa varann á og fara nægilega hægt á reiðhjóli sínu til að valda drengnum ekki hættu þar sem hann hafi séð til stefnda í vegarkanti og vörubifreið nálgast úr gagnstæðri átt. Vísa stefndi og réttargæslustefndi til meginreglu 4. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þar sem meðal annars komi fram sérstakar reglur um tillitssemi í garð barna í umferðinni. Einnig sé vísað til 1. mgr. 26. gr. umferðarlaga varðandi skyldu ökumanna gagnvart gangandi vegfarendum, sem og j. liðar 2. mgr. 36. gr. varðandi skyldu ökumanns til að aka hægt þegar ökutæki nálgast barn á eða við veg.
Því sé haldið fram að málið sé með öllu fordæmalaust. Engin fordæmi liggi fyrir í dómum Hæstaréttar Íslands þar sem ábyrgð á líkamstjóni sé lögð á gangandi vegfaranda, aðeins 11 ára að aldri, vegna umferðaróhapps. Reglur umferðarlaga nr. 50/1987 miði fyrst og fremst að því að tryggja bótarétt þeirra sem verða fyrir tjóni sem hljótist af notkun vélknúinna skráningarskyldra ökutækja, sbr. bótareglur 88. 89. gr. laganna. Bótaréttur vegna líkamstjóns verði ekki skertur nema að tjónþoli sé meðvaldur að tjóninu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi samkvæmt 2. mgr. 88. gr. laganna. Vátryggingarskylda samkvæmt 91. gr. laganna sé í samræmi við þetta bundin við ábyrgðartryggingu vegna skráningarskylds vélknúins ökutækis. Ekki sé lögð á sambærileg ábyrgðartrygging vegna annarra í umferðinni sem ferðist til dæmis á reiðhjóli eða fótgangandi. Ef lögð sé skaðabótaábyrgð á fótgangandi vegfarendur vegna minni háttar yfirsjóna í umferðinni geti slík ábyrgð orðið gríðarlega íþyngjandi fyrir einstaklinga. Í mörgum tilvikum væri þá útilokað fyrir þá að greiða bætur fyrir tjón sem hlytist, til dæmis ef fótgangandi vegfaranda verði á að ganga í veg fyrir bifreið sem aki út af vegi. Fram til þessa séu bótakröfur sem þessar óþekktar, enda ekki gert ráð fyrir þeim í umferðarlögum, ella hefði þurft að lögbjóða ábyrgðartryggingar allra í umferðinni, einnig þeirra sem ferðast fótgangandi. Því sé haldið fram að nái krafa stefnanda fram að ganga í þessu máli muni það skapa óþolandi óvissu fyrir börn, foreldra þeirra og aðra gangandi vegfarendur um það hvort og hvenær þeir geti talist bótaskyldir vegna óhappa í umferðinni, þegar minniháttar yfirsjón hafi átt sér stað sem leitt hafi til muna- eða líkamstjóns.
Ekki sé talið rétt að líta til þess við sakarmat að stefndi sé meðvátryggður í ábyrgðarlið Fjölskyldutryggingar hjá réttargæslustefnda. Verði það látið leiða til strangara sakarmats en ella hjá 11 ára vegfaranda geti slíkt fordæmi hæglega komið niður á öðrum sem ekki njóti vátryggingaverndar. Ekki sé eðlilegt að niðurstaða mála ráðist af því hvort meintur tjónvaldur sé vátryggður eða ekki. Það myndi beinlínis valda því að tilvist ábyrgðartryggingar ein og sér leiddi til bótaskyldu. Þar með yrði staða viðkomandi verri við það að kaupa ábyrgðartryggingu, enda beri vátryggingartaki ákveðnar skyldur samkvæmt vátryggingarsamningi og beri til dæmis tiltekna eigin áhættu af hverju tjóni. Bent sé á eðli og tilgang ábyrgðartrygginga, sem sé að greiða skaðabætur fyrir vátryggðan hafi hann bakað sér skaðabótaábyrgð, að því leyti sem tjónþoli eigi ekki að bera tjón sitt sjálfur vegna meðsakar eða meðábyrgðar.
Í stefnu sé byggt á því að stefndi hafi verið mjög miður sín eftir slysið. Sé nefnt í því sambandi að stefndi og faðir hans hafi heimsótt stefnanda eftir að hann hafi komið heim af sjúkrahúsi og fært honum blóm og velfarnaðarkort. Virðist stefnandi telja að þetta bendi til einhvers konar viðurkenningar á sök stefnda á atvikinu. Þessu hafni stefndi sem þýðingarlausu, enda sitt hvað að sýna almenna kurteisi eða viðurkenna sök sem leiði til skaðabótaábyrgðar.
Stefndi og réttargæslustefndi krefjast aðallega greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnanda með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sú krafa er gerð til vara að málskostnaður verði látinn niður falla samkvæmt heimild í ákvæði 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Þá er vísað til meginreglna skaðabóta- og vátryggingaréttar, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, skaðabótalaga nr. 50/1993 og umferðarlaga nr. 50/1987.
IV
Í máli þessu er deilt um það hvort stefndi beri skaðabótaábyrgð á líkamstjóni því sem stefnandi varð fyrir í slysi á akbrautinni Brekkuási í Hafnarfirði 24. september 2010.
Aðilar málsins gáfu skýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins.
Dómari fór á vettvang við aðalmeðferðina ásamt aðilum og lögmönnum þeirra og skoðaði aðstæður þar sem slysið varð. Upplýst var að umhverfi akbrautarinnar hefði verið ófrágengið þegar slysið varð og engar gangstéttir við götuna.
Dómkrafa stefnanda er byggð á því að stefndi hafi með háttsemi sinni og aðgæsluleysi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi og brotið skráðar reglur sem gilda um umferð gangandi vegfaranda við akbrautir. Hafi það leitt til þess að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni. Þessu hafna stefndi og réttargæslustefndi.
Í 2. gr. laga umferðarlaga nr. 50/1987 eru reiðhjól skilgreind sem ökutæki.
Þær umferðarreglur gilda fyrir gangandi vegfarendur að þeim er skylt að nota gangstétt, gangstíg eða þann hluta vegar sem liggur utan akbrautar. Þó má nota akbraut ef hvorki gangstétt né gangstígur er meðfram vegi. Skal þá að jafnaði gengið við vinstri vegarbrún í gönguátt. Kemur þetta fram í 1. mgr. 11. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í 1. og 2. mgr. mgr. 12. gr. laganna segir meðal annars að gangandi vegfarandi, sem ætli yfir akbraut skuli hafa sérstaka aðgát gagnvart ökutækjum sem nálgast. Ganga skal þvert yfir akbraut.
Um reglur fyrir alla umferð segir í 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga að vegfarandi skuli sýna tillitssemi og varúð svo eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum og þannig að eigi trufli eða tefji umferð að óþörfu. Þá skal vegfarandi sýna þeim sem búa eða eru staddir við veg tillitssemi. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir að sýna skuli börnum sérstaka tillitsemi. Þá hafa lögin að geyma ákvæði um sérstakar skyldur gagnvart gangandi vegfarendum það er að ökumaður sem mætir eða ekur fram hjá gangandi vegfaranda skal gefa honum nægan tíma til að víkja til hliðar og veita honum nægilegt rými á veginum sbr. 1. mgr. 26. gr. umferðarlaga. Þá hvílir sú sérstaka skylda á ökumanni að aka nægilega hægt miðað við aðstæður þegar ökutæki nálgast barn á eða við veg, sbr. j. lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Stefnandi lýsti atvikum fyrir dómi á þann veg að hann hefði verið hjólandi á leið til vinnu rétt rúmlega átta að morgni umræddan dag. Hann kvaðst muna það að hann hefði ekki stigið petala hjólsins niður brekkuna heldur látið sig renna niður akbrautina. Hann hafi séð stefnda ganga eftir götubrúninni á móti sér við götubrúnina hægra megin. Kvaðst stefnandi hafa fært sig á miðja akreinina, látið sig renna áfram niður götuna og fylgst með stefnda. Hafi stefndi horft niður á tærnar á sér en engin hætta hafi verið fyrir hendi vegna þess að stefnandi hafi fært sig fjær stefnda til að skapa ekki hættu þegar hann hjólaði fram hjá honum. Þá kveðst stefnandi hafa séð vörubíl koma upp Brekkuásinn á móti sér. Kvaðst stefnandi hafa litið á vörubílinn en þegar hann hafi verið að hjóla fram hjá stefnda hafi hann séð að stefndi hafi litið niður götuna og tekið svo skyndiákvörðun um að hlaupa yfir áður en hann snéri höfðinu í átt að stefnanda. Stefndi hafi séð vörubílinn og hlaupið út á götuna til þess að komast yfir götuna áður en vörubíllinn kæmi. Hafi stefndi þá hlaupið beint á framdekkið á hjóli stefnanda. Stefnandi hafi kallað til stefnda og snúið framdekkinu til að forða árekstri, en við að taka í handbremsuna og snúa dekkinu þversum hafi hann fallið fram fyrir sig. Stefnandi kvaðst halda að stefndi hafi dottið líka þegar þeir rákust saman. Stefnandi kvaðst ekki gera sér grein fyrir hraða hjólsins þegar slysið varð en hafi talið hraðan vera 5-10 km/klst. en alls ekki meira en 20 km/klst. Ekki hafi verið hraðamælir á hjólinu. Stefnandi kvaðst hafa verið 1½ til 2 metra frá stefnda þegar hann hafi hlaupið af stað og ekki haft tíma til að sveigja frá eða stöðva hjólið þegar stefndi hafi hlaupið á hjólið. Þá kom fram hjá stefnanda að hann hefði haft óskert útsýni niður akbrautina. Hann hefði ekki áttað sig á aldri drengsins en séð gangandi vegfaranda og haft varann á, fært sig fjær og fylgst með honum. Stefnandi kvaðst vera vanur hjólreiðum.
Stefndi greindi frá því fyrir dómi að hann hefði verið á leiðinni í skólann þegar vörubíllinn kom upp brekkuna. Stefndi kvaðst hafa gengið upp götuna og hefði því verið búinn að horfa í þá átt sem stefnandi kom úr en hefði ekki séð hann. Þegar hann hafi séð vörubílinn koma hafi hann ætlað að ganga yfir götuna og verða á undan bílnum. Stefndi hafi þá heyrt stefnanda hrópa og við það hafi hann „farið í panik“ og ætlað að hlaupa eins og fætur toga yfir götuna en þá hafi þeir skollið saman. Kvaðst stefndi hafa fundið fyrir stefnanda rekast á sig og séð hann detta. Vörubíllinn hafi verið í talsverðri fjarlægð en stansað og hafi bílstjórinn komið til að aðstoða stefnanda. Stefndi kvaðst ekki hafa vitað hvað hann ætti að gera en stefnandi hafi sagt honum að fara í skólann og hafi hann gert það. Stefndi kvaðst aðspurður ekki hafa verið að horfa á fæturna á sér rétt áður en slysið varð, heldur upp götuna án þess þó að sjá til ferða stefnanda. Hann hafi verið með alla sína athygli á vörubílnum þegar hann hafi farið yfir götuna og ekki séð stefnanda fyrr en hann datt. Hann hafi verið lagður af stað yfir götuna þegar hann hafi heyrt óp. Við það að heyra ópin frá stefnanda hafi hann ætlað að flýta sér enn meira yfir götuna. Hann hafi litið upp götuna og til hægri áður en hann hafi farið yfir. Hann hafi þá fundið fyrir örlitlu höggi og séð stefnanda detta beint fyrir framan sig.
Ljóst er að aðdragandinn að slysi því sem stefnandi varð fyrir 24. september 2010 og atvik málsins eru að ýmsu leyti óljós. Skiptir þá mestu máli að óupplýst er á hvaða hraða stefnandi var þegar slysið varð. Framburður stefnanda um þetta atriði er ekki á einn veg. Þá liggur fyrir að vitni voru ekki að atvikum og engin rannsókn var gerð í kjölfar slyssins, hvorki á vettvangi né á reiðhjóli því stefnandi var á í umrætt sinn. Bílstjóri vörubifreiðarinnar sem ók upp Brekkuás þegar slysið varð og kom stefnanda til aðstoðar kom ekki fyrir dóminn. Ekki er við annað að styðjast um atvikin en tilkynningu stefnanda til Sjúkratrygginga Íslands og framburð aðila fyrir dómi.
Í tilkynningu stefnanda um slysið til Sjúkratrygginga Íslands 4. október 2010 segir að hraði hjólsins hafi ekki verið á mikill, kannski 5 10 km/klst. Þá segir orðrétt: „Ég reyni að bremsa og sveigja framhjá, en lendi í samstuði við strákinn. Ég flýg framfyrir mig og lendi illa á hægri öxl.“ Fyrir dómi greindi stefnandi frá því að hann hafi látið sig renna á reiðhjólinu niður Brekkuás. Hann hafi séð til ferða stefnda, fylgst með ferðum hans upp götuna og gert ráðstafanir með því að færa sig nær miðlínu akreinarinnar. Í máli stefnanda kom fram að hann hefði ekki gert sér grein fyrir hraða hjólsins, en á að giska hefði hraðinn verið 5-10 km/klst., ekki meira en 20 km/klst. „Þetta er einhvers staðar 10-20 km/klst.“
Samkvæmt framburði stefnda fyrir dómi varð hann ekki var við stefnanda þegar hann hafi gengið upp götuna. Hann hafi orðið vörubílsins var og ætlað að vera á undan honum yfir götuna en þá heyrt stefnanda hrópa. Hafi viðbrögð hans þá verið að hlaupa yfir götuna en þá hafi hann skollið beint á stefnanda. Bar stefndi að hann hefði gætt að umferð frá vinstri en ekki orðið var við hjólið fyrr en það skall á honum.
Ekki er deilt um það að stefndi gekk upp akbrautina Brekkuás alveg við rennustein og var þá við vinstri vegarbrún á móti akstursstefnu, en hægra megin séð frá stefnanda sem kom hjólandi niður sömu akrein. Þykir stefndi hafa með því fylgt fyrirmælum í 1. mgr. 11. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 en eins og fram er komið var umhverfi akbrautarinnar ófrágengið þegar slysið varð og engar gangstéttir við akbrautina. Stefndi heldur því fram að hann hafi gætt að umferð frá báðum hliðum áður en hann hafi ætlað yfir akbrautina. Hann ber einnig að hann hafi aldrei séð til ferða stefnanda en heyrt hann hrópa í sama mund og hann hafi fengið hjólið á sig. Hafi atvikin verið á þann veg sem stefndi lýsir verður honum ekki gefið að sök gáleysi þrátt fyrir að hafa ákveðið að hlaupa út á akbrautina til að vera á undan bílnum, enda kemur fleira til eins og nú verður rakið.
Miðað þá lýsingu sem stefnandi gaf á aðstæðum við Brekkuás í umrætt sinn liggur fyrir að hann hafði ótakmarkað útsýni niður götuna, varð var við stefnda og fylgdist með honum. Lýsti stefnandi því fyrir dómi að stefndi hefði horft niður á tærnar á sér allt þar til hann hafi heyrt í vörubifreiðinni sem ók upp götuna, þá tekið „skyndiákvörðun“, hlaupið út á götuna og þá beint á framdekk hjólsins með áðurgreindum afleiðingum. Samkvæmt þessari lýsingu stefnanda var honum eða mátti vera kunnugt um það að stefndi hafði ekki veitt honum neina athygli þegar fjarlægðin á milli þeirra var þó ekki nema 1 ½ til 2 metrar. Þrátt fyrir þetta og þá staðreynd að athygli stefnda hafði beinst að vörubílnum sem stefndi heyrði í, gerði stefnandi ekki neinn reka að því að láta stefnanda, sem var augljóslega annars hugar samkvæmt lýsingu stefnanda sjálfs, vita af því að hann væri einnig þar á ferð fyrr en í sömu mund og þeir skella saman, en samkvæmt lýsingu stefnanda kallaði hann til stefnda í sömu mund og hann hljóp á framdekk hjólsins. Er það mat dómsins að við þessar aðstæður verði ekki talið að stefnandi hafi sýnt næga aðgæslu og ekki þá sérstöku tillitssemi sem sýna skal börnum, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 4. gr., 1. mgr. 26. gr. og j. lið 2. mgr. 36. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, enda verður ekki hjá því komist að álykta sem svo að stefnandi hafi haft svigrúm til þess að láta stefnda vita af ferðum sínum mun fyrr en hann gerði. Það gerði stefnandi þó ekki og verður að bera hallan af því. Í öllu falli er það mat dómsins að stefnanda mátti vera það ljóst að hætta gat verið á ferð þegar stefndi hafði ekki veitt honum neina athygli.
Ekki er upplýst nákvæmlega á hvaða hraða reiðhjólið var á leiðinni niður Brekkuás en miðað við þá lýsingu stefnanda að hann hafi fært sig að miðlínu akreinar og að fjarlægð á milli hjólsins og stefnda hafi verið á bilinu 1 ½ til 2 metrar þegar stefndi hafi hlaupið út á götuna og „á framgaffal hjólsins“ þykir verða að ganga út frá því að hraði hjólsins hafi verið meiri en stefnandi gefur upp. Hafi hraði hjólsins verið 5 - 10 km/klst. eins og stefnandi greinir frá í tilkynningu sinni til Sjúkratrygginga Íslands þykja atvik málsins eins og þeim er lýst af stefnanda benda til þess að hann hefði getað stöðvað hjólið eða að minnsta kosti dregið mjög úr hraða þess áður en stefnandi og stefndi rákust saman og án þess að missa jafnvægið og detta enda var stefnandi vanur hjólreiðum frá barnsaldri.
Samkvæmt því sem rakið er að framan er að mati dómsins ósannað að stefndi hafi hlaupið út á akbrautina án þess að sýna næga aðgæslu og gæta að umferð frá vinstri. Þykir stefnandi þannig ekki hafa sýnt fram á að stefndi hafi hegðað sér með saknæmum hætti í umrætt sinn, þannig að leiði til þess að skaðabótaábyrgð hafi stofnast á hendur honum. Stefnandi þykir á hinn bóginn ekki hafa sýnt þá aðgæslu sem honum bar í umrætt sinn og þykir að öllu framangreindu virtu verða að bera tjón sitt að öllu leyti sjálfur. Kröfu stefnanda um að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir í slysi 24. september 2010 er því hafnað.
Að þessu virtu og öllu því sem að framan er rakið kemur varakrafa stefnda um að sök verði skipt ekki til álita.
Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Kröfu réttargæslustefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., um að stefnandi greiði félaginu málskostnað er hafnað.
Ósk Óskarsdóttir héraðsdómslögmaður flutti málið fyrir stefnanda en Rúrik Vignir Vatnarsson héraðsdómslögmaður fyrir stefnda og réttargæslustefnda.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Yngvi Freyr Óðinsson, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sigurðar Ívars Sigurjónssonar.
Málskostnaður fellur niður.