- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
Þriðjudaginn 28. nóvember 2006. |
Nr. 579/2006. |
M(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn K (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
Undir opinberum skiptum til fjárslita milli M og K greindi þau á um hvort að við mat á verðmæti jarðarinnar X, ásamt því sem henni fylgdi, skyldi taka mið af verðlagi í ágúst 2003, þegar skilnaðarmál þeirra var fyrst tekið fyrir hjá sýslumanni, eða í september 2005, en þá var tekin fyrir krafa um opinber skipti milli þeirra. Ekki var fallist á með M að 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og efnislega samhljóða ákvæði í lögum nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. leiddu til þess að miða ætti við fyrra tímamarkið. Staðfest var sú niðurstaða héraðsdóms að við verðmatið ætti að miða við gangverð eigna þegar matið færi fram gegn staðgreiðslu kaupverðs. Þar sem K hafði í málatilbúnaði sínum ekki miðað við verðlag síðar en í september 2005 var talið að leggja ætti það tímamark til grundvallar við skiptin ef til útlagningar eignanna til M kæmi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. október 2006, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að við skipti til fjárslita vegna skilnaðar aðila skyldi við verðmat jarðarinnar X í Y, ásamt því henni fylgir, miða við verðlag í september 2005 ef eignirnar yrðu lagðar sóknaraðila út til eignar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og að viðurkennt verði að við verðmat jarðarinnar, ásamt því sem henni tilheyrir, skuli miða við verðlag í ágúst 2003, sbr. fyrirliggjandi mat frá maí 2006, verði eignirnar lagðar honum út til eignar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. október 2006.
Mál þetta var þingfest 28. júlí 2006 og tekið til úrskurðar 12. október sama ár. Sóknaraðili er K, [heimilisfang], en varnaraðili er M, [heimilisfang].
Sóknaraðili krefst þess að við skipti til fjárslita milli aðila vegna skilnaðar verði lagt til grundvallar að andvirði jarðarinnar X í Yt, ásamt húsakosti, bústofni, áhöldum og tækjum og greiðslumarki í mjólk og ærgildum, verði talið 198.197.750 krónur við útlagningu til varnaraðila ef af verður. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að við útlagningu ofangreindra eigna til sín verði miðað við verðlag í ágúst 2003. Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.
I.
Málsaðilar hófu sambúð árið 1990 og gengu í hjónaband 30. mars 1991. Þau eignuðust þrjú börn sem fæddust á árunum 1991, 1993 og 1996. Frá því aðilar hófu sambúð hafa þau búið á jörðinni X og starfað þar við búrekstur. Jörðin X hefur um langa hríð verið í eigu ættar varnaraðila og keypti varnaraðili jörðina árið 1995 eftir að faðir hans féll frá.
Í ágúst 2003 slitu málsaðilar samvistir og flutti sóknaraðili af heimilinu með börn þeirra til Z. Þar réð sóknaraðili sig til verslunarstarfa en hefur nú nýlega hafið veitinga- og gistihúsarekstur í Reykjavík. Varnaraðili hefur hins vegar unnið áfram við bústörf að X.
Hinn 8. september 2003 mættu málsaðilar hjá sýslumanninum í Borgarnesi og óskuðu eftir leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Voru hjónin sammála um að fara sameiginlega með forsjá barnanna og að þau ættu lögheimili hjá sóknaraðila til 18 ára aldurs. Málinu var hins vegar frestað ótiltekið til að fjalla um meðlag með börnunum og ganga frá fjárskiptasamningi vegna skilnaðarins.
Málið var næst tekið fyrir hjá sýslumanni 25. nóvember 2005 en þá mætti sóknaraðili og krafðist lögskilnaðar á þeim grundvelli að meira en tvö ár væru liðin frá því aðilar slitu samvistum, sbr. 37. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Leyfisbréf til lögskilnaðar var síðan gefið út 14. desember sama ár.
Hinn 16. ágúst 2003 barst réttinum krafa sóknaraðila um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli aðila. Var málið þingfest 20. september sama ár og með úrskurði réttarins 30. þess mánaðar var krafan tekin til greina. Í kjölfarið var haldinn skiptafundur 21. október 2005 og kom þá fram ágreiningur milli aðila um hvaða tímamark miða ætti skiptin við. Aftur var fjallað um þetta ágreiningsefni á næsta skiptafundi, sem haldinn var 16. nóvember sama ár, án þess að nokkur sammæli yrðu með aðilum. Einnig kom fram að aðilar hefðu ekki komið sér saman um andvirði eigna og ákvað skiptastjóri því að afla mats fasteignasala á verðmæti jarðarinnar X ásamt því sem henni fylgdi, þar á meðal greiðslumarki, auk véla og búfjár. Loks kom fram á fundinum að varnaraðili áskildi sér rétt til að krefjast útlagningar á þessum eignum.
Skiptastjóri fékk Franz Jezorski, héraðsdómslögmann og fasteignasala, til að meta jörðina ásamt öllu sem fylgir búrekstrinum. Verðmat hans er frá maí 2006 og þar eru eignir metnar annars vegar miðað við verðlag í ágúst 2003 og hins vegar miðað við verðlag í september 2005. Nánar sundurliðast verðmatið þannig:
Verðmat miðað við ágúst 2003
Söluandvirði jarðar kr. 65.000.000
Framleiðsluréttur í mjólk (106.495 lítrar) kr. 25.588.800
Framleiðsluréttur í sauðfé (311 ærgildi) kr. 7.775.000
Bústofn kr. 3.500.000
Söluandvirði véla og tækja kr. 9.470.000
Samtals kr. 111.303.800
Verðmat miðað við september 2005
Söluandvirði jarðar kr. 130.000.000
Framleiðsluréttur í mjólk (106.495 lítrar) kr. 47.922.750
Framleiðsluréttur í sauðfé (311 ærgildi) kr. 7.775.000
Bústofn kr. 3.500.000
Söluandvirði véla og tækja kr. 9.000.000
Samtals kr. 198.197.750
Í verðmatinu er tekið fram að erfitt sé að meta bústofninn og sauðfé sé nánast verðlaust. Nautgripina sé hins vegar unnt að reikna samkvæmt áætluðu sláturverði slíkra gripa. Þá er tekið fram að mat á vélum og tækjum sé ónákvæmt og gefi aðeins vísbendingu um söluverð. Til að fá nákvæmara mat þyrfti að kalla til sérhæfða sölumenn sem gætu framkvæmt ítarlegri skoðun á ástandi. Einnig er tekið fram að talsvert framboð sé á notuðum vélum og tækjum.
Hinn 21. júní 2006 var haldinn skiptafundur til að fjalla um verðmatið og framvindu skiptanna að öðru leyti. Á fundinum gerði varnaraðili kröfu um útlagningu eigna miðað við verðmat í ágúst 2003. Af hálfu sóknaraðila var kröfu varnaraðila um útlagningu ekki andmælt. Aftur á móti gerði sóknaraðili þá kröfu að verðmat í september 2005 yrði lagt til grundvallar. Til að jafna þennan ágreining kom skiptastjóri með sáttatillögu og gaf aðilum frest til að taka afstöðu til hennar. Sú viðleitni bar ekki árangur og því vísaði skiptastjóri ágreiningsefninu til úrlausnar dómsins samkvæmt 112. gr. laga um skipti dánarbúa o.fl., nr. 20/1991.
II.
Sóknaraðili vísar til þess að skipti til fjárslita milli aðila eigi að fara fram á grundvelli helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Þannig eigi að miða eignaskiptin við raunvirði eigna, sem deila eigi jafnt á milli hjóna að frádregnum skuldum. Telur sóknaraðili fara í bága við þessa reglu ef varnaraðili fær lagðar sér út nær allar eignir langt undir sannvirði.
Sóknaraðili tekur fram að því sé ekki í sjálfu sér andmælt að varnaraðili eigi frekari rétt til útlagningar á eignum sem snerta búrekstur en bendir þó á að sú útlagning verði að vera innan skynsamlegra marka. Í þessu sambandi vísar sóknaraðili til þess að nokkrar skorður séu lagðar við útlagningu, sbr. 108. gr. hjúskaparlaga, en þar sé meðal annars miðað við að eignarhluti sé lagður út eftir virðingu, sem þýði væntanlega mat á verðmæti eigna þegar skiptin fara fram. Á hinn bóginn verði því ekki fundin stoð í lögum að annað hjóna geti á grundvelli útlagningar eigna skert þann búshelming sem hitt hjóna eigi rétt á.
Sóknaraðili bendir á að fram komi í 101. gr. hjúskaparlaga hvað dregið skuli undir skiptin, en þar sé miðað við þær eignir og skuldir sem voru fyrir hendi á því tímamarki þegar sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar. Sóknaraðili telur að þetta verði með engu móti skilið þannig að eignir sem falli undir skiptin verði metnar miðað við verðlag á sama tímamarki. Þess í stað beri eftir almennum reglum að hafa til hliðsjónar verðlag á þeim tíma þegar matið fer fram. Í samræmi við þetta komi til skipta tekjur og arður af eignum sem falli undir skiptin og það sama eigi við um verðaukningu eigna. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á að samkvæmt 5. mgr. 22. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, eigi að hækka matsverð eigna miðað við nánar tilgreinda vexti nema á annan veg sé samið.
Sóknaraðili heldur því fram að varnaraðili hafi með þrásetu sinni yfir eignum komið því til leiðar að skiptin hafi dregist úr hömlu. Telur sóknaraðili hámark ósanngirni ef varnaraðili fengi umbun fyrir þann drátt með því að leysa til sín eignir langt undir markaðsverði. Á hinn bóginn miði varnaraðili við að skuldir komi að fullu til frádráttar miðað við stöðu þeirra í dag. Þykir sóknaraðila einsýnt að miða verði við sama tímamarkið þegar andvirði eigna og skulda er reiknað.
Sóknaraðili tekur fram að hann geri ekki athugasemdir við það verðmat sem skiptastjóri hefur aflað á jörðinni ásamt eignum og réttindum sem snerta rekstur býlisins. Til einföldunar fellst því sóknaraðili á að verðmatið verði lagt til grunvallar við útlagningu til varnaraðila og útreikning á búshelmingi sóknaraðila.
III.
Varnaraðili andmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að krafa um að skipti fari fram á verðlagi í ágúst 2003 samrýmist ekki helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, nr. 31/1993. Einnig áréttar varnaraðili að þær eigur sem málið snúist um séu hjúskapareign varnaraðila, sem komi til skipta á grundvelli hjúskaparlaga.
Varnaraðili heldur því fram að öll rök hnígi að því að skilja beri 101. gr. hjúskaparlaga á þann veg að verðmæti eigna miðist einnig við það tímamark þegar sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar. Lög mæli ekki fyrir um annað tímamark og því verði við það miðað nema aðilar nái samkomulagi um annað. Varnaraðili telur að önnur regla verði ekki leidd af 108. gr. hjúskaparlaga og andmælir því að fyrir hendi sé almenn regla um að miða eigi andvirði eigna við matsdag. Af þessu leiði einnig að varnaraðili hefði ekki getað gert kröfu um annað og síðara tímamark ef jarðarverð hefði lækkað.
Til stuðnings kröfu sinni bendir varnaraðili jafnframt á að í 2. málsl. 1. mgr. 104 gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, komi fram að einnig komi til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem fengist hafa af þeim eignum og réttindum sem falli undir skiptin. Um verðmatið sé síðan fjallað í 3. mgr. 105. gr. laganna en það fari eftir 17.-23. gr. laganna. Varnaraðili mótmælir því að verðauki eigna falli undir skiptin, enda verði hann ekki að réttu lagi talinn til tekna.
Varnaraðili tekur undir með sóknaraðila að sanngirnissjónarmið búi að baki reglum hjúskaparlaga um fjárskipti við skilnað. Þau sjónarmið telur varnaraðili enn frekar styðja málatilbúnað sinn og bendir á í því sambandi að jörðin X hafi verið í eigu ættar varnaraðila um langan aldur. Þegar varnaraðili keypti jörðina 1995 af dánarbúi föður síns hafi söluverðið verið ákveðið með hliðsjón af fjárhag varnaraðila til að tryggja að jörðin héldist í eigu fjölskyldunnar. Þrátt fyrir þessa forsögu eignarhalds á jörðinni hafi ekki verið höfð uppi krafa um skáskipti. Verði á hinn bóginn miðað við verðmat eigna í september 2005 sé varnaraðila með öllu ókleift að greiða sóknaraðila út andvirði eigna og neyðist því til að selja jörðina.
Varnaraðili bendir á að fjárhagslegri samstöðu málsaðila hafi lokið þegar þau slitu samvistum og upp frá því hafi þau hvort um sig talið fram til skatts. Frá þeim tíma hafi varnaraðili einn annast rekstur búsins og greitt af öllum skuldbindingum, auk þess að bera alla áhættu af rekstrinum. Þá mótmælir varnaraðili því að hann hafi beitt þaulsetu til að tefja skiptin. Það rétta sé að samkomulag hafi ekki náðst um skiptin og það sé nú að koma honum sjálfum í koll miðað við þá kröfu sem sóknaraðili hefur uppi í málinu.
Varnaraðili mótmælir því að upphaflegt skilnaðarmál þeirra hjóna hafi fallið niður eins og sóknaraðili hafi hreyft í málinu. Þvert á móti komi skýrt fram í 101. gr. hjúskaparlaga að tímamarkið um þær eignir og skuldir sem falli undir skiptin sé þegar sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar. Málsaðilar hafi slitið samvistir í ágúst 2003 og skilnaðarmál þeirra hafi verið tekið fyrir í september sama ár. Engin lagaheimild hafi staðið til þess að sýslumaður felldi málið niður, enda beri að veita skilnað þegar hjón eru sammála um það, sbr. 33. gr. hjúskaparlaga.
Loks tekur varnaraðili fram að hann vefengi ekki að skuldir eigi að miða við sama tímamark og þegar eignir eru metnar, enda hafi hann greitt af skuldum allt til þessa dags.
IV.
Máli þessu var skotið til úrlausnar dómsins vegna ágreinings aðila um við hvaða tímamark ætti að miða verðmat jarðarinnar X og eigna tengdar búrekstri á jörðinni. Sóknaraðili telur að miða eigi við verðlag í september 2005 en í þeim mánuði var tekin fyrir krafa sóknaraðila hér fyrir dómi um að fram færu opinber skipti til fjárslita milli aðila. Á hinn bóginn telur varnaraðili að miða eigi við verðlag í ágúst 2003 en í þeim mánuði var skilnaðarmál aðila fyrst tekið fyrir hjá sýslumanni.
Með málsaðilum er ekki ágreiningur um önnur atriði sem snerta þetta sakarefni. Þannig eru þeir einhuga um að leggja til grundvallar verðmat á eignum sem skiptastjóri hefur aflað, en þar eru eignir metnar miðað við breytilegt verðlag á sitt hvoru tímamarkinu, sem aðilar miða málatilbúnað sinn við. Jafnframt voru sömu eignir metnar út frá þessu, en fyrir liggur að eignasafnið breyttist ekki á tímabilinu. Þá hefur sóknaraðili ekki vefengt rétt varnaraðila til að fá þær eignir sér útlagðar sem verðmatið tekur til.
Sóknaraðili hefur hagað kröfugerð sinni hér fyrir dómi þannig að miða við þá fjárhæð sem nemur andvirði eigna í verðmati miðað við verðlag í september 2005. Hér fyrir dómi verður verðmatið sjálft ekki endurskoðað, enda er það ágreiningslaust með aðilum. Eins og málið liggur fyrir réttinum og með hliðsjón af skýringum við munnlegan málflutning verður kröfugerðin hins vegar skilin þannig að þess sé krafist að verðmat eigna miðist við verðlag í september 2005. Verður þetta talið rúmast innan kröfunnar, eins og hún er sett fram, en þessi annmarki á kröfugerðinni hefur ekki komið að sök fyrir málatilbúnað varnaraðila.
Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, skal við úrlausn um eignir, sem falla undir skiptin, miðað við það tímamark sem sýslumaður tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar nema sammæli verði um annað. Jafnframt segir að eignir, sem maki hefur aflað sér eftir þetta tímamark og tekjur og arður af þeim, komi ekki undir skiptin. Efnislega samhljóða ákvæði er að finna í 1. mgr. 104. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, en þar kemur fram að aðeins komi til skipta þær eignir og þau réttindi aðilanna sem ekki verða taldar séreignir annars þeirra og tilheyrðu þeim þegar yfirvald tók fyrst fyrir umsókn um leyfi til skilnaðar. Einnig segir að til viðbótar skuli koma til skipta arður, vextir og annars konar tekjur sem fengist hafi síðan af þeim eignum og réttindum.
Með þessum lagareglum er skiptagrundvöllurinn lagður með því að afmarka þær eignir sem falla undir skiptin. Af því leiðir ekki að verðmat eigna sem koma til skipta miðist við sama tímamark þegar þær eru lagðar út öðru hjóna til eignar. Við það mat ber hins vegar að miða við gangverð eigna þegar matið fer fram gegn staðgreiðslu kaupverðs. Á sú venjuhelgaða skiptaregla sér meðal annars stoð í 1. mgr. 20. gr. og 5. mgr. 22. gr. laga nr. 20/1991, en þau ákvæði gilda um opinber skipti til fjárslita milli hjóna, sbr. 3. mgr. 105. gr. laganna.
Svo sem áður er vikið að voru þær eignir sem mál þetta snerti fyrir hendi þegar málsaðilar sóttu um skilnað hjá sýslumanni í ágúst 2003. Að því gættu og þar sem sóknaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum miðað við verðlag síðar en í september 2005 verður það lagt til grundvallar við skiptin komi til útlagningar eignanna til varnaraðila.
Eftir þessum málsúrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Við opinber skipti til fjárslita vegna skilnaðar milli sóknaraðila, K, og varnaraðila, M, skal við verðmat jarðarinnar X í Y, ásamt því sem jörðinni fylgir, þar með talið greiðslumark í mjólk og ærgildum, auk tækja og véla til búreksturs, miða við verðlag í september 2005 verði eignirnar lagðar varnaraðila út til eignar.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.