- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Fimmtudaginn14. janúar 2010. |
Nr. 23/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. janúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. febrúar 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. janúar 2010
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 9. febrúar 2010 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að snemma á árinu 2009 hafi kærða verið til rannsóknar hjá lögreglustjóranum vegna gruns um innflutning fíkniefna, mansal og hagnýtingu vændis. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness, í máli nr. S-676/2009, uppkveðnum 1. desember sl., hafi henni verið gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði fyrir innflutning fíkniefna og hagnýtingu vændis. Kærða hafi áfrýjað dóminum til Hæstaréttar.
Í október 2009, meðan ofangreint mál hafi verið til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness, hafi rannsókn hafist gegn kærðu að nýju vegna gruns um ætlað mansal og hagnýtingu vændis, mál lögreglu nr. 007-2009-64256, þ.e. að kærða flytti stúlkur til landsins, gerði þær út til vændis og tæki a.m.k. helming hagnaðarins af þeim. Kærða hafi verið handtekin vegna málsins 3. desember 2009 og sætt gæsluvarðhaldi síðan 4. þ.m. á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Við rannsókn málsins hafi konur sem hér búi borið um að hafa stundað vændi hér á landi á vegum kærðu, en aðrar að þær hafi komið til landsins í því skyni að starfa við vændi á vegum kærðu. Konunum beri saman um að kærða hafi verið umráðamanneskja þess húsnæði sem þær dvöldu í og vændisstarfsemin hafi verið stunduð í. Kærða hafi haft alla milligöngu við þá sem keypt hafi vændisþjónustu þeirra og að kærða hafi tekið við greiðslu og haldið eftir verulegum hluta þess sem greitt var. Þá bendi framkomnir vitnisburðir einnig til þess að kærða hafi gerst sek um mansal gagnvart sumum þeirra kvenna sem um ræðir, með ofbeldi, hótunum um ofbeldi og frelsissviptingu.
Í byrjun þessa mánaðar hafi lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu borist upplýsingar um að kærða hafi boðið samfanga sínum, ungri konu, að starfa fyrir sig sem vændiskona fyrir 500.000 krónur á mánuði þegar hún væri laus úr fangelsi. Lögreglan hafi yfirheyrt konuna og staðfesti hún þetta auk þess sem tekin hafi verið skýrsla af öðrum fanga sem hafi verið vitni að ofangreindu samtali.
Fjármál kærðu hafi verið til skoðunar hjá lögreglunni samhliða og í tilefni af ofangreindri rannsókn. Hafi komið í ljós að helsta tekjulind kærðu hafi verið sú brotastarfsemi sem nú sé til rannsóknar, en á kærðu hvíli talsverðar fjárhagsskuldbindingar.
Þá hefur lögreglan lokið rannsókn í máli 007-2008-92653 sem varði ætlað brot kærðu gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, en kærða hafi játað þá háttsemi sem henni sé gefin að sök í því máli.
Með vísan til þess sem að ofan greinir telur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ljóst að kærða hafi ekki látið af brotastarfsemi sinni þrátt fyrir að hafa sætt lögreglurannsóknum, tvívegis sætt gæsluvarðhaldi og verið ákærð og dæmd fyrir sambærileg brot, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. S-676/2009. Þá lítur lögreglustjórinn það alvarlegum augum að kærða leitist enn á ný, á meðan hún sætir gæsluvarðhaldi vegna gruns um mansal og hagnýtingu vændis, við að fá konur til að starfa fyrir sig í vændi. Loks telur lögreglustjórinn framangreind mál og rannsókn á fjármunum kærðu benda til að hún framfleyti sér með afbrotum.
Lögreglustjóri segir að rannsókn málsins sé vel á veg kominn og megi ætla að ákvörðun um saksókn verði tekin innan þess tíma sem hér er krafist.
Það er mat lögreglu að ætla megi að kærða muni halda áfram brotum gangi hún laus á meðan málum hennar er ekki lokið, sbr. c-lið 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2009. Er þess því krafist að krafan nái fram að ganga svo unnt verði að ljúka málum hennar hjá lögreglu og e.t.v. dómstólum.
Fyrir liggur að kærða var dæmd í tveggja og hálfs árs fangelsi hinn 1. desember 2009 fyrir fíkniefnabrot, brot gegn valdstjórninni og fyrir að hafa viðurværi sitt af vændi annarra. Þegar málið var til meðferðar fyrir dómi hófst rannsókn hjá lögreglu vegna rökstudds gruns um að kærða héldi áfram brotastarfsemi, mansali og hagnýtingu vændis. Kærða hefur vegna þessa sætt gæsluvarðhaldi frá 4. desember 2009. Samkvæmt rannsóknargögnum málsins hefur kærða í gæsluvarðhaldsvist sinni leitast við að fá konur til að vinna fyrir sig með vændi. Að öllu þessu virtu má ætla að kærða muni halda áfram brotum meðan máli hennar er ekki lokið. Með vísan til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Kærða, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 9. febrúar 2010 kl. 16:00.