Print

Mál nr. 177/2004

Lykilorð
  • Þjófnaður
  • Húsbrot
  • Ávana- og fíkniefni
  • Hlutdeild
  • Ítrekun
  • Vanaafbrotamaður
  • Reynslulausn

Fimmtudaginn 23

 

Fimmtudaginn 23. september 2004.

Nr. 177/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ágústi Þorkelssyni Holthe

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Þjófnaður. Húsbrot. Fíkniefni. Hlutdeild. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Reynslulausn.

Á var sakfelldur fyrir þjófnaði, hlutdeild í þjófnaði, húsbrot og fíkniefnalagabrot. Með brotunum rauf Á reynslulausn á eftirstöðvum 300 daga refsivistar. Hafði Á áður verið dæmdur meðal annars fyrir þjófnaðarbrot, sem höfðu ítrekunaráhrif, og brotaferill hans verið samfelldur frá því hann hlaut fyrst dóm fyrir auðgunarbrot á árinu 2001. Til þess var hins vegar litið að hann játaði brot sín hreinskilnislega. Var Á talinn vera vanaafbrotamaður og refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði, sbr. 1. mgr. 71. gr. og 72. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. apríl 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess nú að refsiákvörðun héraðsdóms verði staðfest.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með dómi Héraðsdóms Þrándheims í Noregi 22. febrúar 2002 var ákærði dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundið, fyrir kynferðisbrot, sem framið var 15. mars 1997. Var brotið heimfært undir 1. mgr. 195. gr. norsku hegningarlaganna, sem samsvarar 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Að öðru leyti er sakaferill ákærða rakinn í héraðsdómi. Þjófnaðarbrotin, sem hann var sakfelldur fyrir með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2003 og 28. maí sama árs hafa ítrekunaráhrif á þau brot, sem honum eru að sök gefin í 4. og 5. lið ákæru, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur óskilorðbundni hluti dómsins frá 22. nóvember 2001 einnig þessa verkun, en með honum var ákærði dæmdur fyrir brot framin á árinu 2001, meðal annars þjófnaði. Brotaferill ákærða hefur verið samfelldur frá því hann hlaut fyrst dóm fyrir auðgunarbrot 22. nóvember 2001. Þegar litið er til sakaferils ákærða er ljóst að hann er vanaafbrotamaður. Við ákvörðun refsingar hans er því vísað til 72. gr. almennra hegningarlaga. Til hins ber að líta honum til málsbóta að hann hefur játað brot sín hreinskilnislega. Með hliðsjón af framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur, þó þannig að draga skal frá refsingunni gæsluvarðhald, sem ákærða var gert að sæta frá 22. janúar 2004 til 27. apríl sama árs.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Ágústs Þorkelssonar Holthe, skal draga gæsluvarðhald hans frá 22. janúar 2004 til 27. apríl sama árs.

Ákærði, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur  29. mars 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 2. mars sl., á hendur Ágústi Þorkelssyni Holthe, kt. 170979-4949, Aflagranda 26, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2003, nema annað sé tekið fram:

1.

Húsbrot með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 19. september farið í heimildarleysi inn í [...] með því að brjóta rúðu.

Þetta er talið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.

Skjalafals með því að hafa miðvikudaginn 21. janúar 2004 í útibúi KB banka í Austurstræti 5 selt tékka nr. 7863284 frá Búnaðarbanka Íslands, að fjárhæð kr. 235.000 og með útgefandanafnrituninni D, vitandi að tékkinn var falsaður.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.

3.

Fíkniefnalagabrot:

3.1

Sunnudaginn 18. janúar 2004 að [...] haft í vörslum sínum 1,01 g af amfetamíni.

3.2

Miðvikudaginn 21. janúar 2004 að [...] haft í vörslum sínum 52,19 g af amfetamíni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

4.

 Hlutdeild í þjófnaði með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 27. október, aðstoðað A og B, við þjófnað, með því að aka þeim út á Seltjarnarnes vitandi að þeir hugðust brjótast inn og sækja þá aftur að [...], Seltjarnarnesi, þar sem þeir höfðu brotist inn og stolið ýmsum varningi svo sem skotvopnum, áfengi, heimilistækjum, skartgripum og fatnaði, samtals að verðmæti kr. 1.700.000, beðið meðan þýfinu var hlaðið í bílinn, ekið A og B frá vettvangi með þýfið og að dvalarstað ákærða að [...] þar sem stór hluti þýfisins fannst við húsleit lögreglu miðvikudaginn 29. október.

Þetta er talið varða við 244. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga.

5.

Þjófnaði:

5.1

Aðfaranótt sunnudagsins 21. desember úr íbúðarhúsnæði við [...] eða úr bifreiðunum [...] og [...] utan við húsið, stolið leðurjakka, peysu, lyklum, seðlaveski, greiðslukortum, kvenveski, snyrtivörum, gleraugum, Ericson farsíma, samtals að verðmæti um kr. 150.000 og um kr. 9.000 í reiðufé.

5.2

Sunnudaginn 18. janúar 2004 brotist inn í [...], með því að spenna upp hurð og stolið hárgreiðsluvörum, vigt, hárkollu, heftara, lykli og smámynt, samtals að verðmæti kr. 319.580.

5.3

 Á sama tíma og sama stað brotist inn í [...] með því að spenna upp hurð og stolið ljósmynda- og tölvubúnaði, gleraugnaumgjörð og kr. 20.000 í reiðufé, samtals að verðmæti yfir kr. 5.000.000.

Eru ofangreind brot í lið 5 talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að upptæk verði gerð framangreind fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.

Í málinu gerir C, kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 50.220.

Verjandi ákærða hefur krafist þess að ákærði verði sýknaður af ákæruliðum 1 og 2, en dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa að öðru leyti, og að gæsluvarð­haldsvist ákærða komi til frádráttar refsingu. Þá hefur hann krafist málsvarnarlauna.

Ákæruliður 1.

Aðfaranótt föstudagsins 19. september 2003 var lögreglu tilkynnt um innbrot í [...] í Reykjavík. Er lögregla mætti á vettvang kom í ljós, að brotin hafði verið rúða í útidyrahurð, en þar fyrir innan voru tveir starfsmenn C, X og Y, ásamt ákærða. Lýstu X og Y því fyrir lögreglu hvernig þeir hefðu orðið varir við brothljóð og í framhaldi af því hafi sá er braust inn opnað hurð inni í húsinu þar sem starfsmennirnir hafi haft aðstöðu. Hafi þeir tilkynnt lögreglu um innbrotið og haft þann er komið hafi inn í húsið hjá sér þar til lögregla mætti á vettvang. Ákærði var í framhaldi af þessu færður á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hann var vistaður í fangageymslu.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi, auk ákærða, vitnin X og Y.

Ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa brotið rúðu í [...] aðfaranótt föstudagsins 19. september 2003, en hann hefur synjað fyrir að hafa farið inn í húsið. Kveður hann starfsmenn Reykjavíkurhafnar, þá X og Y, hafa komið að ákærða fyrir utan húsið, eftir að ákærði hafi brotið rúðuna. Hafi hann eftir það farið inn í húsið með starfsmönnunum á meðan beðið hafi verið eftir lögreglu. Kvaðst ákærði hafa verið ölvaður og reiður þetta kvöld, og skýri það háttsemi hans.

Vitnið X kvað rúðu oft hafa verið brotna í [...], en hún sé í hurð við inngang í húsið úr porti. Þar hafi áður verið aðalinngangur í húsið, en á þessum tíma hafi verið í undirbúningi að loka portinu þar sem færa átti aðal­inngang á annan stað. Vitnið kvað rúðu hafa verið brotna með steini, sem hafi legið fyrir innan hurðina. Ákærði hafi verið kominn inn í [...] og verið á leið inn gang innanhúss. Hafi hann verið í annarlegu ástandi.

Vitnið Y kvaðst hafa verið við vinnu í [...]. Hafi það heyrt einhver læti þetta sinn og í framhaldi af því hafi ákærði gengið inn á vitnið og félaga þess í aðstöðu sem starfsmenn hafnarinnar hafi fyrir sig. Kvað vitnið ákærða hafa verið undir einhverskonar áhrifum. Hafi ákærði verið rólegur eftir að hann hafi komið að vitninu og beðið á meðan lögregla hafi verið á leið á vettvang.

Framburðir vitnanna X og Y eru samhljóða um, að ákærði hafi farið inn í [...] aðfaranótt föstudagsins 19. september 2003, en ákærði hefur viðurkennt að hafa brotið þar rúðu. Þykir með þessu vera komin fram fullnægjandi sönnun um, að ákærði hafi farið í heimildarleysi inn í [...], svo sem í ákæru er lýst. Hefur hann með því gerst brotlegur við 231. gr. laga nr. 19/1940.

Ákæruliður 2.

Miðvikudaginn 21. janúar 2004 var lögreglunni í Reykjavík tilkynnt um, að framvísað hafi verið fölsuðum tékka úr stolnu tékkhefti í útibúi KB banka í Austurstræti 5. Var tékkinn útgefinn af D, á hendur Ágústi Þorkelssyni, að fjárhæð 235.000 krónur. Tilkynnandi, E gjaldkeri bankans, kvað Ágúst Þorkelsson hafa framselt tékkann og fengið andvirði hans greitt í reiðufé, eftir að hafa lagt inn 43.000 krónur í reiðufé, þar sem ekki hafi verið næg innistæða á tékkareikningnum. Síðar þann dag var hringt í bankann, þar sem viðkomandi kynnti sig sem D, eiganda umrædds reiknings. Kvartaði viðmælandinn undan því, að Ágúst hefði ekki fengið greiddar nema 71.000 krónur út af tékkareikningnum. Starfsmanni bankans, er svaraði í símann, þótti símtalið dularfullt og hringdi í eiganda reikningsins, D. D kannaðist ekki við að hafa gefið út tékka á reikinginn. Í framhaldi af því var lögregla kölluð til. Lögregla kannaði myndbandsupptökur í bankanum og kom þá í ljós, að ákærði var sá er framvísaði umræddum tékka að fjárhæð 235.000 krónur. Síðar sama dag, hafði lögregla uppi á ákærða að [...]. D mætti á skrifstofu lögreglu 21. janúar og lagði fram kæru vegna þjófnaðar á tékkhefti sínu. Við það tækifæri upplýsti hann að hann hafi í framhaldi af símtali frá KB banka farið að aðgæta um tékkhefti sitt. Þá hafi komið í ljós að það var horfið. Hafi hann ekki notað heftið í eitt og hálft ár. D kvaðst búað að Álfhólsvegi 15 í Kópavogi ásamt dóttur sinni, F, sem væri fædd 1984. Væri hann sjómaður og hafi hann farið af landi brott í febrúar 2003 og ekki hafa komið til baka fyrr en í maí sama ár. Hann hafi farið aftur til útlanda í júní 2003 og ekki komið til baka fyrr en í janúar 2004.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu fyrir dómi, auk ákærða, vitnin E gjaldkeri og D.

Ákærði kvaðst fyrir dómi viðurkenna að hafa framvísað tékka, sem er sakarefni máls þessa, í KB banka í Austurstræti 5 í Reykjavík, 21. janúar 2004. Kvaðst hann hafa hitt fyrir mann í samkvæmi kvöldið áður. Hafi ákærði þá verið ölvaður. Maðurinn hafi farið þess á leit við ákærða, að hann færi með tékka í banka fyrir sig til innlausnar, þar sem maðurinn hafi ekki haft skilríki til að framvísa. Hafi tékkinn þá verið útfylltur að öðru leyti en því að ekki hafi þá verið búið að rita nafn ákærða á framhlið tékkans. Maðurinn hafi lofað ákærða að fyrir viðvikið skyldi ákærði fá 35.000 krónur. Ekki hafi ákærði þó fengið tékkann í hendur fyrr en að morgni miðvikudagsins 21. janúar. Ekki kvaðst ákærði hafa spurst fyrir um tilurð tékkans. Er ákærði var beðinn um að lýsa umræddum manni, kvað hann viðkomandi hafa verið um 22 ára að aldri, um 180 cm á hæð, með hvítan húðlit og skegglausan. Ekki kvaðst ákærði muna eftir hárlit mannsins. Ákærði kvaðst hafa farið með tékkann í bankann og framvísað honum hjá gjaldkera. Hafi hann fengið andvirði hans greitt, án vandkvæða. Gjaldkeri hafi innt ákærða eftir skilríkjum, en þeim hafi ákærði ekki getað framvísað. Hafi hann orðað það við gjaldkerann að væri ekki næg innistæða fyrir hendi á reikningnum, þá væri ákærði með reiðufé sem hann myndi leggja inn á reikninginn þar til fjárhæð tékkans væri náð. Hafi maðurinn úr samkvæminu sagt ákærða að svo kynni að fara, að ekki væri næg innistæða á reikningnum. Kvaðst ákærði eftir þetta hafa farið aftur í samkvæmið, sem hafi verið að [...],  og afhent manninum 150.000 krónur af andvirði tékkans og sjálfur tekið í sinn hlut 85.000 krónur. Hafi sú fjárhæð verið miðuð við að ákærði fengi 35.000 krónur fyrir innlausnina að viðbættu því fé sem hann hafi lagt til í bankanum. Er ákærði var inntur eftir því hvort hann kannaðist við íbúa að [...], F, þá kvaðst ákærði ekki kannast við hana.

Vitnið E kvað mann hafa komið í bankann til að inn­leysa umræddan tékka. Hafi þá verið búið að fylla tékkann út og framselja hann á bakhlið. Það hafi maðurinn gert, en vitnið hafi borið undirritun hans saman við undirritun í tölvukerfi bankans. Ekki hafi verið næg innistæða á reikningnum. Hafi maðurinn gert grein fyrir því að hann væri að innleysa tékkann fyrir vinnuveitanda sinn. Þar sem vitnið hafi verið nýbyrjað að starfa í bankanum hafi það innt samstarfskonu þess eftir því hvort heimilt væri að leggja reiðufé inn á reikninginn til að næg innistæða væri fyrir hendi. Það hafi verið heimilt og hafi maðurinn afhent vitninu slatta af peningum. Síðar, eftir að maðurinn hafi horfið á brott úr bankanum,  hafi vitnið skoðað tékkann betur og þá séð að hann hafi verið ranglega fylltur út varðandi fjárhæð og nafn.

Vitnið D kvaðst ekki kannast við ákærða. Er undir það var borinn tékki sá er málið varðar, kvaðst það ekki kannast við að hafa ritað hann. Upplýsti vitnið að það ritaði nafn sitt með sama hætti og það hafi gert við undirritun undir lögregluskýrslu í málinu, en það noti venjulega ekki föðurnafn sitt við undirritun.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök samkvæmt þessum ákærulið. Kannast hann við að hafa innleyst tékka að fjárhæð 235.000 krónur í KB banka, svo sem í ákæru greinir, en synjar fyrir að sér hafi verið kunnugt um að tékkinn væri falsaður við innlausn. Framburður ákærða hefur yfir sér ólíkindablæ. Þannig verður að telja ótrúverðuga þá skýringu ákærða, að honum hafi verið boðin þóknun að fjárhæð 35.000 krónur fyrir það verk eitt, að fara með tékka í banka til innlausnar. Þá eru skýringar hans um tilvist ótilgreinds manns í samkvæmi, sem hafi afhent honum tékka fylltan út að hluta, einnig haldnar ólíkindablæ. Þá þykir framferði hans um að leggja reiðufé inn á reikninginn fyrir innlausn, óvenjuleg ráðstöfun. Vitnið D hefur borið fyrir dómi að það kannist ekki við útgáfu tékkans, sem ætti þá að leiða til þess að tékkinn sé falsaður.

Á hitt er hins vegar að líta, að engin rannsókn virðist hafa farið fram á tékkanum sjálfum. Þannig eru ekki meðal gagna málsins neinar athuganir á rithöndum, s.s. athugun á rithönd ákærða eða samanburður á rithönd kæranda og ritun á tékkann. Ekki er heldur meðal gagna málsins yfirlit um nefndan tékkareikning og færslur á hann. Þá virðist ekki hafa verið leitað eftir að yfirheyra F, svo sem ástæða hefði verið til í ljósi upplýsinga kæranda við kæru. Þessi atriði þykja skipta máli um grundvöll málsins og valda því að ekki þyki fært að sakfella ákærða að þessu leyti, þrátt fyrir torkennilega frásögn hans um sakarefnið. Verður hann því sýknaður af ákæru um brot gegn 1. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1940.

Ákæruliður 3.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir í báðum liðum ákæruliðar 3. Skírskotað er til ákæru um lýsingu málavaxta. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður 4.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir í þessum ákærulið. Skírskotað er til ákæru um lýsingu málavaxta, en brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákæruliður 5.

Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir í öllum liðum ákæruliðar 5, en fyrir dómi hefur ákærði viðurkennt undir 1. lið 5. ákæruliðar, að hafa tekið þýfi úr bifreiðum þeim er í ákærunni greinir. Skírskotað er til ákæru um lýsingu málavaxta. Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákæru.

Ákærði er fæddur 1979. Samkvæmt sakavottorði hafa þær refsingar, sem máli skipta hér, komið til frá í lok árs 2001. Með dómi héraðsdóms 22. nóvember það ár var ákærði dæmdur til 15 mánaða fangelsisvistar, þar af 12 mánuðir skilorðsbundið, fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot. Eftir mitt ár 2003 var ákærði næst dæmdur, en þá var honum ákvarðað 12 mánaða fangelsi skilorðsbundið, fyrir þjófnað. Með dómi héraðsdóms 27. janúar 2003 var ákærði dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar, aftur fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot. Loks var honum með dómi héraðsdóms 28. maí 2003 ákvarðað 2 mánaða fangelsi fyrir þjófnað, en dómurinn var að sumu leyti hegningarauki við dóminn frá 27. janúar. Ákærða var veitt reynslulausn 29. ágúst 2003 í 2 ár á eftirstöðvum refsingar 300 dögum. 

Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 22. janúar 2004 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en ljóst þykir að hann hefur haldið brotastarfsemi sinni áfram í beinu framhaldi af reynslulausninni frá í ágúst 2003. Brot ákærða í þessu máli eru öll keimlík fyrri afbrotum ákærða. Hefur hann þannig leitast við að brjótast inn í fyrirtæki og heimili til að stela þaðan verðmætum. Nemur verðmæti þýfis er ákærði er í þessu máli sakfelldur fyrir ríflega 7.000.000 króna. Í dómi héraðsdóms 27. janúar 2003 nam verðmæti þýfis ríflega 3.500.000 krónum. Vegna ungs aldurs ákærða þykir varhugavert að fullyrða að ákærði sé vanaafbrotamaður skv. 72. gr. laga nr. 19/1940. Á hinn bógin verður ekki hjá þessari tilhneigingu hans litið, en hún markaði gæslu­varð­haldi hans grundvöll. Ákærði hefur með háttsemi sinni nú rofið reynslulausnina frá 29. ágúst 2003, sbr. 42. gr. laga nr. 19/1940. Verður honum því ákvörðuð refsing með hliðsjón af 60. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. sömu laga. Óafplánuð refsing ákærða telst vera 10 mánaða refsivist. Með hliðsjón af þessu, því er áður er lýst um ákærða og í ljósi þeirrar háttsemi er ákærði er nú sakfelldur fyrir, er refsing í þessu máli ákveðin fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsingunni dregst gæsluvarðhaldsvist er ákærði hefur sætt frá 22. janúar 2004 til dómsuppsögudags, eða alls 68 dagar.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 eru gerð upptæk í ríkissjóð 53,2 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði hefur samþykkt skaðabótakröfu er Reykjavíkurhöfn hefur sett fram í málinu vegna ákæruliðar 1, að fjárhæð 50.220 krónur. Verður hún því tekin til greina eins og hún er fram sett.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.

Dagmar Arnardóttur fulltrúi lögreglu­­stjórans í Reykjavík, flutti málið af ákæruvaldsins hálfu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Ágúst Þorkelsson Holthe, sæti fangelsi í 2 ár og 6 mánuði. Frá refsingunni dregst 68 daga gæsluvarðhaldsvist ákærða.

Upptæk eru gerð í ríkissjóð 53,2 g af amfetamíni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Ákærði greiði C, skaðabætur að fjárhæð 50.220 krónur.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur.