- Kærumál
- Kæruheimild
- Gagnaöflun
- Frávísun frá Hæstarétti
|
Fimmtudaginn 4. apríl 2013. |
Nr. 220/2013. |
Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Hörður Felix Harðarson hrl.) Y (Gestur Jónsson hrl.) Z og (Ragnar Halldór Hall hrl.) Þ (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Gagnaöflun. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X, Y, Z og Þ um að ákæruvaldinu yrði gert að afhenda þeim nánar tilgreind gögn. Kærunni var vísað frá Hæstarétti þar sem úrskurðurinn sætti ekki kæru samkvæmt 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 27. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2013 þar sem synjað var kröfu varnaraðila um að þeim yrði afhent yfirlit um öll rafræn gögn, sem aflað hafi verið í máli ákæruvaldsins gegn þeim, öll tölvuskeyti og öll símtöl, þar á meðal yfirlit um gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell leitarforriti og fengu nánar tiltekin heiti og enn fremur yfirlit um gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í áðurnefndu leitarforriti með notkun tiltekinna leitarorða. Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðilar krefjast þess aðallega að þeim verði afhent yfirlit um öll gögn sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu og ekki voru lögð fram með ákæru. Til vara krefjast þeir þess að þeim verði afhent yfirlit um öll gögn sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu og afmörkuð voru í Clearwell leitarforriti og fengu nánar tilgreind heiti og ekki voru lögð fram með ákæru. Að þessu frágengnu krefjast þeir að þeim verði afhent yfirlit um öll gögn, sem aflað var við rannsókn málsins hjá lögreglu og afmörkuð voru með leit í áðurnefndu leitarforriti með notkun tiltekinna leitarorða og ekki voru lögð fram með ákæru.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Samkvæmt c. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 sætir kæru til Hæstaréttar úrskurður héraðsdóms um synjun um að láta af hendi afrit af gögnum. Þetta tekur til gagna sem þegar eru fyrir hendi. Kröfur varnaraðila lúta á hinn bóginn að því að lögregla eða ákæruvald láti vinna tiltekin gögn en með hinum kærða úrskurði var þessum kröfum hafnað. Úrskurður þess efnis sætir ekki kæru eftir fyrrgreindri heimild eða öðrum stafliðum 1. mgr. 192. gr. laganna, sbr. einnig dómur Hæstaréttar 21. nóvember 2012 í máli nr. 692/2012. Kæruheimild er því ekki fyrir hendi og verður málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2013.
Með ákæru, dagsettri 16. febrúar 2012, höfðaði sérstakur saksóknari, samkvæmt lögum nr. 135, 2008, sakamál á hendur ákærðu fyrir umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og fyrir brot gegn 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108, 2007. Var mál þetta þingfest 7. mars í fyrra en aðalmeðferð hefur verið ákveðin 11. apríl nk.
Verjendur ákærðu hafa krafist þess af ákæruvaldinu að þeim verði afhent eftirtalin gögn:
1. Aðallega yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið af lögreglu og ekki hafa verið lögð fram í málinu.
2. Til vara er þess krafist að afhent verði yfirlit yfir öll þau gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í „Clearwell“-leitarforriti og fengu heitin „[...]“, „[...]“ og „[...]“ og ekki voru lögð fram með ákærunni.
3. Til þrautavara er þess krafist að ákærðu verði afhent yfirlit yfir öll gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell-leitarforriti og fengu heitin „[...]“, „[...]“ og „[...]“ með notkun leitarorðanna „[...]“, „[...]“, „A“, „[...]“, „A AND Z“, „B AND Z“, „S AND Z“,, „G AND Z“, „B AND A“, „S AND A“, „G AND A“, „S“, „Q“, „Q“, „Q AND M“ og ekki voru lögð fram með ákæru.
Krafa þessi hefur verið verið skýrð nánar þannig að átt sé við lista um öll rafræn gögn sem aflað hafi verið í málinu, öll tölvuskeyti og öll símtöl.
Verjendur styðja kröfuna þeim rökum að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88, 2008 skuli verjandi fá afrit af öllum skjölum máls sem skjólstæðing hann varða og jafnframt aðstöðu til þess að kynna sér önnur gögn í málinu. Sé þessi réttur tryggður í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hafi mannréttindadómstóll Evrópu talið að sakaðir menn eigi rétt til þess að fá aðgang að öllum gögnum sem til þess bær yfirvöld hafa aflað, hvort sem gögnin séu þeim í hag eða óhag. Þá felist í reglunni að gera beri sakborningi grein fyrir þessum gögnum í heild sinni. Verði að skýra ákvæði sakamálalaganna með hliðsjón af þessum grundvallarreglum. Loks sé samkomulag dómstólaráðs, ríkissaksóknara, sérstaks saksóknara og lögmannafélags Íslands um meðferð stórra efnahagsbrota frá 2012 í samræmi við þetta lagaákvæði.
Af hálfu ákæruvaldsins er þessari kröfu mótmælt og það jafnframt upplýst að slíkir listar séu ekki til. Umrætt Clearwell forrit leiti aftur og aftur í gögnunum sem það fái til leitar. Við hverja leit komi fram tiltekið „þýði“. Út úr þessum þýðum séu svo tekin þau gögn sem lögð eru fram í málinu. Hins vegar sé ekki gerður sérstakur listi um innihald hvers þýðis. Þessa lista sé hægt að útbúa en þeir séu ekki til. Til þess að gera þá þurfi að vinna rannsóknina upp á nýtt. Í reynd væri um nýja lögreglurannsókn að ræða að þessu leyti.
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um meðferð sakamála skal verjandi, jafnskjótt og unnt er, fá afrit af öllum skjölum máls sem varða skjólstæðing hans, svo og aðstöðu til að kynna sér önnur gögn í málinu. Skilja verður ákvæðið svo að það taki einungis til gagna sem til hafa orðið og enn eru fyrir hendi og að ekki felst í því að lögreglu eða ákæruvaldi sé almennt skylt að útbúa gögn að kröfu verjenda. Ber að synja kröfu ákærðu um það að afhentir verði þeir listar sem krafist er.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu ákærðu um það að þeim verði afhent yfirlit um öll rafræn gögn sem aflað hafi verið í málinu, öll tölvuskeyti og öll símtöl, þar á meðal yfirlit um gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell-leitarforriti og fengu heitin „[...]“, „[...]“ og „[...]“ og ennfremur yfirlit um gögn sem aflað hefur verið við rannsóknina og afmörkuð voru í Clearwell-leitarforriti með notkun leitarorðanna „[...]“, „[...]“, „A“, „[...]“, „A AND Z“, „B AND Z“, „S AND Z“,, „G AND Z“, „B AND A“, „S AND A“, „G AND A“, „S“, „Q“, „Q“, „Q AND M“ og ekki voru lögð fram með ákæru.