Print

Mál nr. 657/2015

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Margrét Harpa Garðarsdóttir fulltrúi)
gegn
A (enginn)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Afhending gagna
Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu L um að A yrði gert skylt að veita allar upplýsingar um tiltekinn vefhlekk, notanda hans og fleira, var hafnað. Var vísað til þess að krafa L hefði hvorki beinst að tilteknum mun né skjali né heldur upplýsingum sem tiltekinn munur eða skjal hefði að geyma. Krafan ætti því ekki lagastoð í ákvæðum 68. og 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila væri skylt af afhenda sóknaraðila nánar tilgreindar upplýsingar um ákveðinn vefhlekk, notanda hans og skráningaraðila, tiltekið notandanafn, þar með talið IP-tölu að baki skráningu auglýsingar og netfang notanda og öll samskipti við aðila vegna auglýsingarinnar. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að hin umbeðna rannsóknaraðgerð verði heimiluð.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 28. september 2015.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur gert þá kröfu að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að A, kt. [...], sé skylt að veita Lögreglustjóranum á Suðurlandi allar upplýsingar um vefhlekkinn [...], notanda hans og skráningaraðila, notandanafnið [...], þar með talið IP tölu að baki skráningu auglýsingarinnar og netfang notanda og öll samskipti við aðila vegna umræddrar auglýsingar.

Með úrskurði dómsins 17. september 2015 var kröfu framangreindri kröfu lögreglustjóra vísað frá dómi, en með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 631/2015 var úrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

                Í kröfu lögreglustjóra segir að þann [...]. ágúst s.l. hafi brotaþoli [...], kt. [...] leitað til lögreglu vegna innbrots í sumarhús hans og eiginkonu hans við [...] í [...]. Samkvæmt upplýsingum þeirra hafi innbrotið átt sér stað á tímabilinu 10.-16. ágúst. Ýmsum munum hafi verið stolið við innbrotið, raftækjum, áfengi, tengiköplum og fl., svo sem sjá megi í munaskrá.

                Á meðal umræddra muna sé [...] hátalari, en verðmæti hans sé á annað hundrað þúsund króna. Umræddur hátalari sé ekki seldur hérlendis, en brotaþoli hafi keypt hann í [...] sl. haust.  Brotaþoli hafi nú nýverið rekist á auglýsingu á [...] þar sem hátalari af sömu gerð sé auglýstur til sölu, með textanum [...].  Umrædd auglýsing hafi verið sett inn á vefinn þann [...]. ágúst s.l.

                Lögregla jafnt sem brotaþoli telji texta við auglýsinguna bera þess glöggt merki að sá sem auglýsir hlutinn til sölu þekki ekki til hans þar sem umræddir hátalarar hafi aldrei verið framleiddir með [...] tengingu heldur eingöngu [...] tengingu. Sé mjög grunsamlegt að mati lögreglu að aðili sem bjóði svo verðmætan og sérstakan hlut til sölu, sem ekki er hægt að kaupa hérlendis, viti ekki hvernig hann sé tengdur/notaður.  

                Rannsókn máls þessa sé í fullum gangi en til að unnt verði að upplýsa málið frekar sé þörf á að lögregla fái aðgang að umbeðnum upplýsingum frá [...], m.a. til að hafa upp á hátalaranum og ganga úr skugga um hvort hann sé hátalari sá sem stolið var í umræddu innbroti og hugsanlega upplýsa þannig málið. Þá sé einnig nauðsynlegt að hafa upp á öðrum munum í málinu.

                Með vísan til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 88/2008 sé þess krafist að krafa þessi sæti meðferð fyrir dómi án þess að úrskurðarþoli verði kvaddur á dómþing.

                Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Telur lögreglustjóri miklu skipta fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fengin sé heimild til rannsóknaraðgerðar í samræmi við kröfu þessa svo unnt sé að kanna nánar umræddan mun og etv. í framhaldinu leggja hald á hann og upplýsa um hugsanlega sölu þýfis úr umræddu innbroti.

                Með vísan til þessa, framlagðra gagna og 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála gerir lögreglustjórinn á Suðurlandi þá kröfu að lögreglu verði veittar umbeðnar upplýsingar. 

                Rannsóknargögn fylgja beiðni lögreglustjóra.

                Forsendur og niðurstaða

                Í 68. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um það að leggja skuli hald á muni, þ. á m. skjöl, þegar nánar tiltekin skilyrði eru til þess. Þá segir í 2. mgr. 68. gr. að sé þess kostur að tryggja sönnun án þess að leggja þurfi hald á mun, þá skuli beina því til eiganda eða vörsluhafa munarins að veita aðgang að honum eða láta í té upplýsingar sem hann hefur að geyma.

                Í 2. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 segir að séu munir í eigu eða vörslum annars manns en sakbornings og ekki er hætta á að þeir fari forgörðum eða verði skotið undan, þá skuli haldlagning ákveðin með úrskurði dómara nema ótvírætt samþykki eiganda eða vörsluhafa liggi fyrir.

                Við fyrirtöku kröfunnar fyrr í dag vísaði fulltrúi lögreglustjóra til greinargerðar sinnar til Hæstaréttar Íslands vegna kæru hins fyrri úrskurðar, þar sem vísað var til þess að lögreglustjóri geti farið fram á haldlagningu upplýsinga úr tilteknu tölvukerfi.

                Krafa lögreglustjóra beinist hvorki að neinum tilteknum mun eða skjali né heldur upplýsingum sem tiltekinn munur eða skjal hafi að geyma. Ekki er í kröfu lögreglustjóra vísað til tölvukerfis [...] eða upplýsinga sem við tölvukerfið séu bundnar. Verður að mati dómsins ekki séð að krafa lögreglustjóra eigi sér lagastoð í þeim ákvæðum sem hann vísar til, en eins og rakið hefur verið fjalla ákvæði 68. og 69. gr. laga nr. 88/2008 um haldlagningu á munum og skjölum og upplýsingar um tiltekna muni eða skjöl.

                Er af þessum sökum óhjákvæmilegt að hafna kröfunni.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu Lögreglustjórans á Suðurlandi er hafnað.