- Kærumál
- Handtaka
- Frávísun frá Hæstarétti
Þriðjudaginn 18. maí 2010. |
|
Nr. 306/2010. |
Sérstakur saksóknari (Björn Þorvaldsson saksóknari) gegn X (Gestur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Handtaka. Frávísun frá Hæstarétti.
X kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem fallist var á kröfu S um að gefin yrði út handtökuskipun á hendur honum. Talið var að þegar tekin var afstaða til erindisins hefðu ekki verið efni til að kveða upp úrskurð. Þó að það hefði verið gert breytti það engu um að ekki væri að finna í lögum heimild til að kæra ákvörðunina til Hæstaréttar. Var málinu vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að gefin yrði út handtökuskipun á hendur varnaraðila. Um kæruheimild vísar varnaraðili til d. og f. liða 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst aðallega frávísunar málsins frá Hæstarétti en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hefur varnaraðili ekki sinnt kvaðningu sóknaraðila um að mæta til skýrslutöku vegna brota sem hann er grunaður um aðild að og talin eru upp í úrskurðinum. Ekki þarf atbeina dómara til að handtaka megi mann þegar svona stendur á, sbr. c. lið 3. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008, þó að heimilt sé að afla handtökuskipunar dómara samkvæmt 92. gr. laganna. Sóknaraðili óskaði eftir handtökuskipun með erindi sem barst héraðsdómi 10. maí 2010. Þegar tekin var afstaða til erindisins voru ekki efni til að kveða upp úrskurð, svo sem héraðsdómur gerði. Þó að það hafi verið gert breytir það engu um að ekki er að finna í lögum heimild til að kæra þessa ákvörðun til Hæstaréttar.
Samkvæmt framansögðu verður máli þessu vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. maí 2010
Sérstakur saksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur gefi út handtökuskipun á hendur X, kt. [...].
Í greinargerð sérstaks saksóknara kemur fram að embætti sérstaks saksóknara sem starfi skv. lögum nr. 135/2008 hafi til rannsóknar eftirfarandi mál er varði ætluð refsiverð brot í tengslum við starfsemi A og B.
I. Grunur um markaðsmisnotkun með hlutabréf í A.
Þann 1. október 2009 hafi embætti sérstaks saksóknara skv. lögum nr. 135/2008 borist kæra frá Fjármálaeftirlitinu (hér eftir FME) sem varði grun um refsiverða háttsemi fyrrverandi stjórnenda og starfsmanna A en um sé að ræða meinta markaðsmisnotkun með hlutabréf í A á tímabilinu júní 2005 til október 2008. Jafnframt megi geta þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis tilkynni rannsóknarnefndin meinta markaðsmisnotkun A til ríkissaksóknara.
Málsatvik séu þau að frá árinu 2000 hafi A verið með hlutabréf útgefin af bankanum skráð á skipulegan verðbréfamarkað á Íslandi og síðar í Svíþjóð. Á árunum 2005 til 2008 hafi bankinn keypt umtalsvert af hlutabréfum útgefnum af bankanum eða um 217 milljónir hluta nettó á tímabilinu, sem sé um 29% af útgefnu hlutafé bankans miðað við útgefið hlutafé bankans þann 30. júní 2008. Um hafi verið að ræða kaup bankans bæði í kauphöllinni á Íslandi og í Svíþjóð. Umfang þessara viðskipta bankans hafi verið stór hluti af veltu hlutabréfanna í kauphöllunum á mörgum mánaðanna á tímabilinu sem um ræði. Sem dæmi megi nefna að frá júní til október 2008 námu nettó kaup bankans, sem hlutfall af heildarkaupum í íslensku kauphöllinni, á bilinu 60-75% í sérhverjum mánuði.
Sérstakur saksóknari telji rökstuddan grun fyrir því að yfirstjórnendur, ákveðnir starfsmenn eigin viðskipta og miðlunar bankans hafi stundað þessi viðskipti fyrir hönd bankans með kerfisbundnum og skipulegum hætti yfir langt tímabil, í þeim tilgangi að hafa áhrif eða reyna að hafa áhrif á verð hlutabréfanna á mörkuðum. Talið sé að hin umfangsmiklu kaup á hlutabréfum útgefnum af bankanum hafi leitt til þess að röng mynd hafi verið gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna. Háttsemin hafi einnig haft slæm áhrif á heildarvirkni verðbréfamarkaðarins á Íslandi, þar sem telja megi að markaðurinn hafi gefið ranga mynd af eftirspurn, gengi og veltu hlutabréfa í A á áðurnefndu tímabili. Rétt sé að hafa í huga að A hafi verið verðmætasta félagið á Íslandi á þessu tímabili og langstærsti einstaki hluti af úrvalsvísitölu kauphallarinnar.
Samkvæmt lögum megi hlutafélög og fjármálafyrirtæki ekki eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins, skv. 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 29. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Í ljósi hinna umfangsmiklu kaupa á eigin bréfum, hafi eigin bréf safnast upp hjá A umfram lögbundin 10 % á tímabili, en samkvæmt gögnum málsins hafi eigin bréf bankans í byrjun janúar árið 2008 verið um 42% af heildareignarsafni eigin viðskipta í verðbréfum. Þann 8. október 2008, daginn áður en FME tók yfir rekstur bankans, hafi eigin bréf bankans verið komin upp í 92% af heildarverðbréfasafni eigin viðskipta.
Uppsöfnuð eigin bréf hafi því næst verið seld af eigin viðskiptum bankans í gegnum verðbréfamiðlun bankans, oft á tíðum í stórum utanþingsviðskiptum til viðskiptavina bankans og hafi hlutafjárkaupin í mörgum tilvikum verið fjármögnuð af bankanum sjálfum með lánveitingum. Brot vegna sölu bankans á eigin bréfum til ákveðinna viðskiptavina og umræddra lánveitinga séu þegar til rannsóknar hjá embættinu, en talið sé að sú háttsemi geti varðað við ákvæði auðgunarbrotakafla hegningarlaga nr. 19/1940, helst 249. gr. laganna. Samhliða rannsókn á framangreindri markaðsmisnotkun sé áfram unnið að rannsókn þeirra mála. Nánar verði fjallað um einstök rannsóknartilvik í köflum II. til V. hér að neðan.
Framangreind háttsemi hafi leitt til veruleg fjártjóns fyrir bankann, bæði vegna taps bankans á stöðu eigin viðskipta í hlutabréfum A og vegna tapaðra útlána sem veitt hafi verið kaupendum umræddra hlutabréfa en lánin hafi yfirleitt einungis verið tryggð með veði í bréfunum. Sem dæmi hafi nettó kaup eigin viðskipta á hlutum í bankanum á markaði numið um 96 milljörðum króna frá nóvember 2007 til október 2008. Einnig megi nefna að gengistap eigin viðskipta bankans á sama tímabili af viðskiptum með hlutabréf útgefnum af bankanum hafi numið rúmlega 50% af samtals um 19 milljarða tapi eigin viðskipta. Við það bætist tjón bankans vegna tapaðra útlána til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum sem nemi tugum milljarða króna.
Sérstakur saksóknari telji liggja fyrir rökstuddan grun um að tilgangur með framangreindum viðskiptum yfirstjórnenda, starfsmanna eigin viðskipta og verðbréfamiðlunar hafi verið sá að gefa framboð, eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega eða misvísandi til kynna og tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á hlutabréfum A á hinum skipulega verðbréfamarkaði. Í slíkri háttsemi felist markaðsmisnotkun sem sé refsiverð skv. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007. Fangelsisrefsing liggi við brotum þessum. Meint brot varði gríðarlega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni fjölda þeirra sem hafi fjárfest í bankanum á umræddu tímabili þegar hin meinta markaðsmisnotkun hafi farið fram. Hafi þar verið um að ræða fjárfesta um heim allan sem keyptu hlutabréf í A á verði undir meintum áhrifum verðmyndunar sem eigi rætur að rekja til hinnar meintu markaðsmisnotkunar. Einnig sé vert að horfa til hagsmuna þeirra sem lánuðu bankanum fjármuni til starfseminnar þar sem horft hafi verið til hlutabréfaverðs til marks um afkomu bankans við ákvarðanir um að lána bankanum fé. Af því megi draga þá ályktun að um verulega einka- og almannahagsmuni sé að ræða sem telja verði meiri háttar.
Samkvæmt gögnum málsins hafi kærði, sem stjórnarformaður, komið beint að kaupum eigin viðskipta bankans frá árinu 2007 með því að ákvarða viðskiptaheimildir sviðsins mánaðarlega, m.a. hafi hann ítrekað veitt aukna heimild frá miðju árinu 2007 til að auka kaup á hlutabréfum í bankanum. Kærði hafi haft aðgang, ásamt öðrum lykilstarfsmönnum, að dagsskýrslum eigin viðskipta á innri vef bankans. Sömuleiðis sýni tölvupóstar að kærði hafi fylgst náið með viðskiptum eigin viðskipta, þar með talið kaupum á eigin bréfum bankans, á tímabili þegar mikill söluþrýstingur hafi verið á markaði með bréfin. Áréttað sé að fyrir liggi rökstuddur grunur um að kærði hafi tekið ákvarðanir sem lutu að því að selja þessi keyptu eigin bréf aftur til útvalinna viðskiptavina með lánafyrirgreiðslu frá bankanum, sem hafi einungis verið tryggðar með veði í bréfunum, nánar sé fjallað um þá meintu refsiverðu háttsemi í næstu köflum.
II. Kaup C, D og E á hlutabréfum í A.
Á tímabilinu 2. júní til 13. ágúst 2009 hafi borist þrjú erindi til embætti sérstaks saksóknara frá FME, þar sem vísað sé þremur sambærilegum málum til embættis sérstaks saksóknara sem öll varði rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa A. Embætti sérstaks saksóknari hafi þegar hafið rannsókn á sakarefnunum.
Þessar þrjár kærur séu eftirfarandi:
1. Dagsett 2. júní 2009 um rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa A til C (hér eftir C);
2. Dagsett 11. júní 2009 um rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa A til D;
3. Dagsett 13. ágúst 2009 um rannsókn á sölu og fjármögnun hlutabréfa A til E (hér eftir E).
Grunur liggi fyrir um annars vegar umboðssvik við lánveitingar A en hins vegar markaðsmisnotkun A þar sem umrædd viðskipti kunni að vera hluti af umfangsmikilli og skipulagðri markaðsmisnotkun yfir lengra tímabil.
1. C.
Við rannsókn málsins hjá embætti sérstaks saksóknara hafi komið fram að á fundi lánanefndar A þann 24. september 2008 hafi verið samþykkt lán til félags í eigu O, C, að upphæð 18,4 milljónir EUR (um 2,6 milljarðar kr. á þáverandi gengi) sem nota átti að fullu til að fjármagna kaup á 3,7 milljón hlutum í A. C sé félag skráð á Tortola á Bresku Jómfrúreyjunum. Hins vegar sé ljóst af gögnum málsins að lánið til C hafi verið veitt 18. september 2008, þ.e. áður en lánið hafi verið samþykkt á fundi lánanefndar A. S lögfræðingur B hafi ritað undir lánasamninginn f.h. C.
Áður en umrætt lán hafi verið samþykkt skuldaði C bankanum samtals 138,6 milljónir EUR (19,4 milljarðar kr. á þáverandi gengi) og eignir í félaginu samanstóðu af 22 milljón hlutum í A og 94 milljón hlutum í M sem þá voru samtals að markaðsverðmæti 16,938 milljarðar kr.
Félagið hafi verið á lista um stórar áhættuskuldbindingar sem kynnt hafi verið stjórn A þann 25. september 2008. Veðþekja (e. security margin) C samkvæmt þessum lista hafi verið sögð 96%, sem þýði að hlutfall láns á móti eignum var 103%. Ekki hafi verið um aðrar tryggingar eða ábyrgðir að ræða en veð í hlutabréfaeign félagsins og söluhömlur á hlutafé C. Með þessari lánveitingu var verið að veita viðbótarlán með veðþekju 100% sem sé m.a. brot á innri lánareglum A.
Þann 22. september 2008, tveimur dögum áður en lánið til C hafi verið samþykkt á lánanefndarfundi A, voru 3,7 milljón hlutar C í A seldir aftur. Sölugengi bréfanna hafi verið 714 en kaupgengi hafði verið 690 því hafi söluhagnaður C orðið um 68 milljónir kr. Þann 27. september sé umrætt lán C hjá bankanum greitt upp.
2. D.
Við rannsókn málsins hafi komið fram að 19. ágúst 2008 greiddi A út peningamarkaðsútlán til D að upphæð 12.445.518.000 kr. (um 102 milljón EUR) sem notað hafi verið til að fjármagna hlutabréfakaup í A. Ekki hafi verið um aðrar tryggingar eða ábyrgðir að ræða en veð í hinum keyptu hlutum. Af fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum starfsmanna A og B sé ljóst að B hafi keypt 17.300.000 hluti í A á tímabilinu 7. ágúst til 11. ágúst 2008 með gildisdegi (e. value date) 18. ágúst 2008. Grunur leiki á að hluti bréfanna hafi verið bréf þau sem seld voru D og fjármögnuð verið með framangreindri lánveitingu.
Peningamarkaðslánið til D sé veitt samkvæmt fyrirmælum starfsmanns A í tölvupósti. Í tölvupóstinum komi fram fyrirmæli um að greiða lánið inn á reikning B með skýringartextanum „[...]“ (sem séu síðustu tölustafirnir í reikningsnúmeri D hjá B). B sé svo beðinn um að millifæra lánið inn á bankareikning D í Lúxemborg. Samkomulag um peningamarkaðsútlánið sé ekki til undirritað hjá A á Íslandi en lánið hafi verið framlengt nokkrum sinnum. Aldrei hafi verið útbúinn formlegur lánasamningur. Ekki sé að sjá að lánveitingin hafi verið tekin fyrir á fundum lánanefndar stjórnar A né á fundum lánanefndar samstæðu A.
Í yfirliti frá B, dagsett 31. ágúst 2008 komi fram staða eigna og skulda D við útibúið í [...] á þeim degi. Yfirlitið innihaldi ekki lánið sem hér sé til umfjöllunar. Út frá þessu yfirliti var lánsþekja á þeim tíma þegar lánveitingin fór fram um 110% sem þýði að hlutfall láns á móti eigum sé 91%.
Eftir að umrætt peningamarkaðsútlán hafi verið veitt var heildaráhættuskuldbinding D gagnvart samstæðu A orðin um 477 milljón EUR og veðþekjan og heildarstaðan komin niður í 108%. Útlánareglur A kveði m.a. á um að veðþekja skuli a.m.k vera 149% við lánveitingu og að ef útlánastaða fari yfir 165 milljónir EUR þurfi lánanefnd stjórnar bankans að taka málið fyrir. Lánareglur A virðist því hafa verið brotnar við lánveitinguna til D.
Lánin séu öll ógreidd og í vanskilum.
3. E.
Við rannsókn málsins hafi komið fram að fimm lán hafi verið samþykkt á fundum lánanefndar A samstæðunnar, þann 5. júní, 19. júní, 7. ágúst og 25. september 2008, til E til að fjármagna hlutabréfakaup í A. Eftirfarandi séu lán til handa E:
1. Lán veitt þann 11. júní 2008 að fjárhæð 150.534.840 sænskra króna (SEK) til að fjármagna kaup á 2.349.500 hlutum í A sem skráð voru á markað í Svíþjóð;
2. Lán veitt 11. júní 2008 að fjárhæð 4.994.883.619 kr. til að fjármagna kaup á 6.500.000 hlutum í A;
3. Lán veitt þann 20. júní 2008 að fjárhæð 767.680.000 kr. til að fjármagna kaup á 1.000.000 hlutum í A;
4. Lán veitt þann 8. ágúst 2008 að fjárhæð 1.442.552.700 kr. til að fjármagna kaup á 2.000.000 hlutum í A og
5. Lán veitt þann 26. september 2008 að fjárhæð 4.130.000.000 kr. til að fjármagna kaup á 6.000.000 hlutum í A.
Lánin hafi öll verið á sama gjalddaga, 13. desember 2008.
Hluti af hlutabréfaviðskiptum E í A virðist, samkvæmt þeim gögnum sem embætti sérstaks saksóknara hafi undir höndum, hafa farið fram hjá A. Af gögnum málsins megi ráða að A hafi keypt bréf í gegnum eigin viðskipti bankans en síðan selt þau áfram til B, sem seldi bréfin áfram til E.
E virðist ekki hafa verið með aðrar skuldbindingar hjá A áður en fyrrnefnd lán voru veitt. Hlutabréfin í A sem fjármögnuð voru með lánum hafi verið sett til tryggingar en ekki verið um að ræða frekari tryggingar eða ábyrgðir. Ljóst sé að eftir fyrstu tvær lánveitingarnar var veðþekja orðin 85-95% þegar viðbótarlánveitingar eru veittar. Samkvæmt fyrstu þremur lánasamningunum skyldi veðþekja vera 90% og færi veðþekjan niður fyrir þau mörk skyldi lántakandinn leggja fram frekari tryggingar innan þriggja daga. Á þeim tíma sem lánin hafi verið veitt var veðþekjan yfir 90%. Í fjórða lánasamningnum sé kveðið á um að veðþekja skuli vera 85% og séu gerðir viðaukar við fyrri lánasamningana til samræmis við það, þ.e. veðþekja sé lækkuð í 85%. Þegar fjórða lánið sé veitt þann 8. ágúst sé veðþekja vegna fyrstu tveggja lánanna komin niður fyrir 90%. Þegar síðasta lánið sé veitt þann 26. september sé veðþekja vegna fyrstu þriggja lánanna komin niður fyrir 85%. Lánin séu öll ógreidd og í vanskilum.
Þegar umrædd lán hafi verið veitt hafi kærði verið stjórnarformaður A.
Um C, D og E
Sérstakur saksóknari telji ljóst að fjölmargar innri reglur bankans hafi verið brotnar við lánveitingarnar. Sérstakur saksóknari hafi rökstuddan grun um að framangreindum stjórnendum bankans hafi verið ljóst að umræddar lánveitingar væru í andstöðu við hagsmuni A þar sem sum lánin hafi verið veitt án formlegra lánasamninga og með ófullnægjandi tryggingum, til eignalausra félaga eða einstaklinga sem skráð voru erlendis. Þá hafi stjórnendum bankans verið ljóst að um mjög mikla tjónsáhættu væri að ræða í viðskiptunum og áhættan af þeim hafi öll verið lögð á bankann.
III. Lán A til félaganna F, G, H og I, samtals að fjárhæð 260.000.000 EUR vegna kaupa félaganna Í, og J á skuldabréfum tengdum skuldatryggingarálagi A (hér eftir nefnt CLN, e credit linked notes) og lánveitingar A, samtals að fjárhæð 250.000.000 EUR til síðastnefndu tveggja félaganna til að mæta veðköllum frá K vegna kaupanna.
Þrjár kærur hafi borist sérstökum saksóknara frá FME, þar sem vísað sé til embættis sérstaks saksóknara þremur sambærilegum málum sem öll varði lánveitingar til viðskiptamanna vegna fjárfestinga í afleiðusamningum (skuldabréfum) tengdum skuldatryggingarálagi A. Embætti sérstaks saksóknara hafi þegar hafi rannsókn á sakarefnunum.
1. Kæra FME dagsett 15. júlí 2009, sem varði rannsókn á lánveitingum A til félaganna F (hér eftir F), G og H (hér eftir H) vegna viðskipta félagsins Í (hér eftir Í) með CLN. F hafi verið í eigu L, F í eigu D og N og G í eigu O en allir hafi þessir eigendur verið stórir viðskiptavinir B. Rétt sé að geta þess að Í var síðan í eigu hinna félaganna þriggja.
2. Kæra, dagsett 15. júlí 2009, sem varði rannsókn á lánveitingum A til I í tengslum við viðskipti J með CLN en bæði þessi félög séu í eigu Ó, eins af stærstu hluthöfum A.
3. Kæra FME dagsett 13. apríl 2009, sem tengist fyrrnefndri rannsókn á kaupum P á hlutabréfum í A með þeim hætti að í fyrstu virðist hafa verið rætt um að Q tæki þátt í sams konar CLN viðskiptum og Í og J. Ekkert hafi þó orðið af þeim viðskiptum annað en fyrrnefnd lánveiting til félagsins R í eigu Q að fjárhæð 50.000.000 USD.
Við rannsókn málsins hafi komið fram að sumarið 2008 hafi stjórnendur A og B átt í viðræðum við K um að stórir viðskiptavinir A keyptu CLN af K og tækju þannig stöðu í skuldatryggingum (CDS) vegna skuldabréfa útgefnum af A.
Þeir sem kaupi slíkar CLN afleiður taki í raun á sig sömu áhættu og útgefendur CDS, þ.e. að ef þær skuldbindingar sem CLN vísi til (í þessu tilviki skuldabréf útgefin af A) lendi í vanskilum falli krafa eigenda CLN niður en þeir eigi rétt á uppgjöri sem miðist við hrakverð skuldbindinganna. Mjög háir vextir séu á slíkum CLN skuldabréfum en áhættan jafnframt mjög mikil. Rétt sé að geta þess að unnt sé að gefa út skuldatryggingar (CDS) til aðila sem engin skuldabréf eigi og því sé mikil spákaupmennska stunduð með skuldatryggingar og afleiður (CLN) tengdar þeim.
K virðist samkvæmt gögnum málsins hafa sett það að skilyrði fyrir viðskiptunum að mótaðili yrði ekki A sjálfur heldur myndi A finna viðskiptavini sem væru tilbúnir að eiga slík viðskipti með CLN.
Málsatvik varðandi þau viðskipti sem um ræði séu nokkuð sambærileg í tilvikum Í og J. Í báðum tilvikum hafi verið stofnuð sérstök eignarhaldsfélög (e. Special Purpose Vehicles, SPV) með sama heimilsfangi, [...], á Bresku Jómfrúareyjunum (F, G, H og I). A hafi veitt lán í formi peningamarkaðsútlána til þessara félaga. Eigendur (e. beneficial owners) þessara félaga hafi allir verið meðal stærstu viðskiptavina A-samstæðunnar. Lánsfjárhæðirnar hafi síðan verið millifærðar sem eiginfjárframlög áfram til nýstofnaðra SPV félaga (Í og J) sem einnig hafi verið skráð með sama heimilisfang á Bresku Jómfrúareyjum. Ekki hafði verið gengið frá formlegum lánasamningum vegna lánveitinganna þegar að A hafi farið í þrot í október 2008.
Félögin Í og J hafi síðan keypt CLN af K fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en sem nam lánsfénu frá A og hafi K séð um þann hluta fjármögnunarinnar (e. two times leveraged CLN). CLN skuldabréfin hafi verið til fimm ára með einum gjalddaga 20. september 2013. Í samningsskilmálum félaganna við K hafi verið svokallaðir „triggerar“ eða skilmálar sem fólust m.a. í því að ef skuldatryggingarálag A hækkaði yfir tiltekin mörk átti K rétt á að kalla eftir greiðslu á sínum hluta af fjármögnuninni eða leysa ella til sín CLN.
B virðist í upphafi hafa lánað vegna Í samningsins 6. ágúst 2008 en þann dag hafi K verið sent framlag Í til viðskiptanna. A hafi tekið við fjármögnuninni með veitingu peningamarkaðslána samtals að fjárhæð 130.000.000 EUR til F, G og H 29. ágúst 2008. Formlegur CLN samningur virðist hafa tekið gildi 26. ágúst 2008. Lánveitingar til tveggja félaganna hafi ekki verið afgreiddar af lánanefnd stjórnar A fyrr en 24. september 2008 og þriðja lánveitingin verið samþykkt af lánanefnd samstæðu bankans 11. september 2008.
A hafi lánað 130.000.000 EUR til I með peningamarkaðsláni dags. 11. september 2008 til að fjármagna kaup J á CLN frá K. Fjármunirnir hafi farið rakleiðis í gegnum B til K. Formlegur CLN samningur hafi hins vegar ekki tekið gildi fyrr en 7. október 2008.
Vegna ákvæða í samningsákvæðum vegna CLN viðskiptanna hafi yfirtaka FME á stjórn A 9. október 2008 haft það í för með sér að eigendur CLN skuldabréfanna áttu ekki lengur kröfu á endurgreiðslu kaupverðsins.
Eftir að þessi viðskipti hafi átt sér stað en fyrir yfirtöku FME hafi skuldatryggingarálag á skuldabréfum A hækkað. Í framhaldi af því hafi K gert veðköll til Í og J í þremur þrepum. A hafi mætt þessum veðköllum K með auknum lánveitingum til Í og J, fyrst 50.000.000 USD til hvors félags 22. september 2008, næst 50.000.000 USD til hvors félags 29. september 2008 og síðast 25.000.000 USD til hvors félags 7. október 2008. Viðskiptin hafi þá verið fjármögnuð að öllu leyti af A. Með þessu hafi A lánað háar fjárhæðir vegna veðkalla vegna hækkunar á skuldatryggingarálagi bankans áður en upprunalegar lánveitingar bankans til félaganna hafi verið samþykktar af hálfu lánanefndar. Í raun hafi því A verið búinn að fjármagna J samninginn að fullu áður en CLN var gefið út og samningurinn því allur á áhættu bankans.
Þar sem félögin sem A lánaði til hafi verið eignalaus og engin trygging eða persónuleg ábyrgð áskilin fyrir endurgreiðslu lánanna hafi A í raun verið að veðja á eigin greiðsluhæfi.
Sérstakur saksóknari telji að umræddar lánveitingar hafi falið í sér mjög mikla fjártjónshættu fyrir A. Gríðarlega háar fjárhæðir hafi verið lánaðar eignalausum félögum til afar áhættusamra viðskipta og hagsmunum hluthafa og kröfuhafa með því stefnt í stórfellda hættu. Síðustu lánveitingarnar hafi átt sér stað eftir gildistöku neyðarlaganna og veitingu Seðlabanka Íslands á 500.000.000 EUR neyðarláni til A.
Þar sem K hafi upplýst að ekkert fáist endurgreitt til Í og J vegna CLN viðskiptanna sé ljóst að tjón A sé a.m.k. 510.000.000 EUR auk vaxta og kostnaðar.
Rannsókn embættis sérstaks saksóknara beinist meðal annars að því hverjir hafi tekið ákvörðun um framangreind CLN-viðskipti og lánveitingar vegna þeirra, hvernig hafi verið staðið að lánveitingum vegna þeirra, hvernig stóð á því að veðköllum var mætt af hálfu A vegna viðskiptanna og loks hvernig staðið hafi verið að ákvörðunum af hálfu framangreindra félaga sem virðist hafa verið óvirkir milliliðir í viðskiptunum milli A og K.
Undir rannsókn málsins hafi komið fram upplýsingar um að æðstu stjórnendur A, kærði sem stjórnarformaður og Z forstjóri, og Þ forstjóri B hafi tekið ákvarðanir um umræddar lánveitingar og viðskipti.
Rannsóknin beinist að því hvort umrædd háttsemi feli í sér umboðssvik, önnur auðgunarbrot og mögulega aðra refsiverða háttsemi.
IV. Lán og aðrar fjármagnsfærslur A til félaganna U og Ú, kaup þessara félaga á skuldabréfum útgefnum af A á árinu 2008 og skjalagerð vegna þessara viðskipta.
Embætti sérstaks saksóknara hafi borist upplýsingar og gögn frá skilanefnd A sem lúti að grun um refsiverða háttsemi í tengslum við lánveitingar A til félagsins Ú sem skráð sé á Bresku Jómfrúareyjum og um fjármagnsfærslur til félagsins U sem muni vera í eigu O. Jafnframt hafi FME vísað rannsókn málsins til embættisins.
Talið sé að hin meinta refsiverða háttsemi hafi verið framin í tengslum við lánveitingu A til Ú (hér eftir Ú) að fjárhæð 171.000.000 EUR til kaupa á skuldabréfum útgefnum af A en lánveitingin hafi farið fram með peningamarkaðsláni 6. október 2008 án þess að hún væri borin undir lánanefndir bankans. Skuldabréf útgefin af A hafi orðið nær verðlaus eftir yfirtöku FME á stjórn bankans 9. október 2008. Þar sem Ú hafi ekki átt aðrar eignir og engar ábyrgðir eða tryggingar verið veittar fyrir láninu sé tap A mikið.
Samkvæmt gögnum sem embætti sérstaks saksóknara hafi undir höndum hafi Ú keypt umrædd skuldabréf með framvirkum samningum af B en einnig af U og starfsmönnum B beint eða fyrir milligöngu B. Þá bendi fyrirliggjandi gögn til þess að skuldabréfin hafi verið keypt af Ú á mun hærra verði en markaðsverði á þeim tíma sem viðskiptin hafi farið fram. Athygli veki að viðskipti með skuldabréf í sama skuldabréfaflokki á sama degi fari fram á mjög mismunandi verðum.
Fyrirliggjandi gögn bendi sterklega til þess að skjöl vegna þessara viðskipta hafi verið útbúin og undirrituð í nóvember og desember 2008, eftir fall A og eftir að viðskiptin eigi að hafa átt sér stað samkvæmt dagsetningum skjalanna. Skjölin hafi verið undirrituð m.a. af þá fyrrverandi forstjóra bankans, Z, og starfsmönnum B. Þá virðist V, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs A og þá skilanefndarmaður A, hafa haft milligöngu um frágang skjalanna. Skjölin virðist vera fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar.
Fyrirliggjandi skjöl virðist t.d. ósamrýmanleg varðandi eignarhald á Ú en samkvæmt undirritaðri peningaþvættisathugun á kaupdegi skuldabréfanna, 6. október 2008, hafi félagið W, sem sé skráð á Bresku Jómfrúareyjum, verið eigandi Ú. Samkvæmt skjölum sem síðar hafi komið fram var A talinn eigandi Ú.
Þá rannsaki embætti sérstaks saksóknara fjölda ábyrgða sem A hafi veitt B á árinu 2008 vegna viðskipta ýmissa stórra viðskiptavina B, þar á meðal vegna skulda félagsins U. Jafnframt sé verið að rannsaka óvenjulega fjármagnsflutninga frá A inn á reikninga U hjá B 30. júní 2008 að fjárhæð um 3 milljarða kr. og 3. október 2008 að fjárhæð um 10 milljarða kr. og jafnframt ráðstöfun þess fjár. Þessir fjármagnsflutningar virðist hafa farið fram án þess að lánasamningar væru gerðir.
Rannsókn embættis sérstaks saksóknara hafi styrkt grun um aðild kærða að umboðssvikum eða eftir atvikum öðrum auðgunarbrotum samkvæmt XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo og skjalafalsi og öðrum skjalabrotum samkvæmt XVII. kafla laganna.
V. Kaup P á hlutabréfum í A.
Embætti sérstaks saksóknara hafi borist 13. mars 2008 erindi Fjármálaeftirlitsins (hér eftir FME), dagsett sama dag, þar sem vísað hafi verið til embættisins grun um refsiverða háttsemi stjórnenda A, í tengslum við kaup P á hlutabréfum í A.
Málsatvik séu þau að 22. september 2008 hafi A birt fréttatilkynningu á vef NASDAQ OMX Ísland (hér eftir kauphöllin) og vef sínum þess efnis að P, hefði keypt 5,01% hlut í bankanum, þ.e. 37,1 milljón hluta á genginu 690 eða samtals fyrir 25,7 milljarða kr. Einnig hafi viðskiptunum verið flaggað í kauphöllinni þar sem um hafi verið að ræða viðskipti bankans með eigin hluti yfir 5%. P (áður [...]) sé íslenskt félag í eigu P sem einnig sé íslenskt félag og í eigu Q (hér eftir Q).
Kaup P á hlutafénu hafi verið fjármögnuð að öllu leyti með tveimur lánum sem A hafi veitt 26. september 2008. Ekki hafi verið getið um þá fjármögnun bankans í áðurnefndum fréttatilkynningum bankans um viðskiptin.
Lánafyrirgreiðslur A hafi í fyrsta lagi verið peningamarkaðslán til Æ. (hér eftir Æ), félags í eigu Q að fjárhæð 12.863.497.675 kr. (jafngildi um 89 milljónum EUR á þáverandi gengi) en lánið hafi verið tryggt með sjálfskuldarábyrgð hans. Lánafyrirgreiðsla til félagsins hafi verið samþykkt 24. september 2008. Æ sé félag skráð á Tortola og upphaflega verið í eigu B.
Í öðru lagi hafi A lánað Y (Y), félagi í eigu Ó, sömu fjárhæð með peningamarkaðsláni til skamms tíma án nokkurra trygginga eða sjálfsskuldarábyrgðar. Lánið sem veitt hafi verið til Y virðist ekki hafa verið borið undir lánanefnd bankans til samþykktar eða fengið aðra samþykktarafgreiðslu í bankanum. Megi geta þess að á þessum tíma sé Ó stærsti eigandi Ö sem sé eigandi Á en það félag sé eigandi hollenska félagsins É, sem sé eigandi EF, annars hollensks félags sem hafi verið eigandi 9.88% hlutafjár í A.
Lánsfjárhæðirnar, samtals 25,7 milljarðar kr., hafi verið greiddar með millifærslum inn á bankareikninga umræddra félaga hjá A þann 29. september 2008 samkvæmt millifærslubeiðnum dags. 26. september 2008. Hinn 29. september 2008 hafi sömu fjárhæðir verið millifærðar af bankareikningum Æ og Y í A inn á reikning GH., félags skráðs á Kýpur í eigu Æ (42,85%), Y (42,85%) og IJ. (14,3%), en það félag sé skráð á Bresku Jómfrúareyjum og í eigu Q. Sömu fjárhæðir hafi síðan verið millifærðar sama dag inn á bankareikning í eigu P hjá A og þær loks notaðar til að greiða fyrir kaupin á fyrrnefndum 5,01% eignarhlut í bankanum.
Áður en þessi viðskipti hafi átt sér stað hafi A lánað R, félagi skráðu á Tortola í eigu KL, félags í eigu Q, einnig skráð á Tortola. Lánsfjárhæðin hafi verið 50.000.000 USD í formi peningamarkaðsláns með gjalddaga 30. september 2008. Ekki verði séð að gengið hafi verið frá láninu með undirrituðum lánssamningi af hálfu lántaka. Í óundirrituðu skjali um sjálfa lánveitinguna komi ekki fram neinar upplýsingar um tryggingar. Láninu hafi verið framlengt tvisvar, fyrst til 14. október 2008 og síðan til 18. nóvember 2008. Lánið hafi eftir síðastgreindan gjalddaga verið í vanskilum og ekkert verið greitt inn á það. B hafi borgað lánsfjárhæðina til R. Engin greiðsla hafi borist frá A til R við útborgun lánsins en á móti verið myndað peningamarkaðslán (án inngreiðslu peninga) hjá A frá B 19. september 2008 með gjalddaga 29. september 2008. Innlánið hafi verið greitt af A til B á gjalddaganum 29. september 2009 og jafngilti greiðslan þá 4.554.485.000 kr. Aldrei hafi þó komið greiðsla frá R til A vegna lánsins.
Lánveiting til R sem svari þessari fjárhæð hafi verið samþykkt eftir myndun peningamarkaðslánsins á fundi lánanefndar stjórnar A 24. september 2008 og verið ætlað til að fjárfesta í „Credit Linked Note“ (CLN sem sé afleiðutegund) útgefinni af K (hér eftir K). Lánanefndin hafi einnig samþykkt viðbótarlán til R að fjárhæð 130 milljónir EUR, tryggt með handveði í hlutafé KL og hlutafé KL í R.
Fyrrgreint lán til Æ hafi verið greitt upp í tvennu lagi fyrir gjalddaga þess. Annars vegar með innborgun 8. október 2008 að fjárhæð 12.520.750.000 kr. frá B sem sögð var vera frá fyrrnefnda félaginu R. Greiðslan hafi farið út af bankareikningi 0301-27-032342 í eigu B á grundvelli millifærslubeiðni. Upplýsingar liggi fyrir um að fyrrgreint 50.000.000 USD lán frá A til R hafi verið notað til þess að greiða upp lán A til Æ og hafi innistæðu R verið skipt fyrir íslenskar krónur á háu gengi í kringum 250 kr. fyrir hvern USD. Með skiptum á 50.000.000 USD á svo háu gengi hafi lánið að stærstum hluta greiðst upp en eftirstöðvar Æ lánsins síðan verið greiddar af Ó þann 9. október 2008 með 401.885.137 kr. millifærslu af bankareikningi hans hjá A. Af hálfu A hafi verið staðfest að lánið væri greitt að fullu með 12.920.097.064,77 kr.
Samkvæmt framansögðu hafi A veitt tveimur félögum skráðum á Tortola (á Bresku Jómfrúareyjum) háar lánafyrirgreiðslur án nokkurra trygginga, annars vegar til félagsins Y, í eigu Ó, að fjárhæð 12.863.497.675 kr. og hins vegar R í eigu Q, að fjárhæð 50.000.000 USD. Þessi lán séu í vanskilum og ekki líkur á að kröfurnar innheimtist þar sem þessi félög séu eignalaus eftir því sem best sé vitað. Verulegar líkur standi til þess að bankinn hafi orðið fyrir umfangsmiklu tjóni í formi tapaðra útlána. Lán til félags Q sem tryggt hafi verið með sjálfskuldarábyrgð hans hafi hins vegar verið gert upp með umbreytingu á dollaraláni R yfir í íslenskar krónur á yfirgengi.
Sérstakur saksóknari hafi rökstuddan grun um að kærði, sem stjórnarformaður, A hafi átt þátt í framangreindri háttsemi og að með athöfnum sínum hafi hann brotið gegn ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fangelsisrefsing liggi við brotum þessum.
Sérstakur saksóknari telji jafnframt liggja fyrir rökstuddan grun um að tilgangurinn með framangreindum viðskiptum og tilkynningu um þau hafi verið sá að hafa með ólögmætum hætti áhrif á verðmyndun hlutabréfa í A á skipulegum verðbréfamarkaði. Slík háttsemi gæti talist markaðsmisnotkun sem sé refsiverð skv. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.
VI. Samantekt
Meint brot varði öll verulega fjárhagslega hagsmuni og verulega hagsmuni fjölda manna sem hafi átt í hvers konar fjármálaviðskiptum við A á umræddum tíma hvort sem um hafi verið að ræða hlutahafa, kröfuhafa eða viðskiptavini. Af því megi draga þá ályktun að um verulega einka- og almannahagsmuni sé að ræða sem telja verði meiri háttar í skilningi 2. mgr. 148. gr. laga nr. 108/2007. Eins og áður sagði hafi stjórn Fjármálaeftirlitsins ákveðið að kæra meinta markaðsmisnotkun til lögreglu.
Kærði hafi verið stjórnarformaður A. Grunur leiki á að hann hafi átt hlut að ákvörðunum um meinta refsiverða háttsemi í öllum framangreindum málum.
Samkvæmt framansögðu liggi fyrir grunur um skjalafals sem geti varðað allt að átta ára fangelsisvist. Að auki liggi fyrir grunur um mjög alvarleg auðgunarbrot sem hafi valdið A gríðarlegu tjóni. Þá liggi fyrir grunur um stórfellda markaðsmisnotkun en þau brot, ásamt innherjasvikum, séu talin ein alvarlegustu brot gegn verðbréfaviðskiptalöggjöfinni.
Meint markaðsmisnotkun sem hér sé til rannsóknar sé að mati sérstaks saksóknara mjög umfangsmikil, kerfisbundin og skipulögð. Mál af þessari stærðargráðu eigi sér ekki hliðstæðu í rannsóknum sakamála hér á landi og þótt víðar væri leitað, hvað hagsmuni varði. A hafi verið stærsta fjármálafyrirtæki hér á landi og kunnara en frá þurfi að segja hversu mikið tjón hluthafar, kröfuhafar bankans, ríkissjóður og samfélagið í heild hafi orðið fyrir vegna falls bankans en ætla verði að það tjón hafi orðið mun meira en ella vegna hinna meintu brota.
Verulegir hagsmunir standi til þess að umrædd brot verði rannsökuð og upplýst vegna afdrifaríkra afleiðinga af háttseminni. Tveir aðilar hafi þegar verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í þágu rannsóknar áðurgreindra mála, sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. 198 og 200/2010, sem kveðnir hafi verið upp 7. maí 2010.
Talið sé að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem sætt geti ákæru og að handtaka sé nauðsynleg til að tryggja návist hans og til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum í framangreindum málum. Kærði hafi ekki sinnt kvaðningu sérstaks saksóknara til að gefa skýrslu hjá embættinu í framangreindum málum. Kærði sé skráður til heimilis á [...] og því nauðsyn á að fá útgefna handtökuskipun frá dómara, svo unnt sé að handtaka hann þar sem til hans næst.
Þess sé krafist að krafan verði tekin fyrir á dómþingi án þess að sá sem hún beinist gegn verði kvaddur á dómþingið, með vísan til 1. mgr. 103. gr., sbr. 1. mgr. 104. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Til rannsóknar séu ætluð brot gegn auðgunarbrotakafla (XXVI. kafla), einkum 247., 248., 249. og 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ásamt síðari breytingum, ætluð skjalabrot, einkum 155. og 158. sömu laga, 117., sbr. 1. mgr. 146. gr., laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 og ákvæði laga um hlutafélög nr. 2/1995 ásamt síðari breytingum
Vísað sé til framangreinds, framlagðra gagna og 1. mgr. og b lið 3. mgr. 90. gr., sbr. 92. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 2. gr. og 6. gr. laga um embætti sérstaks saksóknara nr. 135/2008.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærði lýst því yfir að hann sé tilbúinn að koma til skýrslugjafar að uppfylltum þeim skilyrðum að hann verði hvorki handtekinn né gæsluvarðhald krafist yfir honum. Slík skilyrði telur sérstakur saksóknari sig ekki geta fullnægt og telja verður að með því að setja slík skilyrði fyrir því að koma til skýrslugjafar hafi kærði neitað að gefa skýrslu hjá lögreglu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið og fyrirliggjandi gagna telur dómurinn að skilyrði 1. mgr. og b liðs 3. mgr. 90. gr., sbr. 92. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt til þess að handtaka megi kærða X. Ber því að verða við kröfu sérstaks saksóknara eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Handtaka ber X, kt. [...], búsettan í [...].