Mál nr. 561/2017
- Kærumál
- Nálgunarbann
Staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að X skyldi sæta nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2017, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 1. september 2017 um að varnaraðili skuli sæta nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann þóknunar til handa skipuðum verjanda sínum.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. september 2017.
Með beiðni, dagsettri 1. september 2017, sem barst dóminum sama dag, hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjóra þess efnis að varnaraðila, X, verði gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B að [...] í [...] og skóla B, [...] að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis báðar byggingar, mælt frá miðju. Jafnframt að lagt sé bann við því að X veiti þeim eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að hinn 25. ágúst sl. hafi barnavernd [...] ítrekað beiðni sína til lögreglu fyrir hönd A og B um að varnaraðila, X, yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart þeim þannig að honum yrði bannað að koma í nálægð við heimili þeirra að [...] í [...] og skóla B, veita þeim eftirför eða setja sig í samband við þau með öðrum hætti. Áður hafi sams konar beiðni barnaverndaryfirvalda borist lögreglu 10. ágúst sl.
Ástæða þess að ekki hafi verið brugðist við fyrri beiðni barnaverndar frá 10. ágúst sl. sé sú að í millitíðinni hafi brotaþolinn A tjáð lögreglu að hún vildi ekki halda beiðninni til streitu gagnvart varnaraðila þar sem hann hefði ekki ónáðað hana um nokkurn tíma. Hafi hún þess í stað óskað eftir neyðarhnappi til að verjast mögulegri ógn af hans hendi. Sé það mat lögreglu að afstaða hennar hafi stjórnast af ótta við varnaraðila. Í málinu meti lögregla því hvort skilyrði séu fyrir hendi að taka ákvörðun um nálgunarbann til verndar brotaþola á grundvelli 3. mgr. 3. gr., en 2. mgr. sömu greinar að því er varði B.
Byggist beiðnin m.a. á því að varnaraðili hafi í febrúar og ágúst á þessu ári sent brotaþola A hótanir í gegnum sms-skilaboð, sem hún hafi í kjölfarið kært til lögreglu. Ætlaðar hótanir felist í eftirfarandi skilaboðum:
„Styttist í að ég losna við gipsið og þá verður það bara ofbeldi gegn ofbeldi“ (sent 23. febrúar).
„Laungu komin tími á að þú upplifir að tapa barninu þínu!!!!!“ (sent 8. ágúst).
“..þú hefur ennþá 2 daga til að leyfa mér að hitta [...] annars áttu eftir að grenja eins og stúngin grís í marga mánuði og ár“ (sent 9. ágúst).
Þá megi lesa út úr skilaboðunum að varnaraðili fylgist grannt með lífi brotaþola, sem og foreldra hennar. Felist í þessu áreiti af hendi varnaraðila í garð brotaþola.
Í greinargerð barnaverndarnefndar er upphaf málsins rakið allt til ársins 2014 er varnaraðili hafi sótt B á leikskóla í leyfisleysi, ekið með hann út fyrir höfuðborgarsvæðið og – samkvæmt nafnlausri tilkynningu til yfirvalda – hótað að svipta sig og barnið lífi. Varnaraðili hafi síðan ítrekað sótt B í leyfisleysi á leikskólann þar sem hann hafi haft uppi ógnandi hegðun og gróft málfar í garð starfsmanna. Þá hafi skólayfirvöld í [...] sett sér viðbragsáætlun komi til þess að varnaraðili reyni að sækja drenginn. Brotaþola hafi einnig verið útvegaður neyðarhnappur. Sé það mat barnaverndar, eftir að hafa unnið að málinu um langt skeið, að brotaþola og B stafi raunveruleg hætta af kærða og að hann muni halda áfram ofsóknum sínum í þeirra garð.
Framangreindu til viðbótar nefnir lögreglustjóri í greinargerð sinni að kærði sæti nú nálgunarbanni gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni, C, vegna hótana og ofbeldis og að tvær ákærur hafi verið gefnar út á hendur honum vegna ofbeldisbrota í hennar garð. Sé sú háttsemi kærða talin gefa vísbendingu um þá hættu sem nú steðji að brotaþola og B, sbr. b-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2011.
Með vísan til þessa og gagna málsins að öðru leyti telji lögreglustjóri því skilyrði 4. gr. laganna vera uppfyllt, enda sé rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi framið refsivert brot, en jafnframt sé talin veruleg hætta á að kærði muni halda áfram að brjóta af sér eða ónáða og raska friði brotaþola. Þá sé ekki talið að friðhelgi brotaþola og B verði vernduð með öðrum og vægari hætti.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins þykir fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með áðurgreindum hótunum í garð brotaþola gerst sekur um brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og á annan hátt raskað friði brotaþola.
Með hliðsjón af því sem fram kemur í gögnum málsins um fyrri afskipti lögreglu af varnaraðila, útgáfu tveggja ákæra á hendur honum vegna ofbeldisbrota og ógnandi hegðun og ögrun í samskiptum hans við brotaþola, sem og starfsmenn leikskóla og barnaverndaryfirvalda, þykir hætta á að varnaraðili brjóti á ný gegn brotaþola eða raski á annan hátt friði þeirra. Ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni. Þykja því vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt a- og b-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 til að beita nálgunarbanni eins og kveðið er á um í ákvörðun lögreglunnar frá 1. september sl. og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms Vilhjálmssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 186.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Berglindar Svavarsdóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 124.000 krónur, hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 1. september sl. þess efnis að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni í sex mánuði, þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og B að [...] í [...] og skóla B, [...] að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 m radíus umhverfis báðar byggingar, mælt frá miðju. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti þeim eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 186.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Berglindar Svavarsdóttur hrl., 124.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.