- Kærumál
- Frestur
- Gagnaöflun
|
Fimmtudaginn 8. desember 2005. |
Nr. 512/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn X (Brynjólfur Eyvindsson hdl.) |
Kærumál. Frestur. Gagnaöflun.
Í opinberu máli á hendur X var þess krafist af hálfu ákæruvaldsins, eftir að aðalmeðferð var hafin, að heimilað yrði að aflað væri frekari upplýsinga frá tilgreindri rannsóknarstofu, sem framkvæmt hafði rannsókn á tilteknum sönnunargögnum í þágu málsins og varð dómarinn við þeirri ósk. Talið var að þrátt fyrir orðalag í úrskurðarorði héraðsdóms fæli úrskurðurinn í sér að aðalmeðferð skyldi fresta meðan umræddra gagna væri aflað og væri kæruheimild því fyrir hendi samkvæmt a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Vísað var til þess að dómari hefði heimild til að beina því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði máls eftir því sem honum þyki nauðsyn vera til skýringar á máli, sbr. 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991. Taldist dómari samkvæmt því hafa heimild til að verða við kröfu ákæruvaldsins um frestun málsins, enda teldi hann þörf þeirra upplýsinga sem um ræddi. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. desember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2005, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að honum verði heimilað að afla nánar tilgreindra gagna. Um kæruheimild er vísað til a. liðar 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að lagt verði fyrir héraðsdómara að ákveða framhald aðalmeðferðar málsins.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Kröfu sína um frávísun byggir sóknaraðili á ekki sé fyrir að fara kæruheimild í a. lið 2. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 hvað þetta mál varðar. Þrátt fyrir að orðalag í úrskurðarorði héraðsdóms sé með þeim hætti að kveðið sé á um heimild til að afla tiltekinna gagna verður niðurstaða hans ekki skilin á annan veg en að hún feli í sér að aðalmeðferð, sem þegar var hafin, verði frestað þar til umrædd gögn liggi fyrir. Að þessu gættu verður talið að fullnægjandi kæruheimild felst í nefndri lagagrein og eru því ekki efni til að verða við kröfu sóknaraðila um frávísun málsins frá Hæstarétti.
Fyrir liggur að aðalmeðferð í máli þessu hófst 16. nóvember 2005 en lauk ekki þann dag og skyldi henni fram haldið 30. sama mánaðar. Var þá tekin til úrskurðar krafa sóknaraðila um að framhaldi aðalmeðferðar yrði frestað meðan aflað yrði nánari gagna um lífsýni frá tilgreindri erlendri rannsóknarstofu, sem hún hafði haft til rannsóknar í þágu málsins. Með hinum kærða úrskurði var fallist á framangreinda kröfu.
Samkvæmt 3. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 getur dómari beint því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði máls eftir því sem honum þykir nauðsyn vera til skýringar á máli. Hefur dómari samkvæmt því heimild til að verða við kröfu sóknaraðila um frestun málsins, enda telji hann þörf þeirra upplýsinga sem um ræðir. Ekki verður séð að frestun málsins af þessum sökum valdi slíkum drætti á málsmeðferð að í bága fari við fyrirmæli 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann veg sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðalmeðferð máls þessa er frestað meðan sækjandi leitar eftir frekari gögnum hjá Rettsmedisinsk Institutt í Oslo, um hvort unnt sé, með hliðsjón af magni þekjufruma sem greindust í sýni af ytra byrði verju, sem merkt er C-1 í rannsóknargögnum málsins, að segja til um líkur á því hvort ætlaður brotaþoli hafi tekið verjuna upp með fingrum og þá jafnframt hvort unnt sé að leiða líkur að því hvaðan úr líkama ætlaðs brotaþola þekjufrumurnar geti verið.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2005.
Mál þetta höfðaði Ríkissaksóknari með ákæru dagsettri 18. mars 2005 á hendur X, [kt. og heimilisfang] ,,fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni A, [kt.], framin á árunum 1998 til sumars 2004 á heimili ákærða að B, en síðan að C, sem hér greinir:
1. Í nokkur skipti sýnt stúlkunni klámmyndir í tölvu þegar hún var 10-14 ára.
2. Í nokkur skipti farið höndum um brjóst, rass og kynfæri stúlkunnar innan klæða þegar hún var 8 til 9 ára.
3. Þegar stúlkan var á aldrinum 8 til 9 ára sleikt kynfæri hennar og sett getnaðarlim sinn inn í leggöng hennar, en síðan er hún var á aldrinum 10-14 ára í nokkur skipti látið hana fróa sér, tvívegis látið hana sjúga getnaðarlim sinn, sleikt kynfæri hennar og loks á sama árabili margsinnis haft samræði við stúlkuna.
Telst 1. liður varða við 209. gr., 2. liður við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr., en 3. liður við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 sbr. lög nr. 40, 1992, lög nr. 82, 1998, lög nr. 14, 2002 og lög 40, 2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu D f.h. A er krafist miskabóta að fjárhæð 3.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 16. júlí 2004 til 18. febrúar 2005, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga. “
Í þinghaldi 30. nóvember sl., sem háð var til framhalds á aðalmeðferð, kom fram krafa sækjanda þess efnis að ákæruvaldi yrði heimilað að leita eftir frekari gögnum hjá Rettsmedisinsk Institutt í Oslo, um það hvort hægt væri með hliðsjón af magni þekjufruma sem greindust í sýni af ytra byrði verju, sem merkt er C-1 í rannsóknargögnum málsins, að segja til um líkur á því að ætlaður brotaþoli hafi tekið verjuna upp með fingrum og þá jafnframt hvort hægt væri að leiða líkur að því hvaðan úr líkama ætlaðs brotaþola þekjufrumurnar gætu verið. Sækjandi kvaðst fara fram á að gagna þessara yrði aflað, vegna framburðar ákærða við aðalmeðferð málsins að meintur brotaþoli hefði snert verjuna með fingrum sínum.
Verjandi ákærða mótmælti því að gagna þessara yrði aflað og kvað rannsókn málsins og meðferð þess hafa nú þegar tekið of langan tíma.
Niðurstaða.
Í málinu hefur verið lagt fram álit og rannsóknarniðurstöður Rettsmedisinsk Institutt i Oslo, þar sem fram kemur að DNA snið þekjufruma er fundust á ytra byrði verju, er fannst á heimili ákærða, samrýmist DNA sniði ætlaðs brotaþola. Ákærði bar fyrir dómi að hann teldi skýringu þess vera þá að ætlaður brotaþoli hefði handfjatlað verjuna.
Þar sem skýringar ákærða á þekjufrumum ætlaðs brotaþola, á ytri byrði verjunnar komu fyrst fram við aðalmeðferð og sækjandi átti þess því ekki fyrr kost að rannsókn á ytri byrði verja þeirra er rannsakaðar voru, lyti einnig að ofangreindu, er fallist á framangreinda kröfu sækjanda, enda telur dómurinn nauðsynlegt að gagna þessara verði aflað til skýringar á málinu.
Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu sækjanda um að honum verði heimilað að leita eftir frekari gögnum hjá Rettsmedisinsk Institutt í Oslo, um það hvort hægt er með hliðsjón af magni þekjufruma sem greindust í sýni af ytra byrði verju, sem merkt er C-1 í rannsóknargögnum málsins, að segja til um líkur á því að ætlaður brotaþoli hafi tekið verjuna upp með fingrum og þá jafnframt hvort hægt er að leiða líkur að því hvaðan úr líkama stúlkunnar þekjufrumurnar geti verið.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fallist er á kröfu sækjanda um að honum verði heimilað að leita eftir frekari gögnum hjá Rettsmedisinsk Institutt í Oslo, um það hvort unnt er með hliðsjón af magni þekjufruma sem greindust í sýni af ytra byrði verju, sem merkt er C-1 í rannsóknargögnum málsins, að segja til um líkur á því að ætlaður brotaþoli hafi tekið verjuna upp með fingrum og þá jafnframt hvort unnt er að leiða líkur að því hvaðan úr líkama ætlaðs brotaþola þekjufrumurnar geti verið.