Print

Mál nr. 422/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Vitni

Miðvikudaginn 7. júlí 2010.

Nr. 422/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

X

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

Kærumál. Vitni.

Ákæruvaldið kærði úrskurð héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu X um að leiða tiltekið vitni í máli sem höfðað hafði verið gegn honum fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Með dómi Hæstaréttar var staðfest það mat héraðsdómara að 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 stæði því ekki í vegi að umbeðin skýrslutaka færi fram. Skýrslan kynni að hafa þýðingu til að upplýsa málið eða skýra það. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. júní 2010, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að A, skyldi bera vitni í málinu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var varnaraðila heimilað að leggja fram gögn úr síma A er sýna samskipti hennar við vitnið B. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um að A beri vitni við aðalmeðferð málsins verði hafnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði mun B hafa komið á vettvang skömmu eftir að hið ætlaða brot á að hafa átt sér stað. Hefur hann gefið skýrslu sem vitni við meðferð málsins. Af hálfu ákærða hefur verið lögð fram yfirlýsing A 22. júní 2010 um samband hennar við B og gögn um samskipti þeirra. Staðfest verður það mat héraðsdómara að 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 standi því ekki í vegi að umbeðin skýrslutaka A fari fram. Skýrsla hennar kann að hafa þýðingu til að upplýsa málið eða skýra það. Verður því fallist á að hún verði leidd sem vitni til að staðfesta yfirlýsinguna og svara spurningum um efni hennar og framangreindra gagna. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um það atriði sem til úrlausnar er fyrir Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að leiða megi A sem vitni í máli ákæruvaldsins gegn X.

Úr­skurður Héraðs­dóms Reykjaness þriðjudaginn 29. júní, 2010.

Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag um þá kröfu ákærða X, kt. [...], að leggja fram útprentun úr síma A, kt. [...] þar sem fram koma sms-samskipti vitnisins B, kt. [...] og A og að A beri vitni um þau samskipti.

Í máli þessu hefur ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur X þar sem hann er sakaður um kynferðisbrot gegn C með því að hafa haft við hana munmök og við það tækifæri notfært sér að C gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar, svefndrunga og veikinda. Mál þetta var þingfest þann 26. febrúar sl. og hófst aðalmeðferð þann 14. júní sl. Málinu var frestað til framhalds aðalmeðferðar til dagsins í dag.

Fyrir liggur í málinu að maki C, vitnið B, kom að henni á heimili ákærða þar sem hún er sögð hafa sofið ölvunarsvefni og hann hafi átt erfitt með að vekja hana. Hún hafi verið nakin að neðan og ákærði einnig nakinn þegar að var komið. Samkvæmt vitnisburði C man hún ekki eftir atvikinu og fyrsta sem hún kveðst muna er þegar að maður hennar, B reyndi að vekja hana. Er vitnið B eina vitnið, utan brotaþola, sem er til frásagnar um það sem fram fór á vettvangi eftir að vitnið kom þangað en ákærði hefur haldið því fram að samskipti hans við C hafi verið með hennar vilja. Vitnið B var spurður um það við skýrslutöku fyrir dóminum þann 14. júní sl., hvort hann hafi „haldið fram hjá konu sinni og hvort erfiðleikar væru í hjónabandi hans“ og neitaði hann því. Vill ákærði með framlagningu ofangreindra gagna sýna fram á trúverðugleika framburðar vitnisins B og kveður það skipta máli við sönnunarmat. Þá telur ákærði að A geti einnig upplýst um aðdraganda að málinu. Sækjandi í málinu hefur mótmælt framlagningu umræddra gagna þar sem hann telur að nefnd gögn varði ekki það sakarefni sem um er fjallað í máli þessu. Þá mótmælir sækjandi þeirri kröfu verjanda að A komi fyrir dóminn og gefi skýrslu sem vitni þar sem þau atvik sem henni er ætlað að bera um varði ekki sönnun á sakarefninu. Vísar sækjandi til 3. mgr. 110. gr. og 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008.

Forsendur.

Ofangreint mál er rekið samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 getur dómari meinaði aðila um sönnunarfærslu, telji hann bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna, skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Í 2. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 segir að ekki skipti máli hvenær yfirlýsingar, mótmæli og sönnunargögn koma fram undir rekstri máls. Í máli þessu vill ákærði leggja fram gögn og leiða vitni þeim til staðfestingar, sem sýna fram á trúverðugleika framburðar vitnisins B svo og til að upplýsa frekar um aðdraganda að málinu. Verður að telja umrædd gögn geti haft þýðingu um það sem ákærði vill sanna og því haft þýðingu við úrlausn máls þessa. Þá telur dómurinn að óhjákvæmilegt sé að A komi fyrir dóminn til að skýra nánar og eftir atvikum staðfesta þau gögn. Verður krafa ákærða um að leggja ofangreind gögn fram og leiða vitnið A því tekin til greina.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð.

                Krafa ákærða um að leggja fram gögn úr síma A er sýna sms-samskipti hennar við vitnið B, er tekin til greina.

Þá er einnig tekin til greina krafa ákærða að leiða A sem vitni í málinu S-144/2010.