- Vátryggingarsamningur
- Húftrygging
- Matsgerð
- Sératkvæði
Fimmtudaginn 27. janúar 2011. |
|
Nr. 349/2010. |
Sigurbjörn Þór Bjarnason (Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Valgeir Pálsson hrl.) |
Vátryggingarsamningur. Húftrygging. Matsgerð. Sératkvæði.
S krafði T um vátryggingabætur úr húftryggingu bifreiðar hans sem varð fyrir algeru tjóni. Ágreiningur aðila laut að vátryggingarverðmæti bifreiðarinnar. S lagði til grundvallar að hann ætti rétt á bótum sem svöruðu til enduröflunarverðs bifreiðarinnar en T taldi sig hafa greitt S fullar bætur samkvæmt vátryggingarsamningi með fjárhæð, sem svaraði til markaðsverðs bifreiðarinnar. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að í vátryggingarsamningi milli aðila hafi verið samið um hvernig bæta skyldi tjónið og að miða skyldi við markaðsverð bifreiðarinnar. Eins og atvikum málsins var háttað, en tjónsbifreiðin var ekki fáanlega á íslenskum markaði, yrði talið að með orðum skilmálanna væri átt við verð sambærilegs hlutar hér innanlands eftir að hans hefði verið aflað erlendis og hann fluttur til landsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2010. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.915.765 krónur með 4,5% ársvöxtum, frá 31. júlí 2006 til 12. september 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 20. september 2006 að fjárhæð 1.774.000 krónur og 10. nóvember 2009 að fjárhæð 27.570 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Í héraðsdómi er við það miðað að matsmaðurinn, Guðmundur Albertsson, hafi ekki boðað til matsfundar er hann vann að matsgerð sem hann lauk 1. nóvember 2009. Er það í samræmi við framburð matsmannsins í skýrslu hans fyrir dóminum við aðalmeðferð málsins.
Stefndi óskaði eftir því eftir uppsögu héraðsdóms að tekin yrði önnur skýrsla af matsmanninum, auk skýrslna af tveimur starfsmönnum sínum og fulltrúa lögmanns áfrýjanda. Skýrslur voru teknar 2. september 2010 og hefur stefndi lagt fram í Hæstarétti endurrit þeirra. Þar kemur fram að matsmaðurinn hafi boðað til matsfundar með tölvupósti og að fundurinn hafi verið haldinn á starfsstöð hans 19. maí 2009. Af hálfu áfrýjanda hefði fulltrúi lögmanns hans mætt og tveir fulltrúar stefnda. Samkvæmt þessu er í ljós leitt að sá annmarki er ekki á matsgerðinni að aðilar hafi ekki átt þess kost að koma að gögnum og sjónarmiðum sínum á matsfundi, sbr. 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
II
Í málinu deila aðilar um fjárhæð vátryggingarbóta til áfrýjanda úr húftryggingu (kaskótryggingu) bifreiðar hans af gerðinni Opel Omega B Caravan CD 3.2 V6 24, árgerð 2002, sem eyðilagðist í óhappi 27. júlí 2007. Stefndi, sem veitt hafði húftrygginguna, viðurkennir bótaskyldu sína á grundvelli vátryggingarsamningsins. Ágreiningur aðila snýst um fjárhæð vátryggingarbóta. Áfrýjandi leggur til grundvallar að eins og atvikum sé háttað eigi hann rétt á bótum, sem svari til enduröflunarverðs bifreiðarinnar, það er þess sem það myndi kosta hann að kaupa erlendis og flytja til landsins nákvæmlega sambærilega bifreið með sama búnaði, en þess telur hann kost. Reisir áfrýjandi kröfu sína á matsgerð Guðlaugs B. Ásgeirssonar löggilts bifreiðasala sem dómkvaddur var 29. febrúar 2008 og skilaði matsgerð 12. ágúst sama ár. Komst hann að þeirri niðurstöðu að „kostnaður matsbeiðanda að útvega sér samskonar bifreið ... þann 31. júlí 2006 væri kr. 2.915.765.“ Stefndi telur á hinn bóginn að hann hafi greitt áfrýjanda fullar bætur samkvæmt vátryggingarsamningi með fjárhæð, er svari til markaðsverðs bifreiðarinnar hér á landi, sem unnt sé að finna út eins og matsmaðurinn Guðmundur Albertsson hafi gert, þótt nákvæmlega eins bifreið sé ekki fáanleg hér. Var þessi matsmaður dómkvaddur að beiðni stefnda 13. febrúar 2009 til, eins og í matsgerðinni segir, „að framkvæma mat á bifreiðinni VY-111 sem er Opel Omega árgerð 2002“. Komst hann að þeirri niðurstöðu að verð á bifreið áfrýjanda miðað við staðgreiðslu á tjónsdegi 27. júlí 2006 hafi verið 1.870.000 krónur. Stefndi hefur greitt þessa fjárhæð og áfrýjandi tekið við henni með fyrirvara. Leggja verður til grundvallar að ekki sé tölulegur ágreiningur með aðilum heldur lúti ágreiningur þeirra sem fyrr segir að grundvelli útreiknings vátryggingarbótanna, það er vátryggingarverðmætis bifreiðarinnar.
III
Í 37. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem felld voru úr gildi 1. janúar 2006 við gildistöku laga nr. 30/2004 um sama efni, var að finna ákvæði um hvernig ákvarða skyldi verð vátryggðra hagsmuna. Samkvæmt því skyldi verð þeirra talið nema sömu upphæð og ,,þurft hefði til kaupa á hlut þeim, er fórst eða skemmdist, með því verðlagi, er síðast var á slíkum hlut áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun hans vegna aldurs, brúkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika.“ Regla, sambærileg þeirri sem er að finna í ákvæðinu um ákvörðun vátryggingarverðmætis, hefur almennt verið talin gilda í skaðabótarétti þegar fjárhæð skaðabóta vegna munatjóns er ákveðin. Í gildandi lögum um vátryggingarsamninga er ekki að finna sambærilegt ákvæði. Í 1. mgr. 35. gr. þeirra segir: ,,Sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt.“ Í skýringum með 35. gr. í athugasemdum frumvarps þess sem varð að lögum nr. 30/2004 kemur fram að í þeim tilvikum þegar ekki er samið um hvernig ákveða skuli vátryggingarbætur beri að greiða fullar bætur. Þær bætur yrðu ákvarðaðar á grundvelli enduröflunarverðs hinna vátryggðu hagsmuna.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var um það samið í vátryggingarsamningi aðila um bifreiðina hvernig bæta skyldi tjónið. Í grein 17 í vátryggingaskilmálunum er fjallað um bætur fyrir algert tjón. Þar segir í grein 17.1: ,,Verði algert tjón ber félaginu að greiða markaðsvirði ökutækisins (gegn staðgreiðslu) sbr. 15. gr.“ Í grein 15.1 segir meðal annars svo: ,,Vátryggingarverðmæti ökutækisins er ávallt markaðsvirði þess, en það er sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum kostaði á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu.“ Samkvæmt þessu hafa aðilar nýtt heimild 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 og samið um hvernig skuli ákveða vátryggingarverðmæti bifreiðar áfrýjanda, yrði hún fyrir tjóni. Niðurstaða málsins ræðst af því hvernig beri að skýra framangreint ákvæði vátryggingarskilmálanna í lögskiptum málsaðila.
Í greinargerð stefnda í héraði taldi hann að unnt væri „að meta markaðsvirði [hluta] þó svo að fáir eða engir sambærilegir hlutir séu til sölu á markaði á því tímamarki.“ Taldi hann engu skipta „þó svo að almennu listaverði sé ekki til að dreifa fyrir bifreiðar af gerðinni Opel Omega, þar sem sú bifreiðategund er ekki flutt inn af umboði Opel á Íslandi“, en áfrýjandi hafi sjálfur flutt inn bifreið sína frá Þýskalandi á árinu 2005. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar í málinu, að ekki hafi verið unnt að fá „sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum hér á landi“ og snúist ágreiningur málsaðila því um hvort allt að einu sé unnt að skýra skilmála vátryggingarinnar þannig að finna megi markaðsvirði hér á landi fyrir bifreið sambærilega bifreið áfrýjanda sem fyrir tjóninu varð.
IV
Svo sem fyrr var greint kveður 35. gr. laga nr. 30/2004 á um þá meginreglu að vátryggður skuli fá fullar bætur fyrir fjártjón sitt, sé ekki um annað samið. Hér er um að ræða staðlaða samningsskilmála sem stefndi notar í atvinnustarfsemi sinni. Þá liggur fyrir að áfrýjandi hefur, í lögskiptum sínum við stefnda, réttarstöðu neytanda samkvæmt 1. mgr. 36. gr. b. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, en samkvæmt ákvæðinu ber að túlka skriflegan samning neytanda í hag, komi upp vafi um merkingu hans. Við túlkun á orðunum „sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum kostaði á almennum markaði á tjónsdegi“ verður að hafa í huga að ekki er vísað til þess hvað unnt hefði verið að fá á markaði innanlands fyrir bifreiðina sjálfa, sem vátryggð var, óskemmda á tjónsdegi, heldur sambærilega bifreið. Var matið sem stefndi aflaði ónákvæmt að þessu leyti. Orðalag skilmálanna um sambærilega bifreið bendir til þess markmiðs með vátryggingunni að gera vátryggingartaka kleift að afla sé annarrar eins bifreiðar fyrir bæturnar sem hann fær fyrir þá vátryggðu sem skemmist, enda má telja að markmið neytanda sem kaupir sér húftryggingu fyrir bifreið sína sé einmitt að geta ráðstafað vátryggingabótunum á þennan hátt. Er vandséð að orðið markaðsverð geti almennt þýtt verð á markaði þar sem alls ekki er unnt að kaupa þann hlut sem um ræðir. Hafi stefndi viljað haga skilmálanum þannig að vátryggðir yrðu að sætta sig við metið markaðsverð á Íslandi í tilviki, þar sem engan sambærilegan hlut er að finna á markaði, og því alls ekki unnt að kaupa hann í stað þess sem fór forgörðum, bar honum að orða það skýrt í skilmálum sínum og kveða þá eftir atvikum á um aðferð við að finna slíkt verð. Með vísan til alls þessa verður talið að með orðum skilmálanna sé átt við verð sambærilegs hlutar hér innanlands eftir að hans hafði verið aflað erlendis og hann fluttur til landsins. Er ekki ágreiningur um að krafa áfrýjanda nemur þeirri fjárhæð. Verður hún því tekin til greina.
Stefndi hefur mótmælt kröfu áfrýjanda um 4,5% ársvexti tímabilið 31. júlí 2006 til 12. september 2008, þar sem krafan sé ekki í samræmi við 50. gr. laga nr. 30/2004. Talið verður að þessi mótmæli stefnda snúi annars vegar að upphafsdegi vaxtanna, sbr. 1. mgr. 50. gr. og hins vegar að hundraðshluta þeirra samkvæmt 6. mgr. sömu greinar. Verða þessi andmæli tekin til greina á þann hátt sem í dómsorði greinir. Þá mótmælir stefndi upphafsdegi dráttarvaxtakröfu áfrýjanda og telur að miða eigi hann við birtingu stefnu eða dómsuppsögudag. Áfrýjandi sendi stefnda matsgerðina sem hann byggir kröfu sína á og gerði kröfu á grundvelli hennar 12. ágúst 2008. Með vísan til 6. mgr. 50. gr. laga nr. 30/2004, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001, verður krafa áfrýjanda í þessu efni tekin til greina.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði áfrýjanda, Sigurbirni Þór Bjarnasyni, 2.915.765 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2006 til 12. september 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 20. september 2006 að fjárhæð 1.774.000 krónur og 10. nóvember 2009 að fjárhæð 27.570 krónur.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
Ég er sammála því sem fram kemur í köflum I og II í atkvæði annarra dómenda. Ég tel að framhaldið eigi að vera svohljóðandi:
Í 37. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga, sem felld voru úr gildi 1. janúar 2006 með gildistöku laga nr. 30/2004 um sama efni, var að finna ákvæði um hvernig ákvarða skyldi verð vátryggðra hagsmuna. Samkvæmt því skyldi verð þeirra talið nema sömu upphæð og ,,þurft hefði til kaupa á hlut þeim, er fórst eða skemmdist, með því verðlagi, er síðast var á slíkum hlut áður en vátryggingaratburðurinn gerðist, að frádreginni hæfilegri verðrýrnun hans vegna aldurs, brúkunar, minnkaðs notagildis og annarra atvika.“ Regla, sambærileg þeirri sem er að finna í ákvæðinu um ákvörðun vátryggingarverðmætis, hefur almennt verðið talin gilda í skaðabótarétti þegar fjárhæð skaðabóta vegna munatjóns er ákveðin. Í gildandi lögum um vátryggingarsamninga er ekki að finna sambærilegt ákvæði. Í 1. mgr. 35. gr. þeirra segir: ,,Sé ekki um annað samið í vátryggingarsamningi á vátryggður rétt á fullum bótum fyrir fjártjón sitt.“ Í skýringum með 35. gr. í athugasemdum frumvarps þess sem varð að lögum nr. 30/2004 kemur fram að í þeim tilvikum, þegar ekki er samið um hvernig ákveða skuli vátryggingarbætur, beri að greiða fullar bætur. Þær bætur yrðu ákvarðaðar á grundvelli enduröflunarverðs hinna vátryggðu hagsmuna.
Eins og fram kemur í héraðsdómi er um það samið í vátryggingarsamningi aðila um bifreiðina hvernig bæta skuli tjónið. Í grein 17 í vátryggingaskilmálunum er fjallað um bætur fyrir algert tjón. Þar segir í grein 17. 1: ,,Verði algert tjón ber félaginu að greiða markaðsvirði ökutækisins (gegn staðgreiðslu) sbr. 15. gr.“ Í þeirri grein sem fjallar um vátryggingarverðmæti segir meðal annars svo í gr. 15.1: ,,Vátryggingarverðmæti ökutækis er ávallt markaðsvirði þess, en það er sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum kostaði á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu.“
Samkvæmt þessu hafa aðilar nýtt heimild 1. mgr. 35. gr. laga nr. 30/2004 og samið um hvernig skuli ákveða vátryggingarverðmæti bifreiðar áfrýjanda, yrði hún fyrir tjóni. Í vátryggingarskilmálunum er skýrt kveðið á um að leggja beri til grundvallar markaðsverð bifreiðarinnar á tjónsdegi. Er því vafalaust að sú regla gildir ekki að bæta beri enduröflunarverð hennar.
Af gögnum málsins liggur ljóst fyrir að bifreið áfrýjanda var um margt sérstök, lítið ekin, með miklum aukabúnaði, auk þess sem hætt var að framleiða þessa tegund bifreiða, að sögn áfrýjanda, árið 2003. Engu að síður mátti finna markaðsverð hennar með sama hætti og annarra bifreiða. Gerði matsmaðurinn, Guðmundur Albertsson, löggiltur bifreiðasali, grein fyrir því í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi við aðalmeðferð málsins, að Bílgreinasambandið héldi tölvufærða viðmiðunarverðskrá yfir notaðar bifreiðar, sem hann kveðst hafa stuðst við. Verðskráin væri byggð á upplýsingum frá innflytjendum bifreiða um nývirði þeirra, en út frá því væri verð notaðra bifreiða reiknað. Hafi hann miðað við Opel Omega Elegance, sem væri dýrasta gerð þessara bifreiða. Áfrýjandi hefur upplýst í bréfi 20. ágúst 2007 að hann hafi aflað upplýsinga um að á þeim 17 árum sem Opel Omega bifreiðar voru framleiddar hafi um 80 slíkar verði fluttar inn til landsins. Matsmaðurinn mat markaðsverð bifreiðarinnar á grundvelli þessara upplýsinga, að viðbættri tilgreindri fjárhæð vegna aukabúnaðar, sem bifreið áfrýjanda hafði, og var niðurstaða hans sú, að markaðsverðið væri 1.870.000 krónur miðað við staðgreiðslu. Þá fjárhæð hefur stefndi innt af hendi og hefur áfrýjandi þar með fengið fullar bætur í skilningi vátryggingarsamnings þess, sem hann gerði við stefnda og reisir kröfur sínar á.
Samkvæmt framansögðu tel ég að staðfesta beri hinn áfrýjaða dóm og að dæma eigi áfrýjanda til þess að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. mars 2010.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 15. febrúar 2010, var höfðað 14. apríl 2009. Stefnandi er Sigurbjörn Þór Bjarnason, Álfheimum 11, Reykjavík, en stefndi er Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.915.765 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 31. júlí 2006 til 12. september 2008 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum greiðslum, annars vegar að fjárhæð 1.774.000 krónur, sem greiddust inn á kröfuna hinn 20. september 2006 og hins vegar að fjárhæð 27.570 krónur, sem greiddust inn á kröfuna hinn 10. nóvember 2009. Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað, þar með talinn kostnað af mati að fjárhæð 150.000 krónur.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað.
II
Málavextir eru þeir að hinn 27. júlí 2007 lenti stefnandi í umferðaróhappi á bifreið sinni, skráningarnúmer VY 111 af tegundinni Opel Omega Caravan, árgerð 2002, við heimili sitt í Álfheimum í Reykjavík. Voru tildrög óhappsins þau að stefnandi hugðist aka bifreiðinni afturábak inn í innkeyrsluna að Álfheimum 11, þar sem hann býr. Lenti hægra afturhorn bifreiðarinnar á lágum steyptum steinvegg norðan megin innkeyrslunnar. Setti stefnandi bifreiðina í áframgír og þegar hann ók áfram missti hann vald á bifreiðinni sem fór á miklum hraða til vesturs yfir Álfheima í hægri beygju og stöðvaðist á húsi nr. 24 við Álfheima.
Bifreiðin var á tjónsdegi tryggð kaskótryggingu hjá stefnda og er ágreiningslaust að tjónið er bótaskylt úr kaskótryggingunni og að bifreiðin hafi orðið fyrir algeru tjóni við umferðaróhappið.
Vegna uppgjörs úr kaskótryggingu ökutækisins leitaði stefndi álits á verðmæti bifreiðarinnar hjá sölustjóra Ingvars Helgasonar ehf. og söluráðgjafa notaðra bíla hjá sama fyrirtæki. Bar álitum þeirra ekki saman og var hærra matið á bilinu 1.800.000-1.900.000 krónur. Samkvæmt skaðabótakvittun og afsali 14. september 2006 greiddi stefndi stefnanda 1.774.000 krónur og stefnandi afsalaði bifreiðinni til stefnda. Fjárhæðin var þannig fundin út að kaupverðið var 1.850.000 krónur að frádreginni eigin áhættu að fjárhæð 76.000 krónur. Var greiðslan innt af hendi 20. september 2006 og tók stefnandi við greiðslunni með fyrirvara um tjónsfjárhæð.
Með matsbeiðni 5. febrúar 2008 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta verðmæti bifreiðarinnar og kemur fram í matsbeiðni að tilgangur matsbeiðni sé að fá mat á því hvað það hefði kostað stefnanda að útvega sér sams konar bifreið eða eins bifreið og hann missti í umferðaróhappinu þar sem um hafi verið að ræða bifreið sem ekki hafi verið til á markaði hér á landi og því hefði þurft að útvega bifreiðina frá útlöndum með tilheyrandi kostnaði. Var Guðlaugur B Ásgeirsson löggiltur bifreiðasali dómkvaddur til verksins hinn 29. febrúar 2008. Í niðurstöðu matsgerðar sem dagsett er 12. ágúst 2008 kemur fram að kostnaður við að útvega sams konar bifreið hinn 31. júlí 2006 væri 2.915.765 krónur.
Lögmaður stefnanda sendi lögmanni stefnda bréf 12. ágúst 2008 ásamt framangreindri matsgerð og krafði stefnda um greiðslu bóta í samræmi við niðurstöðu hennar. Með tölvupósti stefnda til lögmanns stefnanda var honum tilkynnt að stefndi ætlaði að fara fram á dómkvaðningu matsmanns, þar sem forsendur fyrirliggjandi matsgerðar byggi á enduröflunarsjónarmiðum en ekki markaðsverði. Með beiðni stefnda 27. nóvember 2008 var óskað dómkvaðningar matsmanns til að meta verðmæti bifreiðarinnar VY 111. Var Guðmundur Albertsson löggiltur bifreiðasali dómkvaddur til verksins 13. febrúar 2009. Matsgerð hans er dagsett 1. nóvember 2009 og er það niðurstaða hans að staðgreiðsluverð bifreiðarinnar sé 1.870.000 krónur. Ásett verð væri ca. 2.080.000 krónur og hafi eðlilegur staðgreiðsluafsláttur á sínum tíma verið ca. 10%.
Með tölvupósti til lögmanns stefnanda tilkynnti lögmaður stefnda um niðurstöðu matsgerðar Guðmundar og með vísan til þess væru stefnanda greiddar þær 20.000 krónur sem væri mismunur á niðurstöðu matsgerðarinnar og áður greiddri fjárhæð og greiddi stefndi hinn 10. nóvember 2009 þá fjárhæð ásamt vöxtum eða samtals 27.570 krónur.
Stefndi telur sig með framangreindum greiðslum hafa gert upp tjón stefnanda að fullu en stefnandi telur að tjón hans skuli reikna á grundvelli matsgerðar Guðlaugs B. Ásgeirssonar um hvað það hefði kostað stefnanda að útvega sér sams konar bifreið eða eins bifreið frá útlöndum þar sem slík bifreið hafi ekki verið til á Íslandi.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann eigi rétt á því að fá verðmæti bifreiðarinnar greitt miðað við tjónsdag. Markaðsvirði bifreiðarinnar hljóti að vera háð þeim aðstæðum sem séu í þessu máli, en hér á landi hafi ekki verið til sambærilegar bifreiðar og því hafi orðið að panta eins bifreið frá framleiðslulandi bifreiðarinnar, Þýskalandi.
Byggir stefnandi á því að orðin „sambærileg bifreið“ í tryggingaskilmálum eigi við bifreið af sömu tegund, aldri og gerð og sú bifreið hafi verið sem krafist sé bóta fyrir eða hafi eyðilagst. Ekki sé tækt að miða við sambærilegar bifreiðir að einhverju öðru leyti, þ.e. svipaðar, en ekki af sömu gerð þó tegundin geti verið sú sama.
Stefnandi byggir einnig á að hann eigi rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu en raunvirði bifreiðarinnar sé eins og kveðið sé á um í mati matsmannsins Guðlaugs Ásgeirssonar en það sama eigi við um endurkaupsverð bifreiðarinnar. Um sé að ræða vátryggingarverðmæti bifreiðarinnar.
Þá kveðst stefnandi einnig byggja kröfur sínar á samningum um evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, eftir því sem við geti átt. Þá byggi hann á því að stefnda hafi borið að kanna markaðsvirði bifreiðarinnar í Þýskalandi og Evrópu varðandi boð hans um bætur til stefnanda.
Stefnufjárhæð sé byggð á mati Guðlaugs Ásgeirssonar, þ.e. endurkaupsverð að fjárhæð 2.915.765 krónur að frádregnum innborgunum samtals að fjárhæð.að fjárhæð 1.801.570 krónur.
Um lagarök vísar stefnandi til 35. gr. laga nr. 30/2004 í heild sinni, sbr. 3. gr. þeirra laga. Þá vísar hann til 39. gr. laganna.
IV
Stefndi kveðst ekki geta fallist á það að meta eigi tjón stefnanda miðað við kostnað við enduröflun sams konar bifreiðar frá Þýskalandi. Samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 sé það samningsatriði milli vátryggingarfélags og vátryggingartaka hver vátryggingarfjárhæðin sé og hvernig vátryggingarverðmætið skuli ákveðið, sbr. 1. mgr. 35. gr. laganna. Það geti verið gert með ýmsu móti, til dæmis að miðað skuli við nývirði vátryggðs munar, notagildi hans, markaðsvirði, enduröflunarkostnaðar o.s.frv.
Um kaskótryggingu ökutækja, sem tryggð séu slíkri tryggingu hjá stefnda, gildi vátryggingarskilmálar nr. 230. Í þeim sé kveðið á um alla þætti er máli skipti í tengslum við trygginguna, meðal annars um vátryggingarverðmæti, tjónsuppgjör og bótaákvörðun.
Í grein 17.1 í skilmálum kaskótryggingar segi að verði algert tjón beri félaginu að greiða markaðsvirði ökutækisins (gegn staðgreiðslu) sbr. 15. gr. Í 15. gr. segi meðal annars að vátryggingarverðmæti ökutækis sé ávallt markaðsvirði þess, en það sé sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum hafi kostað á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu. Ljóst sé að miða eigi við forsendur vátryggingarskilmála þegar verðmæti bifreiðar sé metið. Kveði þeir á um markaðsvirði, þ.e. hvað sambærilegt ökutæki hefði kostað á almennum markaði á tjónsdegi. Vátryggingartaki geti ekki valið annan mælikvarða en um hafi verið samið í vátryggingarsamningi eftir því hvað henti hverju sinni. Augljóst sé að verðmæti bifreiðar á grundvelli enduröflunarsjónarmiða geti verið annað en verðmæti á grundvelli markaðsvirðis/söluverðmætis sem kaskóskilmálar byggi á.
Stefndi telji þá röksemd stefnanda ekki ganga upp að þar sem sambærileg bifreið og hans hafi ekki verið til á Íslandi á tjónsdegi verði að miða við kostnað við að fá slíka bifreið til landsins frá Þýskalandi. Stefndi telji augljóst að hlutir hafi markaðsverð eða að unnt sé að meta markaðsvirði þeirra, þó svo að fáir eða engir sambærilegir hlutir séu til sölu á markaði á því tímamarki. Viðkomandi hlutir séu þá metnir til markaðsverðs og eftir þeim sjónarmiðum sem tíðkist á markaði. Telji stefndi það því engu skipta þó svo að almennu listaverði sé ekki til að dreifa fyrir bifreiðar af gerðinni Opel Omega, þar sem sú bifreiðategund sé ekki flutt inn af umboði Opel á Íslandi, en stefnandi hafi sjálfur flutt inn bifreið sína frá Þýskalandi á árinu 2005. Samkvæmt vátryggingarskilmálum eigi einfaldlega að miða við hvert hefði verið söluverð bifreiðarinnar VY 111 hefði hún gengið kaupum og sölum á almennum markaði hér á landi á tjónsdegi hinn 27. júlí 2006.
Á fyrri stigum málsins hafi stefndi leitað til tveggja reyndra aðila hjá Ingvari Helgasyni ehf., sem hafi umboð fyrir Opel bifreiðar hér á landi. Hafi annar þeirra verið söluráðgjafi notaðra bíla hjá fyrirtækinu. Á grundvelli hæsta mats þessara aðila hafi stefndi byggt tilboð sitt að uppgjöri. Þegar svo matsgerð hafi legið fyrir frá Guðmundi Albertssyni hafi stefndi greitt stefnanda mismun á markaðsvirði samkvæmt matsgerðinni og áður greiddra bóta. Telji stefndi sig því hafa gert upp bætur fyrir algert tjón á ökutækinu miðað við markaðsvirði þess á tjónsdegi og breyti mat það, sem stefnandi byggi á, engu um þá niðurstöðu enda byggi það á enduröflunarvirði en ekki markaðsvirði á almennum markaði eins og 15. gr. kaskóskilmála áskilji.
Stefndi mótmælir því að honum hafi borið að kanna markaðsvirði bifreiðarinnar í Þýskalandi og Evrópu og kveðst ekki sjá á hverju sú skylda byggi. Liggi fyrir að unnt hafi verið að finna markaðsvirði bifreiðarinnar hér á landi eins og gert hafi verið með öflun álita frá umboði Opel hér á landi og matsgerð Guðmundar Albertssonar. Sé og ljóst að bifreiðar kunni að hafa mismunandi markaðsvirði eftir mismunandi mörkuðum og því sé ekki unnt að leggja markaðsvirði á einum markaði til grundvallar öðrum fyrirvaralaust.
Stefndi mótmælir kröfu um 4,5 % ársvexti frá 31. júlí 2006 til 12. september 2008 þar sem hún samrýmist ekki ákvæðum vátryggingasamningsalaga um vexti af vátryggingarbótum, sbr. 50. gr. laganna. Þá telur stefndi að miða beri dráttarvexti við birtingu stefnu eða dómsuppsögudag.
Stefndi vísar til vátryggingarsamnings aðila nr. 230 og laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, einkum 35. og 50. gr. þeirra laga. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Milli aðila var gerður vátryggingarsamningur og er ekki ágreiningur um tjón stefnanda gildi vátryggingarskilmálar nr. 230 um kaskótryggingu ökutækja. Í 15. gr. þeirra segir að vátryggingarverðmæti sé ávallt markaðsvirði þess, en það sé sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum kostaði á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu. Þá segir í 17. gr. skilmálanna að verði algert tjón beri félaginu að greiða markaðsvirði ökutækisins (gegn staðgreiðslu), sbr. 15. gr.
Greinir aðila á um hvert hafi verið markaðsvirði umræddrar bifreiðar. Telur stefnandi að orðin: „sambærileg bifreið“ í skilmálunum eigi við að viðmiðunin þurfi að vera við bifreið af sömu tegund, aldri og gerð. Sé ekki tækt að miða við svipaðar bifreiðar en ekki sömu gerðar þó tegundin geti verið sú sama.
Í matsgerð Guðlaugs B. Ásgeirssonar sem stefnandi byggir kröfur sínar á eru forsendur mats þær að spurning til matsmanns laut að því hvað það hefði kostað stefnanda að útvega sér sams konar bifreið frá útlöndum. Útreikningur matsmannsins miðast við að affallareikna upphaflegt kaupverð bifreiðarinnar þegar stefnandi keypti hana frá Þýskalandi á 19.900 evrur um 1,5% á mánuði frá 23. maí 2005 til 31. júlí 2006. Kemst matsmaðurinn að því að samkvæmt þessum útreikningum hefði kaupverð bifreiðarinnar 31. júlí 2006 verið 15.721 evra eða 1.464.882 krónur miðað við almennt gengi Glitnis 31. júlí 2006. Þá gefur matsmaður sér að stefnandi hefði notað sömu aðferð við að koma bifreiðinni til Íslands og áður og með greiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 1.216.948 krónur, flutningskostnaðar að fjárhæð 233.935 krónur og skráningargjalda ofl. að fjárhæð 18.498 krónur væri svar við spurningu matsbeiðanda 2.915.865 krónur.
Í tilvitnuðum ákvæðum vátryggingarskilmálanna er talað um að markaðsvirði bifreiðar sé sú fjárhæð sem sambærilegt ökutæki að tegund, aldri eða gæðum kosti á almennum markaði á tjónsdegi miðað við staðgreiðslu. Samkvæmt orðanna hljóðan ákvæðisins þarf umrætt ökutæki ekki að vera nákvæmlega eins heldur aðeins sambærilegt að tegund, aldri eða gæðum.
Samkvæmt matsgerð Guðmundar Albertssonar, sem stefndi byggir kröfur sínar á, leggur hann mat á verðmæti bifreiðarinnar VY 111 og kemur þar fram að verðmatið sé byggt á viðmiðunarverðskrá bílgreinasambandsins þar sem sambærilegir bílar hafi verið fluttir inn af umboðsaðila Opel á Íslandi, Ingvari Helgasyni ehf. Samkvæmt viðmiðunarverðskrá þessari frá 27. júlí 2006 hafi viðmiðunarverð á sambærilegri bifreið og stefnanda verið um 1.880.000 krónur. Bifreið stefnanda hafi verið með ýmsan aukaútbúnað eins og GPS leiðsögutæki, 17“ álfelgur, Webasto miðstöð ásamt fleiru og mat matsmaður að hæfilegt verðmæti þessa aukaútbúnaðar væri um 200.000 krónur. Er það þvi niðurstaða matsmannsins að verðmæti bifreiðarinnar hafi verið um 2.080.000 krónur og hafi eðlilegur staðgreiðsluafsláttur verið 10%. Þannig sé staðgreiðsluverðmæti bifreiðarinnar á tjónsdegi 1.870.000 krónur.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið liggja frammi tvær matsgerðir sem byggja á ólíkum forsendum. Verður af tilgreindum ákvæðum vátryggingaskilmálanna ekki séð að við mat á markaðsvirði bifreiðarinnar geti stefnandi lagt saman uppreiknað kaupverð bifreiðar í Þýskalandi og kostnað sem hlýst af því að flytja hana til Íslands. Hlýtur við mat á markaðsvirði bifreiða hér á landi að þurfa að líta til þess hvað sambærilegt ökutæki kostar á almennum markaði hér á landi á hverjum tíma enda er það í samræmi við vátryggingarskilmála þá sem við eiga í máli þessu.
Enda þótt ekki hafi verið á þessum tíma til hér á landi nákvæmlega eins bifreiðar og stefnandi átti verður af fyrirliggjandi gögnum ráðið að unnt hafi verið að meta markaðsvirði hennar með því að bera hana saman við sambærilegar bifreiðar sömu tegundar eins og matsmaðurinn Guðmundur Albertsson gerði í matsgerð sinni. Við skýrslutöku af matsmanni fyrir dómi kom fram að hann á að baki yfir 20 ára reynslu sem bifreiðasali. Enda þótt matsmaður hafi ekki haldið matsfund svo sem honum bar verður í ljósi þess hvers eðlis matið var ekki séð að það hafi hamlað stefnanda að bregðast við því enda ber matið með sér að matsmaður studdist við viðmiðunarverðskrá bílgreinasambandsins sem hann kvað vera aðgengilega á netinu og hefði stefnanda átt að vera í lófa lagið að afla þessara gagna ef hann taldi þörf á því. Þá er til þess að líta að markaðsvirði bifreiðarinnar samkvæmt matsgerð þessari er hærra en þau verð sem stefndi hafði á sínum tíma aflað frá sölustjóra og söluráðgjafa notaðra bifreiða hjá umboði því sem flytur inn bifreiðar af tegundinni Opel. Samkvæmt þessu hefur matsgerðinni ekki verið hnekkt og þykja ekki þeir gallar á henni að ekki verði á henni byggt í málinu.
Fullyrðing stefnanda um að stefnda hafi við mat á tjóni stefnanda borið að kanna verðmæti sams konar bifreiða í Þýskalandi og Evrópu er engum gögnum studd og því haldlaus. Ekki verður af málatilbúnaði stefnanda ráðið hvernig ákvæði 3. og 39. gr. laga um vátryggingarsamninga eða lög nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið varða kröfur hans.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum að fjárhæð sú sem stefndi hefur þegar greitt honum vegna tjónsins á bifreiðinni VY 111 hafi verið of lág og hefur hann því fengið tjón sitt bætt að fullu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt eftir atvikum að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Gestur Óskar Magnússon hdl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Sigurbjörns Þórs Bjarnasonar.
Málskostnaður fellur niður.